Útnesjamenn eftirlegukindur í efnahagsbatanum

Það er erfitt að átta sig ástandi þjóðarsálarinnar um þessar mundir. Á sama tíma og stjórnarliðar segja efnahaglegan bata landsins vel á veg kominn og bankarnir tilkynna aftur um milljarða króna hagnað, skín vantrú og vonbrigði, sem oft verður líka að kaldhæðnislegu glotti,  úr andlitum almennings.

En hvers er að vænta af þjóð sem trúði einlægt á ákveðnar hugsjónir sem ollu þeim svo skelfilegum vonbrigðum, treysti fólki sem síðan sveik hana, sem hafði ákveðna sýn á framtíðina sem aldrei varð að veruleika.

ReykjanesbaerinnReyndar bera sig einhverjir mannalega, einkum í litlum byggðarlögum út á landi sem voru svo heppin, (eða forsjál) að kreppan náði aldrei til þeirra að ráði og allir héldu atvinnu sinni og lífsviðurværi.

En þar sem atvinnuleysið er mest og hefur varað hvað lengst, eins og suður með sjó í Reykjanesbæ,  þar sem atvinnuleysið er 13 til 14%, liggur ráðaleysið eins og mara yfir fólkinu og bænum öllum.

Fyrir marga er Hafnargatan í Keflavík andlit bæjarins. Að ganga eftir henni er átakanlegt. Þar getur að líta allt of marga auða útstillingarglugga, gapandi tómar augntóftir fyrirtækja sem eitt sinn voru matarholur einhverra íbúa bæjarins. -

ReykjanesbaerOg sú þjónusta og verslun sem enn lifir í plássinu á í vök að verjast. - Sumir bæjarbúar virðast halda að þeir séu að spara með því að aka alla leið til Reykjavíkur til að versla. - Á góðri stundu, er kallað eftir samstöðu, en hún fer fyrir lítið þegar fólk rýnir i budduna sína og heldur, hvort sem það er svo rétt eða ekki, að það geti sparað nokkrar krónur á að renna í Reykjavík til að versla. En það verður líka að horfa til þess að ýmsa þjónustu, sérstaklega heilbrigðisþjónustu sem skorin hefur verið niður af ríkisvaldinu,  er ekki  lengur hægt að fá í Keflavík.

Stóru hugmyndirnar, allsherjar-lausnirnar sem m.a. fólu í sér byggingu álvers í Helguvík og/eða annars orkufreks iðnaðar eða þjónustu eins og alþjóðlegs tölvugagnavers upp á velli,  og sem bæjarstjórinn þreytist ekki á að telja upp í ræðu sinni í tilefni Ljósanætur á hverju ári í mörg ár, hafa eins og allir vita, ekki orðið að veruleika.

Nýsköpun í atvinnulífinu eru orðin tóm á Suðurnesjum og það stoðar lítið að benda stöðugt á nýlegan rekstur sem enn stendur á brauðfótum eins og Háskólann Keili eða Heilsuhótelið hennar Jónínu Ben sem dæmi um nýleg fyrirtæki í bænum.

Bæjarstjórinn í ReykjanesbæFjölmenn en duglaus embættismannastétt bæjarins, að ekki sé minnst á fólkið sem situr á þingi fyrir þennan landshluta,  kennir pólitískum deilum, skort á orku til að breyta í rafmagn og viljaleysi peningastofnana til að lána fé í framkvæmdir, um ástandið -

(Er að furða að fólk spyrji til hvers sé verið að halda gangandi peningastofnunum hvort eð er Bönkum eða sjóðum sem ekki hafa að markmiði að þjóna fólki , heldur aðeins peningum.)   -  

Sem dæmi má taka "Eignarhaldsfélag Suðurnesja". Það auglýsir eftir hugmyndum um nýsköpun sem það gæti fjárfest í og er tilbúnið til að offra til atvinuuppbyggingar á Suðurnesjum heilum 150 milljónum, eða andvirði tveggja sæmilegra húseigna á Reykjavíkursvæðinu.

En stefna bæjaryfirvalda í atvinnuþróun er eftirfarandi eins og fram kemur á heimsíðu bæjarins:

HelguvíkReykjanesbær  byggir á sex meginstoðum til atvinnuþróunar á svæðinu:

1. Að orka Reykjaness sé virkjuð skynsamlega. Að hér sé staðsett öflugt orkufyrirtæki sem býður samkeppnishæfa orku til heimila og fyrirtækja og er fært um að hafa góðan arð af sölu raforku til annarra byggðarlaga.Á þessum grunni verði hlúið að frekari jarðhitarannsóknum á svæðinu. Reykjanesbær verði áfram leiðandi aðili í Hitaveitu Suðurnesja hf.

2. Að hér sé blómleg aðstaða fyrir þjónustu og verslun – Því er lífæðin frá Duus húsum eftir Hafnargötu og Njarðarbraut og inn á Fitjar í endurgerð, þar sem þegar eru um 200 fyrirtæki staðsett.

3. Að hér sé öflugt iðnaðarsvæði í Helguvík sem býður hentuga staðsetningu milli stórskipahafnar og alþjóðaflugvallar, með ljósleiðaratengingum og ódýrri raforku inn á svæðið.

4. Að byggt sé á þjónustu tengdri Keflavíkurflugvelli, m.a. ferðaþjónustu. Skapaður sé "segull" í ferðaþjónustu sem tryggi hlutverk Reykjanesbæjar í ferðaþjónustu landsmanna. Uppbygging Víkingaheims með Nausti Íslendings, Smithsonian safni og söguslóðasýningu er mikilvægt verkefni í þeim tilgangi.

5. Að hér sé áfram miðstöð varna þjóðarinnar og skoðaðir séu möguleikar á að styrkja þá starfsemi í breyttum heimi, s.s. tengt sjúkdómavörnum og skynsamlegri samþættingu verkefna á sviði öryggismála þjóðarinnar.

6. Að sveitarfélagið sé vakandi fyrir nýjum hugmyndum er aukið geta atvinnumöguleika .s.s í heilbrigðisþjónustu, íþróttum og háskólatengdri starfsemi.

ljosanottSíðustu misseri hefur Ríkistjórn landsins haft talverðar áhyggjur af stöðu atvinnumála suður með sjó og ákveðið var á fundi hennar 9. nóvember 2010 að hrinda af stað 11 verkefnum á Suðurnesjum til að efla atvinnu, menntun og velferð.

Til þess að halda utan um þau og vinna í sameiningu í landshlutanum ákvað ríkisstjórnin að mynda samráðsvettvang stjórnvalda og sveitarfélaga á svæðinu. Verkefnin urðu fljótlega 10 þar sem tvö voru sameinuð, þ.e. verkefni um fisktækniskólann og þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði.

Verkefnin 10 eru:

  1. Flutningur landhelgisgæslunnar  -  hagkvæmnismat liggur fyrir. (Ekki á dagskrá fljótlega)
  2. Gagnaver  -  lög um breytingar vegna gagnavera tóku gildi 1. maí  sl.  (Vantar raforku)
  3. Hersetusafn á Suðurnesjum  -  hluti fjármögnunar hefur verið tryggður. (200 millj.)
  4. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu  -  er í ferli. (Enginn vill kaupa)
  5. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum  -  lokaskýrsla liggur fyrir. (Fátt bitastætt)
  6. Klasasamstaf fyrirtækja á sviði líforku  -   er í ferli. (Hver skilur þetta?)
  7. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta  -  hefur verið hækkað. (Vá, gott framlag til atvinnuuppbyggingar.)
  8. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum  -  verkefnisstjóri ráðin og samstarf komið á. (Hver eru verkefnin?)
  9. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum  -  Útibú hefur verið opnað. (Hann hefur nóg að gera)
  10. Fisktækniskólin/þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði. Þróunarverkefni  um eflingu menntunar á Suðurnesjum. Verkefnisstjórar hafa verið ráðnir og verkefni er hafið. (Bók og verkvit verða vissulega í askana látin)

VatnagarðurHvað ætli þessar aðgerðir ef og þegar þær koma til framkvæmda, skapi mörg störf á svæðinu?

Á Suðurnesjum eru um 1600 manns atvinnulausir. Frá því að Ríkisstjórnin fundaði um málin, hefur atvinnulausum fjölgað um hálft hundrað. 

Jafnvel þessar vel meinandi aðgerðir stjórnvalda nægja engan veginn til að leysa atvinnuleysi Suðurnesjamanna.

Til þess þurfa að koma til miklu fleiri og varanlegri lausnir.

Þetta veit almenningur á Suðurnesjum og skilur samt illa  í því hversvegna forysta bæjarfélagsins hefur leyft ákveðnu sinnuleysi í kjölfar ráðaleysis að grafa um sig í samfélaginu. - Þeir segja stöðugt að bæjarfélagið sé fjárhagslega komið að fótum fram og  hafi ekki burði til að standa á bak við neina uppbyggingu. -

"Litlar hugmyndir" um iðnað eða þjónustu mæta auðvitað þessu sinnuleysi og eru blásnar út af borðum fjármálastofnanna og ráðamanna, jafn óðum og oft uppurðarlitlir hugmyndasmiðir fá viðrað þær. Og það þarf ekki nema smá skammt af svartsýni þeirra sem völdin og peningana hafa til að drepa hugmyndina alveg eða setja hana í salt "þar til betur árar." - Óhóflegar arðsemiskröfur ríkisrekinna peningastofnana setur einfaldlega starfsmönnum þeirra stólinn fyrir dyrnar, með fjármögnun til atvinnuuppbyggingar.

VíkingaþorpHvað verður t.d. um hugmyndina um;

víkingaþorp í Njarðvíkunum fyrir ferðamenn?

Um fjölskylduvæna Víkinga-vatnagarða í framhaldi af Blá lóninu?

Um hugmyndina að ræktun skelfisks út af  Bergi og Stapanum?

Um hugmyndirnar ófáu um verksmiðjur til að fullvinna sjávarfang?

Um hugmyndina um rafgeymaverksmiðju?

Um hugmyndina um æfingasvæði fyrir alþjóðlegar björgunarsveitir upp á velli?

UM hugmyndina um fjölþjóða kóramót í tengslum og samvinnu við ferðaskipuleggjendur og íþróttamannvirkin í bænum.

Þessar hugmyndir, sumar á frumstigi, aðrar lengra komnar, eiga allar á hættu að daga uppi, einkum vegna þess að ekkert fjármagn fæst til framkvæmda þeirra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

helv langur Svanur.. en góður :)

Óskar Þorkelsson, 2.6.2011 kl. 19:30

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

He he Óskar. Langhundur skal það heita :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 2.6.2011 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband