11.4.2013 | 23:36
Ill öfl innan Sjálfstæðisflokksins
Bjarni Ben segir að öfl innan flokksins hans, séu að gera að honum aðför. Hann segir að stuðningsmenn Hönnu Birnu láti gera kannanir sem sýni að flokknum mundi ganga betur í næstu kosningum ef hún væri stjórinn.
Maður sem á sér slíka vini, sem halda í höndina á manni sigrihrósandi á landsfundi, en undirbúa svo launráð, þarf ekki óvini.
Nema auðvitað að Hanna Birna viti ekkert hvað helstu stuðningsmenn hennar aðhafast, sem er afar ólíklegt.
Hún er að verða alvöru pólitíkus sem kann að horfa í aðra átt þegar ódæðisverkin eru framin, svo fremi að hún hagnist á því á einhvern hátt.
Þessi lúalega aðför að Bjarna varð til þess að hann íhugar nú að hlaupast undan merkjum.
Allt fyrir flokkinn auðvitað.
Svo er hugsanlegt að hann sé líka mannlegur og svíði soldið undan vanþakklætinu í flokksystkinum sínum.
Ég útiloka ekkert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.4.2013 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.4.2013 | 03:13
Allt Bjarna að kenna og þakka
Framsóknarflokkurinn er orðinn að hæli fyrir pólitískt flóttafólk úr Sjálfstæðisflokknum og víst er satt að einhversstaðar verða vondir að vera. Flóttafólkið telur að það verði finna sér afdrep þangað til Hanna Birna getur velt Bjarna Ben úr sessi sem formanni.
En geta ekki flokksgæðingar Sjálfstæðisflokksins sjálfum sér um kennt? Þeir studdu ekki Hönnu Birnu þegar hún gerði tilraun til þess að taka völdin af Bjarna fyrir skömmu, og þeir hljóta því að naga sig nú í handarbökin því formanninum þeirra hefur tekist að ná fylgi flokksins niður í sögulegt lágmark og um leið koma fylgi Framsóknarflokks í sögulegt hámark.
Á meðan Sjálfstæðismenn kenna Bjarna um hrakfarir flokksins í undanförnum skoðanakönnunum, hljóta Framsóknarmenn að vera honum afar þakklátir og er vísir til að launa honum ómakið eins og þeim er einum lagið, þegar þeir komast að kjötkötlunum.
Þeir gætu til dæmis boðið honum með sér í stjórnarsamstarf og falið honum að útfæra öll innantómu loforðin með því að setja hann yfir fjármálaráðuneytið.
Fylgið myndi aukast ef Hanna Birna væri formaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.4.2013 | 12:26
Usss, þetta má ekki fréttast strax.
Framsóknarfólki gengur vel að matreiða þessa dagana. Sigmundi og Eygló hefur tekist að brasa saman uppstúf sem fýldum Sjálfstæðisflokkkjósendum og súru Samfylkingarfólki virðast falla vel í geð. Og það verður auðvitað að viðhalda fjórflokknum hvað sem á dynur.
Eins og allir vita var næstum því búið að útrýma óværunni sem við köllum Framsóknarfólk. En nú gengur flokkurinn í endurnýjun lífdaga sem hæli fyrir pólitískt flóttafólk úr öðrum öngum fjórflokksins.
Og þótt það fólk viti sem er, að Framsóknar-uppstúfurinn og hrærigrauturinn sem vellur upp úr framsóknar-Gangnam style leiðtoganum er uppsuða á útjöskuðum og margnota kosningaloforðum, hljómar hann eitthvað svo indislega heimilislega og kunnuglega.
Og svo kemur bara ekki til greina að kjósa eitthvað ferskt. -
Þetta vita vitaskuld flokkseigendurnir, þeir Halldór, Finnur, Ólafur og Alfreð sem núa nú saman höndunum í gleði og eftirvæntingu. Þeir hafa beðið þolinmóðir við að gera sér mat úr því sem þeir náðu að öngla að sér á fyrri valdatíðum flokksins. Og nú er þeirra tími kominn aftur.
Með nýjum sakleysislegum andlitum mun flokknum þeirra takast að komast aftur til valda og þar með eru þeir, aftur komnir að gjöfulum kjötkötlunum. Mikið verður gaman þá.
Eða eins og Bjöggi mundi orða það, er hér á ferðinni ;"Nýr jakki, sama röddin"
En usss, þetta má ekki eiginlega fréttast strax.
Framsókn eykur forskotið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2013 | 12:54
Nályktin loðir við Framsóknarflokkinn
Um þetta leiti minnumst við skelfilegra afglapa forystumanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem áttu sér stað fyrir 10 árum. Ótrúlegt en satt, því þeir eru enn að. Meira en tíu ár eru liðin frá því að þeir Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson gerðu þjóðina með yfirlýsingum sínum um stuðning hennar við innrásina í Írak, meðábyrga og samseka í skelfilegri og ólöglegri styrjöld sem enn sér ekki fyrir endann á. -
Innrásin var gerð á fölskum forsendum og síðar reynt að réttlæta hana á forsendum sem innrásaraðilarnir gerðu hlægilegar með eigin hegðun í landinu þegar þeir sjálfir voru staðnir að pyntingum og fjöldamorðum.
Það var jú gott að losna við Saddam segja Írakar, en sýnu verra að sitja uppi með setuliðið.
E.t.v. vilja Íslendingar gleyma sem fyrst þessum ljóta bletti á sögu sinni og það er skiljanlegt. En það gera þeir varla með að verðlauna og hampa þeim flokkum og því fólki sem að hneisunni stóðu. Í hvert sinn sem brautargengi þeirra vex leggur fyrir vit fólks áleitin þef.
Nályktin frá Írak loðir enn við Framsóknarflokkinn og þaðan hefur ekki enn borist svo mikið sem stuna um að þeir sjái eitthvað athugavert við ódæðisverk forystusauða sinna.
Og þeir vissu fullvel hverju þeir gengu að.
"Þátttaka á lista hinna staðföstu þjóða fólst í pólitískri yfirlýsingu og henni fylgdu ekki aðrar skuldbindingar á því stigi. Þær pólitísku yfirlýsingar voru gefnar af réttum aðilum og voru í fullu samræmi við margendurteknar yfirlýsingar forustumanna stjórnarflokkanna, um að ekki væri hægt að útiloka valdbeitingu í Írak." sagði Davíð Oddson á sínum tíma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2013 | 12:19
Gervi norðurljós fyrir gervi ferðamenn
Íslendingar eru smá saman að missa áttirnar í daufu skyninu frá glóandi ferðamanna gulli. Fjöldi ólöglegra gistihúsa hefur aldrei verið fleiri, fjöldi óskráðra fólksflutninga aðila aldrei eins mikill en auðvitað hafa ferðamenn aldrei verið eins margir.
Margir hafa orðið til að harma þessa þróun, einkum það að ekki sé komið höndum yfir það skattfé sem þessum óskráðu aðilum ber að skila og því hefur þessi starfsemi sögð vitnisburður um þann óheiðarleika sem þrífst í greininni.
En það er önnur tegund óheiðarleika í tengslum við ferðaþjónustuna í landinu sem er öllu alvarlegri. Það er vaxandi tilhneiging til að halda að ferðafólki því sem ekki er raunverulegt, einskonar gerviútgáfu af Íslandi.
Í því skyni höfum við búið til gervi fornmuni og líkön af því sem áður var, sem síðan hafa aftur reynst gervilíkön. Og nú bætist við þá flóru gerviútgáfa að sjálfum norðurljósunum. - Þessar gerviútgáfur af landi og þjóð verða til fyrir þann misskilning að betra sé að bjóða ferðafólki upp á eitthvað sem ekki kann að vera ekta, í stað hins raunverulega og frekar en ekki neitt. - Og svo heyrist það líka að ef fólk er nógu vitlaust til að borga sig inn á svona gervi-upplifun, á það ekki betra skilið. Gervi ferðareynsla er fyrir gervi ferðafólk.
Það hefur löngum verið gert að því grín meðal leiðsögumanna að það væri afar heppilegt ef hægt væri að ýta á takka til að láta norðurljósin kvikna þegar það hentar. En þetta var GRÍN, ekki alvara.
Norðurljósasetur opnað í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2013 | 00:51
Óþolandi gaspur
Robert Barnard er einn þessara ferðamála-gúrúa sem segist vita hvað allt á að kosta og hvernig græða má sem mest á þeim, en þekkir í raun ekki verðleika neins þeirra. Hann notar í orðræðu sinni vel kunn blekkingahugtök viðskiptalífsins.
Leitt að vita til þess ef að einhverjir Íslendingar með gullgrafaraæði ætla að hlaupa á eftir andlausum hugmyndum slíks og álíka manna. -
Ísland hefur ótvíræða sérstöðu meðal þjóða heimsins og býr yfir aðdráttarafli sem ekkert annað land hefur. Fólk á ekki að þurfa borga gróðabröllurum og bröskurum fyrir það eitt að hafa laðast að landinu. - Verðlag á aðgengi að íslenskri náttúru á að endurspegla sanngirni en ekki hvernig hámarka má gróðann af henni.
Því miður hljómar allt sem frá Roberti Bernad kemur og þeim sem enduróma það , eins og óþolandi gaspur.
Eins og ég hef oft sagt áður ættu stjórnmálamenn og ráðgjafar þeirra að láta ferðaþjónustuna í friði og skipta sér sem minnst af henni. Hún hefur hingað til spjarað sig án afskipta þeirra, en núna þegar henni hefur loks vaxið fiskur um hrygg vilja allir Lilju kveðið hafa og eiga.
Ferðamannapassar fyrir 10 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.3.2013 | 03:28
Ekki bestu norðurljósin sem af er vetri
Víst voru norðurljósin ágæt í gærkveldi og mikil virkni í þeim um stóran hluta himinsins. Til þess var tekið að þau sáust greinilega á austurhimni nokkru áður en vesturhiminn var orðin myrkvaður.
En þrátt fyrir alla umfjöllunina sem þessi ljós fengu, voru þau samt ekki eins litrík og dansandi og ljósin sem sáust á vestur og suðurlandi þann 19. janúar s.l. og sem verða að teljast þau bestu sem sést hafa þar um slóðir , það sem af er vetri.
Það nýmæli veðurstofunnar að birta sérstaka norðurljósaspá og skýjahuluspá í tengslum við hana á netsíðu sinni, var í fyrstu talin lofa góðu. En í allan vetur hafa spárnar reynst afar óáreyðanlegar. Virknispárnar eru yfirleitt út í hött miðað við það sem svo hefur komið í ljós og skýjahuluspárnar svo ónákvæmar að þeir sem gera út á norðurljósin, fara meira eftir norsku veðurstofuspánum en þeim íslensku. Íslenska veðurstofan verður því að hysja upp um sig buxurnar í þeim efnum, ef hægt á að vera að taka mark á henni.
Veðurstofa Íslands sem ekki hafði fyrir því að uppfæra heimasíðu sína á laugardagskvöldið til að hún sýndi það veðurlag á suðvesturlandi sem þar raunverulega var, og varð því til að fjöldi fólks fólks fóru langar fýluferðir í leit að norðurljósunum, birti eftirfarandi texta á síðu sinni í gærmorgunn.
"Eins og áður hefur komið fram varð kórónugos í sólinni á föstudagsmorgun. Spár laugardagsins gerðu ráð fyrir að agnastraumur frá gosinu næði til jarðar undir kvöld á laugardag og myndi valda aukinni virkni norðurljósa þá. Þær spár gengu ekki eftir og var virknin á laugardagskvöld lítil, auk þess sem tiltölulega óvænt netjuskýjabreiða byrgði sýn til himins á V-verðu landinu.
Snemma í morgun (um 06:00 á sunnudag) mældist loksins aukin virkni norðurljósa vegna agna frá kórónugosinu og hefur virknin mælst há í dag. Ekki er hægt að njóta sýningarinnar á Íslandi því dagsbirta yfirgnæfir nánast alltaf norðurljós. Ekki er hægt að segja til um með vissu hversu lengi aukin virkni vegna kórónugossins endist, en líkur eru til að virknin verði enn mikil fram á kvöld (sunnudagskvöld). Til að fylgjast með virkninni má velja hlekkinn "Geimveðurspá" hér niðri í hægra horni og skoða rauða ferhyrninga á línuriti sem merkt er "Geimveðurspárit"."
Dansandi norðurljós | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.3.2013 | 01:51
1. apíril hjá Veðurstofu Íslands
Hundruð fólksbifreiða og tugir langferðabíla sem fullir voru af eftirvæntingarfullum ferðamönnum, óku um vegi suðvesturlands í kvöld og nótt í árangurslausri leit að norðurljósunum. Veðurstofan hafði lofað heiðskýrum himni yfir svæðinu sem samt var þakið skýjahulu sem hrannaðist upp og þéttist rétt um sólsetur, allt frá Snæfellsnesi til Mýrdalsjökuls.
Virkni og styrkur ljósanna var á sama tíma undir meðallagi, þrátt fyrir vel auglýst "Kórónugos" á sólinni sem átti að skapa fádæma skær og litrík ljós.
Reyndar skipti það ekki máli, því engin ljós sáust á svæðinu sem veðurstofan sagði þau bestu til að njóta dýrðarinnar, vegna skýjafarsins sem Veðurstofa Íslands sá ekki fyrir. Veðurstofan hirti heldur ekki um að breyta spá sinni í samræmi sem þegar var orðið, því allt kvöldið sýndi skýjahuluspá þeirra allt suðvesturlandið heiðskýrt.
Veðurstofan gerði öllum þeim sem treystu henni í kvöld, ljótan grikk og jók enn frekar á þann fjölda sem þegar finnst besta að taka spám hennar með miklum fyrirvara.
1. apríl kom snemma þetta árið hjá veðurstofu Íslands og þúsundirnar sem hlupu kunna henni litlar þakkir fyrir.
Búast má við öflugum norðurljósum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.3.2013 | 17:42
Davíð Örn reyndi ekki að smygla neinu
Það er rangt sem ítrekað hefur komið fram í fréttum að Davíð Örn Bjarnason hafi verið settur í fangelsi í Tyrklandi, grunaður um að haf reynt að smygla formunum úr landi. Davíð Örn gerði enga tilraun til að leyna því að hann hafði meðferðis í farangri sínum mun sem hugsanlega gæti varðað við lög í Tyrklandi að fara með úr landi og því er ekki rétt að væna hann um smygl eins og fjölmiðlarf hér á landi hafa óspart gert. Stjórnvöld í Tyrklandi hafa heldur ekki ákært Davíð fyrir smygl en þetta orðalag þykir gírugum fréttasmiðum e.t.v. hljóma betur en eru um leið að væna hann um miklu alvarlegri glæp en hann er í raun sakaðar fyrir.
Lög í Tyrklandi eru viljandi óljós hvað varðar aldur og gerð þeirra muna sem bannað er að flytja úr landi þeirra. Lögunum er ætlað að gefa tollvörðum eins frjálsar hendur og mögulegt er til að stöðva flutning á fornmunum úr landinu, vegna skort þeirra á sérfræðiþekkingu. Viðvaranir um kaup á fornmunum og hvernig kaupendum beri að láta meta þá muni sem þeir kaupa af þar tilgreindum sérfræðingum, leiki vafi á aldri og uppruna þeirra, eru algengar í ferðabæklingum og á ferðasíðum sem fjalla um Tyrkland. En oft er erfitt að átta sig á hvað eru eftirlíkingar, hvað fornmunir og hvað munir sem þrátt fyrir að vera gamlir, mundu ekki teljast fornmunir.
En eitt er að gera tilraun til að smygla hlut, reyna sem sagt að fela hann fyrir tollvörðum á einhvern hátt og annað að ætla að flytja hann úr landi án slæms ásetnings af nokkru tagi. Davíð Erni kann að hafa orðið á mistök, en hingað til hefur ekkert komið fram að um ásetningsbrot hafi verið að ræða annað en fyrirsagnir íslenskra fjölmiðla.
Hélt að þetta væri löglegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2013 | 22:34
Bonniebert Tylerdinck í Júró
Enn og aftur ætla Bretar að senda útbrunna hasbín stjörnu sem fulltrúa sinn í júróvisjón eða sjálfa Bonniebert Tylerdinck sem hefur lag á því að láta manni finnast allt snúast í hausnum á manni eða vera að detta í sundur. Bonnie Tyler kom á sínum tíma til Íslands og mæmaði fyrir nokkur hundruð Íslendinga helstu lögin sín við litla hrifningu viðstaddra.
Bretar sem hafa afar blendnar tilfinningar til keppninnar, svo ekki sé meira sagt, geta greinilega ekki ákveðið sig hvort þeir vilji lýsa frati á keppnina eða sanna að þeir geti unnið hana á fornri frægð.
Ef hið seinna er ætlun þeirra kóróna þeir eflast gjörninginn með að senda konung hasbínanna, Paul McCartney til leiks á næsta ári. Bretar eru ein þeirra fjögra stofnþjóða júróvisjón og komast því sjálfkrafa í úrslitakeppnina og þurfa því ekki eins og Íslendingar að keppa þar um sæti. Whisky rödd Tyler mun því ekki etja kappi við gospel útsetninguna á I am cow framlagi Íslendinga, nema að það lag komist áfram í forkeppninni sem verður að teljast ólíklegt ef marka má veðbankaspár.
Ef þær spár ganga eftir þurfa hvorki Íslendingar eða Paul McCartney að kvíða ferðakostnaðinum á næsta ári því keppnin verður haldin annað hvort í Osló eða i Kaupmannahöfn.
Bonnie Tyler í Evróvisjón | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2013 | 15:18
Klámið á mbl.is
Mbl.is hikar ekki við að færa okkur fréttir af klámiðnaðinum, rétt eins og um hluta af almenna skemmtibransanum eða dægurmálum sé að ræða.
Einum þekktasta klámmyndaleikara heims Ron Jeremy sem leikið hefur í meira en 2000 klámmyndum, varð misdægurt og þá frétt telur mbl.is að eigi vel við núna þegar umræðan um barnaníð og klám er í sögulegu hámarki í landinu.
Til þess er tekið í þeirri umræðu hversu meðvirk þjóðin er gagnvart barnaníðingum og hversu ráðalaus bæði stjórnvöld og heilbrigðisyfirvöld standa gagnvart þessu þjóðfélagsmeini.
Mbl.is sýnir sinn hug í þessu og leggur sitt af mörkum með því að birta þessa glaðhlakkalegu frétt af klámmynda-kónginum sem m.a er kunnur fyrir barnaníð eins og t.d. í máli Tracy Lords.
Skilaboð mbl.is eru að þetta sé bara eðlilegur hluti af fréttaflóru dagsins. Fréttir af klámmyndastjörnum og barnaníðingum eiga jafnt heima meðal dægurmálanna og hvaða kvikmyndastjarna eigi næst von á barni.
Klámiðnaðurinn andar léttar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.1.2013 | 12:34
Sumir karlmenn og sumar konur
Það verður væntanlega mikið um dýrðir á næstunni þótt undirbúningurinn hafi farið leynt, því framundan er stórafmæli kosningaréttarins á Íslandi. Alþingi undirbýr mikla afmælishátíð, enda merk tímamót í aðsigi, sem einhverra hluta vegna hefur gleymst að halda uppá á fyrri stigum. (Nei annars, það dettur engum í hug að halda upp á svoleiðis vitleysu.)
8. Mars næstkomandi verða sem sagt liðin 170 ár frá því að Kristján 8. Danakonungur gaf út tilskipunina árið 1843, þess efnis að íslendingar fengju kosningarétt. - Ekki samt allir íslendingar heldur aðeins karlmenn, sem "væru orðnir 25 ára, hefðu óflekkað mannorð og ættu að minnsta kosti 10 hundraðajörð eða múr- eða timburhús í kaupstað sem metið væri á að minnsta kosti 1000 ríkisdali eða hefðu lífstíðarábúð á 20 hundraða jörð."
Konur og hverskyns undirmálsfólk urðu að bíða dálítið lengur.
Reglurnar um eignir kjósenda voru reyndar rýmkaðar dálítið þegar kosið var til þjóðfundarins 1851 og aftur árið 1903. Þá fengu karlmenn kosningarétt sem ekki voru öðrum háðir sem hjú og borguðu fjórar krónur eða meira í útsvar.
Árið 1915 var svo gerð sú breyting að konur fengu kosningarétt og einnig allir aðrir sem orðnir voru 40 ára og skulduðu ekki sveitarstyrk. Það aldursmark átti síðan að færast niður um eitt ár á ári þar til 25 ára markinu væri náð. Þær takmarkanir voru þó felldar niður árið 1920.
Og vel á minnst, upp á þetta á örugglega að halda,(sj´´a viðtengda frétt) en samt aðeins konuhlutann.
Enn varð breyting árið 1934, þegar kosningaréttur var færður niður í 21 árs aldur og takmarkanir á kosningarétti vegna skuldar við sveitarsjóð voru numdar úr gildi. Þá fyrst gátu allir kosið án tillits til kyns eða eigna og áttatíu ára afmæli þess mætti svo sem halda a næsta ári.
Kosningaaldurinn var svo lækkaður í 20 ár árið 1968 og að lokum í 18 ár 1984.
Konur hafa kosið í 100 ár 2015 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.1.2013 | 03:52
Kannski svona skilti
Það var fallegt af Ingólfi Bruun leiðsögumanni að aðstoða konuna sem féll í Reynisfjöru. Og einkar vel til fundið hjá honum að koma því í blöðin.
Ingólfur vill nú að aðilar í ferðaþjónustu komi upp skilti við bílastæðið sem vari við hættunni af briminu þarna við ströndina.
Kannski skilti eins og þessu sem m.a. varar við hættunni af holskeflum.
Þetta skilti hefur reyndar staðið við bílastæðið í Reynisfjöru í nokkur ár. En kannski hefur Ingólfur ekki tekið eftir því, frekar en konan sem hnaut í sandinum.
Staðreyndin er sú að það er sama hversu vel hlutirnir eru merktir á mörgum skiltum, ef engin tekur sér tíma til að lesa það sem á þeim stendur.
Kom konu til bjargar í fjörunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2013 | 18:28
Áfram klappar klappstýran
Hrun íslensku bankanna er greinilega mjög persónulegt mál fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, sem er skiljanlegt því hann var þekktasta og háværasta klappstýra útrásarvíkinganna. Þegar ljóst var að þeim hafði mistekist, tók ÓRG því sem persónulegu áfalli.
Auðvitað var það ekki skemmtilegt fyrir Íslendinga að sjá nafn Ísland við hliðina á alræmdum hryðjuverkasamtökum á netsíðu breska fjármálaráðneytisins. Því snöggreiddust margir Íslendingar.
En einu lögin sem gáfu Bretum heimild til að stöðva fjármagnflutninga af reikningum gjaldþrota íslenskra banka í Bretlandi, náðu einnig til slíkra hópa.
ÓRG hefur hinsvegar að engu afsakanir Breta eða skýringar, jafnvel þótt þeim hafi tekist með þessum aðgerðum að koma í veg fyrir að fjármunir úr þrotabúum bankanna gufuðu upp, eins og þeir gerðu annarsstaðar.
ÓRG heldur áfram klappinu með því að finna sér og þjóðinni blóraböggul og erkióvin og segir jafnframt íslensku þjóðina svo langrækna að nafn Gordons komi til að lifa með henni um ókomna framtíð.
Kannski verður Gordon að Kolskegg 21. aldarinnar sem nú er nefndur Kölski og er eitt af mörgum samheitum djöfulsins sjálfs.
Spurningin er hvort Íslendingar séu ekki að vaða reyk með að reyna að koma lögum yfir hrunverja og ættu frekar að reyna að koma fram hefndum á Gordon Brown. -
En svo kann þetta líka að vera tóm mistúlkun á orðum ÓRG. Það hefur líka komið fyrir áður.
Forsetinn ræðst að Gordon Brown | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.1.2013 | 13:35
David farið að förlast
David Attenborough er meðal fremstu náttúru kvikmyndagerðamanna heims. Í Bretlandi er litið á hann sem þjóðargersemi og þegar hann tjáir sig um eitthvað leggur fólk við hlustir. Í seinni tíð hefur hann gerst æ gagnrýnari og einnig svartsýnni á framtíðarhorfur lífríkis jarðarinnar.
Í viðtalinu sem viðtengd frétt vísar til, segir David mannkynið vera plágu og fjölgun þess beri að hefta, og endurómar þannig fræg orð Agent Smith í kvikmyndinni Matrix sem segir að mannkynið sé krabbamein sem sjúgi í sig alla orku og auðlindir og skilji eftir sig auðnina eina.
David segir að eina leiðin til þess að bjarga jörðinni frá hungursneyð og útrýmingu tegunda væri að draga úr fjölgun mannkynsins.
Fyrir skömmu fluttu fjölmiðlar heimsins okkur fréttir af því hversu ógnarmikið magn af framleiddum matvörum færu til spillis og er hreinlega sóað. Á jörðinni eru þegar framleidd matvæli sem mundu duga til að fæða tvöfaldan fjölda mannkynsins. Hungursneyðir stafa ekki af því að næg matvæli séu ekki til í heiminum, heldur hvernig matvælum heimsins er dreift og hvernig pólitík og stríð koma í veg fyrir að fólk geti bjargað sér.
Það sama gildir um ofnýtingu annarra auðlinda. Neyslumenningunni er viðhaldið með gengdarlausri sóun, frekar en að mennirnir séu orðnir of margir til að jörðin geti alið þá.
Þrátt fyrir hin ýmsu vandamál sem mannkynið á við að stríða hefur langlífi þess aldrei verið meira, heilsufar þess aldrei betra og velmegun þess aldrei verið meiri eða útbreiddari.
Ást og aðdáun Davids Attenborough á öðrum lífverum jarðarinnar virðist hafa glapið honum sýn og orðið til þess að hann ýkir stórlega hættuna af offjölgun mannkynsins.
Vill hefta fjölgun mannkyns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.1.2013 kl. 03:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.1.2013 | 01:47
Qui tacet consentire videtur
1. Júlí 1535 var hinn nafntogaði lögfræðingur, rithöfundur og hugsjónamaður Tómas Moore færður fyrir rétt í Englandi og dæmdur fyrir landráð. Tómasi var gefið að sök að hafa draga í efa erfðaréttarákvæði landráðalaganna sem Hinrik áttundi konungur hafði látið setja til að tryggja afkomendum sínum og Önnu Boleyn sem hann hafði tekið sér fyrir eignkonu, erfðarétt til krúnunnar.
Við réttarhöldin var helsta vörn Tómasar fólgin í því að hann sagðist aldrei hafa tjáð sig um hvort hann væri samþykkur ákvæðinu eða ekki og ef fylgja ætti viðtekinni lýðræðis og lagahefð bæri að túlka þögn hans frekar sem samþykki saman ber; "Qui tacet consentire videtur".
Með ofríki sínu fékk Hinrik áttundi konungur Tómas samt dæmdan til dauða, en leidd voru fram falsvitni sem fullyrtu að þau hefðu heyrt Tómast efast um réttmæti erfðaréttarins.
Í stjórnsýslu alþjóðlegra stofnanna, einkum þeirra sem byggja á evrópskri lýðræðishefð er farið eftir grundvallareglunni að þögn sé sama og samþykki. Ef engar athugasemdir berast frá umsagnaraðilum um samninga eða önnur samlagsmál, er það tekið sem samþykki. Reglan virkar hvetjandi fyrir þá sem hafa eitthvað út á málefnið að setja að láta til sín taka.
Meðal þjóða þar almennar kosningar eru viðtekin leið til að kanna vilja almennings til manna og málefna, er kjörklefinn málstofa hvers einstaklings. Engin leið er til þess að segja til um vilja þeirra sem ekki "taka til máls" en hefðin er sú að túlka þögn þeirra sem samþykki frekar en hið andstæða.
Það hefur samt gerst, einkum meðal þjóða þar sem lýðræðið hefur staðið veikum fótum, að dræm þátttaka í kosningum hefur verið túlkuð sem almenn mótmæli við stjórnvöld eða vantraust á að farið sé eftir leikreglum lýðræðisins.
Slíku er ekki til að dreifa á Íslandi.
Samt sem áður og þrátt fyrir nefnda lýðræðishefð hafa margir andstæðingar þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á stjórnarskrá landsins og bornar voru undir þjóðaratkvæði 20 Okt. s.l , mundast við að gera þær niðurstöður tortryggilegar. Þeir benda á að meirihluti atkvæðabærra manna sat þá heima og nýtti ekki kosningarétt sinn.
Rúmlega 64% þeirra sem kusu vildu að að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá en þeir sem eru ósáttir segja samt að enn sé ekki vitað hver hinn raunverulegi þjóðarvilji sé.
Ef taka á mark á slíkum mótbárum þarf kjörsókn að vera nálægt 100% einkum ef mjótt er á mununum, til að fá úr því skorið með vissu hver vilji meirihlutans er í hverju máli. Ætla má að varla sé raunhæft að krefjast slíkrar útfærslu á lýðræðinu.
Einfaldast og vankvæða minnst er einfaldlega að halda sig í þessum efnum við grundvallarregluna sem segir að "þögn sé sama og samþykki".
Beinu lýðræði fylgir vandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.1.2013 | 14:22
Þegar skrattinn gerir góðverk
Allt lítur þetta svo ágætlega út á yfirborðinu. Sjóður sem stofnaður er af auðugum olíufursta (Sheikh Zayed bin Sultan Al Nahyan) eys af alsnægtum sínum nokkrum milljörðum til vonarbarna fyrirtækja og stofnanna sem stuðla vilja að aukinni nýtingu "hreinnar orku" í heiminum. -
Til að stýra þessu PR stunti er fenginn þjóðhöfðingi smáþjóðar sem fengið hefur á sig orð í seinni tíð fyrir að vera í fararbroddi í vatnabúskap. Þjóðhöfðinginn hefur að auki sýnt að hann er ófeiminn við að básúna dómsdagshættur af öllu tagi. "You ain´t seen nothing yet" er uppáhalds ýkjufrasinn hans, hvort sem hann er að ræða væntingar sínar til íslenskra útrásavíkinga eða íslenskra eldfjalla.
En ekki er allt sem sýnist. Sameinaða furstadæmið og forystusauðir þess hafa lengi haft orð á sér fyrir að nota vafasama sjóði sína til að kaupa sér velvild í formi styrkja og verðlauna. Frægastar urðu peningagjafir þeirra til Jimmy Carters sem fékk hálfa milljón dollara í umhverfisverðlaun frá þeim árið 2001 og framlag til London School of Economics and Political Science árið 2008 sem olli miklum deilum.
Samt komast þessar lítt duldu mútur ekki í hálfkvisti við þá skipulögðu glæpastarfsemi sem fór fram í skjóli hins alræmda Bank of Credit and Commerce International (BCCI), sem Zaeyd átti allt að 77% hlut í á móti CIA og Bank of America. BCCI var um skeið talinn sjöundi stærsti banki heims en var eingöngu rekinn á innlánsfé og fjárfesti aldrei neitt.
Þegar að starfsemi hans var loks stöðvuð 1990 og tekin til rannsóknar kom í ljós að bankinn var aðeins andlit fyrir peningaþvætti, mútur, vopnasölu,vændi og stuðning við hryðjuverkamenn. Bankinn var m.a. notaður í hinum frægu Iran Cntra og og El Salvador samsærum. Margir af fjölskyldumeðlimum Zayed komu við sögu í þeirri rannsókn, þeir sömu og Ólafur Ragnar Grímsson situr nú stoltur með í gullskreyttum sölum út í Abu Dhabi til að útdeila fé þeirra.
Ólafur Ragnar: Loftslag jarðar er úr skorðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.1.2013 | 02:49
Á skítugum skónum
Það er að bera í bakkafullan lækinn að býsnast út af umsvifum Jóns Ásgeirs Jóhannssonar sem þegar er frægur er af allskonar endemum sem óþarft er að tíunda hér.
Margir hafa beðið eftir því að eitthvað af aurunum sem Jóni tókst að bjarga undan, eftir hrunið og afskriftirnar allar voru að baki, kæmu í leitirnar.
Það hlýtur að vera kaldhæðni örlaganna að hann finnur þeim nú stað í félagi með þessu heiti, þ.e. Muddy Boots eða kannski er Jón bara að storka þeim. Jón er sem sagt aldeilis ekki af baki dottinn og ætlar nú að vaða aftur inn á gólfið hjá Bretum á skítugum skónum.
Jón Ásgeir í hamborgarabransann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2013 | 17:28
Litlir sætir strákar
Sé það rétt hjá Önnu Kristínu Newton Réttarsálfræðingi að um eitt þúsund íslenskir karlmenn séu haldnir barnagirnd og séu "með hugsanir sem tengjast því eingöngu" er "svarti bletturinn" í íslensku þjóðfélagi sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra talar um, öllu stærri en sá sem Karl Vignir Þorsteinsson hefur skilið eftir sig.
Vilja og getuleysi stjórnvalda til að bregðast við þessu þjóðfélagsmeini, þrátt fyrir hversu oft hefur verið á það bent bæði af þolendum og af alþjóðlegum stofnunum sem láta sig málefni barna varða, er óskiljanlegt.
Árið 2011 lét UNICEF frá sér fara skýrslu um stöðu barna á Íslandi. "Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að engar reglulegar mælingar hafa farið fram hérlendis á tíðni ofbeldis gegn börnum og enginn á vegum hins opinbera ber ábyrgð á forvörnum í þessum málaflokki. Leiða má líkur að því að þúsundir barna á Íslandi verði á ári hverju fyrir kynferðislegu ofbeldi, heimilisofbeldi og öðru ofbeldi , en þrátt fyrir það reyna yfirvöld ekki markvisst að kortleggja vandann með reglubundnum rannsóknum og markvissri greiningu. Einungis er haldið utan um fjölda þeirra tilkynninga sem berast til barnaverndarnefnda. Enginn opinber aðili hefur það hlutverk að berjast gegn ofbeldi á börnum."
Hvorki þessi né aðrar ábendingar hafa orðið til þess að vekja viðbrögð stjórnvalda né vakið upp teljandi umræðu í samfélaginu um "svörtu blettina".
Í samfélaginu virðist ríkja almennt andvaraleysi og/eða meðvirkni gagnvart barnaníðingum. Hvernig annars gat langvarandi og stöðug misnotkun barna af fólki eins og Karli Vigni Þorsteinssyni, séra A. George, sem var skólastjóri Landakotsskóla, Margétar Müller, og séra Helga Hróbjartssyni og Ólafi Skúlasyni biskups, viðgengist?
Og hvernig grefur svona mein um sig í þjóðfélaginu? Hvaða þættir stuðla að því að fólk er tilbúið til að líta fram hjá hinum augljósustu ummerkjum um þessa tegund misferlis og jafnvel heiðra þá sem það stunda fyrir vel unnin verk.
Meðvirknin endurspeglast t.d. vel í umfjöllun Jóns Halls Stefánssonar þegar hann skrifar um verk hins marg-heiðraða Megasar á Bókmenntir.is. Um lög og texta Megasar sem fjalla um barnagirnd segir Jón;
Lífsorkan og ögrunarkrafturinn leiftra skært í kjarna lagasafnsins og lengsta bálkinum, "Drengirnir í Bangkok" - skáldið virðist endurfæðast í hinu framandlega, í menningarlegu tilliti og kynferðislegu.
Hitt alþekkta lagið á plötunni er skopsöngurinn "Litlir sætir strákar"sem átti eftir að koma Megasi í koll. Textinn er vissulega ögrandi eða stríðnislegur en umfram allt reyndist tímasetningin óheppileg: þetta var í upphafi vitundarvakningar um barnagirnd og lagið hefur sennilega vakið athygli fólks sem kunni engin skil á skáldskap Megasar og þekkti kannski lítið til íroníu í bókmenntum almennt.
Í umfjöllun um tónlist Megasar á Hugi.is er þetta að finna:
Tæland átti svo eftir að koma mikið við sögu á næstu plötu hans sem nefndist Höfuðlausnir. Platan var undir greinilegum áhrifum frá Tælandi, bæði hvað lög og texta varðar. Megas hneykslaði enn og aftur með textum sínum og var það sérstaklega textinn í laginu Drengirnir í Bangkok sem fólk tók eftir. Í textanum var talað um hve gott það væri að koma við og strjúka drengina frá Bangkok, og fór það fyrir brjóstið á mörgum ekki síst eftir að þeim var litið aftan á plötuumslagið. Þar mátti sjá Megas ásamt fólki sem hann kynntist í Tælandi og fannst fólki hann halda full vinalega utan um ungan dreng. Megas kom svo með þennan dreng til Íslands og þá fóru kjaftasögurnar á fullt, meðal annars um að Megas væri að leigja drenginn út og stunda mansal. Megas sjálfur segir þetta þó algjöra fjarstæðu, hann hafi einungis verið að veita honum og móður drengsins fjárhagslegan stuðning, svo hún gæti komist á spítala og hann á námskeið. Það er svo önnur saga að sennilega hefur þetta fólk brugðist trúnaði skáldsins og ef til vill stundað einhverja þá iðju sem ekki var ætlast til af þeim.
Það var svo árið 1988 að Megas að fór aftur að vinna með Bubba Morthens og nú í meiri mæli en áður. Þeir gáfu saman út plötuna Bláir draumarog seldist platan í 6000 eintökum. Það hefði þótt fínt fyrir sólóplötu frá Megasi en hins vegar hálfgerður skandall fyrir Bubba sem var heitur á þessum tíma og var hann vanur að selja a.m.k. helmingi fleiri eintök. Ástæðan fyrir þessari slöku sölu mun hafa verið að á plötunni var að finna lagið Litlir sætir strákar, en textinn fjallaði um hvað litlir sætir strákar væru langtum betra val en kvenkynið. Í textanum kom einnig fram að stelpur væru tælandi frá aldrinum tólf og niðrí átta og það fór sérstaklega fyrir brjóstið á mönnum. Lagið var bannað í útvarpinu því að Barnaverndarstofa fór fram á það. Eftir þetta var Megas svotil þaggaður í hel og næstu plötur hans fóru ekki hátt.
Sjálfur afsakar Megas textagerð sína í viðtali með þessum trúverðuga hætti, eða hitt þó heldur. Eintómur reykur segir hann, enginn eldur;
Mitt hlutverk er að fjalla um hlutina og fletta ofan af þeim, ekki reka áróður fyrir þeim. Litlir sætir strákar er til dæmis ekki sú ósvífni eða óþokkaskapur af minni hálfu sem margir álíta, heldur lag sem fjallar um kvenfyrirlitningu. Skömmu áður en ég samdi lagið átti ég samtal við mann sem gerði fátt annað en alhæfa um allar þessar helvítis kellingar, þær væru allar eins, þessar helvítis kellingar. Ég missti á endanum þolinmæðina og spurði hvers vegna hann fengi sér þá ekki frekar lítinn sætan strák, sem er bara gay lingóið fyrir ungan samkynhneigðan elskhuga. Textinn er mjög gegnsær að þessu leiti en fólk á það til að lesa bara fyrirsagnirnar og byrja síðan að býsnast.
Svartur blettur á samfélaginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.1.2013 | 18:34
Eru Íslendingar negrar fjármálaheimsins?
Af og til deila menn um merkingu orðsins "negri" og hvort það sé á einhvern hátt ósæmilegt. Hæst risu þessar deilur í kring um endurútgáfu barnaþulubókarinnar Tíu litlir negrastrákar fyrir fáeinum árum og sýndist sitt hverjum. Margir voru og eru á því að hér sé að ferðinni orð sem aðeins sé notað til að lýsa þeldökku fólki.
Í dag er orðið notað jöfnum höndum að því er virðist, sem eðlileg skilgreining á þeldökkri manneskju, rétt eins og Þórarinn Jón Magnússon gerir í nýlegri grein á Pressunni þar sem hann kallar Obama forseta "Afríkunegra", og sem greinilegt fúkyrði þungað kynþáttahyggju eins eins og sjá má á þessum íslensku rasistasíðum hér, hér og hér., svo dæmi séu tekin.
Ef til vill birtist skilningur og viðhorf okkar Íslendinga til orðsins "negri" best í frægri grein Ólöfu Thorarensen sem spurði hvort konur á Íslandi væru hvítir negrar. Orðið er þar klárlega sett í samband við ánauð, undirmál og þrældóm ákveðins kynþáttar og hugsunin ekki ósvipuð útlendinga um okkur Íslendinga fyrr á öldum eins og t.d. glöggt kemur fram í níðriti Ditmar Blefken sem var gefið út fyrir rúmlega 400 árum.
Endurómurinn að fordómum í garð Íslendinga ágerðist aftur í kringum hrunið og er ekki þagnaður enn.
En hvernig mundum við bregðast við því ef spurt væri "Eru Íslendingar negrar fjármálaheimsins?"Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)