Af hverju er hann svona óhamingjusamur?

Þegar að börn fá ekki það sem þau vilja reyna þau oft foreldra sína með því að grenja og láta illa. Sum jafnvel reyna að skálda upp einhverjar sögur til að réttlæta hegðun sína. Góðir foreldrar eru fljótir að átta sig "heimtufrekjunni" og ef þeir bregðast rétt við eru börnin einnig fljót að venja sig af þessu. Í uppeldinu er þetta nauðsynlegt stig til að  börn læri sjálfsaga og tillitssemi.

Það er frekar sjaldgæft að þessi bernskubrek fylgi fólki óheft yfir á fullorðinsárin, en kemur þó fyrir. Þegar það gerist einkennist framkoma fólks af frekju og yfirgangssemi. Ef að viðkomandi nær að koma sér fyrir flokkspólitík þar sem fólki ber skylda til að sýna hollustu við flokkinn,  túlka margir þennan ágalla sem festu og röggsemi. -

Fullorðið fólk sem ekki fær það sem það vill og er haldið þeim persónugalla að geta ekki látið neitt á móti sér, er yfirleitt líka óhamingjusamt. Ekki bara vegna mótlætisins sem það verður að þola heldur einnig vegna þess að jafnvel þótt það fái vilja sínum framgengt, finnur það fyrir sama tómleikanum inni í sér og áður.

Þegar að pólitíkusar í pontu alþingis reyna að ná sér niðri á andstæðingi sínum með fölskum áburði sem síðan er rækilega hrakinn en þeir þráast samt við með barnslegri heimtufrekju er það merki um slíkt tómarúm í sálinni.


mbl.is Vænd um spillingu og lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsmorðaalda vegna mikillar vinnu

Sjálfsmorðaaldan sem gekk yfir fyrirtækið Foxconn á meðan verið var að koma Ipad á markaðinn var með eindæmum. Fólk kastaði sér út um glugga verksmiðjunnar á fjórðu og fimmtu hæð til að binda endi á langvarandi vinnuþreytu sem tilkomin var vegna bágra kjara.  Foxconn er svo stórtækt í framleiðslu rafmagnstækja að líklegt er að heima hjá þér sé að finna eitt eða tvö tæki úr verksmiðjum þeirra.

Efnahagsleg velgengni Kína byggir á gífurlegri framleiðslugetu þeirra og framleiðslan er ódýr.  Sumstaðar eru daglaunin svo lág að fólk nær ekki að framfleyta sér eða fjölskyldu sinni á þeim. Yfirvinna er svarið. Dæmi eru um að verkamenn hjá Foxconn hafi unnið að meðaltali 80 stundir á viku í marga mánuði.


mbl.is Vona að launahækkun komi í veg fyrir sjálfsvíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maldað í móinn

Skýrar yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur og Más Guðmundssonar í dag hafa væntanlega komist til skila til þeirra bloggara sem vændu hana um að hafa logið að þjóð og þingi.

Að auki hafa Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands,og  Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu komið fyrir efnahags- og skattanefnd Alþingis og staðfest að forsætisráðherra hafi engin vilyrði eða loforð gefið varðandi laun seðlabankastjóra.

Einhverjir reyna samt að malda í móinn og segja ekki öll kurl enn komin til grafar í þessu máli því að ljóst sé að Jóhanna hafi brotið stjórnsýslulög með ráðningu Más. -  Þær ásakanir eiga eftir að magnast, sjáiði  bara til.

Þær ásakanir eru í raun alvarlegri en þær fyrri. Spekin bak við þær er sú trú að sókn sé besta vörnin, aldrei að játa að hafa haft rangt fyrir sér og best sé að breiða yfir gamalt bull með nýju.


mbl.is „Ræddi ekki launamálin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruslpóstur Más

Það var ákveðin reisn í því hjá Þór Saari að henda afritum af tölvupósti Más Seðlabankastjóra til Jóhönnu Sig. í ruslið, ólesnum.

Þór hefur greinilega ekki áhuga á að blanda sér í þessa hreppapólitík eða taka undir getgátur og samsæriskenningarnar.

Hitt er annað að þarna er greinilega komin skýring á hvernig mbl.is náði í tölvupóstinn. Einhver hefur veitt  hann upp úr ruslinu.


mbl.is Heimatilbúinn vandi Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illskeytt en misheppnuð tilraun til að koma höggi á Jóhönnu

Fimmtudaginn 6. Maí varpaði Sigurður Kári Kristjánsson eftirfarandi spurningum til Forsætisráðherra  í þinginu; 

„Samkvæmt heimildum sem fjölmiðlar hafa aflað sér mun loforðið um launahækkunina til seðlabankastjórans hafa verið gefið í forsætisráðuneytinu. Hæstv. forsætisráðherra hefur reyndar verið á harðahlaupum undan þessu máli og virðist ætla að reyna að koma því yfir á einhverja aðra. En engum dylst að tilraunir hennar eigin fulltrúa í bankaráðinu til að hækka laun seðlabankastjóra eru lagðar fram á ábyrgð forsætisráðherra.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi spurninga og fer fram á skýr svör við þeim:

1. Hvenær var þetta loforð gefið? Hver gaf loforðið og hver hafði frumkvæði að því að það var gefið? Í umboði hvers var loforðið gefið og hverjir höfðu vitneskju um það?

2. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að upplýsa líka um eftirfarandi: Hafði formaður bankaráðs Seðlabankans samráð við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra áður en þessi tillaga var lögð fram í bankaráðinu?“

Jóhanna svaraði:

„Svarið við síðustu spurningunni er nei, það var ekki haft samráð við forsætisráðherra eða fjármálaráðherra um þetta mál. Ég hef gefið alveg skýr svör í þessu máli. Það hafa engin loforð eða fyrirheit verið gefin enda ekki á mínu færi að gefa slík loforð. Laun seðlabankastjóra fara eftir lögum og ákvæðum um Seðlabankann og ekki síst niðurstöðu kjararáðs. Ég sé ekki eftir niðurstöðu kjararáðs að það sé eitthvert svigrúm til þess að beita ákvæðum sem eru í seðlabankalögunum í þessu efni til að hækka launin.

Það er tvennt sem liggur fyrir: Að seðlabankastjóri sjálfur hefur sagt að hann mundi ekki taka við slíkri launahækkun þó að hún væri í boði og að formaður bankaráðs hefur sagt að líklega verði niðurstaðan sú að þessi hugmynd og tillagan sem liggur fyrir bankaráðinu verði dregin til baka. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar í forsætisráðuneytinu enda ekki á færi þess né ráðherra um að gefa slík loforð. Það fer eftir lögum um Seðlabanka og niðurstöðu kjararáðs. Niðurstaða kjararáðs liggur fyrir og ég sé ekki annað en að í það stefni að eftir henni verði farið vegna þess að auðvitað á að fara eftir niðurstöðu kjararáðs í þessu efni.“

Nú hefur úrdráttur úr tölvupósti frá Seðlabankastjóra til Forsætisráðherra verið birtur þar sem hann vitnar í samtöl sem hann átti við Forsætisráðherra um starfið.

Athyglisvert er að engar vísbendingar eru um að Forsætisráðherra hafi svarað þessum tölvupósti heldur hafi hún vísað þessu máli í formlega réttan farveg, þ.e. til bankaráðs.

Nú fullyrða sumir eða láta að því liggja að Jóhanna hafi sagt þingheimi ósatt þegar hún svaraði fyrirspurnum Sigurðar Kára. Þeir leiða að því líkur að Jóhanna hafi möndlað til um launin við Má og síðan gefið grænt ljós á að hækka launin við formann bankaráðs seðlabankans.

Af því sem nú liggur fyrir er samt ekkert sem bendir beint eða óbeint til þess að Jóhanna hafi sagt ósatt.

Jafnvel þótt hún hafi rætt við Má um starfið er hvergi staf að finna um einhver loforð eða fyrirheit að hennar hálfu um hækkun launa. 

Aðdróttanir pólitískra andstæðinga hennar um hið gagnstæða geta því í besta falli verið vafasamar vangaveltur en í versta falli fremur illskeytt en um leið misheppnuð tilraun til að koma höggi á Jóhönnu.


mbl.is Már og Jóhanna ræddu launin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú þarft ekki að vera hestur þótt þú fæðist í hesthúsi

Þegar ljóst var að íslenskum auðjöfrum hafði tekist að skuldsetja landið og þjóðina þannig að bankakerfið hrundi, var leitað að bjargvætt sem gæti leitt okkur út úr vandanum. Hún fannst í harðduglegum og strangheiðarlegum verkstjóra Samfylkingar; Jóhönnu Sigurðardóttur. Það var hún sem sem leiða skyldi okkur inn í fyrirheitna landið, hið Nýja Ísland.

Eftir nokkra mánaða setu í ráðherrastóli þótti mörgum, sem treyst höfðu Jóhönnu til verka, ljóst að henni mundi ekki takast flórmoksturinn sem skyldi. Traustið sem hún naut í upphafi kjörtímabils þvarr og með því trú margra á að hefðbundin pólitík gæti yfirleitt hjálpað.

Sú trú endurspeglaðist einkum í úrslitum nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga í tveimur stærstu bæjarfélögum landsins. Á Akureyri hafnaði almenningur hinni hefðbundnu flokkspólitík og kaus þess í stað framboð sem stóð fyrir utan fjórflokkinn svokallaða.

Grínframboð Besta flokksins var kærkomið tækifæri fyrri Reykjavíkurbúa og vonsvikin börn búsáhaldabyltingarinnar til að lýsa frati á pólitíska kerfið. Ný bjargvætt var fundin í gervi Jóns Gnarr.

Jón Gnarr tekur nú við einu valdamesta embætti þjóðarinnar. Hans fyrsta verk var að mynda meirihlutastjórn með hefðbundnum stjórnmálflokk á mjög hefðbundinn hátt. Hann heldur áfram að grínast í orðum, en verk hans bera vott um að hann kunni ekkert annað. "Of erfitt" og "of flókið'" segir hann um að leita eftir þverpólitískri samstöðu í borgarstjórn.

Þeir sem töldu að Jón hefði gefið þeim ástæðu til að halda að vinnubrögð hans yrðu ekki hefðbundin, hafa þegar lýst yfir vonbrigðum sínum. - Að mér læðist sú spurning hvort Jón Gnarr sé ekki bara hefðbundinn pólitíkus í gervi grínista. - Jafnvel þótt hann sé kunnur fyrir skop sitt og grín og það hafi verið ástæðan fyrir að margir kusu hann, getur hann alveg sagt sem svo: þarf maður endilega að vera hestur þótt maður fæðist í hesthúsi?

Það er því óhætt að taka undir orð Ágústar þar sem hann tekir undir orð Njarðar P. Njarðvík um að stofna ætti nýtt lýðveldi enda væri flokkakerfi 20. aldarinnar gjaldþrota.


mbl.is Gagnrýndi stjórnvöld harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það furða?

Frá því að Jón Gnarr gekk til samninga við Dag hefur þrennt komið fram. Viðræðurnar ganga vel, Dagur verður formaður borgarráðs og Jón Gnarr Borgarstjóri. Jú svo hefur verið opnaður athugasemdakassi um borgamál á netinu.

Fréttamenn hafa ekki mikið að moða úr enda ekkert nýtt komið fram og því engin furða þótt þeir glorsoltnir leiti í fortíðina. - En eins og með nútíðina er fortíðin bara grín og allir vita að hún var grín.

Hvenær og hvort grínið tekur enda er ekki gott að segja. Umboðið sem Gnarr sótti til kjósenda sinna var til að halda áfram gríninu. Það hefur hann efnt fram að þessu. 


mbl.is Danir rifja upp myndband með Jóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullinskokkur Bjarkar

gulllinskokkurFyrir utan að vera frábær tónlistarfrömuður og skapandi hefur Björk ætíð verið tískuíkon, sérstaklega meðal hinna sérlunduðu sem ekki versla endilega í Top Shop.

Búningar hennar eru oft á tíðum svo frumlegir að þeir sýnast fáránlegir í augum meðal Jónsins og jónunnar.

- Björk hefur lítið látið að sér kveða síðasta misseri og því er það gott  að heimspressan veiti henni aftur athygli.

Gott fyrir hana og gott fyrir Ísland því hún er enn lang-verðmætasta vörumerki (brand) landsins.

Útþynnt Bjarkar-tónlist er einmitt sú tónlist sem mest ber á um þessar mundir á Evrópskum poppvinsældalistum.

Áfram björk og allir hennar gullnu skokkar.


mbl.is Annað Svanaævintýri?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magadansmeyjar og Robert Plant

robert-plantÞessa dagana stendur yfir listavaka hér í Bath. Reyndar eru þær tvær, því alþjóðleg tónlistarhátíð fer saman með jaðarhátíð (Fringe festival) þar sem ýmsir viðburðir eiga sér stað á hverjum degi.

Í gærkveldi fór ég t.d. á sýningu þar sem tvær magadansmeyjar sýndu og kynntu mismunandi magadansa undir frábærum hljóðfæraleik hljómsveitar frá Sýrlandi.

Það var margt um manninn á sýningunni og meðal gesta var íslandsvinurinn Robert Plant fyrrum söngvari hinna sálugu Led Zeppelin sem kom til Íslands á listahátíð 1970 . Sveitin var þá að verða og átti síðan eftir að vera um mörg ókomin ár, vinsælasta hljómsveit veraldar.

Karlinn lítur vel út enda aðeins 62 ára. Hann er kannski ekki sama sexgoðið og hann var en við því er ekki heldur hægt að búast.

Ég tók manninn vitanlega tali og það kjaftaði á honum hver tuska og hann var hinn alþýðulegasti.

RobertPlantÞað fyrsta sem hann sagði þegar ég sagðist vera frá Íslandi og hafa séð hann fyrir 40 árum í Laugadalshöll í Reykjavík var; "I was in the room".

"Hvað áttu við" spurði ég. "

"Jú fyrir nokkrum árum kom ég í hljómleikaferð til Íslands og hitti þá forseta landsins. Og þetta var það sem hann sagði þegar hann hitti mig; "I was in the room". "

Róberti fannst þetta greinilega bráðfyndið og hló lengi að og klappaði sér á læri.

"Já ég missti af þér þegar þú komst í annað sinn. En ég gleymi aldrei þessum tónleikum 1970" sagði ég.

"Fuck off" kvað við í Roberti. "Ég er miklu betri núna en ég var. En ég skil rómantíkina í kringum allt þá. Við vorum ungir og allt það.  En tónlistarlega er ég þúsund sinnum betri núna en ég var þá".

Talið barst nokkuð fljótlega að Immigrant song  og hvernig Íslendingar eru hrifnir að því vegna þess að það sé augljóslega um Ísland.

"Ég var vitaskuld undir miklum áhrifum frá Íslandi þegar ég samdi texta lagsins " sagði Robert. "En í raun var ég að yrkja um Keltana sem komu til Íslands löngu áður en víkingarnir komu þangað."

Þetta hafði ég aldrei heyrt áður og þótti fróðleg skýring.

Róbert kvaðst vera að gefa út nýja plötu fljótlega og hann mundi kynna hana fyrst og fremst í Bandaríkjunum.

"Ég vinn eiginlega aðeins með Bandaríkjamönnum. Það er enginn eftir í Bretlandi sem hefur áhuga á að kafa djúpt í tónlist.  Alla vega ekki í þetta  Mississippi delta sound sem ég er svo hrifinn af. Kannski kem ég líka til Íslands til að kynna plötuna."

Áður en varði bar að unga konu sem hélt á krakka. Róbert kynnti hana sem konuna sína og krakkann sem barnið sitt.

Þetta var skemmtileg viðkynning sem endaði snögglega þegar krakkinn fór að gráta. Hann hafði góð lungu og háa rödd eins og faðirinn.


Þetta eru ljótu hundarnir

Miðað við myndirnar hér að neðan er Miss Ellie fögur skepna. En hún vann víst einhverja keppni í Kaliforníu þar sem hverjum fannst sinn hundur ljótastur.  Annars er netið fullt af ótrúlega ljótum gæludýrum bæði hundum og köttum. Ég skellti0_61_062207_ugly_dog líka með mynd af ljótasta kettinum sem ég fann.

   _uglycat     funny_ugly_dogs_04  uglydog


mbl.is Ljótasti hundur heims dauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er persónuvald harðkóðað í hugmyndafræði flokka?

Fyrir alþingiskosningarnar létu VG og Samfylking sem svo að mest aðkallandi umbætur í íslenskri stjórnsýslu og lýðræðisþróun væri að lögleiða persónukjör í almennum kosningum og að efnt yrði til stjórnlagaþings. Frumvarpið sem átti að efna hluta þessara umbóta hefur nú verið sett í salt og ríkisstjórnin þannig opinberað hug sinn til þessara mála. Þeim er annt um völdin í flokkseigenda félögunum og öll skerðing á þeim er til vansa að þeirra áliti.

Hvenær ætla Íslendingar að skilja að það mun ekkert breytast í íslenskri pólitík uns flokksvaldinu verður hnekkt. Stjórnmálaflokkar eru jafn úrelt fyribæri og risaeðlurnar. Allar umbótatilraunir þeirra og naflaskoðanir hafa ekki skilað neinu því þeir fatta ekki hvað er að. Spurningin er hvort óeining og persónuvald sé ekki bara harðkóðuð í hugmyndafræði þeirra.


mbl.is „Lýðræðistal hjóm eitt"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland svarar

BBC fjallar um íslenska átakið á netinu til að laða fleiri ferðamenn til landsins. Engin vafi er á að orðspor Íslands beið hnekki eftir efnahagsþrengingarnar og gosið í Eyjafjalajökli og áhrif þess á flugumferð jók síðan á pirringinn út í landið hjá Evrópubúum.

Átakið á netinu er því afar þarft framtak og viðbrögðin við því sem komið er mjög jákvæð. -Landkynningar myndbandið við lag Emilíönu Torrini - Jungle drum t.d. ágætlega unnið og skemmtilegt þrátt fyrir að vera mjög gamaldags og einfalt.  Það var satt að segja eins og gamalt júróvisjón innlegg.

Bestu landkynningar sem hægt er að hugsa sér er einmitt að fá Sigurrós, Björk og Emilíönu til þess að gera ný myndbönd við lög sín í íslensku umhverfi en best er að láta listamennina sjálfa eða fólk á þeirra vegum koma með hugmyndirnar að uppbyggingu mundbandsins.

Besta íslenska landkyninningarmyndband sem ég hef séð er við lagið Glósóli eftir Sigurrós. 

 


mbl.is Ókeypis að hringja út til að kynna Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logn og blíða, sumarsól

Ég var að lesa langtíma veðurspá sem veðurfræðingar í Bretlandi hafa sett fram. Þeir segja líkur á miklum hita í allt sumar um alla norðvestur Evrópu. Greinilegt að áhrifin eru þegar farin að teygja sig upp til Íslands miðað við þessar spár veðurstofunnar.

Sól og blíða er mér að skapi og þess vegna hlakka ég til að koma heim í sumar til að njóta hins góða og tempraða íslenska sumarveðurs. Alla vega held ég að 30 stiga hiti eins og hinir bresku veðurspámenn segja að verði algengur meðalhiti á Bretlandi í sumar, sé of heitt fyrir mig.


mbl.is Sumar og sól í kortunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðin í Cumbríu

Smátt og smátt koma fram meiri upplýsingar um atburðina í Cumbríu sem áttu sér stað í gær þegar  12 íbúar þessa friðsæla héraðs voru skotnir til bana af 52 ára fráskildum leigubílstjóra Derrick Bird að nafni.  Að auki særði hann 11 aðra áður en hann framdi sjálfsvíg.  

Ekkert skýrir samt enn hvers vegna þessi vinalegi faðir og afi vopnaður riffli og haglabyssu byrjað að haga sér eins og sérsveitarmaður sem misst hefur vitið. Hugsanlega geta fjölskyldudeilur út af erfðaskrá haft eitthvað með málið að gera. Komið hefru fram að meðal hinna látnu séu David Bird tvíburabróðir Derricks og lögfræðingurinn Kevin Commons.


Grín og alvara renna saman í eitt

Það eru að renna tvær grímur á borgarbúa í Reykjavík. Einkum þá sem kusu Besta flokkinn. Þeir reyna að láta á engu bera, vona að enn sé of snemmt sé að dæma.  En hinn grímu og grandalausi Jón Gnarr hefur ruglað þá í ríminu.

Það er vegna þess að flestir gera mun á gríni og alvöru en Jón Gnarr ekki?  Hann er tvíhöfða þursinn  fyrir hverjum grín og alvara hafa runnið saman í eitt.  Aðalmálið er að allt sé fyndið, hvort sem það er sagt í gríni eða alvöru.

Á meðan að almenningur bíður þess sem verða vill, finna Jón Gnarr og félagar sig í einstæðri stöðu. Þeir geta nefnilega sagt hvað sem er án þess að þurfa að bera sérstaka pólitíska ábyrgð á því sem þeir láta út út sér. Þetta er óskastaða stjórnmálmannsins.


mbl.is Trúnaðarsamtöl á leynifundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Galdurinn við að vinna leikinn er að vera alltaf fyrri til að skora jöfnunarmarkið.

Breska landsliðið er á leið til Suður Afríku og með sér taka þeir vonir og drauma Bresku þjóðarinnar.

Okkur Íslendingum finnst við stundum vera dálítið kjánalegir þegar við spáum okkar lagi góðu gengi í Júró, eða "strákunum okkar" fyrsta sæti á stórmóti og svo fer allt í klessu.

Samt komumst við ekki í hálfkvist við Breta sem alltaf virðast sannfærast um það að þeir geti unnið heimsmeistarakeppnina knattspyrnu með smá heppni.

Fram að keppninni mun knattspyrnumanían breiðast út og heltaka þjóðina. Ólíklegasta fólk mun breytast í knattspyrnusérfræðinga og fleygar setningar  munu verða til eins og þessi; "Galdurinn við að vinna leikinn er að vera alltaf fyrri til að skora jöfnunarmarkið." Nokkuð satt í því.

Ef að England vinnur fyrsta leikinn við Bandaríkin munu margir fullyrða að England geti vel orðið heimsmeistarar. Ef þeir ná upp úr riðlinum, munu Englendinga telja það mjög líklegt. Nái þeir í undanúrslit munu þeir telja sigurinn öruggan.

Og ef þeir komast í úrslitaleikin munu væntingarnar og spenningurinn verða svo yfirþyrmandi að bráðdeildir sjúkrahúsa munu fyllast af of drukknu og  meiddu fólki og karlmönnum á miðjum aldri aðframkomnum vegna hás blóðþrýstings hvort sem England vinnur eða ekki.

 


mbl.is Eru á leið til Suður-Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

No Comment, ha ha....frábært og frumlegt

Mikið finnst mér allt hafa breyst við að Gnarr og co unnu kosningarnar. Það er eitthvað miklu léttara yfir öllu og öllum. Ég veit að hann gerði atlögu að þessu hefðbundna með frumlegum og semi-fáránlegum hugmyndum. En að hann gæti nálgast meirihluta myndun á þennan ofur frumlega hátt grunaði, að ég held, engan.

Þessi leynilegu leynifundir er einkar sérstakir. Þeir fara þannig fram að engin fær að vita neitt fyrr en allt er ákveðið hvernig það skuli vera. Þetta hefði sko engum nema Jóni getað dottið í hug.

Svo er Þetta fyrirkomulg svo hreinsandi fyrir andrúmsloftið enda.....eh andrúmsloftið afar gott á fundunum....enginn prumpar eða neitt....bara....hm, frábært.

Og svo þegar einhverjir bullukollar spyrja hvernig gangi, þá kemur þessi ótrúlega útpælda setning "No comment". Þvílík snilli.

Svo er Gnarr ekki að bíða neitt með að efna kosningaloforðin. Dagur er komin með diskinn um hvernig smákrimmar haga sér í La la landi. Algjörlega Awesome....

 


mbl.is „Víraðar“ viðræður í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver verða örlög MV Rachel Corrie

Fljótt mun kastljósum fjölmiðla verða beint að írska flutningaskipinu MV Rachel Corrie. Skipið, sem er nefnd eftir bandaríku andófskonunni Rachel Corrie sem varð undir jarðýtu ísraelska varnarliðsins á Gaza strönd árið 2003,  er um þessar undir undan ströndum Líbýu en siglir hraðbyri í átt til Gaza með matvæli og hjálpargögn.

Upphaflega var ætlunin að skipið hefði samflot með skipalestinni sem Ísraelsmenn stöðvuðu og færðu til hafnar fyrr í vikunni. En vegna tafa er skipið 48 klukkustundum á eftir áætlun.

Ísraelar hafa hótað jafnvel en harðari viðbrögðum reyni skipið að rjúfa herkví þeirra um Gazaströnd þrátt fyrir að fjöldi ríkistjórna vítt og breytt um heiminn hafi fordæmt aðgerðir þeirra um borð í Mavi Marmara þar sem níu manns létu lífið þegar Ísraelskir sjóliðar réðust um borð.

Írska ríkisstjórnin hefur í sérstakri yfirlýsingu krafist þess að skipið fái að fara ferða sinna óáreitt til Gaza og írski forsætisráðherrann Brian Cowen sagði að "ef að einhver okkar þegna hlýtur skaða af, munu afleiðingarnar verða mjög alvarlegar". Þá hefur utanríkisráðherra Írlands Micheál Martin einnig krafist þess að skipið verði látið í friði.

Um borð í Rachel Corrie eru fimm Írar og fimm Malasíumenn.

Vítt og breytt um heiminn ræða þing og ríkisstjórnir atburði síðustu daga utan fyrir ströndum Gaza. Viðbrögð flestra hafa verið á einn veg, fordæming á athæfi Ísraelsmanna. Spurningin sem brennur mest á vörum stjórnmálamanna er að fá úr því skorið hvort Ísraelsmenn hafi brotið alþjóðaleg hafréttarlög með árás sinni á  Mavi Marmara.

Fram að þessu eru yfirgnæfandi meirihluti þeirra hafréttarfræðinga sem um málið hafa fjallað sammála um að Ísraelsher hafi brotið alþjóðleg lög með árás sinni á skipið.


Byssumaður drepur fjölda í Bretlandi

Morgunfréttirnar hér í Bretlandi eru ekki góðar.

Í hinu fagra héraði Cumbríu gengur maður enn laus eftir að hafa skotið til dauða fjölda manns og sært enn fleiri. Nýjustu fréttir herma að ekki færri en 11 manns liggi í valnum.  Lögreglan í þessari friðsömu sveit hefur kallað á sérsveitir landsins sér til aðstoðar en maðurinn ók um á silfur lituðum Picasso frá bæ til bæjar í morgun og skaut á allt og alla og skildi eftir sig slóð fjölda látinna fórnarlamba og enn fleiri særðra. Sagt er að öll fórnarlömbin hafi verið skotin í andlitið.

Talið er að hann hafi nú yfirgefið bílinn og sé fótgangandi. Fólki á svæðinu er ráðlagt að halda sig innan dyra og fara ekki til vinnu sinnar.

Lögreglan heldur að hér sé á ferð maður að nafni Derrick Bird og hefur birt af honum mynd. Annað er ekki vitað um manninn á þessu stigi, en haldið er að hann sé leigubílstjóri.

ps.

Nýjustu fréttir herma nú að maðurinn sé fundinn, látinn í skógarjaðri með byssu við hlið sér.


mbl.is Morðingja leitað í Cumbriu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiður Smári áfram á bekknum?

Þetta fer að verða dálítið vandræðalegt með hann Eið Smára Guðjohnsen. Eiður en langþekktasti og eflaust enn besti knattspyrnumaður Íslands. En vandræðagangurinn á ferli hans eftir að hann fór fá Chelsea hefur ekki farið fram hjá neinum. - Á íþróttaþulum í bresku sjónvarpi í vetur eftir að hann kom til Spurs, er helst að heyra að þeim finnist Eiður sé komin af léttasta skeiði og hans besti tími sé liðinn.

Ég get ekki betur séð ( í þessi fáu skipti sem Eiður hefur fengið að spila) en að hann sé enn í fantaformi og skil ekki hvers vegna þjálfarar nota hann ekki meira. Ég veit að samkeppnin er hörð um allar stöður hjá þetta stórum félögum, en er þetta rétt að Eiður sé "over the hill"?


mbl.is Eiður áfram hjá Spurs að óbreyttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband