8.6.2011 | 09:06
Smartland til sölu
Mér finnst það góð hugmynd að fjalla um tísku, fegurð og alla fylgihluti kvendómsins, sem hluta af stóru vefsvæði eins og mbl.is er. Mér finnst það aftur á móti afar slæm hugmynd að selja greinarnarnar sem birtast í slíkri umfjöllun, hæstbjóðanda.
Greinar sem birtast og forsíðu mbl.is frá Mörtu í Smartlandi eru margar með því markinu brenndar. Þær eru ætlaðar til að villa ungum stúlkum og auðtrúa konum sýn á hvað eru góð og holl ráð og hvað eru svæsnar auglýsingabrellur.
Það á að vera auðvelt fyrir almenning að greina auglýsingar frá hlutlausri umfjöllun. Það á að taka það fram í upphafi greinar að greitt hafi verið fyrir eftirfarandi umfjöllun, ef svo er. Sem dæmi má taka þessa umfjöllun um hvaða farða Sahaorn Stone og Natalie Portman noti. Hún sannar svo ekki leikur lengur nein vafi á, að Marta smarta hefur selt sál sína og skrif snyrtivöruframleiðendum og skammast sín greinilega ekkert fyrir það.
Myndirnar sem hún birtir af kvikmyndastjörnunum eru sjoppaðar og gefa engan vegin til kynna raunverulegt útlit þeirra, með eða án farða, þannig að það er engin von fyrir íslenskan "kvenpening" að öðlast þetta útlit, hvað sem hann kaupir mikið af þessum snyrtivörum sem Marta er að pranga með.
Nokkrum dögum áður hafði Marta skrifað grein um að konum bæri að farða sig eins og Elizabeth Taylor og Michelle Pfeiffer og vitnað til útlits þeirra í ákveðnum kvikmyndum. Önnur kvikmyndin fjallaði um egypska drottningu sem framdi sjálfsmorð þegar að fegurð hennar nægði ekki lengur til að tæla mikla herforingja til lags við sig, en hin um uppkókaða diskópíu sem gekk á milli eiturlyfjabaróna eins og hver annar varningur. - Förðun og útlit beggja kvenna í þessum kvikmyndum var mjög í samræmi við persónugerðina. - Hvaða skilaboð er Marta smarta að senda?
Sharon Stone notar þennan farða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.6.2011 | 07:07
Enga fjöldagröf að finna í Hardin Texas
Sem betur fer reyndist þessi frétt um fjöldagröf í Hardin í Texas vera ósönn. Engin lík eða líkamspartar fundust á þeim stað sem lögreglan fékk ábendingu um að slíkt væri að finna.
Auðvitað vakti það strax grunsemdir lögreglunnar þegar að persónan sem hringdi þessar fals-upplýsingar inn sagðist vera skyggn og hafa séð fjöldagröfina í sýn. Og nánari rannsókn leiddi í ljós að um gabb var að ræða.
Fréttamiðlar í Texas sáust ekki fyrir í kappi sínu um að verða fyrstir með æsifréttirnar og létu sem frásögn miðilsins væri sönn. Eftir það flugu fréttir þeirra eins og eldur í sinu um heimsbyggðina og enduðu uppi á mbl.is.
Tilkynnt um fjöldagröf í Texas | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2011 | 22:05
Lágkúrulegur áróður kínverskra yfirvalda
Kínversk yfirvöld taka af lífi þúsundir manna og kvenna á hverju ári. Dauðasakirnar eru misjafnlega alvarlegar en það er fátítt að yfirvöld sjái ástæðu til að réttlæta aftökurnar. Nú ber svo við að mikið fjaðrafok verður út af aftöku ungs manns sem fundinn var sekur um morð. - (Sjá meðfylgjandi frétt)
Yfirvöld hafa gripið tækifærið til að réttlæta dauðadóms-stefnu sína og með tilvísun í hið fólskulega morð sem þessi ungi nemandi framdi fá þau um leið tækifæri til að fordæma æskufólk í landinu fyrir slæmt siðferði og glæpahneigð.
Hvað sem sagt hefur verið um kínverska slæg og kænsku í stjórnarháttum, hefur því öllu verið varpað fyrir róða í nútíma kínversku stjórnarháttum. Fólskubrögð yfirvalda þar á bæ eru auðsæ og áróðurinn vita gagnsær og einfeldningslegur. - Blekkingar þeirra og fyrirsláttur, blekkja ekki nokkurn mann. -
Í tengslum við örlög þessa unga manns hafa kínversk stjórnvöld sett af stað sjónarspil sem þeir halda að muni draga úr gagnrýni mannréttindasamtaka og almennings í öðrum löndum á gengdarlausar aftökur á sakamönnum í Kína.
Þeir reyna um leið að hámarka árangurinn af sjónarspilinu með að koma áleiðis grófum áróðri sem beint er að æskulýð landsins. -
Gömlu kínversku kommarnir hafa lært eina lexíu vel af bandamönnum sínum, Bandaríkjunum. Það er að halda almenningi í stöðugri hræðslu við allt og alla. Það er besta stjórnunartæki sem hægt er að hugsa sér.
Stúdent tekinn af lífi í Kína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2011 | 07:43
Vínlandsfáninn
Fáninn er hannaður í sama stíl og norðrænir fánar, svartur kross með hvítum jöðrum á grænum feldi.
Hann er mikið notað af hvítum kynþáttahyggjumönnum í USA og Evrópu sem álíta föðurland sitt Norður Ameríku, Grænland, Ísland og Norður Evrópu.
Sem fáni stór-Hvítramannalands, er það m.a til sölu á Ný-Nasistasíðunni Stormfront.org.
Vínlandsflaggið er hugarfóstur Peters Steele söngvara hljómsveitarinnar Type O Negative og á að vera táknrænt fyrir pólitískar skoðanir hans og önnur áhugamál, þar á meðal íslenskt ætterni hans.
Pælingar Peters í tengslum við fánagerðina gengu út á spekúleringar um hvað hefði gerst ef norðrænum mönnum hefði tekist að stofna ríki í Norður Ameríku í kjölfar landafunda Leifs Eiríkssonar. Hann ímyndaði sér það sæluríki sem byggði á vísindahyggju frekar en trúarbrögðum. Þetta ímyndaða ríki kallaði Peter People's Technocratic Republic of Vinnland.
Af Pétri Steele er það að segja að hann var borinn og barnfæddur í Brooklyn en fjölskylda hans er kaþólsk og sögð af pólskum rússneskum, íslenskum og skoskum ættum. Móðir hans er/var? íslensk í aðra ættina.
Hann lærði að glamra á gítar og lék með nokkrum lítt kunnum þungarokks böndum áður enn hann stofnaði Type O Negative.
Vinsælasta breiðskífa hljómsveitarinnar heitir Bloody Kisses. Skífan gerði hljómsveitina fræga og Steele að kyntákni. 1995 birtist mynd af honum nöktum á forsíðu tímaritsins Playgirl. Hann varð frekar óhress með þá ákvörðun eftir að hann frétti að aðeins 23% af lesendum blaðsins voru konur og þeir einu sem báðu hann um eiginhandaráritun á entak af blaðinu voru hommar.
Peter lést árið 2010 þá aðeins 48 ára.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.6.2011 | 01:31
Var Melkorka Mýrkjartansdóttir rauðhærð
Þegar að hinir keltnesku Ikenar gerðu uppreisn gegn setuliði Rómverja á Englandi árið 60 e.k. fór fyrir þeim sjálf drottning þeirra; Boudica. Gríski sagnritarinn Dio Cassius sá ástæðu til þess að geta þess sérstaklega að Boudica hafi verið hávaxin og skelfileg í útliti, með mikið rautt hár sem féll niður yfir axlir hennar. -
Allt fram á okkar dag hefur það loðað við rauðhært fólk, sérstaklega kvennfólk að það sé skapstórt og röggsamt. - E.t.v. er það frekar óvinsamt umhverfi sem kallar á þessa sakpgerð, því kannanir sýna að rauðhærðir krakkar verða meira fyrir stríðni en krakkar með annan háralit Oftast beinist stríðnin og uppnenfnin einmitt að háralitnum.
Rauður hárlitur er sá sjaldgæfasti í heimi því aðeins 1-2% íbúa heimsins fá hann í vöggugjöf. Flestir rauðhærðir, miðað við íbúatölu, fæðast í Skotlandi og á Írlandi, hvorutveggja lönd þar sem áhrif ómengaðrar keltneskrar menningar entust hvað lengst.
Á Írlandi bera 46% "rauðhærða genið" sem varð til fyrir stökkbreytingu í eggjahvítuefni eins litnings, einhvern tíma í fyrndinni.
Því hefur stundum verið haldið fram að "rauðhærða" genið megi rekja til Neanderdals-manna, en það ku ekki vera rétt. Meðal Neanderdalsfólksins var rauðhært fólk ekki óalgengt, en það var rauðhært vegna annarrar tegundar stökkbreytingar en olli breytingum á 16. litningnum í nútímamanninum
Á Íslandi er rauðhært fólk frekar algengt og í minni ætt prýðir rautt og rauðleitt hár fjölda kvenna. Móðir mín sáluga, var með dökkrautt hár og litaði það eldrautt fram á dauðadægrið þá næstum áttræð.
Hún montaði sig stundum af rauða litnum sem hún sagði kominn beint frá Melkorku Mýrkjartansdóttur, konungsdóttur af Írlandi. Hvað hún hafði fyrir sér í því að Melkorka hafi verið rauðhæð, veit eg ekki. - En að svo hafi verið er mjög algeng trúa fólks á Íslandi...og kannski ekki af ástæðulausu.
Víst er að Mýrkjartan faðir hennar eða Muirchertach eins og hann var nefndur upp á írsku, var sonur Niall Glúndub mac Áedo og því einn af Cenél nEógain ættinni sem var hákonungsæt Íra.
Frægasti ái ættarinnar er án efa Njáll Níugísla (Niall Noigiallach) en af honum fara margar fræknar sögur. Eitt af aðaleinkennum írsku hákonungsættarinnar var einmitt rauða hárið sem erfðist bæði í karl og kvenlegg. -
Kannski vissi móðir mín allt þetta og gat því fullyrt með nokkurri vissu að Melkorka hafi verið rauðhærð. Að auki má færa ákveðin rök fyrir því að nafnið sjálft "Melkorka" gefi vissa vísbendingu um háralitinn.
Norðræna orðið korkur kemur af gelíska orðinu corcur sem aftur er komið af latneska orðinu purpura. Í Noregi var orðið korkur notað yfir litinn sem notaður var til að lita ullarfatnað rauðan, enda þýðir orðið einfaldlega það sama og á latínu eða ; rauður.
Orðið Mela eða MAY-laher til í gamalli írsku og merkir "elding".
Þessi orð samsett í kvenmannsnafn verða þá að Melkorka,eða Rauðelding. - Persónulega finnst mér sú merking nafnsins koma mjög vel heim og saman við persónu hennar eins og henni er lýst í Laxdælu.
5.6.2011 | 15:08
Goðsögnin um grænu páfagaukana í London
Villtir grænir páfagaukar (Hringhálsar) eru orðin algeng sjón í London. Talið er að fjöldi þessa langlífu fugla sem upphaflega eru ættaðir frá rótum Himalajafjalla og geta orðið allt að 50 ára, sé nú komin vel yfir 100.000. -
Fuglarnir eiga sér enga náttúrulega óvini á þessum slóðum og fjölgar því afar ört. - Hlýnandi loftslag er einnig sagt vera þeim hliðholt. Frá London hafa þeir breiðst út um allt suðaustur England, norður til Glasgow og alla leið vestur til Wales.
Skemmtilegar goðsagnir eða flökkusögur hafa orðið til um uppruna þessara litskrúðugu fugla (Psitacula krameri) í görðum Lundúna.
Sú vinsælasta segir að gítarhetjan Jimi Hendrix hafi sleppt lausu pari snemma á sjötta áratug síðustu aldar, til að hressa upp á gráa ásýnd borgarinnar með skærari og fjölbreyttari litum. -
Önnur saga segir að páfagaukarnir séu komnir af fuglum sem sluppu út úr Shepperton kvikmyndaverinu þegar John Ford var þar að leikstýra Katharine Hepburn og Humphrey Bogart í kvikmyndinni African Queen árið 1950.
Elstu heimildir um þessa tegund fugla í London eru samt frá 1855. Og líklegasta skýringin á uppruna þeirra er mun leiðinlegri en flökkusögurnar segja, eða að þeir hafi sloppið úr búrum fuglaræktenda, gæludýraverslana og af einkaheimilum.
5.6.2011 | 10:16
"Stríðið gegn eiturlyfjum" er gagnslaust
Eftir að flestar aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna (SÞ) undirrituðu "sáttmálann um eiturlyf" árið 1971, lýsti Richard Nixon, þá Bandaríkjaforseti, eiturlyfjum stríð á hendur. Sáttmálinn og stefnumótun Bandaríkjanna í stríðinu gegn eiturlyfjum, var í kjölfarið tekin upp af Bretlandi og flestum Evrópulöndum.
Fyrir nokkrum dögum lýsti alþjóðlega rannsóknarnefnd eiturlyfja, sem verið hefur að störfum á vegum SÞ því yfir, að "stríðið gegn eiturlyfjum" hefði gjörsamlega misheppnast. Nefndin segir að "stríðið" hafi lítil áhrif á úbreiðslu eiturlyfja og komi ekki í veg fyrir að hundruðir þúsunda láti líf sitt af völdum af völdum alþjóðlegrar eiturlyfjaverslunar. Í nefndinni sátu m.a. fyrrverandi aðalritari SÞ, Kofi Annan, og fyrrverandi forsetar Brasilíu, Mexíkó og Kólumbíu.
Margir eru þeirrar skoðunar að skýrsla nefndarinnar geri lítið annað en að staðhæfa og undirstrika það sem öllum hefur verið lengi ljóst. Samt ganga niðurstöður hennar þvert á stefnu Bandaríkjanna, Bretlands og flestra Evrópuríka í eiturefjamálum og er eiginlega áfellisdómur á frammistöðu vestrænna ríkja.
Sem dæmi um hversu misheppnaðar aðgerðir stjórnvalda á vesturlöndum hafa verið, má benda á hvernig haldið hefur verið á málum í Afganistan. Árið 2004 þegar að Hamid Karzai varð forseti yfir landinu, lagðist hann á sveif með innrásaraðilunum og fjölþjóðaliði NATO til að uppræta valmúgaræktun í Afganistan. Bretland eitt og sér hefur kostað tæpum milljarði breskra punda í þetta átak. - Í dag kemur 90% af öllu heróíni sem framleitt er í heiminum, frá Afganistan.
Þegar að Portúgal nam úr gildi lög sem gerðu það ólöglegt að neyta eiturlyfja árið 2001, héldu margir að landið mundi verða að megin áfangastað eiturlyfjaneytenda í stað Amsterdam borgar. Mikil andstaða var við lagabreytingarnar frá fólki sem óttaðist að illræmd eiturlyfja-hverfi eins og Canal Ventosa í Lissabon, mundu teygja áhrif sín niður á strendur landsins og inn í blómlegan ferðamannaiðnaðinn.
Frá 2001 hefur tala þeirra sem látist hafa af völdum heróín neyslu í Portúgal, lækkað um helming, og fjöldi þeirra sem sótt hafa afeitrunar og endurhæfingar-stofnanir, tvöfaldast.
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2011 | 02:32
Kínverska hugmyndalögreglan
Myndlistamaðurinn Ai Weiei situr enn í fangelsi einhversstaðar í Kína. Til að minna á hann og baráttu hans, héldu nokkrir listamenn myndlistarsýningu sem opnuð var fyrir þremur dögum.. Einn vegginn, sem þeir skildu eftir auðan, helguðu þeir minningu Ai Weiei.
Sýningin sem sett var upp í Beijing hafði varla opnað dyrnar þegar að kínverskar öryggissveitir birtust. Þar var komin sendinefnd frá kínversku hugmyndalögreglunni sem er ætlað að hafa hemil á öllum hugmyndum sem ríkinu líkar ekki við einhverra hluta vegna. Talið er að fjöldi manna og kvenna í þjónustu hugmyndalögreglunnar sem m.a. reynir að stjórna aðgangi Kínverja að internetinu, skipti milljónum.
Hugmyndalöggan tók niður allar myndir sýningarinnar og handtók síðan aðstandendur hennar. Tveir þeirra voru hnepptir í fangelsi og ekkert hefur til þeirra spurst. -
Þessi og önnur miklu grófar mannréttindabrot líða þjóðirnar Kína. Ísland, sem í stað þess að fordæma þetta fasíska og úrelta stjórnarfar sem viðgengst í Kína, sækist eftir meiri samskiptum og auknum viðskiptum við ríkið.
Mannréttindasamtök sem hvetja til aðgerða gegn Kína er sagt að tillögur þeirra mundu í framkvæmd standa í vegi fyrir efnahagslegum vexti Kína og það væru líka mannréttindabrot gegn hinum almenna Kínverja. Sannleikurinn er sá að umsvif Kína í heiminum aukast dag frá degi og áhrif þess á efnahagslíf annarra þjóða eru nú orðin svo mikil að ekkert þeirra getur fórnað ábatanum af viðskiptunum við Kína án þess að finna verulega fyrir því. Þess vegna sleppa flest lönd að gagnrýna kínversk stjórnvöld, hvað þá að grípa til aðgerða gegn þeim.
Minnast mannréttindabrota í Kína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 02:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2011 | 00:48
Samstilltar lífsklukkur
Biblían kennir að lengd æviskeiðs okkar allra sé forákvarðað af Guði upp á dag og að enginn megi sköpun renna, sem reyndar er einnig forn-norrænn siðaboðskapur.
"Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn." segir í Sálmunum. -
Þetta hafa Fransisku-munkarnir og eineggja tvíburarnir Julian og Adrian eflaust vitað. Líf þeirra var svo samfléttað og líkt að genetískar lífklukkur þeirra hafa verið algjörlega samstilltar.
Að eineggja tvíburar deyi með stuttu millibili er alls ekki óalgengt þótt Bandarískar heimildir segi að þar í landi líði að meðaltali 10 ár á milli dauða þeirra.
Svo dæmi séu nefnd þá náðu tvíburasysturnar Emma og Florence, áttatíu og tveggja ára aldri en þær fundust látnar í örmum hvers annars, á heimili sínu í San Antonio, eftir að mikil hitabylgja hafði gengi yfir borgina 2009. Rannsókn leiddi í ljós að loftælingin í íbúðinni, þar sem þær bjuggu saman, hafði bilað.
Þá þótti það einnig fréttnæmt þegar að í ljós koma að þeir Richard og Michael Walsh, 33 ára, sem létust báðir í sama húsbrunanum við Canada Square í Waterford á Írlandi árið 2008, voru eineggja tvíburar. Þeir bjuggu saman og höfðu báðir gleymt að slökkva á kertum sem loguðu í sitt hvoru svefnherberginu.
Eineggja tvíburar létust sama dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.6.2011 | 00:49
Fílamenn - (Ekki fyrir viðkvæma)
Huang Chuncai ( 黃春才) var fæddur árið 1976 í þorpinu Yulan í Hunan héraði í suður-Kína. Hann er næst- elstur af fjórum systkinum. Skömmu eftir fæðingu tók faðir hans, Huang Bao, eftir því að höfuð drengsins var óvenju ílangt. Að öðru leiti var Huang litli algjörlega eðlilegur.
Á fimmta ári varð fyrst vart við æxlisvöxt í andliti hans. Þrátt fyrir að æxlið stækkaði jafnt og þétt höfðu fátækir foreldar hans ekki efni á að fara með hann til læknis. Huang gekk í barnaskóla fram að sjö ára aldri en þá var vistin í skólanum orðin óbærileg fyrir hann. Börnin kölluðu hann "skrímslið" og lögðu hann í einelti.
Þegar hann varð tíu ára var honum ekki lengur vært á götum þorpsins og hann hélt sig mest inni við á heimili sínu næstu tvo áratugina.
Þegar Huang varð 31 árs hafði æxlið algerlega afmyndað andlit hans og hékk í stórum sepum niður á maga hans. Þungi þess beygði hryggsúluna og bak hans svo hann leit nú út fyrir að hafa kryppu. Vinstra auga hans sökk á kaf í æxlið sem teygði úr andliti hans á alla vegu. Hægra eyrað nam t.d. við öxlina. Þegar hann náði ekki lengur að bíta saman kjálkunum fóru tennurnar að molna upp í honum fljótlega eftir tvítugt var hann orðinn tannlaus. Árið 2007 var Huang orðin heyrnarlaus og hafði að mestu misst getuna til að tala.
Allt frá æsku höfðu læknar afar lítil afskipti af Huang. Æxlið var greint sem taugavefjaæxli eða"neurofibromatosis" , rétt eins og hjá hinum nafntogaða Fílamanni Joseph Merrick, áður en það uppgötvaðist að hann var með sjúkdóm sem nefndur er Proteus heilkennið .Hægt hefði verið að skera það af áður en það var orðið svona risavaxið. En foreldar Huang höfu ekki ráð á að taka hann í læknisskoðun, hvað þá að borga fyrir skurðagerð.
Að auki var foreldrum hans var tjáð að skurðaðgerð væri mjög hættuleg. -
Blaðamaður einn komst um síðir á snoðir um tilvist Huangs og af honum birtust myndir í kínverskum fjölmiðlum sem sýndu blaðasnápinn mæla lengd og þvermál æxlisins. Það reyndist þá 57 cm á lengt og 97 cm í þvermál. Huang sjálfur er aðeins 135 cm að hæð.
Eftir að Huang varð frægur um allt Kína sem "kínverski fílamaðurinn" buðust skurðlæknar við Fuda sjúkrahúsið í Guangzhou að gera á honum nokkrar aðgerðir, honum að kostnaðarlausu. (Hver aðgerð mundi hafa kostað um 2.000.000 króna.
Huang var 31 árs þegar hann gekkst undir fyrstu aðgerðina í júlí árið 2007 en þá voru fjarlægð 15 kg. af vefjum. Aðgerðin var tekin upp og upptökuna má nálgast hér fyrir áhugasama.
Rúmlega ári síðar gekk hann undir aðra aðgerð, mun hættulegri en þá fyrri, því nú þurfti að fjarlægja rætur æxlisins öðru megin í andlitinu sem um lágu margar æðar. Sú aðgerð var einnig tekin upp á myndband og sýnir hvernig tæplega 5 kg. til viðbótar eru skorin burtu úr andliti Huangs.
Aðgerðin virtist hafa tekist þokkalega þótt enn sé varla hægt að greina mennskt andlitsfall á Huang. Stórir æxlis-separ sem vaxa að hluta til út úr enni hans hanga enn niður andlit hans og afmynda það. Talið er að þeir vegi 6-7 kg.
Hugmyndin var að þeir yrðu fjarlægðir í þriðju aðgerðinni seint á árinu 2008. Þrátt fyrir talsverða eftirgrennslan tókst mér ekki að afla upplýsinga um afdrif Huang eftir aðgerðina í janúar 2008 en um sama leiti gerði National Geographic heimildarmynd um hann sem sýnd var 2010 og gerði Huang heimsfrægan. Þar er Huang sýndur á batavegi heima hjá sér þar semhann býður með óþreyju eftir þriðju aðgerðinni.
Huang er því miður ekki eini maðurinn á lífi sem þjást af þessum hræðilega erfðasjúkdómi. Saga Eddie Newton er sögð í stuttu máli á eftirfarandi myndbandi. Í myndbandinu kemur fram skýring á sjúkdóminum
Og hér er stutt mynd um hinn ameríska James O´Neal sem einnig kallar sjálfan sig "fílamanninn".
James eftir aðgerðina
Að lokum kemur hér einnig í stuttu máli saga Reggie Bibbs
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.6.2011 | 21:15
97% Íslendinga trúa aðeins á efnislega tilvist?
Það býr ýmislegt athyglivert í þessum tölum frá Gallup um að 71% Íslendinga trúi á Guð. Það fyrsta sem maður rekur augun í er að meðal karla er ekki endilega fylgni milli þess að trúa á Guð og á líf eftir dauðan. Einhver hluti karla getur sem sagt vel hugsað sér að það sé til eitthvað sem fallið getur undir skilgreininguna Guð, en samt hljóti líf hvers manns að enda við líkamsdauðann. - Þetta er reyndar afstaða bæði Votta Jehóva og Sjöundadags aðventista, sem trúa því að allir deyi að lokum og ekkert líf sé eftir líkamsdauðann, nema fyrir fáa útvalda. Auðvitað vonast þeir allir til að verða í þeirra hópi. Þeir vilja meina að sú tilvist sé efnisleg, ekki andleg og eiga því það sameiginlegt með trúleysingjum að trúa aðeins á á efnislega tilvist.
Þá kemur það fram að 68% trúa á kenninguna um "miklahvell". 68% hlýtur því að trúa því að einhverstaðar handan endamarka alheimsins þar sem áhrif mikla hvells gætir ekki enn, sé ekkert til. Þar er ekkert efni, enginn tími og ekkert rúm, þ.e. sama "ástand" og var allstaðar áður en mikli hvellur varð og alheimurinn varð til.
Samt trúir 71% að til sé Guð, en 68% trúa ekki að þessi Guð hafi skapað alheiminn, ef ég skil þessa könnun rétt.
Guð þeirra 68%, sem ekki trúa á Guð sem skapara, hljóta þá að trúa á einhvern Guð sem er sjálfur hluti af "sköpuninni" og/eða tilheyrir þeim alheimi sem varð til við mikla hvell. Sá Guð hlýtur að vera eins og allt annað sem við þekkjum og tilheyrir þeim alheimi, háður tíma og rúmi. Hann er því ekki "andlegur" Guð heldur efnislegur Guð.
Þeir sem trúa á efnislegan Guð eru þá sem sagt 68% og þeir sem ekki trúa á neinn Guð, skapara eða líf eftir dauðann 29%. Þeir sem gera aðeins ráð fyrir efnislegri tilvist eru því samtals 97% Íslendinga.
Þetta verða að teljast góðar fréttir fyrir vantrúarmenn og aðra trúleysingja og greinilegt að auðmjúkur áróður þeirra er að skila sér, big time.
Íslendingar trúa á Guð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.6.2011 | 14:17
Útnesjamenn eftirlegukindur í efnahagsbatanum
Það er erfitt að átta sig ástandi þjóðarsálarinnar um þessar mundir. Á sama tíma og stjórnarliðar segja efnahaglegan bata landsins vel á veg kominn og bankarnir tilkynna aftur um milljarða króna hagnað, skín vantrú og vonbrigði, sem oft verður líka að kaldhæðnislegu glotti, úr andlitum almennings.
En hvers er að vænta af þjóð sem trúði einlægt á ákveðnar hugsjónir sem ollu þeim svo skelfilegum vonbrigðum, treysti fólki sem síðan sveik hana, sem hafði ákveðna sýn á framtíðina sem aldrei varð að veruleika.
Reyndar bera sig einhverjir mannalega, einkum í litlum byggðarlögum út á landi sem voru svo heppin, (eða forsjál) að kreppan náði aldrei til þeirra að ráði og allir héldu atvinnu sinni og lífsviðurværi.
En þar sem atvinnuleysið er mest og hefur varað hvað lengst, eins og suður með sjó í Reykjanesbæ, þar sem atvinnuleysið er 13 til 14%, liggur ráðaleysið eins og mara yfir fólkinu og bænum öllum.
Fyrir marga er Hafnargatan í Keflavík andlit bæjarins. Að ganga eftir henni er átakanlegt. Þar getur að líta allt of marga auða útstillingarglugga, gapandi tómar augntóftir fyrirtækja sem eitt sinn voru matarholur einhverra íbúa bæjarins. -
Og sú þjónusta og verslun sem enn lifir í plássinu á í vök að verjast. - Sumir bæjarbúar virðast halda að þeir séu að spara með því að aka alla leið til Reykjavíkur til að versla. - Á góðri stundu, er kallað eftir samstöðu, en hún fer fyrir lítið þegar fólk rýnir i budduna sína og heldur, hvort sem það er svo rétt eða ekki, að það geti sparað nokkrar krónur á að renna í Reykjavík til að versla. En það verður líka að horfa til þess að ýmsa þjónustu, sérstaklega heilbrigðisþjónustu sem skorin hefur verið niður af ríkisvaldinu, er ekki lengur hægt að fá í Keflavík.
Stóru hugmyndirnar, allsherjar-lausnirnar sem m.a. fólu í sér byggingu álvers í Helguvík og/eða annars orkufreks iðnaðar eða þjónustu eins og alþjóðlegs tölvugagnavers upp á velli, og sem bæjarstjórinn þreytist ekki á að telja upp í ræðu sinni í tilefni Ljósanætur á hverju ári í mörg ár, hafa eins og allir vita, ekki orðið að veruleika.
Nýsköpun í atvinnulífinu eru orðin tóm á Suðurnesjum og það stoðar lítið að benda stöðugt á nýlegan rekstur sem enn stendur á brauðfótum eins og Háskólann Keili eða Heilsuhótelið hennar Jónínu Ben sem dæmi um nýleg fyrirtæki í bænum.
Fjölmenn en duglaus embættismannastétt bæjarins, að ekki sé minnst á fólkið sem situr á þingi fyrir þennan landshluta, kennir pólitískum deilum, skort á orku til að breyta í rafmagn og viljaleysi peningastofnana til að lána fé í framkvæmdir, um ástandið -
(Er að furða að fólk spyrji til hvers sé verið að halda gangandi peningastofnunum hvort eð er Bönkum eða sjóðum sem ekki hafa að markmiði að þjóna fólki , heldur aðeins peningum.) -
Sem dæmi má taka "Eignarhaldsfélag Suðurnesja". Það auglýsir eftir hugmyndum um nýsköpun sem það gæti fjárfest í og er tilbúnið til að offra til atvinuuppbyggingar á Suðurnesjum heilum 150 milljónum, eða andvirði tveggja sæmilegra húseigna á Reykjavíkursvæðinu.
En stefna bæjaryfirvalda í atvinnuþróun er eftirfarandi eins og fram kemur á heimsíðu bæjarins:
Reykjanesbær byggir á sex meginstoðum til atvinnuþróunar á svæðinu:
1. Að orka Reykjaness sé virkjuð skynsamlega. Að hér sé staðsett öflugt orkufyrirtæki sem býður samkeppnishæfa orku til heimila og fyrirtækja og er fært um að hafa góðan arð af sölu raforku til annarra byggðarlaga.Á þessum grunni verði hlúið að frekari jarðhitarannsóknum á svæðinu. Reykjanesbær verði áfram leiðandi aðili í Hitaveitu Suðurnesja hf.
2. Að hér sé blómleg aðstaða fyrir þjónustu og verslun Því er lífæðin frá Duus húsum eftir Hafnargötu og Njarðarbraut og inn á Fitjar í endurgerð, þar sem þegar eru um 200 fyrirtæki staðsett.
3. Að hér sé öflugt iðnaðarsvæði í Helguvík sem býður hentuga staðsetningu milli stórskipahafnar og alþjóðaflugvallar, með ljósleiðaratengingum og ódýrri raforku inn á svæðið.
4. Að byggt sé á þjónustu tengdri Keflavíkurflugvelli, m.a. ferðaþjónustu. Skapaður sé "segull" í ferðaþjónustu sem tryggi hlutverk Reykjanesbæjar í ferðaþjónustu landsmanna. Uppbygging Víkingaheims með Nausti Íslendings, Smithsonian safni og söguslóðasýningu er mikilvægt verkefni í þeim tilgangi.
5. Að hér sé áfram miðstöð varna þjóðarinnar og skoðaðir séu möguleikar á að styrkja þá starfsemi í breyttum heimi, s.s. tengt sjúkdómavörnum og skynsamlegri samþættingu verkefna á sviði öryggismála þjóðarinnar.
6. Að sveitarfélagið sé vakandi fyrir nýjum hugmyndum er aukið geta atvinnumöguleika .s.s í heilbrigðisþjónustu, íþróttum og háskólatengdri starfsemi.
Síðustu misseri hefur Ríkistjórn landsins haft talverðar áhyggjur af stöðu atvinnumála suður með sjó og ákveðið var á fundi hennar 9. nóvember 2010 að hrinda af stað 11 verkefnum á Suðurnesjum til að efla atvinnu, menntun og velferð.
Til þess að halda utan um þau og vinna í sameiningu í landshlutanum ákvað ríkisstjórnin að mynda samráðsvettvang stjórnvalda og sveitarfélaga á svæðinu. Verkefnin urðu fljótlega 10 þar sem tvö voru sameinuð, þ.e. verkefni um fisktækniskólann og þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði.
Verkefnin 10 eru:
- Flutningur landhelgisgæslunnar - hagkvæmnismat liggur fyrir. (Ekki á dagskrá fljótlega)
- Gagnaver - lög um breytingar vegna gagnavera tóku gildi 1. maí sl. (Vantar raforku)
- Hersetusafn á Suðurnesjum - hluti fjármögnunar hefur verið tryggður. (200 millj.)
- Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu - er í ferli. (Enginn vill kaupa)
- Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum - lokaskýrsla liggur fyrir. (Fátt bitastætt)
- Klasasamstaf fyrirtækja á sviði líforku - er í ferli. (Hver skilur þetta?)
- Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta - hefur verið hækkað. (Vá, gott framlag til atvinnuuppbyggingar.)
- Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum - verkefnisstjóri ráðin og samstarf komið á. (Hver eru verkefnin?)
- Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum - Útibú hefur verið opnað. (Hann hefur nóg að gera)
- Fisktækniskólin/þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði. Þróunarverkefni um eflingu menntunar á Suðurnesjum. Verkefnisstjórar hafa verið ráðnir og verkefni er hafið. (Bók og verkvit verða vissulega í askana látin)
Hvað ætli þessar aðgerðir ef og þegar þær koma til framkvæmda, skapi mörg störf á svæðinu?
Á Suðurnesjum eru um 1600 manns atvinnulausir. Frá því að Ríkisstjórnin fundaði um málin, hefur atvinnulausum fjölgað um hálft hundrað.
Jafnvel þessar vel meinandi aðgerðir stjórnvalda nægja engan veginn til að leysa atvinnuleysi Suðurnesjamanna.
Til þess þurfa að koma til miklu fleiri og varanlegri lausnir.
Þetta veit almenningur á Suðurnesjum og skilur samt illa í því hversvegna forysta bæjarfélagsins hefur leyft ákveðnu sinnuleysi í kjölfar ráðaleysis að grafa um sig í samfélaginu. - Þeir segja stöðugt að bæjarfélagið sé fjárhagslega komið að fótum fram og hafi ekki burði til að standa á bak við neina uppbyggingu. -
"Litlar hugmyndir" um iðnað eða þjónustu mæta auðvitað þessu sinnuleysi og eru blásnar út af borðum fjármálastofnanna og ráðamanna, jafn óðum og oft uppurðarlitlir hugmyndasmiðir fá viðrað þær. Og það þarf ekki nema smá skammt af svartsýni þeirra sem völdin og peningana hafa til að drepa hugmyndina alveg eða setja hana í salt "þar til betur árar." - Óhóflegar arðsemiskröfur ríkisrekinna peningastofnana setur einfaldlega starfsmönnum þeirra stólinn fyrir dyrnar, með fjármögnun til atvinnuuppbyggingar.
Hvað verður t.d. um hugmyndina um;
víkingaþorp í Njarðvíkunum fyrir ferðamenn?
Um fjölskylduvæna Víkinga-vatnagarða í framhaldi af Blá lóninu?
Um hugmyndina að ræktun skelfisks út af Bergi og Stapanum?
Um hugmyndirnar ófáu um verksmiðjur til að fullvinna sjávarfang?
Um hugmyndina um rafgeymaverksmiðju?
Um hugmyndina um æfingasvæði fyrir alþjóðlegar björgunarsveitir upp á velli?
UM hugmyndina um fjölþjóða kóramót í tengslum og samvinnu við ferðaskipuleggjendur og íþróttamannvirkin í bænum.
Þessar hugmyndir, sumar á frumstigi, aðrar lengra komnar, eiga allar á hættu að daga uppi, einkum vegna þess að ekkert fjármagn fæst til framkvæmda þeirra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2011 | 00:46
Rót alls ills er ekki peningar, heldur leiðindi.
Já, mikið hefur þessi norðræna partýstelpa mátt þola af heiminum og því alls ekki of mikið í borið að Hilton mæðgurnar brynni músum saman í sjónvarpinu yfir örlögum Parísar.
Fáar ungar konur hafa lifað lífi sínu jafn opinberlega og hún. Einkalíf hennar sem aðallega samanstendur af gjálífi með nýjum kærustum sem koma og fara eins kúkúfuglar á klukku, hafa verið helsta að ferð Parísar við að halda athygli fjölmiðlanna við að öðru leiti heldur viðburðasnautt líf sitt.
Eða eins og París orðaði það sjálf, "ég er hrifin af Barbídúkkunni sem gerir sjálf ekki mikið en lítur samt ansi vel út við það."
Og nú grætur hún að stóra trompinu hennar, sem hún hafði hugsað sér að nota einhvern tíman seinna þegar hún virkilega þurfti á að halda, var sóað af einhverjum strákasna sem setti myndband af henni og sjálfum sér við rúmbragðaglímuiðkun á netið, ENDURGJALDSLAUST!!!
Ekkert getur sviðið París sárar en að fá ekki borgað fyrir að sýna sig, enda ekki margar blondínur í heiminum sem þjéna eina milljón af dollurum á ári bara fyrir að mæta í nokkur partý og sýna sig
Þegar hafa hrotið af munni Parísar nokkur fleyg gullkorn sem eiga að lýsa henni vel. Eitt þeirra notaði ég í fyrirsögnina á þessum pistli; Rót alls ills er ekki peningar, heldur leiðindi. Ef einhver fer í einhverjar grafgötur með djúphyggni þessarar dömu fylgja hér nokkur í viðbót.
Ef þú hefur fagurt andlit, þarftu ekki gervibrjóst til að ná allra athygli.
Fólk heldur að ég sé heimsk. En ég er gáfaðri en flest annað fólk.
Það er engin í heiminum eins og ég. Ég held að hver áratugur hafi sína ofur-ljósku, eins og Marilyn Monroe og Diana prinssessa, og nú er ég það.
Það besta við að hafa eigin næturklúbb er að allt er frítt og þú getur sagt plötusnúðnum að spila hvað sem þig langar.
Klæddu þig krúttlega hvar sem þú ferð. Lífið er of stutt til að láta ekki taka eftir sér.
Paris Hilton miður sín vegna kynlífsmyndbandsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
1.6.2011 | 20:04
Marta María í Smartlandi á villigötum
Fyrir nokkrum dögum birtust myndir af Katrínu Middleton sem gáfu sterklega til kynna að stúlkukornið hefði lagt enn meira af í brúðkaupsferðinni og var hún þó grönn fyrir.
Leiddar voru getur að því að Katrín væri nú komin langt undir eðlilega líkmasþyngd.
Þessi mynd af henni í sama kjól og Lydía Bright sem frétt Mörtu Maríu fjallar um, sýnir svo ekki er um að villast að Katrín á við verulegt vandamál að stríða. -
Á meðan raunveruleikaþáttastjarnan Lydía fyllir vel útí kjólinn sinn á öllum stöðum, hringlar Katrín inn í sínum, brjósta, rass og mjaðmalaus. -
Ég er því á fullkomlega öndverðum meiði við Mörtu Maríu í Smartlandi sem virðist telja að lystarstolslegt útlit Katrínu sé eftirsóknavert og að hún taki sig betur út í kjólnum en Lydía. -
Það er greinilega að Marta er eitthvað smituð af horrenglutískunni og lætur sér í léttu rúmi liggja þá skaðsemi sem hún hefur valdið konum og ungum stúlkum sem talið er trú um að stærð 0 sé eftirsóknarverð.
Þessi kjóll er ekki flottur á öllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2011 | 23:47
Heimildaleysi sönnun um að atburðurinn hafi átt sér stað
Þegar kemur að alvarlegri umfjöllun um málefni sem tengjast fljúgandi furðuhlutum, geimverum á jörðinni og brotlendingu geimfara frá öðrum hnöttum, falla flestir rithöfundar í sömu gryfjuna. Þrátt fyrir einlægan vilja og góða trú á að þeir hafi með rökum eða jafnvel einhverjum gögnum tekist að varpa nýju ljósi á málin eða ef til vill "leysa gátuna", eiga þeir það sameiginlegt að vera frekar hluti af vandmálinu en lausn þess.
Í ritdómi Los Angeles Times (LAT) sem grein Mbl.is vitnar í er reyndar bent á, að þrátt fyrir að bók Annie Jacobsen sé vönduð og rannsóknarvinnan við hana mikil, gera niðurstöður hennar lítið annað en að bæta við enn fleirum sögusögnum um Svæði 51 og atburðina sem kenndir eru við Roswell en ljósmyndir sem teknar voru á staðnum sæyna greinilega brak úr flaug eða belg, af jarðneskum uppruna.
Kvikmyndin fræga með myndum af krufningu á "geimveru" sem sögð var hafa brotlent geimfari sínu nálægt bænum Roswell í Nýju Mexíkó 1947 og sem Ray Santilli og félagi hans Gary Shoefield viðurkenndu árið 2006 að hafa falsað, sýnir veru sem vel gæti verið vansköpuð stúlka.
Öðrum myndum er ekki til að dreifa og þess vegna hlýtur Annie að sækja hugmyndir sínar um útlit geimveranna þangað. En að segja brúðuna eitt af fórnarlömbum Josefs Mengele sem nafni hans Stalín á að hafa fengið að láni frá honum er reyndar með furðulegri flökkusögum sem heyrst hafa.
Ævi Mengele er nokkuð vel skráð og á tímabilinu frá því hann fer frá Auschwitz árið 1945 til ársins 1949 dvaldist hann í þorpi nálægt Rosenheim í Bæjaralandi. Að Mengele hafi á þeim tíma haldið áfram tilraunum sínum og getað skaffað Stalín vansköpuð börn til að blekkja Bandaríkjamenn, er með ólíkindum. -
Eins og einnig kemur fram í grein LAT notar Annie hin fullkomnu samsærisrök máli sínu til stuðnings. Eða þau; að það finnist engar heimildir um að atburðirnir hafi átt sér stað vegna hvers hve leynilegir þeir eru og vegna heimildaleysisins sé öruggt að þeir hafi gerst.
Voru börn en ekki geimverur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2011 | 11:44
350 ný lög eftir John Lennon
Ef trúa má Mike Powell, hefur John Lennon, eða öllu heldur vofa hans, samið 350 ný lög og komið þeim á framfæri við Mike.
Til að Mike gæti komið lögunum áleiðis þurfti John fyrst að kenna Mike á gítar. Að sögn Mike, sem er 56 ára prentari komin á eftirlaun, birtist vofa Lennons við rúmgaflinn hjá honum, skömmu eftir að bítillinn var myrtur árið 1980 og hefur síðan komið að vitja hans í ekki færri en 50 skipti.
Mike sem ekki kunni eitt grip á gítar, og hefur fengið fjölskyldu sína til að skrifa undir vottorð um að svo hafi verið, var kennt af hinum framliðna að spila á gítar 350 lög sem Lennon á að hafa samið handan jarðlífsins.
Að John skuli hafa valið Mike til að miðla þessum nýju tónlistarsmíðum sínum er að mati Mikes, vegna þess að fyrrum Bítillinn vildi finna einhvern sem ekki mundi nota tónsmíðarnar til að auðgast á þeim.
Hann hefði því valið "venjulegan" man sem var sjálfslaus og þráði ekki frama eða fjármuni fyrir að deila með heiminum þesum lögum og textum sem væru algert "dýnamít".
Mike segir að John hafi birst sér þegar hann sjálfur var að ganga í gegnum mjög erfiða tíma. Foreldrar hans báðir höfðu þá nýlega andast og hann að fara í gegnum átakasaman skilnað við fyrrum eiginkonu sína.
"En þá birtist hann eina nóttina og ég sá að hann þarfnaðist jafn mikillar hjálpar og ég. Hann starði á mig og þegar að augu okkar mættust varð tónlistin til, fullmótuð í höfði mínu, rétt eins og ég heyrði hana af hljómplötu"
" Ég reyni aldrei að breyta neinu í lögunum sem hann hefur gefið mér"
Mike vill meina að gæði lagana sanni að þau séu eftir Lennon. Hann hefur þegar hljóðritað 50 ný Lennon lög og ætlar að senda þau til Yoko Ono. "Ég er viss um að Yoko mun kannast við tilfinningarnar sem búa að baki lögunum og staðfesta að þarna er á ferðinni raunveruleg lög eftir John Lennon" er haft eftir Mike í þessari furðufrétt Daly Post.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.5.2011 | 18:04
Níræður brandarakall og drottningarmaður
Philip, eiginmaður Elizabetu Bretadrottningar sem er kunnastur undir titlinum Hertoginn af Edinborg en var fæddur Grikklands og Danmerkurprins á eyjunni Korfu 10 júní 1921, verður á næstunni níræður.
Philip er eini sonur prins Andrésar af Grikklandi og Alisu prinsessu af Battenberg sem flýðu Grikkland seint á árinu 1922. Philip gekk í breska sjóherinn og fékk um síðir tign flotaforingja. Philip giftist Elizabetu Bretlandsdrottningu 1947 og var þá gefinn titillinn Hertoginn af Edinborg.
Allt frá því að Philip hóf að koma fram opinberlega sem drottningarmaður hefur hann haft orð á sér fyrir að hafa frekar gróft skopskin og látið ýmislegt flakka sem varla hefur þótt sæmandi. Oft hafa brandarar hans verið mettaðir af því sem margir vilja meina að séu römmustu fordómar. Hér koma nokkrar glósur sem Philip hefur látið hafa eftir sér á löngum ferli sem opinber erindreki bresku konungsfjölskyldurnar.
1. "Ógeðsleg".Skoðun Prins Philips á Beijing í heimsókn til borgarinnar árið 1986.
2. "Ógeðsleg". Skoðun Prins Philips á borginni Stoke í Trent, árið 1997.
3. "Heyrnarlaus? Ef þið eruð nálægt þessu, er ekki að furða þótt þið séuð heyrnarlaus". Sagt við hóp heyrnarlausra barna sem stóð nálægt karabískri stáltrommu hljómsveit árið 2000
4. "Ef þú dvelur hér mikið lengur ferðu skáeygður heim". Sagt við Simon Kerby, breskan nema í heimsókn til Kína árið 1986.
5. "Þér tókst að vera ekki étinn".Sagt við breskan nema sem ferðaðist um Papúa í Nýu Ginníu og sem Philip heimsótti árið 1996.
6. "þú getur ekki hafa verið hér lengi - Þú ert ekki kominn með kúlumaga" Sagt við breskan ferðamann á ferð til Búdapest árið 1993.
7. "Hvernig heldurðu innfæddum nógi lengi frá brennivíninu til að þeir náið prófinu" - spurði Philip skoskan ökukennara árið 1995.
8. "Kastið þið enn spjótum að hvor öðrum?"- spurði Philip innfæddan Ástralíumann þegar prinsinn var á ferð um álfuna 2002.
9. "Það lítur út fyrir að Indverji hafi sett hann upp". Sagt um öryggis og rafmagnskassa í skoskri verksmiðju sem prinsinn skoðaði árið 1999.
10. "Nú ert það þú sem áttir þennan ógeðslega bíl. Við höfum of séð hann á ferð til Windsor." Sagt við Elton John þegar að prinsinn heyrði að hann hefði selt Watford FC - Aston Martin bifreið sína 2001.
11. "Þetta er flott bindi...Áttu nærbuxur úr sama efni?" Philip við Annabellu Goldie, þá leiðtoga skoskra íhaldsmanna, þegar hann ræddi heimsókn páfa við hana á síðasta ári.
12. "Þetta lítur út eins og svefnherbergi druslu". Philip um vistarverur sonar síns, hertogans af York og þáverandi eiginkonu hans.
13. "Og frá hvaða framandi hluta heimsins kemur þú" Spurði Philip árið 1999, Lord Taylor af Warwick sem á ættir að rekja til Jamaica. Taylor svaraði; Birmingham.
14."Ah, svo þetta er kvenréttindakonuhornið."Sagt um leið og Philip vék sér að hópi þingkvenna fyrir verkalýðsflokkinn í boði í Buckingham höll árið 2000.
15. "Með hverju skolarðu hálsinn - möl?" Philip við Tom Jones eftir konunglegu listasýninguna 1969.
16. "Ég væri til í að fara til Rússlands jafnvel þótt þessir bastarðar hafi myrt hálfa fjölskyldu mína". Árið 1967 þegar Philip var spurður hvort hann langaði til Rússlands.
17. "Það er mikið af fjölskyldu þinni hér í kvöld." Eftir að hafa lesið á barmspjald kaupsýslujöfursins Atul Patiel á boði fyrir 400 áhrifamikla kaupmenn af indverskum ættum árið 2009 í Buckingham höll.
18. "Ef að það hefur fjórar fætur og er ekki stóll, éta Kínverjar það". Philip á fundi Alþjóðvega dýraverndarsjóðsins árið 1986.
19. "Þú ert kona, er það ekki?" Philip við konu sem færði honum gjöf í Kenía árið 1984.
20. "Veistu að nú hafa þeir hunda sem éta fyrir anorexíu sjúklinga". Sagt 2002 við Susan Edwards sem er bundin við hjólastól og hefur sér til aðstoðar hundinn Natalíu.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2011 | 10:19
Málið sem ekki vill hverfa
David Cameron forsætisráðherra Bretlands segist ekki sjá neinar góðar ástæður til að láta rannsaka dauða sýklavopnasérfræðingsins Dr David Kelly sem sagður er hafa framið sjálfsmorð árið 2003.
David Kelly var sá sem BBC bar fyrir því að skýrslan sem Tony Blair notaði til að réttlæta innrásina í Írak, hefði verið viljandi ýkt til að láta líta svo út að Saddam Hussain réði yfir sýklavopnum. (Sjá grein)
Afskipti Camerons af málinu sannar að málið er pólitískt en ekki lögreglumál eins og það ætti að vera. Einnig hefur verið bent á að David Cameron þyki mikilvægt og sjálfsagt að enduropna mál Madeleine McCann en sjái ekki neina þörf á því að vita fyrir víst hvað og hver var valdur að dauða Dr. Kellys.
Ummæli forsætisráðherrans hafa verið gagnrýnd af læknum og vísindamönnum sem berjast fyrir því að málið verði tekið upp að nýju og að í þetta sinn verði rannsókninni hagað í samræmi við réttarlækninga-lögin frá 1988 sem hin fræga Lord Hutton skýrsla gerði ekki.
Niðurstaða Hutton skýrslunnar er að David Kelly hafi framið sjálfsmorð með því að taka in stóran skammt af verkjatöflum og skera sig púls með vasahnífnum sínum.
Skýrslan lætur ósavarað fjölda spurninga um dauða Dr Kelly og þykir frekar illa unnið plagg.
Að auki hafa komið fram upplýsingar eftir að skýrslan var gefin út sem ástæða þykir til að rannsaka betur.
Atferli Kellys dagana fyrir "sjálfsmorðið" þykir ekki benda til að hann hafi verið í neinum slíkum hugleiðingum. Hann skipulagði vinafundi í næstu viku og bókaði far aftur til Írak til að halda áfram vinnu sinni þar.
Gagnrýnendur Hutton skýrslunar hafa margoft bent á að ekki er fjallað í henni um ástæður þess að engin fingraför fundust á þeim munum sem hann hafði á sér, né þá staðreynd að verkjatöflurnar sem hann tók gátu akki leitt hann til dauða.
Þá er ekki minnst á þyrluna sem Thames Valley lögreglan leigði til að fljúga á þann stað sem Dr Kelly lá, 90 mínútum eftir að líkami hans fannst. Þyrlan hafði viðdvöl í fimm mínútur og hvarf sían af vettvangi. Hvað hún ar að gera og hver var í þyrlunni hefur aldrei komið fram.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2011 | 08:02
Rödd handan hinnar djúpu votu grafar
Eitt af því sem kom fram í yfirlýsingum Bandaríkjamanna skömmu eftir að þeir höfðu náð að drepa Osama bin Laden, var að augljóst væri að hann hefði verið knúinn til þess að hafa sig lítið í frammi þar sem hann sat í stofufangelsi sínu í Pakistan. Hvað hryðjuverkastarfsemi varðar hefði hann verið sestur í helgan stein.
Til að sanna mál sitt sýndu þeir mynd af gömlum manni sem leitaði að gömlum upptökum af sér þar sem hann var enn ungur og athafnasamur. Þá var látið fljóta með að sú alda mótmæla og byltinga sem farið hefur um Arabalöndin síðustu mánuði hafi gert skilaboð Al-Qaeda og Osama bin Ladens úrelt og áhrifalaus. -
USA var mikið í mun að koma þeim skilaboðum til heimsins, að þessi eftirlýstasti maður heims, og hættulegasti glæpamaður okkar tíma, væri í raun tannlaut ljón sem kúrði í hýði sínu, rorraði sér undir teppi, gráhærður og gugginn.
Seinna báru Báru Bandaríkjamen þetta allt til baka. Þeir sögðu að í ljósi þeirra gagna sem þeir tóku með sér úr íverustað Osama, væri óhætt að fullyrða að hryðjuverkaforinginn hefði enn verið að og hann hefði enn verið á fullu við að skipuleggja hryðjuverk út allan heim. -
Það var sem sagt kominn tími til að leiðrétta þá mynd sem stór hluti íbúa heimsins hafði fengið af aftöku Osama, að þar hefðu þrautþjálfaðir drápsmenn ráðist inn á heimili gamals manns sem ekki stafaði nein hætta af og drepið hann án dóms og laga fyrir framan fjölskyldu sína í hefndaraðgerð fyrir þau hryðjuverk sem hann var sagður hafa skipulagt fyrir mörgum árum.
Eftir fall Osama bin LAdens hafa leiðtogar Al-Qaeda í mismunandi löndum keppst um að koma fram og lýsa því yfir að þeir séu nú höfuð samtakanna. Enginn hörgull virðist vera á mannskap sem er tilbúinn til þess að lenda í fyrsta sæti á CIA og FBI listunum yfir eftirsóttustu glæpamenn heimsins.
80 manns hafa þegar látist í hefndaraðgerðum fyrir drápið á Osama og mörg hundruð særst.
Og eins og til að árétta að ekkert hafi í raun breyst, hefur Osama bin Laden send frá sér ný skilaboð. Og það sem meira er, að í skilaboðunum ræðir hann hvernig Al-Qaeda getur beit áhrifum sínum í þróun og framvindu mála í Arabalöndum, eða einmit þá þróun sem Bandaríkajmenn héldu fram að væri merki þess að áhrif Al-Qaeda væru hverfandi lítil.
Rödd Osama bin Ladens berst nú til þeirra handa hinar djúpu votu grafar sem Bandaríkjamenn segjast hafa búið honum, og hvetur liðsmen Al-Qaeda til að vera virkir í lýðræðisþróun Arabaheimsins. -
Greinilegt að Osama var með eitthvað nýtt á prjónunum. Greinilegt er að hann vill venda sínu kvæði í kross. Greinilegt að hann sér pólitíska þróun happadrýgri leið til að sparka USA og fylgisveinum þeirra út úr Arabalöndunum, en hryðjuverk.
Kannski hugsaði hann með sér að hann gæti snúið aftur úr stofufangelsinu, sigri hrósandi sem pólitísk þjóðhetja, eins og reyndar margir kunnir hryðjuverkamenn hafa gert, og fengið með því friðhelgi og virðingu óvina sinna.
Kannski var það eitthvað sem óvinir hans gátu alls ekki hugsað sér að gerðist. Kannski er það ástæðan fyrir að hann var aflífaður og líkinu hent í sæ.
Enn lætur bin Laden í sér heyra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.5.2011 | 20:26
Hvað er svona fyndið?
Fátt tekur meira á taugarnar en að fara í viðtal vegna atvinnuumsóknar. Sérstaklega ef þú ert umsækjandinn. Mikilvægt er að kunna að koma fyrir sig orði og láta ekki hanka sig á neinu, jafnvel þótt laga þurfi sannleikann dálítið til. Best er auðvitað að segja aldrei neitt sem ósatt en að láta hlutina samt líta út eins mikið þér í hag og mögulegt er. Eftirfarandi er dæmi um hvernig þetta er gert;
Þetta starf krefst mikillar ábyrgðar.
Ég er pottþétt rétti maðurinn. Á síðasta vinnustað mínum var ég sagður ábirgur í hvert sinn sem eitthvað fór úrskeiðis.
Það krefst þess líka að að viðkomandi geti starfað við mjög fjölbreyttar aðstæður.
Eins og ég segi ég er rétti maðurinn. Síðust fjóra mánuði hef ég haft 15 mismunandi störf.
Miðað við mann sem ekki hefur neina reynslu finnast mér launakröfur þínar heldur háar.
Ja, það er jú miklu erfiðara að vinna við eitthvað þegar þú veist ekki hvað þú ert að gera.
Ef ég ræð þig verður þú að leggja þig 100% fram.
Það er sjálfsagt, 12% á mánudögum, 23% á þriðjudögum, 40% á miðvikudögum, 20% á fimmtudögum og 5% á föstudögum.