Gyðinglegur uppruni landvætta og skjaldarmerkis Íslendinga

Svo segir í Heimskringlu Snorra Sturlusonar um landvættina sem valdir voru til að vera skjaldberar í skjaldarmerki lýðveldisins:
"Haraldur (Gormsson Dana) konungr bauð kunnugum manni at fara í hamförum til Íslands og freista, hvat hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins, fór hann vestur fyrir norðan landit. Hann sá, at fjöll öll ok hólar váru fullir af landvéttum, sumt stórt, en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vápnafjörð, þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land at ganga. Þá fór ofan eptir dalnum dreki mikill, ok fylgdu honum margir ormar, pöddur ok eðlur ok blésu eitri á hann. En hann lagðisk í brot ok vestr fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eptir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svá mikil, at vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna, ok fjöldi annarra fugla, bæði stórir ok smáir. Braut fór hann þaðan ok vestr um landit ok svá suðr á Breiðafjörð ok stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungr mikill ok óð á sæinn út ok tók at gella ógurliga. Fjöldi landvétta fylgdi honum. Brot fór hann þaðan ok suðr um Reykjanes ok vildi ganga upp á Vikarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi ok hafði járnstaf í hendi, ok bar höfuðit hærra en fjöllin ok margir aðrir jötnar með honum. Þaðan fór hann austr með endlöngu landi - "var þá ekki nema sandar ok öræfi ok brim mikit fyrir útan, en haf svá mikit millim landanna," segir hann, "at ekki er þar fært langskipum."
Þar sem Heimskringla Snorra er frumheimild er ekkert hægt að segja með vissu um uppruna þessarar þjóðsögu. Víst er að trú á Landvætti var einlæg og ríkjandi á landinu því í Landnámu segir:
 
"Það var upphaf hinna heiðnu laga, að menn skyldu eigi hafa höfðuð skip í haf, en ef þeir hefðu, þá skyldu þeir af taka höfuðið, áður en þeir kæmu í landsýn og sigla eigi að landi með gapandi höfðum né gínandi trjónu svo að landvættir fældust við."
Þjóðsagan virðist hafa yfir sér al-norrænt yfirbragð en þegar betur er að gáð koma fyrir í henni vættir sem þekktar eru fyrir varnarhlutverk sín úr allt öðrum heimshluta og frá allt öðrum tíma.
Í Genesis fyrstu bók Biblíunnar er greint frá fyrstu landvættunum sem Drottinn sjálfur setur til að verja landsvæði það er Adam og Eva höfðu með framferði sínu gert sig afturreka úr.
"Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af. Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré." (GENESIS 3:23)
Kerúbar þessir voru, ef marka má lýsingu þeirra sem sögðust hafa barið þá augum, einhverskonar englaverur og sérstök sköpun. Esekiel lýsir kerúbunum sem gættu hásætis Guðs á þessa leið; "Og hver hafði fjögur andlit. Andlit eins var nautsandlit, andlit hins annars mannsandlit, hinn þriðji hafði ljónsandlit og hinn fjórði arnarandlit. 15Og kerúbarnir hófu sig upp. Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð við Kerbarfljótið." (ESEKÍEL 10:14 15)
Ásjónur þeirra litu svo út: Mannsandlit að framan, ljónsandlit hægra megin á þeim fjórum, nautsandlit vinstra megin á þeim fjórum og arnarandlit á þeim fjórum aftanvert. Og vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi, sem voru tengdir saman, og tvo vængi, sem huldu líkami þeirra.(ESEKÍEL 1.10-11)
Ljóst er að Gyðingar höfðu á þessum vættum mikla helgi, svo mikla að þeir gerðu þá að helstu táknum þjóðar sinnar. Hinar tólf ættir Gyðinga (GENNESES 30:1-27) sem raktar eru til Jakops Abrahamssonar skiptu með sér landsvæði (ESEKÍELl 48:1-34)því er þeim var fengið til yfirráða í 11 hluta. Þar sem einn sona Jakops, Leví gerðist prestur, fékk hann ekkert land. Féll landhluti hans og Jósefs til Efarím Jósefsonar sem Jakop hafði ættleitt. Aðalættirnar voru fjórar og kenndar við Júda, Rúbín, Dan og Efraím. Felldi hver aðalætt tvær aðrar undir sitt merki og sá um varnir landsins hver til einnar höfðuáttar. (FYRRI KRONÍKUBÓK 9:23-24)
Ætt Júda, Issakar og Sebulon vörðust til austurs, tákn þeirra var ljónið, tákn Júda ættar.(Það þarf ekki mikið til að breyta ljóni í dreka, sérstaklega á þeim slóðum þar sem ljón finnast hvergi)
Ætt Dan, Assers og Naftalí gættu norðurs, tákn þeirra var örninn, tákn Dan ættar.
Ætt Efraím, Benjamíns og Manasse gættu vesturáttar, tákn þerra var uxi, tákn ættar Efraím.
Ætt Rúben, Símons og Gad sem gættu suðurs, tákn þeirra var maður, tákn Rúben ættar.
Það er varla tilviljun að Snorri raðar landvættunum upp á sama hátt í kring um landið og Gyðingar gerðu til forna með sín tákn.
Ýmsar aðrar vísbendingar eru um að í þjóðsögu Snorra séu á ferðinni sömu tákn og Gyðingar notuðu. Annað tákn Rúbens er sverð. Bergþursinn heldur á járnstaf. Tákn Dan var Örn, því "fyrir honum hopuðu allir óvinir".
Gyðingar eignuðu vættum sínum eftirfarandi dyggðir;
Júda, ljónið = vilji
Dan, örn = réttlæti
Efraím, uxi = frjósemi
Rúben, maður = innsæi
Snorri greinir frá því að galdramaðurinn sem hugðist njósna um hagi íslendinga hafi brugðið sér í hvalslíki. Minnir það óneitanlega á sæskrímslið og ógnvaldinn Levjatan. Eða eins og sagt er í GT; Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.
(SÁLMARNIR 104:26-27)


Í kristinni trú er hlutverk landvættanna áréttað í sýn sem Jóhannes höfundur Opinberunarbókarinnar fær.
Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir. Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni. Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu.
(OPINBERUN JÓHANNESAR 10:6-11)

Strax á fyrstu öld var farið að kenna vættina við guðspjallamennina Matthías, Markús, Jóhannes og Lúkas. Var Matthíasi úthlutað mann-englinum, Markúsi, ljóninu, Lúkasi, griðungnum og Jóhannesi, erninum.
Samanber heildir frá St. Irenaeus of Lyons (ca. 120-202 EK) - Adversus Haereses 3.11.8
Það þarf í sjálfu sér ekki auðugt ímyndunarafl til að sjá hvernig Snorri Sturluson hefur lagað þessar kunnu vættir úr gyðing og kristindómi, að íslenskum aðstæðum og fellt þær inn í söguna af landvættunum. Mann-engillinn verður að bergrisa og ljónið að dreka.


Á heimsíðu Forsætisráðuneytisins er að finna ýmsan fróðleik um skjaldarmerkið. Þar á meðal er grein um skjaldarmerki sem sagt var að tilheyrði Íslandskonungi á þrettándu öld.

"Á árunum 1950-1959 starfaði á vegum danska forsætisráðuneytisins nefnd, sem ráðuneytið hafði falið að gera athugun á og tillögur um notkun ríkisskjaldarmerkis Danmerkur. Einn nefndarmanna, P. Warming, lögfræðingur, sem var ráðunautur danska ríkisins í skjaldamerkjamálum, hefur síðar látið í ljós álit sitt á því hvernig ríkisskjaldarmerki Íslands muni hafa verið fyrir 1262-1264, þ.e. áður en landið gekk Noregskonungi á hönd, og hvernig skjaldarmerki Noregskonungs hafi verið, þegar hann notaði merki sem konungur Íslands. Fara hér á eftir nokkur atriði úr grein P. Warming.Til er frönsk bók um skjaldarmerki, talin skráð á árunum 1265-1285. Nefnist hún Wijnbergen-skjaldamerkjabókin og er varðveitt í Koninklijk Nederlandsch Gencotschap voor Geslachot en Wapenkunde í Haag. Efni hennar var birt í Archives Heraldiques Suisses á árunum 1951-1954. Í bókinni er fjallað um 1312 skjaldarmerki, flest frönsk, nokkur þýsk, en einnig eru þar um 56 konungaskjaldarmerki frá Evrópu, Austurlöndum nær og Norður -Afríku. Eru þar á meðal merki konunga Frakklands, Spánar, Aragoníu, Englands, Portúgals, Þýskalands, Bæheims, Danmerkur, Navarra, Skotlands, Noregs, Svíþjóðar og Írlands. En á bakhlíð eins blaðsins í bókinni (35.) er m.a. sýnt merki konungsins yfir Íslandi, þ.e. merki Noregskonungs sem konungs Íslands eftir atburðina 1262-1264. Textinn yfir myndinni hljóðar svo: le Roi dillande, þ.e. le Roi d'Islande (konungur Íslands). Skjaldarrendur eru dökkar, en þverrendur bláar og hvítar (silfraðar). Tveir þriðju hlutar skjaldarins neðan frá eru með þverröndum, silfruðum og bláum til skiptis. Efsti þriðjungur skjaldarins er gylltur flötur, án þverranda. Á skjöldinn er markað rautt ljón, sem stendur öðrum afturfæti niður við skjaldarsporð, en höfuð ljónsins nemur við efri skjaldarrönd. Í framlöppum ljónsins er öxi í bláum lit á efsta þriðjungi skjaldarins (hinum gyllta hluta), en skaftið, sem nær yfir sjö efstu silfruðu og bláu rendurnar, virðist vera gyllt, þegar kemur niður fyrir efstu silfurröndina. Ljónið í skjaldarmerki Noregs var ekki teiknað með öxi í klónum fyrr en á dögum Eiríks konungs Magnússonar eftir 1280.
 
Þetta umrædda skjaldarmerki virðist eftir hinni frönsku bók að dæma hafa verið notað af Noregskonungi sem konungi Íslands eftir árið 1280. Þótt öxin bættist í skjaldarmerkið eftir árið 1280, er hugsanlegt að sama eða svipað skjaldarmerki, án axar, hafi verið notað af "Íslandskonungi" áður, e.t.v. strax frá 1264. Um þorskmerkið sem tákn Íslands eru ekki skráðar heimildir fyrr en svo löngu seinna að notkun þess þarf ekki að rekast á þetta merki eða önnur, sem kynnu að hafa verið notuð sem merki Íslands. Skjaldarmerki "Íslandskonungs", sem að framan getur, virðist þannig myndað, að norska skjaldarmerkið, gullið ljón á rauðum grunni, er lagt til grundvallar, en litum snúið við: rautt ljón á gullnum grunni. Þessi breyting ein er þó ekki látin nægja, heldur er tveimur þriðju hlutum skjaldarins að neðan breytt þannig, að þar skiptast á bláar og silfraðar þverrendur, neðst blá, síðan silfruð, þá blá aftur og svo koll af kolli, en efsta silfraða þverröndin liggur að þeim þriðjungi skjaldarins, sem er gullinn. Með þessu er af einhverjum ástæðum brotin ein af grundvallarreglum við gerð skjaldamerkja, en hún er sú, að silfur og gull eiga ekki að koma saman, heldur á einhver af skjaldamerkjalitunum að vera á milli og sömuleiðis eiga skjaldamerkjalitirnir ekki að koma saman, heldur á að skiptast á litur-silfur-litur-gull o.s.frv. Hefði því lögmál skjaldarmerkjagerðar eitt ráðið, þegar umrætt merki var búið til, hefði næst gullna fleti skjaldarins átt að koma blá þverrönd, síðan silfurrönd o.s.frv. í stað þess að nú liggur silfurröndin næst gullfletinum og brýtur þar með reglur um gerð skjaldarmerkja eins og áður segir. Af þessu kynni að mega draga þá ályktun, að merkið sé þannig gert af því að þurft hafi að taka tillit til skjaldarmerkis, sem þegar var til. Í slíku tilviki, þegar aukið er við merki sem fyrir er, gerir skjaldarmerkjafræðin ráð fyrir frávikum frá meginreglunum. Af svipaðri ástæðu er það svo í danska skjaldarmerkinu að reitirnir fyrir Færeyjar og Grænland liggja hvor að öðrum, þótt báðir séu í lit, meira að segja í sama lit.Það skjaldarmerki, sem þegar hefur verið til og menn hafa viljað virða og taka tillit til um leið og við það var bætt hluta af ríkisskjaldarmerki Noregs, hlýtur að hafa verið skjaldarmerki Íslands fyrir árið 1262. Það skjaldarmerki hefur samkvæmt framansögðu verið skjöldur með tólf silfruðum (hvítum) og bláum þverröndum, efst silfur og neðst blátt. Í einfaldleik sínum er þetta frá skjaldarmerkjafræðilegu sjónarmiði fallegt merki.Ef þetta er rétt tilgáta, þá er elsta íslenska ríkisskjaldarmerkið álíka gamalt og það norska, en norska skjaldarmerkið (án axar) þekkist frá dögum Hákonar IV. Hákonarsonar. Fjöldi þverrandanna í Íslandsmerkinu þarf ekki að tákna neitt sérstakt, en gæti leitt hugann að því að Íslandi mun í upphafi hafa verið skipt í tólf þing, þótt því hafi að vísu verið breytt áður en sá siður barst til Norðurlanda á tímabilinu 1150-1200 að taka um skjaldarmerki.Það, að ljónið í norska skjaldarmerkinu skuli á mynd í umræddri bók vera með öxi, sem einmitt var bætt í merkið í þann mund sem bókin hefur verið í smíðum, sýnir að sá, sem lét setja bókina saman, hefur haft glögga vitneskju um norræn skjaldarmerki.Það, sem hér að framan er sagt um merki Íslands fyrir og eftir 1262, er lausleg frásögn af áliti P. Warming, lögfræðings og skjaldarmerkjaráðunauts í Kaupmannahöfn.Merkið, sem getið er um, skjöldur með tólf þverröndum, hvítum (silfruðum) og heiðbláum til skiptis, er hugsanlega það merki (eða fáni) sem Hákon konungur fékk Gissuri Þorvaldssyni í Björgvin 1258, er hann gerði hann að jarli.Tilgátu P. Warmings um merki Íslandskonungs hefur verið andmælt, t.d. af Hallvard Trætteberg, safnverði í Noregi, og telja sumir merkið í Wijnbergen-bókinni tilbúning og hugarflug teiknarans. Þeim andmælum hefur P. Warming svarað og bent á að skjaldarmerkjabókin sé yfirleitt nákvæm og áreiðanleg svo sem um skjaldarmerki Englands, Skotlands, Írlands, Manar og Orkneyja, og ekki sé undarlegt að Ísland hafi haft sérstakt merki, þegar þess sé gætt að lítil samfélög eins og Mön, Orkneyjar, Jamtaland og Færeyjar höfðu sín merki.Hvað sem líður merki Íslandskonungs, þá telur P. Warming allt benda til þess að skjöldurinn með tólf hvítum og bláum þverröndum sé hið upprunalega (skjaldar)merki Íslands. Í þessu forna skjaldarmerki koma einnig fyrir kunn tákn úr gyðinga og kristindómi. Rendurnar tólf minna óneitanlega á hina tólf ættkvíslir og rautt ljónið á ættartákn Júda."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Afar fróðlegar vangaveltur.

Georg P Sveinbjörnsson, 30.4.2008 kl. 14:30

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þetta er vitaskuld hárráett hjá þér Erlingur og fyrirsögnin ætti miklu frekar að vera Ísraelskur uppruni... eða Hebreskur uppruni... Þakka þér.

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.4.2008 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband