Norðurljósin dansa í nótt

Ég skil ekki hversvegna verið er að "vara við" sólgosum, fyrst þau eru eining sögð skaðlaus með öllu. Nær væri að kætast yfir væntanlegri danssýningu norðurljósanna.

Ef að þessi flóðbylgja af hlöðnum efnisögnum hefur þegar skollið á jörðinni má gera ráð fyrir að mikið magn þeirra hringsóli nú í segulsviði jarðar og þeytist jafnframt á milli segulskautanna tveggja.

Eitthvað af þeim mun áreiðanlega rekast á lofthjúp jarðar og þá verður ljósasýningin aurora borealis og  aurora australis (Norður og suðurljós) til.

Þar sem heiðskýrt verður í nótt á Íslandi má því búast við miklum dansi norðurljósanna, svo fremi auðvitað að það verði nógu dimmt til að hann verði sýnilegur. 


mbl.is Varað við öflugu sólgosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði Ísland efni á friði?

Björk segir að Íslenskt efnahagslíf myndi fá stóran skell ef álverð í heiminum lækkaði. Ekkert mundi lækka álverð meira en ef minna af áli væri notað til hergagnaframleiðslu. Bestu viðskiptavinir Alcoa og þeir sem hafa borgað þeim mest fyrir álið í gegnum tíðina eru einmitt fyrirtæki í hergagnaiðnaðinum. -

Hvað oft er þeim fleti velt upp í umræðunni um álverin, þ.e. hvort Íslendingar ættu yfirleitt að gera sig háða styrjöldum í heiminum með því að leyfa álrisunum að breyta orku landsins í morðtól. -

 


mbl.is Björk: Magma vinnur með AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grefill fær lánaða bloggsíðu á blog.is

Áfram heldur bloggsápan um þá Kristinn Th. og Grefil. Margir munu telja þessa uppákomu storm í vatnsglasi en fyrir þeim Kristni og Grefli er þetta mikið alvörumál. Nokkrir bloggarar, þar á meðal ég, hafa fjallað um málið og hafa þeir félagar verið duglegir við að hnýta í hvern annan í löngum athugasemdahölum.

Um hríð virtist sem sættir væru að nást, en þær fóru út um þúfur. Nú hefst væntanlega nýr kafli því það nýjasta í söguþræðinum sem hófst með illa skipulögðum og enn ver útfærðum kappræðum á síðu Kristins, er að Grefill hefur fengið að láni vefsíðu og kennitölu félaga síns Kristjáns Sigurjónssonar og bloggar nú þar undir heitinu Grefillinn sjálfur.


Herra trúaður

Klerkar heimsins eru samir við sig, sama hvaðan þeir koma og hverrar trúar þeir eru. Þeir hefja sig upp í predikunarstólana yfir almúgann til að leiða hann í allan sannleikann og þykjast hafa til þess eitthvert umboð í krafti almættisins. Eins og verða vill afvegaleiða þeir marga, enda aðeins breyskir menn, þegar allt kemur til alls. 

Trúarskilningur klerka nær yfirleitt afar stutt, svona rétt ofaní eigin buddu.  Alla vega aldrei það langt að þeir sjái að í þeirra eigin trúarritum er staða (klerkastéttin)  þeirra yfirleitt fordæmd og ekki stafkrók þar að finna sem réttlætt gæti sjálftöku þeirra á guðlegu umboði til  túlkunar trúarinnar fyrir aðra eða einhverra embættisverka yfirleitt.

Í Malasíu keppa þeir í þessum ófögnuði um " Imam Muda" titilinn í nokkurskonar raunveruleika þáttum. Sigurvegarinn þetta árið heitir Muhammad Asyraf Mohd Ridzuan og hlýtur að launum stöðu sem bænakallari í einni af helstu moskum Kuala Lumpur. Þá fær hann frýja pílagrímsferð til Mekka, styrk til náms í Sádi Arabíu, nýjan bíl, fartölvu og eitthvað af reiðufé. Allt eru þetta fín verðlaun fyrir það að geta tónað kóraninn. -


mbl.is Krýndur „Ungur trúarleiðtogi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhóf og græðgi

Mér hefur ætíð blöskrað óhófið og græðgin sem birtist í því þegar alsnægtasamfélögin efna til kappáts og / eða kappdrykkju. Kannski er um að kenna myndum af börnum með útþanda maga af sulti, sem teknar voru í hungursneyðinni í Bíafra, sem brenndu sig inn í meðvitund mína og annarra  ungra íslenskra skólabarna seint á sjöunda áratug síðustu aldar.

Öfgalandið Bandaríkin hefur jafnan verið framarlega þegar kemur að þessum ósiðum en líklega hafa flestar velmegunarþjóðir gert sig sekar um að hafa gortað sig af alsnægtum sínum á þennan hátt.

En þetta er fín auglýsing fyrir matvöruframleiðendur og fólk er alveg hætt að taka eitthvað nöldur um hvað sé siðuðu fólki sæmandi og hvað ekki, alvarlega.  - Það er jú "so gaman aðessu."

Ég óska Einari Haraldssyni ekki til hamingju með titilinn.


mbl.is Íslandsmeistari í pylsuáti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver grefillinn, búið að loka á hann!

Það þykir enn heyra til tíðinda þá bloggum fólks er lokað hér á blog.is, þótt það virðist nú gerast í æ ríkari mæli. Í dag var báðum bloggsíðum Grefilsins (Guðbergs Ísleifssonar) lokað í kjölfarið á miklum einkaþrætum sem hann átti við Kristinn Theódórsson á bloggsíðu hans. Grefilinn hefur til skamms tíma verið mest lesni bloggarinn á blog.is og þess vegna vekur þessi lokun enn meiri athygli.

Vinur Guðbergs, Sigurður Pétursson,  birtir á sinni síðu yfirlýsingu frá Guðbergi þar sem hann segir að lokað hafi verið á sig fyrirvaralaust. Guðbergur hefur einnig í athugasemd á bloggsíðu Sæmundar Bjarnasonar haldið því fram að hjá blog.is starfi einhver Vantrúarmaður sem gæti hafa látið loka blogginu vegna þess að Guðbergur segist hafa haft betur í Þessum þrætum. (Þræturnar snérust upphaflega um hvort vantrú væri trú eða ekki :)

Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að samræður þeirra Guðbergs og Kristins væru dálítið súrar á stundum, fylgdist ég með þeim af áhuga. Hreyturnar sem  á eftir fylgdu og deilurnar um hver hefði unnið "kappræðurnar" voru mér aftur á móti um megn að lesa. En kannski er skýringuna á lokunninni einmitt þar að finna, því ég get ekki séð neitt í umræðunum á síðu Kristins sem gæti verið ástæða fyrir úthýsingu af blog.is.

Þrátt fyrir þetta hefur Kristinn valið að taka af síðu sinni einkaþrætuna og einhverjar eftirfærslur í kjölfar hennar. Hverju sætir? Voru kannski Kristni og Gubergi settir sömu kostir, að taka umræðurnar af netinu eða horfast í augu við lokun á blogginu? Og hversvegna voru þessar umræður svona viðkvæmar?


Var ekki Snorri Þorgrímsson búinn að afgreiða þetta?

Alltaf er það jafn fróðlegt að fylgjast með kjánalegum birtingarmyndum hjátrúar og fáfræði í samfélögum sem eiga að teljast siðmenntuð og uppfrædd.- Fyrir rúmum þúsund árum þegar að "kristnitökuhraunið" vall sögðu heiðnir menn að goðin væru reið vegna þess að Íslendingar hugðust taka kristni. Snorri goði Þorgrímsson afgreiddi málið með einni setningu sem flestir Íslendingar kunna í dag; "Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?"

Árið eitt þúsund tókust menn á um trúarbrögð á Alþingi á Þingvöllum. Stefndi allt í voða því hvorki kristnir menn né heiðnir vildi gefa eftir. Þegar deilurnar stóðu sem hæst kom maður hlaupandi og sagði að jarðeldur væri kominn upp í Ölfusi og stefndi í að hraun rynni yfir bæ Þórodds goða. Heiðnir menn drógu þá ályktun að jarðeldurinn væri vitnisburður um reiði goðanna, þannig væru þau að koma fram hefnd fyrir yfirgang hinna kristnu. En þá mælti Snorri goði Þorgrímsson hin fleygu orð: "Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?" Snorri virðist því ekki aðeins telja jarðelda af öðrum toga en reiði guðs eða guða, heldur einnig að jörð sú sem hann standi á hafi ekki sprottið fram fullsköpuð við sköpun heimsins. Þetta viðhorf Snorra telst mjög óvenjulegt á miðöldum og Sigurður Þórarinsson hefur kallað orð hans við þetta tækifæri "fyrstu jarðfræðiathugunina".

Snorri goði var líklega á undan samtíð sinni hvað þetta varðar, og það leið langur tími þar til fræðilegar skýringar á náttúruhamförum voru almennt á dagskrá. Kristnin sigraði á Íslandi og heimsmynd kaþólsku kirkjunnar skaut föstum rótum í þjóðlífinu.


mbl.is Gosið endurspeglaði reiði Guðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdalaus kolkrabbi

Palli Kolkrabbi fær greinilega engu að ráða orðið. Það er búið að bjóða honum í skemmtiferð í lífvarðafylgt til Spánar og hann er ekki einu sinni spurður hvort hann hafi áhuga á að fara. Þetta er nú einum of mikil forræðishyggja finnst mér. - En kannski eru Oberhausen sædýrasafnsstjórar bara hræddir um að upp komist um allt svindlið. Alla vega hefur ekki fengist skýring á því að hvers vegna hann var sagður af "þjálfara" sínum nokkra mánaða gamall og veiddur í ítölskum sjó, en átti samt að hafa spáð fyrir um úrslitin í síðasta Evrópumóti í knattspyrnu.


mbl.is Kolkrabbinn Páll ekki til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinsældir Vígtannasmella

Vígtannasmellir hafa tekið við sem megin lestrar og áhorfsefni unga fólksins. Ljósaskiptasögurnar (Twilight) eru þeirra frægastar. Þær eru sannarlega arftakar Harry Potter bókanna, en fjalla mest um blóðsugu-stráka, varúlfa og venjulegar mennskar skríkjustelpur.

Spennan byggir öll á kunnuglegum söguþræði; tveir strákar úr sitthvorri klíkunni reyna að ná ástum sömu stúlkunnar. Ástin er forboðin því hvert bit veldur smiti og tyggjókúlukynlíf eða skýrlífi virðist vera eini möguleikinn í stöðunni. 

Útlitið á hinum dauðu, hálfdauðu og hinna vel hærðu á fullu tungli er þræl sexý og sannar að ekki er nauðsynlegt að vera löðrandi í brúnkukremi til að líta taka sig vel út í sló-mó slagsmálum á hvíta tjaldinu.

Stundum í skeggræðum manna um þessa þróun í afþreyingarefni fyrir ungviði heimsins, er hneykslast á því að blóð, mör og annar mennskur innmatur skuli vera svona vinsælt viðfangsefni. Yfirnáttúra hljóti að vera ónáttúra og dauðadýrkun öll frekar ólífvænleg fyrir unga huga.

Aðrir benda á að í fyrsta lagi sé hér ekkert nýtt á ferðinni, því þegar blóðsötri og spangóli sleppir, stendur eftir klassísk ástarsaga hins ófullnægða ástarþríhyrnings.

Þá beri að fagna því að unglingar nenni enn að lesa og boðskapurinn sé í sjálfu sér ekki neikvæður þótt hann sé kannski óraunhæfur.


Hommar gera knattspyrnuna betri

Það hlaut að vera einhver dulin ástæða fyrir því að mér líkaði svona vel við þetta léttleikandi þýska lið á HM. Ég hef aldrei haldið með Þjóðverjum áður. Og þarna kemur skýringin. (sjá frétt)

Liðið lék svo fallega knattspyrnu, rétt eins og evrópski stíllinn hefði verið bræddur saman við þann suður ameríska á snilldarlegan hátt. Leikurinn um bronsið var besti og skemmtilegasti leikur mótsins.

Stundum hefur suður amerískum liðum tekist þetta sama og orðið heimsmeistarar fyrir vikið. Hvað skyldu hafa verið margir samkynhneigir í liðum þeirra?

Ef að það er rétt að hjá þessum "talsmanni Ballacks" að skortur á grófleika beri vitni um kynhneigð leikmanna verður maður að álykta að liðið  með fæst gul spjöldin í keppninni miðað við fjölda leikja, séu með flesta samkynhneigða knattspyrnumenn innanborðs. Og það er einmitt liðið sem vann keppnina. Ætli að það séu ekki bara allir hommar í liði Spánar?


mbl.is Kynhneigðin að falli?
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Þar sem fráskilin kona er vond kona

Það hefur komi fyrir að börn hafa látist eftir að hafa annað hvort dottið eða skriðið sjálf inn í þvottavélar sem einhverjir óvitar hafa svo sett í gang. En almennt eru þvottavélar ekki taldar hættulegar börnum. Þá er auðvitað ekki reiknað með því að móðir þeirra noti þetta búsáhald fyrir pyndingartæki eins og lýst er í þessari frétt. -

Sumar fréttir eru svo skelfilegar að það er varla hægt að segja þær. Svo er um þessa frétt sem lýsir hvernig 34 ára gömul kona pyndaði barn sitt og kyrkti það að lokum. - Þrátt fyrir óhugnaðinn sem sló mig við lestur fréttarinnar var það niðurlag hennar eins og hún er sögð í heimspressunni sem vakti mig til umhugsunar. Þar er sagt að ofbeldi konunnar gegn barni sínu hafi aukist til muna eftir að hún skildi við mann sinn og hóf að búa ein.

Þótt hjónaskilnuðum fari fjölgandi í  Japan , ríkja þar enn almennt miklir fordómar gegnvart fráskildu fólki, ekki hvað síst fráskildu kvenfólki. Þetta niðurlag fréttarinnar gefur til kynna að geðveiki konunnar standi í sambandi við skilnað hennar á einhvern hátt. Í undirtextanum er verið að segja; svona getur komið fyrir fólk sem skilur.  

En sumir kunna að spyrja, hvar var faðirinn?

Skömmin sem fylgir skilnaði í Japan gerir það að verkum að fyrrverandi hjón hittast nánast aldrei eftir skilnaðinn. Sambandið á milli þeirra er oftast algjörlega rofið.

Fordómar samfélagsins stuðluðu þarna að því að faðirinn heimsótti aldrei dóttur sína sem fyrrverandi eiginkona hans var að pynda til dauða.


mbl.is Setti dóttur sína í þvottavél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk jarðvarmaþekking fjármögnuð af Kínverjum í Eþíópíu.

Í þessu viðtali við Össur kemur einnig fram að hann vonast til að geta farið í samstarf við Kínverja um þróun jarðvarmavirkjanna í Eþíópíu. Kínverjar hafa undafarin ár haslað sér völl í efnahagslífi Eþíópíu.

Þeir vinna þar olíu úr jörðu og selja þangað mikið af fatnaði og kínversku skrani í staðinn. Á næstu árum vilja Kínverjar fimmfalda viðskipti sín við þetta forna menningarríki í Afríku sem hefur haldið sjálfstæðu sínu frá örófi alda, þrátt fyrir að oft hafi verið að því sótt.

Ekki einkennilegt að á sama tíma og Íslendingar eru að hefja sölu á orkuauðlindum sínum til erlendra orkurisa,  vilji þeir aðstoða mesta orkuneytanda heims, þ.e. Kína, til að sjúga orku út úr löndum sem búa við vanþróaðan efnahag.

Eins og alltaf áður þegar að þessari efnahagslegu nýlendustefnu er beitt í þróunarríkjunum, eru rökin þau sömu; að þetta sé gott fyrir efnahag þjóðarinnar. -


mbl.is Kína markaður fyrir fisk og ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumurinn að rætast

Þá geta landsmenn tekið gleði sína aftur. Eftir að hafa gert útrásarvíkingunum mögulegt að fá að láni allt það fé sem bankar landsins gátu mögulega fundið eða búið til með "fé án hirðis" barbabrellum, býðst okkur nú aðgangur að hinni stóru jötu Evrópubandalagsins. -

Til að gera Ísland að löglegum  hreppi í ESB sendu þeir okkur smá styrk, aðallega til að þýða nokkra doðranta og samþykkja innihald þeirra formlega á alþingi. Þetta er auðvitað bara formsatriði og auðvitað bara forsmekkurinn að því sem koma skal. En það glittir þegar í blóðið á tönnum landans. - Það verður fljótt að hafast upp í þessa smáskuld við AGS, Breta og Hollendinga þegar bitlingarnir byrja að streyma inn fyrir alvöru. - Og þetta er staða og umhverfi sem okkar fjármálspekúlantar kunna vel að nýta sér.

Þeir sem haf áhyggjur af "sjálfstæði landsins" hljóma eins og nátttröll í umræðunni þegar bent er á að nú þegar er búið að gefa fordæmi fyrir hvernig staðið skuli að sölu á auðlindum landsins. Það er heilmikið hægt að hafa upp úr umboðslaunum á sölu hlutabréfa í íslenskum orkufyrirtækjum og veiðikvótum.

Að auki eru skúffurnar í löndum ESB eru fullar af asískum og amerískum fyrirtækjum sem stöðugt eru á höttunum eftir arðvænlegum fjárfestingum í lifibrauði og nauðsynjum þjóðanna.


mbl.is Ísland á nú rétt á ESB-styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar eru lélegir hirðar náttúrunnar

Lundinn á undir högg að sækja í stærstu lundabyggð heimsins, Vestmannaeyjum. Þegar best lét var  fjöldi lunda í og við eyjarnar á sumrin talin vera milli 6 og 8 milljónir. Nú fer hann hríðlækkandi.

Lundin nærist nær eingöngu á loðnu, síld og sandsíli. Ljóst er að við höfum útrýmt bæði loðnu og síld af miðunum í kringum Vestmannaeyjar og ágangur fugla á sandsílastofninn er það mikill að hann dugar ekki til að fæða lundastofninn.

Afleiðingarnar eru að 80% af ungviðinu komist ekki á legg vegna ætisskorts. Þróunin lundastofnsins í Vestmannaeyjum er að taka á sig kunnuglega mynd sem þekkt er frá norður Noregi, Skotlandi og bresku eyjunum fyrir norðan og vestan Skotland þar sem varla sést orðið til Lunda.

Þessi þróun er því miður ekki aðeins bundin við Vestmannaeyjar á Íslandi, heldur allt Suðurland þar sem lundabyggðir á annað borð finnast. Nýlega var ég staddur við Dyrhólaey og sá þá á hálfri klukkusund aðeins til tveggja lunda þrátt fyrir ágætis flugveður.

Þegar að togarar okkar mokuðu upp loðnu og síld, hvarflaði ekki að fólki að það mundi í náinni framtíð hafa svona eyðandi áhrif á aðrar lífverur sem deila með okkur búsetu á þessu landi.

Það er sama hvernig litið er á málin, jafnvægi í náttúrunni er ekki aðeins eftirsóknarvert heldur nauðsynlegt. Því jafnvægi sem ríkti í lífríkinu við Vestmannaeyjar og laðaði að sér lunda í milljónatali, var gróflega og án fyrirhyggju raskað af okkur. Það gerir okkur Íslendinga að lélegum hirðum náttúrunnar.


mbl.is Lundastofn að hrynja í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur í klóm drekans

Það fer um mann aulahrollur í hvert sinn sem maður sér íslenskan stjórnmálamann reyna að koma sér í mjúkinn hjá valdamiklum erlendum ráðamönnum. - Það var aulahrollur sem seytlaðast eftir hryggsúlunni þegar Davíð Oddson smjaðraði fyrir Bush yngri í von um að hann mundi framlengja veru varnarliðsins í Keflavík að ekki sé minnst á Halldór Ásgrímsson og niðurlægjandi loforð hans fyrir Íslands hönd um að styðja blóðbaðið í Írak.

Nú reynir Össur Skarphéðinsson sama leikinn á hinum árbakkanum. Samkvæmt kínversku fréttastofunni hefur Össur lofað Kína stuðningi við stefnu þeirra um "eitt Kína" sem merkir m.a. að Ísland styður hvorki sjálfstæðisbaráttu Tibeta eða Taiwana.

Utanríkisráðherra Kína er hinn vestrænt menntaði Yang Jiechi sem hefur um langan tíma, fyrst sem vara utanreikisráðherra og síðan 2007 sem numero uno, unnið að því hörðum höndum að koma stórum hluta auðlinda fátækra eða vanþróaðra afrískra og suður amerískra ríkja undir yfirráð Kínverja.  Kínverjar ráða orðið lögum og lofum í Afríku í krafti viðskiptahagsmuna og eru hinir nýju nýlenduherrar álfunnar. -

Aulahrollurinn breytist í óhugnað þegar ég heyri Yang Jiechi halda því fram að "mikið traust" ríki milli Íslands og Kína og "samvina landanna sé góð".

Það getur aðeins þýtt að hann telur sig hafa einhver efnahagsleg ítök á Íslandi og geti í krafti þeirra reitt sig á stuðning Íslands við óhæfuverkin heima og heiman.


mbl.is Össur í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kolkrabbakuklarinn Páll raunverulega áll!

Kaupsýslumenn viða að úr heiminum, keppast nú um að gera kauptilboð í Pál kolkrabbakuklara, hina heimsfrægu knattspyrnuvéfrétt sem spáði og kannski réði, úrslitunum í nýafstaðinni heimsmeistarakeppni.

Þótt vafi leiki á aldri og uppruna Páls og að möguleiki sé á að fleiri en einn kolkrabbi hafi stundað knattspyrnukukl í sædýrasafninu í Oberhausen í Þýskalandi, hefur gripið um sig, einkum á Spáni, einskonar kolkrabbamanía, ekki ólík þeirri sem gekk yfir Ísland þegar að selja átti uppstoppaðan Geirfugl á uppboði í útlöndum fyrir margt löngu sem Íslendingar urðu hreint og beint að eignast og sem þeir og gerðu eftir landsöfnun mikla.

Þar sem þessi vafi leikur nú á uppruna Páls, má fastlega búast við að fleiri þjóðir en Ítalir geri á næstunni til hans tilkall. Englendingar gætu t.d. heimtað að fá hann til baka miðað við gömlu söguna af uppruna hans, einkum til að hjálpa  Beckham sem líklega verður næsti þjálfari landsliðsins, til að velja í hópinn.  Englendingar vilja nefnilega alls ekki að Posh geri það fyrir hann.

E.t.v. væri fræðilegur möguleiki fyrir okkur Íslendinga að blanda okkur í forræðisdeiluna á þeirri forsendu að skyggni og forspáreiginleikar séu algengastir í heiminum á Íslandi, hvort sem er á meðal fólks eða dýra. 

Hvergi sé algengara að fólk hafi starfsheitið "miðill" og "spákona" en hér um slóðir eins og sjá má í símaskrám landsins. Þá eru íslenskir kettir og hundar þekktir fyrir að vita miklu lengra en nef þeirra nær. 

Um það vitna fjölmargar reynslusögur sem þið ágætu lesendur eru hvattir til að bæta við í athugasemdum ykkar.

Ef að það gengur ekki getum við haldið því fram til vara að Páll sé raunverulega íslenskur áll í dulargrefi eins og títt er um marga Íslendinga sem um þessar mundir reyna að villa á sér heimildir á erlendri grundu með því að þykjast vera fátæklingar þegar þeir eiga margar matarholur í bönkum út um víða veröld. 

Ef við verðum aftur eins heppin, eins og þegar við fengum Keikó manstu,  getum við sko sparað okkur ýmislegt.

T.d. óþarfa karp í nefndum um hvort kaup og sala hlutabréfa í orkufyrirtækjum landsmanna til skúffufyrirtækja í Svíþjóð eru lögleg iðja eða ekki.

Það er nefnilega haft fyrr víst að Palli sé algjörlega ópólitískur og litblindur í þokkabót.

 


mbl.is Páll sest í helgan stein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeim var ég verst...

Hvað gengur eiginlega að Íslendingum. Hvernig geta þeir farið svona með kjörsyni þjóðarinnar. Þvílík hneisa! Sá sem var næstur því að komast á auðmannalista Forbes og taka þar sæti eins og hinn háæruverðugi Rússlandsbruggari , er nú metinn á aðeins litlar 240 íslenskar millur.

Og þetta lítilræði vill þjóðin nú hafa af honum. Það mætti halda að hún hefði ákveðið að taka bókstaflega orðatiltækið, "Þeir sem guðirnir elska deyja ungir". Ungum atgerfismönnum skal óhikað fórnað til að friða Guð hinnar réttlátu reiði, hvað sem hann nú heitir.

Og svo á kannski að rífa af honum afmæligjöfina til konunnar! Það væri villimennska og ekkert annað. Aðeins villimenn gera ekki mun á hvort mjólkurkýrin sem stolið var úr næsta þorpi er sögð í eigu eiginmannsins eða eiginkonunnar.

Og svo þegar íslenska þjóðin fær tíma til þess að líta um öxl og lesa allar bækurnar eftir þessar hetjur, (Þær koma út um næstu jól), mun hún sjá mikið eftir því hversu vond hún var við athafnamennina sem hrifu alla þjóðina með sér í gullkálfsdansinn.

þá mun hún klökk með tár á hvarmi taka sér í munn hin fleygu orð Guðrúnar Ósvífursdóttur, "Þeim var ég verst er ég unni mest".


mbl.is Jón Ásgeir metur eignir sínar á 240 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitraði Loftur Altice fyrir Árna Johnsen?

Það hlýtur að teljast til tíðinda að hægt sé að auglýsa hér  á blogginu eftir eitri til að granda fólki. Slíkt gerir samt Loftur Altice óáreittur, þar sem hann auglýsir á bloggi sínu eftir nógu sterku eitri til að geta drepið Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sem hann er ósammála í Evrópumálum. Þannig tilheyrir Össur einhverju "liði" sem Loftur vill láta drepa.

Ef Loftur ætti heima í Úkraínu mundu fátæklega dulbúnar hótanir hans eflaust vera teknar alvarlega. Þar kom upp frægasta eiturbyrlunar mál seinni tíma og sem átti rætur sínar að rekja til pólitískra erja. Eitrað fyrir Viktori Jútsjenkó sem bauð sig fram til forseta Úkraínu ( 2004) , gegn sitjandi forseta sem studdi samstarf við Rússland á meðan Jútsjenkó vildi auka samstarf við Vesturlönd.

Loftur virðist vita það fyrir víst að venjulegt flugnaeitur komi ekki til að duga til verksins og vill finna eitthvað sterkara. Það bendir til þess að hann hafi gert tilraunir með flugnaeitur á mönnum og er þess vegna svona viss í sinni sök.

Spurningin er bara,  á hverjum gerði Loftur tilraunir sínar?

Eins og fram kom í fréttum á sínum tíma, telur Árni Johnsen að sér hafi verið byrlað eitur. Því hafi verið blandað í fæðubótarefni sem hann tók inn. „Þetta var bara fæðubótarefni sem er hrært út í mjólk eða vatn, í staðinn fyrir máltíð. Mér til láns notaði ég þetta mjög lítið, kannski í hlutfallinu þrisvar í staðinn fyrir þrjátíu og fimm sinnum. Svona er þetta þó maður búi ekki í Úkraínu.“ sagði Árni um atvikið. Eitrið var samt ekki nógu sterkt til að granda honum, en olli því að hendur hans þrútnuðu. Árni segir að hann viti hver kom eitrinu fyrir en hann hafi engar sannanir.

Ég fæ ekki betur séð en að Loftur hafi með auglýsingu sinni komið upp um sig. Það var augljóslega hann sem eitraði fyrir Árna Johnsen. Árni  hefur löngum þótt hálfgert olnbogavarn í sjálfstæðisflokknum og kannski hefur Loftur ætlað að slá tvær flugur í einu höggi með því að eitra fyrir Árna. Loftur hefur viljað gera flokknum sínum greiða og losa hann við Árna og reyna í leiðinni að afla sér nokkurra atkvæða í formannsslaginn sem hann tók þátt í. -

En allt þetta mistókst reyndar eins og oft áður hjá Lofti. Lofti tókst ekki að granda Árna og Loftur varð ekki formaður Sjálfstæðisflokksins. - Spurningin er hvort honum takist að drepa Össur eða finna einhvern sem er tilbúin til þess?


Spáði Páll kolkrabbi rétt?

Ótrúlegt en satt, Spánverjar orðnir heimsmeistarar og Páll kolkrabbi sá það allt fyrir. Sjá Kolkrabbar raunverulega fyrir framtíðina eða bara Páll? Eða er hann bara að giska? Kannski eru allir kolkrabbar skyggnir?

Reyndar held ég að Páll hafi ekki séð úrslitin fyrir heldur hafi hann ráðið þeim.

Spánverjar voru greinilega betri að spila hollenska knattspyrnu en Hollendingar sjálfir. Þess vegna unnu þeir Hollendinga og um leið alla sem Hollendingar hafa unnið á leiðinni að þessum úrslitaleik.

Spánverjar eru vel að þessum sigri komnir, jafnvel þótt leikurinn hafi lengstum verið hundleiðinlegur og ekki sambærilegur t.d. við leikinn um bronsverðlaunin.

Verst að Hollendingar verða áfram besta liðið sem aldrei hefur unnið heimsmeistaratitilinn og eru nú orðnir einir um þá nafnbót.

Til hamingju Spánverjar og Palli.


mbl.is Spánverjar heimsmeistarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stígvéli sem framleiða rafmagn fyrir farsíma

orange_power_welliesSímafyrirtækið Orange hefur látið hanna og framleiða í samvinnu við framleiðendur Wellington stígvéla, stígvéli sem framleiða rafmagnsstraum þegar í þeim er gengið. Á stígvélunum er einnig búnaður til að hlaða farsímarafhlöður.

Aðferðin er tiltölulega einföld, núnings og líkamshitanum sem myndast við göngu, dans og þessháttar er breitt í straum.

Ætlunin er að kynna vöruna á Glastonbury tónlistarhátíðinni sem er fræg fyrir eðju og aurmyndun á hátíðarsvæðinu þegar að rignir. Slík stígvéli gætu eflaust líka komið sér vel á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Hin fræga stigvélagerð Wellington, sem allir Bretar verða  að eiga a.m.k. eitt par par af þótt þeir noti þau sjaldan eða aldrei, eru kennd við Arthur Wellesley, 1. hertoga af Wellington. Hann lét fyrir margt löngu útbúa leðurbússur handa hermönnum sínum sem nefndar voru eftir honum en eiga fátt sameiginlegt með gúmmístígvélum nútímans annað enn nafnið.

thermoelectric-orange-power-wellies-generate-electricity-2Bretum finnst voða fínt að nefna fatnað og það sem honum tengist eftir fyrirfólki og kunnum herforingjum. Allir kannast t.d. við Winsor bindishnúta, kenndir við Edward konung VIII hertoga af Winsor og Cardigan peisuvesti sem upphaflega voru hannaðarfyrir hermenn í Kímstríðinu af James Brudenell, 7. jarli af Cardigan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband