Færsluflokkur: Mannréttindi
4.10.2010 | 22:25
Almenningur hefur tekið við hlutverki stjórnarandstöðunnar
Þórs Saari bar af öllum þeim tóku til máls á Alþingi í kvöld. Ræða Baldvins Jónssonar var líka ágæt. Hann benti á það sem er skelfilegast við aðstæðurnar, að engir betri kostir eru raunverulega í stöðunni eins og komið er, þar sem tækifærinu til að koma á persónukjöri hefur verið fyrirgert. Þjóðarstjórn virðist nú eini raunhæfi kosturinn.
Þór var hvassari. Hann virtist vera sá eini sem endurómaði að einhverju leiti kröfur þeirra þúsunda sem börðu ílátin fyrir utan þinghúsið. Þór talaði tæpitungulaust og skammaði alla þingmenn jafnt. Þeir áttu það skilið.
Ótrúlegur uppgjafatónn var í stjórnarliðum enda gera þeir grein fyrir að þeim hefur mistekist ætlunarverk sitt. Gömul meðul duga ekki. Bæði Sjálfstæðisfólkið og Framsóknarmenn virtust ekki vita í hvern fótinn átti að standa. Þeir reyndu að gagnrýna enn vissu að um leið voru þeir að gagnrýna sjálfa sig og engar nýungar höfðu þeir með í farteskinu.
Fólk gerir sér í auknum mæli grein fyrir því að efnahagsbati og réttlæti i þjóðfélaginu veltur á að gamla flokkspólitíska hugafarinu sé mokað út.
Krafan um Þjóðstjórn verður sjálfsagt ofaná eins og komið er. Þessi stjórn er í andarslitrunum. Almenningur hefur tekið að sér hlutverk stjórnarandstöðunnar og mun eflaust halda því áfram þar til viðunandi lýðræðisumbætur verða að veruleika.
![]() |
Stúta réttaríkinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.10.2010 | 14:13
Geir H. Haarde skal fórnað
Ansi er ég hræddur um að almenningur, hvað þá þeir sem hyggjast ætla aða sækja málið gegn Geir Haarde, verði að herða hjarta sitt til að sjá þetta mál til enda. Það þarf að hafa einbeittan vilja til að sakfella mann fyrir að gera nákvæmlega það sem allir aðrir voru að gera í kringum hann.
Hræsni pólitíkusa sem halda að það sé einhver friðþæging fólgin í því að fórna Geir, er svo auðsæ og pínleg að almenningur hlýtur að skammast sín fyrir það eitt að hafa nokkru sinni kallað eftir réttlæti.
Og slæm samviska allra sem að komu er farin að segja til sín.
Það var skelfilegt að sjá niðurlúta þingmenn við þingsetninguna, ganga sneypugönguna frá dómkirkjunni yfir í þinghúsið, berskjaldaðir fyrir eggjum og tómötum fólksins sem þeir hafa svikið. Hvílík hneisa, og hvílík skömm.
En hvaða önnur þjóð mundi gefa almenningi kost á að hæða þingmenn sína á þennan hátt. Það var eins og þeir væru þarna til að láta refsa sér.
Hvaða öryggisgæsla annars lands mundi gefa æstum lýð möguleika á að komast í slíkt návígi við æðstu stjórnendur landsins?
Að þessu leiti er Ísland eintakt. Allt er svo einfalt og augljóst.
Dorit forsetafrú var eins og hún væri að leika í bíómynd. Leikur hennar er ávalt svo einlægur. Hún starði sleginn út yfir æstan múginn eins og hún vildi segja; ég gref hjarta mitt við undað auga, er þetta virkilega orðið svona slæmt? Sama fólkið og sló búsáhöldin fyrir rúmu ári er mætt aftur og hrópar "Vanhæf ríkisstjórn". Hvað vill þessi skríll eiginlega?
En hvað fær gott og heiðarlegt fólk yfirleitt til að vera þingmenn, vitandi að eina leiðin til þess er að koma sér fyrir í einhverjum flokknum, læra að spila refskákina og taka þátt í óheiðarleikanum sem harðkóðaður er í alla flokkspólitík. Fólk sem veit af reynslunni að flokkakerfið sem það starfar eftir er megin sundrungaraflið í samfélaginu. Niðurlæging Geirs er einmitt niðurlæging hins pólitíska kerfis sem hann starfaði fyrir. Með því að ásaka Geir er fólk að ásaka sjálft sig.
![]() |
Ekki sekur frekar en Brown eða Bush |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2010 | 16:36
Eggjahræra og eldar við Austurvöll
Vonleysið í augum mótmælenda við Austurvöll í dag var augljóst. Reiðin líka. En hvað gagnar að mótmæla þegar engar lausnir eru í sjónmáli?
Allar klisjurnar eru orðnar svo þreyttar að það er vafasamt að hægt sé að segja eitthvað um "ástandið" sem ekki hefur verið sagt margoft áður. Róbert Marshall er samt ekkert smeykur við að hafa þær yfir, aftur og aftur. Fyrir fáeinum mánuðum voru allir búnir að fá leið á þessu "hvelvítis fokking fokki" eins og það var orðað. Eða var það bara þreyta? Er fólk virkilega reiðubúið að hoppa aftur á hringekjuna?
Forsetinn reyndi við þingsetninguna að telja kjark í þingmenn. Hann sagði að Ísland væri á góðri leið. Orð hans í þingsal hljómuðu ósannfærandi því fyrir utan hrópuðu 2000 raddir "Út með ruslið!" -
Gott og vel, mokum ruslinu út. En hvað á að koma í staðinn?
Hverjar eru lausnirnar og hverjir eru lausnararnir sem eiga að frelsa Ísland frá sjálfu sér? -
Allir vita að rótin að vandanum sem Íslendingar glíma við er harðkóðaður í það stjórnkerfi sem við búum við. Það er ekki hægt að stjórna landinu í gegnum stjórnmálaflokka án þess að beita einhverja þegna þess misrétti. Þeir sem ekki sjá þetta eru hluti af vandmálinu, ekki lausninni.
Stjórnmálaflokkar eru valdaklíkur sem hafa það eitt að markmiði að viðhalda völdum sínum eða komast til valda. Forsprakkar þeirra vita að þeir þurfa að slá um sig með lýðskrumi til að almenningur kjósi þá. Og almenningur fellur fyrir þessu, aftur og aftur. -
Af hverju? Af hverju trúir almenningur því að þessi úrelta stjórnskipan sé það besta sem lýðræðið hefur upp á að bjóða?
Nú t.d. sér stjórnarandstaðan sér leik á borði og vill að kosið sé aftur. Þeir vonast til að komast aftur til valda.
Ef að fólk vill raunverulegar breytingar ætti það að sameinast um þá kröfu að stjórnmálaflokkar fái ekki að bjóða fram til kosninga. Persónukjör er það eina sem getur komið í veg fyrir endalausa flokkapólitík sem er orsök þess að nauðsynleg sátt um aðgerðir, ekki hvað síst á þessum tímum, næst aldrei á alþingi.
PS.
Hugmynd mín var að blogga ekki aftur fyrr en ég hefði lokið við framhaldsgrein mína um "heimsfræðina". Henni er enn ekki lokið, en það styttist í hana og ég stóst ekki mátið:)
![]() |
Ekki til farsælda ef reiðin ræður för |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
18.9.2010 | 11:50
Barnaframleiðsla ehf.
Líffæraþjófnaðir sem fyrir 40 árum voru aðeins til í flökkusögum og vísindaskáldsögum eru í dag tiltölulega algengir. Sagan af Indverjanum sem vaknaði upp á Heathrow flugvelli með sár á kviðinum og eitt nýra er ekki lengur eins ótrúleg og hún var 1970 þegar hún gekk um heiminn. Þá er líffærasala tiltölulega algeng þrautalending fátækra Indverja og suður Ameríkubúa. -
Fyrir fáeinum dögum birtust fréttir um að vísindamönnum hefðu tekist að búa til gervi-legsem mannfóstur getur vaxið í. Með tilkomu slíkrar þekkingar mun eftirspurn eftir okfrumum og eggjum kvenna aukast. Og þar sem hver kona hefur aðeins takmarkaðan fjölda slíkra eggja, má leiða að því líkur að því að erfiðara sé að fá þau en sæði karlmanna. Að ræna kveneggjum verður daglegt brauð eins og hver annar líffæraþjófnaður. Þegar til staðar eru egg, sæði og leg er ekkert að vanbúnaði að hefja framleiðslu á börnum.
Með auknum möguleikum á að halda lífi í fóstrum utan konulegs, þarf ekki endilega að skilgreina slíkt lífi sem mennskt og þá er komin möguleiki á að framleiða fóstur til niðurrifs fyrir líffæra og líkamshlutaþega.
Brave New World!
![]() |
Stálu eggjum kvenna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2010 | 03:10
Burqa, tákn um kúgun
Í Kóraninum er hvergi minnst á Burqa. Múhameð bauð fylgjendum sínum að virða reglurnar um "hijab"sem átti upphaflega við tjaldvegg sem hengdur var umhverfis vinnusvæði og vistarverur kvenna í hálfköruðum búðum Spámannsins í Medína eftir flótta hans frá Mekka. Reglurnar voru einfaldlega þær að karlmennirnir áttu að halda sig utan tjaldveggsins fyrir utan málsverðartíma nema þeir væru sérstaklega boðnir. -
"Ó þið sem trúið. Komið ekki í híbýli spámannsins til að matast fyrir utan viðeigandi tíma, nema að þið hafið fengið til þess leyfi. En ef ykkur hefur verið boðið, komið þá og þegar máltíðinni er lokið, hverfið þá á braut. Staldrið ekki við til samræðna, því það veldur spámanninum ama og að biðja ykkur um að fara er honum feimnismál; en Guð er ekki feiminn við sannleikann. Og þegar að þið biðjið konur spámannsins um eitthvað, gerið það handan tjalds. Þetta er hreinna fyrir ykkar hjörtu og þeirra."
Þessi einföldu tilmæli Múhameðs til fylgjenda sinna áttu eftir að hafa víðtæk áhrif. Um leið og hann dróg eðlileg efnisleg mörk milli fjölskyldu sinnar og átrúendanna lagði hann félagslegan grundvöll að aðgreiningu stétta og aðgreiningu kynjanna. Tjaldið sem að greina átti vistarverur kvenna spámannsins frá almúganum var fljótlega fært að andliti þeirra og blæjan sem var í fyrstu vernd þeirra og skjól, varð að tákni stöðu þeirra í samfélaginu. Í 33. Versi 35 súru er sú staða skírð. "
"Karlmenn eru verndarar og forsjáendur kvenna. Vegna þess að Guð hefur gefið öðru þeirra meira en hinu og vegna þess að þeir sjá fyrir fyrir þeim með getu sinni. Þess vegna eru réttsýnar konur innilega undirgefnar og gæta þess í fjarveru þess sem Guð ætlar þeim að gæta."
Á fyrstu öld Íslam gengu kvenmenn hvorki í burqa búningum né báru þær almennt andlitsslæður. Þær klæddust samt oft, eins og kynsystur þeirra af öðrum trúarbrögðum, (kristni og gyðingdómi) höfuðklútum (Khimar) einkum til að skýla sér frá hita. Slíkir klútar þjóna líka til að uppfylla trúarlega skyldu í öllum þremur trúarbrögðunum sem boða að hylja beri höfuðkoll sinn fyrir Guði.
Í Íslam eru múslímar hvattir til að sýna hógværð í klæðnaði, bæði karlmenn og kvenmenn. Kvenmenn eru hvattir til að klæða "fegurð" sína af sér og er þar átt við brjóst, hár, axlir og handleggi. Smá saman var farið að beita ákvæðum "hijab" til að móta klæðnað kvenna á almannfæri. Tjaldið sem umlukti hýbýli þeirra var fært upp að andliti þeirra og líkamir þeirra umvafðir þeim. Ef þær þurftu að ferðast var þeim gert að hýrast í Hovda (tjaldhýsi á hesti eða úlfalda).
Í gegn um aldirnar hefur andlitsslæðan og burqa búningurinn tekið á sig mismunandi myndir. Konur Mullahnna (prestaanna) og virtra kennimanna Íslam gerðu sér far um að sýna guðrækni sína og bónda síns með því að klæðast eftir ströngustu túlkunum og við það varð klæðnaðurinn að einskonar hefðarkvennabúningi.
Þegar að Íslamska heimsveldinu tók að hnigna, tóku Persar og Arabar upp afar einstrengingslega stefnu í öllum málum hvað varðaði rétt kvenna til menntunar og sjálfræðis. Misrétti varð að almennri reglu frekar en undantekningu. Samtímis varð andlistslæðan og burqa búningurinn að tákni um kúgun þeirra.
Í löndum Íslam í dag er samt mjög misjafnt hvernig konur og menn þeirra álíta að þessum reglum Kóransins sé fullnægt. Víst er að mestu öfgunum var náð í valdatíð Talibana í Afganistan.
Sumar konur klæðast aðeins Khimar höfuðklútnum, aðrar klæðast niqab sem er bæði höfuð, háls og andlitsslæða. Þá velja sumar að klæðast Chador sem er létt útfærsla á burqa. Í sumum löndum múslíma eins og Pakistan eru engin lög í gildi um klæðnað kvenna.
Sá búningur sem varð seint á síðustu öld einskonar árétting rétttrúnaðar Íslamskra kvenna, ekki hvað síst á Vesturlöndum þar sem þessi klæðaburður var í auknum mæli gagnrýndur, var hannaður í Afganistan.
Holland var fyrsta landið í Evrópu til að banna burqa-búningin á opinberum vettvangi en til þess er hann einmitt ætlaður. Múslímar klæðast allt örðum klæðnaði heima hjá sér.
Þessi grein er endurbirt í tilefni þessarar fréttar.
![]() |
Frakkar setja bann við búrkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2010 | 01:35
Gefið Liu Xiaobo frelsi
Það er sérkennilegt hve líkamlegt hugrekki er algengt í þessum heimi en siðferðislegt hugrekki svo afar sjaldgæft. ~Mark Twain
Jón Gnarr borgarstjóri krefst þess af stjórnvöldum í Kína með bréfi til Liu Qi, fyrrverandi borgarstjóra Peking (1999-2003) og formanns undirbúningsnefndar Ólympíuleikkanna í Peking og núverandi aðalritara kínverska kommúnistaflokksins, að þau láti lausan kínverska fræðimanninn og andófsmanninn Liu Xiaobo.
Liu Xiaobo var handtekinn árið 2008 og ári síðar dæmdur í 11 ára fangelsisvisst m.a. fyrir að safna undirskriftum undir mannréttindayfirlýsingu (Charter 08) sem krafðist mikla endurbóta á mannréttindum í Kína.
S.l. Janúar útnefndu; Václav Havel, Dalai Lama, André Glucksmann, Vartan Gregorian, Mike Moore, Karel Schwarzenberg, Desmond Tutu, og Grigory Yavlinsky, Liu Xiaobo.til friðarverðlauna Nóbels 2010.
Utanríkisráðherra Kína Ma Zhaoxu sagði útnefninguna "alranga". Geir Lundestad, ritari Nóbels nefndarinnar svarði með því að nefndin mundi ekki taka mið af andstöðu Peking.
Jón Gnarr hefur nú skipað sér á bekk með örfáum stjórnmálaleiðtogum heimsins sem hafa með opinberum og formlegum hætti krafist frelsis fyrir Liu Xiaobo.
![]() |
Jón Gnarr gagnrýnir Kínverja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2010 | 20:52
Kynþáttafordómar enn og aftur.
Kynþáttafordómar? Nei, ekki hér á landi. Allavega ekki neitt til að hafa áhyggjur af. Ofbeldi vegna kynþáttafordóma? Því síður.
Einhverjir geta verið dálítið gamaldags í hugsun, en engum mundi detta í hug að flæma fólk í burtu af landinu.
En einmitt það gerðist hér og ekki í fyrsta sinn. Samt er fólk í afneitun á að slíkt eigi sér stað á litla friðsæla Íslandi.
Kynþáttafordómar eru útbreiddir meðal Íslendinga en þeir fara leynt. Þeir sem verða fyrir þeim eiga erfitt með að tjá sig um þá og þeir sem eru haldnir þeim, neita að horfast í augu við það. Það er einmitt eðli kynþáttfordóma. Fólk veit ekki einu sinni að það er haldið þeim.
![]() |
Feðgar flýðu land vegna hótana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.9.2010 | 17:26
Að kyssa fætur
Ég er sammála því að Difkat Khantimerov breytti níðingslega gagnvart skjólstæðingum sínum og átti skilið að vera rekinn úr starfi. En það er athyglisvert að á sumum stöðum þykja fótakossar enn sjálfsögð aðferð til að votta einhverjum virðingu sína.
Herra Difkat Khantimerov er frá Bashkortostan héraði í Rússlandi. Héraðið hefur verið byggt múslímum að mestu frá 14 öld. Að kyssa fætur klerka og kennimanna í Íslam er viðtekinn siður, jafnvel þótt réttmæti hans sé umdeilt meðal íslamskra fræðimanna. Bent er á að í Kóraninum sé sagt frá því að fólk hafi kysst fætur spámannsins. - En flestir eru sammála um að slík undirgefni eigi aðeins að sýna spámanninum sjálfum, ekki venjulegum mönnum.
En hafi Arabar þegar tileinkað sér siðinn þegar að Múhameð kemur fram með sínar kenningar, er það ekki undarlegt. Hann var víðtekinn meðal kristinna klerka, og varð að viðteknum hirðsið meðal kristinna konunga fljótlega eftir að þeir komust til valda í Asíu og Evrópu, enda ríktu þeir í umboði Guðs. Kristnir menn fundu þessum sið réttlætingu í heilagri ritningu þar sem segir;
Konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona. Jesaja 49:23
Það ku það vera siður í Vatíkaninu að kyssa fætur páfans við ýmis tækifæri. Kardínálarnir gera það eftir að nýr páfi hefur verið valinn og í einkaviðtölum páfa, kyssa gestkomandi fætur hans. Ekki er langt síðan að Páfi sjálfur ákvað að "sleikja duft fóta" einhvers klerks, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
![]() |
Rekinn fyrir að niðurlægja unglinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.9.2010 | 00:42
Hvað er Glamúrpía?
Hún gefur innsýn inn í heima sem greinilega eru vaðandi í fordómum, og þar er ég engin undantekning.
Hún vekur fólk til umhugsunar um samband föður og afkvæmis og nútíma hemilslíf.
Hún tekur til hluta sem ekki eru í umræðunni dagsdaglega en hafa verulegt fræðslugildi fyrir alla í nútíma fjölkynja samfélagi.
Samt er það eitt sem ég skil ekki. Hvers vegna er hún kölluð "glamúrpía"?
![]() |
Pabbi Völu Grand í vandræðalegri uppákomu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.9.2010 | 02:06
Brennu frestað, ekki aflýst.
Hafi þessi sveita-predikari ætlað sér að verða frægur í 15 mínútur, þá hefur honum tekist það og gott betur. Honum hefur tekist að fá alla helstu ráðamenn Bandaríkjanna og fjölda annarra ríkja til að bregðast við heimskulegum hótunum sínum um að brenna Kóraninn opinberlega.
En viðbrögð fjölmiðla og síðan stjórnvalda eru enn heimskulegri. Fjölmiðlar hafa blásið málið út og gefið bókabrennu-prestinum predikunarstól sem nær yfir alla heimsbyggðina þar sem aðrir ofstækisfullir predikarar og klerkar nota hótun hans sem tækifæri til að espa upp meira hatur gegn Bandaríkjunum. -
Það eru fyrst og fremst fjölmiðlarnir sem ráða framvindu fréttarinnar, frekar enn nokkur annar. Ráðamenn eru milli steins og sleggju. Þeir vilja ekki láta ásaka sig um að hafa ekkert aðhafst en eru um leið tregir til að grípa til beinna aðgerða og viðurkenna þannig að einn maður geti með hótunum einum saman knúið þá til beinna afskipta.
Á öllum helstu fréttamiðlum heimsins er þetta fyrsta frétt dagsins. Staðreyndir málsins skipta engu, enda margar útgáfur af þeim núþegar í umferð. Ólíklegasta fólk hefur blandað sér í málið, þ.á.m. Donald Trump, Páfinn og jafnvel Tony Blair.
Í Pakistan hafa bandarískir fánar verið brenndir á götum úti og búist er við að efnt verði til götumótmæla víða um hinn íslamska heim.
Hvernig heim byggjum við þegar einhver einn einstaklingur getur haldið voldugasta ríki veraldar í nokkurs konar gíslingu og valdið múgæsingu og ofbeldisöldum í fjarlægum löndum með því einu að brenna bók, verknaði sem er ekki einu sinni ólöglegur í landi hans?
Brennuklerkurinn hefur nú lýst því yfir að múslímar hafi svikið loforðið sem honum var gefið um að byggja ekki mosku á 0 grund í New York, ef hann féllist á að aflýsa brennunni. Þess vegna hafi hann ekki aflýst bókabrennunni, aðeins frestað henni þar til hann fái tækifæri til að fljúga til New York og ræða við Múllana þar.
Obama Forseti hyggist halda blaðamannafund í fyrramálið og þar mun þetta mál eflaust verða mál málanna.
![]() |
Hættur við Kóranabrennu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)