Færsluflokkur: Mannréttindi

Þjóðarsálin enn í sárum

Halldór Ásgrímsson og Davið Oddsson ákváðu sín á milli að verða við bón George Bush um að styðja árásina á Írak. Halldór Ásgrímsson taldi að ef Ísland styddi innrásina formlega mundi Bush láta fresta brottför bandaríkjahers frá Vatnsnesheiði. -

Halldór  taldi sig með þessu vera að vinna Suðurnesjamönnum og þjóðinni allri gagn og Davíð taldi sig eiga í nógu góðu vinfengi við Bush til að það væri þess virði að láta á þetta reyna. Auðvitað var þeim aldrei lofað neinu. Þeir gerðu þetta upp á von og óvon.

En líkt og Bush og Blair misreiknuðu gjörsamlega afleiðingar innrásarinnar, misreiknaði íslenska ráðherraparið vilja Bush og stjórnar hans við að verðlauna dverganna 7 sem studdu innrásina í blóra við alþjóðlegar samþykktir. Stuðningur Íslands hafði áður en varði öfug áhrif en til var ætlast, sérstaklega eftir því sem leið á styrjöldina.

Í Bandaríkjunum var gert óspart grín að þessari herlausu 300.000 manna þjóð, sem þóttist styðja tvö öflugustu herveldi heims til að gera ólöglega innrás í fullvalda ríki og vonast til að fá að launum áframhaldandi atvinnu fyrir 1500 manns. Meira að segja Bush skammaðist sín fyrir að hafa Ísland með á þessum lista sem hann vissi að var algjörlega gagnslaus þegar honum var beitt til að reyna að vinna málstaðnum fylgi.

En mest var skömmin sem Íslendingar fundu sjálfir til og ekki sér fyrir endann á ennþá. Kannski er frekari umfjöllun um þetta mál góð fyrir þjóðarsálina. Kannski getur hún grætt sárin sem enn neita að gróa. Það finnst mér samt ólíklegt. Enn geisar ógnaröld i Írak. Hvernig geta Íslendingar orðið sáttir við sjálfa sig á meðan fólk deyr daglega í átökum sem við áttum þátt í að hefja.


mbl.is Vilja rannsaka ákvörðun um stuðning við Íraksstríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin frábæra Stella K. Víðisdóttir

Nei, það hvetur ekki til sjálfshjálpar að þiggja eitthvað í poka að borða fyrir sjálfan sig og börnin sín. Það er nefnilega ekkert atvinnuleysi og fólk getur fengið nóg að gera og þannig keypt sinn mat sjálft. Það eru þessi aumingjaelskendur sem kalla sig hjálparsamtök skemma allt og koma í veg fyrir að þetta pakk fái sér vinnu.

Að auki láta þau borgaryfirvöld líta illa út. Bara af því að borgaryfirvöld gera ekkert í þessum málum þýðir ekki að þau viti ekki um þurftalingana. Nei, ástæðan fyrir því að yfirvöld bregðast ekki við fátæktinni, er að þau vilja það ekki. Þannig er þetta í pottinn búið og það veit Stella K. Víðisdóttir, sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.


mbl.is Deila á matargjafir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsöm afstaða til umdeilds máls

Mikið hefur verið rætt og skrifað um tillögur Mannréttindaráðs og menntaráðs Reykjavíkurborgar um bann við trúarstarfi innan grunn- og leikskóla borgarinnar. Hér að neðan er að finna bréf sem mér finnst sýna skynsama afstöðu til þessa umdeilda máls.

ANDLEGT ÞJÓÐARRÁÐ BAHÁ’ÍA Á ÍSLANDI

THE NATIONAL SPIRITUAL ASSEMBLY OF THE BAHÁ’ÍS OF ICELAND

Öldugata 2 – P.O. Box 536 – 121 Reykjavík

Sími/Telephone: + 354 - 567-0344 – Netfang/E-mail: nsa@bahai.is

Mannréttindaráð og Menntaráð

Ráðhús Reykjavíkur

Tjarnargötu 11

101 Reykjavík

Sent í tölvupósti á formenn nefndanna

margret.kristjana.sverrisdottir@reykjavik.is og

oddny.sturludottir@reykjavik.is

Einnig sent til valinna fjölmiðla

27. október 2010

Efni: Fræðum börnin en tryggjum sjálfstæði skólastarfsins

Nýlegar tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur um að banna trúarstarf innan grunn- og leikskóla borgarinnar hafa vakið sterk viðbrögð og heitar umræður. Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Íslandi vill af því tilefni koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri fyrir hönd íslenska bahá’í samfélagsins:

Sjálfstæði skólastarfs í landinu verður að tryggja með öllum ráðum. Það getur engan veginn talist eðlilegt að aðilar utan skólanna eigi sérstaka kröfu á að starfa innan þeirra.

Á hinn bóginn er mikilvægt að skólar njóti óskoraðs frelsis til að styðja við menntun og upplýsingu nemenda sinna, þar á meðal með almennri fræðslu um helstu trúarbrögð og trúarhugmyndir mannkyns.

Í slíkri fræðslu gæti til dæmis falist að bjóða talsmönnum trúar- og lífsskoðunarhópa að kynna trú sína og skoðanir auk vettvangsferða nemenda til þess að kynnast starfi þeirra. Slík fræðsla víkkar ekki aðeins sjóndeildarhring barnanna heldur getur einnig komið í veg fyrir þá fordóma sem fáfræði um fjölbreytilegan andlegan arf mannkynsins elur af sér.

Mikilvægt er að börnum líði vel í skóla og í ýmsum tilvikum getur það orðið til að auka gagnkvæman skilning og umburðarlyndi að nemendurnir fái tækifæri til að kynnast sérstökum aðstæðum einstakra skólafélaga sinna, hvort heldur þær lúta að trú þeirra, þjóðerni eða fötlun, svo dæmi séu tekin. Kynning, heimsóknir eða vettvangsferðir ættu að vera sjálfsagður liður í þeirri viðleitni skólans.

Þekking á trúarbrögðum mannkyns flokkast ótvírætt undir almenna grunnþekkingu á menningarsögu heimsins. Sé vel staðið að kennslu um trúarbrögð, heimspeki og lífsskoðanir almennt ætti hún einnig að vinna gegn fordómum og stuðla að skilningi á ólíkum leiðum til að vinna með lífssýn og þroska. Börn og unglingar ættu að fá að kynnast sem flestum hliðum trúar- og lífsskoðana en skólayfirvöld verða sjálf að setja rammann utan um þá kynningu og eiga frumkvæði að henni.

Með kveðju,

______________________________

Róbert Badí Baldursson

ritari Andlegs þjóðarráðs bahá’ía á Íslandi


mbl.is Sjálfstæði skólastarfs verði tryggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérréttindi kristindómsins

Það er með ólíkindum að heyra fólk tala um árás á mannréttindi í tengslum við tillögurnar um að afnema það sem ekki getur talist annað en virkt trúboð í skólum landsins. Það er réttlætismál að allar lífskoðannir fólksins í landinu, sitji við sama borð þegar kemur að opinberum stofnunum og afskiptum þeirra af trúarlífi fólks. Aðskilnaður ríkis og kirkju er löngu tímabær og það óréttlæti að ein trúarbrögð njóti forréttinda fram yfir aðrar góðar og gildar lífsskoðanir, er mikil tímaskekkja.

Þjóðkirkjan hefur um langt skeið, eins og allir vita, notið ýmissa forréttinda í skólum landsins á sama tíma og trúfrelsi er sagt ríkja í landinu. Hvers konar frelsi er það í reynd sem ekki tekur tillit til sjálfsagðra jafnréttisreglna?

Önnur vörn þeirra sem vilja óbreyttan aðgang til að móta lífsskoðanir barna eins og þeir hafa gert frá því að skólaganga varð almenn í landinu, er að spila á þá slæmu ímynd sem íslamískir öfgamenn hafa komið á trú sína. Það sjónarmiðið að best sé að halda kristni til streytu í skólum landsins til mótvægis við einstrengingslega afstöðu stjórnvalda í löndum Íslam, er ekki sannfærandi og er meira í ætt við vænisýki en heilbrigða hugsun. Að halda sig við slæma siði, af því að einhver annar gerir það, hefur aldrei þótt góður boðskapur. 


Írska flökkufólkið

Í Bretlandi er flökkufólk (Travellers) af ýmsu tagi  talið vera 300.000 talsins.  Þar sem annarstaðar í Evrópu er Róma fólkið fjölmennast. Næst fjölmennastir eru svo kallaðir írskir flakkarar. Erfitt að segja til með vissu um fjölda þeirra en þeir eru taldir vera ekki færri en 30.000.

An Lucht Siúil , Fólkið gangandi.

Írskt farandfólkÍrska farandfólkið er eins og nafnið bendir til upprunalega frá Írlandi. Það hefur eigin siði og hefðir og að mörgu leiti sjálfstæða menningu. Það er að finna einkum á Írlandi, á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum. 

Upp á enska tungu kallar það sig stundum  Minceir eða Pavees  en á Shelta, sem er þeirra móðurmál,  kalla þeir sig an Lucht Siúil sem merkir bókstaflega "Fólkið gangandi". Shelta málið sem er talið vara frá átjándu öld, skiptist í tvær mállýskur; Gammon og Cant.

Margir trúa enn að tungumálið hafi verið þróað meðal flökkufólksins til að aðrir gætu ekki skilið það þegar það reyndi að svíkja og pretta almenning. Svo er þó ekki því tungumálið er raunverulegt tungumál.

Mjög er deilt um uppruna írska farandfólksins. Vandamálið er að þeir sjálfir hafa ekki haldið til haga sögu sinni og ákaflega lítið er um það að finna í heimildum frá Írlandi sem þó verður að teljast mikil söguþjóð.  

írskir flakkararLengi hefur því verið haldið fram að "fólkið gangandi" væri afkomendur landeigenda og vinnufólks þess sem Oliwer Cromwell flæmdi burt af írskum býlum á árunum 1649–53. Aldur tungumáls þeirra styður þá kenningu.

Aðrir segja að þeir séu afkomendur þeirra sem neyddust á vergang í sultarkreppunni miklu upp úr 1840.  En aðrir segja að ýmislegt bendi til að það sé komið af hirðingjum sem bjuggu á Írlandi á fimmtu öld og sem á tólftu öld voru kunnir undir nöfnunum "Tynkler" og "Tynker" (Tinnari). Slík nöfn þykja írska farandfólkinu niðrandi í dag.

Ljóst er að sumar fjölskyldur írska farandfólksins rekja ættir sínar tiltölulega stutt aftur í tímann en aðrar nokkrar aldir. Á Bretlandi er talið að þær telji allt að 30.000 manns.

Það safnar gjarnan brotamálmi á ferðum sínum um landið og sérhæfir sig í hundarækt og ræktun og sölu hesta.

BrúðurÞá kemur það árlega saman á stórum mótum bæði í Ballinasloe á Írlandi og í Appleby á Bretlandi til að eiga viðskipti við hvort annað og finna maka fyrir börn sín. Algengt er að stúlkur trúlofist nokkuð eldri drengjum þegar þær eru 14 ára og gifti sig þegar þær verða 16 ára.

Fyrrum ferðuðust írskir flakkarar um á hestvögnum. Í dag hafa margir þeirra sest að í hjólhýsahverfum. þeir sem enn eru á ferðinni,  ferðast um í stórum hjólhýsum.

Upp til hópa eru írsku flakkararnir fátækir og ómenntaðir. Lífslíkur á meðal þeirra eru undir meðaltali og barnadauði hærri en gengur og gerist annarstaðar í breskum samfélögum.

Almenningur er haldin miklum fordómum gagnvart þessu fólki og telur það vera þjófótta lygara og glæpamenn upp til hópa. 

 


Af uppruna Roma fólksins

Roma fólkÍ öllum Evrópulöndum nema e.t.v. á Íslandi, má finna farandfólk af ýmsu tagi. Fjölmennasti og langþekktasti hópurinn er án efa Roma fólkið sem jafnan gengur undir ýmsum nöfnum í  mismunandi þjóðlöndum. Á Íslandi er það jafnan nefnt Sígaunar. 

Algengasta samheitið yfir Roma fólkið er "Gyptar" (Gypsy) sem er dregið af landinu sem lengi vel var talið vera upprunaleg heimkynni þessa fólks, Egyptalandi. Seinni tíma mannfræðirannsóknir, orðsifjafræði og litningarannsóknir, hafa hins vegar leitt í ljós að Roma fólkið á ættir sínar að rekja til  Indlands.

Víða á Indlandi en einkum í Rajastan í Punjap héraði, er enn að finna hópa fólks sem tilheyrir þjóðflokki sem nefndist Domba. Nafnið kemur úr sanskrít og þýðir trumba eða tromma.

Domba Fólk á IndlandiDomba fólkið er flökkufólk sem tilheyrir stétt hinna "ósnertanlegu". Meðal þess hefur þróast mikil sagnahefð , rík hefð fyrir tónlistarflutningi, dansi, spádómaspuna og óvenjulegu dýrahaldi.  

Í helgiritum hindúa og búddista eru orðin doma og/eða domba, notuð yfir fólk sem eru þrælar eða aðskilið að einhverju leiti frá samfélagi manna. Sem stétt hina "óhreinu" eða "ósnertanlegu" gengur Doma fólkið einnig undir nafninu "Chandala".

Líklegt  þykir að Róma fólkið eigi ættir sínar og uppruna að rekja til Domba fólksins. Nafnið Roma er komið af orðinu Domba og mörg önnur orð í romönsku, tungumáli Roma fólksins, eru greinilega komin úr domba-mállýskunni.

Í frægu persnesku  hetjukvæði eftir skáldið Firdawsi, segir m.a. frá því hvernig persneska konunginum Shah Bahram V. (einnig nefndur Bahramgur) var árið 420 e.k. færðir að gjöf 12.000 tónlistamenn og skemmtikraftar af Domba kynþættinum, að launum fyrir að hafa hjálpað indverska kónginum Shankal af Kanauj  í stríði hans við Kínverja.

Fólk þetta settist til að byrja með að í Persíu en dreifði sér síðan til allflestra landa Mið-austurlanda.  Eitt sinn var því haldið fram að Roma fólkið í Evrópu, væri komið af þessum listamönnum. Svo mun þó ekki vera. Orðsifjafræðin gefur til kynna að forfeður nútíma Roma fólks hafi ekki yfirgefið Indland fyrr en um og eftir árið 1000 e.k.

Dom börn frá ÍsraelÞað er samt athyglisvert að í dag má finna afkomendur þessa listafólksfólks í Íran, Írak, Tyrklandi, Egyptalandi , Líbýu og Ísrael.  Það kallast Dom eða Domi og hefur enn atvinnu sem söng, dansi og frásögnum og stundar að auki flökkulíf, líkt og forfeður þeirra á Indlandi fyrir 1500 árum.

Romanskan er mikil heimild um langa leið Roma fólksins frá Indlandi til Evrópu. Í því má finna fjölda tökuorða frá hverju því landi sem það hafði viðdvöl í. Þess vegna má segja með nokkurri vissu að leiðir þess fyrir rétt þúsund árum, hafi legið um Afganistan, Persíu (Írak og Íran), Tyrkland, Grikkland og Armeníu.

Líklegasta ástæðan fyrir því að fólk þetta yfirgaf Indland er að það hafi hrakist undan landvinningum Mahmuds af Ghazni sem á árunum 1001-1027 e.k. herjaði mjög á Punjab og Sindh héruðin þar sem Doma fólkið var fjölmennt.

Þá segir sagan að Mahmud hafi í þessum herferðum hertekið mikinn fjölda listamanna og fjölleikafólks og flutt það til borga sinna í Afganistan og Persíu. Enn í dag kennir ein af a.m.k. 60 þekktum ættum Roma fólks í Evrópu sig við héraðið Khurasan í Persíu.

Roma í TyrkalndiViðdvöl Roma fólksins í Austrómverska-ríkinu, Tyrklandi og Grikklandi, áður en það hélt inn í mið- Evrópu mun hafa varað í 2-300 ár. Við komuna þangað var það fljótlega kennt við óhreina trúvillinga, svo kallaða Atsingani eða Athiganoi,  sem eitt sinn voru til í Phrygíu. E.t.v. vill var einfaldlega um að ræða þýðingu á orðinu "Chandala". Af Atsingani er heitið latneska Cigani dregið, á þýsku Zigeuner og á íslensku Sígaunar.

Roma fólki er af þessum sökum skiljanlega ekki vel við að láta kalla sig Sígauna. Það vill kalla sig Roma, Gypta eða Sinti. (merkir maður og kemur úr mállýsku frá Sind sem nú er hérað í Pakistan þar sem Roma fólkið hafi aðsetur um langt skeið á leið sinni til Evrópu)


Hið kínverska Gestapo

Þetta er kínverska leiðin. Fólk bara hverfur fyrirvaralaus og sést aldrei aftur. Sérsveitir (PAP) kínversku öryggislögreglunnar haga sér eins og Gestapo í Þýskalandi á sínum tíma og það eru engar ýkjur.

Þær ráða yfir ólöglegum sveitum eins 6-10 Office sveitinni sem hafa það að sérsviði að fanga og pynda Falun Gong meðlimi.  Yfirvöld í Kína hafa alltaf hagað sér eins og þeim komi það ekkert við hvað aðrar þjóðir hugsa eða segja um þau. Og vegna þess hafa flestar þjóðir gefist upp við að gagnrýna mannréttindabrot í Kína.

Að auki er Kína komið með efnahagslegt hreðjatak á fjölda þjóða. Engin þorir að segja neitt. Íslendingum þykir nú voða fínt að bjóða þessum gráðuga og miskunnarlausa risa í kaffi og kökur heim til sín og Kínverjum þykir gaman að Íslendingum. Þeir eru sniðugir og kunna að bora holur og búa til lakkrís.

Þegar að Jón Gnarr afhenti Liu Qi,fyrrverandi borgarstjóra Peking (1999-2003) og formanns undirbúningsnefndar Ólympíuleikanna í Peking og núverandi  aðalritara kínverska kommúnistaflokksins,  mótmælabréf vegna Liu Xiaobo, á dögunum, hlógu margir að honum.

Aðrir sögðu að Jón væri bara að sækjast eftir athygli.

Sannleikurinn er sá að Jón Gnarr er eini íslenski áhrifamaðurinn á sem hefur vogað sér að mótmæla á svona beinan hátt fangelsi friðarverðlaunahafans. Það væri óskandi að fleiri fetuðu í hans spor.

 

 


mbl.is Eiginkona Xiaobao „horfin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig verður utanþingsstjórn til

Til að utanþingsstjórn geti orðið að veruleika þarf annað tveggja að koma til. Það fyrra er að efnt verði sem fyrst til kosninga og í þeim verði flokkum veitt svo rækileg ráðning að fylgi þeirra nánast þurrkist út,  líkt og gerðist á Ítalíu fyrir nokkrum árum.

Hin aðferðin er mun fljótlegri, þ.e. að fá þá til að draga sig í hlé. Til þess þyrfti ríkisstjórnin sem fyrst að biðjast lausnar, svo að forseti Íslands geti skipað utanþingsstjórn til að skipuleggja og halda utan um endurreisn efnahagslífsins.

Utanþingsstjórn er í þingræðisríki ríkisstjórn sem tekur við völdum tímabundið þegar ekki tekst að mynda ríkisstjórn eftir hefðbundnum lýðræðislegum leiðum af einhverjum ástæðum. Utanþingsstjórnir eru skipaðar beint af þjóðhöfðingja og stjórna með stuðningi eða hlutleysi löggjafarvaldsins.

Þorvaldur Gylfason segir svo um utanþingsstjórnina 1942-44 sem er eina skiptið sem slík stjórn hefur verð skipuð á Íslandi.

Íslendingar hafa einu sinni búið við utanþingsstjórn, í miðju stríði 1942-44. Hún var skipuð vegna þess, að þingflokkarnir komu sér ekki saman um myndun meirihlutastjórnar. Ríkisstjóri Íslands þurfti því að taka af skarið og skipaði stjórn undir forsæti dr. Björns Þórðarsonar, héraðsdómara í Reykjavík. Björn hafði boðið sig fram til þings 1927 fyrir Framsóknarflokkinn, en ekki náð kjöri. Með honum í stjórninni sátu við fimmta mann Björn Ólafsson stórkaupmaður, sem var tengdur Sjálfstæðisflokknum og síðar þingmaður hans 1948-59, og Vilhjálmur Þór, forstjóri SÍS og síðar seðlabankastjóri, nátengdur Framsóknarflokknum. Utanþingsstjórnin var í daglegu tali kölluð "Coca Cola"-stjórnin, þar eð eigendur verksmiðjunnar voru Björn Ólafsson og Vilhjálmur Þór, holdgervingar helmingaskiptanna.

Utanþingsstjórn nú yrði líkt og fyrr litin hornauga á Alþingi. Sex ráðuneyti myndu duga: forsætis, utanríkis, fjármála, heilbrigðis- og menntamála, atvinnuvega (byggða, iðnaðar, landbúnaðar, sjávarútvegs, viðskipta), og innanríkis (dóms, kirkju, félagsmála, samgöngu, umhverfis).


Útgönguleið Jóhönnu

Jóhanna og Steingrímur eru komin í þrot. Þau eru að leita útgönguleiða. Í raun vilja þau nýjar kosningar. Þeim varð það ljóst í gærkveldi að hjá þeim yrði ekki komist nema að þau mundu bjóða stjórnarandstöðunni með í stjórn og Það vildu þau alls ekki.  

Að kalla stjórnarandstöðuna á sinn fund, til að gera þeim grein fyrir að allt yrði með sama hætti og fyrr er liður í útgönguáætlun þeirra. Nú geta þau sagt að allt hafi verið reynt en stjórnarandstaðan hafi ekki viljað hjálpa neitt og því verði að efna til nýrra kosninga. -

Kosningabaráttan er í raun hafinn. Jóhanna notar sömu frasana í dag og hún notaði fyrir síðustu kosningar. - Spurningin er hvort þjóðin er sé tilbúin í eina umferð enn af þessum pólitíska hráskinnaleik.


mbl.is Vilja ekki breyta um stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættuleg hugmynd

Sé það rétt greining hjá Einar Mar stjórnmálafræðingi að stjórnmálakreppa sé í landinu, má alveg færa fyrir því nokkuð góð rök að sú kreppa sé aðeins hluti af þeirri kreppu sem ríkir almennt í landinu.

Pólitíska kreppan er  tilkomin m.a. af því að alþingismönnum er ætlað að skipta sér upp í lið, með og á móti. Allir verða að þykjast vita hvað þeir eru að gera, hvort sem það er satt eða ekki.

Nú bregður svo við að enginn virðist vita hvað á að gera og því  þrasa pólitíkusarnir út í loftið til þess eins að hylja það að þeir vita ekki hvernig á að bregðast við vandanum. Ef þú heyrir stjórnmálamann gagnrýna látlaust "andstæðinga" sína, er það ekki vegna þess að það sem hann segir er staðföst skoðun hans, heldur að hann veit ekki hvernig á að leysa málin.

Önnur ástæða kreppunnar er að margir stjórnmálmenn gera sér ljóst að vangeta þeirra til að finna lausnir við vandamálunum sem að steðja, er tengs því að stjórnmálaflokkarnir hafa koma því til leiðar að ákvarðanir varða að vera teknar á þröngum pólitískum grunni, ekki með hag almennings í huga. Þeir vita að ef þeir ættu að vinna þjóðinni gagn gegnheilt, mundu þeir verða að ganga úr flokknum. Og ef allt ætti að vera eins og best gæti orðið, væri best að banna stjórnmálaflokkum að bjóða fram og tak þess í stað upp persónukjör. Það veldur alltaf kreppu hjá fólki að tala gegn betri vitund.

En þetta er mjög hættuleg hugmynd. Að hægt sé að velja meðlimi löggjafrasamkundu sem síðan mundi velja ríkisstjórn án þess að stjórnmálaflokkar þurfi nokkuð að koma við sögu, er einnig framandi hugmynd.   Kæmi slíkt til framkvæmda mundi það raska öllum valdahlutföllum í landinu og gera flokkseigendurnar og þá sem fjármagna starfsemi þeirra, valdalausa. Í öðru lagi er hugmyndin svo róttæk að hún hræðir fólk. Fólk er tilbúið að ganga í gegnum ótrúlegar þjáningar, frekar en að breyta kerfinu sem það býr við. Í því m.a. fest styrkur flokkseigendanna. Þeir vita að fólk er hrætt og hræðsla skapar kreppu.


mbl.is Stjórnmálakreppa í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband