Færsluflokkur: Mannréttindi

Dæmigert fyrir stríðið

Ef þú spyrð bandarískan hermann í Afganistan hvað ISAF standi fyrir svarar hann með nokkrum einnar línu bröndurum;  "I Saw Americans Fight," eða "I Suck at Fighting" og "I Sunbathe at FOBs" (FBOs eru vel varðar bækistöðvar hersins)

Í raun stendur skammstöfunin ISAF fyrir "International Security Assistance Force" sem er fjölþjóðaherinn undir stjórn NATO í Afganistan. Meðal þeirra eru Bandaríkjamenn, Bretar, Kanadamenn, Holllendingar, Þjóðverjar auk hermanna af 35 örðum þjóðernum.

Brandarar bandarísku hermannanna hafa brodd því þeir bera megin þungan af átökunum við afganska vígamenn og bandamenn þeirra sem taldir eru vera frá ekki færri en 20 öðrum þjóðernum. 

Breskir hermenn og auðvitað stórnarhermenn koma einnig nokkuð við sögu beinna átaka, en flestir hermenn hinna þjóðanna taka litið sem ekkert þátt í átökunum. Sumum er t.d. bannað að berjast í snjó og öðrum er bannað að yfirgefa herstöðvarnar sem þeir búa í nema að þeir fái leyfi til þess frá heimalandi sínu. -

Breskir og bandarískir Heforingjar keppast við að lýsa því yfir að þetta stríð sé óvinnandi. Þeir hafa rangt fyrir sér. Stríðið mun vinnast af afgönsku vígamönnunum og félögum þeirra.

Yfirlýsingarnar koma engum á óvart. Allir vita af fremur tempruðum áhuga  flestra NATO ríkja fyrir stríðinu. Að auki ríkir svo mikil ringulreið meðal allra þessara stríðsmanna í Afganistan að það eru jafn miklar líkur á því að NATO hermaður verði drepinn af samherja og af óvini.

Fréttin fjallar um nýjasta dæmið; Afganskur lögreglumaður sem vinnur við landamæragæslu skýtur til bana sex bandaríska hermenn, óviljandi.  Á sama tíma á öðrum stað drepa tveir afganir, klæddir sem lögreglumenn, 12 aðra afgani sem allir voru lögreglumenn.


mbl.is Skaut sex NATO-hermenn til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Wikileaks á lista yfir hryðjuverkasamtök

Bandaríska utanríkisþjónustan veit ekki sitt rjúkandi ráð. Ógrynni leyniskjala sem sendiráð og herstöðvar Bandaríkjanna vítt og breytt um heiminn, í allt meira en þrjár milljónir manns hafa aðgang að, hafa verið gerð opinber á Wikileaks.

Sjölin koma úr samskiptakerfi sem komið var á þegar það kom í ljós eftir árásirnar á tvíburaturnanna í New York , að upplýsingaflæðinu milli stofnana bandarísku utanríkiþjónustunnar, var verulega áfátt.

Wikileaks síðan er óvirk sem stendur, enda eru greinilega í gangi umfangsmiklar tilraunir til að tefja birtingu skjalanna. Talmenn Wikileaks segja að síðan muni komast aftur í gagn innan skamms.

Fréttaskýrendur í Bandaríkjunum segja að skjótt muni holskefla af díplómatískum hneykslismálum skella á utanríkisþjónustunni og stjórn Obama forseta. Af því fáa sem þegar hefur komið fram, bera launráð, umræða um innrásir og fyrirætluð morð á þjóðarleiðtogum óvinaríkja, hæst.

Peter King, þingmaður Repúblikana frá New York hefur kallað eftir því að Wikileaks verði sett á lista Bandaríkjanna og bandamanna þeirra yfir erlend hryðjuverkasamtök. Verði það raunin munu aðstæður Wikileak og starfsmanna þeirra breytast svo um munar. - Hryðjuverkamenn sem ógna öryggi Bandaríkjanna eru rétmæt takmörk hersins og leyniþjónustunnar.


mbl.is Wikileaks birtir skjölin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin má vel við una

40% þátttaka er alls ekki slæmt þegar tekið er tillit til þess að þjóðin hefur aldrei fyrr gengið til slíkra kosninga. Á kjörseðlinum voru engir bókstafir sem fólk er búið að harðkóða í flokkspólitíska heilastarfsemi sína. Pólitíska uppalninginn, hefðir og áhrif fyrirgreiðslupólitíkur kikkaði aldrei inn fyrir þessar kosningar.

 Hefðbundnar þrætur farmbjóðenda í sjónvarpi og útvarpi,fóru ekki fram og lítið var um auglýsingar og loforðaskilti blaðskellandi frambjóðenda með uppbrettar ermar sem lofuðu gulli og grænum skógum.

Samt lagði 40% þjóðarinnar það á sig að kynna sér stefnu meira en 500 einstakra frambjóðenda, og taka þátt í persónukosningum sem í raun eru algjör nýlunda að undantöldum forsetakosningum þar sem aðeins fáeinir eru í framboði þegar best lætur. 

Þá útkomu tel ég því nokkuð góða.

Margir verða eflaust til að gagnrýna hana og segja að ekki hafi nægilega vel til tekist. Þeir sömu ættu að hugleiða það að þetta er aðeins byrjunin. Á þessari reynslu er vel byggjandi í  framtíðinni.

 Að gagnrýna "dræma" þátttöku í kosningunum og telja hana rýra umboð þingsins á einhvern hátt, er dálítið likt því að gagnrýna ungabarn fyrir að pissa á sig.


mbl.is Kosningaþátttaka líklega um 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sukkið orðið eins og áður og aftur glatt í höllinni

Það er gott veganesti fyrir nýkjörna meðlimi stjórnlagaþings að fá þessar fréttir á kjördegi. Landsbankinn, banki allra landsmanna, er aftur kominn á fulla ferð í fjármálsukkið sem einkenndi ferilinn sem leiddi til hrunsins. 

Eins og áður, reiðir bankinn sig á að fólk telji sig ekki hafa nægilegt vit til að gagnrýna starf hans og til vara, passar hann sig á að hafa málin svo flókin að enginn getur með góðu móti komist til botns í þeim án þess að hafa aðgang að öllum gögnum.

Eins og áður er brask með auðlindir þjóðarinnar, skuldsetning umfram eignir, flókið kennitöluflakk og massífar afskriftir eru helstu  hráefnin í þessa skuldasúpu. - 

Eins og áður koma hér við sögu íslenskir kvótabraskarar sem þegar er búið að afskrifa nokkra milljarða fyrir persónulega, og auðvitað lenti sá skellur á þjóðarbúinu og almenningi í landinu.

Eins og áður er langlundargeð Íslendinga gagnvart þeim bankamönnum sem leiða þessa hersingu og þessum bröskurum sjálfum, með ólíkindum.

Eins og áður er engra viðbragða er að vænta frá ríkisstjórn eða þingi. Þar er fólk orðið svo samduna að það finnur ekki rotlyktina. -

Ekki nema vona að fólk bindi miklar vonir við stjórnlagaþingið til að koma með tillögur að lögum yfir þetta misferli.


mbl.is Skuldsetning hafin á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona ættu þingkosningar að vera

Í dag gengur íslenska þjóðin til persónukosninga og sannar þar með að þær eru raunhæfur valkostur til að velja hóp af fólki til ábyrgðaverka fyrir hana.  Í þetta sinn er valið fólk til að semja tillögur að nýrri stjórnarskrá með aðferð sem gæti hæglega getið af sér nýja tegund lýðræðis.

Ekkert mælir á móti því að nota sama fyrirkomulag til að velja fólkið sem á að fylgja stjórnarskránni öðru fremur, þ.e. þingmenn þjóðarinnar.

Atgervi og persónukostir, skoðanir og hæfni frambjóðenda ættu að ráða vali kjósenda í stað steinrunnins fylgi við pólitíska flokka þar sem leiðtogavaldið er mikilvægasti hluti kerfissins. 

Persónukjör til þings mundi losa þjóðina undan hinum fjölmörgu neikvæðu áhrifum flokkakerfisins. Það mundi gera þingið að starfandi heild án sérstaks meiri og minnihluta og með persónukjöri til þings yrði hver ríkisstjórn sem mynduð væri í raun þjóðstjórn mínus flokkræðið.


Vantrú og stjórnarskráin

74. grein stjórnarskrárinnar tryggir rétt manna til að stofna með sér félög.

Hún segir;

"Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi."

En hvað um félög sem hafa það eitt á stefnuskrá sinni að vinna gegn öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar.  - Hafa slík félög löglegan tilgang?

Í stefnuskrá félagsskaparins Vantrú segir svo;

2.gr. Tilgangur félagsins er að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu, s.s. skipulögðum trúarbrögðum, skottulækningum og gervivísindum.

Fyrir utan að flokka skiplögð trúarbrögð sem "hindurvitni" sem er gróf vannirðing við lífskoðanir mikils meirihluta almennings, er tilgangur félagsins að vinna gegn boðun þeirra. . - Í ljósi umræðu síðustu vikna um að banna trúaráróður í skólum, gætu sumir haldið að þetta markmið Vantrúar ætti sérstaklega við það, en svo er ekki. Það á við alla boðun skipulagðra trúarbragða, hvar og hvenær sem hún fer fram.

Stór hluti starfsemi skipulagðra trúarbragða snýst einmitt um boðun þeirra og rétturinn til að ástunda og tilheyra slíkum trúarbrögðum er verndaður með ákvæði í stjórnarskrá landsins.

63. grein hennar hljóðar svona;

"Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu."

Ef Vantrú væri félagsskapur fólks sem kemur saman til að iðka vantrú sína, væri ekkert við það að athuga. Þvert á móti hefur Vantrú á stefnuskrá sinni að vinna gegn trúarsannfæringu annarra og þeim félögum sem trúaðir tilheyra. 

Í þriðju grein markmiða félagsskaparins er því lýst hvernig hann hyggist ná markmiðum sínum.

3.gr. Tilganginum hyggst félagið m.a. ná með því að stuðla að gagnrýninni umræðu um trúmál og halda úti vefsíðu sem fjallar um trúmál, trúleysi og efahyggju. Félagið skal einnig vinna að tilgangi sínum með öðrum hætti s.s. útgáfustarfsemi eða fyrirlestrahaldi eða aðild að fyrirlestrum sem varða markmið þess.

Ætla mætti af þessu að megin áherslur félagsins eigi að vera á almenna fræðslu um trúleysisstefnuna. Raunin er allt önnur. Megináhersla þeirra sem skrifa fyrir félagið eru grófar árásir á málflutning og skrif þeirra sem tilheyra skipulögðum trúarbrögðum. Fjallað er um pistla og ræður einstakra manna á þann hátt að það jaðrar við eineltistilburði svo ekki sé meira sagt. - Þess vegna er full ástæða til að spyrja hvort félagið Vantrú hafi löglegan tilgang.


Afneitun Biskups

Allt bendir til að aðskilnaður ríkis og kirkju verði eitt umdeildasta málið á stjórnlagaþinginu komandi. Það er gott, breytinga er þörf.  Biskup vill samt þæfa málið.  Hann segir að hér sé ekki eiginleg ríkiskirkja. Gaman væri að heyra skilgreiningu hans á "ríkiskirkju". Ljóst er að Biskup er í algjörri afneitun þegar kemur að því að horfast í augu við þá þróun.

Biskup segir líka að fólk treysti prestum sínum, bara ekki kirkjunni. Kannski hann ætti að skilgreina líka hvað kirkjan er ef ekki prestar hennar og biskupar. Hann segir mikið af fólki sem noti þjónustu kirkjunnar treysti henni. Þjónustan sem almenningur notar aðallega eru skírnir, fermingar, giftingar og greftranir. Flestir þurfa ekki að treysta kirkjunni eða prestunum til að þiggja þessa þjónustu. Hún er innbyggð í samfélagið. Fólk þiggur telur þessa þjónustu sjálfsagða, eins og vatn og rafmagn og þess vegna er notkun hennar ekki mælikvarði á traust almennings til kirkjunnar.


mbl.is Þverrandi traust áhyggjuefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja fá að vita afstöðu frambjóðenda til aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Það mun ekki líða á löngu þar til hin ýmsu hagsmunasamtök á landinu fara á stúfana til að forvitnast um afstöðu frambjóðenda til stjórnlagaþings til hinna ýmsu mála. Sú vitneskja getur ráðið úrslitum þegar kemur að kosningunum, sérstaklega ef vikomandi samtök ætla að beita sér fyrir vali þeirra sem eru hallir undir málstað þeirra. Formlegur fulltrúi þjóðkirkjunnar, Biskupsstofa,  hefur nú riðið á vaðið og sent beiðni til allra frambjóðendanna og beðið þá um að greina frá afstöðu sinni til aðskilnaðar ríkis og kirkju. -

Enn sem komið er styð ég aðeins einn frambjóðanda til þingsins, en hann heitir Inga Daníelsdóttir og er frá Ísafirði. Inga hefur birt á bloggi sínu svarbréf til biskupsstofu sem ég leyfi mér að endurbirta hér að neðan. Inga hefur nýlega opnað bloggsíði hér á blog.is og er hana að finna hér.

Miðað við nýlegar skoðanakannanir og niðurstöðu þjóðfundar virðist meirihluti almennings vilja rjúfa núverandi tengsl ríkis og þjóðkirkju og eðlilegt er að til þess verði horft við gerð stjórnarskrárinnar. Ástæður þess að fólk vill rjúfa tengslin eru í stórum dráttum af tvennum toga og afar ólíkar.

  • Sumir vilja einfaldlega sem allra minnst trúarleg áhrif í samfélaginu, telja trú og trúarbrögð arf fortíðar sem ekki eigi erindi við upplýsta nútímamenn.  
  • Aðrir tala um að tengsl þjóðkirkjunnar við ríkið skapi henni svo mikil forréttindi umfram önnur trúfélög að í raun sé fólki mismunað eftir trúfélögum. Það sé því í þágu jafnréttis að rjúfa þessi tengsl.

Talsmenn fyrrnefnda viðhorfsins beita raunar síðari rökunum líka óspart.

Sé litið til þess að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni og notar þjónustu hennar á stærstu stundunum á lífsleiðinni, og jafnframt að meðlimir annarra trúfélaga skipta þúsundum, má ætla að nauðsynlegt sé að tryggja starfsgrundvöll trúfélaga frekar en að ýta þeim út á jaðar samfélagsins.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að það hversu lítið hefur verið gert úr siðferði og gildum á undanförnum árum og áratugum í samanburði við frama og efnishyggju, hafi skaðað samfélagið verulega. Við þurfum að rækta, ekki aðeins siðvit heldur siðræna færni sem undirstöðu á öllum sviðum þjóðlífsins. Allt sem gert er í lífinu byggist á einhvern hátt á skoðunum og viðhorfum. Trú og lífsviðhorf eru því ekki einkamál eins og margir halda fram.

Þótt líkur bendi til að fallið verði frá þjóðkirkju fyrirkomulaginu við gerð nýrrar stjórnarskrár vona ég að hægt verði að búa svo um hnúta að fótunum verði ekki kippt undan starfsemi kirkjunnar í einni svipan en hún fái aðlögunartíma til að fóta sig við nýjar aðstæður. Aðskilnaðurinn kann líka að vera flóknari en sumir ætla, m.a. vegna eigna sem deila má um hvort séu eign trúfélags eða þjóðareign.

Sjálfsagt er að það komi fram að ég er bahá‘íi og sit í Andlegu þjóðarráði bahá‘ía á Íslandi.


Ég er það sem ég er

Ef að hrunið hefur orðið til þess að sýndarveruleikinn sem umlék Ísland á erlendri grund, hrundi,  eru það góðar fréttir. Ef að Ísland er að læra smátt og smátt að vera "það sem það er", í stað þeirrar uppblásnu og óheilbrigðu ímyndar sem var að vaxa upp með þjóðinni á 21. öldinni er það líka gott. -

Ef Ísland hefur verið neytt til að koma út úr skápnum, fyrst vestrænna þjóða, og þröngvað til að leita nýrra leiða til að skapa mannvænna samfélag, ber að fagna því.  

Ef að Íslendingar eru að átta sig á því að það er ekki endilega eftirsóknarvert að teljast meðal auðugustu þjóða jarðar og að hamingjan er ekki fólgin í að eiga erlendar verslunarkeðjur og fótboltafélög og hafa efni á því að eta gull í Dubai, er það mikil framför.

Það lét Íslendingum aldrei vel að bera sig saman við þjóðir og háttu þjóða, sem eiga sér langa sögu af yfirgangi gagnvart öðrum þjóðum og hömlulausum ágangi á náttúrauðlindir heimsins. Við tilheyrðum aldrei þeim hópi og nú höfum við vonandi áttað okkur á að samleið með honum er ekkert eftirsóknarverð.

Ísland hefur sem betur fer hrapað á öllum velferðar og hamingjulistum þar sem þjóðirnar eru bornar saman við hverja aðra og notast er við staðla sem eru gjörsamlega grundvallaðir á efnishyggju.


mbl.is Ímynd Íslands í molum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmyndafræðilega gjaldþrota þjóðfundur

Setningarnar sem eiga að "skýra inntak grunngilda" þjóðfundarins, segja mikið um það hugmyndafræðilega gjaldþrot sem íslenska þjóðin virðist vera komin í.  Ef þessi lesning er þverskurður af afstöðu fólks til þeirra lífsgilda sem þjóðin á að lifa eftir og teljast eftirsóknaverð, er ljóst að engra breytinga, engra úrbóta er að vænta úr þeirri átt.

Þessi svokölluðu "grunngildi"  eru að megninu til  gamlar tuggur sem hinir ýmsu  stjórnmálaflokkar og framboð hafa gripið til á góðri stundu til að skreyta með stefnuskrár sínar fyrir kosningar sem þátttakendur þjóðfundarins hafa gert sér að góðu að jórtra á eina ferðina enn.  - 

Því miður, þessi tegund af "þjóðfundum" eru gagnslaus.


mbl.is Grunngildin skýrð á þjóðfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband