4.10.2011 | 00:55
Einn af mönnum fólksins
Guðmundur Steingrímsson vill vera maður fólksins eins og Dorrit og Ólafur eru fólk fólksins. Svo eru auðvitað þingmenn Hreyfingarinnar fólk fólksins (eða voru það) og kannski einhverjir aðrir þingmenn eins og Atli sem vita ekki í hvaða flokki þeir eiga að vera. - Vonandi stofnar Guðmundur ekki flokk. Þá verður hann aftur hluti af vandanum, ekki lausninni.
Guðmundur og annað flóttafólk úr stjórnmálaflokkunum eru gangandi og talandi sannanir fyrir því að flokkakerfið er úr sér gengið. - Hverjir trúa því enn að flokkarnir, með eða án nýs fólks, geti gert eitthvað gott fyrir land og þjóð. - Flokkar eru sundrungaraflið i þjóðfélaginu sem stendur því fyrir þrifum. Algjörlega frjálst persónukjör til alþingis er það sem koma skal. Burt með flokka, flokksræði og úrelta flokkapólitík. -
Ættum kannski að berja tunnur saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2011 | 11:56
Indíánasumar
Indíánasumar kalla fjölmiðlar góða veðrið sem leikið hefur við íbúa Bretlands og stórs hluta Norður-Evrópu nú á hautsdögum.
Orðatiltækið ku ættað frá Norður-Ameríku þar sem herskáir indíánaflokkar notuðu forðum slíka sumarauka til ránsferða.
Framan af öldum í Evrópu voru óvenju sólríkir og heitir góðviðrisdagar að hausti kenndir við heilagan Martein og kallaðir Marteinssumar en 11. Nóvember var og er helgaður honum.
Blíðan undanfarna daga hefur haft mikil áhrif á verslun og viðskipti hér í Englandi. Biðraðir mynduðust víða við bensíndælur á þjóðvegum úti um helgina og sumir kráreigendur urðu uppiskroppa með bjór. Ferðamannastaðir vítt og breitt um landið, sérstaklega þeir sem standa út við strendur landsins, voru fullir af sólelskandi og fáklæddu fólki.
Nú spá veðurfræðingar að í vikunni framundan muni kólna aftur í veðri og haustgolan með tilheyrandi regni verða aftur köld og svalandi. -
Hitabylgja í Norður Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2011 | 00:29
Aðlögun og aðlöðun að Evrópubandalaginu
Peningarnir til að greiða fyrir það sem nei-menn kalla aðlögunarferli og já-menn gætu kallað aðlöðunarferli, fljóta áfram inn í landið frá Evrópusambandinu. - Löggiltir skjalaþýðendur og prentarar munu hafa nóg að gera næstu misseri við að koma þessum millum sem frá segir í fréttinni í lóg.
Já-menn segja að ekki sé hægt að meta með réttu hversu mikilvægt það sé fyrir okkur að ganga í ES nema að við sækjum um og sjáum svart á hvítu hvað er í boði. Og til þess að sjá hvað er í boði þarf að þýða allt ES reglugerðaverkið og helst að prófa hvernig það virkar í raun.
Nei-menn vilja hætta við umsóknarferlið því þeir eru svo vissir um að ES áróðurinn muni glepja fólk og það muni einhvernvegin gegnsýrast af ES ruglinu áður en það veit af. Þess vegna sé vissara að draga umsóknina til baka.
Eitt hefur þó ætíð legið fyrir. Áður en að inngöngu kemur, eða höfnun hennar, mun þjóðin á að kjósa um málið.
En hvað verður um allt aðlögunarferlið ef þjóðin hafnar aðlöðuninni að ES?
Fá 233 milljón styrk frá ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2011 | 13:27
Koparkossarnir hennar Dorrit
Doritt er kona fólksins. Ekki bara ríka heimsfólksins, meðal hverra er hún fædd með silfur skeið í munni, heldur einnig fátæka fólksins upp á Íslandi. Í stað þess að ganga í kirkju með hinu slektinu og hlíða þar á einhverja kristna presta, stekkur hún yfir girðinguna sem aðskilur hana frá almúganum og kissir hann með sínum koparslegnum vörunum. -
Þannig sýnir hún í verki að allir heimsins demantar og allt heimsins gull, allt snobbið og þotuliðsstælarnir sem hún er svo vön, skipta hana engu. Þannig sýnir hún stirðbusalegum skömmustulegum þingmönnum og forsætisráðherrum sem læðast meðfram veggjum og skýla sér bak við regnhlífar, hvernig á að vinna hug og hjörtu fólksins, sérstaklega fátæka fólksins í landinu. Áfram Dorrit.
Forsetafrúin kyssti mig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2011 | 12:03
Dorrit og Ólafur, verndarar alþýðunnar
Já, það verður ð skapa NÝJA sátt í samfélaginu, sú gamla er löngu horfin. Reyndar varði hún svo stutt að margir eru á því að hún hafi aldrei verið til. - Sigurvegarar í þessari þingsetningar-vinsældarkeppni voru ótvírætt forsetahjónin og var Dorrit sýnu vinsælli en Ólafur.
Það hlýtur að hafa farið mikið í taugarnar á hægra liðinu sem ekki þola vinstrimenn að sjá þeim hjónum tekið sem verndurum alþýðunnar. Fast á hæla þeirra komu flóttaþingmennirnir og Hreyfingin sem einir þorðu að spjalla við mótmælendur. Hinir flýttu sér milli húsa og prísuðu sig sæla að þurfa ekki að setja fötin sín í hreinsun eftir herlegheitin. (nema sá sem eggið í hausinn)
Ekki laust við að það hlakkaði dálítið í Ólafi sem las aukin völd handa sjálfum sér út úr nýju stjórnarskrártillögunum og kallaði það tíðindi.-
Verður að skapa nýja sátt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2011 | 09:54
Kann hægri-sinnað fólk nokkuð að mótmæla?
Síðan hvenær hefur hægri sinnað fólk kunnað að mótmæla. Allar mótmælagöngur og kröfugöngur sem ég man eftir á Íslandi, hafa verið skipulagðar af vinstri mönnum. - Hægri-sinnaðar stjórnir hafa líka verið við völd lengst af á landinu og vinstri menn í því leiðinda hlutverki að vera alltaf á móti. - Vinstri sinnað fólk fann sig þannig oft í félagsskap nöldurseggjanna og eldhússpekinganna sem ætíð voru á móti öllu. -
Nú bregður öðruvísi við. Hægra liðið boðar til mótmæla og ætlar að slást í lið með atvinnumótmælendunum sem allir eiga tunnur og lúðra. - En nú eiga mótmælin að fara fram með mjög settlegum hætti og fólká að sýna löggunni stuðning við störf sín og haga sér skikkanlega og vera ekki til truflunar. - Sem ég segi....hægri sinnað fólk kann greinilega ekki að mótæla.
Girðing við Alþingishúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.9.2011 | 23:59
Þegar Poppgoðin deyja
Þau eru menn og konur sem við hefjum í huga okkar og hjarta upp á ímyndaða festinguna vegna hæfileika þeirra til að hrífa okkur í burt frá þessum heimi um stund.
Við tilbiðjum þau líka með ýmsu móti, fórnum þeim verðmætum okkar, tíma og peningum, gerum af þeim líkön og myndir og prýðum með þeim vistarverur okkar og tilbeiðslumusterin öll; leik, kvikmynda, tónlistar og öldurhús borga og bæja.
Í nútíma samfélagi gegna þau sama hlutverki fyrir sálarlíf okkar og íbúar Ólympíu fjalls og Ásheima gerðu forðum.
Á hverjum degi tínum við upp í okkur af mikilli græðgi alla fréttamolana sem umbar og spunameistararnir stjarnanna hafa matreitt sérstaklega ofaní okkur.
Við köllum þau stjörnur og sess þeirra er á himni, ekki satt?
En þegar stjörnurnar hverfa úr þessum heimi, ungar og í blóma lífsins og neyða okkur til að horfast í augu við forgengileika okkar sjálfra, hefst goðsagnagerðin fyrir alvöru. Besti efniviðurinn í hana á vorri upplýsingaöld, er fenginn úr samsæriskenningingum. Og þær bestu snúast aðallega um spurninguna; "hver drap hann/hana?"
Goð deyja nefnilega ekki á venjulegan hátt eins og ég og þú. Örlög þeirra og endalok verða að vera vafin einhverri dul og sveipuð leyndardómi. - Einungis þannig geta þau haldið áfram að vera aðgreind frá okkur hinum mennsku og ljóminn af hrævareldum lífs þeirra eins og hann birtist okkur í hinum margvíslegu fjölmiðlum, haldið áfram að veita okkur þá andlegu og trúarlegu fróun sem kakafónía margra og fjölbreyttra goða, ein getur áorkað.
Að vera tekin í guðatölu á við margar kvikmynda, rokk og poppstjörnur sem látist hafa langt um aldur fram, en ekki allar. Útlitið þarf líka að vera guðdómlegt.
Til dæmis voru þeir John Bonham og Keith Moon báðir of feitir og miklir nautnabelgir til að það kæmust af stað einhverjar sögusagnir um að orsök dauða þeirra hafi verið einhverjar aðrar en svall og svínarí.
Brian Jones og Janis Joplin sem tilheyra reyndar hinum fræga 27 ára að eilífu félagsskap, dóu einnig undir afar grunsamlegum kringumstæðum, eða svona eins rokkstjörnum sæmir, uppstoppuð af dópi.
En að sjálfsögðu getur konungur poppsins, sjálfur Michael Jackson, ekki hafa látist nema fyrir sök einhvers annars en sjálfs sín. Auðvitað er það Conrad Murray læknir sem ber sökina, eða til vara, einhver annar sem hann var að vinna fyrir. Hið fullkomna nútíma átrúnaðargoð getur ekki dáið nema að einhver hafi drepið það.
Eða trúir því einhver að Marilyn Monroe hafi ekki verið drepin af CIA vegna þess að hún hélt við tvo Kennedy bræður samtímis, og var orðin of illa farin af drykkju og dópi til að vera treystandi til að halda því leyndu mikið lengur.
Og var ekki Elvis Presley grandað af CIA þegar hann brá sér á klósettið til að kúka, eitt kvöldið?
Svo vita allir að breski krúnuerfinginn Charles lét drepa konu sína Diönu, prinssessu fólksins, til að geta giftast hinni ægifögru Camillu Parker, áskonu sinni til margra ára.
Eða hverju var raunverulega blandað í dópið sem Jimi Hendrix, Jim Morrison og Sid Vicious tóku inn, allt saman alvanir menn þegar kom að blöndun eiturlyfja, dælum og nálum?
Þá er alveg ljóst að krabbameinið sem Bob Marley dó af var tilkomið vegna þess hann var látinn eta geislavirk efni. Og var ekki haglabyssuskotið sem Kurt Cobain dó af grunsamlegt, jafnvel þótt hann hafi skrifað sjálfsvígs-bréf og hleypt því af sjálfur?
John Lennon var drepinn af einhverjum lúða sem gerður var út af einhverjum af þeim fjölmörgu sem óttuðust áhrif hans og eins fór fyrir Tubac Shakr og Biggie Smalls, jafnvel þótt þeir hafi verið í einhverjum glæpagengjum sem virða mannslífin á borð við mexíkanska eiturlyfjaprangara.
Og hvað munum við þurfa að bíða lengi þangað til að sögusagnirnar fara á kreik um orsakir dauða Amy Winehouse. - Enn er verið að bíða eftir formlegum niðurstöðum úr krufningu hennar. Það tekur tíma að koma saman sögu sem passar við allar þessa dóptegundir sem í líkama hennar fundust.
Þörfin til að "trúa" er líklega rótin af öllum þessum samsæriskenningum um dauða átrúnaðargoða okkar. Goðsagnirnar og trúin sem var og er hluti af sameiginlegu vitundarlífi okkar verður æ snauðara af því yfirnáttúrlega og dularfulla. Eitthvað í sálarlífinu krefst hinsvegar að slíkt sé til staðar.
Trúmál og siðferði | Breytt 30.9.2011 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.9.2011 | 16:09
Ætla að hengja prestinn
Jósef Nadarkhani er 34 ára kristinn íranskur prestur. Honum hefur verið gefið að sök að hafa gengið af trúnni (Íslam) og stunda trúvillu. Í réttarhöldunum yfir honum á síðasta ári kom fram að írönsk yfirvöld álíta að hann hafi verið múslími þegar hann var 15 ára (fullveðja samkvæmt lögum Íslam) og hafi því réttlega gengið af trúnni þegar hann tók kristna trú.
Þessu neitar Jósef og segist aldrei hafa verið múslími. Dómararnir bentu þá á að hann væri af íslömskum ættum og dæmdu hann til dauða. Yfirréttur staðfesti þann dóm nýlega en gaf Jósef þrjú tækifæri til að afneita hinni kristnu trú fyrir dóminum og komast þannig hjá aftöku. Jósef þáði ekkert þeirra og bíður nú eftir dauðadómnum verði fullnægt í þessari viku.
Þrátt fyrir að kristnir, gyðingar og fylgjendur Zóroasters eigi að njóta friðhelgi (sem fólk bókarinnar) undir Íslam samkvæmt Kóraninum, hefur aukin harka færst í ofsóknir á hendur þessum minnihlutahópum í Íran síðustu misseri. - Hún er rakin til yfirlýsingar Ayatollah Ali Khamenei, æðsta leiðtoga landsins og yfirklerks, sem hann sendi frá sér fyrir u.þ.b. ári síðan; "Markmið óvina Íslam er að veikja trúarbrögðin í írönsku samfélagi og til að ná því markmiði útbreiða þeir siðleysi, tómhyggju, falska dulhyggju, Bahai-isma og stofnsetja heimakirkjur."
Ofsóknirnar eru vitanlega í blóra við allar alþjóðasamþykktir og jafnvel einnig stjórnarskrá Íran sem kveður á um að trúfrelsi skuli vera í landinu. Enn eins og í öðrum löndum þar sem þjóðernishyggjan og hræðsluáróðurinn beinist fyrst og fremst að innri óvinum frekar en þeim sem landinu ógna utanfrá, gleymast fljótt lög og reglur, hvaðan sem þær koma. Ofsóknabrjálæði stjórnvalda í Íran beinist nú í auknum mæli gagnvart öllum sem ekki tilheyra rétttrúnaði Shia klerksins í Qom.
Í Íran búa um 70 milljónir manns. Rétt um 2% heyra ekki til Islam. Shia grein Íslam er þar allsráðandi en þótt rétt um 8% tilheyri suni greininni eru þeir einnig beittir miklu misrétti. Í höfuðborginni Theran, þar sem a.m.k. ein milljón þeirra býr fá þeir ekki að byggja sér tilbeiðsluhús (mosku).
Langstærsti minnihlutahópurinn (700.000) í Íran eru bahaiar en fjöldi þeirra sitja án dóms og laga í írönskum fangelsum en þeir hafa sætt ofsóknum í landinu allt frá upphafi trúarinnar.
Talið er að kristnir í Íran telji um 300.000 og eru flestir þeirra af armenskum uppruna.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2011 | 12:17
Kreppan er liðin hjá, segir Ólafur Ragnar
Enn eina staðfestinguna á því að kreppan sem skall á landinu eftir efnahagshrunið sé liðin hjá er að finna í orðum landsföðursins Herra Ólafs Ragnars, sem enn á ný ber sig mannalega og talar sem endranær digurbarkalega við erlenda fjölmiðla. -
Það er eitt að tala hlutina upp, eða niður, og annað að vera svo fjarlægur því sem er að gerast í samfélaginu, að allt sem sagt er hljómar annarlega. -
Þetta grobb Ólafs að mannauður Íslands, sá hluti hans og kom landinu á kaldan klaka, hafi komið þjóðarskútinni aftur á réttan kjöl og öðrum þjóðum beri að taka sér það til fyrirmyndar, bera þess vitni að Ólafur lítur fyrst og fremst á sig sem ímyndarsmið íslensku þjóðarinnar. Einnig að hugmyndir hans um ímynd Íslands hafi ekkert breyst frá því sem þær voru fyrir hrun; á Íslandi er allt best, hverju sem tautar.
Stuðluðu að vexti eftir kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.9.2011 | 16:43
Nægir peningar til í landinu
Það er greinilegt að kreppan er liðin hjá, a.m.k. hjá sumum. Eða kannski, náði hún aldrei til allra landsmanna.
Það eru ánægjulegar fréttir hvað mörgum íslendingum tókst að koma gullinu sínu undan. Eða áttu þeir svona mikið fyrir að þá munaði ekki um að tapa slatta.
Það er líka ánægjulegt að sjá að gamla góða steinsteypan er aftur orðin besti fjárfestingarkosturinn á Íslandi, alla vega á meðan verið er að finna upp nýjar hlutabréfasvikamillur og finna meira "fé án hirðis."
Hinir kostirnir fela í sér einhverja atvinnu-uppbyggingu sem er auðvitað glötuð fjárfesting fyrir alvöru fjárfesta. -
60 millur fyrir íbúð hefði kannski ekki þótt dýrt hér fyrir hrun. En eftir allan barlóminn er undarlegt að sjá í dag hvað mörgum kokar ekki við að greiða slíkar upphæðir. -
Bankarnar halda áfram að skila milljarða hagnaði og einu sjáanlegu áhrif kreppunnar eru að þeir sem voru fátækir eru aðeins fátækari og þeir sem voru ríkir og höfðu alveg efni á að tapa nokkru og eru á hraðferð við að verða ríkari enn nokkru sinni fyrr.
50 lúxusíbúðir á einu bretti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2011 | 21:53
Okur á Ljósanótt
Í byrjun september var Ljósanótt haldin í Reykjanesbæ með pompi og prakt. Hátíðin var sú fjölmennasta fram að þessu og ekki var veðrið til að spilla gleðinni. - Mikið var í borið og greinilega reynt að koma til móts við alla aldurshópa enda hátíðin auglýst sem fjölskylduhátíð.
Á rölti um bæinn meðal þúsunda gesta kom ég að þar sem verið var að selja helíum-fylltar álblöðrur eins og gjarnan tíðkast á hinum ýmsu bæjarhátíðum um allt land. - Kunningi minn með þrjú börn stóð við söluborðið og á litaskiptunum í andliti hans sá ég að eitthvað var að.
Hann hafði ætlað að kaupa eina blöðru af stærri gerðina fyrir hvert barn en fannst 6000 krónur sem hann var rukkaður um, eða 2000 krónur fyrir hverja blöðru, vera heldur hátt verð fyrir glysið.
Hann spurði þá um minni blöðrurnar og var sagt að fyrir þær þyrfti hann að greiða 1500 krónur fyrir stykkið, eða samtals 4500.
Með andlitið rautt og rínandi ofaní budduna sína gekk kunningi minn frá borðinu og ég sá hvernig skeifur færðust hægt og rólega yfir andlit barna hans.
Konan sem stóð fyrir þessu okri tjáði undirrituðum að hún þyrfti að borga Reykjanesbæ Kr. 67.500 fyrir leyfið til að fá að að selja blöðrurunar og hitt skranið sem hún hafði til sölu í básnum sínum. Sú upphæð væri ástæðan fyrir þessu háa verði á blöðrunum.
Til að hafa upp í kosnaðinn fyrir söluleyfið þurfti hún sem sagt að selja 34 blöðrur af stærri gerðinni. -
Nú er mér ókunnugt um hvað svona blöðrur kosta í innkaupum hérlendins en erlendis er hægt að kaupa þær hjá heildsölum fyrir ca. 25 krónur stykkið. - Kannski er það helíum-flaskan sem er svona dýr.
Svona okur er svo sem ekkert stórmál og gleymist áreiðanlega öllum fljótlega. Mörgum finnst þetta jafnvel titlingaskítur sem óþarfi er að tíunda í öðrum sveitum. En mér finnst þetta dæmi bera vott um hvernig 2007 hugsunarhátturinn lifir enn góðu lífi. - Er það ekki einmitt svona okur sem er best til þess fallið til að slæva dómgreind og verðskyn almennings? Við síkar aðstæður verða flestir foreldar að láta okrið yfir sig ganga, þegjandi og hljóðalaust, af því að það eru börnin þeirra sem eiga hlut að máli. -
19.9.2011 | 15:21
Bólugrafin ásjóna Íslands
Víst er að vörður hafa verið hlaðnar á Íslandi frá upphafi byggðar og eru sumar þeirra sem enn standa mjög gamlar, þótt erfitt sé að greina aldur þeirra með fullri vissu. Margra er getið í gömlum heimildum og munnmælum. - Forðum voru flestar vörður hlaðnar sem vegvísar en aðrar til að þjóna sem eyktamörk .- Einhverjum var vafalaust hrúgað upp af smölum sér til hita eða dægradvalar og enn öðrum af fræknum fjallagörpum sem vildu skilja eftir sig vegsummerki á sigruðum fjallstindum. - Þá voru veglegar vörður hlaðnar af landmælingamönnum á árunum 1910-1940, þegar landið var kortlagt og danskir landmælingamenn notuðu þær sem mælipunkta.
Við þessum vörðum er ekki verið að amast.
Á síðasta ári vakti það athygli þegar að nokkrir leiðsögumenn tóku sig saman og fóru í dagsferð gagngert til þess að jafna við jörðu um 1200 vörður. Meining þeirra og margra annarra landverndarmanna er sú að vörðuhleðsla ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra, sé orðin svo algeng að ásjóna landsins bíði af því skaða. - Þeir kölluðu vörðuhleðsluna "eitt versta náttúrusóðavandamál síðari ára." -
Þetta má til sannsvegar færa, einkum þegar það er haft í huga að við viljum gjarnan geta bent á að á Íslandi finnist enn náttúra sem er að öllu ósnert af mannanna höndum. - Þessar smástrýtur eru orðnar of margar og af þeim mikil sjónmengun, einkum meðfram fjölförnum fjallvegum þar sem næsta umhverfi er líkt og bólugrafið af þeim.
Erlendir ferðamenn sem taka eftir þessum steinbólum, álíta gjarnan að hér sé um þjóðlegan sið að ræða sem þeir vilja gjarnan taka þátt í. -
Það er hæglega hægt að stemma stigu við þessum ósið með aukinni fræðslu og upplýsingum til ferðamanna og einnig leiðsögumanna. - Þeir eru ekki ófáir ferðapésarnir sem dreift er til erlendra ferðamanna á hverju ári. En ég minnist þess ekki að hafa sé eina einustu ábendingu varðandi þetta mál í neinum þeirra , hvað þá netsíðum með upplýsingum um landið.
19.9.2011 | 12:50
Ísland aftur efst á montlistunum
Um þriggja ára skeið hvarf nafn Íslands úr efstu sætum á helstu montlistum heimsins. Fyrstu ár þessarar aldar þóttu listar yfir hamingjusömustu þjóðirnar, mestu velfrðarríkin, mestu hagvaxtarþjóðirnar, bestu menntunina, óspiltasta embættismannakerfið svo dæmi séu nefnd, varla marktækir af Íslendingum ef þeir voru þar ekki efst á blaði. -
Eftir "hrunið" varð ljóst að mörg þeirra lífsgæða sem komu okkur fremst á heimsmetalistana voru hluti af sýndarveruleika. Hamingja og heiðarleiki þjóðarinnar voru t.d. greinilega af sama toga spunnið og gróðatölur útrásarvíkinganna og við hurfum úr fyrsta sæti flestra montlista heimsins. -
Nú virðast Íslendingar aftur vera að jafna sig á sjokkinu sem fylgdi því að fatta að klárustu gullæturnar þeirra voru jafnframt óprúttnir svindlarar og ræningjar. Þjóðin er svo til hætt að skammast sín fyrir að hafa verið rænd af 26 glúrnum exelstrákum.
Eins og komið hefur fram í fréttum er t.d. fasteignabransinn hægt og sígandi að rétta úr kútnum. Peningamennirnir sem gátu forðað mestu af gullinu sínu vita að fasteignir eru eina fjárfestingin á Íslandi um þessar mundir sem þeir geta átt von um að gefi einhvern arð. -
Montlistagerðarmenninrnir hafa greinilega tekið eftir þessar breytingu í þjóðarsálinni og eru tilbúnir til að setja Ísland aftur í sinn fyrri réttbundna sess sem fallegasta, sterkasta, ríkasta og hamingjusamasta þjóð jarðarinnar.
Ísland er best fyrir konur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.9.2011 | 08:56
Málþófið virkar
Pabbi minn er sterkastur! Nei, minn er sterkastur! Nei minn! Nei, minn!
Þetta er málþófsleikur sem flestir strákar (og kannski stúlkur líka) kannast við úr sandkassanum í leikskólanum. Leikurinn endar á því að annar gefst upp og heldur áfram að moka sandi eða er tekinn í fangið af einhveri fóstrunni til að þurka horið framan úr honum.
Þingmenn í stjórnarandstöðu héldu á dögunum upp málþófi til að þvinga fram breytingar á stjórnarráðsfrumvarpi forsætisráðherra. Þeir stigu í pontu 800 sinnum til að ræða frumvarpið og fóru flestir með sömu tugguna eins og jórtrandi kýr í haga.
Minnihlutinn kenndi meirihlutanum um hvernig komið væri því engin virti hann svars nema til að gera að málþófinu grín eins og t.d. þegar Mörður Árnason setti upp dálítið leikrit í ræðustólnum.
Að lokum náði stjórnarandstaðan fram vilja sínum og Jóhanna varð að setja fram málamiðlunartillögu, sex dögum og fleiri hundruðum ræðustúfa seinna. Sjálf skildi hún vel leikinn enda hefur hún oft tekið þátt í honum sjálf.
Sandkassapólitíkin virkar og lifir góðu lífi á Alþingi Íslendinga.
Líkur á þinglokum í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.9.2011 | 19:21
Áróðursdeild kínverska Kommúnistaflokksins
- Þeir sem hafa áhuga á að draga einhvern lærdóm af ástæðum hrunsins, ættu að velta því fyrir sér hvaða manngerðir áttu stærstan hlut að mál í þeirri óheillavænlegu þróun. Kannski komast þeir að því að það skiptir máli hvaða mann, fólk hefur að geyma sem tengjast athafnalífi þjóðarinnar, ekki hvað síst þeim þáttum sem eru eitt af fjöreggjum hennar, sem ferðaþjónustan vissulega er.
Hinn kínverski Huang Nubo vill kaupa Grímsstaði á fjöllum. Herra Huang er kínverskur auðmaður sem lengt af ævi sinnar starfaði fyrir Áróðursdeild kínverska Kommúnistaflokksins.
Hvaða manngerð er það sem getur náð frama innan slíkarar stofnunar?
Áróðursdeild kínverska Kommúnistaflokksins er ekki sögð hluti af kínversku ríkisstjórninni. Samt er hún mjög valdamikil stofnun sem farið getur sínu fram án sérstakra lagaheimilda. Hlutverk hennar er að sjá um að allir fjölmiðlar landsins leggi áherslu á það í fréttaflutningi sínum, sem er í samræmi við þá ímynd sem ríkistjórnin og kommúnistaflokkurinn vill að gefin sé af samfélaginu í Kína. Deildin er oft kölluð "Sannleiksráðuneytið".
Til að framfylgja þessum markmiðum heldur deildin m.a. vikulega leynifundi með helstu ritstórum kínverskra fjölmiðla þar sem komið er á framfæri "réttu línunni" í öllum mikilvægum málum. Viðurlögin fyrir að framfylgja ekki stefnmörkun deildarinnar út í hörgul, eru starfleyfissviptingar og útilokun starfsmanna frá frekari afskipum af fjölmiðlun.
Mikil áhersla hefur verið lögð á það að halda tilmælum "Sannleikráðuneytisins" leyndum, enda mörg þeirra fram sett til að fela sannleikann. Með tilkomu netsins og twitter hafa margar af gerræðislegum fyrirskipunum deildarinnar komist í hámæli. Fræg urðu t.d. fyrirmæli hennar um að "allar vefsíður í Kína skyldu nota skærrauðan lit til að fagna 60 ára afmæli lýðveldisins og að neikvæð umfjöllun um gíruga forsprakka í flokknum megi ekki fara yfir 30%."
Þeir sem starfa fyrir deildina hafa hlotið sérþjálfun og pólitískt uppeldi innan kommúnistaflokksins. Reglulega eru haldin námskeið fyrir starfsmennina þar sem tryggð við flokkinn er áréttuð og flokkspólitískri innrætingu er viðhaldið.
Í samræmi við "breytta tíma" í Kína, hafa í seinni tíð nokkrir af dyggustu tarfsmönnum "Sannleiksráðuneytisins" komið sér fyrir sem athafnamenn í "einkageiranum" og náð þar undramiklum árangri á afar skömmum tíma.
Umsýsla þeirra og skjótur uppgangur í hinum mismunandi geirum athafnalífsins í Kína og einnig í öðrum þjóðlöndum heimsins hafa vakið mikla athygli og greinilegt að þar fer fólk sem hefur réttu samböndin og kann til verka við að sannfæra viðsemjendur sína um að áhugi á verndun mannlífs á náttúru séu megin hvatinn að áhuga þeirra á viðkomandi verkefni.
Grímsstaðamálið í kosningu? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.8.2011 | 18:41
Mjólkuróþol skrælingja
Fyrr í sumar kom ég við á Eiríksstöðum í Haukadal og hlustaði á sögumann staðarins segja enskum ferðamönnum m.a. frá siglingum norræna manna til vesturheims fyrir 1000 árum.
Á honum mátti skilja að hann teldi ástæðuna fyrir því að landnám norrænna manna fór út um þúfur í N- Ameríku vera; að þeir gáfu "skrælingjunum" skyr að borða. Vegna erfðabundins mjólkuróþols flestra N-amerískra frumbyggja, hafi þeir orðið fárveikir af velgjörðunum og héldu auðvitað að verið væri að byrla þeim eitur.
Mjólkuróþol er kvilli sem hrjáir sumt fólk sökum þess að líkami þeirra framleiðir of lítið eða ekkert af laktasa, sem er prótín sem brýtur niður mjólkursykur og meðal amerískra indíána er mjólkuróþols-tíðnin hátt í 100% hjá fullorðnum einstaklingum.
Það er staðreynd að Grænlendinga saga segir að Karlsefni hafi látið gefa skrælingjunum "búnyt" sem vel kann að hafa verið skyr, í kaupum fyrir skinnavöru.
En það sem skýtur skökku við er að sama heimild segir að skrælingjarnir hafi ekki viljað sjá annað eftir að þeir brögðuðu búnytina og þrátt fyrr að óþolið hafi hugsanlega valdið þeim uppþembu, magaverkjum, vindverkjum og jafnvel magakrömpum og niðurgangi, hafi þeir seinna, snúið aftur, eftir meiru af því sama.
Hér kemur frásögnin úr Grænlendinga sögu:
Eftir þann vetur hinn fyrsta kom sumar. Þá urðu þeir varir við Skrælingja og fór þar úr skógi fram mikill flokkur manna. Þar var nær nautfé þeirra en graðungur tók að belja og gjalla ákaflega hátt. En það hræddust Skrælingjar og lögðu undan með byrðar sínar en það var grávara og safali og alls konar skinnavara og snúa til bæjar Karlsefnis og vildu þar inn í húsin en Karlsefni lét verja dyrnar. Hvorigir skildu annars mál.
Þá tóku Skrælingjar ofan bagga sína og leystu og buðu þeim og vildu vopn helst fyrir en Karlsefni bannaði þeim að selja vopnin.
Og nú leitar hann ráðs með þeim hætti að hann bað konur bera út búnyt að þeim og þegar er þeir sáu búnyt þá vildu þeir kaupa það en ekki annað. Nú var sú kaupför Skrælingja að þeir báru sinn varning í brott í mögum sínum en Karlsefni og förunautar hans höfðu eftir bagga þeirra og skinnavöru. Fóru þeir við svo búið í burt.
Nú er frá því að segja að Karlsefni lætur gera skíðgarð rammlegan um bæ sinn og bjuggust þar um. Í þann tíma fæddi Guðríður sveinbarn, kona Karlsefnis, og hét sá sveinn Snorri.
Á öndverðum öðrum vetri þá komu Skrælingjar til móts við þá og voru miklu fleiri en fyrr og höfðu slíkan varnað sem fyrr.
Þá mælti Karlsefni við konur: "Nú skuluð þér bera út slíkan mat sem fyrr var rífastur en ekki annað."
Og er þeir sáu það þá köstuðu þeir böggunum sínum inn yfir skíðgarðinn. En Guðríður sat í dyrum inni með vöggu Snorra sonar síns. Þá bar skugga í dyrin og gekk þar inn kona í svörtum námkyrtli, heldur lág, og hafði dregil um höfuð, og ljósjörp á hár, fölleit og mjög eygð svo að eigi hafði jafnmikil augu séð í einum mannshausi.
Hún gekk þar er Guðríður sat og mælti: "Hvað heitir þú?" segir hún.
"Ég heiti Guðríður eða hvert er þitt heiti?"
"Ég heiti Guðríður," segir hún.
Þá rétti Guðríður húsfreyja hönd sína til hennar að hún sæti hjá henni en það bar allt saman að þá heyrði Guðríður brest mikinn og var þá konan horfin og í því var og veginn einn Skrælingi af einum húskarli Karlsefnis því að hann hafði viljað taka vopn þeirra og fóru nú í brott sem tíðast en klæði þeirra lágu þar eftir og varningur. Engi maður hafði konu þessa séð utan Guðríður ein.
"Nú munum vér þurfa til ráða að taka," segir Karlsefni, "því að eg hygg að þeir muni vitja vor hið þriðja sinni með ófriði og fjölmenni. Nú skulum vér taka það ráð að tíu menn fari fram á nes þetta og sýni sig þar en annað lið vort skal fara í skóg og höggva þar rjóður fyrir nautfé vort þá er liðið kemur framúr skóginum. Vér skulum og taka griðung vorn og láta hann fara fyrir oss."
En þar var svo háttað er fundur þeirra var ætlaður að vatn var öðru megin en skógur á annan veg. Nú voru þessi ráð höfð er Karlsefni lagði til.
Nú komu Skrælingjar í þann stað er Karlsefni hafði ætlað til bardaga. Nú var þar bardagi og féll fjöldi af liði Skrælingja. Einn maður var mikill og vænn í liði Skrælingja og þótti Karlsefni sem hann mundi vera höfðingi þeirra. Nú hafði einn þeirra Skrælingja tekið upp öxi eina og leit á um stund og reiddi að félaga sínum og hjó til hans. Sá féll þegar dauður. Þá tók sá hinn mikli maður við öxinni og leit á um stund og varp henni síðan á sjóinn sem lengst mátti hann. En síðan flýja þeir á skóginn svo hver sem fara mátti og lýkur þar nú þeirra viðskiptum.
Það er greinilegt að Karlsefni telur sig hafa sloppið ódýrt frá viðskiptum sínum við skrælingjanna sem aðeins höfðu magafylli af "búnyt" upp úr krafsinu. E.t.v. fékk hann slæma samvisku því hann lætur víggirða bæ sinn eftir þessi viðskipti.
Spurningin sem eftir situr er hvort skrælingjarnir hafi snúið aftur til að ná sér niðri á landnemunum eða hvort þeir komu bara til að verða sér út um meira skyr.
21.8.2011 | 14:20
Þegar amma var ung
Sú var tíðin að það þótti heyra til tíðanda ef að dægurlag með öðrum en íslenskum eða enskum taxta náði teljandi vinsældum meðal þjóðarinnar. Ríkisútvarpið sem var allsráðandi í þessum efnum langt fram á síðustu öld og átti því stærstan þátt í móta tónlistarsmekk þjóðarinnar á þeim tíma, réði því að sú tónlist sem leikin var í tónlistarþáttum eins og "Óskalög sjómana", "Óskalög sjúklinga" og "Við sem heima sitjum" voru hvað erlenda dægurtónlist snerti, endurómun af breska vinsældarlistanum. "Lög unga fólksins" fylgdi þessari sömu stefnu enda litu vinsældarlistarnir, sem þá voru komnir til sögunnar, flestir svipað út og þeir bandarísku og bresku. Vissulega voru þessir þættir pipraðir með tónlist frá framandi löndum og lög eins og hið kúbanska Guantanamera, hið hebreska Hava Nagila og hið mexikanska La Bamba heyrðust af og til og voru sjálfsagt langlífari í íslenskum útvarpsþáttum en nokkrum öðrum.
Fyrsta lagið sem ég man eftir að spilað var látlaust í öllum óskalagaþáttum og hvorki var íslenskt eða enskt var þýska lagið sem ýmist var kynnt undir heitinu "Der fröhliche Wanderer" eða "Mein Vater war ein Wandersmann".
Þetta glaðlega "göngulag" sem allir héldu að væri gamalt þýskt þjóðlag, var reyndar samið af Friedrich-Wilhelm nokkrum Möller skömmu eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk. Það varð geysi-vinsælt víða um heim árin 1953-4 í flutningi barnkórs frá Schaumburg. Mörg barnanna í kórnum sem þekktur varð undir nafninu Obernkirchen kórinn og stjórnað var af systur Fredrichs, Edith Möller, voru munaðarleysingjar sem misst höfðu foreldra sína í stríðinu.
Sjálfsagt hefði lagið aldrei orðið jafn vinsælt og raun ber vitni, ef BBC hefði ekki útvarpað úrslitunum í alþjólegu Llangollen kórkeppninni árið 1953 þar sem Obernkirchen kórinn vann keppnina með glans með flutningi sínum á þessu glaðhlakkalegu lagi.
Árið 1954 sat það í margar vikur í efstu sætum vinsældalista viða um heim t.d. á þeim breska, í ekki færri en 29 vikur.
Texti lagsins er eftir Edith, en hann hefur verið þýddur á fjölda tungumála og á ensku heitir lagið "The Happy Wanderer". Obernkirchen kórinn kom til Íslands árið 1968 og flutti m.a. lagið sem þýtt var á íslensku sem "Káti vegfarandinn" á vel sóttum tónleikum í Þjóleikhúsinu.
Næst var það trúlega ítalskan sem ég fékk að kynnast í söng á öldum ljósvakans i lagi sem síðan hefur verið hljóðritað og gefið út af meira en 100 mismunandi flytjendum. Lagið heitir "Nel blu dipinto di blu" en allir þekkja það undir heitinu Volare.
Ítalska tónskáldið Domenico Modugno samdi lagið og einnig ljóðið ásamt Franco Migliacci. Það var fyrst flutt af Domenico og Johnny Dorelli á tónlistarhátíð í Sanremo 1958 og sama ár var það valið til að vera framlag Ítalíu til Júróvisjón keppninnar.-
En þrátt fyrir að Domenico og Franco fengju að flytja lagið tvisvar í keppninni, vegna truflana á útsendingu í fyrstu atrennu, nægði það ekki til að koma laginu hærra en í þriðja sæti. - Lagið flaug samt inn á vinsældarlistanna víða um heim og hlaut síðan verðlaunin "besta lag ársins" á fyrstu Grammy verðlaunahátíðinni sem haldin var 1958 í Bandaríkjunum.
Árið 1963 þegar að Bítlarnir klifruðu upp alla vinsældarlista á ofurhraða fengu þeir samkeppni úr óvæntri átt. Belgísk nunna sem þekkt varð undir nafninu Sur Sourire (Systur bros) hafði þá samið og hljóðritað lagið Dominique, sem varð svo vinsælt að það rauk upp í fyrsta sæti vinsældarlista bæði vestan hafs og austan. Fram til þessa dags, er það eina belgíska lagið sem náð hefur fyrsta sæti á vinsældarlistum í Bandaríkjunum. Lagið varð svo vinsælt að Jeanine Deckers, en svo hét þessi syngjandi nunna réttu nafni, fór í hljómleikaferð um Bandaríkin og var auk þess boðið að koma fram í skemmtiþætti Ed Sullivan.
Deckers, sem sjálf fékk aldrei krónu borgaða fyrir lagið, heldur lét ágóðann renna til klaustursins, gafst upp á klausturslifnaðinum árið 1967. Í framhaldi af því reyndi hún árangurslítið fyrir sér með tónlistarflutningi undir nafninu Luc Dominique þar sem henni var meinað að nota nafnið Sur Sourire, sem var sagt eign útgefanda hennar, þ.e. Philips samsteypunnar.
Seint á áttunda ártugnum reyndu belgísk skattayfirvöld að innheimta af Deckers fúlgur fjár sem þau vildu meina að hún skuldaði í skatta af tekjunum af Dominique. - Deckers hafði þá þegar fallið í ónáð kaþólsku kirkjunnar vegna opinbers stuðnings síns við notkun "pillunnar" og vegna samkynhneigðar sinnar. Árið 1985 frömdu hún og sambýliskona hennar til margra ára, Annie Pécher, sjálfsvíg og sögðu í bréfi sem þær skildu eftir sig, fjárhagserfiðleika ástæðurnar.
Upp úr 1966 átti franska kynbomban Birgitte Bardott í ástarsambandi við sjarmörinn og tónlistarmanninn Serge Gainbourg. Hún bað hann að semja fyrir sig fegursta ástaróð sem hann gæti upphugsað og þá sömu nótt samdi hann lag sem átti eftir að kenna allri heimsbyggðinni að segja "Ég elska þig" á franska tungu, eða; Je t'aime.
Fyrst hljóðritaði hann lagið með stunum Bardott og sjálfs sín en sú útgáfa lagsins kom ekki út fyrr en árið 1986. Það var hins vegar ástkona hans, ofurskutlan Jane Birkin sem söng og andvarpaði ásamt Serge sjálfum á útgáfunni sem fór eins og eldur í senu um heiminn árið 1967. Í þeim löndum sem ekki bönnuðu flutninginn fór lagið gjarnan í fyrsta sæti.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.8.2011 | 10:54
Iceland Express klúðrið.... framhald
Hér er framhaldið af ferðasögu minni með Iceland Express til London í fyrradag þar sem ég segir farir mínar ekki sléttar.
Kl:5.15 voru allir farþegarnir mættir aftur í biðröð við hliðið. Fyrir utan stóð vél frá Finnlandi sem komið hafði með farþega þaðan og verið var að þrífa. Vélin var sérstök leiguvél sem fengin hafði verið í stað þeirrar biluðu. Í stað þess að senda hana beint til Íslands til að ná í farþegana sem þar biðu voru þeir látnir mæta afgangi og vélin var hún látin fljúga áætlunina frá London.
Þegar ekki var hleypt um borð á tilsettum tíma var afgreiðslufólkið spurt hverju sætti en það hafði engin svör. Það tjáði mér að það mætti engar tilkynningar setja í kallkerfið nema að einhverjir yfirmenn gæfu á það grænt ljós. Yfirmaður vaktar var sagður úti að þrífa vélina frá Finnlandi.
Ungur maður spurði hvort hann ætti ekki bara að taka að sér að hrópa tilkynningu yfir hópinn um að vélin sem úti stæði væri flugvélin sem fljúga ætti með sem hann síðan gerði við talverðan fögnuð farþega.
Þegar að vaktstjórinn kom loks inn spurði ég hana hvort hún ætlaði ekki að tilkynna seinkun þar sem klukkan var nú orðin 17:30. Hún svaraði mér til að allir sæju hvað væri í gangi og engin þörf væri á að tilkynna neitt.
Loks var hleypt um borð í vélina. Eftir að allir voru sestir og vélin tilbúin til að fara frá, voru lestar hennar opnaðar aftur og byrjað var að hlaða í hana frosnum fiski. Ég spurði einn starfsmann IE hvernig stæði á þessu og hvort ekki hefði verið hægt að hlaða fiskinum á meðan vaktstjórinn þreif vélina. Hann sagði mér að starfsmenn IE hefðu ekki haft hugmynd um að einhver fiskur ætti að fara með vélinni.
Vélin fór í loftið langt gengin í sjö.
Þegar ég kom til Englands var ég búin að missa af öllum flugvélum og lestum svo ég varð að kaupa mér gistingu á hóteli við flugvöllinn.
IE starfsmenn höfðu áður tjáð mér að þeir væru ekki á neinn hátt ábirgir fyrir ferðaröskun þessari eða kostnaði sem af henni hlytist.
Eitt er að standast ekki áætlun og annað hvernig þú tekur á því þegar það gerist.
Mér skilst að IE tímasetningar standist í 37% tilvika. Sem slíkir ættur þeir að vera orðnir nokkuð góðir í að vera seinir og þjálfaðir í að eiga við óánægða viðskiptavini.
Því miður er því ekki að fagna. Yfirstjórn söluskrifstofunnar ættu að yfirfara og endurskipuleggja viðbrögð starfsfólks síns til að það þurfi ekki að standa eins og þvörur á láta óánægða farþega drulla yfir sig daglangt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.8.2011 | 12:53
Öfugmælið Iceland Express
Ég ætlaði að fljúga til London í morgunn með Iceland Express. Ætlaði að vera viðstaddur stór-afmæli niður í Cornwall í kvöld. Vélin átti að fara samkvæmt bókuninni kl: 08.20 og lenda 20 mín yfir 12 að staðartíma. Nægur tími til að komast með lest á áfangastað, jafnvel þótt fluginu seinkaði dálítið eins og vaninn er hjá þessu flugfélagi sem reyndar er svo alls ekki flugfélag þegar nánar er skoðað heldur söluskrifstofa fyrir eitthvað enskt flugfélag og lætur bara alla halda að hún sé alvöru flugfélag.-
Þegar ég kom á Keflavíkurflugvöll sá ég að flugið var áætlað kl: 8:50,- seinkun sem ég get sætt mig við, hugsaði ég. Þegar klukkan nálgaðist 9:00 og ekki var enn farið að hleypa um borð í vélina mjakaði ég mér fram hjá langri röð farþega sem stóðu þolinmóðir við útganginn og biðu eftir að verða hleypt um borð.
Fyrir aftan afgreiðsluborðið stóð ung stúlka og brosti. "Hvað er mikil seinkun í viðbót?", spurði ég. Hún sagðist ekki vita það, en hún væri að bíða eftir nákvæmari upplýsingum. Í þeim töluðu orðum kom ungur maður að borðinu og af orðum hans sem hann beindi reyndar að stúlkunni, mátti skilja að flugvélin væri biluð og það ætti að athuga með flugið kl. 11:00.
Hann bað stúlkuna, sem var greinilega farin að vera óstyrk, að tilkynna þetta í kallkerfið. Fyrir aftan mig var fólk farið að ókyrrast og kalla á pörin fyrir innan borðið og vildi geinilega vita hvað væri á seyði.
Stúlkan færðist undan því að tilkynna seinkunina og sagðist aldrei hafa gert svona áður og hún kynni ekkert á kallkerfið. Ungi maðurinn reyndi að telja í hana kjark og eftir nokkurt þref beygði hún sig niður undir afgreiðsluborðið og af því að ég stóð svo nálægt heyrði ég hana stauta sig fram úr afsökunarbeiðni, tilbúnum texta sem maðurinn hafð fundið handa henni í einhverri möppu.
Ekki heyrðist samt múkk í hátalarakerfi flustöðvarinnar.
Fólk fyrir aftan mig var nú byrjað að hrópa og vildi fá að vita hvort það ætti að fljúga eða ekki. Unga manninum varð þá ljóst að skilaboð stúlkunnar höfðu ekki komist til skila því kallkerfið virkaði ekki frá afgreiðsluborðinu.
Þetta var all-pínleg staða. Úti stóð flugvélin biluð og inni var kallkerfið bilað. Ungi maðurinn tók sér nú stöðu fyrir framan afgreiðsluborðið og hóf að útskýra það fyrir nærstöddum að hann væri ekki vélvirki og gæti því ekki sagt neitt um hvenær eða hvort vélin mundi fljúga.
Stúlkan sat á meðan fyrir aftan hann heldur hnýpin og lét lítið fyrir sér fara. - Ungi maðurinn benti fólki á að fara til þjónustuborðs fyrir utan biðsalinn til að fá nánari upplýsingar. - Ég brá mér þangað og hitti þar fyrir miðaldra konu sem sat við tölvu. "Það á að athuga með flugið kl:11:00" tjáði hún mér. "Matarmiðum verður útbýtt eftir að þrjár klukkustundir eru liðnar frá áætlaðri brottför" tilkynnti hún svo á ensku, því fyrir framan hana hafði nú safnast saman hópur farþega sem vildi fá upplýsingar um hvað þessi söluskrifstofa ætlaði að gera fyrir fólkið. Margir sögðust vera að missa af tengiflugi til annarra áfangastaða. Við því var lítið að gera taldi konan.
Um kl. 10:30 birtist á skjánum og brottfarir og komur að þessu ákveðna flugi til London mundi seinka til 16:30.
Það er auðvitað nokkuð ljóst að ég verð af afmælisveislunni. Næsta flug til Bretlands er kl: 16:00 með Icelandair og með þeim kostar farið um 80.000 kall. Farmiðinn með Iceland Express var 50.000 krónum ódýrari og sá munur nægði til að ég var tilbúinn til að taka áhættuna (sem ég vissi að var veruleg) á talverðri seinkun. En að hún yrði meira en 8 tíma var nokkuð sem ég reiknaði alls ekki með.
Nú sit ég leiður og súr og bíð eftir að skrifstofa þeirra Express manna svari í símann. Ég er númer 2 í röðinni en komst áðan upp í að vera númer eitt í röðinni. Ég hringdi um leið og ég hóf að skrifa þennan leiða pistil fyrir klukkustund eða um leið og skrifstofa þeirra á að opnaði kl. 11.00.
Rétt í þessu var mér svarað. Jú það verður örugglega flogið í dag, staðfest brottför kl: 17:15!
Ef ég vill fá miðann endurgreiddan verð ég að hringja aftur í dag, jafnvel þótt það taki klukkustund að fá samband. Ekki er hægt að senda tölvupóst í því skyni og já, hún mundi láta einhvern vita af þessu rugli í símkerfinu þar sem fólk rokkar sjálfvirkt milli sæta í röðinni sem það bíður í.
Niðurstaðan er að það sé um að gera fyrir fólk að fljúga með Iceland Express ef það skiptir engu máli fyrir það hvenær flogið er.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.6.2011 | 07:13
Máttarstólpar þjóðfélagsins
Maður skilur ekkert orðið í þessari fréttamennsku. Til hvers er verið að rifja þetta upp núna? Eða er eitthvað athugavert við að þessir máttarstólpar þjóðfélagsins hafi fengi nokkrar millur í bónus út úr fyrirtækinu sem þeir voru að þræla fyrir? - Áttu þeir þær ekki skilið, eða hvað? -
Ok, allir vita að fyrirtækið stóð höllum fæti og skuldaði skrilljónir til íslenskra banka. En þeir voru hvort eð er allir að fara hausinn líka. Var ekki sjálfsagt að reyna að ná einhverju út úr draslinu áður en allt fór til helv.....
En ég endurtek, til hvers er verið að rifja þetta upp núna? Til hvers er eiginlega ætlast af þessum heiðursmönnum? Er kannski verið að vonast til að þeir skili þessu smáræði til baka? - Eða er bara verið að reyna gera orðspor þeirra eitthvað vafasamt núna þegar þeir eru búnir að koma sér vel fyrir aftur eftir þetta Existu ævintýri.
Haha, glætan að það takist.
Þeir eru og verða virtir máttarstólpar þjóðfélagsins. Að auki hefur þjóðin ekki lengur lyst á neinu blóði. - Í stað þess að berja bumbur niður á Austurvelli mætir fólk nú uppáklætt í Hörpuna til að sýna stuðning sinn við höfuðpaurinn í hruninu sem verið er að lögsækja fyrir sinn þátt í Hrunadansinum. - Hann reynir að afsaka sig og segir réttarhöldin pólitísk. Á hvaða plánetu býr sá maður? Veit hann ekki að það er verið að ásaka hann um pólitíska glæpi? - Af hverju ættu þá réttarhöldin ekki að vera pólitísk?
Exista greiddi bónusa 2009 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 07:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)