20.10.2011 | 20:49
Myndskeið Al Jazeera af dauða Gaddafis
Al Jazeera sjónvarpsstöðin byrti fyrri skömmu þetta myndskeið af dauða Gaddafis. Myndskeiðið sýnir hvernig dauða hans bar að. Það er greinilegt af myndbandinu að algjör ringulreið ríkir og æstur múgurinn fer illa með helsærðan manninn sem lítið eða ekkert lífsmark virðist vera með. - Myndin er klárlega tekin áður en reynt vara að koma Gaddafi á sjúkrahúsið í Misrata, sé rétt haft eftir "hermönnunum". - Nú er ekki víst að þetta youtube myndskeið fái að lifa þar lengi. Þegar hafa verið fjarlægð þaðan öll önnur myndskeið af dauða Gaddafis.
Var Gaddafi tekinn lifandi? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2011 | 09:49
Skrökvar til um aldurinn
Það er svo sem ekkert nýmæli að konur segi ekki rétt til aldurs. Margir telja það meira að segja ókurteisi að spyrja konur um aldur sinn. Margar skemmtilegar ýkjusögur hefur maður heyrt í gegnum tíðina af konum sem drjúgar með sig segja sig miklu yngri en þær eru og halda að þær komist upp með það. Stundum verða þær að aðhlátursefni fjölmiðla fyrir koddafésin sín og bótox frostið í andlitinu. -
Það er sem sagt ekki óalgengt að það beri dálítið á milli þess sem konur segja um aldur sinn og þess sem fæðingarvottorðið segir.
Heimsmetið í þessu á vafalaust þessi kona í Viet Nam sem segist svera 26 ára gömul en lítur út fyrir að vera 66 ára. Ekki nóg með að sjúkdómurinn sem Nguyen Thi Phuong segist þjást af, hafi elt á henni andlitið, heldir hefur hann einnig breitt í henni tönnunum, gert hárrót hennar gráa og gefið henni sígandi handleggsvöðva og alla líkamsburði konu sem komin er af besta aldri. -
Fréttin er augljós gabb-frétt. Fjölmiðlar í Kína og Indlandi eru fullir qaf slíkum furðufréttum og erfitt að átta sig á hvers vegna ein og ein nær stundum að slá í gegn í vestrænum fjölmiðlum. Greinilegt að Viet Nam vill ekki vera eftirbátar hinna landanna.
Hér er frétt sjónvarpssins í Viet Nam um Nguyen Thi Phuong
Eltist um hálfa öld á nokkrum dögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.10.2011 | 16:05
Er blóð-koltan í þínum farsíma?
Mannskæðasta styrjöldin síðan að heimstyrjöldinni síðari lauk er seinni borgarastyrjöldin í Alþýðulýðveldinu Kongó eða Austur-Kongó. (Ruglist ekki saman við nágrannaríkið Lýðveldið Kongó)
Í þessu stríðshrjáðasta landi veraldar þar sem íbúafjöldi er yfir 70 milljónir, er talið að yfir fimm milljónir manna og kvenna hafi látið lífið í stríðinu sem hófst 1998 og stundum er kallað Koltan stríðið.
Þá er einnig álitið að meira en 300.000 konum hafi verið nauðgað af stríðandi fylkingum landsins í þessum átökum. - Engar nákvæmar tölur eru til yfir alla þá sem látist hafa af völdum hungurs og sjúkdóma sem stríðið olli í landinu.
Þrátt fyrir að styrjöldinni hafi verið formlega lokið 2003 halda erjurnar áfram fram á okkar dag. Bitbeinið er eins og áður, yfirráð yfir auðugum kassiterít, wolframít og koltan námum, en þetta eru efni sem mikið eru notuð við framleiðslu farsíma, fartölva og MP3 spilara.
Í dag eru flestar námurnar undir löglega kjörinni stjórn landsins.
En hvernig fjármagna stríðsherrarnir sem enn eru að, stríðsrekstur sinn? - Meðal annars með sölu á koltani sem unnið er úr jörðu í myrkviðum frumskógarins í Kongó. - Í "koltan-námum" þessum vinna einkum ungir drengir við skelfilegar aðstæður. Hitinn nær tíðum yfir 45 gráður niðrí holunum. Oft falla holunar saman og námudrengirnir farast. Þeir hætta lífi og limum daglega fyrir smáræði.
Koltan er iðnaðarheiti en efnið er notað til framleiðslu tantalum sem aftur gerir framleiðslu á afar hitaþolnum örrásum og örgjörfum mögulega. Stríðsherrarnir sem reka námurnar senda það oftast flugleiðis til Góma og þaðan er það sent landleiðina til Úganda og síðan til Mombasa í Kenía. Þar er efnið brætt saman við koltan sem kemur víðs vegar að úr heiminum, Þannig er ekki hægt að greina á milli blóð-koltans og þess sem er löglega unnið.
Til þess er tekið í umræðunni um blóð-koltan að rétt um 1-10% af tantalum sem notað er til iðnaðar í heiminum komi frá Afríku.
Samt treysta stærstu farsíma-framleiðendur heimsins eins og NOKIA, sér ekki til að fullyrða að framleiðsla þeirra sé laus við blóð-koltan. -
Kosnaðurinn við að hringja úr farsíma er því enn ekki talinn í krónum einum.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2011 | 10:07
Markmið kreppunnar að nást
Hvernig er hægt að koma því þannig fyrir að við sem eigum peninga, sitjum einir að þeim. Ég á við, það er svo áhættusamt að lána þá almenningi og að auki ræður maður ekki alveg vöxtunum á þeim markaði. - Peningar ávaxtast best hjá þeim sem eiga peninga og þess vegna þarf að koma því þannig fyrir að einungis þeir, hafi aðgang að þeim. -
Til eru nokkrar þekktar aðferðir til þess að ná fram þessum markmiðum. Sú sem við veljum í þetta skipti er að koma af stað svokallaðri fjárhagslegri "heimskreppu". - Ekki þannig að framleiðsla heimsins minki eitthvað eða verðmætasköpun verði raunverulega minni, heldur þegar að rétti tíminn er kominn og stærsti hluti peninganna er í "réttum höndum" fellum við gengið á verðbréfamörkuðum. -
Til að milda þetta fyrir almenning og láta hann auk þess halda að þetta sé hans sök, skulum við áður lána honum ríflega út á veð sem ekki eru raunverulega til. Almenningur mun eyða þeim peningum á nokkrum árum sem er í lagi því hann lendir hvort eð er í okkar vasa.
Síðan þegar fólk getur ekki borgað, fellum við lánin og í kjölfarið fellur allt á verðbréfamörkuðunum og þannig búum við til "heimskreppu". Ríkisstjórnir verða að ausa almenningsfé til okkar, trúandi því að allt sé á heljarþröm af því að bankarnir séu á hausnum. Eftir það fær enginn neitt lánað, nema þeir sem eru í klúbbnum. Þetta færir okkur nær markmiðum okkar. Færri eiga meira!
Gott og vel. Samþykkt!
Færri eiga og fleiri skulda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.10.2011 | 11:30
Þegar hornsteinninn molnar
Ekkert fer hraðar en ljósið. Rétt? Á því byggist mesta vísindalega kenning allra tíma, hin almenna afstæðiskennig Einsteins, sem er hornsteinn eðlisfræðinnar. - Kenningin er í flestra hugum ekki aðeins kenning, heldur staðreynd og hefur átt stóran þátt í styrkja vísindahyggju í heiminum þar sem höfundur hennar, Albert Einstein, er að sjálfsögðu eitt helsta helsta átrúnaðargoðið.
Hún er fastinn sem skilur að raunveruleika efnisheimsins og fjörugs ímyndunarafls mannahugans. Vegna hennar er það t.d. talið ólíklegt að hægt sé að ferðast fram eða aftur í tíma eins og margar vinsælar vísindaskáldsögur gera ráð fyrir.
Afstæðiskenningin er líka oft tekin sem dæmi um hvernig fegurð og einfaldleiki koma saman í vísindunum svo úr verður meistaraverk. Jafnan sjálf er sögð ekki síðra listaverk en þau sem öllu jöfnu hafa aðeins fagurfræðileg gildi, eins og t.d. Móna Lisa.
Þess vegna mega fáir vísindamenn til þess hugsa að hún geti verið röng. - Það mundi kollvarpa svo mörgum öðrum kenningum í eðlisfræðinni og breyta heimsmyndinni algjörlega.
Þess vegna er nú beðið eftir því í mikilli eftirvæntingu, að tilraun vísindamanna við CERN-öreindahraðalinn í Sviss, þar sem þeir sendu fiseindir frá einum stað í annan, á meiri hraða en ljóshraða, verði endurtekinn af öðrum vísindamönnum, við aðrar aðstæður.
Fréttin um þessar óvæntu niðurstöður CERN manna, vöktu vissulega heimsathygli á dögunum, og fjöldi þekktra vísindamanna lýstu í kjölfar hennar yfir efasemdum sínum um að mælingar þeirra gætu verið réttar.
En eftir á setti menn hljóða. Það tekur tíma að melta slík tíðindi. Mörgum er eflaust hugsað til allra hinna vísindalegu kenninganna sem vísindin sjálf hafa afsannað í gegnum tíðina og féllu fljótlega undir yfirborð þess sem talist getur nálgun við sannleikann. En einmitt sú lýsing á betur við vísindalegar kenningar frekar en að þær opinberi sannleikann sjálfan.
Ef að niðurstöður CERN manna reynast réttar, verða fyrstu viðbrögð eflaust að reyna að stoppa eitthvað upp í afstæðiskenninguna þótt það kunni að reynast erfitt, vegna þess hve einföld hún er. Takist það ekki hefst ferlið við að endurskoða allar þær kenningar sem byggja á afstæðiskenningunni. -
Endurskoða þarf t.d stóra hvells kenninguna frá upphafi sem er reyndar þegar svo götótt að í henni stendur varla steinn yfir steini. Til að hún gangi upp þarf að finna svarta efnið, svörtu orkuna og svarta flæðið, allt hugartök vísindamanna sem þeir hafa búð til í þeim tilgangi að útskýra ýmis heimsfræðileg fyrirbrigði sem þeir í raun skilja ekki. Fram að þessu hafa vísindamenn ekki einu sinni tekist að koma með líklega tilgátu um hvað eða hvernig þessi efni og kraftar eru samsettir.
12.10.2011 | 20:15
Eru stjórnmálamenn óvinurinn?
Raddir fólksins heyrast nú aftur eftir dálítið hlé. Tilefnið er það sama og áður, þótt þessi ákveðni fundur sé hluti af víðtækari mótmælum. Raddir fólksins ætla að mótmæla "ofbeldi stjórn- og fjármálaheimsins gagnvart almenningi og krefjast þess að stjórnmálamenn taki umsvifalaust kröfur almennings fram fyrir kröfur fjármálaheimsins."
Það verður fróðlegt að sjá hvort Raddir fólksins séu sömu raddirnar og náðu að hrópa og berja út hrunríkisstjórnina og kreista út kosningar. - Kjörtímabili þeirra bjargvætta sem þá voru til kallaðir, er enn ekki lokið en trúin á verkstjórnarhæfileika Jóhönnu og staðfestu Steingríms virðist hafa fjarað út á mjög skömmum tíma. - Er það ofbeldi þeirra sem á að mótmæla? Eða eru stjórnmálamenn almennt óvinurinn?
Skoðanakannanir sýna að fólk heldur enn mikilli tryggð við stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkana. - Þær sýna að fólk er tilbúið að kjósa aftur yfir sig þá stjórnmálamenn se enn er verið að úthúða fyrir að bera ábyrgð á hruninu. - Eru það e.t.v. þeir stjórnmálamenn sem Raddir fólksins vilja nú kalla aftur að stjórnvölunum?
Mér sýnist í fljótu bragði að Raddir fólksins muni hljóma dálítið hjáróma nema þær séu tilbúnar til að afneita öllum stjórnmálamönnum, bæði fyrrverandi og núverandi stjórn, sem er reyndar að stórum hluta sama fólkið. - Og í staðinn verða raddirnar að koma með aðrar lausnir. Hverjar skyldu þær verða?
Nei, það sem gerist er að það upphefst sami söngurinn um brotin loforð og óheilindi þeirra sem nú eru við stjórn, í bland við vondapra áeggjan að gera nú dálítið betur.
Hvað auðmennirnir gera er ekki í höndum fólksins. Þeir eru ekki kjörnir til sinna starfa. Mótmæli geta með besta móti höfðað til samvisku þeirra og samfélagsvitundar. En stjórnmálamenn eru aftur á móti kjörnir fulltrúar fólksins, eða eiga að vera það. Þeir ráða að miklu leiti því umhverfi sem auðmennirnir athafna sig í. - En ég bíð spenntur eftir að heyra hvað Raddir Fólksins hafa nýtt fram að færa.
Efna til fundar á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2011 | 10:53
Besta áfallahjálpin
Íslendingar eru góðir með sig eins og vant er. Allt komið á rétta leið, bara nokkur andleg vandamál sem þarf að afgreiða þegar tími vinnst til. Helsta vandamál Íslands er ekki atvinnuleysi eða fátækt í kjölfar hrunsins, heldur svartsýni og pólitískt raus. Sem sagt 75% sálrænir kvillar. Fólk er svartsýnt af því að það er blankt og blankt af því að það er svartsýnt.
Steingrímur hefur nokkuð til síns máls. Hann er eflaust að tala um reiðina sem bullar undir yfirborðinu vegna þess að þjóðinni finnst hún vera með allt niðrum sig og réttilega það ekki vera sér að kenna. Reiðin heldur áfram að grassera, þrátt fyrir að efnahagurinn sé smá saman að rétta úr kútnum, því fólk hefur á tilfinningunni að ekkert hafi breyst. Þeir sem ollu tjóninu þurfa ekki að gjalda fyrir það og halda óáreittir áfram sínu lúxus lífi eins og ekkert hafi í skorist. - Það mundi vera mikil áfallahjálp í því ef þjóðin sæi eitthvað gerast í þeim málum.
Steingrímur J. minnist líka á pólitíkina. Hún er vissulega vandamál og helsta aflið sem sundrar þjóðinni. - Hvað hana varðar er Steingrímur sjálfur, miklu frekar hluti af vandanum heldur en lausninni. - Alþingi er skrípaleikur og alþingismenn trúðar.
Megin meðalið við því átti að vera ný stjórnarskrá. Það mál er að smá saman verið að kæfa inn á alþingi af alþingismönnum. - Samt heldur þjóðin áfram tryggð við flokkana og þingmenn þeirra. Ef það er ekki sálrænt vandmál, þá veit ég ekki hvað. Besta áfallahjálpin varðandi pólitíkina væri að leggja flokkana niður.
Annars vakti þetta viðtal við Steingrím mesta athygli meðal Breta fyrir þá hugmynd að hægt væri að komast út úr efnahagsörðugleikum með því að handstýra gjaldmiðlinum líkt og Bretar reyna að gera með sitt pund. - Þeim er hulin ráðgáta hvernig Íslendingum tókst það en ekki þeim. - Steingrímur minntist nefnilega ekkert á gjaldeyrishöftin og aðrar hömlur sem Bretar mundu aldrei geta komist upp með. - En Íslendingar eru jú svo klárir.
Vandi Íslands sálfræðilegur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.10.2011 | 09:48
Frekir frónbúar
Eitt helsta vopn nei-manna í ESB umræðunni er að þjóðin yrði að láta af hendi umráð yfir fiskistofnum sínum og landgrunni. -
Samkvæmt Isabellu Löven þingmanns sem situr á Evrópuþinginu fyrir Græna flokkinn í Svíþjóð og á sæti í sjávarútvegsnefnd þingsins, þurfa nei-menn engar áhyggjur að hafa.
Kröfur Íslendinga eru svo frekjulegar að nefndin sagði þeim að "fara til fjandans".
Eitthvað slær samt út í fyrir Isabellu því hún bæði heldur og sleppir. Um leið og hún fullyrðir að Íslendingar fái engar meiriháttar undanþágur hvað varðar umráð yfir sjávarauðlindum sínum, segir hún að verið sé að breyta sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og sú breyting gæti komið mikið til móts við kröfur Íslendinga. -
Ísabella á hér eflaust við sameiginlega ályktun sjávarútvegsmálaráðherrar ESB um að færa stjórnun fiskveiða alfarið heim til þeirra landa sem sjávarútveg stunda í stað þess að reyna stýra honum frá Brussel.
11.10.2011 | 19:04
Reiði, harmur og sorg biskups
Biskupar landsins leitast nú við að sefa reiði fólks og hugga harm og sorg þá er mál Guðrúnar Ebbu hefur vakið meðal þjóðarinnar. Yfirlýsing þeirra bendir til að afstaða þeirra til málsins og kirkjunnar þar með, hafi lítið breyst .
Málsmeðferðin hefði verið sú sama, segir hann, þótt augljós mistök hafi átt sér stað. Reiðin, harmurinn og sorgin sem biskup talar um í yfirlýsingu sinni eru samt ekki hans, heldur einhverra annarra. Hvergi örlar á fordæmingu á biskupnum sem ódæðin vann, þrátt fyrir að ýjað sé að því að kirkjunnar þjónar trúi samt framburði Guðrúnar. -
Hugmynd þeirra er greinilega að hægt sé að sigla fram hjá þessu og lempa málið án þess að einhver einn, hvað þá kirkjan sjálf, verði kölluð til ábyrgðar. Líklega eru þeir smeykir við að dæma svo þeir verði ekki dæmdir sjálfir. -
Kirkjunnar menn finna sig þó knúna til aðgerða af einhverju tagi og hafa gripið til ýmissa úrræða til að friða þá tilfinningu. Allar miða þær að því að bregðast rétt við næst þegar slíkt eða svipuð mál koma upp innan kirkjunnar, því ekki er hægt að búast við að þeir geti alfarið komið í veg fyrir að slíka verknaði. Þannig geta þeir huggað þeir sig við að þessi skelfilegi verknaður æðsta manns kirkjunnar verði að lokum til einhvers góðs. -
Hafði ekki áhrif á málsmeðferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.10.2011 | 02:49
Aftur vel efnað fólk á Íslandi
Svo að fólk geti selt frá sér ýmsan húsbúnað og skrautmuni til að eiga fyrir salti í grautinn, þarf einhver að eiga peninga til að kaupa. - Fréttirnar segja að neyðin sé það mikil að allt sé til týnt og sumt sem í boði er sé aðeins nokkra þúsundkalla virði.
En misjafnt hefst nú fólk samt að.
Á þessu uppboði hjá Gallerí Fold er greinilegt einhverjir hafa seilst í heilagt ættargóssið til að selja og aðrir í afar djúpar buddur til að kaupa. -
Það hlýtur samt að vita á gott að til er fólk á Íslandi sem munar ekkert um að slá út fyrir einu málverki á tvær og hálfa milljón. - Alveg í takt við uppganginn í landinu er það ekki og þá óhjákvæmilegu staðreynd að hinir ríku verða ætíð ríkari og hinir fátæku fátækari.
Ingólfur sleginn á 900.000 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.10.2011 | 19:40
Flokkakerfið mun hrynja innan frá
Það er staðreynd að þeir mörgu sem hafa bent á óbætanlega galla flokkakerfisins og vilja gjarnan leggja það af, hafa ekki erindi sem erfiði. Lilja Mósesdóttir þingmaður er í þeim hópi. Hún var kosin þing sem fulltrúi stjórnmálaflokks og hugðist sjálfsagt ætla að breyta kerfinu innafrá. - Það tókst henni ekki, þrátt fyrir skeleggan málflutning oft á tíðum. - Spurningin er hvort hún sé hluti af vandamálinu frekar en lausninni.
Þegar sverfur að efnahag fólks, grípur jafnan um sig hræðsla meðal þess. Þegar fólk verður hrætt, verður það íhaldsamt og vill engar breytingar. Það vill í raun halda sig við það og þá sem mótuðu umhverfi þeirra á meðan flest lék í lyndi, jafnvel þótt hið sama og/eða þeir hinir sömu, hafi orsakað kreppuna. - Jafnvel þótt íslenska þjóðin hafi í bræði sinni hrakið hrunflokkana frá völdum, eru þeir vísir til að kjósa þá yfir sig aftur við fyrsta tækifæri. - Þannig hagar maðurinn sér þegar hann lætur stjórnast af hagrænni eðlishvöt, líkt og maurinn í maurabúinu. -
Til að velta þessu flokkakerfi úr sessi og koma á alvöru lýðræði þarf miklu róttækari breytingar en þær sem Lilja reynir að standa að með sínu starfi. - Slíkar stórfeldar breytingar munu verða fyrr eða síðar, eftir tveimur mögulegum leiðum. Sú fyrri og sú líklegri er að dauðaþrot flokkanna verður svo augljóst að þeir hafa ekki lengur ítök í hugum eða hjörtum almennings og verði þar með ónýtur vettvangur fyrir valdgráðuga flokksstjóra. Hin leiðin er almenn og algjör hugarfarsbreyting meðal almennings. - Aflið sem knýr slíka hugarfarsbreytingu er fyrst og fremst löngunin og sýnin á betra samfélag. Slík sýn er því miður ekki enn svo ófullburða og ónákvæm að fyrri leiðin, þ.e. algjört og óafturkræft hrun flokkakerfisins innanfrá verða hlutskipti stjórnarfars landsins,áður en langt um líður.
Þjóðin vill óbreytt flokkakerfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.10.2011 | 22:01
Skrímsli í biskupsskrúða
Í bókinni Æviþættir lýsir Ólafur Skúlason Biskup því mærðarlega hvaða áhrif ásakanirnar á hendur honum höfðu á dóttur hans Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur.
"Hann segir þó að það hafi ekki verið af því að hún efaðist um föður sinn, heldur fyrir það að konur sem hún þekkti gætu látið svona. Um Guðrúnu Ebbu segir hann: [S]árast var það fyrir eldri dóttur okkar, Guðrúnu Ebbu, sem þekkti sumar þeirra kvenna, sem hvað harðast dæmdu föður hennar í algjörri einsýni. Hún hefur alla tíð verið mikið pabba barn og breytist ekki þó árunum fjölgi. DV 24. ágúst 2010;
"Aðspurður hvernig kirkjan ætli að bregðast við þessu ásökunum á hendur Ólafi sagði Karl Sigurbjörnsson, biskup:
Það er mjög erfitt að bregðast við slíkum ásökunum sem koma fram með þessum hætti. Séra Ólafur er látinn. Við verðum að muna það og hafa það í huga að enginn mannlegur máttur getur dæmt í þessu máli." DV 20. ágúst 2010
Karl Sigurbjörnsson biskup, finnst ekki að kirkjan geti aðhafst nokkuð í máli Ólafs. - Allt sem eftir hann stendur á ferlinum skal áfram standa, gott og blessað í fyllstu orðsins merkingu.
Séra Björn Jónsson segir þessi öfugmæli um Ólaf í grein á sjötugsafmæli hans:
Í einkalífi sínu hefir herra Ólafur verið mikill gæfumaður. Hinn 18. júní 1955 gekk hann að eiga Ebbu Guðrúnu Brynhildi Sigurðardóttur, sem ættuð er frá Siglufirði. Ebba er einstök kona, í ríkum mæli búin þeim eiginleikum, sem fegurst mega konur skrýða. Hún er falleg og hjartahlý, göfug og góð. Brosið hennar bjarta minnir á heiðan himin, staðfastur vilji og viðleitni til þess sem bætir og blessar er í ætt við hið styrka og hreina stál. Það er Ólafi biskupi lífstíðargæfan mesta, að eiga slíkan förunaut sér við hlið. Með slíkan ástvin hið næsta sér er enginn einn á ferð. Þau hjónin eiga þrjú börn. Elst þeirra er Guðrún Ebba, formaður Félags grunnskólakennara, gift Stefáni Ellertssyni, hafnsögumanni í Reykjavík, þá er Sigríður, húsmóðir í Reykjavík, gift Höskuldi Ólafssyni viðskiptafræðingi og yngstur er Skúli Sigurður, prestur á Ísafirði, kvæntur Sigríði Björk Guðjónsdóttur, sem gegnir skattstjóraembætti þar.
Mikið barnalán er biskupshjónum sístætt gleði- og þakkarefni. Og í dag eru barnabörnin orðin sjö talsins, öll vel af Guði gerð og hvert öðru efnilegra.
Fáir ef nokkrir íslendingar hafa notið jafn mikilla mannvirðinga og Ólafur.; Fjórum sinnum var hann t.d. heiðraður fálkaorðunni. Fáir ef nokkrir aðrir áttu það minna skilið að vera heiðaraðir.
Ólafur Skúlason dómsprófastur fékk riddarakross árið 1982
Ólafur Skúlason vígslubiskup fékk stórriddarakross árið 1987
Ólafur Skúlason biskup fékk stórriddarakross með stjörnu árið 1990
Ólafur Skúlason biskup fékk stórkross árið 1999
Beitti hana ofbeldi árum saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.10.2011 | 13:52
Margt sem Lennon væri óhress með
Imagineer frægasta lag John Lennon. Friðarsúlan í Viðey er einskonar framlenging af texta þess lags og á hana er rituð skírskotun í textann á nokkrum erlendum tungumálum, eða "Ímyndið ykkur frið".
Á íslensku stendur hinsvegar eitthvað allt annað, eða "hugsa sér frið" sem á ensku mundi vera "thinking of peace".
Hvað og hver réði því að þessi túlkun eða þýðingarvilla varð ofaná, þegar að friðarsúlan var sett upp, veit ég ekki. En trúlega mundi John ekki vera sáttur við hana, eins nákvæmur ljóðasmiður og hann var. - Munur orðanna er augljós og óþarfi að rökstyðja hann frekar.
John væri ekki ánægður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2011 | 01:30
Hvað er satt um tippastærðina?
Eitt sinn var það mál manna að stærð einkabíla karla væri ætíð í öfugu hlutfalli við tippastærð þeirra. Sem sagt, eftir því sem bifreiðin var stærri, því minni limurinn. - Þetta var auðvitað tóm vitleysa og öfund í bland.
Meðal stelpna voru stórir strákar á stórum drossíum vinsælir,( og eru það eflaust enn) og ekkert er líklegra en að þeir hafi stór tippi líka.
Tippastærð karla, gallar og kostir, hefur ætíð verið dularfull umræða. Allar fræðibækur og greinar sem fjalla um málið, segja venjulega að stærð og þykkleiki lima skipti ekki miklu máli fyrir virkni þeirra í kynlífinu, nema að um óeðlilega smæð sé að ræða. - Konur taka yfirleitt undir þetta, þótt þær vilji sjálfsagt líka að menn þeirra séu vel vaxnir niður, jafnt sem annarsstaðar. Aðalatriðið er að maðurinn samsvari sér, segja margar.
Klámmyndaframleiðendur virðast hins vegar vera á öðru máli. Þeir keppast við að fá karlmenn með sem stærstu tippin til að koma fram í myndum sínum og mestu klámstjörnurnar eru jafnan afar tippastórir karlmenn. -
Hverju sem veldur, hafa karlmenn í auknum mæli notað sér framfarirnar í læknisfræðinni og gengist undir aðgerðir til að lengja á sér liminn. - Spurningin er hvort ákveðin viðhorfsbreyting hafi orðið meðal kvenna, og karla í kjölfarið auðvitað, sem kallar á þessa aukningu. -
Eða getur verið að klámvæðing heimsins eigi þarna stærstan hlut að máli? -
Í nokkrum vinsælum (ekki bláum) kvikmyndum sem ég hef séð upp á siðkastið er augljóst að viðhorf klámkvikmyndagerðarmannanna eru að verða viðtekin í venjulegum bíómyndum. - Konur viðurkenna þar fúslega eftir tvö eða þrjú rauðvínsglös að limastærð skipti þær máli í kynlífinu.
Aðrar kvikmyndir gefa þetta sama í skyn með því að láta konur gapa af undrun og rymja af ánægju við að sjá hjásvæfurnar sínar berar, svona eins og Amanda í Sex in the city gerði alltaf.
Hver er sannleikurinn um tippastærðina? Kannski einhverjar konur vilji tjá sig um það.
Ræður mönnum frá limlengingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.10.2011 | 19:47
Upplýsingaskömmtun í anda Kína
Þetta er Bretum líkt. Að banna auglýsingu sem kemur illa við kaunið á breskum og bandarískum stjórnvöldum og bendir á skammarlega frammistöðu þeirra í Afríkulöndum þar sem milljónir svelta heilu hungri þessa dagana. Að bera því fyrir sig að auglýsing Bono og félaga sé of pólitísk er fáránlegt. Það er aðeins verið að tryggja að sjónarmið stjórnvalda ein heyrist.
Fáu efni er helgaður jafn mikill tími og pólitík í ríkissjóvarpinu þeirra BBC. Þeir sjónvarpa að sjálfsögðu frá þingfundum, báðum deildum. Að auki senda þeir út frá þingunum í Skotlandi og Welsh. Sjónvarpað er daglangt frá landsfundum stóru flokkanna þriggja, pólitískir umræðuþættir eru fjölmargir, auk þess sem fréttatímar gera auðvitað stjórnmálum góð skil. - Megnið af þessu er flokkspólitískt þus um innanríkismál.
Þegar sagt er frá hernaðarbrölti þeirra í Afganistan eru það yfirleitt lof yfirmanna hersins um látna drengi sem þeir eru að senda heim í líkkistum eða myndir af hermönnum á hlaupum milli húsarústa í Helmut héraði. - Umræður um styrjaldir Breta, í Afganistan, Í Líbýu eða Írak eru fáar nú orðið.
Sveltandi börn í Afríku, fá heldur ekki mikla umræðu á sjónvarpsstöðvum BBC. - Þegar að fjárlagatölur um aðstoð Breta við þróunarríkin voru gerða kunnar fyrir fáeinum vikum fór mesta púðrið í að ræða hvort Bretar ætluðu virkilega að senda peninga til lands sem hefði sína eigin geimferðaáætlun. -
Hungurauglýsing Bonos bönnuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2011 | 08:19
Brosa gegnum tárin
Það væri ekki úr vegi að benda Titanic á að sé þeir að leita illkvittnu og rakalausu háði um land og þjóð, ættu þeir að kíkja á sjálfa þjóðmálaumræðuna á Íslandi. Hún er svo rætinn að kvartað er yfir henni reglulega úr pontu í sölum alþingis. Jafnvel hinir sjóuðustu kjaftaskar kveinka sér undan hroðanum og skrifa langar greinar til að biðja sér vægðar. -
Á Íslandi er til fólk sem síðustu misseri hefur flotið upp á gruggugt yfirborðið í opinberrar þjómálumræðu, sem er svo orðljótt og illkvittið um þá sem eru á öndverðum meiði, að margt fórnarlambið væri í fullum rétti að beita meiðyrðalöggjöfinni fyrir sig sér til varnar. - Samt hefur verið tiltölulega lítið gert af slíku. - Að vera kallaður landráðamaður og þjóðníðingur fyrir það eitt að leita eftir möguleikum á samstarfi við aðrar þjóðir, þykir ekkert tiltökumál orðið.
Reyndar eru svo mikil brögð af þessu að allt skynsamt fólk er hætt að láta heiftina hafa á sig áhrif önnur en þau að aumkast yfir sársaukann sem hlýtur að vera hvatinn af slíkum reiðiflaumum.
Annars vita Þjóðverjar alveg hvað það er að láta gera að sér grín. Fáar þjóðir hafa þurft að þola af hendi heimsins jafn biturt háð og þeir. Þeir hafa fyrir löngu lært það sem Íslendingum er smá saman að lærast; að brosa gegnum tárin.
Úthúða Íslandi á bókamessu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2011 | 13:51
Kunna ekki textana í brekkusöngnum
Árni Johnsen og Róbert Marshall eru báðir söngelskir og ljóðadýrkendur. Þeir vita hvað klukkan slær þegar kemur að kunnáttu íslensks ungdóms hvað varðar ljóð og sönglög.
Báðir hafa t.d. stýrt fjöldasöng á fjölmennustu útihátíð landsins til margra ára, Þ.e. Þjóðhátíð í Eyjum. (Það var einmitt Róbert sem leysti Árna af í brekkusöngnum sumarið sem Árni sat inni.)
Árni hefur verið þekktur fyrir að halda uppi mikilli stemmningu með því að syngja og leika gamla íslenska slagara.
E.tv. hefur Árna blöskrað síðustu árin hversu illa krakkarnir kunna textana við íslensku sönglögin í brekkusöngnum og vill bæta úr því með þessari þingsályktunartillögu.
Þriðji þingmaðurinn sem stendur fyrir ályktuninni er Ólína Þorvarðardóttir, sjálfskipuð útvörður íslenskrar menningar á þingi og af landsbyggðinni í þokkabót eins og hin tvö.
Vonandi verður þetta samþykkt svo rútu og brekku söngur verði vinsæll að nýju meðal ungmenna. Fátt er eins vel til þess fallið að vekja og viðhalda heilbrigðri þjóðerniskennd.
Auka skuli hlut ljóðakennslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2011 | 10:43
Trúarrit á sama stall og klám
Afkristnun þjóðfélagsins heldur áfram og gengur bærilega. Trúleysingjar fagna því. Þeim finnast tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkur vera til mikilla bóta ef eftir þeim verður þá farið. En tillögurnar vekja upp margar spurningar. Trúarrit eru t.d. þarna sett á sama stall og klám, sem eru einu ritin sem fram að þessu hafa verið bönnuð í skólum landsins.
Krossar og helgimyndir verða að hverfa af veggjum skólanna og þá er ekki langt í að börnum verði bannað að bera á sér trúartákn, eins og krossa um hálsinn, til að það mengi ekki huga annarra barna.
Ekki má lengur gefa skólabörnum nein trúarrit að lesa í skólum landsins, né mega lífsskoðunar félög boða þar skoðanir sínar. Hvað er lífsskoðunarfélag? Er stjórnmálaflokkur lífsskoðunarfélag, samtök áhugafólks um mismunandi kynlífsaðferðir, skátarnir?
Vonandi fylgir þessum tillögum listi yfir hverjir mega koma í skólana og hverjir ekki.
Og hvernig verður tekið á helgidagahaldi? Verður áfram aðeins gefið gefið frí á kristnum helgidögum? Munu litlu jólinhverfa að fullu? Og hvað með tímatalið? Hvernig stendur á að skólar miða enn tímatalið við fæðingu Krists? Og væri ekki hægt að breyta nafninu á föstudegi? -
Trúin í skammarkrókinn? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
5.10.2011 | 00:03
Amerískur húmor!
Já auðvitað er hlegið að Íslendingum, enda erum við ótrúlega fyndnir.
Nýlega rakst ég á bók sem á að vera um snjallar glósur þar sem minnst er á Ísland. Einhver Dr. Johnson skrifar í bréfi til frú Crisstopher Smart árið 1791. "Þótt Dublin sé miklu verri staður en London er hún ekki jafn slæm og Ísland".- Þetta þykir Bretum voða fyndið. Útlendingar hafa svo sem hlegið á kostnað okkar Íslendinga frá alda öðli.
Af slíku og því um líku háði, hafa íslendingar þróað með sér afar þykkan skráp og hefur hann orðið sýnu þykkari síðastliðin þrjú ár, í samræmi við tíðni skotanna sem við þurfum að standa af okkur. Við getum meira að segja hlegið með, bara ef við rifjum upp hvernig við vorum hér áður en við fórum að taka allt sem okkur varðaði, svo hátíðlega, að það rigndi í nefið á okkur. (Reyndar þarf maður ekki að vera neitt sérlega uppskrúfaður til að gerist á Íslandi, þegar við tökum veðráttuna með í reikninginn)
Ef í harðbakkann slær getum við svarað í sömu minnt og brugðið fyrir okkur beinskeyttum háðglósum sem allir Íslendingar hafa hlotið sérmenntun í, þar sem sérhæfðasta formið er auðvitað ferskeytlan. Og þeir sem einhverra hluta vegna hafa tínt niður þeirri þjóðaríþrótt og eru í návígi við grínistann, geta tekið á hann eins og einn tvo Johnsena, svo hann tali alla vega ekki meira þann daginn. Það er gamall og góður víkingasiður.
Enn annars í alvöru;
Michael Lewis nálgast yfirleitt viðfangsefni sín með mjög opnum huga, svo opnum að gegnumtrekkurinn er honum til vansa. -
Hann er greinilega einn af þessum hæfileikalausu snillingum sem svo mikið er af í heimalandi hans.
Hann er metsöluhöfundur í landi þar sem það telst til meiri háttar afreks að kunna að lesa og sérstaða menningarinnar felst í því að þar má taka hægri beygju á rauðu ljósi.
Hann skrifar bækur um efni sem Ameríkanar mikla sig af að kunna og geta manna best, þ.e. að hafa peninga út úr náunga sínum.
Þjóðin er sú eina í sögu mannkynsins sem hefur farið beint úr barbarisma til hnignunar án þessa venjulega millistigs sem við köllum siðmenningu.
Þá leið hefur þjóðin farið án þess að vita neitt í hvað stefndi. Aðalmálið var að komast þangað hratt.
Ég gæti alveg haldið svona áfram í alla nótt, ég bara hef ekki orku í það. Búinn að hlægja svo mikið. Íslendingar eru sko fyndnir.
Hlegið að Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2011 | 20:05
Sannleikur sannleiksnefnda
Fá mannhvörf á Íslandi hafa verið rannsökuð jafn rækilega og hvarf Geirfinns Einarssonar. Og það er fjarri mér að amast við upptöku þess máls ef það má verða til þess að linna sársauka þeirra sem verst urðu úti í tengslum við ásakanir um meinta glæpi tengda því. - Reyndar er þessi ráðstöfun samt allt of sein á ferðinni til að fólk geti vonast eftir að hún verði til að þau grói um heilt sárin sem svo margir hlutu af hörmulegri málsmeðferð þessa máls.
Sannleiknefndir eru vinsælar erlendis, sérstaklega þegar grunur leikur á að sannleikanum hafi verið hagrætt af stjórnvöldum gagnvart almenningi. -
Á Íslandi hafa aðeins tvær sannleiksnefndir starfað svo ég muni. Önnur á vegum Alþingis til að rannsaka bankahrunið og á niðurstöðum hennar er nú verið að lögsækja Geir Haarde. Það fer um mann aulahrollur í hvert sinn sem það mál ber á góma.
Hin sannleiksnefndin var á vegum Kirkjunnar til að rannsaka viðbrögð hennar við ásökunum á hendur Ólafi Skúlasyni um kynferðisafbrot. Þar fannst vitanlega ekkert sem neinu breytti.
Verði tillagan um sannleiksnefnd til að rannsaka Geirfinnsmálið samþykkt, vona ég að niðurstöður hennar verði meira sannfærandi en niðurstöður þessara tveggja nefnda sem við höfum nú þegar reynslu af.
Á Bretlandi var af góðri og gildri ástæðu skipuð sannleiksnefnd til að rannsaka nákvæmlega aðkomu Bretlands að innrásinni í Írak. Þar komu fram upplýsingar sem sönnuðu að innrásin var gerð á fölskum forsendum og að ráðamenn innrásarþjóðanna vissu það vel. -
Þegar Ísland lýsti stuðningi við þá styrjöld og þær hörmungar sem ekki er séð fyrir endann á enn, var það á ábirgð tveggja manna að landið tapaði siðferðilegri stöðu sinni meðal þjóða heimsins. Það var ófyrirgefanlegt klúður sem er þess virði að rannsaka og setja í sannleiksnefnd. -
Vilja sannleiksnefnd um Geirfinnsmálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)