Hvernig verður utanþingsstjórn til

Til að utanþingsstjórn geti orðið að veruleika þarf annað tveggja að koma til. Það fyrra er að efnt verði sem fyrst til kosninga og í þeim verði flokkum veitt svo rækileg ráðning að fylgi þeirra nánast þurrkist út,  líkt og gerðist á Ítalíu fyrir nokkrum árum.

Hin aðferðin er mun fljótlegri, þ.e. að fá þá til að draga sig í hlé. Til þess þyrfti ríkisstjórnin sem fyrst að biðjast lausnar, svo að forseti Íslands geti skipað utanþingsstjórn til að skipuleggja og halda utan um endurreisn efnahagslífsins.

Utanþingsstjórn er í þingræðisríki ríkisstjórn sem tekur við völdum tímabundið þegar ekki tekst að mynda ríkisstjórn eftir hefðbundnum lýðræðislegum leiðum af einhverjum ástæðum. Utanþingsstjórnir eru skipaðar beint af þjóðhöfðingja og stjórna með stuðningi eða hlutleysi löggjafarvaldsins.

Þorvaldur Gylfason segir svo um utanþingsstjórnina 1942-44 sem er eina skiptið sem slík stjórn hefur verð skipuð á Íslandi.

Íslendingar hafa einu sinni búið við utanþingsstjórn, í miðju stríði 1942-44. Hún var skipuð vegna þess, að þingflokkarnir komu sér ekki saman um myndun meirihlutastjórnar. Ríkisstjóri Íslands þurfti því að taka af skarið og skipaði stjórn undir forsæti dr. Björns Þórðarsonar, héraðsdómara í Reykjavík. Björn hafði boðið sig fram til þings 1927 fyrir Framsóknarflokkinn, en ekki náð kjöri. Með honum í stjórninni sátu við fimmta mann Björn Ólafsson stórkaupmaður, sem var tengdur Sjálfstæðisflokknum og síðar þingmaður hans 1948-59, og Vilhjálmur Þór, forstjóri SÍS og síðar seðlabankastjóri, nátengdur Framsóknarflokknum. Utanþingsstjórnin var í daglegu tali kölluð "Coca Cola"-stjórnin, þar eð eigendur verksmiðjunnar voru Björn Ólafsson og Vilhjálmur Þór, holdgervingar helmingaskiptanna.

Utanþingsstjórn nú yrði líkt og fyrr litin hornauga á Alþingi. Sex ráðuneyti myndu duga: forsætis, utanríkis, fjármála, heilbrigðis- og menntamála, atvinnuvega (byggða, iðnaðar, landbúnaðar, sjávarútvegs, viðskipta), og innanríkis (dóms, kirkju, félagsmála, samgöngu, umhverfis).


Útgönguleið Jóhönnu

Jóhanna og Steingrímur eru komin í þrot. Þau eru að leita útgönguleiða. Í raun vilja þau nýjar kosningar. Þeim varð það ljóst í gærkveldi að hjá þeim yrði ekki komist nema að þau mundu bjóða stjórnarandstöðunni með í stjórn og Það vildu þau alls ekki.  

Að kalla stjórnarandstöðuna á sinn fund, til að gera þeim grein fyrir að allt yrði með sama hætti og fyrr er liður í útgönguáætlun þeirra. Nú geta þau sagt að allt hafi verið reynt en stjórnarandstaðan hafi ekki viljað hjálpa neitt og því verði að efna til nýrra kosninga. -

Kosningabaráttan er í raun hafinn. Jóhanna notar sömu frasana í dag og hún notaði fyrir síðustu kosningar. - Spurningin er hvort þjóðin er sé tilbúin í eina umferð enn af þessum pólitíska hráskinnaleik.


mbl.is Vilja ekki breyta um stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merki um uppgjöf Jóhönnu

Sjaldan eða aldrei hef ég séð jafn mikla uppgjöf og ráðaleysi skína af líkamstjáningu nokkurrar stjórnmálamanneskju, eins og Jóhönnu Sigurðadóttir í þingsal í gærkvöldi. Ég fylgdist grannt með henni þar sem hún sat gugginn, gráhærð og gömul, undir stöðugri gagnrýni á störf hennar.

Höfuð hennar seig stöðugt neðar niður á bringuna og á tímabili hélt ég að hún væri annað hvort að sofna eða hefði látið bugast. Jóhanna er undir gríðarlegu álagi. Hún veit sem er að tilraunir hennar til þess verks sem henni var falið af þjóðinni, hafa mistekist.

Hún veit líka að allir aðrir vita að henni hefur mistekist og hún getur hvergi falið sig. Það hlýtur að sitja illa í konu sem leit á sig sem samvisku þjóðarinnar, konu sem aldrei gaf upp vonina um að komast til verulegra áhrifa í samfélaginu til að gera því gott. Jóhanna veit að hún er konan sem allir treystu og trúðu á en hefur nú orðið samviskulausri pólitíkinni að bráð.

Hinum megin við ræðupúltið sá ég reyndar að það var álíka komið fyrir Steingrími J.

Hann starði á borðröndina með krepptar greipar eins og sakamaður sem er að bíða eftir dómi sínum. Steingrímur er baráttujálkur. Hann er vanastur að berjast fyrir réttlætismálum.

Nú er honum ljóst að hann hefur látið plata sig. Hann hefur ekki lengur réttlætið að leiðarljósi, aðeins pólitíkina. -

Næst á dagskrá er að mynda þjóðstjórn. Bæði Jóhanna og Steingrímur þurfa að víkja úr sætum sínum sem leiðtogar. Katrín bíður þess albúin að leiða Vinstri græna og eins og stendur skiptir ekki máli hver leiðir Samfylkinguna svo fremi sem það er ekki Jóhanna.


mbl.is Þór: Stefnuræða í miðri byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættuleg hugmynd

Sé það rétt greining hjá Einar Mar stjórnmálafræðingi að stjórnmálakreppa sé í landinu, má alveg færa fyrir því nokkuð góð rök að sú kreppa sé aðeins hluti af þeirri kreppu sem ríkir almennt í landinu.

Pólitíska kreppan er  tilkomin m.a. af því að alþingismönnum er ætlað að skipta sér upp í lið, með og á móti. Allir verða að þykjast vita hvað þeir eru að gera, hvort sem það er satt eða ekki.

Nú bregður svo við að enginn virðist vita hvað á að gera og því  þrasa pólitíkusarnir út í loftið til þess eins að hylja það að þeir vita ekki hvernig á að bregðast við vandanum. Ef þú heyrir stjórnmálamann gagnrýna látlaust "andstæðinga" sína, er það ekki vegna þess að það sem hann segir er staðföst skoðun hans, heldur að hann veit ekki hvernig á að leysa málin.

Önnur ástæða kreppunnar er að margir stjórnmálmenn gera sér ljóst að vangeta þeirra til að finna lausnir við vandamálunum sem að steðja, er tengs því að stjórnmálaflokkarnir hafa koma því til leiðar að ákvarðanir varða að vera teknar á þröngum pólitískum grunni, ekki með hag almennings í huga. Þeir vita að ef þeir ættu að vinna þjóðinni gagn gegnheilt, mundu þeir verða að ganga úr flokknum. Og ef allt ætti að vera eins og best gæti orðið, væri best að banna stjórnmálaflokkum að bjóða fram og tak þess í stað upp persónukjör. Það veldur alltaf kreppu hjá fólki að tala gegn betri vitund.

En þetta er mjög hættuleg hugmynd. Að hægt sé að velja meðlimi löggjafrasamkundu sem síðan mundi velja ríkisstjórn án þess að stjórnmálaflokkar þurfi nokkuð að koma við sögu, er einnig framandi hugmynd.   Kæmi slíkt til framkvæmda mundi það raska öllum valdahlutföllum í landinu og gera flokkseigendurnar og þá sem fjármagna starfsemi þeirra, valdalausa. Í öðru lagi er hugmyndin svo róttæk að hún hræðir fólk. Fólk er tilbúið að ganga í gegnum ótrúlegar þjáningar, frekar en að breyta kerfinu sem það býr við. Í því m.a. fest styrkur flokkseigendanna. Þeir vita að fólk er hrætt og hræðsla skapar kreppu.


mbl.is Stjórnmálakreppa í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur hefur tekið við hlutverki stjórnarandstöðunnar

Þórs Saari bar af öllum þeim tóku til máls á Alþingi í kvöld. Ræða Baldvins Jónssonar var líka ágæt. Hann benti á það sem er skelfilegast við aðstæðurnar, að engir betri kostir eru raunverulega í stöðunni eins og komið er,  þar sem tækifærinu til að koma á persónukjöri hefur verið fyrirgert. Þjóðarstjórn virðist nú eini raunhæfi kosturinn. 

Þór var hvassari. Hann virtist vera sá eini sem endurómaði að einhverju leiti kröfur þeirra þúsunda sem börðu ílátin fyrir utan þinghúsið. Þór talaði tæpitungulaust og skammaði alla þingmenn jafnt. Þeir áttu það skilið.

Ótrúlegur uppgjafatónn var í stjórnarliðum enda gera þeir grein fyrir að þeim hefur mistekist ætlunarverk sitt. Gömul meðul duga ekki. Bæði Sjálfstæðisfólkið og Framsóknarmenn virtust ekki vita í hvern fótinn átti að standa. Þeir reyndu að gagnrýna enn vissu að um leið voru þeir að gagnrýna sjálfa sig og engar nýungar höfðu þeir með í farteskinu.

Fólk gerir sér í auknum mæli grein fyrir því að efnahagsbati og réttlæti i þjóðfélaginu veltur á að gamla flokkspólitíska hugafarinu sé mokað út.

Krafan um Þjóðstjórn verður sjálfsagt ofaná eins og komið er. Þessi stjórn er í andarslitrunum. Almenningur hefur tekið að sér hlutverk stjórnarandstöðunnar og mun eflaust halda því áfram þar til viðunandi lýðræðisumbætur verða að veruleika.

 


mbl.is „Stúta réttaríkinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eggjabylting í aðsigi

Búsáhaldabyltingin hefur magnast og er orðin að eggjabyltingu.  Fólk hamstarar nú egg til þess að eiga nóg til að kasta í þinghús og þingmenn hvar sem þeir sjást á vappi í kvöld.  Nærliggjandi verslanir við Austurvöll segjast hafa selt allar eggjabyrgðir sínar s.l föstudag þegar að þingsetningin fór fram. Nú hafa þeir keypt inn miklu meira magn og eru við öllu búnir í kvöld, enda búist við miklum her eggjaþeytara á Austurvöll. - Ísfirðingar eru hógværari. Þeir ætla að láta gamla búsáhaldabarninginn duga.

Þótt mér finnist eggjakast mjög vafasöm mótmælaaðferð, tek ég undir með þeim sem þakka fyrir á meðan þetta eru ekki grjóthnullungar.


mbl.is Mótmæla á Ísafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir H. Haarde skal fórnað

Ansi er ég hræddur um að almenningur, hvað þá þeir sem hyggjast ætla aða sækja málið gegn Geir Haarde, verði að herða hjarta sitt til að sjá þetta mál til enda. Það þarf að hafa einbeittan vilja til að sakfella mann fyrir að gera nákvæmlega það sem allir aðrir voru að gera í kringum hann.

Hræsni pólitíkusa sem halda að það sé einhver friðþæging fólgin í því að fórna Geir, er svo auðsæ og pínleg að almenningur hlýtur að skammast sín fyrir það eitt að hafa nokkru sinni kallað eftir réttlæti. 

Og slæm samviska allra sem að komu er farin að segja til sín. 

Það var skelfilegt að sjá niðurlúta þingmenn við þingsetninguna, ganga sneypugönguna frá dómkirkjunni yfir í þinghúsið, berskjaldaðir fyrir eggjum og tómötum fólksins sem þeir hafa svikið. Hvílík hneisa, og hvílík skömm.

En hvaða önnur þjóð mundi gefa almenningi kost á að hæða þingmenn sína á þennan hátt. Það var eins og þeir væru þarna til að láta refsa sér.

Hvaða öryggisgæsla annars lands mundi gefa æstum lýð möguleika á að komast í slíkt návígi við æðstu stjórnendur landsins?

Að þessu leiti er Ísland eintakt. Allt er svo einfalt og augljóst.

Dorit forsetafrú var eins og hún væri að leika í bíómynd. Leikur hennar er ávalt svo einlægur. Hún starði sleginn út yfir æstan múginn eins og hún vildi segja;  ég gref hjarta mitt við undað auga, er þetta virkilega orðið svona slæmt? Sama fólkið og sló búsáhöldin fyrir rúmu ári er mætt aftur og hrópar "Vanhæf ríkisstjórn". Hvað vill þessi skríll eiginlega?

En hvað fær gott og heiðarlegt fólk yfirleitt til að vera þingmenn, vitandi að eina leiðin til þess er að koma sér fyrir í einhverjum flokknum, læra að spila refskákina og taka þátt í óheiðarleikanum sem harðkóðaður er í alla flokkspólitík. Fólk sem veit af reynslunni að flokkakerfið sem það starfar eftir er megin sundrungaraflið í samfélaginu.  Niðurlæging Geirs er einmitt niðurlæging hins pólitíska kerfis sem hann starfaði fyrir. Með því að ásaka Geir er fólk að ásaka sjálft sig.

 


mbl.is Ekki sekur frekar en Brown eða Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eggjahræra og eldar við Austurvöll

Vonleysið í augum mótmælenda við Austurvöll í dag var augljóst. Reiðin líka. En hvað gagnar að mótmæla þegar engar lausnir eru í sjónmáli? 

Allar klisjurnar eru orðnar svo þreyttar að það er vafasamt að hægt sé að segja eitthvað um "ástandið" sem ekki hefur verið sagt margoft áður. Róbert Marshall er samt ekkert smeykur við að hafa þær yfir, aftur og aftur. Fyrir fáeinum mánuðum voru allir búnir að fá leið á þessu "hvelvítis fokking fokki" eins og það var orðað. Eða var það bara þreyta? Er fólk virkilega reiðubúið að hoppa aftur á hringekjuna?

Forsetinn reyndi við þingsetninguna að telja kjark í þingmenn. Hann sagði að Ísland væri á góðri leið. Orð hans í þingsal hljómuðu ósannfærandi því fyrir utan hrópuðu 2000 raddir "Út með ruslið!" -

Gott og vel, mokum ruslinu út. En hvað á að koma í staðinn?

Hverjar eru lausnirnar og hverjir eru lausnararnir sem eiga að frelsa Ísland frá sjálfu sér? -

Allir vita að rótin að vandanum sem Íslendingar glíma við er harðkóðaður í það stjórnkerfi sem við búum við. Það er ekki hægt að stjórna landinu í gegnum stjórnmálaflokka án þess að beita einhverja þegna þess misrétti. Þeir sem ekki sjá þetta eru hluti af vandmálinu, ekki lausninni.

Stjórnmálaflokkar eru valdaklíkur sem hafa það eitt að markmiði að viðhalda völdum sínum eða komast til valda. Forsprakkar þeirra vita að þeir þurfa að slá um sig með lýðskrumi til að almenningur kjósi þá. Og almenningur fellur fyrir þessu, aftur og aftur.  -

Af hverju? Af hverju trúir almenningur því að þessi úrelta stjórnskipan sé það besta sem lýðræðið hefur upp á að bjóða?

Nú t.d. sér stjórnarandstaðan sér leik á borði og vill að kosið sé aftur. Þeir vonast til að komast aftur til valda.

Ef að fólk vill raunverulegar breytingar ætti það að sameinast um þá kröfu að stjórnmálaflokkar fái ekki að bjóða fram til kosninga. Persónukjör er það eina sem getur komið í veg fyrir endalausa flokkapólitík sem er orsök þess að nauðsynleg sátt um aðgerðir, ekki hvað síst á þessum tímum, næst aldrei á alþingi.

PS.

Hugmynd mín var að blogga ekki aftur fyrr en ég hefði lokið við framhaldsgrein mína um "heimsfræðina". Henni er enn ekki lokið, en það styttist í hana og ég stóst ekki mátið:)


mbl.is „Ekki til farsælda ef reiðin ræður för“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nauðsyn að eitthvað sé til frekar en ekkert?

Lykilspurningin í heimsfræðinni er; "Hvers vegna er eitthvað til frekar en ekkert?".

Hafi alheimurinn orðið til eins og við vitum best, þ.e. með "mikla hvelli", gerðist hann ekki á sama hátt og aðrir atburðir gerast í alheiminum. Sá atburður gerðist ekki í tíma eða rúmi því hvoru tveggja varð til með alheiminum. Ekkert sem við þekkjum getur gerst nema það gerist í tíma og rúmi og lúti lögmálum þessa alheims, hvort sem við þekkjum þau eða ekki.  Hvað gerðist fyrir 20,000,000,000 árum, þegar að alheimurinn er aðeins 13,000,000,000 ára er því mótsagnarkennd og merkingarlaus spurning.

En gæti alheimurinn hafa orðið til úr öðrum alheimi? Er mögulegt að til séu óendanlega margir alheimar og að engin þeirra hafi átt sér frumorsök? Óendanleiki er og getur ekki verið ákveðin tala. Það er ekki hægt að draga frá óendanleika eða bæta við hann. 1 plús óendanleiki er sama sem óendanleiki. Hvernig getur þá okkar alheimur verið viðbót við eitthvað sem er óendanlegt?

Ef við blöndum heimspekinni inn í þessar spurningar, kemur eftirfarandi "mótsögn" í ljós.

Ef við segjum að Guð sé óskapaður en sé sjálfur skapari, er hann óumflýjanlega frumorsök alls. En skapari getur ekki verið til án þess að hafa skapað eitthvað sem hefur sjálfstæða tilvist fyrir utan hann. Hafi skaparinn alltaf verið til, erum við um leið að segja að sköpunin hafi alltaf verið til.

Til að hægt sé að tala um "sjálfstæða tilvist" á merkingarfullan hátt þarf að gera ráð fyrir vitsmunum sem eru nægilega miklir til að mynda bæði hlutlæg og óhlutlæg hugtök. Þess vegna gerum við ráð fyrir Guði sem hefur a.m.k. slíka vitsmuni.  Þess vegna getum við einnig gert ráð fyrir að sköpun Guðs hljóti að hafa verið ferli frá hinu óhlutlæga til hins hlutlæga. Hugmynd er fyrra stig sköpunarinnar, hluturinn sjálfur í hlutlægu formi annað stig.

Af þessum sökum er líklegt að sá alheimur sem við þekkjum sé hluti af óendanlegri keðju alheima og hann eins og aðrir alheimar hafi ætíð verið til. 

"Stórihvellur" getur því aðeins markað upphaf alheimsins sem hlutlægs veruleika. Sem hugmynd hlýtur hann alltaf hafa verið til sem og aðrir alheimar Guðs.

En megin spurning  heimsfræðinnar er "hvers vegna er eitthvað til frekar en ekkert?" en ekki hvernig varð eitthvað til. Spurningin hvers vegna; gefur til kynna tilgang.

Fram til þessa hafa engar betri tilgátur komið fram til að svara þeirri spurningu en að gera ráð fyrir tilvisst Guðs og að alheiminum, sköpun hans, gefi hugsanlega eitthvað til kynna um hann sjálfan annað en það eitt að hann sé til.

Um það ætla ég að fjalla í næstu færslu; Nauðsyn þess að eitthvað til frekar en ekkert.


Fylgt af höfrungum

amd_swim_philippe-croizonEins og sést á þessari mynd notaði Philippe Croizon sérhannaðar blöðkur sem festar eru á fætur hans til að knýja sig áfram. Þá fylgir einnig fréttinni að stóran hluta ferðarinnar hafi Philippe verið fylgt af höfrungum.

Við lestur fréttarinnar varð mér hugsað til þess að þótt vísindunum fleyi fram á degi hverjum, hefur okkur ekki tekist að fá fá útlimi mannsins til að endurýja sig.

Sum froskdýr búa yfir þeim eiginleika að geta endurnýjað útlimi sína. Ef útlimur er skorinn af salamöndru, þá geta frumurnar sem eftir verða myndað nýjan útlim. Það sem meira er, hinir mismunandi hlutar útlimanna verða til á réttum stað. Ef skorið er af við fót endurnýjast einungis fóturinn en ef skorið er við hné endurnýjast bæði leggurinn og fóturinn og tærnar snúa rétt og eru á réttum stað. Fyrst eftir að útlimur salamöndru hefur verið skorinn af vex þunnt lag af útlagsfrumum yfir sárið og lokar því. Eftir nokkra fjölgun þessara fruma hefst afsérhæfing frumanna beint undir sárinu, þær losna frá hver annarri og genatjáning þeirra breytist. Frumurnar hafa í raun fengið aftur einkenni fósturfrumanna og geta því hafið myndun vefja á ný.

 


mbl.is Ótrúlegt afrek fatlaðs manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaframleiðsla ehf.

Líffæraþjófnaðir sem fyrir 40 árum voru aðeins til í flökkusögum og vísindaskáldsögum eru í dag tiltölulega algengir. Sagan af Indverjanum sem vaknaði upp á Heathrow flugvelli með sár á kviðinum  og eitt nýra er ekki lengur eins ótrúleg og hún var 1970 þegar hún gekk um heiminn. Þá er líffærasala tiltölulega algeng þrautalending fátækra Indverja og suður Ameríkubúa. -

Fyrir fáeinum dögum birtust fréttir um að vísindamönnum hefðu tekist að búa til gervi-legsem mannfóstur getur vaxið í. Með tilkomu slíkrar þekkingar mun eftirspurn eftir okfrumum og eggjum kvenna aukast. Og þar sem hver kona hefur aðeins takmarkaðan fjölda slíkra eggja, má leiða að því líkur að því að erfiðara sé að fá þau en sæði karlmanna. Að ræna kveneggjum verður daglegt brauð eins og hver annar líffæraþjófnaður. Þegar til staðar eru egg, sæði og leg er ekkert að vanbúnaði að hefja framleiðslu á börnum.

Með auknum möguleikum á að halda lífi í fóstrum utan konulegs, þarf ekki endilega að skilgreina slíkt lífi sem mennskt og þá er komin möguleiki á að framleiða fóstur til niðurrifs fyrir líffæra og líkamshlutaþega.

Brave New World!


mbl.is Stálu eggjum kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klofin tunga ♫♫♪♫

Það er ekki alltaf hið óvenjulega og fáséða sem grípur athygli okkar. Þótt boðið sé upp á hvoru tveggja í bókinni Snákar og eyrnalokkar eftir japönsku stúlkuna Hitomi Kanehara, er það fyrst og fremst næmt innsæi hennar sem heldur fólki við þessa stuttu bók uns henni er lokið. 
Bókin hefur verið gefin út á íslensku og umfjöllun um hana má finna hér. og hér.

klofintungaSnákar og eyrnalokkar varð metsölubók og Kanehara þá tuttugu ára, varð yngsti höfundurinn til að hljóta hin frægu Akutagawa bókmenntaverðlaun.

Stelpan sem segir söguna í bókinni heitir Lui og er 19 ára –  Hún er með dellu fyrir líkamsgötun, og fellur fyrir Ama vegna þess að honum hefur smám saman tekist að búa til svo stórt gat á tunguna á sér með sífellt stærri pinnum að það var enginn vandi að lokum að kljúfa tungubroddinn. Klofna snákstungan í honum heillar Lui og hún ákveður að gera eins.

Við lestur bókarinnar var mér títt hugsað til þess að meðal sumra Indíána-ættflokka í norður Ameríku merkir "að tala með klofinni tungu" að segja ósatt. Á Íslandi þekkjum við að orðatiltækið "að tala tveimur tungum".

KloftungaÓheiðarleikinn tengdur gaffaltungu á í vestrænum samfélögum örugglega rætur sínar að rekja til sögunnar af Adam og Evu. Eva var tæld af orminum til að tæla Adam til að eta af ávexti skilningstrénu sem svo var til að þau gerðu sér grein fyrir hvað var gott og hvað illt. Fyrir utan slöngur og snáka er það aðeins Kólibrí-fuglinn sem hefur klofna tungu.

Vinsældir klofinna tungna fara vaxandi meðal ungs fólks, en það getur verið dýrt að láta lýtalækni framkvæma aðgerðina. Margir gera það því sjálfir og eru til nokkrar aðferðir. Þú þarft að geta þolað sársauka í miklu mæli. Það tekur margar vikur að kljúfa tunguna og aðferðin er afar sársaukafull.  Ein er þessi;

1. Gerið gat á tunguna með pinna. Látið gatið gróa með pinnanum. Það tekur allt að mánuði fyrir gatið sárið að gróa. Ekki er hægt að kljúfa tunguna án þess að byrja á að gata hana.

2. Þræddu grannt girni í gegnum gatið og bittu endana saman við tungubroddinn. Athugaðu að það þarf að herða vel á girninu.

3. Þegar losnar á girninu sem ætti að vera á 3-4 daga fresti, skerðu það burtu og setur í nýtt og herðir að.  

4. Þannig heldurðu áfram uns tungan er næstum klofinn í tvennt að framan. Þetta getur tekið allt að 8 vikur. Þú notar síðan rakvélablað eða skurðhníf til að skera síðasta haftið.

6. Þá taka við æfingar með tungunni. Fljótlega muntu geta hreyft sitthvorn tunguhlutann sér og þú getur talað án vandræða.


Kristið umburðarlyndi?

Séu þær ásakanir sem komið hafa fram sannar, hafa tvær stærstu kirkjudeildir kristinnar trúar á Íslandi, Evangelíska Lúterska Kirkjan (Þjóðkirkjan) og Kaþólska Kirkjan verið samtímis undir stjórn kynferðisafbrotamanna. 

Árið 1989 var Ólafur Skúlason kjörinn biskup Íslands og gegndi hann þeirri þjónustu til ársins 1997. Gijsen,  sá sem fjallað er um í meðfylgjandi frétt, varð biskup kaþólskra hér á landi árið 1996 og gegndi því embætti í nærri 12 ár, eða til 2008.

Kynferðisafbrot kristinna klerka, sem sumir hverjir hafa náð æðstu stöðum, hafa komið fram í flestum löndum heims þar sem kristni hefur á annað borð náð einhverri útbreiðslu. Afbrotamenn virðast leynast ansi víða í skjóli hempna sinna og þöggunar samfélagsins.

Leitin að þeim minnir reyndar um margt á aðferðirnar sem kirkjan sjálf notaði um langt skeið til að koma á eldköstinn fjölda kvenna og karla sem ásökuð voru um galdra eða jafnvel samneyti við kölska sjálfan. Aðeins þurfti að benda fingri til að rannsóknarrétturinn tæki til starfa við að pína játningu út úr farlama konum og sérvitrum körlum.

Þá kemur einnig upp í hugann hin víðtæka og langa leit að stríðsglæpamönnum seinni heimstyrjaldarinnar og viðleitnin til að láta þá svara til saka, jafnvel þótt þeim hafi tekist að fela sig í mörg ár.

Páfinn Benedict XVI segist harma mjög þann sársauka sem hirðarnir hans hafa valdið hjörðinni. Hann harmar eflaust einnig að hafa ekki beitt sér gegn prestinum Stephen Kiesle í Oakland, California sem hann vissi vel að var barnaníðingur. Árið 1981 var Joseph Ratzinger þá kardináli, nú Benedict XVI Páfi, yfirmaður nefndarinnar sem áti að fjalla um kynferðisafbrot kaþólksra presta. Þrátt fyrir að strax væri lagt til að Stepen yrði sviptur hempunni, þráaðist Ratzinger við í sex ár og bar við "the good of the universal church,”.

 Benedict XVI er á leið til Bretlands um þessar mundir.

Þar verður honum eflaust vel fagnað að Richard Nelson Williamson Biskupi sem er vel þekktur helfararafneitari. Richard var bannfærður fyrir bragðið af forvera núverandi páfa árið 1988 en Benedict XVI aflyfti þeirri bannfæringu í Janúar 2009 án þess að biskupinn léti af helfararafneituninni. - Umburðalyndur maður hann Joseph Ratzinger.


mbl.is Fyrrum biskup kaþólskra kærður fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burqa, tákn um kúgun

Hvað eftir annað rekst maður á umfjöllun um Burqa búning múslímakvenna og slæðuna sem oftar en ekki fylgir þessum  búningi. Í hugum margra er spurningunni hvort Burqa sé "fangelsi" eða "vernd" fyrir konuna ósvarað. Skoðum aðeins söguna.

Í Kóraninum er hvergi minnst á Burqa. Múhameð bauð fylgjendum sínum að virða reglurnar um "hijab"sem átti upphaflega við tjaldvegg sem hengdur var umhverfis vinnusvæði og vistarverur kvenna í hálfköruðum búðum Spámannsins í Medína eftir flótta hans frá Mekka. Reglurnar voru einfaldlega þær að karlmennirnir áttu að halda sig utan tjaldveggsins fyrir utan málsverðartíma nema þeir væru sérstaklega boðnir. -

"Ó þið sem trúið. Komið ekki í híbýli spámannsins til að matast fyrir utan viðeigandi tíma, nema að þið hafið fengið til þess leyfi. En ef ykkur hefur verið boðið, komið þá og þegar máltíðinni er lokið, hverfið þá á braut. Staldrið ekki við til samræðna, því það veldur spámanninum ama og að biðja ykkur um að fara er honum feimnismál; en Guð er ekki feiminn við sannleikann. Og þegar að þið biðjið konur spámannsins um eitthvað, gerið það handan tjalds. Þetta er hreinna fyrir ykkar hjörtu og þeirra."

Þessi einföldu tilmæli Múhameðs til fylgjenda sinna áttu eftir að hafa víðtæk áhrif. Um leið og hann dróg eðlileg efnisleg mörk milli fjölskyldu sinnar og átrúendanna lagði hann félagslegan grundvöll að aðgreiningu stétta og aðgreiningu kynjanna. Tjaldið sem að greina átti vistarverur kvenna spámannsins frá almúganum var fljótlega fært að andliti þeirra og blæjan sem var í fyrstu vernd þeirra og skjól, varð að tákni stöðu þeirra í samfélaginu.   Í 33. Versi 35 súru er sú staða skírð. "

 "Karlmenn eru verndarar og forsjáendur kvenna. Vegna þess að Guð hefur gefið öðru þeirra meira en hinu og vegna þess að þeir sjá fyrir fyrir þeim með getu sinni. Þess vegna eru réttsýnar konur innilega undirgefnar og gæta þess í fjarveru þess sem Guð ætlar þeim að gæta."

windowslivewriterphotosthatchangedtheworld-9d70par131896 Á fyrstu öld Íslam gengu kvenmenn hvorki í burqa búningum né báru þær almennt andlitsslæður. Þær klæddust samt oft, eins og kynsystur þeirra af öðrum trúarbrögðum, (kristni og gyðingdómi) höfuðklútum (Khimar) einkum til að skýla sér frá hita. Slíkir klútar þjóna líka til að uppfylla trúarlega skyldu í öllum þremur trúarbrögðunum sem boða að hylja beri höfuðkoll sinn fyrir Guði.

Í Íslam eru múslímar hvattir til að sýna hógværð í klæðnaði, bæði karlmenn og kvenmenn. Kvenmenn eru hvattir til að klæða "fegurð" sína af sér og er þar átt við brjóst, hár, axlir og handleggi.  Smá saman var farið að beita ákvæðum "hijab" til að móta klæðnað kvenna á almannfæri. Tjaldið sem umlukti hýbýli þeirra var fært upp að andliti þeirra og líkamir þeirra umvafðir þeim. Ef þær þurftu að ferðast var þeim gert að hýrast í Hovda (tjaldhýsi á hesti eða úlfalda).

Í gegn um aldirnar hefur andlitsslæðan og burqa búningurinn tekið á sig mismunandi myndir. Konur Mullahnna (prestaanna) og virtra kennimanna Íslam gerðu sér far um að sýna guðrækni sína og bónda síns með því að klæðast eftir ströngustu túlkunum og við það varð klæðnaðurinn að einskonar hefðarkvennabúningi.

Þegar að Íslamska heimsveldinu tók að hnigna, tóku Persar og Arabar upp afar einstrengingslega stefnu í öllum málum hvað varðaði rétt kvenna til menntunar og sjálfræðis. Misrétti varð að almennri reglu frekar en undantekningu. Samtímis varð andlistslæðan og burqa búningurinn að tákni um kúgun þeirra.

Bhutto_Benazir Í löndum Íslam í dag er samt mjög misjafnt hvernig konur og menn þeirra álíta að þessum reglum Kóransins sé fullnægt. Víst er að mestu öfgunum var náð í valdatíð Talibana í Afganistan.

Sumar konur klæðast aðeins Khimar höfuðklútnum, aðrar klæðast niqab sem er bæði höfuð, háls og andlitsslæða. Þá velja sumar að klæðast Chador sem er létt útfærsla á burqa. Í sumum löndum múslíma eins og Pakistan eru engin lög í gildi um klæðnað kvenna.

Sá búningur sem varð seint á síðustu öld einskonar árétting rétttrúnaðar Íslamskra kvenna, ekki hvað síst á Vesturlöndum þar sem þessi klæðaburður var í auknum mæli gagnrýndur, var hannaður í Afganistan.

Holland var fyrsta landið í Evrópu til að banna burqa-búningin á opinberum vettvangi en til þess er hann  einmitt ætlaður. Múslímar klæðast allt örðum klæðnaði heima hjá sér. 

Þessi grein er endurbirt í tilefni þessarar fréttar.


mbl.is Frakkar setja bann við búrkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefið Liu Xiaobo frelsi

Það er sérkennilegt hve líkamlegt hugrekki er algengt í þessum heimi en siðferðislegt hugrekki svo afar sjaldgæft.  ~Mark Twain

Jón Gnarr borgarstjóri krefst þess af stjórnvöldum í Kína með bréfi til Liu Qi, fyrrverandi borgarstjóra Peking (1999-2003) og formanns undirbúningsnefndar Ólympíuleikkanna í Peking og núverandi  aðalritara kínverska kommúnistaflokksins,  að þau láti lausan kínverska fræðimanninn og andófsmanninn Liu Xiaobo.

Liu Xiaobo var handtekinn árið 2008 og ári síðar dæmdur í 11 ára fangelsisvisst m.a. fyrir að safna undirskriftum undir mannréttindayfirlýsingu  (Charter 08) sem krafðist mikla endurbóta á mannréttindum í Kína.

S.l. Janúar útnefndu; Václav Havel, Dalai Lama, André Glucksmann,  Vartan Gregorian,  Mike Moore, Karel Schwarzenberg,  Desmond Tutu, og Grigory Yavlinsky, Liu Xiaobo.til friðarverðlauna Nóbels 2010.

Utanríkisráðherra Kína Ma Zhaoxu sagði útnefninguna "alranga". Geir Lundestad, ritari Nóbels nefndarinnar svarði með því að nefndin mundi ekki taka mið af andstöðu Peking.

Jón Gnarr hefur nú skipað sér á bekk með örfáum stjórnmálaleiðtogum heimsins sem hafa með opinberum og formlegum hætti krafist frelsis fyrir Liu Xiaobo.


mbl.is Jón Gnarr gagnrýnir Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slangan og Abstrakt hugsun

Abstrakt (óhlutlæg) hugsun er oft sögð andstæða hlutlægrar hugsunar sem er þá takmörkuð við eitthvað sem er áþreifanlegt. Óhlutlæg hugsun gerir fólki kleift að hugsa í huglægum hugtökum og alhæfingum og gera sér grein fyrir að hvert hugtak getur haft margar meiningar. Með slíkri hugsun er hægt að sjá munstur handan hins auðsjáanlega og nota það til að draga ályktanir af fjölda hlutlægra hluta til að mynda flóknar hugmyndir. Til dæmis eru allar stærðfræðiformúlur skammtafræðinnar eru óhlutlægar. Tenging óhlutlægra hugtaka er einnig forsenda hugmynda mannsins um Guð.

Sem dæmi um mismuninn milli óhlutlægrar og hlutlægrar hugsunar er málverk af konu sem heldur á kyndli.(Frelsisstyttunni)  Sá sem hugsar ummyndina hlutlægt sér ekkert annað en konu sem heldur á kyndli en sá sem hugsar óhlutlægt gæti sagt að málarinn hafi ætlað sér að tjá frelsi.

Getan til að hugsa óhlutlægt hefur verið með mannkyninu í meira en 100.000 ár. Elstu Abstrakt steinristurnar sem vitað er um eru um 70.000 ára gamlar.

Elstu mynjar um átrúnað manna af einhverju tagi eru einnig taldar vera 70.000 ára. Um er að ræða höggmynd af slöngu sem fannst í helli á "Fjalli guðanna" í Botsvana.

Átrúnaður tengdur snákum og slöngum er afar útbreiddur um heiminn. Neikvæð ímynd slöngunnar er eingöngu tengd hlutlægri hugsun okkar um dýrið. Með óhlutlægri hugsun verður slangan/snákurinn að tákni fyrir; Vetrarbrautina og alheiminn, eilífðina, visku og þekkingu, hið dulda og endurfæðingu svo eitthvað sé nefnd.

Í Gyðingdómi, Kristni og Íslam er það snákurinn sem fær frummanninn til að skilja og gera sér grein fyrir muninn á góðu og illu. Kristur talar um visku hans; "Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur" Matt.10.16.

Í slöngunni sameinast hið dýrslega og hið guðlega, hið hlutlæga og hið óhlutlæga. Hún er dýrseðlið á einu sviði, hið guðlega á öðru,og hið mannlega sem sameinar hin tvö á hinu þriðja.

Slangan er auk þess augljóst reðurtákn og sem slíkt frjósemistákn. Hún tengist þannig kvenfrjósemistáknum og trú fólks á mátt þeirra.  Eitt þeirra er t.d.  hestaskeifan sem er eftirherma af hinum "guðlegu sköpum" sem fætt gat af sér hinn endurborna og uppljómaða mann.

Margir kannast við söguna Af Niels Bohr þá hann var staddur í húsi vinar síns og sá að hann hafði hengt upp skeifu fyrir ofan dyrnar á skrifstofu sinni. Skeifu sem þannig er komið fyrir á að færa húsráðendum lukku. Bohr spyr vin sinn;  " trúir þú virkilega á þetta?" Vinurinn svaraði; "Ó nei, ég trúi ekki á þetta. En mér er sagt að það virki jafnvel þótt þú trúir ekki á það."

 


Slátrunarsiðir Islam og Íslands

Í fréttinni er minnst á Halal slátrun, en þá er átt við allt það sem rúmast innan og er leyfilegt miðað við lög Íslam.

Þegar kemur að slátrun er notað  lagahugtakið Dhabīḥah sem tilheyrir íslamskri lögfræði.

Þau lög ná yfir það sem múslímar mega ekki leggja sér til munns og hvernig ber að slátra þeim skepnum sem þeir eta.

Dhabīḥah kveður á um að ekki skuli eta; dýrahræ, blóð, svínakjöt og allt það kjöt af skepnum sem slátrað hefur verið án þess að minnast hins eina sanna Guðs, nema kameldýra, engisspretta, fiska og flestra sjávardýra. Þessi lög eru byggð á fyrirmælum Kóransins í súru Al-Maidah 5:3

Dhabīḥah kveður á um að öll dýr (einnig fiskar) skuli stinga á með einni stungu á slagæðina á hálsinum og tæma dýrið á öllu blóði, enda er blóð með öllu bannað til matar. Meðan dýrinu er að blæða út má ekki meðhöndla það á neinn hátt. Aðferð þessi er kölluð Thabiha. Slátrun er álitin trúarleg athöfn og áður en stungið er á slagæðinni er þessi setning höfð yfir: "Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama."

Halal matvæli þurfa að uppfylla lög Múslima og eru Dhabīḥah lög þeirra á margan hátt svipuð lögum Gyðinga að því leyti að aðeins ákveðnar dýrategundir eru leyfðar og að þeim verður að slátra með ákveðnum hætti. Þess vegna eru Kosher matvæli gyðinga Halal (leyfileg).

Landbúnaðarráðuneytið leyfir dhabihah slátrun á Íslandi, svo lengi sem að dýrið sem er verið að slátra hafi verið svipt meðvitund með raflosti svo það finni ekki sársauka. Á Íslandi hefur sauðfé verið slátrað í litlum mæli með þessari aðferð fram að þessu.

Sauðfé er deytt með pinnabyssu eða svipt meðvitund með raflosti áður en það er stungið til að láta því blæða út.

Nautgripir og hross eru deydd með pinnabyssu. Aflífun sláturdýra með kúlubyssum er orðin mjög sjaldgæf vegna þess að sú aðferð er talin hættuleg fyrir starfsfólk og ætti alls ekki að nota hana.


Svín eru almennt deyfð með raflosti hér á landi. Rannsóknir hafa sýnt að aflífunaraðferð hefur áhrif á gæði svínakjöts. Víða erlendis, í stærri sláturhúsum, eru grísir deyfðir með koldíoxíði.

Alifuglar eru deyfðir með raflosti og deyddir með því að láta þeim blæða út eftir hálsskurð.


Hér á landi er ekki heimilt að skera dýr á háls við slátrun nema þau hafi fyrst verið deyfð eða deydd. Samkvæmt trúarsiðum strangtrúaðra múslima (halal slátrun) og gyðinga (kosher slátrun) má ekki aflífa sláturdýr áður en þau eru skorin á háls eða stungin til að láta þeim blæða út. Þegar notuð er haus – haus aðferð við raflostdeyfingu sauðfjár ranka kindurnar við sér aftur, ef þeim er ekki látið blæða út. Þessi aðferð uppfyllir kröfur íslenskra stjórnvalda um að sláturdýr séu meðvitundarlaus og finni ekki sársauka þegar þau eru hálsskorin og kröfur múslíma.


mbl.is Fé slátrað að hætti múslima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynþáttafordómar enn og aftur.

Kynþáttafordómar? Nei, ekki hér á landi. Allavega ekki neitt til að hafa áhyggjur af. Ofbeldi vegna kynþáttafordóma? Því síður.

Einhverjir geta verið dálítið gamaldags í hugsun, en engum mundi detta í hug að flæma fólk í burtu af landinu.

En einmitt það gerðist hér og ekki í fyrsta sinn. Samt er fólk í afneitun á að slíkt eigi sér stað á litla friðsæla Íslandi.

Kynþáttafordómar eru útbreiddir meðal Íslendinga en þeir fara leynt. Þeir sem verða fyrir þeim eiga erfitt með að tjá sig um þá og þeir sem eru haldnir þeim, neita að horfast í augu  við það. Það er einmitt eðli kynþáttfordóma. Fólk veit ekki einu sinni að það er haldið þeim.


mbl.is Feðgar flýðu land vegna hótana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Shit happens

Þrír fyrrum ráðherrar segjast engu hafa getað bjargað og að hrunið og kreppan sem því fylgdi, hafi ekki verið þeim að kenna. Ég er alveg sammála þeim. Þeir eru saklausir. En þeir sleppa samt ekki svo létt úr snörunni.

Það er ekki sanngjarnt að allir þeir sem töpuðu á hruninu þurfi að sætta sig við að það hafi ekki verið neinum að kenna. Einhver verður að axla ábyrgðina. Einhver verður að borga. Einhver verður að taka á sig sökina. Við viljum alvöru blóraböggla.

Og eins og við öll vitum, gerast stundum mistök. Það voru greinilega mistök sem ollu hruninu og kreppunni. Stundum bitna mistökin á almenningi og stundum á þeim sem segjast vera ábirgir fyrir stjórn landsins. Nú er kominn tími til að mistökin bitni smá á þeim.

Eða eins og þeir segja á enskunni; Shit happens and What Goes Around.../...Comes Around.


mbl.is Átti ekki þátt í hruninu og gat ekki komið í veg fyrir það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kyssa fætur

 Ég er sammála því að Difkat Khantimerov breytti níðingslega gagnvart skjólstæðingum sínum og átti skilið að vera rekinn úr starfi. En það er athyglisvert að á sumum stöðum þykja fótakossar enn sjálfsögð aðferð til að votta einhverjum virðingu sína.

Páfinn kissir fæturHerra Difkat Khantimerov er frá Bashkortostan héraði í Rússlandi. Héraðið hefur verið byggt múslímum að mestu frá 14 öld. Að kyssa fætur klerka og kennimanna í Íslam er viðtekinn siður, jafnvel þótt réttmæti hans sé umdeilt meðal íslamskra fræðimanna. Bent er á að í Kóraninum sé sagt frá því að fólk hafi kysst fætur spámannsins. - En flestir eru sammála um að slík undirgefni eigi aðeins að sýna spámanninum sjálfum, ekki venjulegum mönnum.

En hafi Arabar þegar tileinkað sér siðinn þegar að Múhameð kemur fram með sínar kenningar, er það ekki undarlegt. Hann var víðtekinn meðal kristinna klerka, og varð að viðteknum hirðsið meðal kristinna konunga fljótlega eftir að þeir komust til valda í Asíu og Evrópu, enda ríktu þeir í umboði Guðs.  Kristnir menn fundu þessum sið réttlætingu í heilagri ritningu þar sem segir;

Konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona. Jesaja 49:23

koss auðmýktarÞað ku það vera siður í Vatíkaninu að kyssa fætur páfans við ýmis tækifæri. Kardínálarnir gera það eftir að nýr páfi hefur verið valinn og í einkaviðtölum páfa, kyssa gestkomandi fætur hans. Ekki er langt síðan að Páfi sjálfur ákvað að "sleikja duft fóta" einhvers klerks, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

 

 

 


mbl.is Rekinn fyrir að niðurlægja unglinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband