Þeim var ég verst...

Hvað gengur eiginlega að Íslendingum. Hvernig geta þeir farið svona með kjörsyni þjóðarinnar. Þvílík hneisa! Sá sem var næstur því að komast á auðmannalista Forbes og taka þar sæti eins og hinn háæruverðugi Rússlandsbruggari , er nú metinn á aðeins litlar 240 íslenskar millur.

Og þetta lítilræði vill þjóðin nú hafa af honum. Það mætti halda að hún hefði ákveðið að taka bókstaflega orðatiltækið, "Þeir sem guðirnir elska deyja ungir". Ungum atgerfismönnum skal óhikað fórnað til að friða Guð hinnar réttlátu reiði, hvað sem hann nú heitir.

Og svo á kannski að rífa af honum afmæligjöfina til konunnar! Það væri villimennska og ekkert annað. Aðeins villimenn gera ekki mun á hvort mjólkurkýrin sem stolið var úr næsta þorpi er sögð í eigu eiginmannsins eða eiginkonunnar.

Og svo þegar íslenska þjóðin fær tíma til þess að líta um öxl og lesa allar bækurnar eftir þessar hetjur, (Þær koma út um næstu jól), mun hún sjá mikið eftir því hversu vond hún var við athafnamennina sem hrifu alla þjóðina með sér í gullkálfsdansinn.

þá mun hún klökk með tár á hvarmi taka sér í munn hin fleygu orð Guðrúnar Ósvífursdóttur, "Þeim var ég verst er ég unni mest".


mbl.is Jón Ásgeir metur eignir sínar á 240 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg skrif hjá þér Svanur en þarna held ég þó að þú ruglir saman Björgólfi yngri við Jón Ásgeir , því það var jú hann sem stóð í rússabrugginu með pabba sínum .En hvernig í ósköpunum getur maður annað en ruglast í allri þessari hringavitleysu.

Inga Sæland (IP-tala skráð) 12.7.2010 kl. 20:58

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Inga og takk fyrir athugasemdina. Ég á við Björgólf yngri Rússabruggara sem átti sæti á listanum og Jón Ásgeir var svo næstur Íslendinga að komast á hann ;)

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2010 kl. 21:57

3 Smámynd: Gústaf Níelsson

Nú spinnast flóknir örlagaþræðir Svanur Gísli, enginn vafi. Stóra spurningin nú, er sú, hvort Jón Ásgeir er aðeins götustrákur, hrappur og þrjótur, snjall "con man" eða maður með sómatilfinningu, sem vill frið við samborgara sína. Maður sem velur ófrið, þegar friður er í boði, er flón. En kannski er enginn friður í boði, eða hvað? Hvað heldur þú Svanur Gísli að verði val Jóns Ásgeirs, flótti eða friður?

Gústaf Níelsson, 12.7.2010 kl. 22:14

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Blessaður Gústaf og þakka þér athugasemdina.

Sem stendur bjóðast Jóni engin grið. Í Bretlandi er hann öfundaður "viking raider", í USA "mr. nobody" og hér heima, "herra skúrkur".- Hann veit sjálfsagt hug manna til sín og reynir hvað hann getur til að halda einhverju eftir af því sem honum tókst að aunla saman með misjöfnum meðulum, vitandi að hann á í fá eða engin skjól að venda önnur en þau sem hann hefur efni á að kaupa með lausafé.  Um hríð velur Jón því að "flýja".

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2010 kl. 23:04

5 Smámynd: Gústaf Níelsson

Gerum ráð fyrir því að Jón Ásgeir sé ekki ólíkur öðrum dauðlegum mönnum, bæði breyskur og hrasgjarn, er vilji þó endurheimta glatað traust og tiltrú, Svanur Gísli. Á maður í hans stöðu nokkurn annan möguleika en að leggja spilin á borðið og biðja um fyrirgefningu syndanna og skilning samborgara sinna. Ég held að því yrði ekki illa tekið. Hvað heldur þú? Mín vegna má hann fara í hundskjaft, en illt er ef góðir drengir  lenda þar af óþörfu. Nú fyrst reynir á hann, ekki satt?

Gústaf Níelsson, 12.7.2010 kl. 23:19

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Mikið rétt Gústaf að nú reynir á hann. Ég held samt að nokkur tími verði að líða áður en JÁJ verði tilbúinn í að gera upp málin á hreinskilin hátt hér umslóðir og einnig þangað til einhver verður tilbúin til að hlusta á hann. - Þetta er dálítið eins og tragískt ástarævintýri milli hans og þjóðarinnar. Hann var ástmögur hennar sem "skaffaði vel" en sveik hana svo í tryggðum. Það tekur tíma að vinna traustið aftur, eina kynslóð eða svo.

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2010 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband