16.11.2011 | 16:19
Spádómurinn um Hönnu Birnu
Stuðningur æskufólks við Hönnu Birnu kemur ekki á óvart. Unga fólkið er framtíðin og það sér Hönnu Birnu sem fulltrúa hennar en Bjarna Ben sem fulltrúa fortíðarinnar. Æskan þarf heldur ekki að standa reiknisskil á verkum fortíðarinnar, reyna að hylja þau eða endursegja með "réttum áherslum". þetta sjá einnig klókir spunameistarar flokksins og þess vegna er fylgi Hönnu Birnu 61.4% meðal flokksmanna almennt. Bjarni getur ekki unnið kosningar segja þeir, vegna fortíðar sinnar.
Ef dagar Bjarna Ben sem formanns eru taldir mun draga til tíðinda innan flokksins. Vetur hinna löngu hnífa í Sjálfstæðisflokknum er framundan. Hanna Birna mun nýta sér loforðin sem gefin voru eftir hrunið og segjast vera hrinda í framkvæmt þeim umbótum í flokknum sem þá var lofað.
Þeir þingmenn sem lýst hafa stuðningi við Barna og standa við hann, munu ekki fá fylgi í prófkjörum og flestir hverfa af þingi í næstu kosningum. Hanna Birna kemur hvort eð er ekki til með að kæra sig um þá nærri sér, plottandi út og suður. - Aðeins þannig getur flokkurinn og hún unnið alþingiskosningar og um það og ekkert annað fjallar þetta formannskjör að hennar mati.
Haldi hinsvegar Bjarni formannssætinu, verður áfram vinstri stjórn á Íslandi.
Svo mælti Nosturdaman, hin mikla völva og sjáandi.
Dregur saman með frambjóðendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.11.2011 | 13:07
Kúkur og krít upp við alþingishúsið
Mótmælendur sem búa í tjöldum á Austurvelli þurfa ekki að haf mikið fyrir því að komast á forsíður fjölmiðla. Krítarmoli og smá krot sem auðvelt er að þvo burtu nægir til að Skrifstofustjóri Alþingis nái ekki upp í nefið á sér af bræði og beiti hvæsandi þingvörðum á krakkana og krotið - og kalli til ljósmyndara.
Eða er það ekki krítin sem er mest að bugga hann? -
Hann heldur því nefnilega líka fram að mótmælendur gangi örna sinna upp við þinghúsið. Það er öllu alvarlegra mál. Eitt er að kríta á stéttina við Alþingishúsið og annað að kúka á hana. -
Hann bendir á að Það vanti sárlega hreinlætisaðstöðu á Austurvöll og Forsætisnefnd Alþingis er búin að klaga það fyrir borgarstjóra. -
Nú væri snaggaralegt hjá Jóni Gnarr sem stendur óbeint fyrir þessari togstreitu við Alþingi og hefur gaman að, að senda nokkra kamra niður á Austurvöll. Það mundi leysa málin snyrtilega. - Krítina má auðveldlega má í burtu, ólíkt afleiðingum þess sem verið er að mótmæla. -
Krotað á veggi þinghússins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2011 | 03:02
Ekki þeir skörpustu í skúffunni
Bandarískir stjórnmálamenn hafa orð á sér fyrir að vera ekki að setja efnislegu smáatriðin fyrir sig. Það gerir almenningur hvort eð er ekki heldur. Þar skiptir ímyndin öllu máli og fólki þarf verulega að verða á í messunni til að eitthvað mál verði úr. Fákunnátta og ranghermi loðir meira við republikana en demókrata. Frægastur klaufanna úr þeim röðum er líklega Bush forseti sem misminnti og mismælti sig við ólíklegustu tækifæri. Þá þótti Sarah Palin varaforsetaframnjóðandi með eindæmum seinheppin í ummælum sínum, svo ekki sé meira sagt.
Hér koma klippur með þeim Rick Perry og Herman Cain reyna báðir að ná kjöri sem forsetaefni repúblikana í næstu forsetakosningum. Ef annar hvor þeirra nær kjöri sem forseti möguleiki á að Bush fái harða samkeppni sem fremsti bullukollurinn sem setið hefur i því embætti. Herman er að tala um stefnu Obama í Líbíu og Rick að telja upp þær ríkisstofnanir sem hann vill skera niður.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 03:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2011 | 12:55
Að "punga" unga drengi
Að pynda 13 ára dreng í 10 daga og hljóta fyrir það nokkra daga skilorðsbundinn dóm, hlýtur að teljast létt sloppið. Þetta virðist vera orðið að reglu á Íslandi að eftir því sem brot þín eru alvarlegri, eru dómarnir vægari.
Lýsingarnar á pyndingunum sem drengurinn þurfti að þola í sjóferðinni sem hann fór í með föður sínum eru eins og úr handriti að svæsinni hryllingsmynd; Sjóferð til helvítis. - Faðir stendur aðgerðarlaus og hræddur hjá á meðan níðingar pynda ungan son hans, bæði andlega og líkamlega í umhverfi sem þeir geta ekki flúið. -
Þá eru viðhorf níðinganna til glæpsins með eindæmum, en þeir telja að þetta hafi allt verið græskulaust gaman. - Hvernig mundu þeir þá haga sér gagnvart einhverjum sem þeim væri virkilega í nöp við? - Og hvað segja þessir fræknu sjómenn við konur sínar og börn?
Þetta mál veitir okkur einnig smá innsýn inn í heim barnaníðinga og því sérstaka málfari sem þeir hafa komið sér upp til að lýsa verknuðum sínum, sín á milli. Að "punga" unga drengi er þaðan komið. Það eru aðeins sjúkir karlpungar sem það gera.- Já, en "stemmningin var góð" og dómarnir eftir því.
Níddust á 13 ára dreng í veiðiferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2011 | 01:43
Friður sé með yður Brad Pitt
Brad Pitt er enn vaxandi leikari, kominn fast að fimmtugu, og þótt hann hafi í seinni tíð tekið nokkur hlutverk sem lítið gerðu til að auka hróður hans. Kvikmyndaleikur getur verið mikil list og miklir listamenn geta haldið áfram að vaxa í list sinni allt fram á dauðadægrið.
Þess vegna er maður dálítið undandi á að heyra einn vinsælasta karlleikara allra tíma lýsa því yfir að hann vilji hætta að leika og taka upp leikstjórn.
Nokkrir góðir leikarar hafa í ellinni tekið upp leikstjórn og farnast vel en þeir hafa aldrei flogið hærra í því listformi en þeir gerðu sem leikarar. - Brad Pitt á ekki að hætta leika um fimmtugt.
Hann á að halda áfram og taka við Sean Connery sem flottasti gamlinginn á hvíta tjaldinu. Hann þarf ekki endilega að leika einhverja hálfteiknaðar ofurhetjur, heldur takast á við dramatísk hlutverk, tja.. eins og Connery hefur gert.
Hvað þessa töffaralegu lífsspeki að hamingjan sé ofmetin og að það eina sem hann sækist eftir sé friður, veit Pitt örugglega að engin finnur frið sem ekki hefur frið innra með sér. Og sá sem hefur frið innra með sér er líka hamingjusamur.
Nei, Pitt talar þarna eins og maður sem er orðinn dauðþreyttur og vill hvíta sig um stund, fjarri barnaskaranum og gagginu í sætustu og frekustu konu í heimi.
Brad Pitt yfirgefur hvíta tjaldið eftir þrjú ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2011 | 15:21
Hermaðurinn Breivik
Hvað á að gera við menn eins Breivik? Gerir einhver heilbrigður maður svona lagað? Helst væri best að afgreiða hann og alla aðra sem gera eitthvað álíka sem kolbrjálaða morðingja.
En um leið og við gerum það eru þeir ekki sakhæfir. Er hægt áfella fólk fyrir að vera sjúkt? Enda komust yfirvöld í Noregi að því að maðurinn er ekki sjúkur á geði og því sakhæfur.
Það þarf sem sagt ekki endilega að vera sjúkur til að fremja ódæði á borð við það sem Breivik framdi.
Fyrir því má færa margvísleg rök og taka óteljandi dæmi. T.d. horfir heimurinn daglega upp á skiplögð fjöldamorð á saklausum borgurum víða um heiminn, án þess að nokkuð sé fundið athugavert við þau, hvað þá eitthvað aðhafst til að stöðva þau. - Ef að Breivik væri fundinn geðveikur á grundvelli verka sinna, væri óhætt að yfirfæra það á stóran hluta ráðamanna heimsins sem ekki hika við að láta drepa saklaust fólk í leit sinni að betri heimi.
Tvískinnungurinn sem viðgengst í heiminum gagnvart því hvað eru lögleg morð á saklausum borgurum og hvað ekki, er augljós. - Hermenn mega drepa, ekki aðrir. En hverjir eru hermenn og hverjir ekki.
Hluti af hátterni Breivik í réttinum skýrist af hversu gegnsýrður hann er að þessum tvískinnungi. "Ég er riddari og yfirmaður í hinni norsku andspyrnuhreyfingu" segir hann og reynir um leið að varpa yfir sig og gjörðir sínar skikkju lögmætis, þ.e. sömu skikkju og liðsmenn svo kallaðra "frelsishreyfinga" brúka til að réttlæta voðaverk sín.
Miðað við hversu ógeðfeld þessi rök eru ná þau alveg tilætluðum árangri. Þegar nánar er athugað er skikkja þessi ofin úr sama þræði og öll önnur rök fyrir hernaði og mandrápum. - Það verður að drepa fólk til að fleira fólk verði ekki drepið eða hneppt í ánauð og við það að drepa annað fólk deyja einhverjir saklausir.
Breivik brosti í réttarsalnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2011 | 17:15
Óttast mest að verða leiddur fyrir rétt
Hvað knýr Silvio Berlusconi til að þrjóskast eins lengi og auðið var við að segja af sér og boða svo endurkomu sína strax daginn eftir. Fólk getur verið sammála um að þessi umdeildi pólitíkus og athafnamaður, hljóti að vera afar stoltur maður fyrst hann lét sig ekki fyrr en tveir af helstu ráðamönnum Evrópu loks hlutuðust til um afsögn hans. Honum lætur illa að láta í minni pokann svo mikið er víst.
En það er annað sem hlýtur að halda þessum unglega 75 ára gamla ref gangandi og ákveðin í að komast aftur til valda og það er óttinn við að verða leiddur fyrir dómstóla og hljóta dóm fyrir þau afbrot sem hann er ásakaður um að hafa framið.
Sem forætisráðherra tókst honum að þagga niður í öllum sem vildu draga hann fyrir dómstóla og til þess beitti hann m.a. þeim ráðum að breyta lögum landsins svo friðhelgi hans í embætti yrði algjör. - Því fyrr sem Berlusconi fær aftur umboð kjósenda til að leiða ítölsku þjóðina, sem er greinilega ætlun hans, því fyrr kemst hann aftur í örugga höfn. -
Og nú sveija sumir og halda að hann hafi engan sjens eftir allt það sem á undan er gengið. - Kann að vera. Vonandi eru ítalskir kjósendur ekki eins og við hér á Íslandi.
Berlusconi boðar endurkomu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2011 | 04:07
Almenningur í gíslingu vissra fyrirtækja
Það eru mjög góðar fréttir að Landsbankanum gangi svona vel að þeir geti, ef þeir vildu, greitt ríkinu (okkur sem eiga stærsta hluta hans) 50 milljarða arð. Vonandi er þessi góða afkoma ekki byggð á blóðpeningum úr vasa fjölskyldanna hverra hag átti að standa vörð um, fyrir síðustu kosningar, en fórst síðan fyrir í öllum látunum við að afskrifa skuldir auðmanna.
Þessi góða afkoma var tilefni fyrir Vilhjálms Egilsson að leggja til að bankinn yrði einkavæddur sem fyrst, enda ómögulegt að einhverjir sem eiga svo mikla peninga að þeir geta keypt sér banka, fái ekki tækifæri til að auka auð sinn enn frekar.
Um hríð hafa Íslendingar upp til hópa þurft að kyngja óbragðinu sem upp í þá kemur í hvert sinn sem þeir neyðast til að versla við fyrirtæki sem eru í eigu bankaræningjanna og braskaranna sem annað hvort voru forsprakkar í útrásarflaninu eða græddu ótæpilega á að vera í slagtogi með þeim.
þannig er um alla bankana nema Landsbankann, Bónus og Iceland Express svo dæmi séu nefnd. Fólk skiptir enn við þessi fyrirtæki vegna þess að það neyðist til þess. Á vissan hátt er almenningi þannig haldið í gíslingu af þessum fyrirtækjum.
Landsbankinn gæti greitt ríkinu 50 milljarða króna arð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.11.2011 | 20:28
Grímsstaðamálið orðið hápólitískt
Ögmundur veit hvernig vindurinn blæs og tekur mið af því. Áfram halda bloggarar að froðufella yfir áformum Huang Nubo um að kaupa Grímsstaði og eru viðbrögðin mikið til öll á sömu bókina lærð. -
Ögmundur spyr réttilega hvernig Huang geti sagt að 80% líkur séu á að hann fái leyfi þegar Ömmi sjálfur er 80% á móti. -
En Huang á volduga vini. Ekki bara í Kína heldur líka á Íslandi. Forsetinn er þegar búinn að segja að hann sé hlynntur kaupunum og þá er Dorrit það líka.
Margir í Samfylkingu eru einnig fylgjandi málinu og Samfó hefur hingað til ekki haft mikið fyrir því að beygja VG þegar mikið liggur við.
Andstaðan við áform Huangs er mikil meðal áhangenda Sjálfstæðisflokksins og það kemur dálítið á óvart því sá flokkur er vanur að gapa við öllu sem einhver peningalykt er af. - Nú bera þeir við lögum og reglum og vara við að við förum okkur ekki að voða eins við gerðum þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd. Þeirra söngur hljómar því soldið hjárænulega.
En þeir sjá í þessu máli tækifæri til að koma höggi á Samfó og kynda jafnframt undir ósamkomulagi milli Samfó og VG. -
Það er sem sagt komin heilmikil flokka-pólitísk fýla af þessu máli. -
Málefnalegu rökin með eða á móti eru fljót að drukkna í skothríðinni frá skotgröfunum eftir að fólk hefur á annað borð skriðið ofan í þær. -
Fyrir mína parta eru það fyrst og fremst tengsl Herra Huangs við voldugustu áróðursvél heimsins, sem er í beinum tengslum við kínverska kommúnistaflokkinn, sem gerir hann að slæmum kandídat til fjárfestinga á Íslandi.
Um það hef ég fjallað m.a. í þessari grein.
Olnbogar sig ekki áfram á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.11.2011 | 12:58
Í skugga forvera sinna
Karl Sigurbjörnsson lætur nú undan miklum þrýstingi sem hann hefur orðið fyrir í tengslum við mál Ólafs Skúlasonar og ætlar að segja af sér næsta sumar. Karli er ekki lengur vært í embætti vegna aðkomu hans að því máli og þeirri gagnrýni sem hann hefur sætt fyrir hana, hvort sem hún getur talist réttmæt eða ekki.
Karl hefur ætíð staðið í skugga annarra samtíma biskupa og svo verður eflaust áfram í kirkjusögu landsins. Faðir hans er og verður ætíð talinn meiri andlegur leiðtogi en Karl nokkru sinni er og Ólafur er miklu nafntogaðri, þótt ekki sé fyrir góðan orðstír.
Það liggur í loftinu og á milli línanna í ræðu Karls að honum finnist ómaklega að sér vegið og að hann hafi ekki notið sannmælis í embætti sínu sem æðsti maður þjóðkirkjunnar. Saga hans öll er einhvern veginn endurómur að sögunni þegar hann varð prestur í Vestmanaeyjum í upphafi ferils síns.
Samkvæmt gamalli þjóðtrú í Eyjum áttu Tyrkir að ræna þar á ný ef þrír atburðir gerðust samtímis. Þessir atburðir voru:
- 1) Að byggð færi vestur fyrir Hástein.
- 2) Að vatnsbólið í Vilpu legðist af.
- 3) Að biskupssonur vígðist til prests í Vestmannaeyjum.
Árið 1973 hafði tvennt af þessu gerst, byggðin var komin vestur fyrir Hástein og fyllt hafði verið upp í Vilpu. Og stutt var í þriðja atburðinn, þar sem séra Karl Sigurbjörnsson, biskupssonur, hafði sótt um prestsembætti í Eyjum. Raunar rændu Tyrkir ekki en annar atburður átti sér stað, eldgosið í Heimaey, og vildu einhverjir tengja það við þjóðtrúna gömlu. Í raun stenst það ekki þar sem séra Karl hafði ekki vígst hingað þegar gosið hófst. Til marks um það hve slíkar spár áttu enn hljómgrunn meðal fólks, gerðist það að einhverjir vildu fara þess á leit við séra Karl að hann hætti við að taka brauðið í Eyjum. Af því varð þó ekki og stundaði séra Karl sitt starf með miklum sóma á þessum erfiðu tímum.
Karl lætur af embætti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.11.2011 | 02:53
Ljóð handa ljóðelskum Huang Nubo ala google þýðing
Huang Nubo, þú ert svo stupo
að Þú ekki skilja, að við ekki vilja
selja vort ástkæra frón
þó þú vera ríkur, og engum líkur
vinsæll í Kína, með vinina fína
við ekki vera flón.
Við vel fatta, að þú kannt að tjatta
og skálda so mikið, that we dont like blikið
og er þá mikið sagt!
Þú Grímsstaði kaupa, í Kína svo raupa
segja þá sæta, og okkur ágæta
is far to much í lagt
Því allir vita, sem á jörðinni strita
að nothing is easy, en ekkert smáhýsi
þú ætlar að byggja eitt
Þú ekki sjálfur, vera sá bjálfur
að vinna í frosti, og algeru losti
og græða ekki neitt
Við allir halda, að þú þúsundfalda
byggja og byggja, svakastór bryggja
sem nær alla leið út í sjó
Svo þú þora, byrja að bora
og þótt við skæla, þú bara dæla
vatnið til Kína must flow
Huang Nubo kveðst bjartsýnn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.11.2011 | 22:47
10 ára móðir
10 ára stúlka frá borginni Buebla í Mexíkó hefur eignaðist barn eftir 31 vikna meðgöngu.
Ljóst var að lífi litlu stúlkunnar var ógnað og því var drengbarnið tekið með keisaraskurði á kvennasjúkrahúsi í Buebla, tæpa 100 km. frá Mexíkóborg,
þar hefur stúlkan verið undir eftirliti frá því 20. október. -
Ófullburða barnið er í gjörgæslu eftir að hafa fengið snert af lungnabólgu en læknar segja að móðurinn hafi það á brjósti og það sé við góða heilsu að öðru leiti.
Yfirvöld rannsaka nú hvort stúlkunni hafi verið nauðgað en lög í Mexíkó banna fóstureyðingar nema hægt sé að sanna að þungunin sé af völdum nauðgunar.
Löglegur aldur til samræðis í Mexíkó er 12 ár en stúlkur sem fá fóstureyðingu standa andspænis sektum eða fangelsisdómi sannist ekki að um nauðgun hafi verið að ræða.
Hvað varðar barnungar mæður í Mexíkó er þetta ekki fyrsta tilfellið. Í ágúst mánuði 2010 eignaðist 11 ára stúlka sem aðeins er þekkt undir nafninu Amelía, barn sem kom undir þegar hún var aðeins 10 ára. Henni hafði verið nauðgað.
Heilbrigðismál | Breytt 12.11.2011 kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.11.2011 | 19:31
Hvað gerist þá 12.12.12.
Víða að úr heiminum berast fregnir af uppákomum í tengslum við daginn, 11.11.11. - 11 pör voru gefin saman í Ráðhúsinu og píramídum var lokað fyrir almenning í Egyptalandi af ótta við einhverjar dulrænar athafnir. Talna og stjörnufræðingar sjá þó ekkert merkilegt við talnaröðina.
Ætla má samt að þegar síðasta tækifæri til að láta allar tölur dags, mánuðar og árs vera þær sömu á þessari öld, þ.e. að rúmu ári, þegar að 12.12.12. rennur upp, verði enn meira um óvenjulegar athafnir og uppákomur. Þeir sem misstu af því að gifta sig í dag, geta t.d. undirbúið sig vel því þeir hafa til þess 13 mánuði. - Reyndar eru þeir til sem eru sannfærðir um að þann dag verði heimsendir og ef það stenst, verður trúlega lítið úr öllum ráðahögunum. -
11.11.11 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2011 | 14:29
Hvað heitir okurlánarinn?
Ef þú leggur saman allt það sem allar þjóðir heimsins skulda, kemur í ljós að það er sem nemur 95% af vergri þjóðarframleiðslu allra landa heimsins samanlagt. Og hverjum skulda þjóðirnar svona mikla peninga.
Ekki hafa jarðarbúar slegið lán af annarri plánetu, eða hvað? -
Hver er sá sem heldur um skuldaviðurkenningar þjóða heimsins og getur með því að þrýsta á greiðslur komið þjóðum eins og Grikklandi og Ítalíu á svo kaldan klaka að það frýs meira að segja undir sjálfum Berlusconi?
Hvað heitir þessi okurlánari sem innheimtir svo háa vexti af skuldunautum sínum, sem lagðir eru síðan við verðbólginn höfuðstólinn, að greiðslufall, og í kjölfarið heimskreppa, virðist ætíð vera handan við hornið?
Hver kann svörin við þessari spurningu?
Getum komist út úr kreppu á þremur árum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.11.2011 | 02:21
Soðið og steikt kynlíf
Í eina tíð þótti það mikill leyndardómur, aðeins finnanlegur í gömlum og oftast forboðnum skræðum, hvaða eðalfæða og sjaldgæf efni, höfðu þá náttúru að geta bætt og kætt kynlíf fólks. Nú á tímum eru þær fáar vörutegundirnar sem ekki eru sagðar koma þar við sögu.
Á snöggri gandreið um netið getur þú fundið næringarfræðinga, kynfræðinga og auðvitað matvælafræðinga sem mæla með fjölda tegunda af matvöru sem eiga að örva og bæta kynlífið og flestar eru líklega til í eldhússkápnum þínum. Hér er sýnishorn;
Lakkrís, hvítlaukur, tómatar (soðnir) , ostrur, Chili pipar, bananar, gulrætur, rækja, súkkulaði, engifer, ólífur, tómatar, epli, aspas, ostar, mjólk, rjómaís, hnetur (ristaðar), hvalkjöt, snákakjöt, avakadó, bláber, jarðarber, poppkorn og söl.
E.t.v. er auðveldara að telja upp þær tegundir fæðu sem vitað er að virka ekki við fyrrnefnda iðju.
Þetta eru matvælin sem bæta kynlífið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 02:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.11.2011 | 21:04
Draumsóleyjarnar og enska landsliðið
Bretar gera mikið þessa dagana úr minningardeginum um fallna hermenn sem haldin er 11. nóvember hvert ár. Sagan segir að "á elleftu stundu, ellefta dags, ellefta mánaðar, ársins 1918", hafi verið samið um vopnahlé milli stríðandi fylkinga í heimsstyrjöldinni fyrri.
Dagurinn sjálfur er haldinn hátíðlegur með öllu því brölti sem herveldi á borð við Breta getur boðið upp á en mest ber á hinum eldrauðu pappírs-draumsóleyjum sem allir bera í barminum. Ekki sést kjaftur í sjónvarpinu vikur fyrir og vikum eftir daginn, sem þorir að láta sjá sig án þessa barmmerkis sem selt er af uppgjafa hermönnum landsins á hverju götuhorni.
Á laugardaginn leikur enska landsliðið í knattspyrnu gegn Spánverjum. Þeir fóru fram á við FIFA að fá að leika með draumsóleyjar bróderaðar á brjóst búninga sinna. FIFA neitaði og bar fyrir sig að slíkt væri ekki gott fordæmi og tefldi óhlutdrægni keppninnar í hættu. Englendingar gáfu sig ekki og báðu enn um undanþágu. FIFA neitaði aftur á sömu forsendum. -
Þess ber einnig að gæta að enskir landsleikir hafa oft áður verið leiknir beggja megin við minningardaginn en aldrei áður hefur verið gerð krafa um að leikmenn beri draumsóleyna á búningi sínum.
Þá var kominn tími fyrir England að draga fram stóru kanónurnar. Forsætisráðherrann froðufeldi af vanþóknun í þinginu og ritaði Sepp Blatter forseta FIFA harðort bréf og krafðist þess að liðið fengi að bera blómið sem hluta af búningi sínum. - William prins sem er heiðursforseti enska knattspyrnusambandsins lagðist líka á árina og ritaði Blatter einnig bréf sama efnis. -
Þessi pressa hafði áhrif og enska landsliðinu var leyft að bera draumsóleyjar bróderaðar á svart sorgarband sem þeir hugðust einnig bera á upphandlegg. - Þetta á einnig við um lið þeirra undir 21.árs, sem keppir við lið Íslands í kvöld.
Heimsstyrjöldin síðari átti að vera "stríðið sem endaði öll stríð". Þrátt fyrir vopnahléið sem Bretar og samveldisþjóðir þeirra halda hátíðlegt, hélt stríðið áfram og leiddi síðan af sér enn fleiri stríð í Evrópu. Þegar stríðinu lauk, voru gerðir við Þjóðverja miklir nauðungarsamningar sem fólu í sér eftirgjöf á stórum landsvæðum, þrátt fyrir að þeir höfðu ekki tapað feti af eigin landi í sjálfu stríðinu. - Uppgjöfin og hinir svo kallaðir Versalasamningar sem fylgdu í kjölfarið voru af mörgum Þjóðverjum álitnir mikil svik við þýsku þjóðina. Þeirra á meðal var tví-heiðraður sendiboði fyrir fótgönguliðið, sem þá lá á sjúkrahúsi með tímabundna blindu þegar samningarnir voru gerðir og hét Adolf Hitler.
Pappa-draumeyjasólirnar sem styrinn stóð um og tengsl þeirra við minningardaginn, má rekja til ljóðsins"In Flanders Fields" eftir kanadíska herlækninn John McCrae sem samdi það árið 1915.
Um þessar mundir eru Bretar flæktir í afar óvinsælar og umdeildar hernaðaraðgerðir. Hermenn þeirra koma vikulega heim í líkpokum og stöðugt er haldið að almenningi í gegnum fjölmiðla að þeir hafi dáið fyrir frelsi og öryggi breskra þegna. Að sama skapi og óvinsældir stríðsbröltsins aukast, hafa stjórnvöld lagt áherslu á að almenningur sýni stuðning við hermennina sem berjast í stríðunum, jafnvel þótt hann styðji ekki stefnu stjórnvalda. Þannig eru forsendur kröfu þeirra ensku ljósar.
Þótt FIFA hafi gefið eftir að þessu sinni standast rök þeirra að fullu fyrir að hafna slíkum merkingarhlöðnum og pólitískum táknum á búninga í landskeppnum. Fordæmið er hættulegt en vonandi dregur það ekki dilk á eftir sér.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2011 | 00:58
Sætasti strákurinn í flokknum
Það er sætt af Mörtu smörtu að reyna að hressa dálítið upp á ímynd Bjarna Ben. Ekki veitir af. Sætasta stelpan í flokknum ógnar nú sætasta stráknum. Spurningarnar í þessu smáviðtali eru síður en svo nærgöngular en veita okkur samt innsýn inn í persónu hans. Flestir vita að persónulegir brestir verða ekki viðskila við fólk þegar það tekur við opinberum stöðum, heldur eru jafn virkir í starfi þeirra og góðu kostirnir sem það hefur til að bera.
Þeir sem hafa haldið því fram að drengurinn Bjarni Ben sé dálítill vingull fá þarna óræka staðfestingu á því. Líkamsrækt er dálítið eins og pólitíkin, hún þarfnast staðfestu og úthalds. Bjarni segir um ræktina:
Ég hef prófað ýmislegt í þeim efnum undanfarin ár og finnst allt í lagi að breyta reglulega til. Ég hef lyft lóðum, æft með einkaþjálfara, stundað útihlaup, farið í rope-yoga og á sumrin reyni að komast sem oftast í golf.
Spurður um fegrunaraðgerðir sem eru honum greinilega á móti skapi, svarar hann dálítið eins og þegar verið var að spyrja hann um afstöðu hans til EB, þ.e. reynir að vera diplómat, slá úr og í, svo úr verður tóm markleysa;
"Mér finnst svona almennt að fólk verði að fá að lifa lífinu eins og það vill. Út frá því sjónarhorni finnst mér svo sem ekkert sérstakt um þær. Hins vegar virðist mér sem mikill meirihluti slíkra aðgerða hafi með eitthvað allt annað en útlitið að gera hjá viðkomandi. Það er því erfitt að verjast því að verða dapur fyrir hönd viðkomandi í slíkum tilfellum.
Þekkir engan sem lítur ekki í spegil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.11.2011 | 17:29
Eftirlíkingar Árna Johnsen
Hvað er þetta með Árna Johnsen og áhuga hans á smíði eftirlíkinga af gömlum húsum. Kannski hann hafi kviknað fyrir alvöru við setu hans í byggingarnefnd Þjóðleikhússins upp úr 1996. Víst er að hann hlaut talverða reynslu af almennu byggingarferli við þá setu.
Árni sá um að reisa eftirlíkingu af kirkju Þjóðhildar og bæjar Eiríks rauða í Bröttuhlíð á Grænlandi.
Á árinu 1997 ákvað Vestnorræna ráðið og Grænlenska Landsráðið að setja á fót byggingarnefnd, sem hefði það verkefni að byggja kirkju og bæ í Brattahlíð á Grænlandi. Formaður byggingarnefndar var skipaður Árni Johnsen.
Þegar að Norsk stjórnvöld ákváðu í tilefni af 1000 ára afmæli Kristnitöku á Íslandi að gefa íslensku þjóðinni stafkirkju og var henni valinn staður í Vestmannaeyjum.
Skipuð nefnd til að hafa stjórn og yfirumsjón með framkvæmdum og öðru er laut að móttöku gjafarinnar. Árni Johnsen var skipaður formaður nefndarinnar.
Kirkjan reis á Skansinum árið 2000 til minningar, er sagt, um svipaða kirkju sem reist var í fyrndinni af Hjalta Skeggjasyni hinum megin hafnarinnar á Hörgaeyri, líklega fyrst kirkna á Íslandi.
Þá stóð Árni Johnsen fyrir því 2005 (ásamt öðrum Eyjamönnum) að eftirlíking af landnámsbæ, e.t.v. Herjólfs Bárðarsonar sem talinn er hafa fyrstur numið eyjarnar, reis inn í Herjólfsdal. Húsið er byggt sem langhús og gripahús.
Nú er Árni Johnsen kominn aftur af stað við að reisa eftirlíkingu. - Svonefnt Þorláksbúðarfélag er undir forystu Árna Johnsen, en það ætlar að reisa eftirlíkingu af kirkju sem er kennd við Þorlák helga Þórhallsson, verndardýrling Íslands, sem var biskup í Skálholti undir lok 12. aldar. Alls óvíst er hvenær kirkjan sem höfð er að fyrirmynd var fyrst byggð en það setur Árni ekki fyrir sig.
Samkvæmt fundargerð Kirkjuráðs frá því haustið 2010 var áætlaður kostnaður við Þorláksbúð um 38 milljónir króna. Í fjölmiðlum hefur komið fram að kostnaðurinn sé greiddur af opinberu fé og með framlögum einkafyrirtækja.
Gerð, staðsetning, tilgangur og fjármögnun allra þessara verkefna hafa verið umdeild. Einnig að það skuli hafa verið Árni Johnsen sem veiti framkvæmd þeirra forystu.
Spurningin sem ég velti fyrir mér er hvers vegna Árni sýnir svona verkefnum mikinn áhuga og er tilbúin að leggja frekar viðkvæmt orðspor sitt að veði í hvert sinn sem hann kemur nálægt þeim. -
Eftirlíkingar koma aldrei í stað þess sem raunverulega var og stundum er betra að láta sér nægja ímyndunaraflið frekar en að reiða sig á umdeildar eftirlíkingar. - Þessi árátta að gera eftirlíkingar af fornum mannvirkjum, af því engin raunveruleg hafa varðveist, sver sig dálítið í ætt við amerísku leikgarðamenninguna. Sá buisness byggist upp á því að fólk kæri sig kollótt um að það sem það sér og upplifir sé ekki ekta og e.t.v. ekki neitt í líkingu við það sem bestu heimildir segja til um. -
Ég held að hvorki Íslendingar eða erlendir ferðamenn sem til landsins koma, hafi mikinn áhuga á slíku í tengslum við mikilvægar söguslóðir og raunverulega náttúru. Viðbrögð gesta í Þjóveldisbæinn í Þjórsárdal og í eftirlíkinguna af bæ Eiríks rauða í Haukadal, bera vitni um það. Góðlátlegt grín bjargar oftast málunum, en er það markmiðið?
Ef til vill er samt markaður fyrir víkinga-skemmtigarð með eftirlíkingum af húsakynnum víkinga, leikurum og leikmunum. Eitt slíkt var um tíma fyrirhugað í Reykjanesbæ en er víst ekki lengur á kortinu.
Skálholt skyndifriðað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
9.11.2011 | 03:04
Stór brjóst og karlmenn
Því er stundum haldið fram að ef karlmenn væru ekki svona miklir aðdáendur stórra brjósta, mundu kvenmönnum ekki vera svona umhugsað um stærð þeirra. - Og oft er hóflitlum fjölmiðlum kennt um að örva, viðhalda og jafnvel móta unga karlhuga á þá leið að þeir álíti stór brjóst það áhugaverðasta sem konur hafa upp á að bjóða. En er það staðreyndin að stærð kvenbrjósta sé í raun ráðið af karlmönnum?
Áhugi mannkynsins á brjóstum og stærð þeirra er ekki nýr af nálinni. Brjóst hafa sem frjósemistákn verið fyrirferðamikil í listasögu heimsins, en listin eins og kunnugt er, endurspeglar gjarnan hvernig við höfum hugsað um hlutina á hverjum tíma og listamennirnir eru oftast karlmenn.
Hinar 35.000 ára gömlu "Venusar" smástyttur frá Þýskalandi eru með alla líkamshluta afar ýkta, ekki hvað síst brjóstin sem eiginlega minna á konu sem þjáist af brjósta Hypertrophy. - Allt frá hinum bústnu frjósemisgyðjum og fjölbrjósta Indlands meyjum til myndskreyttra barma afrískra hjarðkvenna og mjallhvítra Evu og Maríubrjósta á málverkum miðaldameistaranna í Evrópu, er þessi mikli áhugi og sterka aðdáun karla á þessum kvenlíffærum augljós.
En það sem einnig kemur í ljós við slíka söguskoðun er að karlar hafa ekki ætíð haft sömu hugmyndir um æskilega stærð og lögun konubrjósta. Ef hægt er að tala um sögulega meðalstærð í þessum efnum, væri það trúlega 34B.
Allt frá árinu 1996 hafa t.d. brjóst kvenna verið að stækka og mest selda stærðin í USA og UK um þessar mundir er 36C.
Allar líkur er á að kvenbrjóst eigi eftir að stækka enn frekar því bandarískir karlmenn sem eins og allir vita eru hallir undir stóra hluti, segjast helst vilja konur með brjóstastærð 36D. Sama er að segja um breska karlmenn.
Konur virðast sem sagt almennt ansi samvinnuþýðar og skilningsríkar við karla sína hvað þetta varðar. Eða býr eitthvað meira undir?
Brjóstin hafa oft verið notuð í listinni til að tákna yfirráð, ríkidæmi, fegurð og völd, eða það sem margir þrá og eiga erfitt með að standast. Og kannski er það einmitt þetta sem konan er að árétta með "undirlátsemi" sinni við duttlunga karlmannsins.
Stækkar brjóstin um heila skálastærð á mánuði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 03:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.11.2011 | 14:56
Á að banna einelti með lögum
Allir þekkja það. Margir hafa tekið þátt í einhverju formi þess, stundum af óvitaskap og stundum af illkvittni. Afleiðingar þess eru hræðilegar og hafa áhrif á þolandann alla ævi.
Ég þekki einstaklinga sem lagðir voru í einelti í skóla á uppvaxtarárunum og sem aldrei hafa borið sitt barr. Þeir eru brennimerktir á sálinni.
Sumir vilja ekki einu sinni tala um það. Þeir skammast sín fyrir það, rétt eins og að glæpurinn hafi verið þeirra. - Þeir vilja ekki heyra til sama hópi og "undirmálsfólkið", "fitubollurnar", "bæjarvillingarnir" og "hreppskassa liðið" tilheyrði.
Þeir sem urðu verst úti þegar ég var að alast upp, gáfust upp fljótlega eftir að þeir komust á unglingsárin, földu sig, fluttu í burtu eða jafnvel, styttu sér aldur. - Það voru þeir sem ekki gátu auðveldlega breytt eða falið vaxtarlag sitt, uppruna, háralit, kæki, lykt, smæð og/eða stærð.
Einelti meðal fullorðinna er í flestum tilfellum framlenging á vandmálinu. Þeir sem stunda einelti hafa oftast orðið fyrir því sjálfir. Stór þáttur í að uppræta einelti almennt er því að uppræta það í skólum og á heimilum landsmanna.
Einelti í sinni verstu mynd er vissulega glæpur og ætti að banna með lögum, rétt eins og t.d. er gert í Skotlandi. Spurningin er bara um að skilgreina það nógu skynsamlega til að venjuleg stríðni, sem oft er hluti af gamansemi, verði ekki gerð ólögleg um leið.
Á að vera stanslaust í umræðunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |