Vinir Sjonna sveipaðir í appelsínugult

Sjonni-BrinkÞað er ekki seinna vænna að spá aðeins í gengi Vina Sjonna í Juróvisjón. Einhvern veginn finnst mér eins og stemmningin í kring um lagið og strákana sé lágstemmdari á landinu en vaninn er um lög og flytjendur okkar í júróvisjón yfirleitt.

Margir spáðu að lagið mundi ekki komast áfram í úrslitakeppnina og helsti júróvisjón spekingur landsins varð að éta hattinn sinn eftir að þessir hressu fullorðnu drengir gerðu þá hrakspá að engu á þriðjudagskvöldið og skutu um leið ref fyrir rass lögum sem talin voru örugg áfram.

Myndbandið af strákunum og Þórunni  þegar þau heyrðu að lagið hefði komist áfram er frábært og auðsætt að fögnuðurinn er einlægur. Það sýnir þá til að byrja með alla guggna og vondaufa núa saman höndum. En svo allt í einu spretta þeir á fætur,  hoppandi og öskrandi af fögnuði.

Vel má samt vera að best fari á frekar lágstefndri stemmningu í þetta sinn. Oft höfum við farið offari og ætlað að vinna keppnina á ákafanum og bjartsýninni einni saman. Það hefur reyndar næstum því gengið upp tvisvar sinnum, en aldrei samt náð að senda okkur alla leið í 1. sæti.

Mér segir samt hugur um að gamli júróvisjón fiðringurinn muni ná að grípa um sig þegar líður á daginn og fleiri en ekki verði límdir fyrir framan sjónvarpið í kvöld. Og hver veit, nema að hógværðin hafi bara góð skammtafræðileg áhrif á Evrópu og lagið nái mun lengra en nokkur þorði að vona. 

Spár veðbanka í Evrópu gefa Íslandi ekki mikla von um að vinna keppnina og staðsetja lagið á kunnuglegum slóðum, eða í 16-18 sæti. Það kætir kannski þá sem oft hafa haldið því fram að Ísland gæti ekki haldið keppnina vegna skorts á boðlegu húsnæði. Þær mótbárur hef ég aldrei skilið. Írar héldu eitt sinn keppnina í smáþorpi þar sem reiðhöll var breytt í risastórt útsendingarstúdíó. Eitthvað er jú til af reiðhöllum á Íslandi.

Æfingar fyrir lokasýninguna í kvöld gengu vel hjá Íslendingunum og vefsíða Júróvisjón segir að þeir gefi frá sér "góðar bylgjur". Á risastórum LED skjáum í bakgrunni munu appelsínugulir litir og tannhjól skapa hlýju sem hæfir lagi og flytjendum vel.  Texti lags Sjonna er eins og allir vita um hvernig best sé að grípa tækifærin og njóta lífsins á meðan tækifæri er til þess.  -  Í þeim anda samdi Sjonni lagið og í þeim anda er lagið flutt. - Í  þeim anda ætla ég að horfa á keppnina og hringja inn eins oft og ég get til að greiða Íslandi atkvæði mitt og pína alla kunningja mína hér í Bretlandi sem ég næ í, til að gera slíkt hið sama.


mbl.is Sjáumst í Reykjavík 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eurovision ... danir unnu, með algeru úrhraki sem lag.  Carola í Svíþjóð vann, af því hún var svo píuleg ... sjálfsagt pedofílarnir í Evrópu sem urðu heillaðir af henni.  Þessi þýska vann, sjálfsagt af því hún talar ensku eins og englendingur ... lagið er algjör hörmung, vægast sagt. Hefur einhver hlustað á lagið sem finnar gerðu?

Eurovision er algjör hörmung, pólitískt afkár ... svipað eins og heimspólitíkin í dag.  Fullt af röngum akvörðunum, sem ætlað er réttum ásettningi, með nákvæmlega ekkert nema hrun efnahagslífsins sem afleiðingu.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 14.5.2011 kl. 10:46

2 identicon

Og það sem ég vil segja er, að menn skulu ekki útiloka að eitthvert hrafnasparkið frá Íslandi nái að sigra í þetta sinn.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 14.5.2011 kl. 10:48

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Já Bjarne, þú ert greinilega einn af þeim sem elskar að hatast út í juróvisjón. En eins og þér er eflaust ljóst hefur júróvisjón gegnt mikilvægu pólitísku hlutverki í gegnum tíðina og í seini tíð orðið að vinsælasta og stærsta vettvangi fyrir homma og lesbíur til að árétta og vekja athygli á mannréttindum sínum. -

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.5.2011 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband