Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Þjóðarsálin enn í sárum

Halldór Ásgrímsson og Davið Oddsson ákváðu sín á milli að verða við bón George Bush um að styðja árásina á Írak. Halldór Ásgrímsson taldi að ef Ísland styddi innrásina formlega mundi Bush láta fresta brottför bandaríkjahers frá Vatnsnesheiði. -

Halldór  taldi sig með þessu vera að vinna Suðurnesjamönnum og þjóðinni allri gagn og Davíð taldi sig eiga í nógu góðu vinfengi við Bush til að það væri þess virði að láta á þetta reyna. Auðvitað var þeim aldrei lofað neinu. Þeir gerðu þetta upp á von og óvon.

En líkt og Bush og Blair misreiknuðu gjörsamlega afleiðingar innrásarinnar, misreiknaði íslenska ráðherraparið vilja Bush og stjórnar hans við að verðlauna dverganna 7 sem studdu innrásina í blóra við alþjóðlegar samþykktir. Stuðningur Íslands hafði áður en varði öfug áhrif en til var ætlast, sérstaklega eftir því sem leið á styrjöldina.

Í Bandaríkjunum var gert óspart grín að þessari herlausu 300.000 manna þjóð, sem þóttist styðja tvö öflugustu herveldi heims til að gera ólöglega innrás í fullvalda ríki og vonast til að fá að launum áframhaldandi atvinnu fyrir 1500 manns. Meira að segja Bush skammaðist sín fyrir að hafa Ísland með á þessum lista sem hann vissi að var algjörlega gagnslaus þegar honum var beitt til að reyna að vinna málstaðnum fylgi.

En mest var skömmin sem Íslendingar fundu sjálfir til og ekki sér fyrir endann á ennþá. Kannski er frekari umfjöllun um þetta mál góð fyrir þjóðarsálina. Kannski getur hún grætt sárin sem enn neita að gróa. Það finnst mér samt ólíklegt. Enn geisar ógnaröld i Írak. Hvernig geta Íslendingar orðið sáttir við sjálfa sig á meðan fólk deyr daglega í átökum sem við áttum þátt í að hefja.


mbl.is Vilja rannsaka ákvörðun um stuðning við Íraksstríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið kínverska Gestapo

Þetta er kínverska leiðin. Fólk bara hverfur fyrirvaralaus og sést aldrei aftur. Sérsveitir (PAP) kínversku öryggislögreglunnar haga sér eins og Gestapo í Þýskalandi á sínum tíma og það eru engar ýkjur.

Þær ráða yfir ólöglegum sveitum eins 6-10 Office sveitinni sem hafa það að sérsviði að fanga og pynda Falun Gong meðlimi.  Yfirvöld í Kína hafa alltaf hagað sér eins og þeim komi það ekkert við hvað aðrar þjóðir hugsa eða segja um þau. Og vegna þess hafa flestar þjóðir gefist upp við að gagnrýna mannréttindabrot í Kína.

Að auki er Kína komið með efnahagslegt hreðjatak á fjölda þjóða. Engin þorir að segja neitt. Íslendingum þykir nú voða fínt að bjóða þessum gráðuga og miskunnarlausa risa í kaffi og kökur heim til sín og Kínverjum þykir gaman að Íslendingum. Þeir eru sniðugir og kunna að bora holur og búa til lakkrís.

Þegar að Jón Gnarr afhenti Liu Qi,fyrrverandi borgarstjóra Peking (1999-2003) og formanns undirbúningsnefndar Ólympíuleikanna í Peking og núverandi  aðalritara kínverska kommúnistaflokksins,  mótmælabréf vegna Liu Xiaobo, á dögunum, hlógu margir að honum.

Aðrir sögðu að Jón væri bara að sækjast eftir athygli.

Sannleikurinn er sá að Jón Gnarr er eini íslenski áhrifamaðurinn á sem hefur vogað sér að mótmæla á svona beinan hátt fangelsi friðarverðlaunahafans. Það væri óskandi að fleiri fetuðu í hans spor.

 

 


mbl.is Eiginkona Xiaobao „horfin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefið Liu Xiaobo frelsi

Það er sérkennilegt hve líkamlegt hugrekki er algengt í þessum heimi en siðferðislegt hugrekki svo afar sjaldgæft.  ~Mark Twain

Jón Gnarr borgarstjóri krefst þess af stjórnvöldum í Kína með bréfi til Liu Qi, fyrrverandi borgarstjóra Peking (1999-2003) og formanns undirbúningsnefndar Ólympíuleikkanna í Peking og núverandi  aðalritara kínverska kommúnistaflokksins,  að þau láti lausan kínverska fræðimanninn og andófsmanninn Liu Xiaobo.

Liu Xiaobo var handtekinn árið 2008 og ári síðar dæmdur í 11 ára fangelsisvisst m.a. fyrir að safna undirskriftum undir mannréttindayfirlýsingu  (Charter 08) sem krafðist mikla endurbóta á mannréttindum í Kína.

S.l. Janúar útnefndu; Václav Havel, Dalai Lama, André Glucksmann,  Vartan Gregorian,  Mike Moore, Karel Schwarzenberg,  Desmond Tutu, og Grigory Yavlinsky, Liu Xiaobo.til friðarverðlauna Nóbels 2010.

Utanríkisráðherra Kína Ma Zhaoxu sagði útnefninguna "alranga". Geir Lundestad, ritari Nóbels nefndarinnar svarði með því að nefndin mundi ekki taka mið af andstöðu Peking.

Jón Gnarr hefur nú skipað sér á bekk með örfáum stjórnmálaleiðtogum heimsins sem hafa með opinberum og formlegum hætti krafist frelsis fyrir Liu Xiaobo.


mbl.is Jón Gnarr gagnrýnir Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brennu frestað, ekki aflýst.

Hafi þessi sveita-predikari ætlað sér að verða frægur í 15 mínútur, þá hefur honum tekist það og gott betur. Honum hefur tekist að fá alla helstu ráðamenn Bandaríkjanna og fjölda annarra ríkja til að bregðast við heimskulegum hótunum sínum um að brenna Kóraninn opinberlega.

En viðbrögð fjölmiðla og síðan stjórnvalda eru enn heimskulegri. Fjölmiðlar hafa blásið málið út og gefið bókabrennu-prestinum predikunarstól sem nær yfir alla heimsbyggðina þar sem aðrir ofstækisfullir predikarar og klerkar nota hótun hans sem tækifæri til að espa upp meira hatur gegn Bandaríkjunum. -

Það eru fyrst og fremst fjölmiðlarnir sem ráða framvindu fréttarinnar, frekar enn nokkur annar. Ráðamenn eru milli steins og sleggju. Þeir vilja ekki láta ásaka sig um að hafa ekkert aðhafst en eru um leið tregir til að grípa til beinna aðgerða og viðurkenna þannig að einn maður geti með hótunum einum saman knúið þá til beinna afskipta.

Á öllum helstu fréttamiðlum heimsins er þetta fyrsta frétt dagsins. Staðreyndir málsins skipta engu, enda margar útgáfur af þeim núþegar í umferð. Ólíklegasta fólk hefur blandað sér í málið, þ.á.m. Donald Trump, Páfinn og  jafnvel Tony Blair.

Í Pakistan hafa bandarískir fánar verið brenndir á götum úti og búist er við að efnt verði til götumótmæla víða um hinn íslamska heim.

Hvernig heim byggjum við þegar einhver einn einstaklingur getur haldið voldugasta ríki veraldar í nokkurs konar gíslingu og valdið múgæsingu og ofbeldisöldum í fjarlægum löndum með því einu að brenna bók, verknaði sem er ekki einu sinni ólöglegur í landi hans?

Brennuklerkurinn hefur nú lýst því yfir að múslímar hafi svikið loforðið sem honum var gefið um að byggja ekki mosku á 0 grund í New York, ef hann féllist á að aflýsa brennunni.  Þess vegna hafi hann ekki aflýst bókabrennunni, aðeins frestað henni þar til hann fái tækifæri til að fljúga til New York og ræða við Múllana þar.

Obama Forseti hyggist halda blaðamannafund í fyrramálið og þar mun þetta mál eflaust verða mál málanna.

 


mbl.is Hættur við Kóranabrennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingar og bókstafurinn

Felix Bergsson lætur að því liggja að Færeyingar flæmi úr landi flesta samkynhneigða landa sína. Ef það er raunin, eiga Færeyingar við alvarlegt þjóðarmein að etja og vafasamt hvort hægt sé að telja þá með í hópi siðmenntaðra vestrænna þjóða.

Þeir virðast hvorki fara að lögum eigin lands og þar með ekki eftir eiginlegum boðskap Nýja Testamentisins eins og tilvitnunin hér að neðan sýnir. Færeysk lög banna misrétti á borð við það sem Felix lýsir. -

Að auki er það nokkuð ljóst að Þjóðfélag sem hyggist byggja siðferði sitt á bókstaf kristninnar að öll leiti, og hafa að engu þá mildi og manngæsku sem í anda hennar er að finna, á enga möguleika á að verða nokkurn tíman sjálfstæð þjóð eða fullvalda ríki. -

Hvernig ætlar t.d. þjóð sem trúir bókstaflega eftirfarandi orðum Biblíunnar nokkurn tíma að verða sjálfstæð?:

Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði. 2Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn. 3Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdsmennina, heldur sá sem vinnur vond verk. En viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöldin, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim. 4Því að þau eru þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa. 5Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar.

6Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta. 7Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber. -

 Rómverjabréfið 13. 1-7


mbl.is Ótrúlegir fordómar í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jenis af Rana og siðgæðið

Jenis av Rana hefur tekist að hreyfa við einhverju í þjóðarsál Íslendinga sem legið hefur í dvala í nokkra hríð.  

Þegar að ég bloggaði á sínum tíma um að Jóhanna Sig. væri  (svo vitað sé) fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann í heiminum, sögðu margir í athugasemdum að kynhneigð hennar skipti akkúrat engu máli.

Samt þótti heimspressunni það eitt merkilegt við kjör Jóhönnu að hún væri samkynhneigð.

Þegar að bandaríska tímaritið TIME valdi áhrifamestu konur heims setti það Jóhönnu meðal hinna fremstu, einkum vegna kynhneigðar hennar.

Þá var fussað og sveiað á Íslandi.

Margir Íslendingar vilja ekki þurfa að horfast í augu við kynhneigð Jóhönnu.

Þeir segjast ekki vilja skipta sér af því sem gerist í svefnherbergi fólks. Það er gott að vera ekki nefið ofan í hvers manns koppi. Eru Íslendingar virkilega orðnir svona siðferðilega sótthreinsaðir. 

Einkennilegt hvað mörgum örðum en okkur finnst kynhneigð Jóhönnu merkileg.

Margir sjá kjör hennar sem forsætisráðherra sem skref fram á við í réttindabaráttu samkynhneigðra. -

Margir sjá líka kjör Jóhönnu, eins og Janis, sem ögrun við kristið siðferði. Þeir taka ofan fyrir Jenis fyrir að vilja ekki sitja til borðs með konum sem eru giftar hvor annarri.

Og svo eru þeir sem segja að kynhneigð hennar, opinberar heimsóknir með konu sinni, skipti engu máli, svo fremi sem hún vinni starf sitt af kostgæfni. Og hverjir eru sammála um að svo sé raunin í dag?

 


mbl.is Jenis ætti að skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingur á hvolfi

Jenis av Rana er kristinn maður. Konan hans er kristin kona. Kristni þeirra krefst þess af þeim að þau sitji ekki til borðs með samkynhneigðri konu. Sérstaklega ekki samkynhneigðri konu sem býr með annarri konu. Og alls ekki samkynhneigðri konu sem býr með annarri konu og er kosin af þjóð sinni til að leiða hana veginn fram til góðs. - Það misbýður kristni Jenis og konu hans mikið og þau eru ekki í þann mund að tapa sál sinni fyrir það að sitja til borðs með syndurum af hennar sort.

Jenis sýnir þarna að hann hefur kristin gildi. Sjálfsagt hefði hann heldur ekki setið til borðs með Faríseum og  tollheimtumönnum ef hann hefði verið gyðingur á tímum Krists. Og hann hefði glaður tekið þátt í að grýta hóruna. Það er af því að hann er syndlaus. Hvernig annars má skilja þessa afstöðu hans öðruvísi, að geta ekki setið til borðs með Jóhönnu Sigurðadóttur?

Eða kannski er hann ekki syndlaus heldur  bara á hvolfi. 


mbl.is Neitar að sitja veislu með Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marsbúa cha cha cha

Ísland úr NATOÖgmundur hefur hitt marsbúana. Hann hefur lært að að drekka súkkulaði, borga gamlar skuldir  og slappa af í baði.

Greinilega ekki allir búnir að gleyma gömlu loforðunum.

Loks er hann kominn í tandurhreina vinstristjórn. Einhverjir af með-ráðherrunum tóku eflaust þátt í keflavíkurgöngunum á sínum tíma, aðrir hafa örugglega blístrað Nallann 1.Maí. Nú er komið að því að standa við stóru orðin.

Valdið til að láta reyna á þjóðarvilja í þessu máli, er óskorað, eins og er. Nú skal nota tækifærið og koma þessu gamla barrátumáli í framkvæmd.


mbl.is Íhugi þjóðaratkvæði um NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kórkódílatár Tony Blair.

Það er erfitt að ímynda sér Tony Blair hryggan. Sérstaklega út af ákvörðunum sem hann tók og var svo sannfærður um að "hann væri að gera rétt". Mikill meiri hluti bresku þjóðarinnar var á öðru máli. Það skipti Blair engu. Hann vildi stríð og í stríð fór hann. Margt bendir til að hann hafi haldið að honum tækist að réttlæta ákvörðun sína eftir að búið var að hengja Saddam Hussein. Það tókst honum ekki. Allt fór í kalda kol í Írak og ekki sér enn fyrir endann á ósköpunum, jafnvel þótt breskir og bandarískir hermenn séu á leiðinni heim.

Spunameistarar Blair, sem stóðu sig vel þegar hann var enn við völd, vita að ekkert gengur eins vel í Breta eins og að sjá menn sem hafa hreykt sér hátt, brjóta odd af oflæti sínu. Þeir mega heldur ekki sýnist kaldir gagnvart örlögum þeirra sem þeir hafa fórnað.

Þegar að Blair var yfirheyrður af rannsóknanefndinni sem fer nú yfir stríðsreksturinn, var til þess tekið hversu iðrunarlaus hann var. Úr þessu reynir hann að bæta í þessari bók sinni og smyr þykkt á. - Blair er sorgmæddur yfir því að fólk hefur dáið í stríðinu sem hann trúði á. Hann er sorgmæddur, en hann iðrast einskis. Hann hefur enn rétt fyrir sér.


mbl.is Hryggur vegna fórnarlamba í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar tapa alltaf fyrir Íslendingum

Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingar fá tækifæri til að lúskra á Bretum, alla vega ekki á löglegan hátt. En þegar það gerist notum við tækifærið út í ystu æsar. Utanríkisráðherra sakaði á dögunum Breta um að hafa gert ólöglega árás á Ísland. Þarna komum við loks höggi á þá fyrir það óréttlæti. Gunnar Nelson heldur uppi heiðri þjóðarinnar sem samanstendur af afkomendum manna og kvenna sem eitt sinn voru fræg fyrir að láta aldrei tækifæri úr hendi sleppa til að hefna sín á óvinum sínum. (Það kom okkur reyndar á kaldan klaka og undir Noregskonung, en það er önnur saga)

Annars líkar okkur sem þjóð, ágætlega við Breta sem þjóð.

Þrátt fyrir að þeir gerðu heiðarlega tilraun til að ná hér völdum á fimmtándu öld og settu meira að segja enskan biskup yfir okkur

og að þeir eru eina þjóðin sem hertekið hefur landið

og eru einnig eina þjóðin sem við höfum átt í stríði við (ef stríð má kalla) eru Bretar  nokkuð vel þokkaðir á meðal okkar.

Ég held að það sé vegna þess að þeir hafa ætíð tapað þessum viðureignum við okkur.

Íslendingum líkar vel við þá sem þeir geta borið sigurorð af á einhvern hátt.

Alla vega tókst þeim ekki að ná hér varanlegum völdum og "enska öldin"  leið undir lok þegar þeir fundu enn gjöfulli fiskimið úti fyrir Nýfundnalandi.

Hernám þeirra endaði líka þegar við kölluðum til stóra bróðir okkar í vestri, hvers lönd við höfðum numið og síðan gefið honum eftir,

og auðvitað töpuðu Bretar líka þorskastríðunum eins og frægt er.

Núna bætir Gunnar fyrir árásina sem þeir gerðu á okkur þegar þeir beittu á okkur hryðjuverkalögunum og gerðu skálkunum sem þá voru við stjórn bankanna ókleyft að flytja meira fjármagn úr sjóðum þeirra á Bretlandseyjum til Tortóla.


mbl.is Gunnar sigraði einn efnilegasta Bretann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband