Hvað er Glamúrpía?

Því meira sem ég hugsa um þessa frétt, því merkilegri finnst mér hún.

Hún gefur innsýn inn í heima sem greinilega eru vaðandi í fordómum, og þar er ég engin undantekning.

Hún vekur fólk til umhugsunar um samband föður og afkvæmis og nútíma hemilslíf.  

Hún tekur til hluta sem ekki eru í umræðunni dagsdaglega en hafa verulegt fræðslugildi fyrir alla í nútíma fjölkynja samfélagi.

Samt er það eitt sem ég skil ekki. Hvers vegna er hún kölluð "glamúrpía"?


mbl.is Pabbi Völu Grand í vandræðalegri uppákomu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mario 25 ára

MarioÍ aldarfjórðung hefur hann bjargað konungsdætrum, gætt sér á sveppum og hoppað á vondu kallana, en aldrei gert við svo mikið sem einn vask. Hér er auðvitað verið að tala um heimsins frægasta pípara, Mario, sem verður 25 ára um þessar mundir.

Það er eflaust erfitt að finna einhvern sem yfirleitt spilar tölvuleiki, sem ekki hefur spilað í það minnsta einn af Super Mario leikjunum.

Litli Ítalinn með risastóra yfirskeggið hefur skemmt tölvuleikjaspilurum frá því 13. September 1985 þegar fyrsti Super Marios Bros leikurinn kom á markað fyrir Nintendo leikjatölvurnar.

Leikurinn seldist í meira en 40 milljónum eintökum og skildi eftir hrúgu af gullpeningum í kistum hönnuðanna.

Í fyrsta leiknum þurfti hetjan að ferðast um átta borð í Sveppalandi, til að bjarga Froskaprinssessunni frá hinni illu skjaldböku Bowser. - Þetta voru tímar sakleysis í tölvuleikjunum, löngu áður en bílaþjófar og morðingjar urðu að aðal söguhetjunum.

Þótt veröld Mario hafi breyst mikið með þróun tölvuteikninga og leikjatölva, hefur formúla leiksins haldið sér, jafnvel þegar að Mario og félagi hans settust undir stýrið í Super Mario Kart.

Mario og félagi hans Luigi, sem oft vill gleymast, eru alltaf jafn vinsælir eins og  sölutölur nýjasta leiksins;  Super Mario Galaxy 2, sanna.

Mario var skapaður fyrir Nintendo af þeirra fremsta hönnuði Shigeru Miyamoto. Hann nefndi hetjuna eftir Mario Segale, yfirsmið Nintendo vöruhússins sem þá var í byggingu.

Reyndar kom Mario fyrst fram árið 1981 í Donkey Kong leiknum og þá (haldið ykkur fast)  sem trésmiður. Hann var kallaður Jumpman, að sjálfsögðu  vegna þess að hann hoppaði svo mikið. Í Donkey Kong Junior, sem kom á eftir, var Mario meira að segja einn af vondu köllunum.

Til hamingju með áfangann Mario!

 


Brennu frestað, ekki aflýst.

Hafi þessi sveita-predikari ætlað sér að verða frægur í 15 mínútur, þá hefur honum tekist það og gott betur. Honum hefur tekist að fá alla helstu ráðamenn Bandaríkjanna og fjölda annarra ríkja til að bregðast við heimskulegum hótunum sínum um að brenna Kóraninn opinberlega.

En viðbrögð fjölmiðla og síðan stjórnvalda eru enn heimskulegri. Fjölmiðlar hafa blásið málið út og gefið bókabrennu-prestinum predikunarstól sem nær yfir alla heimsbyggðina þar sem aðrir ofstækisfullir predikarar og klerkar nota hótun hans sem tækifæri til að espa upp meira hatur gegn Bandaríkjunum. -

Það eru fyrst og fremst fjölmiðlarnir sem ráða framvindu fréttarinnar, frekar enn nokkur annar. Ráðamenn eru milli steins og sleggju. Þeir vilja ekki láta ásaka sig um að hafa ekkert aðhafst en eru um leið tregir til að grípa til beinna aðgerða og viðurkenna þannig að einn maður geti með hótunum einum saman knúið þá til beinna afskipta.

Á öllum helstu fréttamiðlum heimsins er þetta fyrsta frétt dagsins. Staðreyndir málsins skipta engu, enda margar útgáfur af þeim núþegar í umferð. Ólíklegasta fólk hefur blandað sér í málið, þ.á.m. Donald Trump, Páfinn og  jafnvel Tony Blair.

Í Pakistan hafa bandarískir fánar verið brenndir á götum úti og búist er við að efnt verði til götumótmæla víða um hinn íslamska heim.

Hvernig heim byggjum við þegar einhver einn einstaklingur getur haldið voldugasta ríki veraldar í nokkurs konar gíslingu og valdið múgæsingu og ofbeldisöldum í fjarlægum löndum með því einu að brenna bók, verknaði sem er ekki einu sinni ólöglegur í landi hans?

Brennuklerkurinn hefur nú lýst því yfir að múslímar hafi svikið loforðið sem honum var gefið um að byggja ekki mosku á 0 grund í New York, ef hann féllist á að aflýsa brennunni.  Þess vegna hafi hann ekki aflýst bókabrennunni, aðeins frestað henni þar til hann fái tækifæri til að fljúga til New York og ræða við Múllana þar.

Obama Forseti hyggist halda blaðamannafund í fyrramálið og þar mun þetta mál eflaust verða mál málanna.

 


mbl.is Hættur við Kóranabrennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr heilkennið

"Ég er eins og ég er" segir Jón Gnarr. Og ekki nóg með það heldur hefur hann umboð kjósenda til að vera eins og hann er.

Það er Jón Gnarr heilkennið. Jón Gnarr er engum líkur, sem betur fer. Annars væri hann ekki borgarstjóri.

Hefðbundrnir pólitísusar eru að fara á límingunum út af því að maðurin hagar sér ekki eins og þeir.

Þeir eru ekki enn búnir að fatta það að þeim og þeirra aðferðum var hafnað.

Það er engan höggstað að finna á Jóni Gnarr.

Hann sagði í gríni að hann skoðaði klám á netinu. Hann sagði það til að gera grín af hefðbundum pólitíkusum sem alltaf leggja sig fram um að segja eitthvað sem hljómar vel.

Svo hefur hann læknisfræðilega skýringu líka, svona til vara. Hann er haldinn Tourette heilkenninu.

 


mbl.is „Ég er og verð óviðeigandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að elska Jón Gnarr

Það eru margir sem elska Jón Gnarr og enginn vafi leikur á að Jón Gnarr elskar þá á móti. Jón Gnarr hefur þann hæfileika að koma sífellt á óvart. Það gerir hann skemmtilegan. Einhverjum líkar samt illa við það. Þeir vilja alltaf eitthvað sem þeir kannast við. Eitthvað fyrirsjáanlegt. Jón Gnarr gerir þessa gagnrýnendur sína óörugga. Þeir vita ekki hvernig á að bregðast við hinu óhefðbundna. Þeir eru svo hefðbundnir sjálfir.

Nú segir Jón Gnarr nota netið aðallega til að horfa á klám.

Ef hann sagði það í raun og veru, er um tvennt að ræða. Það er satt eða það er ósatt.

Ef að það er ósatt, þarf Jón ekki að hafa neinar áhyggjur. En ef það er satt og rétt haft eftir, er aðeins um tvennt að ræða;

Jón var að meina það sem hann sagði eða að hann var að grínast.

Ef hann var að grínast þarf hann ekki að hafa áhyggjur, því allir vita að hann má og getur grínast með allt og alla. En ef hann var ekki að grínast er ekki um tvennt að ræða, heldur fjölmargt. Já of margt til að telja upp hér.

 


mbl.is Ætlar aldrei aftur til Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burning love

Hvað gagna fortölur þegar frægð og frami er í boði? Jafnvel eitthvað af peningum. Þessi kótelettu predikari er sama um afleiðingarnar. Hann ætlar að brenna bækurnar, hverju sem raular.

Þetta er jú svoooo táknrænt. Dö..

Guð á sko eftir að sjá logana rísa upp til himins og verður eflaust að forða sér til að brenna ekki sjálfur.

Lygin er komin hálfan hringinn í kringum hnöttinn þegar sannleikurinn er enn að binda á sig skóna.

En hverjum er ekki sama?

Mandear geta brennt Tóruna, Nýja testamentið og Kóraninn. Trú þeirra er elst og þeir afneita öllu trúarbrögðum sem komið hafa eftir að bók Adams sem er þeirra trúarrit, var opinberuð.  

Gyðingar geta brennt Nýja Testamentið og Kóraninn. Þeir viðurkenna ekki Krist og ekki Múhameð eða rit þeirra.

Kristnir geta brennt Kóraninn en ekki Tóruna því þeir viðurkenna Móses .

Múslímar verða að láta allar þessar bækur í friði af því að þær eru hluti af ritningu sem þeir telja af guðlegum uppruna. 

En þeir geta í staðinn, eins og oft áður,  skemmt sér við að brenna rit Bahái trúarinnar sem eru yngstu trúarbrögðin í þessari seríu.


mbl.is Bókabrennan enn á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingar og bókstafurinn

Felix Bergsson lætur að því liggja að Færeyingar flæmi úr landi flesta samkynhneigða landa sína. Ef það er raunin, eiga Færeyingar við alvarlegt þjóðarmein að etja og vafasamt hvort hægt sé að telja þá með í hópi siðmenntaðra vestrænna þjóða.

Þeir virðast hvorki fara að lögum eigin lands og þar með ekki eftir eiginlegum boðskap Nýja Testamentisins eins og tilvitnunin hér að neðan sýnir. Færeysk lög banna misrétti á borð við það sem Felix lýsir. -

Að auki er það nokkuð ljóst að Þjóðfélag sem hyggist byggja siðferði sitt á bókstaf kristninnar að öll leiti, og hafa að engu þá mildi og manngæsku sem í anda hennar er að finna, á enga möguleika á að verða nokkurn tíman sjálfstæð þjóð eða fullvalda ríki. -

Hvernig ætlar t.d. þjóð sem trúir bókstaflega eftirfarandi orðum Biblíunnar nokkurn tíma að verða sjálfstæð?:

Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði. 2Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn. 3Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdsmennina, heldur sá sem vinnur vond verk. En viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöldin, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim. 4Því að þau eru þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa. 5Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar.

6Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta. 7Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber. -

 Rómverjabréfið 13. 1-7


mbl.is Ótrúlegir fordómar í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skamm skamm á Alþingi

Stundum geta þingmenn þjóðarinnar bara ekki meira. Pirringurinn og óánægjan í samfélaginu er farin að segja til sín í þingsölum. Sýndarleikurinn er sem á að varveita virðugleika þeirra og heiður er orðin svo þrúgandi og leiðinlegur og hið rétta eðli þingmanna verður að fá að brjótast út.

Það gerist af og til og þá verða umræðurnar svipaðar og í sandkassanum á róló eða á leiðinlegum bloggsíðum um trúmál eða pólitík.

Nei.

Jú víst.

Nei.

Jú víst.

Sannaðu það!

 

 


mbl.is Og skammastu þín Árni Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jenis af Rana og siðgæðið

Jenis av Rana hefur tekist að hreyfa við einhverju í þjóðarsál Íslendinga sem legið hefur í dvala í nokkra hríð.  

Þegar að ég bloggaði á sínum tíma um að Jóhanna Sig. væri  (svo vitað sé) fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann í heiminum, sögðu margir í athugasemdum að kynhneigð hennar skipti akkúrat engu máli.

Samt þótti heimspressunni það eitt merkilegt við kjör Jóhönnu að hún væri samkynhneigð.

Þegar að bandaríska tímaritið TIME valdi áhrifamestu konur heims setti það Jóhönnu meðal hinna fremstu, einkum vegna kynhneigðar hennar.

Þá var fussað og sveiað á Íslandi.

Margir Íslendingar vilja ekki þurfa að horfast í augu við kynhneigð Jóhönnu.

Þeir segjast ekki vilja skipta sér af því sem gerist í svefnherbergi fólks. Það er gott að vera ekki nefið ofan í hvers manns koppi. Eru Íslendingar virkilega orðnir svona siðferðilega sótthreinsaðir. 

Einkennilegt hvað mörgum örðum en okkur finnst kynhneigð Jóhönnu merkileg.

Margir sjá kjör hennar sem forsætisráðherra sem skref fram á við í réttindabaráttu samkynhneigðra. -

Margir sjá líka kjör Jóhönnu, eins og Janis, sem ögrun við kristið siðferði. Þeir taka ofan fyrir Jenis fyrir að vilja ekki sitja til borðs með konum sem eru giftar hvor annarri.

Og svo eru þeir sem segja að kynhneigð hennar, opinberar heimsóknir með konu sinni, skipti engu máli, svo fremi sem hún vinni starf sitt af kostgæfni. Og hverjir eru sammála um að svo sé raunin í dag?

 


mbl.is Jenis ætti að skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingur á hvolfi

Jenis av Rana er kristinn maður. Konan hans er kristin kona. Kristni þeirra krefst þess af þeim að þau sitji ekki til borðs með samkynhneigðri konu. Sérstaklega ekki samkynhneigðri konu sem býr með annarri konu. Og alls ekki samkynhneigðri konu sem býr með annarri konu og er kosin af þjóð sinni til að leiða hana veginn fram til góðs. - Það misbýður kristni Jenis og konu hans mikið og þau eru ekki í þann mund að tapa sál sinni fyrir það að sitja til borðs með syndurum af hennar sort.

Jenis sýnir þarna að hann hefur kristin gildi. Sjálfsagt hefði hann heldur ekki setið til borðs með Faríseum og  tollheimtumönnum ef hann hefði verið gyðingur á tímum Krists. Og hann hefði glaður tekið þátt í að grýta hóruna. Það er af því að hann er syndlaus. Hvernig annars má skilja þessa afstöðu hans öðruvísi, að geta ekki setið til borðs með Jóhönnu Sigurðadóttur?

Eða kannski er hann ekki syndlaus heldur  bara á hvolfi. 


mbl.is Neitar að sitja veislu með Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minni en sá minnsti?

Edward Nino Hernandez er 24 ára. Hann er sagður minnsti maður heims ( 70 cm) og fékk þann titil eftir að Kínverjinn He Pingping (74 cm)  lést s.l. mars. Þá er til þess tekið að Edward sé 4 cm minni en He var. Titillinn er miðaður við að fólk sé orðið 18 ára eða eldra. Því hlýtur Edward að hafa verið minnsti maður heims í um fjögur ár, á sama tíma og He hélt titlinum.
mbl.is Minnsti maður heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í besta lagi

Af fréttum í ágúst mánuði mátti draga þá ályktun að miklu meiri fjöldi hefði sagt sig úr þjóðkirkjunni. Sagt var frá löngum biðröðum og svo miklu álagi að starfsmenn önnuðu ekki að skrá allar úrsagnirnar.

Eitthvað hefur þetta verið orðum aukið, því aðeins rúmlega þrjú þúsund manns sögðu sig úr Þjóðkirkjunni. - Þetta segir okkur að  jafnvel þeim sem þóttu ásakanirnar á hendur Ólafi Skúlasyni fyrrverandi biskupi, og frammistaða núverandi biskups Karls Sigurbjörnssonar  í því máli,  engan vegin ásættanleg, telja mikill meirihluti þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni það ekki nægjanlega ástæðu til að yfirgefa hana.

Spurningin sem situr eftir, er hvað þarf mikið af innviðum kirkjustarfsins og trausti almennings á kirkjunni að bresta til að það yfirgefi hana. Það er greinilega ekki nóg að margheiðraður leiðtogi hennar hafi reynst vera kynferðisafbrotamaður og að núverandi biskup hafi bæði í mæltu máli og riti, gert mikil mistök þegar hann reyndi að hylma yfir malið og fara með rangfærslur til þess að varpa efasemdum a framburð þeirra sem ásökuðu herra Ólaf.

Þetta hljóta að vera skilaboð til kirkjunnar þegna um að allt sé í besta lagi innan kirkjunnar og það sem úrskeiðis hafi farið sé vel hægt að leiðrétta með einhverjum hætti.


mbl.is Mikil fækkun í þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynlíf í geimnum

Stephen Hawking og fleiri virtir vísindamenn hafa bent á það í bókum sínum að framtíð mankyns geti oltið á því hversu vel því tekst að lifa í aðstæðum þar sem þyngdaraflsins gætir lítið eða ekki. Fyrst og fremst hafa þeir í huga langar geimferðir.

Líklegt er að mannkynið þurfi fyrr eða síðar að leggja á sig slíkar geimferðir til að leggja undir sig nýjar plánetur og gera þær að heimili sínu. Ferðirnar eru svo langar að mannkyninu mun reynast nauðsynlegt að viðhalda sér með einhver konar tímgun á meðan á þeim stendur. 

Þrátt fyrir að vísindamenn hafi bent á þetta, hefur enn verið lítið fjallað um þennan þátt geimferða og enn minna reynt til að rannsaka hann. Þá liggja nánast engar upplýsingar fyrir um áhrif langvarandi þyngdarleysis á fóstur.

Tvö einNokkrar umræður um þetta spennandi rannsóknarefni fóru í gang 1989 eftir að gabb-skýrslu sem gengur undir heitinu "skjal 12-571-3570" var dreift um heiminn. Margir trúðu skjalinu sem fjallaði um kynlífs tilraunir sem NASA var sögð hafa staðið fyrir í geimnum.

Samkvæmt skjalinu áttu þátttakendur í tilraununum að hafa reynt mismunandi samræðis-stellingar í þyngdarleysi. Tíu þeirra voru útlistaðar sérstakalega og sex þeirra voru taldar raunhæfar, en þær notuðu ákveðin hjálpargöng eins og belti og uppblásinn göng.

Þá fengu þessar sérstöku kynlífspælingar byr undir báða vængi þegar að hjónin Mark C. Lee og Jan Davis, bæði þrautþjálfaðir bandarískir geimfarar, flugu út í geiminn í rannsóknarerindum. Þau hafa samt aldrei staðfest að um kynlífsrannsóknir hafi verið að ræða.

Þá má eining geta þess að í fyrstu kynblönduðu geimferðinni sem farin var á vegum Sovétríkjanna sálugu árið 1982, lék sterkur grunur um að  Svetlana Savitskaya sem einnig var fyrsta konan sem fór í "geimgöngu" hafi átt vingott við karl geimfarana sem tóku þátt í ferðinni og þannig í geimnum orðið fyrstu meðlimir 100 km.( 62 mílu)  klúbbsins svo kallaða. Svipaður orðrómur komst aftur á kreik árið 1990 þegar að Elena Kondakova og  Valery Polyakov, rússneskir geimfarar dvöldu samtímis um hríð í rússnesku geimstöðinni MIR.   

Samkvæmt bestu heimildum hafa kynlífrannsóknir í geimnum aldrei farið fram. Miðað við hugsanlegt mikilvægi slíkrar þekkingar, er það með ólíkindum. Kannski hugsa menn sem svo að nægur tími sé til stefnu eða að óþarfi sé að rannsaka hluti sem sjái um sig sjálfir.


Marsbúa cha cha cha

Ísland úr NATOÖgmundur hefur hitt marsbúana. Hann hefur lært að að drekka súkkulaði, borga gamlar skuldir  og slappa af í baði.

Greinilega ekki allir búnir að gleyma gömlu loforðunum.

Loks er hann kominn í tandurhreina vinstristjórn. Einhverjir af með-ráðherrunum tóku eflaust þátt í keflavíkurgöngunum á sínum tíma, aðrir hafa örugglega blístrað Nallann 1.Maí. Nú er komið að því að standa við stóru orðin.

Valdið til að láta reyna á þjóðarvilja í þessu máli, er óskorað, eins og er. Nú skal nota tækifærið og koma þessu gamla barrátumáli í framkvæmd.


mbl.is Íhugi þjóðaratkvæði um NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað veit Stephen Hawking?

Stephen Hawking segir ljóst að Guð skapaði ekki heiminn, sé eftir honum rétt haft í þessari frétt. Mér sýnist hann samt aðeins vera að fást við þá tegund af Guði sem sagður er hafa valið jörðina sem heimili fyrir mannkynið og skapað allt í röð og reglu fra upphafi. -

Hugmyndir fólks um Guð eru mjög mismunandi og til eru hugmyndir sem ná langt út fyrir þá skilgreiningu sem Hawking virðist taka mið af í þessari nýju bók sinni. Til dæmis gefur Hawking sér að tilvist þyngdarafls geri skapara óþarfan og að "sjálfsurð" sé því möguleiki. Væntanlega hefur Hawking verið ljóst að þyngdaraflið var til, þegar hann lýsti því yfir í fyrri bók sinni að Guð væri ekki ósamrýmanlegur vísindalega skoðuðum heimi. Hvernig sem því er varið verður næsta spurning þá; hvaðan kom þyngdaraflið?


mbl.is Ljóst að Guð skapaði ekki heiminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítlegt eðli

Það er stórfurðulegt og um leið upplýsandi að lesa sum bloggin við þessa frétt. Þingkona lætur eitthvað gróft flakka í gríni. Hún kemst að því að það var hljóðritað og heldur að það geti komið sér í koll. Hún biðst innilega afsökunar opinberlega og allir pólitísku bloggararnir setja upp flokksgleraugun til að ámæla henni eða hrósa, eftir því hvaða lit gleraugun þeirra bera.

Er það staðreyndi að fólk sé orðið það ringlað að það getur ekki hugsað sér að horfa á neitt nema í gegnum þessi gleraugu?

Hreppapólitíkin hér áður fyrr þótti oft rætinn og skensið flaug á milli pólitíkusana, oft í bundnu máli, og oft á nokkuð gróft. Það heyrir sem betur fer fortíðinni til að mestu.

Enda kunna fæstir stjórnmálamenn nú til dags að setja saman stöku, hvað þá annað.-

Í seinni tíð hafa menn að mestu varað sig á að segja ekki neitt ljótt opinberlega. Það er orðið svo sjaldgæft að fólk man enn eftir því þegar að einhver þingmaður sagði um annan að hann hefði skítlegt eðli.....sem er næstum því að segja honum að hoppa upp í rassgatið á sér...eða þannig.


mbl.is „Ég biðst innilega afsökunar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissa og pirringur

Fyrirsögnin á fréttinni er "Óvissa meðal ráðherra". En óvissan teygir sig miklu lengra,  til þjóðarinnar allrar. Óvissa og pirringur eru aðaleinkenni íslensks samfélags í dag.

Jóhanna Sig. og ríkisstjórn hennar finnst greinilega nóg komið af þessum látalátum með "fagráðherra" í ríkisstjórn. Það var spunabragð af þessum útnefningum á sínum tíma og nú er ljóst að gripið var til þeirra úrræða til að lægja óánægjuöldur almennings með pólitískar stöðuveitingar til fólks sem ekkert hefur til bruns að bera annað en að hafa unnið dyggilega fyrir flokkinn í einhvern tíma. Það er ljóst að um sýndaleik var að ræða.

Eins er með nýju lögin um fjármögnun stjórnmálaflokka. Þar var greinilega aldrei meiningin að breyta neinu í grundvallaratriðum. Í þeim er tryggt að fólk geti áfram keypt sér áhrif og stöður innan flokkanna.

Það var heldur aldrei meiningin að kalla saman stjórnlagaþing sem gæti starfað án beinna áhrifa stjórnmálaflokkanna.

Grímurnar falla ein af öðrum af samtryggingarkerfi fjórflokksins og ríkisstjórn Jóhönnu. Samtímis renna á almenning tvær grímur. Óvissa kemur í stað bjartsýni, pirringur í stað umburðalyndis.

 

 

 


mbl.is Óvissa meðal ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsókn fyrir opnum tjöldum

Sem fyrr er mér umhugsað um það hvers vegna rannsókn þessa máls fer nú fram fyrir svo til opnum tjöldum. Óttast menn ekkert að sá grunaði verði dæmdur fyrirfram af almenningi? Ef að rannsóknin væri á lokastigum og sekt hans þætti nægilega sönnuð til að gefa út ákæru, mundi þurfa að greina frá helstu þáttum ákærunnar. En nú virðist málið afar snúið, ýmsir möguleikar í stöðunnni og yfirheyrslur yfir sakborningi tæpast hafðar. Þá er algjörlega ósvarað spurningum um sakhæfi. - Fólk gæti alveg spurt sig, hver verður staða þessa unga manns ef hann reynist saklaus eða ósakhæfur?  


mbl.is Myndir frá Vogum skoðaðar í morðrannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kórkódílatár Tony Blair.

Það er erfitt að ímynda sér Tony Blair hryggan. Sérstaklega út af ákvörðunum sem hann tók og var svo sannfærður um að "hann væri að gera rétt". Mikill meiri hluti bresku þjóðarinnar var á öðru máli. Það skipti Blair engu. Hann vildi stríð og í stríð fór hann. Margt bendir til að hann hafi haldið að honum tækist að réttlæta ákvörðun sína eftir að búið var að hengja Saddam Hussein. Það tókst honum ekki. Allt fór í kalda kol í Írak og ekki sér enn fyrir endann á ósköpunum, jafnvel þótt breskir og bandarískir hermenn séu á leiðinni heim.

Spunameistarar Blair, sem stóðu sig vel þegar hann var enn við völd, vita að ekkert gengur eins vel í Breta eins og að sjá menn sem hafa hreykt sér hátt, brjóta odd af oflæti sínu. Þeir mega heldur ekki sýnist kaldir gagnvart örlögum þeirra sem þeir hafa fórnað.

Þegar að Blair var yfirheyrður af rannsóknanefndinni sem fer nú yfir stríðsreksturinn, var til þess tekið hversu iðrunarlaus hann var. Úr þessu reynir hann að bæta í þessari bók sinni og smyr þykkt á. - Blair er sorgmæddur yfir því að fólk hefur dáið í stríðinu sem hann trúði á. Hann er sorgmæddur, en hann iðrast einskis. Hann hefur enn rétt fyrir sér.


mbl.is Hryggur vegna fórnarlamba í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterki leiðtoginn

 Jón Gnarr er að reyna að hætta að reykja. Andstæðingar hans gera mikið úr því að hann viðurkennir, af þeim sökum, að vera pirraður út í sjálfstæðismenn. Þeir eiga bágt með að skilja hvernig maður í pólitískri ábyrgðarstöðu getur leyft sér að tjá sig á heiðarlegan hátt um sjálfan sig. Þeir segja það merki um veikleika og vanhæfni. Þeir eru vanir því að pólitíkusar afneiti statt og stöðugt breyskleikum sínum og kenni öðrum um ef eitthvað bjátar á. Þeir eru vanir hinum sterka leiðtoga, sem aldrei viðurkennir mistök. 

Persónulega finnst mér Jón Gnarr maður meiri fyrir að viðurkenna að nikótínleysið hafi áhrif á hann. Styrkleiki hans sem leiðtogi felst í heiðarleika hans, ekki hversu góður hann er í að hylma yfir galla sína.


mbl.is Pirringur vegna nikóktínfíknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband