Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Pyndingar í Sádí-Arabíu

Ef til vill verður frétt eins og þessi til að vekja athygli á hlutskipti tugþúsunda kvenna sem vinna við húsþrif og þjónustu fyrir auðugar Sádi-fjölskyldur. Vegna fátæktar leita mikill fjöldi Srí Lanka búa, ekki síst kvenna,  sér að atvinnu fjær heimalandi sínu. (1.5 milljón) 350-450.000 þeirra eru taldir starfa í Sádi-Arabíu. Þar vinna þeir fyrir litlum launum og búa við mjög erfið skilyrði. Líkamsmeiðingar og barsmíðar eru daglegt brauð.

Í mörgum tilfellum er um að ræða lítt dulbúið þrælahald, þar sem fólki, sér í lagi konum, er haldið gegn vilja sínum og er alls varnað vegna fjárskorts og skeytingarleysis Sádi-Arabískra stjórnvalda.

Til dæmis er haldið að stjórnvöld hafi ekki veitt þeirri konu sem greinin fjallar um, neina aðhlynningu þegar hún loks komst á flugstöð til að fljúga heim til sín. Þvert á móti var henni haldið einangraðri í fjóra tíma án matar eða drykkjar, áður en henni var hleypt upp í flugvél til Srí Lanka. 

Rúmlega 300 Srí Lanka-búar sitja í fangelsum í Sádi-Arabíu en fangelsin þar fyrir útlendinga eru alræmd fyrir illa meðferð á föngum.

Lítið sem ekkert hefur verið fjallað um þetta ástand á alþjóðlegum vettvangi. Sádi-Arabía hefur eins og kunnugt er hreðjatak á Bandaríkjunum og Evrópu í krafti olíunnar sem þeir framleiða og selja. Að ræða um meint mannréttindabrot í Sádí við stjórnvöld í Sádí- Arabíu er ígildi þess að segjast ekki þurfa að kaupa lengur af þeim olíu.

Spurningin er hvað lengi almenningur getur staðið hjá í forundran yfir þeim óvenjulegu og grimmu refsingum sem í landinu tíðkast. Ekki er langt síðan frétt barst frá Sádi-Arabíu um að til stæði að hegna brotamanni með því að fá lækna til að lama hann.


mbl.is 19 naglar fjarlægðir úr konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móbergshellur og málverk

Því er ekki logið upp á Árna J. Hann er fremstur reddara á meðal þingmanna og fremstur þingmanna á meðal reddara. Í þessu málverki á Grænlandi í félagi við pólitíska andstæðinga sína, er honum lifandi lýst.

Og það sem meira er, í þetta sinn, er ekkert að því þótt það komist í hámæli hvað aðhafst er.

Svo hefur ekki verið um öll greiðaverk Árna.

Stundum hefur hann aðeins fengið bágt fyrir greiðvikni sína og hjálpsemi.  

Árni J. er einn af gömlu fyrirgreiðslupólitíkusakynslóðinni sem réði þingheimi fyrir 15 árum og höfðu gert frá því að þingið var endurstofnsett.

Að redda málningu á hús, grús í grunn, hellum í hlaðið eða tönnum upp í Gústa, þótti sjálfssögð fyrirgreiðsla sem aðeins öfundarmenn höfðu eitthvað við að athuga og þá aðeins í stuttan tíma, eða þar til metingurinn var jafnaður með einhverri reddingu fyrir þá.

Mér finnst það vel til fundið hjá Árna að sína hversu smásmugulegt fólk getur verið,  með því að taka  upp á eigin arma og kostnað,  að fegra heimili ókunnugs manns á Grænlandi þegar honum sjálfum var fyrir skömmu meinað um fáeinar móbergshellur til að fegra eigið heimili út í Vestmannaeyjum.


mbl.is Þingmenn máluðu húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í grímubúningi

Inngönguferli Íslands í Evrópubandalagið er leyndardómsfull framvinda. Bandalagið borgar Íslendingum fullt af peningum fyrir að athuga hvort þeir vilji vera með. Það borgar fyrir að láta þýða alla doðrantanna sína um lög þess og reglugerðir.

En það flokkast allt saman bara undir athugun.

Inngönguferlið tekur sannanlega á sig ýmsar myndir, klæðir sig í ýmsa búninga.

Það er  í grímubúningi svo sem flestir Frónbúar átti sig ekki á hvert það er og Brussel viti ekki hvað þeir eru að hugsa.

Það er í kafarabúningi svo hægt sé að kanna hvað býr í djúpum styrkjakistum bandalagsins.

Svo er það í undirbúningi, sem er úr afar fínt ofnu efni til að hann sjáist ekki undir hinum búningunum. 


Skammarlegar ofsóknir

birta_mynd_storÍrönsk yfirvöld ásaka þau fyrir að njósna fyrir Ísrael. Þrjár konur og fjórir karlmenn, miðaldra íranskt fjölskyldufólk,  voru sótt heim til sín um miðja nótt í Maí 2008 og hafa setið í fangelsi  í rúm tvö ár. Nú hefur dómur loks verið kveðinn upp. Í 20 ár skulu þau dúsa í fangelsi.

Stjórnvöld í Íra hafa löngum haft horn í síðu stærsta minnihlutahópsins í landinu, Bahaía og ofsótt hann frá því að hann varð til 1844.  Þetta Fólk tilheyrir honum.

Fangarnir – Fariba Kamalabadi, Jamaloddin Khanjani, Afif Naeimi, Saeid Rezaie, Mahvash Sabet, Behrouz Tavakkoli og Vahid Tizfahm – voru allir meðlimir þjóðarnefndar sem sinnti lágmarksþörfum bahá’í samfélagsins í Íran. Samfélagið telur um 300.000 meðlimi og er stærsti trúarminnihluti landsins.

Sjömenningarnir höfðu setið um 20 mánuði í fangelsi áður en þeir voru fyrst leiddir fyrir rétt 12. janúar síðastliðinn. Allan þann tíma fengu þeir að ræða við lögfræðing sinn í tæpa klukkustund.

Réttað hefur verið stuttlega yfir þeim fimm sinnum síðan en réttarhöldum lauk 14. júní. Bahá’íarnir voru m.a. ákærðir fyrir njósnir, áróðursstarfsemi gegn islam og stofnun ólöglegrar stjórnar. Öllum ákærum var undantekningarlaust vísað á bug.

Ekki snefill af sönnunargögnum var lagður fram við réttarhöld þeirra sem fóru fram fyrir luktum dyrum. Stjórnvöld voru heldur ekki að hafa fyrir því að tilkynna neinum um að þau hefðu hlotið dóm. Vitneskjan um dóminn barst í gegnum lögfræðing þeirra.

Mannréttindasamtök og stjórnvöld víða um heim, meðal annars mannréttindavakt Sameinuðu þjóðanna hafa fordæmt handtökurnar.


mbl.is Bandaríkin skora á Írana að fresta aftökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk jarðvarmaþekking fjármögnuð af Kínverjum í Eþíópíu.

Í þessu viðtali við Össur kemur einnig fram að hann vonast til að geta farið í samstarf við Kínverja um þróun jarðvarmavirkjanna í Eþíópíu. Kínverjar hafa undafarin ár haslað sér völl í efnahagslífi Eþíópíu.

Þeir vinna þar olíu úr jörðu og selja þangað mikið af fatnaði og kínversku skrani í staðinn. Á næstu árum vilja Kínverjar fimmfalda viðskipti sín við þetta forna menningarríki í Afríku sem hefur haldið sjálfstæðu sínu frá örófi alda, þrátt fyrir að oft hafi verið að því sótt.

Ekki einkennilegt að á sama tíma og Íslendingar eru að hefja sölu á orkuauðlindum sínum til erlendra orkurisa,  vilji þeir aðstoða mesta orkuneytanda heims, þ.e. Kína, til að sjúga orku út úr löndum sem búa við vanþróaðan efnahag.

Eins og alltaf áður þegar að þessari efnahagslegu nýlendustefnu er beitt í þróunarríkjunum, eru rökin þau sömu; að þetta sé gott fyrir efnahag þjóðarinnar. -


mbl.is Kína markaður fyrir fisk og ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumurinn að rætast

Þá geta landsmenn tekið gleði sína aftur. Eftir að hafa gert útrásarvíkingunum mögulegt að fá að láni allt það fé sem bankar landsins gátu mögulega fundið eða búið til með "fé án hirðis" barbabrellum, býðst okkur nú aðgangur að hinni stóru jötu Evrópubandalagsins. -

Til að gera Ísland að löglegum  hreppi í ESB sendu þeir okkur smá styrk, aðallega til að þýða nokkra doðranta og samþykkja innihald þeirra formlega á alþingi. Þetta er auðvitað bara formsatriði og auðvitað bara forsmekkurinn að því sem koma skal. En það glittir þegar í blóðið á tönnum landans. - Það verður fljótt að hafast upp í þessa smáskuld við AGS, Breta og Hollendinga þegar bitlingarnir byrja að streyma inn fyrir alvöru. - Og þetta er staða og umhverfi sem okkar fjármálspekúlantar kunna vel að nýta sér.

Þeir sem haf áhyggjur af "sjálfstæði landsins" hljóma eins og nátttröll í umræðunni þegar bent er á að nú þegar er búið að gefa fordæmi fyrir hvernig staðið skuli að sölu á auðlindum landsins. Það er heilmikið hægt að hafa upp úr umboðslaunum á sölu hlutabréfa í íslenskum orkufyrirtækjum og veiðikvótum.

Að auki eru skúffurnar í löndum ESB eru fullar af asískum og amerískum fyrirtækjum sem stöðugt eru á höttunum eftir arðvænlegum fjárfestingum í lifibrauði og nauðsynjum þjóðanna.


mbl.is Ísland á nú rétt á ESB-styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur í klóm drekans

Það fer um mann aulahrollur í hvert sinn sem maður sér íslenskan stjórnmálamann reyna að koma sér í mjúkinn hjá valdamiklum erlendum ráðamönnum. - Það var aulahrollur sem seytlaðast eftir hryggsúlunni þegar Davíð Oddson smjaðraði fyrir Bush yngri í von um að hann mundi framlengja veru varnarliðsins í Keflavík að ekki sé minnst á Halldór Ásgrímsson og niðurlægjandi loforð hans fyrir Íslands hönd um að styðja blóðbaðið í Írak.

Nú reynir Össur Skarphéðinsson sama leikinn á hinum árbakkanum. Samkvæmt kínversku fréttastofunni hefur Össur lofað Kína stuðningi við stefnu þeirra um "eitt Kína" sem merkir m.a. að Ísland styður hvorki sjálfstæðisbaráttu Tibeta eða Taiwana.

Utanríkisráðherra Kína er hinn vestrænt menntaði Yang Jiechi sem hefur um langan tíma, fyrst sem vara utanreikisráðherra og síðan 2007 sem numero uno, unnið að því hörðum höndum að koma stórum hluta auðlinda fátækra eða vanþróaðra afrískra og suður amerískra ríkja undir yfirráð Kínverja.  Kínverjar ráða orðið lögum og lofum í Afríku í krafti viðskiptahagsmuna og eru hinir nýju nýlenduherrar álfunnar. -

Aulahrollurinn breytist í óhugnað þegar ég heyri Yang Jiechi halda því fram að "mikið traust" ríki milli Íslands og Kína og "samvina landanna sé góð".

Það getur aðeins þýtt að hann telur sig hafa einhver efnahagsleg ítök á Íslandi og geti í krafti þeirra reitt sig á stuðning Íslands við óhæfuverkin heima og heiman.


mbl.is Össur í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama segir ástandið....

"The situation in Gaza is unsustainable" . Í flestum fréttamiðlum heims þóttu þessi orð Obama um ástandið á Gaza merkilegust og best til þess fallin að vera fyrirsögn fréttarinnar af viðræðum hans við  Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, í Hvíta húsinu í gærdag. Obama segir ástandið á Gaza vera "unsustainable" sem nútíma orðabækur þýða "ósjálfbært".

Obama endurómar þannig orð margra þeirra þjóðþinga og þjóðarleiðtoga sem fordæmt hafa herkví  Ísraelsmanna um Gazaströnd þegar hann segir að ástandið geti ekki haldið áfram, sé óviðunandi og geti ekki leitt til neinna lausna. En það er einmitt merking orðsins "unsustainable" í þessu samhengi.

Á þau er ekki einu sinni minnst í þessari frétt á mbl.is.


mbl.is Obama heitir Palestínu aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cleggeronband

miliband_clegg_cameronÞað er talið langlíklegast að næsti formaður Verkamannaflokksins í Bretlandi verði David Milliband fyrrverandi utanríkisráðherra. 

David hefur fengið flestar stuðningsyfirlýsingar úr þingmannhópi flokksins og hann er þekktastur meðal bresks almennings af þeim fimm sem sækjast eftir embættinu.

David hefur einnig það með sér að hann er lang- líkastur hinum flokksforingjunum þeim David Cameron og Nick Clegg í útliti.

Reyndar er Ed yngri bróðir hans ekki langt frá ímyndarstaðlinum eins og hann gerist þessa dagana. - Ed Balls er of gamall og of þungur og Diane Abbott afar langt frá þeim öllum hvað útlitskröfurnar snertir.


mbl.is Fimm í formannskjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Goðgá Helenar Thomas

Næstum níræð Helen Thomas hafði svo sem verið óvarkár í tali áður en hún sagði að Ísraelsmen ættu að drulla sér í burtu frá Palestínu. Hvernig hún orðaði spurningar sínar til forseta Bandaríkjanna þótti oft jaðra við ókurteisi, sérstaklega í seinni tíð. Vegna þeirrar virðingar sem hún naut í starfi sínu, var litið fram hjá óvarkárni hennar, enda alvitað að með árunum losnar um málhömlur fólks.

En hingað og ekki lengra. Í þetta sinn voru ummælin hranaleg umorðun á því að Ísraelsþjóð var mynduð úr innflytjendum m.a. frá Póllandi og Þýskalandi.

Í umræðunni um ástandið í Ísrael og Palestínu gilda ákveðnar reglur og ákveðin sjónarmið sem varða hana eru algjör goðgá.  

Þeir sem gagnrýna Ísrael mega t.d. aldrei ýja að því að Ísraelsmenn hafi ekki fullan rétt til að gera það sem þeim sýnist, hvar og hvenær sem er í heiminum, "til að verja sig."Alla gagnrýni á verk ríkisstjórnar Ísraels er litið á sem Gyðingahatur.

En alvarlegasta gagnrýnin er að draga í efa tilkall Ísraelsmanna til þess landsvæðis sem þeir búa á eða minna á að þeir hafi þegið það úr hendi alþjóðasamfélagsins á þeim tíma er þeir sem þjóð voru landlausir.

Helena gamla baðst afsökunar á heimasíðu sinni með þessum orðum.  

"I deeply regret my comments I made last week regarding the Israelis and the Palestinians. They do not reflect my heart-felt belief that peace will come to the Middle East only when all parties recognize the need for mutual respect and tolerance. May that day come soon.".

En orrahríðinni út af umælum hennar linnti samt ekki. Ræðum sem hún átti að flytja var aflýst og bókaforlög sögðust ekki lengur vinna með henni.

Afsögn hennar sem fréttaritari við Hvíta húsið fylgdi því í kjölfarið.


mbl.is 89 ára fréttaritari hættir vegna ummæla um Ísrael
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband