Vilja fá að vita afstöðu frambjóðenda til aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Það mun ekki líða á löngu þar til hin ýmsu hagsmunasamtök á landinu fara á stúfana til að forvitnast um afstöðu frambjóðenda til stjórnlagaþings til hinna ýmsu mála. Sú vitneskja getur ráðið úrslitum þegar kemur að kosningunum, sérstaklega ef vikomandi samtök ætla að beita sér fyrir vali þeirra sem eru hallir undir málstað þeirra. Formlegur fulltrúi þjóðkirkjunnar, Biskupsstofa,  hefur nú riðið á vaðið og sent beiðni til allra frambjóðendanna og beðið þá um að greina frá afstöðu sinni til aðskilnaðar ríkis og kirkju. -

Enn sem komið er styð ég aðeins einn frambjóðanda til þingsins, en hann heitir Inga Daníelsdóttir og er frá Ísafirði. Inga hefur birt á bloggi sínu svarbréf til biskupsstofu sem ég leyfi mér að endurbirta hér að neðan. Inga hefur nýlega opnað bloggsíði hér á blog.is og er hana að finna hér.

Miðað við nýlegar skoðanakannanir og niðurstöðu þjóðfundar virðist meirihluti almennings vilja rjúfa núverandi tengsl ríkis og þjóðkirkju og eðlilegt er að til þess verði horft við gerð stjórnarskrárinnar. Ástæður þess að fólk vill rjúfa tengslin eru í stórum dráttum af tvennum toga og afar ólíkar.

  • Sumir vilja einfaldlega sem allra minnst trúarleg áhrif í samfélaginu, telja trú og trúarbrögð arf fortíðar sem ekki eigi erindi við upplýsta nútímamenn.  
  • Aðrir tala um að tengsl þjóðkirkjunnar við ríkið skapi henni svo mikil forréttindi umfram önnur trúfélög að í raun sé fólki mismunað eftir trúfélögum. Það sé því í þágu jafnréttis að rjúfa þessi tengsl.

Talsmenn fyrrnefnda viðhorfsins beita raunar síðari rökunum líka óspart.

Sé litið til þess að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni og notar þjónustu hennar á stærstu stundunum á lífsleiðinni, og jafnframt að meðlimir annarra trúfélaga skipta þúsundum, má ætla að nauðsynlegt sé að tryggja starfsgrundvöll trúfélaga frekar en að ýta þeim út á jaðar samfélagsins.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að það hversu lítið hefur verið gert úr siðferði og gildum á undanförnum árum og áratugum í samanburði við frama og efnishyggju, hafi skaðað samfélagið verulega. Við þurfum að rækta, ekki aðeins siðvit heldur siðræna færni sem undirstöðu á öllum sviðum þjóðlífsins. Allt sem gert er í lífinu byggist á einhvern hátt á skoðunum og viðhorfum. Trú og lífsviðhorf eru því ekki einkamál eins og margir halda fram.

Þótt líkur bendi til að fallið verði frá þjóðkirkju fyrirkomulaginu við gerð nýrrar stjórnarskrár vona ég að hægt verði að búa svo um hnúta að fótunum verði ekki kippt undan starfsemi kirkjunnar í einni svipan en hún fái aðlögunartíma til að fóta sig við nýjar aðstæður. Aðskilnaðurinn kann líka að vera flóknari en sumir ætla, m.a. vegna eigna sem deila má um hvort séu eign trúfélags eða þjóðareign.

Sjálfsagt er að það komi fram að ég er bahá‘íi og sit í Andlegu þjóðarráði bahá‘ía á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Nú kvikna erfiðar spurningar Svanur. Er þetta innlegg virkilega frá þér eða er hér að tala ormurinn frá Mr. Bedi?

Ólafur Eiríksson, 12.11.2010 kl. 02:26

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.11.2010 kl. 02:46

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Gott svar hjá Ingu Dan.

Theódór Norðkvist, 12.11.2010 kl. 03:47

4 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Hlutlaus Svanur? 

Sjálfsagt er að það komi fram að ég er bahá‘íi og sit í Andlegu þjóðarráði bahá‘ía á Íslandi.

hehe ... en jæja, ég er ekki betri sjálfur. Ég varð bara að bauna þessu að!

Guðsteinn Haukur Barkarson, 12.11.2010 kl. 10:00

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæll Svanur. Ég hef einmitt tekið eftir Ingu á blogginu og líst vel á það sem hún skrifar. Góður fulltrúi á stjórnlagaþingi.

Reyndar er ég ekki alveg hlutlaus þar sem kona á í hlut - hafandi verið stuðningsmaður kvennalistans sáluga alla hans lífdaga :)

Kolbrún Hilmars, 12.11.2010 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband