17.5.2011 | 22:03
Bíður réttarhalda á Rikerseyju
Hinn sextíu og tveggja ára Dominique Strauss-Kahn gistir nú í fangelsinu á Rikerseyju. Á föstudaginn n.k. á hann að mæta fyrir rétti en hann hefur verið ákærður fyrir að hafa reynt að nauðga Nafissatou Diallo. (Sem fyrstu fréttir nefndu Ofelíu. Sjá mynd) Lítið er enn vitað um hagi Diallo, annað en að hún sögð upprunalega frá Senegal, vera múlími og eiga 16 ára dóttur sem hún býr með í Bronx. Hótelið sem hún vinnur fyrir ber henni góða söguna fyrir að vera áreiðanlegur starfskraftur.
Melissa Jackson dómari neitaði í fyrradag að láta DSK lausan gegn tryggingu jafnvel þótt einginkona hans hafi verið snögg að senda honum milljón dollara í reiðufé yfir til New York. Dómarinn tók þessa ákvörðun eftir að sækjandinn í málinu sagði að DSK hefði verið ásakaður um svipaðar árásir áður.
DSK verður því að dúsa á "klettinum" ásamt 13000 sakamönnum sem sem hann samt fær ekki að hafa samneyti við því hann var settur í einangrun. Það þýðir að hann má ekki yfirgefa klefa sinn nema í fylgd fangavarða. Rikersfangelsið er staðsett á eyju í Austurá rétt norður af Queens, ekki langt frá La Guardia flugvelli og er eitt af stærstu fangelsum í heiminum. Það getur hýst allt að 17.000 fanga.
Herra Benjamin Brafman verjandi DSK hefur í dag breytt vörn sinn frá því í gær þegar hann sagði að DSK hefði fjarvistarsönnun. Nú segir hann að vörnin verði byggð á þeirri staðreynd að það sem farið hafi á milli DSK og Nafissatou Diallo hafi verið með fullu samþykki hennar. Talið er að skýrsla lögreglunnar um lífsýni sem tekið var úr sakborningi og til rannsóknar og samanurðar við lífsýni úr Nafissatou Diallo hafi átt þátt í að breyta varnartaktíkinni.
Greiddi sjálfur fyrir hótelið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 18.5.2011 kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.5.2011 | 02:35
Líkurnar á að um samsæri sé að ræða
Samsærakenningasmiðir hafa nógu úr að moða þessa dagana. Þegar hafa komið fram nokkrar í tengslum við ásakanirnar á hendur Dominique Strauss-Kahn um að hann hafi reynt að nauðga 32 tveggja ára giftri afrísk-amerískri konu sem vinnur sem þerna á franska keðuhótelinu Sofitel í New York, þar sem yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dvaldist.
Þernan fór inn í svítuna sem hann dvaldist, því henni hafði verið sagt að hún væri mannlaus. -
Lögfræðingur Dominique heldur því fram að DSK hafi fjarvistarsönnun. Lögfræðingurinn segir að Þernan, sem ekki sé neitt augnayndi, haldi því fram að árásin á hana hafi átt sér stað um klukkan 13:00 en Dominique hafi skilað lyklinum kl: 12:30 og farið af hótelinu til að snæða með dóttur sinni hádegisverð. -
Þegar að Verjandinn reyndi að fá Dominique lausan fyrir eina milljón dollara tryggingu, benti hann einnig á að Dominique hafði ekki reynt að flýja Bandaríkin eins og haldið hefur verið fram. Hann hafi verið fyrir löngu bókaður á þetta ákveðna flug.
Hann sagði líka að Dominique hefði hringt í öryggisverði hótelsins til að tilkynna að hann hefði skilið eftir síma á hótelherberginu og jafnframt sagt þeim að hann væri á leiðinni úr landi. Það sé ekki háttarlag manns sem er að reyna að flýja lögregluna né beri það vitni um hugarfar manns sem viti að hann hefur gerst sekur um glæp.
Þrátt fyrir þessi rök var beiðninni um að láta Dominique lausan gegn tryggingu hafnað af dómaranum sem er kvenkyns.
En hverjar eru þá líkurnar á, eins og samsæriskenningarnar segja, að pólitískir andstæðingar hans í Frakklandi séu að leiða Dominique Strauss-Kahn í gildru?
Vissulega má segja að þessar ásakanir komi fram á hentugum tíma fyrir andstæðinga DSK. Hann var langlíklegastur til að verða frambjóðandinn í forsetakosningunum 2012 sem átti besta möguleika á að vinna hinn óvinsæla Nicolas Sarkozy. Talið er að slíkir draumar eru að engu orðnir, hver sem útkoman úr réttarhöldunum yfir DSK verður, en þeim skal fram haldið þann 20. þ.m.
DSK er nokkuð þekktur sem kvennaflagari af samstarfsfólki sínu. Það orðspor hefur verið opinbert leyndarmál í Frakklandi í mörg ár. Að auki hafa áður komið fram ásakanir á hendur honum fyrir að kynferðislega áreitni og árásir. Þær hafa ætíð verið þaggaðar niður. Margir voru samt á því að um leið og hann tilkynnti framboð sitt mundu margar af skápa-beinagrindum hans skjóta aftur upp höfðinu.
Samsæriskenningin sem virðist hafa mest kjöt á beinunum kom fram á vefsíðu LePost. Þar segir að sá sem fyrstur varð til að tweeta um handtökuna hafi verið Jonathan Pinet, franskur andófsmaður sem starfar fyrir franska hægriflokkinn UMP. Hann tweetaði um handtökuna nokkru áður en hún átti sér stað.
Sá sem var fyrstur til að endur-tweeta um málið var Arnaud Dassier, franskur spunameistari sem áður hefur reynt að breiða út óhróður um DSK og lúxus-einkalíf hans.
Fyrsta vefsíðan sem skýrði frá handtökunni var franska hægri sinnaða bloggsíðan 24heuresactu. Grein birtist þar um handtökuna löngu áður en t.d. The New York Post birti fréttina fyrstur bandarískra fjölmiðla.
Pinet sagðist hafa fengið fréttirnar frá kunningja sínum sem vinnur á hótelinu.
- Frönskum opinberum persónum er liðið ýmislegt þegar kemur að einkalífinu sem enn er virt að mestu. En þegar kemur að þessari meintu hegðun DKS, virðist franskir stjórnmálamenn margir hverjir vera þeirrar skoðunar að þetta hafi verið fyrirsjáanlegt. Og eins og vænta mátti, hefur önnur kona, frönsk blaðakona, nú þegar gefið sig fram og hyggist stefna DSK fyrir kynferðislega árás sem á að hafa átt sér stað fyrir 10 árum.
Með fjarvistarsönnun? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 07:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
17.5.2011 | 00:04
Fyrst góða löggan, svo slæma löggan
Bandaríkin sjá sér færi á að tukta stjórnvöld í Pakistan dálítið til. Pakistanar hafa ekki verið að standa sig sem skildi að mati USA og þess vegna er John Kerry, fyrrverandi forsetaframbjóðandi sendur með þau skilaboð að Bandaríkin vilji fá eitthvað meira fyrir sinn snúð. -
Nú þegar búið er að koma Osam bin Laden fyrir fiskanef, þarf að fá á hreint hversu margir vissu um dvöl hans í Pakistan og hversu langt sú þekking náði inn í raðir ríkistjórnarmeðlima þar í landi.
Bandaríkin hafa ausið miklu fé í lán og styrki til Pakistan og keypt með því fé fylgisspekt Pakistönsku stjórnarinnar. Þess vegna skilja þeir ekkert í þessum látalátum Pakistana að meina þeim um að yfirheyra fólkið sem þeir tóku til fanga í húsi Osama bin Ladens, eftir að sela-sérsveitin hafði klúðrað brottflutningi þess með því að brotlenda þyrlunni á húsveggnum, sem átti að flytja fólkið burtu í.
Pakistanar eru líka eitthvað að malda í móinn og tuða um að þeir séu ásakaðir fyrir að vera ekki treystandi en þurfa samt fram að þessu að vera aðal þolandinn í hefndarverkunum fyrir aftökuna á Osama bin Laden.
En Pakistan er land þar sem vinstri höndin hefur ekki hugmynd um hvað sú hægri gerir né virðist stjórn landsins kunna fótum sínum forráð. Það er í sjálfu sér ágæt aðferð við að reka land þar sem stjórnvöld verða stöðugt að geta falið verk sín fyrir íbúum landsins eða sagt þau hafa allt annan tilgang en þau raunverulega hafa. Við það bætist að mikill hluti almennings er ólæs og óskrifandi og veit aðeins það sem klerkurinn í þorpsmoskunni segir þeim. - Þess vegna veit enginn hvað er satt og hvað ósatt af því sem Pakistanar segja. Þetta vita Bandaríkjamenn og þess vegna nota þeir kunnugleg löggubrögð til að komast að sannleikanum.
En Pakistan ræður yfir kjarnorkuvopnum og það setur þjóðina í hóp þeirra þjóða sem þarf að hafa góðar með einhverjum ráðum. Peningar, fullt af þeim, er ráðið eins og staðan er í dag. Þessir peningar koma að mestu frá USA eins og fyrr segir og verið að mestu afskrifaðir sem stríðskosnaður´.
Herra John Kerry er sendur til Pakistan í sama tilgangi og samúðarfulla löggan er send fyrst inn í yfirheyrslu herbergið. Ef þið leysið ekki frá skjóðunni kemur vonda löggan strax á eftir og þá fáiði sko að kenna á því. Hillary Clinton er á leiðinni. Ríkisstjórnin í Pakistan þolir fátt verra en frú Clinton. Þeir þola illa konur sem hafa skoðanir og alls ekki að konu sem getur sagt þeim til verka. -
Áður en varir mun fjölskylda Osama bin Ladens verða afhent Bandaríkjamönnum til yfirheyrslu, einhverjir lágt settir leyniþjónustumenn verða skotnir og Bandaríska þingið samþykkir enn eina efnahagsaðstoðar-greiðsluna til Pakistan.
Biðjast ekki afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2011 | 06:12
Samsæriskenning úr hörðustu átt
Eins og allir vita voru Bandaríkjamenn á höttunum á eftir Osama bin Laden í 10 ár. Síðustu árin var net þeirra orðið svo þéttriðið að Osama varð að halda sig til hlés sem mest hann mátti og kom sér loks fyrir í þessu húsi í Pakistan, þar sem hann fór ekki út úr húsi í sex ár eða þangað til að hann var drepinn.
Bandaríkjamenn segjast hafa grunað að hann byggi í húsinu nokkuð lengi og byrjað var að æfa árásina í ágúst mánuði 2010.
Þessar "nákvæmu upplýsingar" sem Mahmoud Ahmadinejad segist búa yfir og sagt er frá í fréttinni hér að neðan, þurfa ekki að vera annað en frjálsleg túlkun á ofansögðu. Bandaríkin voru búin að veikja starfsemi Osama til muna, vissu hvar hann var í langan tíma þar sem var í raun fangi og þegar að hann uggði ekki að sér, gerðu þeir árásina á hann.
Samsæriskenningunum í tengslum við aftöku Osama Bin Ladens hrannar upp og er af nægu að taka. Höfundarnir eru margir og mismunandi marktækir en Mahmoud Ahmadinejad Íransforseta verður tvímælalaust að setja í hóp þeirra al-ómarktækustu.
Íranar segja Osama hafa verið fanga Bandaríkjamanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.5.2011 | 09:10
Peningar og kynferðislegt ofbeldi
Strauss-Kahn ákærður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2011 | 22:44
61 stig frá 11 löndum
Á meðan að lagið sem Íslendingar gáfu 12 stig vann keppnina fengum við aðeins 61 stig frá 11 löndum sem skilaði okkur 20 sætinu í kvöld. Þegar að útlitið var sem svartast og horfur á að við vermdum neðsta sætið komu Ungverjar okkur til bjargar. 12 stig frá þeim kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Norðurlöndin stóðu sig ágætlega gagnvart okkur fyrir utan Svíþjóð sem gaf okkur 1 stig. Stigin 10 frá Svisslandi komu einnig dálítið á óvart.
Franska lagið sem spáð var sigri af flestum veðbönkum var á svipuðu róli og við en mest kom á óvart ítalska framlagið. Krakkarnir fá Asarbaujan sem búa í norður London eru sem sagt sigurvegarar kvöldsins og næsta júróvisjón verður sem sagt haldin á spildunni út við Kaspíahafið milli Rússlands og Íran. Mikið er annars Evrópa orðin stór.
Sjaldan eða aldrei voru stigagjafir þjóðanna jafn fyrirsjáanlegar. Þessi blanda af atkvæðum almennings og valnefnd sem átti að koma í veg fyrir grófar Þjóðaklíkukosningar, er greinilega ekki að virka.
Ísland endaði í 20. sæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.5.2011 | 00:32
Vinir Sjonna sveipaðir í appelsínugult
Það er ekki seinna vænna að spá aðeins í gengi Vina Sjonna í Juróvisjón. Einhvern veginn finnst mér eins og stemmningin í kring um lagið og strákana sé lágstemmdari á landinu en vaninn er um lög og flytjendur okkar í júróvisjón yfirleitt.
Margir spáðu að lagið mundi ekki komast áfram í úrslitakeppnina og helsti júróvisjón spekingur landsins varð að éta hattinn sinn eftir að þessir hressu fullorðnu drengir gerðu þá hrakspá að engu á þriðjudagskvöldið og skutu um leið ref fyrir rass lögum sem talin voru örugg áfram.
Myndbandið af strákunum og Þórunni þegar þau heyrðu að lagið hefði komist áfram er frábært og auðsætt að fögnuðurinn er einlægur. Það sýnir þá til að byrja með alla guggna og vondaufa núa saman höndum. En svo allt í einu spretta þeir á fætur, hoppandi og öskrandi af fögnuði.
Vel má samt vera að best fari á frekar lágstefndri stemmningu í þetta sinn. Oft höfum við farið offari og ætlað að vinna keppnina á ákafanum og bjartsýninni einni saman. Það hefur reyndar næstum því gengið upp tvisvar sinnum, en aldrei samt náð að senda okkur alla leið í 1. sæti.
Mér segir samt hugur um að gamli júróvisjón fiðringurinn muni ná að grípa um sig þegar líður á daginn og fleiri en ekki verði límdir fyrir framan sjónvarpið í kvöld. Og hver veit, nema að hógværðin hafi bara góð skammtafræðileg áhrif á Evrópu og lagið nái mun lengra en nokkur þorði að vona.
Spár veðbanka í Evrópu gefa Íslandi ekki mikla von um að vinna keppnina og staðsetja lagið á kunnuglegum slóðum, eða í 16-18 sæti. Það kætir kannski þá sem oft hafa haldið því fram að Ísland gæti ekki haldið keppnina vegna skorts á boðlegu húsnæði. Þær mótbárur hef ég aldrei skilið. Írar héldu eitt sinn keppnina í smáþorpi þar sem reiðhöll var breytt í risastórt útsendingarstúdíó. Eitthvað er jú til af reiðhöllum á Íslandi.
Æfingar fyrir lokasýninguna í kvöld gengu vel hjá Íslendingunum og vefsíða Júróvisjón segir að þeir gefi frá sér "góðar bylgjur". Á risastórum LED skjáum í bakgrunni munu appelsínugulir litir og tannhjól skapa hlýju sem hæfir lagi og flytjendum vel. Texti lags Sjonna er eins og allir vita um hvernig best sé að grípa tækifærin og njóta lífsins á meðan tækifæri er til þess. - Í þeim anda samdi Sjonni lagið og í þeim anda er lagið flutt. - Í þeim anda ætla ég að horfa á keppnina og hringja inn eins oft og ég get til að greiða Íslandi atkvæði mitt og pína alla kunningja mína hér í Bretlandi sem ég næ í, til að gera slíkt hið sama.
Sjáumst í Reykjavík 2012 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.5.2011 | 15:31
Úr dagbókum Osama bin Laden
Hvernig varði eftirlýstasti maður heims, tímanum í rammlega afgyrtu húsnæði sínu í Pakistan? Hér koma nokkrar færslur úr dagbók Osama bin Laden sem varpa ljósi á bæði athafnir hans og pólitísk viðhorf.
14. ágúst 2009
Horfði á sjónvarpið í nokkrar klukkustundir til að gá að hvort fjallað væri um mig í fréttum. - Ekkert í dag. - Ég sá samt gáluna Söru Palin á CNN, nánast nakta eins og venjulega. Með úlnliðina bera, kálfana og hárið...Allt! - Merkilegt nokk, hún var að tala um dauðarefsingar. Ég hef ætíð verið hlynntur þeim sem fljótlegri og markvissri refsingu fyrir fólk sem stelur ávöxtum og brauði en mér fannst Sara vera frekar vingulsleg í skoðunum sínum. Eitt sinn mismælti hún sig og sagði "dauðadóm yfir Obama" í stað "dauðadóm yfir Osama". En það fór fram hjá fréttmanninum. Heimsk kona Palin.
19. janúar 2010
Varði morgninum í að skipuleggja árásir á nokkur þéttbýl svæði í Bandaríkjunum. Eitthvað verður maður að hafa fyrir stafni á svona stað, annars er hætt við því að maður brjálist. - Við þurfum fleiri fjöldamorð. Öll þessi smáu tilræði þar sem fáir deyja koma ekki til með að breyta stefnu Bandaríkjanna. Slíkar uppákomur eru daglegt brauð þar í landi. Ég efast um að þeir taki nokkuð eftir þeim. - Þessa dagana er ég mikið með hugann við járnbrautarlestir og árásir á helgidögum Ameríkana. Ég á við 4. júlí, þegar Vanity Fair Óskarsverðlauna-partýið fer fram og á dögum sem Lindsay Lohan þarf að mæta fyrir rétti sem dæmi. Ef maður orðar þetta eins og feitu kokkarnir á BBC þá er kominn tími til að hefja drápin upp á hærra plan. - Þegar ég lauk við skipulagsmálin, kallaði ég alla saman til að segja þeim frá nýju áætluninni um hvernig sigra eigi heiðingjanna. Við ætlum að gera árás á samgöngukerfið í Los Angeles og knésetja þessa nýju Sódómu. Sumir hlógu mikið og sögðu "Gangi þér vel með það". Þá sagði ég "Jihad gerist ekki erfiðara" og svo hlógum við öll saman. Það er góð tilfinning að vera aftur miðdepillinn í atburðarrásinni.
26. apríl 2010
Sá sjálfan mig í sjónvarpinu í gamalli klippu frá því ég veit ekki hvenær, þar sem ég var að hvetja fylgjendur mína til að uppræta vestrænu heimsvaldasinnanna. - Svo ungur.- Hvað varð eiginlega um þennan snaggaralega pilt með reyklituðu augun og bústnu varirnar? - Hann situr hér og rær í gráðið sveipaður sjali og nartar í fræ um leið og hann horfir á Larry King. Æi jæja..
5. júní 2010
Mikið er heitt. Brá mér síðdegis út í bakgarðinn. Það er eitthvað svo einmannalegt hérna um þessar mundir en það hvílir friður yfir öllu. Stríð, dauði og heimsvaldastefna vesturveldanna eru svo fjarlæg þar sem ég sit undir ólívutrénu og hugsa. - Ef að þau sparka fótboltanum eina ferðina enn yfir vegginn ætla ég að setja í hann kúlu áður en ég sparka honum aftur yfir.
15. ágúst 2010
Sendillin kom í dag. Leynileg skilaboð frá Al-Qaida, meira af AA rafhlöðum fyrir fjarstýringuna, eintak af Newsweek og IKEA bæklingur. (Þeir senda mér tvö eintök þótt ég hafi aldrei verslað við þá) Hann kom einnig með DVD sjóræningjaútgáfu af "Finding Nemo". Horfði á hana og hló mjög mikið,- og bannfærði hana svo. - Í kvöld er leshringurinn og allir grautfúlir út í mig fyrir að velja Kóraninn aftur. Þau segjast öll hafa lesið hann. En ég spyr á móti; "kunnið þið hann utanbókar, ha?" Þau saka mig líka um að einoka umræðurnar. Það er nokkuð til í því býst ég við. Abu segir að það sé komið að honum að velja bók. Ég sagði honum; Nei aldrei aftur, ekki eftir þennan Harry Potter.
3. nóember. 2010
Veit ekki hvort ég á að gleðjast yfir úrlitunum í bandaríku kosningunum. Kerfið hjá þeim er svo flókið. Tvær þingdeildir, forseti, ráðuneyti og sér dómskerfi. Fyrir mína parta er þetta allt einn stór SATAN. Ég býst við að ef Repúblikanar vinna sé það vont fyrir endurbæturnar á heilbrigðiskerfinu og þess vegna gott. (Því fleiri Ameríkanar sem deyja því minna fyrir okkur að gera) Ég á samt einhvern veginn erfitt með að gleðjast.
22. nóvember 2010
Mjög þreyttur í dag. Var sein á fótum að rífast við kunningja mína um hvort uppþvottavélar væru óguðlegar eða ekki. Og þú getur aldrei sagt bara "já" og látið það nægja. Allir vilja fá einhver rök. Að lokum sagði ég þeim að með Guðs vilja, ættum við að einbeita okkur að upprætingu stærri illra afla eins og Ameríku, Ísrael og tónlist og láta minniháttar guðfræðilegar spurningar bíða betri tíma. Hassan hélt því fram að sumar af nýrri gerðunum notuðu minna vatn en þær eldri og væru því minna óguðlegri leið til að vaska upp. En að sjálfsögðu er þetta ekki málið. - Seinna um daginn, e.t.v. vegna þess að ég var þreyttur, urðu mér á mistök við að lita á mér skeggið. Ég notaði súkkulaði brúna litinn í stað hins munaðarlega svarta en gleymdi að setja á mig gúmmíhanskana. Það fór allt of langur tími í að koma þeim á mig og liturinn var of lengi í skegginu. Ég get ekki látið sjá mig svona á myndbandi svo upptakan verður að bíða.
8. mars 2011
Guð minn góður. Hvað er að gerast hjá Arsinal ??? 3-1 !!!
30. apríl 2011
Það er eitthvað mjög undarlegt á seyði í hverfinu. Get ekki alveg áttað mig á hvað það er en það er búið að setja upp auka loftnet á húsið beint á móti og hvíti sendibíllinn á horninu er búinn að vera þar í marga, marga daga. Ég hafði svo miklar áhyggjur að ég hringdi í pakkistanísku leyniþjónustuna en þeir sögðu bara að ég væri með ofsóknarbrjálæði.
PS.
Þessar "dagbókarfærslur" voru skrifaðar af Tim Dowling og birtust í aukablaði The Guardian í dag.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.5.2011 | 08:57
Ellismellurinn Jane Fonda
Þegar að Michael Jackson lést, skrifaði Jane Fonda þetta um hann á blogginu sínu;
"Ég hugsa stöðugt um dauðann. Ég æfi dauða minn. Mér finnst það mjög heilbrigt. Dauðinn er einu sinni það sem gefur lífinu merkingu líkt og hávaði gefur þögninni merkingu. Æ æ , hugsaði ég með sjálfri mér, Michael á eftir að það eiga erfitt þegar hann eldist. Hann mun eyða allri orku sinni í að flýja hið óumflýjanlega. Og nú hefur það gerst. Sem betur fór tók að fljótt af. Stórkostleg hjartaáföll sem fólk nær sér ekki af, taka venjulega fljótt af. Þú veist ekki einu sinni hvað er að gerast. Þetta var líklega besti dauðdaginn fyrir Michael. Það var erfitt að ímynda sér hann hamingjusaman þegar aldurinn færist yfir hann."
Jane veit greinilega hvað hún er að segja því fáar konur afa lagt jafn mikið á sig og hún til að flýja ellina. Og á þessum myndum af henni 73 ára sem fylgja fréttinni, er ekki hægt að segja annað en að henni hafi tekist bærilega vel til.
Síðustu 30 árin hefur hún stundað líkamsrækt og heilbrigt líferni. Og þegar það dugði ekki til hefur hún látið undan hégómanum og lagst undir skurðhnífinn til að láta fjarlægja mestu hrukkurnar. (Sjálf segist hún ætíð vera treg til þess af því henni þyki í raun vænt umhrukkurnar sínar)
En hún lítur glæsilega út í Emilio Pucci kjólnum sínum þarna í Cannes. Henni tókst greinilega í þetta sinn að finna kjól sem enginn annar klæddist og komast hjá sem sagt er að sé pínlegasta stund í lifi hverrar konu, þ.e. þegar einhver önnur mætir í alveg samskonar kjól, eins og gerðist hjá Jane einmitt í Cannes árið 2007. (Sjá mynd)
73 ára og stal senunni á rauða dreglinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2011 | 19:22
Heyrt í dómsalnum
Dómarinn; Þú varst sem sagt staddur á verkstæðinu þegar að sakborningurinn kom inn. Hvað svo?
Vitnið; Ég sá hann koma inn, og þá segi ég; ég segi nú bara svona, hvað svo með bílinn?. Og þá segir hann að hann muni gefa mér fimm þúsund kall fyrir að segja ekkert um hann.
Dómarinn; Hann sagði ekki; hann muni að gefa þér fimm þúsund kall?
Vitnið; Jú, hann gerði það; það var nákvæmlega það sem hann sagði.
Dómarinn: Hann getur ekki hafa sagt "hann". Hann hlýtur að hafa talað í fyrstu perónu.
Vitnið; Nei, ég var fyrsta persónan sem talaði. Hann kemur inn á verkstæðið og ég segi; ég segi nú bara svona, hvað svo með bílinn? Og hann segir segir að hann muni gefa mér fimm þúsund kall fyrir að segja ekkert um hann.
Dómarinn; En talaði hann í þriðju perónu?
Vitnið; Það var engin þriðja persóna viðstödd. Aðeins hann og ég.
Dómarinn; Geturðu ekki endurtekið nákvæmlega orðin sem hann sagði?
Vitnið; Jú, það hef einmitt gert, ég sagði þér þau.
Dómarinn; Heyrðu mig nú. Hann getur ekki hafa sagt; hann muni gefa þér fimm þúsund kall fyrir að segja ekkert um hann. Hann hlýtur að hafa sagt; ég mun gefa þér fimm þúsund kall.
Vitnið; Nei, hann sagði ekkert um þig. Ef hann sagði eitthvað um þig heyrði ég það ekki. Og ef það var einhver þriðja prsóna inni á verkstæðinu, sá ég hana aldrei.
12.5.2011 | 01:17
Vinkonur í 16 ár vissu ekki að þær voru systur
Tvær vinkonur hér á næsta bæ, Bristol, uppgötvuðu eftir að hafa verið bestu vinir í 16 ár, að þær voru í raun og veru systur.
Þær heita Alison Slavin, 41, og Sam Davies, 43, og komust nýlega að því að faðir þeirra var einn og sami maðurinn eftir að Alison tókst að hafa upp á móðir sinni sem hafði gefið hana til ættleiðingar.
Systurnar sem eru frá Brostol, grunuðu aldrei að þær væru skildar, hvað þá systur þótt að ótrúlega margt væri líkt með þeim. Þær eru mjög svipaðar í útliti, hafa svipaðan smekk í klæðaburði, vinna báðar við barnagæslu, eiga hvor tvö börn og búa í minna en tveggja km. fjarlægð frá hvor annarri.
Alison komst að sannleikanum þegar að vinur hennar hjálpaði henni að finna móður hennar sem síðan sagði henni að faðir hennar héti Terry Cox.
Hún kannaðist strax við nafnið sem var það sama og föður Sams. Litningapróf sannaði síðar að þær eru hálfsystur.
Alison var brúðarmær í brúðkaupi Sams. Hún minnist þess að þær stöllur hafi stundum verið að gantast með þá hugmynd að þær væru systur því fólk spurði þær svo oft að hvort þær væru það, svo líkar eru þær.
Alison var dálítið sjokkeruð þegar hún komst að sannleikanum og vildi strax segja Sam frá hverju hún hefði komist að. Hún náði ekki í Sam í síma og ákvað að senda henni SMS skilaboðin " Hæ systir!"
Klukkustund seinna hringdi hún og útskýrði allt.
Alison og Sam hittust fyrst árið 1993 í gegnum sameiginlegan kunningja og urðu fljótt bestu vinkonur. - Alison hefur samt aldrei hitt móður sína. Tíðindin fékk hún í símtali sem hún átti við hana.
Móðir hennar sagðist hafa verið 19 ára þegar hún ákvað að láta Alison fara frá sér til ættleiðingar. Þegar að hún nefndi föðurinn á nafn, hélt Alison að um tilviljun væri að ræða að hann héti sama nafni og faðir bestu vinkonu hennar. Samt varð henni mikið um. Hverjar voru líkurnar á að svona nokkuð gæti gerst?
Sam var einnig furðu lostin en hafði strax samband við föður sinn á Facebook til að segja honum tíðindin. Terry býr á Spáni og þau feðgin nota fésbókina til að vera í sambandi.
Báðar segjast þær hafa átt hamingjusama æsku svo þessi uppgötvun sé aðeins til að auka við hana.
Sam segir að undrun sín hafi fljótt breyst í mikla gleði. "Þegar að Alison sendi mér skilaboðin þar sem hún kallaði mig systur, hélt ég að hún væri að gera grín. Mig langaði alltaf í systur og hver getur verið betri systur en besta vinkona þín."
Heimild; Mail on line.
11.5.2011 | 01:06
Bretar elska Ísland um þessar mundir
Ég hef grun um að Bretar hafi hringt grimmt inn til að kjósa lagið hans Sjonna. Breski þulurinn sagði söguna af laginu á þann hátt að það smellpassaði við stemmninguna hjá strákunum á sviðinu. Ef að þulir annarra landa hafa gert hið sama, og halda áfram uppteknum hætti á laugardaginn verður íslenska lagið ofarlega. - Að auki er lagið sjálft ágætis hvíld frá öllu teknósuðinu frá flestum hinna landanna. -
Annars er Ísland að gera það virkilega gott í Bresku sjónvarpi þessa dagana, ef hægt er að taka þannig til orða.
BBC ákvað að efna til íslenskrar viku á BBC 4 og þar er verið að sýna íslenskt efni upp á hvern dag. Vikan hófst með Jar City, í gærkveldi var sýnd einhver heimildarmynd um og með Ragnari Axels ljósmyndara, og í kvöld heimildamynd gerð af BBC um Íslendingasögurnar.
Þá hafa þættir af Næturvaktinni með Jóni Gnarr einnig verið sýndir á hverju kvöldi. Mér heyrist fólk vera hrifnast af þeim. Gnarrinn er að slá í gegn á Bretlandi líka. Myndin um Raxa var tilgerðarleg og fékk ekki sérlega góða dóma. Fólk var á því að það hefði verið fróðlegra að heyra meira í fyrirsætum ljósmynda hans en honum sjálfum.
Álit fólks um annað á eftir að koma í ljós.
Þetta var stríðnin í Sjonna" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
10.5.2011 | 15:18
Lundi með hanakamb
Aðstandendur Þjóðhátíða í Vestmannaeyjum hafa fram að þessu reynt að gera hverja hátíð sérstaka og einstaka með ýmsum hætti. Þótt að skreytingar í dalnum hafi haft sína föstu liði, ætíð hefur þess verið gætt að gera þær mismunandi á hverju ári.
Þá hefur Sérstakt þjóðhátíðarlag hefur verið samið fyrir hverja hátíð og veggspjöld og auglýsingar hafa skartað mismundi útfærslum á vörumerkinu sem orðið "þjóðhátíð" er.
Þessu hafa menn unað lengi enda vel til tekist í flest skipti. Spurningin er hvaða ástæður fyrir því að breyta út af hefðinni í tenglum við atburð sem einkum byggir á hefðum.
Nú hafa Eyjamenn semsagt, ef ég skil þessa frétt rétt, ákveðið að eitt merki, (lógó) skuli prýða allar auglýsingar og efni tengt Þjóðhátíð Vestmannaeyja um ókomna framtíð. Höfundi merkisins gengur greinilega ýmislegt ágætt til, en merkið er samt ekki gallalaust.
Við fyrstu sýn minnir það á lunda með hanakamb. Ef að eldurinn í kórónunni væri rauður eða gulur eins og eldurinn í þjóhátíðakestinum oftast er, væri "kórónan" enn líkari hanakambi.
"Kórónan" eins og sér dregur einnig upp myndir af höfuðfati hirðtrúða til forna sem voru eins konar grínútgáfur af hefðbundnum kórónum konunga. Flugeldarnir gætu svo hæglega verið bjöllur. (Sjá mynd) Reyndar hef ég séð svona höfuðföt til sölu á þjóðhátíð, en það er önnur saga.
Vissulega er þjóðhátíðin "konungur" útihátíðanna en þessi kórónaði þjóðhátíðarlundi er reyndar líkari Fratercula cirrhata (sjá mynd) en Fratercula arctica, þ.e. lunda eins og við flest þekkjum hann og mest er af í Vestmanneyjum.
Letrið sem notað er í merkinu er einnig all sérstætt. Ég veit satt að segja ekki hvað fonturinn heitir, en e.t.v. er hann sérteiknaður. Letrið minnir helst á einhvern tréútskurð eða jafnvel Anþrópósófískan bautasteinastíl sem notaður er mikið meðal Steiners fylgjenda.
Joðið er mest áberandi stafurinn og minnir á heykrók. Kannski að þarna sé komin lúmsk skírskotun til Húkkaraballsins? Heildarmyndin á letrinu er samt ekki samfelld og dálítið klúðursleg á að líta.
Mér finnst allt ílagi að nota þetta merki fyrir Þjóðhátíðina í ár en ég er ekki viss um að það fari svo vel á því að gera það að lógói sem nota á framvegis.
Bestu kveðjur til Eyja.
Ég læt hér fylgja vísustúf sem ég fann um Lundakónginn. Spurningin er hvort einhver getur fundið lag sem við þekkjum öll sem hægt er að syngja við þessa ágætu vísu.
I imagine Im the Puffin King
Ruling the island of Congabing.
All the birds sing praise to me
Bringing gifts of pearls and starfish tea.
Except for this bizarre crane
Who believes the island is his to reign.
Now every time that I bow down
He sneaks up and steals my crown.
Nýtt merki þjóðhátíðar í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.5.2011 | 18:54
Af hverju ekki var hægt að rétta yfir Osama bin Laden
Osama bin Laden var tekinn af lífi af bandarískum sérsveitarmönnum án dóms og laga. Þetta er öllum augljóst þótt margir séu þeirrar skoðunar að um illa nauðsyn hafi verið að ræða.
Þeir hafa nokkuð til síns máls sem segja að ekki hafi verið hægt að taka hann til fanga og dæma í Pakistan þar sem hann bjó, vegna þess að þar eru stjórnvöld grunuð um að hafa verið handgengin Osama og aðstoðað hann við að fara huldu höfði.
Ekki hefði verið hægt að rétta yfir honum í Haag því Bandaríkin ásamt Írak,Ísrael, Líbíu, Kína, Katar og Jemen viðurkenna ekki lögsögu Alþjóða glæpa dómstólsins.
Ef reynt hefði verið að rétta yfir honum í New York þar sem stærsti glæpurinn sem hann er sakaður um að drýgja var framinn, hefði í fyrsta lagi verið ómögulegt að tryggja honum óhlutdrægan kviðdóm.
Í öðru lagi er það ljóst að í Bandaríkjunum hefði ekkert komið til greina sem makleg málgjöld fyrir Osama bin Laden , annað dauðadómur, sem er ekki leyfilegur í New York fylki.
Í þriðja lagi hefðu slík réttarhöld hæglega getað endað í refjum fyrir réttinum á borð við þær sem O.J. Simpson málið bauð upp á sínum tíma eða þaðan af verra. Þá hefði eining margt getað komið fram sem illa þolir dagsins ljós í henni Ameríku.
Þess vegna lögðu sérsveitarmennirnir upp með þá skipun frá Obama, að ef Osama væri í byggingunni, ætti ekki að taka hann lifandi.
Taugaóstyrkur fyrir árásina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
9.5.2011 | 13:16
Ósýnilegar konur
Myndin af Obama og Co þar þau fylgjast með aftöku Osama bin Ladens í beini útsendingu var látin í té af Hvíta húsinu til birtingar í fjölmiðlum með ákveðnum skilyrðum. Fréttastjórum dagblaðsins Der Tzitung í Brooklín er greinilega nokkuð sama um þau skilyrði. Þær Hillary Clinton og Audrey Tomason eru báðar gerðar ósýnlegar á þeirri útgáfu af myndinni sem blaðið birti. Skilmálar Hvíta hússins eru svona;
"This official White House photograph is being made available only for publication by news organizations and/or for personal use printing by the subject(s) of the photograph. The photograph may not be manipulated in any way and may not be used in commercial or political materials, advertisements, emails, products, promotions that in any way suggests approval or endorsement of the President, the First Family, or the White House."
Ef að fréttablað hefur ákveðið að halda sig við miðaldaviðhorf gagnvart konum og birta ekki einusinni af þeim myndir, er vandséð hvað vakir fyrir þeim að birtingu þessarar breyttu ljósmyndar yfirleit, þegar þeir vita að þeir eiga yfir höfði sér lögsókn fyrir að hafa rofið birtingarskilmálanna. Blaðið hefði átt að sleppa fótósjoppinu og halda sig við tækni sem hæfir hugarfari ritstjórnarinnar.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.5.2011 | 08:22
Efnahagslegir blóðtappar
Tvö lönd voru öðrum fremur völd af "heimskreppunni" svo kallaðri. Bandaríkin og Bretland. Bæði löndin skófluðu stórkostlegum fjármunum teknum af almannafé inn í einkarekin fyrirtæki til að forða þeim frá gjaldþrotaskiptum og settu þannig fordæmi sem önnur lönd fylgdu í góðri trú. - Á sama tíma og "kreppan" er sögð á hægu undanhaldi hækka laun forstjóra bandarískra fyrirtækja um 11% og milljarðamæringum í Bretlandi fjölgar sem aldrei fyrr. - Á sama tíma er hvergi fé að fá til atvinnuuppbyggingar og atvinnuleysið því mikið. -
Fyrir þessari þróun eru einfaldar skýringar. Samfélagi manna má líkja við mannslíkamann og peningum heimsins við blóð hans. Til að allir hlutar líkamans séu heilbrigðir þarf blóðið að flæða óhindrað til allra líffæra hans og fruma. Um leið og eitt líffæri veikist vegna skorts á blóðstreymi veikjast brátt aðrir líkamshlutar líka. Þess vegna er það allra hagur að blóðið streymi og haldi áfram að næra allar frumur jafnt. - Þegar að blóðið safnast saman á einum stað, myndast blóðtappi sem hæglega getur leitt líkamann til dauða. -
Bankar og auðmenn heimsins eru blóðtappar efnahagslegs líkama hans. Gúllinn sem blóðið myndar þegar að blóðstreymið er heft, gefur falska mynd af ástandinu. Fólk heldur að um ávöxtun og aukningu sé að ræða, en í raun er verið að svelta aðra hluta líkamans og veikja þá. -
Laun forstjóranna hækka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.5.2011 | 12:11
Salisbury, Silbury og Solsbury
Á Englandi eru þrír sögufrægir staðir sem bera svo svipuð nöfn að það er ekki óalgengt að Bretar sjálfir rugli þeim saman hvað þá útlendungar sem til landsins koma til að berja þá augum. Þessir staðir eru bærinn Salisbury í Wiltshire, Silbury hóll sem einnig er í Wiltshire og Solsbury hæð í nálægt Batheaston í Somerset. - Það eykur enn á ruglinginn hversu nálægt hver öðrum staðirnir eru í sveit settir. Fyrir utan að bera áþekk nöfn sem fólk gjarnan heldur að séu mismunandi útgáfur af sama orðinu, (svo er ekki) eiga staðirnir þrír ýmislegt sameiginlegt.
Bærinn sem í dag er kallaður Salisbury (eða Nýja Sarum) var ekki reistur fyrr en um 1220 en á svæðinu hafa fundist menjar sem benda til að byggð hafi verið þar frá örófi. Á nærliggjandi hæð er að finna vísbendingar um virki sem fyrst var reist á steinöld.
Þegar Rómverjar hernumdu landið kölluðu þeir hæðina "Sorviodunum" en "dunum" merkir virki eða vígi á latínu og er algeng ending á enskum bæjum og borgum í dag. Í fyrndinni voru virki á Englandi gjarnan byggð á hæðum eða hólum sem veittu gott útsýni yfir næsta nágrenni. Á keltnesku þýðir orðið "dun" einnig hóll eða borg. Oðrið "sorvio" er ekki til í latínu en "sorfio" á keltnesku þýðir þurr. Sorviodunum er því rómverka útfærslan á keltneska orðinu Sorfidun sem einfaldlega merkir "Þurra borg".
Þá er vitað að Saxar byggðu sér einnig virki á hæðinni og kölluðu það á sinni tungu Særesbyrig. Þeir reynd sem sagt að halda orðinu "sorfio" til haga en nota engilsaxneska orðið "bær" í staðinn fyrir hið rómverska "dunum".
Normannar tóku við virkinu eftir innrásina 1066 og og byggðu á hæðinni kastala. Í Dómsdagsbókinni (1086) þar sem Vilhjálmur l lét skrásetja öll byggðarlög í ríki sínu, er byggðin kölluð "Saresberi", skrifað að hætti normanna Salesberi.
Af þessum fræga virkishóli dregur því bærinn Salisbury sem er í rúmalega tveggja kílómetra fjarlægð frá henni, nafn sitt. Einnig Salisbury sléttan en Stonehenge er frægasta mannvirkið sem upp af henni rís.
Silbury Hóll heitir manngerð hæð úr kalksteini sem stendur ekki langt frá hinum fornfrægu Avebury steinhringjum. Hóllinn er rétt um 40 metra hár og tveir hektarar að flatarmáli. Hann gerður í nokkrum áföngum og er innsti og elsti hluti hans um 5000 ára gamall en sá ysti og yngsti um 4300 ára.
Hóllinn er sögð stærsta manngerða hæðin í Evrópu og er stundum kölluð "enski píramídinn". Forðum hefur hvítur kalksteinninn eflaust gert hólinn tignarlegan á að líta þar sem hann reis upp úr annars flatri sléttunni en í dag er Silbury hóll grasi vaxinn og lítur út eins líkt og hundruð hæða og gróinna holta sem prýða enskt landsslag og gera það svo sérstakt.
Nokkuð hefur verið til reynt til að uppgötva til hvers hólnum var hrúgað upp á sínum tíma. Nokkrum sinnum hefur verið grafið í hann, bæði ofaní og undir hann, en ekkert komið í ljós sem gefið gæti vísbendinu um hversvegna forfeður Englendinga lögðu á sig þessa miklu jarðvinnu. Það hefur samt ekki staðið í vegi fyrir því að fjöldi tilgáta hefur verið settar fram um tilgang Silbury, án þess þó að nokkur þeirra sé talin sennilegri en aðrar.
Nafnið Silbury er talið samsett úr keltneska orðinu zilsem þýðir auga. Það er skylt orðinu sil í grísku saman ber Silvía mánagyðja og er einnig rótin að orðinu silfur. Nafn hæðarinnar getur því hæglega útlagst á íslensku "Mánaborg".
Silbury er eins og áður er getið í Wiltshire. Í búar þess skýris eru oft nefndir "Mánarakarar". Sagan segir að að þeir bændur hafi forðum verið nokkuð stórtækir smyglarar, einkum á vín frá Frakklandi. Tollmenn konungs voru á hverju strái og þurfti oft að leika á þá. Eitt sinn földu smyglararnir víntunnur sínar í tjörn einni. Tollmenn komu að tjörninni og sáu hvar bændur stóðu og rökuðu tjörnina í óða önn. Tollararnir furðuðu sig á athæfinu sem von var og spurðu hvað um væri að vera. Þeim var svarað því til að verið væri að raka saman ostinum sem í tjörninni væri og bent á hvernig fullt tungl endurspeglaðist í tjörninni. Tollararnir hlógu að einfeldni bænda og hröðuðu sé á braut. Eftir þetta festist uppnefnið "Moonraker" við íbúa svæðisins sem þeir láta sér það vel líka.
Solsbury Hæð er nafn allstórrar hæðar skammt frá borginni Bath í Somerset. Nafn hæðarinnar er dregið af keltnesku gyðjunni Sulis sem var dýrkuð af Keltum á þessu svæði í fyrndinni og hæðin sjálf helguð henni. Leiðin til hinna hlegu véa gyðjunnar við heitu uppspretturnar í Bath, lágu meðfram hæðarrótunum.
Suil á gamalli írsku merkir "auga" eða "gap" sem var inngangurinn í undirheima. En talið er að Gyðjan Sulis hafi fengið nafn sitt frá upphaflegri merkingu Indóevrópska orðsins orðsins "sawl" (á latínu sol) og á íslensku Sól. Upphaflega heiti hæðarinnar var því "Sólborg".
Efst á hæðinni eru ummerki eftir virki sem fyrst var byggt fyrir 2300 árum.
Peter Gabriel samdi á sínum tíma ansi gott lag um hæðina , en hljómver hans og reyndar heimili líka er staðsett þar um slóðir. Hér er það lag fyrir áhugasama.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.5.2011 | 09:55
Stefnubreyting bandarískra stjórnvalda gagnvart hryðjuverkamönnum
Obama forseti baðar sig óspart í ljósi vinsældanna sem jukust til muna eftir að hann tilkynnti um drápið á Osama bin Laden. Ákvörðun hans um að birta ekki myndir af aftökunni eða líki Osama hefur samt verið mjög umdeild.
Sú skoðun að þessi ákvörðun Obama sýni meira veikleika hans frekar en hversu grandvar hann er, endurómar í heimspressunni og mörgum helstu fréttamiðlum Bandaríkjanna sjálfra. -
Þau rök Obama að myndir af illa förnu líki Osama muni egna fylgjendur hans til frekari ódæðisverka eru frekar veik og má jafnvel túlka sem stefnubreytingu bandarískra stjórnvalda gagnvart hryðjuverkum. Hefndaraðgerðum fyrir aftökuna á Osama hefur verið spáð, hvort sem myndirnar verða birtar eða ekki.
Fram að þessu hefur stefnan verið að enga undirlátssemi skuli sýna hryðjuverkamönnum sem gefið gæti þeim þá hugmynd að þeir geti fjarstýrt ákvörðunum forsetans, með fyrirsjáanlegum viðbrögðum sínum. Með því að hafa áhrif á ákvarðanir forsetans haf þeir einnig áhrif á hvað kemur fram í heimsfréttunum. -
Þessi tillitssemi við hryðjuverkamennina af ótta við öfgafullri viðbrögð en þau sem hvort eð er búist er við, er því ekki sannfærandi rök fyrir því að birta ekki myndirnar.
Í þessu sambandi er einnig bent á að það sé hættulegt fordæmi að gefa forsetanum sjálfum svo mikið vald að hann geti einn ákveðið hvað almenningur fær að sjá í fréttum og hvað ekki. -
Obama þakkar sérsveitarmönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.5.2011 | 18:16
Mundir þú kaupa bíl af þessum manni?
Einn kunnasti bílasali Bandaríkjanna Calvin Coolidge, betur þekktur sem Cal Worthington, á að baki ansi langan og litríkan feril sem bílasali. Í seinni tíð hefur hann einnig getið sér orð sem hinn mesti kvennabósi þrátt fyrir að vera orðin talsvert aldraður.
Cal er fæddur árið 1920 en árið 1979 þá tæplega sextugur skildi hann við Barböru konu sína til margra ára og gekk að eiga Susan Henning. Það hjónaband endaði illa sjö árum seinna. 1995 giftist hann útvarpskonunni Bonnie Reese sem þá var 35 ára. Það hjónaband endaði árið 2002. Í síðasta mánuði giftist Cal í fjórða sinn, í þetta skipti íslensku jazz-söngkonunni Sjúbídú Önnu Mjöll Ólafsdóttir Gauks og Svanhildar Jakobsdóttur.
Cal er best þekktur fyrir auglýsingar sínar í út og sjónvarpi þar sem hann kom ávalt fram með vini sínum "Spot" (Depli) sem aldrei var hundur eins og nafnið gæti gefið til kynna, heldur eitthvað annað dýr og næstum aldrei það sama. Spot gat t.d. verið tígrisdýr, fíll, grís, höfrungur, selur eða skógarbjörn.
Brúðkaup þeirra Cals og hinnar íslensku brúðar Önnu Mjallar, vakti að sjálfsögðu athygli vegna aldursmunarins sem á milli hjónakornanna er, rétt um 50 ár ef rétt er farið með í fréttinni hér að neðan.
Anna Mjöll fetar þarna í fótspor margra bandarískra smástirna sem giftast sér miklu eldri mönnum, auðvitað af einskærri ást. Kunnust þeirra er eflaust nafna hennar Anna Nicole Smith sem giftist herramanni og miljarðamæringi sem var 62 árum eldri en hún sjálf. - Ævi þeirrar stúlku og afrek eru tíunduð í nýrri óperu sem nú er sýnd við góðan orðstír í Konunglega óperuhúsinu í Lundunum. - Verst að Anna Mjöll er jazzsöngkona en ekki óperusöngkona. Hún hefði passað svo vel í hlutverkið. -
Annars þarf Anna Mjöll að huga dálítið að ferilsskrá sinni á netinu. Þar er heldur mikið um endurtekinnar. Nema að hún hafi tekið þann pól í hæðina að sjaldan sé góð vísa of oft kveðin.
In 2009 Mjöll released a CD, The Shadow Of Your Smile, featuring a mix of Icelandic songs and jazz standards. The CD featured a number of notable musicians including Vinnie Colaiuta, Dave Carpenter, Don Grusin, Neil Stubenhausand Luis Conte, and was voted one of the top 5 Female Vocal Jazz CD's of 2009 at Arnaldo DeSouteiro's Jazz Station.
In 2009 Mjöll was voted one of the top 5 Jazz singers of the year by DeSouteiro's Jazz Station.
In 2010 Mjöll released her first solo holiday CD, "Christmas JaZZmaZ". "Christmas JaZZmaZ" features original arrangements by Ólafur Gaukur and musicians including Vinnie Colaiuta, Luis Conte, Ólafur Gaukur, Don Grusin, Dave Carpenter and Charlie Bisharat, and was voted one of the top 10 Female Vocal Jazz CD's of 2010 at Arnaldo DeSouteiro's Jazz Station.
In 2010 Anna Mjöll was voted one of the 10 best female Jazz singers of the year by DeSouteiro's Jazz Station, and "Christmas JaZZmaZ" was voted "Christmas CD of the Year".
Anna Mjöll giftist forríkum bílasala 9. apríl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 7.5.2011 kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
6.5.2011 | 09:05
I Ching og Wang kennari
Hann kallar sig Wang kennara og bloggar af krafti á Taívan. - Fyrir skömmu birti hann spá á bloggi sínu um að mikill jarðskjálfti muni verða á Taívan kl: 10;42:30 þann 11. maí n.k. Wang segir að jarðskjálftinn muni mælast rúmlega 14 á Righter og valda tæplega 200 metra hárri flóðbylgju sem flæða muni yfir eyjuna og manfallið verði gífurlegt.
Viðbrögðin við þessu bloggi Wang kennara hafa verið nokkur og stjórnvöld þar um slóðir hafa tilkynnt honum að fjarlægi hann ekki þessa válegu spádóma af síðu sinni muni hann verða sektaður um 32.000 USD.
Nokkrir hafa tekið hrakspá Wangs svo alvarlega að þeir hafa keypt sér gáma og flutt þá til búða í Puli, Nantou á hálendi Taívan. Gámarnir kosta 6500 USD en það var einmitt Wang sem ráðlagði fólki slík kaup.
Wang kennari segist nota bókina I Ching ( Bók breytinganna) sem er mjög vel þekkt og fornt rit sem á að geta hjálpað fólki að sjá framtíðina. Bókin virkar þannig að þú spyrð hana spurninga og hún varar.
Skafti Þ. Halldórsson og Ísak Harðarson skrifúðu ágæta grein í Moggann um bókin þegar hún kom út á íslensku í þýðingu Ísaks. Þar segir m.a.
Íslendingar þekkja kínverska speki fyrst og fremst gegnum Bókina um veginn. En I Ching er í raun ein meginuppistaða þeirrar bókar og raunar einnig speki Konfúsíusar. Hún er ævaforn að stofni til, yfir 3.000 ára gömul.
Í upphafi var ritið samsafn línulegra tákna sem voru notuð við véfréttarspurningar. Lárétt óbrotið strik merkti já en brotið nei. Þessi strik samsvöruðu líka síðar innbyrðis í samhengi sínu hugtökunum yang og yin sem í breytingarheimspeki Kínverja tákna andstæða einingu. Síðar bættu menn við línum. Fyrst voru tvílínur, síðar þrílínur. Konfúsíus lýsti byggingu I Ching svo að takmörk verðandinnar væru algjör. Það leiddi af sér tvo hætti sem leiddu af sér fjórar gerðir sem aftur gefa átta þrílínur. Samspil þessara átta þrílínutákna er kjarni bókarinnar. Með því er kveðið á um gæfu eða ógæfu. Tvær og tvær þrílínur eru lagðar saman og það gefur kost á 64 sexlínutáknum.
Út úr þessum línutáknum lesa menn síðan merkingu. Þrjár heilar línur tákna himin, styrk og sköpunarkraft og þrjár óbrotnar línur merkja jörð, móttækileika og auðsveipni. Þegar þessum þrílínutáknum er síðan steypt saman eftir sérstökum aðferðum verður til leiðsögn um lífið, um gæfuna og leiðina.
Algengustu útgáfur I Ching lúta svipuðum byggingarlögmálum. Í kringum hvert hinna 64 tákna eru ákveðin þemu. Síðan fylgir greinargerð. Þá kemur heildarmat, túlkun eða greining Konfúsíusar á greinargerðinni. Þessu fylgja einnig spakmæli eignuð Konfúsíusi sem dregin eru af þeirri mynd sem sexlínan sýnir sem samsetning tveggja þrílína.
Nokkrum dögum eftir að gos hófts í Vestmannaeyjum í janúar árið 1973 var ég staddur meðal nokkra kunningja minna í húsi í Kópavogi. Við vorum að ræða um gosið og hver langtíma áhrif þess yrðu fyrir Eyjamenn og þjóðina alla. Einn félaga minna átti bókina I ching sem hann dró nú fram og var þegar ákveðið var að spyrja bókina um hver yrðu afdrif Vestmannaeyja.
Bókin svaraði með versi sem var eitthvað á þessa leið:
Refur kemur að læk og er ekki viss um að honum tækist að stökkva yfir hann. Eftir nokkrar vangaveltur tók hann tilhlaup og stökk yfir lækinn og lenti heilu og höldnu á hinum bakkanum en vætti aðeins á sér skottið.
Sjálfsmorð af ótta við hamfarir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)