Öfugmælið Iceland Express

Ég ætlaði að fljúga til London í morgunn með Iceland Express. Ætlaði að vera viðstaddur stór-afmæli niður  í Cornwall í kvöld. Vélin átti að fara samkvæmt bókuninni kl: 08.20 og lenda 20 mín yfir 12 að staðartíma. Nægur tími til að komast með lest á áfangastað, jafnvel þótt fluginu seinkaði dálítið eins og vaninn er hjá þessu flugfélagi sem reyndar er svo alls ekki flugfélag þegar nánar er skoðað heldur söluskrifstofa fyrir eitthvað enskt flugfélag og  lætur bara alla halda að hún sé alvöru flugfélag.-

Þegar ég kom á Keflavíkurflugvöll sá ég að flugið var áætlað kl: 8:50,- seinkun sem ég get sætt mig við,  hugsaði ég. Þegar klukkan nálgaðist 9:00 og ekki var enn farið að hleypa um borð í vélina mjakaði ég mér fram hjá langri röð farþega sem stóðu þolinmóðir við útganginn og biðu eftir að verða hleypt um borð.

Fyrir aftan afgreiðsluborðið stóð ung stúlka og brosti. "Hvað er mikil seinkun í viðbót?", spurði ég. Hún sagðist ekki vita það, en hún væri að bíða eftir nákvæmari upplýsingum. Í þeim töluðu orðum kom ungur maður að borðinu og af orðum hans sem hann beindi reyndar að stúlkunni, mátti skilja að flugvélin væri biluð og það ætti að athuga með flugið kl. 11:00.

Hann bað stúlkuna, sem var greinilega farin að vera óstyrk, að tilkynna þetta í kallkerfið. Fyrir aftan mig var fólk farið að ókyrrast og kalla á pörin fyrir innan borðið og vildi geinilega vita hvað væri á seyði.

Stúlkan færðist undan því að tilkynna seinkunina og sagðist aldrei hafa gert svona áður og hún kynni ekkert á kallkerfið. Ungi maðurinn reyndi að telja í hana kjark og eftir nokkurt þref beygði hún sig niður undir afgreiðsluborðið og af því að ég stóð svo nálægt heyrði ég hana stauta sig fram úr afsökunarbeiðni, tilbúnum texta sem maðurinn hafð fundið handa henni í einhverri möppu.

Ekki heyrðist samt múkk í hátalarakerfi flustöðvarinnar.

Fólk fyrir aftan mig var nú byrjað að hrópa og vildi fá að vita hvort það ætti að fljúga eða ekki. Unga manninum varð þá ljóst að skilaboð stúlkunnar höfðu ekki komist til skila því kallkerfið virkaði ekki frá afgreiðsluborðinu.

Þetta var all-pínleg staða. Úti stóð flugvélin biluð og inni var kallkerfið bilað. Ungi maðurinn tók sér nú stöðu fyrir framan afgreiðsluborðið og hóf að útskýra það fyrir nærstöddum að hann væri ekki vélvirki og gæti því ekki sagt neitt um hvenær eða hvort vélin mundi  fljúga.

Stúlkan sat á meðan fyrir aftan hann heldur hnýpin og lét lítið fyrir sér fara. - Ungi maðurinn benti fólki á að fara til þjónustuborðs fyrir utan biðsalinn til að fá nánari upplýsingar. - Ég brá mér þangað og hitti þar fyrir miðaldra konu sem sat við tölvu. "Það á að athuga með flugið kl:11:00"  tjáði hún mér. "Matarmiðum verður útbýtt eftir að þrjár klukkustundir eru liðnar frá áætlaðri brottför"  tilkynnti hún svo á ensku, því fyrir framan hana hafði  nú safnast saman hópur farþega sem vildi fá upplýsingar um hvað þessi söluskrifstofa ætlaði að gera fyrir fólkið. Margir sögðust vera að missa af tengiflugi til annarra áfangastaða.  Við því var lítið að gera taldi konan.

Um kl. 10:30 birtist á skjánum og brottfarir og komur að þessu ákveðna flugi til London mundi seinka til 16:30.

Það er auðvitað nokkuð ljóst að ég verð af afmælisveislunni. Næsta flug til Bretlands er kl: 16:00 með Icelandair og með þeim kostar farið um 80.000 kall. Farmiðinn með Iceland Express var 50.000 krónum ódýrari og sá munur nægði til að ég var tilbúinn til að taka áhættuna (sem ég vissi að var veruleg) á talverðri seinkun. En að hún yrði meira en 8 tíma var nokkuð sem ég reiknaði alls ekki með.

Nú sit ég leiður og súr og bíð eftir að skrifstofa þeirra Express manna svari í símann. Ég er númer 2 í röðinni en komst áðan upp í að vera númer eitt í röðinni. Ég hringdi um leið og ég hóf að skrifa þennan leiða pistil fyrir klukkustund eða um leið og skrifstofa þeirra á að opnaði kl. 11.00. 

Rétt í þessu var mér svarað. Jú það verður örugglega flogið í dag, staðfest brottför kl: 17:15!

Ef ég vill fá miðann endurgreiddan verð ég að hringja aftur í dag, jafnvel þótt það taki klukkustund að fá samband.  Ekki er hægt að senda tölvupóst í því skyni og já, hún mundi láta einhvern vita af þessu rugli í símkerfinu þar sem fólk rokkar sjálfvirkt milli sæta í röðinni sem það bíður í.

Niðurstaðan er að það sé um að gera fyrir fólk að fljúga með Iceland Express ef það skiptir engu máli fyrir það hvenær flogið er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Svanur, ég samhryggist þér að lenda í þessu klúðri en býð þig samt velkominn í hóp vonsvikinna fyrrverandi viðskipavina IE.

Fletti upp á brottförum dagsins þegar ég hafði lesið pistilinn þinn og sá að í morgun voru 5 Evrópuflug (á áætlun) á vegum félagsins, og eitt fyrirhugað síðdegis sem sagt er á áætlun - semsagt London/Gatwick kl. 16:55.

Vélarbilun er ekki verri afsökun en hvað annað til þess að geta sameinað þessi tvö flug, morgun- og síðdegisflugið :)

Kolbrún Hilmars, 14.8.2011 kl. 13:43

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Kolla

Þetta er fyrir neðan allar hellur hjá IE. Ég var að frétta að þeir segjast hafa þurft að senda aðra vél frá UK vegna bilunarinnar í flugvélinni sem fljúga átti á Gatwick. Trúi því mátulega því að ein þeirra sex véla sem þeir hafa aðgang að var sögð í lamasessi einhversstaðar út í heimi.

Auðvitað verða þeir að sameina flugin ef þeir hafa ekki nægar vélar til að fljúga áætlunina.

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.8.2011 kl. 14:16

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hefurðu prófað að hrekkja liðið með því að biðja um að farseðillinn þinn með morgunflugi nr. 501 verði yfirfærður á síðdegisflugið nr. 503?

Það munar jú 20 mínútum á brottfarartíma...

Kolbrún Hilmars, 14.8.2011 kl. 14:27

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.8.2011 kl. 15:15

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

he he þetta er ekkert smá ömurlegt "flugfélag" ..

Óskar Þorkelsson, 14.8.2011 kl. 16:17

6 identicon

Samúðarkveðjur!

Annars birtu þeir hróðugir fréttatilkynningu í vikunni þar sem þeir sögðu að 95.000 manns hefðu flogið með þeim í júlí.

Verst bara að 25.000 af þeim áttu bókað flug í júní!!! 

Sverrir G. (IP-tala skráð) 14.8.2011 kl. 17:17

7 identicon

Já Sverrir og 10.000 áttu víst bókað flug í maí. Sorglegt að þeim skuli heimilt að nota "Iceland" og "Express" í nafninu sínu. Ef forstjóranum er annt um land sitt þá ætti hann að breyta um nafn á félaginu.

Ég segi: Til að nota "Iceland" þurfa þeir að vera land og þjóð til sóma og til að mega nota "Express" þá skuli þeir vera með yfir 95% öryggi í áætlunum.

Björn (IP-tala skráð) 14.8.2011 kl. 20:59

8 identicon

Ef ég hef rétt tekið eftir þá er sameiginlegur eigandi á "söluskrifstofunni" og "flugfélaginu" IE.

Aðskilið eignarhald virðast afmá/útvatna ábyrgð beggja aðila..fullkomið, fullkomið.

Hvað segir það um okkur neitendur ??

Þrátt fyrir hörmulega þjónustu þá hefur félagið enn í dag öflugar grúppíur.

Sumir líta "rómantískt" á IE sem bjargvætt þjóðarinnar, bjargvætt sem ætíð er yfir gagngrýni hafinn sökum samkeppni félagsins við FL.

Ætli þessar grúppíur séu ekki sama "greindarhamlaða" liðið sem enn heldur fram þeirri staðreynd að bónus hafi einungis innleitt fullkomna gæfu fyrir land og þjóð..hversu lengi þarf bálið að brenna til að einfaldir sálir finni vott af lykt ??

Menn verða að skoða "bottom line" þegar menn skilgreina endanlegan hagnað/gæði af þjónustu eða verslun sem við skiptum við.

Það er hrein heimska að afsaka alla galla (eða eignarhald) IE vegna þess eins að fyrir 10 árum síðan stuðlaði félagið að samkeppni í fólksflutningum og gerði það vel!

runar (IP-tala skráð) 14.8.2011 kl. 22:27

9 identicon

Ég dáist að þessari færslu þinni, Svanur. Samúðin og umburðarlyndið sem færslan ber vitni um gagnvart starfsfólki IE þarna við útgangin finnst mér hreint aðdáunarverð.

Það vill svo til að ég þarf að fljúga til London þ.5.9. og til baka þ.12.9.  IE gefur upp verð fyrir retour flug á þessum dögum  sem er  9062,00 ísl. kr lægra en verðið sem Icelandair gefur upp. (IE flugið er til Gatwick en Icelandair flugið er til Heathrow og munurinn á lestarferð fram og til baka frá miðborginni er sáralítill  eða 5 pundum ódýrari frá Gatwick.) 

Fínt að spara níu þúsund krónur en yrðu þær ekki fljótar að fjúka EF ég þyrfti að dúsa í "stofufangelsi" í Leifsstöð í nokkra klukkutíma sem IE farþegi?

Hvernig get ég reiknað þetta flugmiðadæmi svona sirka bát?

Agla (IP-tala skráð) 15.8.2011 kl. 13:26

10 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Svanur, nú hefurðu líklega náð heilu og höldnu á áfangastað, en ég er forvitin um málalokin:

Fékkstu uppbótarflugmiða hjá IE á forsendunum "It´s been such fun - let´s do it again!" ?

Kolbrún Hilmars, 15.8.2011 kl. 15:43

11 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl öll og takk fyrir athugasemdirnar.

Hér kemur framhaldið af þessari leiðu ferðasögu.

Svanur Gísli Þorkelsson, 16.8.2011 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband