"Hér skal borg mín standa"

2-1Strandlengjan við ósa árinnar Neva sem Pétur l keisari í Rússlandi, tók herskildi af óvinum sínum Svíum árið 1703, leit ekki út fyrir að vera mikilvægur landvinningur. Hún var í raun lítið annað en þokuklædd mýri, gaddfrosin hálft árið og samfeldur fenjapyttur hina sex mánuðina. Í augum Péturs hafði hún samt einstæðan og ómótstæðilegan eiginleika. Árósinn opnaðist út í Finnlandsflóa og bauð upp á þann aðgang að hafi til vesturs sem Rússland hafði lengi sóst eftir. Á eyju í árminninu ákvað keisarinn að byggja virki sem búið skyldi öllum helstu nýungum þeirra tíma, sinnt gæti viðskiptum við þróaðri lönd Evrópu og í tímanna rás mundi það einnig þjóna sem flotastöð fyrir rússneska flotann. Sagan hermir að Pétur hafi gripið byssusting af hermanni einum og strikað með honum ferhyrning í blauta mýrina og sagt "Hér skal borg mín standa."

peterJarðvinna við virkið hófst 16. maí sama ár. Það skyldi  heita í höfuðið á heilögum Pétri og heilögum Páli. Fyrsta stigið var að byggja upp eyjuna þannig að hún væri öll fyrir ofan sjólínu. Síðan þurfti að sökkva þúsundum staura í jarðveginn til að hann gæti borið byggingar. Þeir sem unnu við jarðvegsflutninganna höfðu sumir hverjir hvorki skóflur eða hjólbörur og urðu því að skrapa saman moldinni og bera hana í skyrtulafinu.

Hernaðarlega séð var bygging virkisins réttlætt skömmu seinna þegar að sænski herinn mætti á vettvang á norðurbakka árinnar í júlí mánuði 1703. Pétur réðist á þá og fór sjálfur fyrir sex herdeildum sem hröktu Svíana til baka. Næstu 18 árin gekk hvorki né rak í herbrölti þjóðanna gegn hvor annarri. En jafnvel þegar verst gekk gegn Svíum, féllst Pétur aldrei á að láta þeim eftir virkið sem átti eftir að verða að borginni Pétursborg.

Þá þegar, stóð hugur Péturs til meira en að byggja þarna virki. Staðurinn skyldi verða dvalarstaður hans og þar mundi rísa hin nýja höfuðborg hans, nálægt hafi og Evrópu en fjarri Mosku sem honum líkað aldrei við. Pétur hafði áður ferðast víða um Evrópu og þegar hann snéri aftur til Rússlands var hann uppfullur af hugmyndum um hvernig mætti fleyta Rússlandi í átt til iðnvæðingar og nútímalegri hátta.  

0-st-petersburg_masterAð breyta virkinu í borg tók mörg ár. Pétur reiddi sig mjög á ráðleggingar ítalska arkitektsins Domenico Trezzini sem hrifinn var af Barokk stílnum, og á feiknafjölda af leiguliðum og vinnuföngum. Um langan tíma var borgarsvæðið eitt risastórt byggingarsvæði. Múrsteina og steinlímsverksmiðjur voru settar upp, heilu skógarnir höggnir niður og sögunarmillur knúnar vatni og vindi voru fjölmargar. Grjót í byggingarnar var svo torfengið að Pétur setti það í lög að hvert skip sem lagði upp við höfnina yrði að koma með a.m.k. 30 steinblokkir og að hver hestvagn sem til borgarinnar kæmi skyldi flytja með sér a.m.k. þrjár steinhellur. En jafnvel þetta dugði ekki til. Um tíma gerði hann það ólöglegt að byggja hús úr steini annars staðar en í Pétursborg að viðlagðri eignaupptöku og útlegð.

Stöplar voru settir niður, skógar felldir, hæðir flattar út, skurðir og díki grafin af sveltum verkamönnum sem lifði við hræðilegar aðstæður, hrjáðir af malaríu og niðurgangi. Hnútasvipa með járnhöglum var óspart notuð við minnsta brot og þeir sem reyndu að flýja var hegnt með því að skera af þeim nefið við beinið. Að minnsta kosti 30.000 manns létu lífið við byggingu borgarinnar. Ef virki heilags Péturs og heilags Páls var byggt á mýri þá var Pétursborg byggð á mannabeinum.

Flestar evrópskar bogir hafa vaxið smá saman með auknum viðskiptum, iðnaði og fólki sem fluttist  til þeirra úr sveitunum. Vöxtur Pétursborgar var knúinn áfram af einum manni. Þeir sem tilheyrðu hirð hans og fjölskyldu voru þvingaðir til að byggja sér hús í Pétursborg. Byggingarlagið var ákvarðað í lögum og það varð að vera samkvæmt "enska stílnum". Seinna var hinum efnameiri gert að bæta við hæð á húsin sín og þeir fengu engu um það ráðið. Bæði aðallinn og búaliðið kveinaði undan járnvilja Péturs.

l_4b2892631697ea26160724f6f87a62f6Þótt Pétur gerðist stundum skáldlegur um borgina sína sem hann gerði að höfuðborg Rússlands árið 1712 var hún enn óhrjálegur staður. Kuldalega regluleg fraus hún á vetrum en varð að heitu pestarbæli á sumrum. Hún var girt skógum og fenjum á alla vegu og sem dæmi þá drukknuðu átta hestar franska ambassadorsins á leiðinni við að komast að borginni. Jafnvel árið 1714 þegar Tezzini hóf byggingu Péturs og Páls barrokk kirkjunnar, voru tveir hermenn drepnir af úlfum þar sem þeir gættu  byggingarstaðarins.  Á hverju hausti flóði Neva yfir bakka sína og hreyf með sér nokkur timburhús borgarinnar.

En ekkert fékk stöðvað Pétur. Árið 1709 sigraði hann Svíana endanlega í orrustunni við Poltava og eftir það var borgin hans og gáttin í vestur örugg. Árið 1710 lauk byggingu Alexander Nevsky kirkjunnar og vetur og sumarhallir fylgdu á eftir. Brátt voru byggð bókasöfn, listsýninga-salir, söfn, dýragarður og vísindaakademía.

Það var Menshikov, ráðherra Péturs, sem sagði réttilega fyrir um framtíð Pétursborgar, að hún mundu verða Feneyjar norðursins sem gestir mundu heimsækja til að dást að fegurð hennar. Eftir dauða Péturs árið 1725 kepptust keisarar og keisaraynjur Rússlands við að skreyta borgina með höllum og kirkjum, breiðstrætum, höfnum og opinberum byggingum. Borgin jafnast fyllilega á við Feneyjar og Versali hvað byggingarlist varðar og framlag sitt til menningar og lista. Hún er tákn fyrir einarðan ásetning Rússlands til að verða hluti af Evrópu.


Dr. Phil spáir fyrir um kosningarnar á Íslandi

DSC02193Dr. Phil lætur ekki að sér hæða þegar kemur að spádómum hans um Ísland. Eins og frægt er orðið sagði hann nákvæmlega fyrir úrslitin hjá "strákunum okkar" á Ólympíuleikunum í Kína á síðasta sumri. Hann spáði líka rétt fyrir um hver mundi vinna í leiknum við makadónanna og nú undirbýr hann spádóm sinn um leikin á Sunnudaginn við Eista sem verður birtur hér á Laugardaginn.

Í athugasemd um spádómsgáfu Phils var ég spurður að því hvort hann gæti ekki sagt eitthvað meira fyrir um framtíð Íslands eins og t.d. kosningaúrslitin í þingkosningunum komandi. Ég hringdi í hann og spurði. Hann hélt nú það. Það fyrsta sem hann spurði að samt, var hvað Frelsishreyfing Palestínuaraba (PLO) hefði með Ísland að gera.

Ég sagðist ekki vita til að hún kæmi neitt nálægt íslenskri pólitík. Hann sagði þá að það væri alveg klárt að PLO væri í þann mund að reyna að hasla sér völl á Íslandi. Hann sagði líka að PLO yrði ekki mikið ágengt í þessum kosningum en margir sæju þá samt sem álitlegan kost við þá flokka sem fyrir eru. Ég var alveg gáttaður á þessum fullyrðingum Phils og það var ekki fyrr en samtalinu lauk að ég fór að spá í listabókstafi nýju framboðanna. Þá rann upp fyrir mér ljósið. P,L, og O.

Áður enn samtalinu lauk sagði Dr. Phil að hann mundi koma fljótlega með yfirgripsmeiri spá og nákvæmari. Eins og við vitum segir Phil fyrir hlutina með því að tala um bókstafi, liti og tölur. Þessi spásagnargáfa er því eins og sniðin að spádómum um kosningar og úrslit þeirra. Ég hlakka til að heyra frá Dr. Phil á næstu dögum. Ykkur er líka velkomið að ég komi áleiðis spurningum ykkar ef ykkur leikur hugur á að vita eittvað fyrirfram.


Vor í lofti og Íslendingar á sigurbraut segir Dr. Phil

300px-Pulteney_Bridge,_Bath_2Vorið er komið og grundirnar gróa, alla vega hér í Bath á Englandi. Síðustu tveir dagar hafa fært mér sanninn heim um að vorið sé komið fyrir alvöru. Það er yfir 18 stiga hiti og rjóma blíða, gróðurinn óðum að taka á sig lit eins og mannlífið.

Kaffihúsin eru búin að setja stóla og borð út á stéttar, dagblöðin liggja hreyfingarlaus á borðunum og smáfuglar tísta í trjánum eins og þeir hafi eitthvað mikilvægt að segja. Ungmennin sitja í hópum á graseyjunum út um alla borg og eldra fólk stansar lengur við til að spjalla á götuhornunum. Þetta er skemmtilegur tími.

Ég er byrjaður að ræða aftur við Dr. Phil um handboltann. Hann er góðkunningi lesenda minna frá því á ólympíuleikunum í fyrrasumar. Hann sagði mér í fyrradag að Íslendingar mundu vinna landa Alexanders mikla.  Það gekk eftir.  Á Laugardaginn ætlar hann að spá fyrir um leikinn við Eistlendinga. Hann var með allt á hreinu í spám sínum um gengi íslenska liðsins á ólympíuleikunum, þannig að ég bind miklar vonir við spádómshæfileika hans.


Eru til alvöru blóðsugur?

GrímurÞað er eins og að aftur sé að færast líf í skálkana sem enn eiga peninga á Íslandi, eftir að landsmenn hættu að berja búsáhöldin sín á Austurvelli. Um tíma var eins og skarkalanum tækist að fæla þá frá ódæðisverkunum líkt og hvítlaukur virkar á blóðsugur og þeir létu lítið fyrir sér fara opinberlega um hríð.

Nú þegar þeir halda að mesta púðrið sé farið úr byltingunni, eru þeir aftur komnir á kreik. Í þetta sinn eru notuð ný brögð. Í bland við að  bókfæra einhverjar eignir fyrirtækisins miklu hærra en þær eru virði og fá svo lán út á það,  er um að gera að nýta sér kreppuástandið og fá starfsfólk fyrirtækjanna til að gefa eftir hluta af launum sínum og/eða löglegum launahækkunum.

Þannig geta eigendur fyrirtækjanna haldið áfram að fá greiddan út arð fyrir það að eiga eitthvað í fyrirtækinu.

Sumt breytist þó ekki. Best er að gera þetta á hefðbundinn hátt og passa að láta þá sem eiga að svara fyrir það ekki vera við. Þá geta þeir alltaf sagt; Ja ég var nú ekki á landinu þegar þetta var gert. Eða, ég veit það ekki, ég er ekki enn búinn að lesa skýrsluna.

Gott dæmi um þessar mundir um slíka skálka sem fela sig í skugganum, eru stjórnarformaður HB Granda, Árni Vilhjálmsson sem er um þessar mundir eitthvað að bjástra á Chile. Þá er það Ólafur Ólafsson stjórnamaður og einn stærsti eigenda HB Granda sem ekkert vill segja um málið og Kristján Loftsson varaformaður stjórnarinnar sem ekki talar við blaðmenn heldur.

Skrýtið hvernig það er eins með allar alvöru blóðsugur. Þær þola illa dagsljósið. Landsmenn þurfa greinilega að draga fram stærri sleifar og stærri potta en nokkru sinni áður.

42-16146390


Ég mun drepa Ali

230392279_16bac6ffccDrengirnir komu gangandi í rikinu eftir moldartröðinni á milli tjaldanna. Þeir eru 12 ára og leiðast hönd í hönd eins og ungir drengir gera oft í austurlöndum enda bestu vinir. Báðir heita þeir hinu algenga nafni Ali. Þeir eru að fara í sjónvarpsviðtal þar sem þeir er spurðir út í líf sitt í Afganistan áður en fjölskyldur þeirra voru drepnar og líka út í það hvernig lífið í þessum stóru flóttamannbúðum fyrir Afgani í Pakistan gengi fyrir sig. Meira en ein milljón Afgana dveljast nú í slíkum búðum. Fjölskylda annars var drepin í loftárás bandamanna og fjölskylda hins lést í sprengjuárás frá Talibönum.

Annar er staðráðin í að ganga í lið með Talibönum þegar hann fær aldur til. Vinur hans er jafn staðráðin í að ganga í þjóðherinn í Kabúl.

Hvað ætlið þið að gera ef þið mætið hvor öðrum á vígvellinum, spyr sjónvarpskonan. Báðir svöruðu óhikað;  "Ég mun drepa Ali."

Í Afganska þjóðhernum eru nú 180.000 manns. Af útlendum hermönnum í landinu eru um 100.000 manns, fyrir utan leiguliða og her-verktaka. Allir eru að eltast við Talibana sem enginn veit hvað eru margir. Engir sigrar hafa raunverulega unnist frá því að Talibanar voru hraktir frá völdum í Kabúl. Skærur og skotárásir eru daglegt brauð en jafnskjótt og eitt þorp hefur verið jafnað við jörðu flyst andstaðan við erlenda "setuliðið" yfir í næsta þorp.

Allir herforingjar sem starfað hafa á vegum NATO í Afganistan hafa annað hvort sagt það berum orðum eða gefið það í skin að þetta sé stríð sem ekki er hægt að vinna. Afganistan hefur aldrei verið sigrað af erlendum herjum þótt margir hafi reynt. Bretar hafa gert hvað þeir gátu til þess allt frá miðbiki 19. aldar, Persar, og Rússar hafa reynt það án árangurs.

oil_flagSamt halda Bretar og Bandaríkjamenn áfram þessum kjánagangi og bera því við að þeir séu að leita að Al-Qaida mönnum og Osama Bin Laden og fá bændur til að rækta eitthvað annað en Valmúga. Talibanarnir segjast vera löngu hættir að taka við fyrirskipunum frá Al-Qaida. Að drepa erlenda hermenn er vinnan þeirra. Þeir fá borgað í dollurum sem koma víðsvegar að úr heiminum. Þeir vinna á daginn og slaka svo á á kvöldin, reykja og drekka.

En hvað eru Bandaríkin og Bretland með NATO regnhlífina á lofti að vilja í þessu landi. Það hefur margoft verið bent á ástæðuna en fjölmiðlar eru tregir til að taka upp málið. Sumir afgreiða það sem "samsæriskenningu".  Auðvitað mundu Bandaríkin aldrei leggjast svo lágt að ráðast inn í land vegna olíu.

 


Eftirlegukindin Ísland

Ísland fyrir allaHún er heit umræðan þessa dagana um hvort Íslandi sé betur sett innan eða utan Evrópubandalagsins. Ein er hlið á því máli sem sjaldan sést rædd, enda hagsmunapólitíkin í forsæti eins og vanalega. -

Þegar við lítum yfir farin veg mannkynsins síðast liðin 10 þúsund ár má greinilega sjá að menningarleg þróun okkar krefst stöðugt stærri samfélagsheilda. Ef stiklað er á stóru í þessari söguskoðun sjáum við að fjölskyldan óx af hirðingastiginu og varð að ættbálki sem gat með samvinnu ræktað landið.  Ættbálkarnir mynduðu með sér borgríki þar sem iðnaður og verslun varð til. Borgríkin mynduðu með sér bandlög sem urðu að lokum að þjóðum. Nú streitast þjóðirnar til við að mynda með sér þjóðabandalög sem að lokum munu sameinast í einu  alþjóðlegu ríkjasambandi. Hinar umfangsmiklu breytingar á högum og háttum manna þegar að þeir hættu að reiða sig á veiði og því sem þeir gátu safnað og fóru að rækta jörðina marka svo mikil tímamót að áhrifamestu rit heimsins eins og Biblían, hefjast á frásögninni af þeim.

Kirkjuvogskirkja HafnirLífsafkoma fólks heimsins og lífsgæði þess á hverju stigi, valt og veltur ætíð á að hvaða marki það var tilbúið til að tileinka sér þau sjónarmið sem gerðu þeim kleift að taka þátt í þessari framvindu menningarlegrar og samfélagslegrar þróunar. Eftirlegukindurnar og þeir sem heltust úr lestinni, stöðnuðu og tíndust.

Það kann vel að vera að Ísland geti streist á móti þessari, að því er virðist, ómótstæðilegu tilhneigingu sögu-framvindunnar  í einhver ár í viðbót, en þeir geta ekki vonast til að stöðva þróunina.  Fyrr eða seinna verða þeir að semja sig inn í þjóðabandalagið eins og aðrar þjóðir eða gerast ein af eftirlegukindunum og lúta þá örlögum þeirra. 

svarthvíttSú heimskreppa sem læsir nú klónum um mannkynið á eftir að herða takið til muna enda er hún aðeins byrjunin á miklum samfélagslegum hamförum á borð við þær sem áttu sér stað þegar að mannkynið sagði skilið við hirðingjalífs-stíl sinn og tók upp fasta búsetu og jarðrækt. Að auki er hún uppgjör við helstefnu blindrar efnishyggju sem einhverjir gáfu réttnefnið "frjálshyggja" því undir henni er öllum allt leyfilegt. Hugmyndafræðilega er hún ímynd fjárhagslegs Darwinisma.

Næstu skref í samfélagsþróun mannkynsins verða tekin þrátt fyrir tregðu þess til að stíga þau. Í því sambandi er sannarlega um líf eða dauða að tefla. Það er t.d.  fyrirsjáanlegt að á næstu áratugum verður tekin upp alheimsleg minnt og staðlað efnahagskerfi sem tryggir fólki sömu laun fyrir sömu vinni hvar sem það er í heiminum. Samtímis verða auðlindir heimsins álitnar tilheyra mannkyninu öllu frekar en einstaka þjóðum enda er vistkerfi hans svo samfléttuð að ómögulegt er þegar að réttlæta tilkall einnar þjóðar til nýtingu þeirra umfram aðrar.

Ísland sem er svo ríkt af varningi sem í framtíðinni munu skipta mesta máli fyrir afkomu mannkynsins, vatni og orku, ætti að vera í fararoddi þeirra þjóða sem vilja deila með heiminum auðlindum sínum, í stað þess að draga á eftir fæturna eins og staðan er í dag.


Segir Jóhönnu Sigurðardóttur eiga sök á hruninu

Úlfur í sauðargæru.

Sjaldan eða aldrei áður hafa Íslendingar verið jafn sammála um ágæti forsætisráðherra síns. Vissulega hafa heyrst hjáróma gagnrýnisraddir, en mikill meirihluti þjóðarinnar er samt á því að Jóhanna sé vönduð og góð manneskja og að hún sé ein fárra stjórnmálamanna sem hefur hreinan skjöld þegar kemur að spillingu á borð við þá sem olli bankahruninu.

Ég hef eytt dálitlu púðri hér á blogginu í að útskýra það sjónarmið mitt að flokkapólitík sé mannskemmandi. Ef dæma má eftir viðbrögðum sumra fallkandídatanna í prófkjöri flokanna um helgina, þarf ekki fleiri vitnanna við.

Einn þeirra lýsir reynslu sinn svona; "Vissulega var þetta snörp keppni aðeins tvær vikur eða svo...ég fann verulega fyrir því hvað maður verður sjálfhverfur í þessu stappi öllu saman... það fór að hamast í mér gamla góða keppnisdæmið og allt fór á fulla ferð... óholl spenna fór að byggjast upp sem ég tel að sé hverjum einstaklingi óholl. "

johanna1Annar frambjóðandi sem ekki náði tilætluðum árangri kvartar yfir því að fá ekki að vita hvar hún lenti. Greinileg mjög gröm skrifar hún; "Þessi samskipti við okkur frambjóðendur virðast algjört hugsunarleysi og ég treysti því að þau endurtaki sig ekki nú þegar búið er að benda á að þau eru ekki boðleg."

Sá þriðji sækist eftir formannsætinu í sínum flokki, þótt flokksystkini hans hafi hafnað honum í prófkjörinu svo rækilega að  honum er ekki einu sinni sagt í hvaða sæti hann lenti. Þessi sami maður fullyrðir á bloggsíðu enn annars fallista í sama prófkjöri, að Jóhanna Sigurðardóttir eigi raunverulega sök á hruninu. - Fyrir þessu færir hann langsótt rök sem ná áratug aftur í tímann. Í síðustu skoðanakönnun naut Jóhanna trausts meira en 70% þjóðarinnar.

Mér finnst þetta gott dæmi um mannskemmandi áhrif flokkapólitíkur. Ætti  fólk ekki að hugsa sig tvisvar um áður en það ákveður að taka þátt í sóðaleiknum, ef að vonbrigðin og gremjan yfir því að  tapa, fer svo illa með það að það grípur í örvæntingu sinni til sögufalsanna og áróðurs af þessu tagi?

Annars er mjög lærdómsríkt að fylgjast með vonsviknum pólitíkusum um þessar mundir yfirleitt. Um leið og komið hefur í ljós að þeim er hafnað, byrja sumir að ata flokkinn sinn ávirðingum. Aðrir hafa ekki meiri sjálfsvirðingu en svo að þeir hlaupa yfir í aðra flokka í von um upphefð þar á bæ.


100 forhúðir fyrir kóngsdótturina

Abraham1Sumir undra sig á því að kristið fólk umsker ekki sveinbörn sín þrátt fyrir að trúin sé sprottin úr gyðinglegum hefðum þar sem umskurður var stundaður í  þúsund ár fyrir burð Krists. Umskurður ungsveina á rót sína að rekja, samkvæmt Biblíunni, til fyrirskipunar Guðs til Abrahams í fyrstu Mósebók 17:9-15;

 9 Guð sagði við Abraham: "Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. 10 Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera. 11 Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar. 12 Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg. 13 Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli. 14 En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið."

Davíð með forhúðirnarUmskurðir tíðkuðust líka meðal forn-Egypta en siðurinn lagðist þar af og er hvergi trúarleg skylda nema meðal Gyðinga. Fræg af endemum er frásögnin í fyrstu Samúelsbók sem segir frá þegar Davíð reynir að ná sáttum við Sál konung um að gefa sér dóttur hans sem Davíð girntist;

24 Þjónar Sáls báru honum þetta og sögðu: "Slíkum orðum hefir Davíð mælt." 25 Þá sagði Sál: "Mælið svo við Davíð: ,Eigi girnist konungur annan mund en hundrað yfirhúðir Filista til þess að hefna sín á óvinum konungs.'" En Sál hugsaði sér að láta Davíð falla fyrir hendi Filista. 26 Og þjónar hans báru Davíð þessi orð, og Davíð líkaði það vel að eiga að mægjast við konung. En tíminn var enn ekki liðinn, 27 er Davíð tók sig upp og lagði af stað með menn sína og drap hundrað manns meðal Filista. Og Davíð fór með yfirhúðir þeirra og lagði þær allar með tölu fyrir konung, til þess að hann næði mægðum við konung. Þá gaf Sál honum Míkal dóttur sína fyrir konu.

Egyptar umskeraJesús var umskorinn í samræmi við þessi fyrirmæli Guðs til þjóðar sinnar (Lúkas 2.21.) og allir postularnir voru karlmenn af gyðinglegum ættum og hljóta því að hafa verið umskornir.

Í Postulasögunni má lesa hvernig Páll postuli byrjar að boða þjóðunum fyrir botni Miðjarðarhafs kristna trú. Það varð til þess að deilur spruttu upp á meðal kristinna hvort nauðsynlegt væri að umskera þá sem tóku hina nýju trú. Í Postulasögunni 15.1 segir svo;

1 Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu bræðrunum svo: "Eigi getið þér hólpnir orðið, nema þér látið umskerast að sið Móse." 2 Varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar, og réðu menn af, að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.

Uumskurður meðal GyðingaÍ kjölfarið á þessum deilum hinna fyrstu kristnu manna voru þeir kallaðir saman til fundar í Jerúsalem til að ræða málið. En segir Postulasagan frá þeim fundi;

Þá risu upp nokkrir úr flokki farísea, er trú höfðu tekið, og sögðu: "Þá ber að umskera og bjóða þeim að halda lögmál Móse."

6 Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á þetta mál. 7 Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: "Bræður, þér vitið, að Guð kaus sér það fyrir löngu yðar á meðal, að heiðingjarnir skyldu fyrir munn minn heyra orð fagnaðarerindisins og taka trú. 8 Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni, er hann gaf þeim heilagan anda eins og oss. 9 Engan mun gjörði hann á oss og þeim, er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni. 10 Hví freistið þér nú Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera?

Umræðurnar héldu áfram um drykklanga stund og enduðu með því að Jakob bróðir Krists segir;

19 Ég lít því svo á, að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim, er snúa sér til Guðs, 20 heldur rita þeim, að þeir haldi sér frá öllu, sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði. 21 Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag."

Það er í sjálfu sér athyglisvert að Pétur lýsir umskurðinum sem oki sem hann og forfeður hans hafi þurft að bera, og gefur þannig í skyn að til hafi verið gyðingar sem voru umskurðinum fótfallnir. Hann gerir sér glögga grein fyrir að muni verða hindrun á vegi fkarlmanna við að móttaka kristna trú ef þeim yrði gert að undirgangast umskurð. Samt sem áður má lesa í næsta kafla hvernig Páll sjálfur tekst á hendur að umskera Tímóteus til að gera hann hæfari til að stunda trúboð meðal Gyðinga.

Í bréfum sínum leggur Páll sig fram um að  þróa hugmyndina um táknrænan og andlegan umskurð, frekar en bókstaflegan. Í framhaldi af því lögðust umskurðir af í kristinni trú sem trúarleg skylda þar til á síðustu öld.  Árið 1963 kom út bók eftir  SI McMillen, sem heitir "None of these Diseases" þar sem hann segir að Móselögin hafi komið til af heilsufarslegum ástæðum. Það er aftur á móti ekkert sem bendir til að umskurður hafi nokkuð með heilsu mana að gera, hvorki til hins verra eða betra. En bókin vakti athygli og rímaði vel við umskurðardelluna sem ríkti meðal lækna í Bandaríkjunum á seinni hluta síðustu aldar.

Umskurður kvenna

umskurður stúlkubarnsUm það sem stundum er kallaður umskurður kvenna, gegnir allt öðru máli. Um er að ræða afskræmingu á kynfærum kvenna sem hafa margar skaðlegar afleiðingar í för með sér og er víðast hvar fordæmdur sem villimannleg grimmd.  Talið er að siðurinn sé ævaforn og eigi rætur sínar að rekja til suðaustur Afríku. Þaðan barst hann til Arabíu og miðausturlanda. Siðurinn viðgengst enn hjá frumstæðum ættbálkum Afríku og Arabíuskagans, einkum þeirra sem játa íslamska trú og hefur því verið settur í samband við Íslam.

Ætlunin með "umskurði" kvenna er að reyna að  koma í veg fyrir að konan njóti kynlífs og verði þannig trygg eiginmanni sínum. Hún má samt ekki neita honum um hjúskaparrétt hans. Umskurðurinn er því gróf valdbeiting og kúgunaraðferð sem konurnar eru beittar og sem ekki eiga sér neina stoð í Íslam þó varla sé hægt að segja að þau trúarbrögð séu höll undir jafnrétti kynjanna.


Hinn dularfulli William Shakespeare

Besti rithöfundur allra tíma er yfirleitt sagður William Shakespeare. þótt flestir séu sammála um að afrek hans á sviði bókmenntanna óviðjafnanleg er enn umdeilt hver sá maður var í lifanda lífi. William skrifaði þrjátíu og sex leikrit þ.á.m. Hamlet, Macbeth, Lér Konung, Júlíus Sesar og Óþelló.

william_shakespeareAð auki reit hann 154 frábærar sonnettur og nokkur lengri ljóð. Þrátt fyrir að Shakespeare hafi verið enskur, er hann fyrir löngu orðin heimspersóna og sá sem hvað oftast er vitnað í af rithöfundum þessa heims sem og leikmönnum. Orðatiltæki og málshættir úr ritum hans eru svo algengir að sumum hverjum er alls ókunnugt um þegar þeir vitna í orð hans.

Hið almenna viðhorf (stundum kallað orthadox) er að höfundurinn William Shakespeare (einnig skrifað Shaxpere, Shakspeyr, Shagspere eða Shaxbere) hafi verið maðurinn sem hét William Shakespere og var fæddur árið 1564 í Stratford á Avon og dó þar árið 1616.

Æviferill hans í stuttu máli var svona; Faðir Shakesperes var um tíma farsæll ullarkaupmaður en lánið lék ekki við hann. William sonur hans ólst því upp við fátækt. Hann gekk í barnaskólann í Stratford og lærði þar latínu og sígildar bókmenntir.  Þegar að William varð átján ára gerði hann unga konu, Anne Hathaway, ófríska. Hann gekk að eiga hana og nokkrum mánuðum seinna ól hún fyrsta barn þeirra.

Tveimur og hálfu ári seinna ól Anne tvíbura. Áður en William náði tuttugu og eins árs aldri hafði hann fyrir fimm manna fjölskyldu að sjá. Um næstu sex ár í ævi Williams eru ekki til neinar heimildir. En snemma á árinu 1590 er hann sagður starfa með í leikhópi í London. Honum gekk vel sem leikara og hóf fljótlega að skrifa leikrit og ljóð.

Árið 1559 var hann þegar talinn vera fremstur rithöfunda á Englandi fyrr og síðar. Shakespere dvaldist í London í rúm tuttugu ár og komst fljótlega í álnir þannig að árið 1597 gat hann keypt sér nýtt hús (New Place) í Stratford. Fjölskylda hans dvaldist í Stratford allan þennan tíma og William sá fyrir þeim.

Það þykir einkennilegt að Shakespere gaf ekki sjálfur úr neitt af leikritum sínum en óforskammaðir prentarar sáu að þarna var á ferðinni góð söluvara og stálust til að gefa út verk hans sem oft voru þá ónákvæm og ranglega með farin. Shakespere gerði engar tilraunir til að koma í veg fyrir þennan höfundarstuld.

Legsteinn ShakaspereÁrið 1612, fjörutíu og tveggja ára að aldri, hætti Shakespere skyndilega að skrifa, hélt til baka til Stratford þar sem hann bjó í faðmi fjölskyldu sinnar til dauðadags í apríl 1616 og var þá grafinn í kirkjugarði staðarins. Legsteinninn á leiði hans ber ekki nafn hans en nokkrum árum síðar var minnismerki um hann komið fyrir á kirkjuveggnum.

Nokkrum vikum fyrir dauða hans gerði hann erfðaskrá þar sem hann arfleiddi Susönnu dóttur sína að flestum eignum sínum. Hún og afkomendur hennar eftir hennar dag, bjuggu í New Place þar til 1670.

Þess skal gæta að stór hluti af þessum æviágripum sem minnst er á hér að ofan eru byggðar á getgátum þeirra sem aðhyllast "orthadox" útgáfuna um æviferil Shakasperes. Til dæmis eru engar heimildir til um að William hafi nokkru sinni gengið í barnaskólann í Stratford. Engin minnist nokkurn staðar á að hafa verið skólabróðir eða kennari stórskáldsins. Þá ríkir einnig óvissa um leikaraferil hans.

Minnismerkið um ShakespereVandamálið við ævi "þessa" Shakespears, sem margir af "orthadox" ævisöguriturum hans viðurkenna, er að undarlega litlar upplýsingar er að finna um jafn merkan mann. Á tímum Elísabetar drottningar voru til fjölmargir sagnritarar, blaða og bæklingaútgefendur. Segja má að gnótt heimilda sé til yfir tímabilið og milljónir frumrita af ýmsu tagi frá þeim tíma hafi varðveist. Samt hafa aðeins fundist fáeinar heimildir um Sheikspere og engin þeirra lýsir honum sem leik eða ljóðskáldi. Í þau tuttugu ár sem sagt er að hann hafi dvalist í London virðist hann hafa verið næsta ósýnilegur.

Í heimabæ hans Stratford virðist engin hafa vitað neitt um að mesti rithöfundur þeirra tíma bjó á meðal þeirra. Hvorki fjölskylda hans eða aðrir bæjarbúar nefna það að hann skuli hafa verið rithöfundur, hvað þá landþekkt leikritaskáld. Erfðaskrá hans minnist hvergi á ritverk hans eða hefur að geyma nokkur fyrirmæli um meðhöndlun þeirra. Þegar hann lést voru ekki færri en tuttugu leikrita hans enn óbirt.

Það er því ekki nema von að margir hafi komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar séu ekki að finna vegna þess að þeim var viljandi leynt og höfundinum valið nafn sem hjálpaði við að hylja slóð hins raunverulega "Shakespears".

Marga hefur lengi grunað að rithöfundurinn mikili hafi verið einhver allt annar maður sem eingöngu fékk nafn Williams frá Stratford lánað og þeirri blekkingu hafi síðan verið viðhaldið af ættingjum skáldsins þegar að verk þau sem kennd eru við Shakespeare voru fyrst gefin út árið 1623.

Á meðal efasemdamannanna eru afar þekkt nöfn eins og t.d. Mark Twain, Orson Welles, Charlie Chaplin, Sigmund Fraud, Harry A. Blackmun, Charles Dickens, Rlph Waldo Emerson og Walt Whitman.

Margir menn hafa verið kynntir til sögunnar sem mögulegir kandidatar og á meðal þeirra merkismenn eins og heimspekingurinn Francis Bacon.

Edward de Vere 2En líklegastur allra er talin vera Edward de Vere, sjöundi jarlin af Oxford og er í því sambandi talað um  Oxford kenninguna. Um ævi þess manns er talvert vitað. Hann var fæddur árið 1550 og var af kunnum og auðugum aðalsættum. Hann hlaut bestu menntun sem völ var á og þjálfun í siðum aðalsins. Hann stundaði útreiðar, veiðar, herlist, hljóðfæraleik og dans. Hann hafði einkakennara sem kenndi honum frönsku og latínu. Hann fékk að lokum gráður bæði frá háskólanum í Cambridge og Oxford.

Engum sem lesið hefur Shakespeare getur dulist að höfundurinn er víðlesinn, vel menntaður og kunnugur vel hirð og hallarsiðum og háttum aðalsins yfirleitt. Edward uppfyllir þær kröfur á mjög sannfærandi hátt.

Edward ferðaðist einnig víða um Evrópu um tíma og dvaldist m.a. í öllum þeim ítölsku borgum sem Shakespeare finnur leikritum sínum stað. Hann var í góðum tengslum við leikhúsin í London og var forsvarsmaður a.m.k. eins þeirra. Hann hafði nægan tíma til að sinna skriftum og góðar tekjur (1000 pund á  ári) frá Englandsdrottningu sem reyndar aldrei skýrði fyrir hvað hún greiddi de Vere þau laun. 

Shakespeare helgaði nokkur af leikritum sínum þekktum aðalsmönnum sem allir áttu það sameiginlegt að tengjast Edward fjölskylduböndum. Hann lést í plágufaraldrinum sem gekk yfir England árið 1604 og er grafinn í Hackney nálægt þorpinu Stratford sem á þeim tíma var mun stærra en Stratford við Avon.

Einkalíf Edward var með þeim hætti að mörg atvik í lífi hans gætu hæglega veið fyrirmynd af sennum og atburðum sem Shakspeare fléttar inn í leikrit sín.

Svona mætti lengi telja og er það reyndar gert á listilegan hátt í bókinni The Mysterious William Shakspear eftir Charlton Ogburn.

Edwavr de Vere 1En hvers vegna vildi Edward þá halda því leyndu að hann væri maðurinn á bak við skáldsnafnið? Það kunna að hafa verið margar ástæður fyrir því. Á þessum tíma var það forboðin iðja fyrir aðalsmenn að skrifa ljóð og leikrit ætluð leikhúsunum.

 De Vere var þekktur hirðmaður drottningar og fólk hefði vafalaust verið fljótt að draga sínar ályktanir af ýmsu í verkum Shakespeare ef það hefði vitað um tengsl höfundarins við hirðina. þá eru margar af sonnettum skáldsins ortar til ástmeyjar þess. Það mundi hafa orðið eiginkonu jarlsins til mikillar smánar ef nafn höfundar þeirra hefi verið heyrum kunnugt. Að auki voru nokkrar þeirra ortar til elskhuga af karlkyni sem mundi hafa valdið regin hneyksli fyrir jarlinn á þeim tímum.

Hér er ekki kostur á að rekja öll þau rök sem leiða líkur að því að Edward de Vere sé hinn sanni Shakespeare og þessi pistill er líklega þegar orðinn of langur fyrir þennan vettvang. Ég hef sett krækjur við nöfn sumra sem hér koma við sögu og ég hvet áhugasama lesendur til að nýta sér þá  til að kynna sér frekar málið um hinn dularfulla William Shakespeare.


Að setja rassinn í klór

RassgatsklórFyrirsögnin er reyndar miklu prúðmannlegri en efni þessa pistils gæti hæglega gefið tilefni til. (En aðgát skal höfð í nærveru sálar.) Það sem um ræðir er ný fegrunartækni og fegrunarlyf sem ætlað er fyrir þann hluta líkamans sem virðist algjörlega hafa orðið útundan fram að þessu í líkamsfegrunar-æði nútímans.

Það er sem sagt byrjað að selja fegrunarlyf fyrir endaþarminn og svæðið í kringum op hans.(Venjulega kallað rassgat) 

Hugmyndin er að gera aftur hvítan eða bleikan þennann mikilvæga líkamhluta sem mörg okkar sjáum svo sjaldan að við höfum ekki einu sinni hugað að litnum á honnum.

Þetta svæði hefur, er mér sagt, tilhneygingu til að dökkna og verða brúnleitt á fullorðinsárum sem mörgum æskudýrkandanum þykir bagalegt. Þess vegna hefur skapast eftispurn eftir bleikingarefni sem hægt er að nota á endaþarma og nú er það komið á markaðinn.

Ég get því miður ekkert fullyrtt um virkni efnissins persónulega og kem ekki til með að gera það að sinni. (Aldrei að að segja aldrei)  

Satt að segja finnst mér þessi tegund fegrunaraðgerða minna dálítið á síðustu tvö bloggefni mín, þ.e. tilraunir frambjóðenda í prófkjörum til að sannfæra okkur um að það hafi orðið eðlisbreyting á viðhorfum þeirra. Ég er nokkuð viss um að það sé alveg sama hversu lengi þú leggur rassinn á þér í klór, á endanum kemur það sama út úr honum og fyrr.


Prófkjör, er það ekki gott nafn á matvöruverslun?

Gert við ÞjóðarskútunaÞað er víst voðalega mikilvæg helgi gengin í garð. Fólk um allt land er að velja þá lýðskrumara sem það vill helst sjá leiða framboðslistana í komandi kosningum.

Nú verða allir að gera upp við sig hvort virkar betur á þá; lopapeysa í stað jakkafata á  eða lýsta stutta hárið í stað þess móleita og tjásulega.

Framboðsræðurnar eru birtar í bunum hér á blogginu með formlegum ávörpum á fundarstjóra og alles. Þær segja nánast ekkert um frambjóðendur og eru fullar af sömu klisjunum og notaðar hafa verið undanfarin ár við sömu aðstæður, með einni og einni setningu inn á milli sem er örðuvísi og á að gefa í skyn að viðkomandi hafi verið á landinu síðastliðna mánuði og lesið blöðin.

Þeir sem eru nýir reyna að höfða til þess að það sé ekki komið í ljós enn þá hvernig hjartalag þeir hafi og því beri að kjósa þá umfram þá sem þegar hafa sýnt það.

Ég get ekki annað en óskað þeim öllum góðs gengis og vona að sem flestir vinni og nái því sæti á framboðslistunum sem þeir óska sér að sitja í.  Að öðru leiti vísa ég til bloggfærslu minnar hér á undan þessari.

Ég minni líka á það margkveðna að engin þjóð á betri stjórn skilið en hún kýs yfir sjálfa sig.


Er þátttaka í flokkspólitík mannskemmandi?

StrengjabrúðaStjórnmálaflokkar eru í eðli sínu sundrunarungaröfl í þjóðfélaginu. Tilvist þeirra byggir á ósætti og ágreiningi við aðra flokka.  Þeir virðast á yfirborðinu vera vettvangur fyrir fólk sem vill láta að sér kveða í mótun mannlífsins í okkar samfélagi en eru, þegar á hólminn er komið, lymskuleg aðferð til að koma í veg fyrir raunverulegt lýðræði.

Þar sem fólk er þvingað með einu eða öðru móti til að greiða atkvæði með því sem það telur ekki vænlegt, er ekkert lýðræði.

Um leið og þú gengur til liðs við stjórnmálflokk, undirgengst þú að styðja stefnu flokksins eins og hún er skilin og útfærð af leiðtogum hans. Til að komast til áhrifa í flokknum þarftu að sýna hollustu þína við klíkuna sem stjórnar honum.

KindarúlfurÞannig er pólitík ekki um málefni eða fólk, heldur vald. Flokkakerfið er með öðrum orðum kerfi til að fela vald fámenns hóps sem íklæðir sjálfan sig og flokkinn sauðargæru lýðræðis. 

Í raun bjóða þeir ekki upp á neitt lýðræði, heldur blekkja fólk til að halda að flokkspólitíkin sé hinn eina og sanna birtingarmynd þess. Ef þú villt taka þátt í stjórnmálum þarftu að loka augunum fyrir þessum augljósu staðreyndum.

Ef þú ætlar að komast til áhrifa innan stjórnmálaflokks þarftu að tileinka þér starfsaðferðir hans og endurspegla þar með sundrungaráhrif hans. Ef þú kemst á þing, verður þú að styðja flokkinn í öllum mikilvægum málum, hvort sem þér líkar betur eða verr. Samtryggingaráhrifin eru afar gagnleg til að tryggja að þú gerir ekkert annað. Þess vegna er heldur ekki  neinn sóttur til saka þegar illa fer eins og komið hefur vel í ljós á síðasta misseri. Í besta falli verða fundnir einhverjir blórabögglar og þeim hent fyrir ljónin. En kerfið blífur eins og nýlegar skaðaannakannanir sýna glögglega.

Niðurstaðan hlýtur að vera að það sé mannskemmandi að taka þátt í flokkspólitík. Hún grefur undan sjálfsvirðingu fólks og gerir það ónæmt fyrir muninum á réttu og  röngu. Hið rétta í þeirra augum er það sem flokksforystan ákveður.

Það skrýtna er að þrátt fyrir oft hatramma og líkamlega slítandi baráttu til að halda völdum, enda forystumenn flokkana, oftar en ekki, ævi sína óhamingjusamir og hugsjúkir. Þeirra eigin takmörk verða þeim ljós og enginn er þakklátur gamla þreytta hundinum þegar nýr "Alfa" er tekinn við.

Þess vegna ber að leggja alla stjórnmálaflokka niður og taka upp persónukosningar til Alþingis þar sem bannað er að bjóða sig fram í nafni stjórnmálasamtaka eða flokka.


Að hagnast á raunum annarra

Jake og Julie móðir hans 2004Jake Myerson er í dag rétt um tvítugt. Þegar hann var unglingur reykti hann kannabis í miklum mæli. Móðir hans þoldi ekki ástandið á drengnum og rak hann burtu af heimlinu. Um tíma var hann útigangur en fékk svo inni á heimili vinar síns.  Nú hefur Julie móðir hans skrifað bók um líf og neyslu Jakes og hvernig hann rústaði lífi sínu og fjölskyldunnar. Bókin heitir "The lost Child".  

Þegar að Jake las handrit móður sinnar, sá hann að í bókinni er hann niðurlægður með ýmsum hætti. Hann lagðist því gegn útgáfu hennar. Móðir hans telur aftur á móti að bókin geti orðið til að hjálpa fólki sem á við svipuð vandamál að stríða.

Fjölmiðlar í Bretlandi velta fyrir sér hvort hér sé enn einu sinni verið að gera einkamál fjölskyldu að fjölmiðalmat í gróða skini þar sem peningarnir eru raunverulega aðalatriðið en afsökunin sé almannaheill.

Meira hér

 


Að deyja í beinni

Jade 2Jade Goody heitir ung kona sem eflaust margir hafa heyrt um. Hróður hennar berst nú óðum um hamsbyggðina þrátt fyrir að hún hafi ekkert sér til frægðar unnið en að taka þátt í nokkrum raunveruleika-sjónvarpsþáttum í Bretlandi.

Raunveruleikaþættir eins og Big-Brother þar sem fylgst er með sérvöldum einstaklingum í einn mánuð eða svo, þar sem þeir eru lokaði saman inni einbýlishúsi, er auðvitað eins lágkúrulegt og sjónvarp getur orðið en jafnframt eitt vinsælasta sjónvarpsefni okkar tíma.

Jade hefur tekist að gera sér mat úr því að vera fræg fyrir það að vera fræg og haft af því síðustu ár dálaglega þénustu.

Fyrir skömmu kom í ljós að hún er haldin banvænu krabbameini sem leiða mun hana til dauða á næstu vikum. Jade sem á tvo litla drengi, ákvað að gera dauðastríð sitt að fjölmiðlamat og þiggja fyrir það greiðslur sem hún segist ætla að erfa drengina sína að. Jade Goody 1

Hún gekk á dögunum að eiga unnusta sinn, dæmdan brotamann sem yfirvöld gáfu  sérstaka undanþágu frá skilorði sínu svo hann gæti verið með Jade á brúðkaupsnóttina.

Vinsældir Jade eru svo miklar að jafnvel Gordon Brown sá ástæðu til að fara um hana lofsamlegum orðum í einni af ræðu sinni nýlega.

Bæði brúðkaupinu og veikindasögu Jade hefur verið gerð ærin skil í tveimur sérútgáfum á blaðinu sem hæst bauð í þetta umfjöllunarefni, og önnur blöð, útvarps og sjónvarpsstöðvar í Brtelandi lepja allt upp um Jade sem umfram fellur.

Fyrir nokkru dögum var kona ein handtekin í námunda við sjúkrahúsið sem Jade sagði að hefði staðið yfir sér þegar hún vaknaði og þulið bænir. Í fórum konunnar fannst hamar. Þetta þótti ágæt tilbreyting fyrir hinn mikla fjölda blaða og sjónvarpsmanna sem fylgjast grannt með öllu sem Jade viðkemur.

Image_1_for_Jade_Goody_Leaving_hospital_gallery_18018321Jade sem verið hefur í geislameðferð á sjúkrahúsi ákvað í dgær að yfirgefa sjúkrahúsið og eyða síðustu dögunum heima hjá sér.

Hún er í fréttum á hverjum degi og fólk bíður spennt eftir því að það dragi til tíðinda í dauðastríði hennar.

Fólk ræðir sín á milli hvort brúðskaupsnóttina hafi verið sársaukafull fyrir hana af því að krabbameinið er í legi hennar, það gerir athugasemdir við hversu vel hún líti út svona grönn eftir að hafa misst talsvert af þunga sínum í geislameðferðinni og hversu ljót hún sé svona sköllótt eftir að hafa misst allt hár sitt af sömu ástæðu.

Fyrir utan fréttatímana eru spjallþættirnir og morgunþættirnir uppfullir af þessum spekúleringum um Jade og væntanlegan dauða hennar. Þá er einnig mikið rætt hvort sýnt verði frá dauðastundinni sjálfri í beinni útsendingu eða hún bara sýnd eftirá.

Og svo spyr fólk hvað sé að í þessum heimi.


Fljúgandi mörgæsir, spennandi kostur

Stundum heyrir maður um hluti sem eru einfaldlega of ótrúlegir til að þeir geti verið sannir. En svo kemur í ljós að sannleikurinn er miklu ótrúlegri en skáldskapur getur nokkru sinni orðið. Íslendingar hafa sannreynt þetta aftur og aftur á síðast liðnum mánuðum.

Ofurhetjur heimsinsGrænmetissalar og búðarstrákar sem afgreiddu mig um kartöflupoka á góðum degi fyrir nokkrum árum, urðu einhvern veginn að ofur-krimmum eins og þeir gerast verstir í ofurhetju-teiknimynda-sögunum, sem við vitum öll að eru ótrúlegastar af öllum ótrúlegum skáldsögum. Þeir sátu með puttann á hnappinum, tilbúnir til að brjóta fjöregg þjóðarinnar ef þeim yrði ógnað. Og svo, alveg eins og í teiknimyndablöðunum gerðist eitthvað og allt fór í há loft en þeir voru snöggir til og ýttu á hnappinn og  tókst að flýja með allt sitt og komu sér fyrir í fylgsnum sínum út á eyðieyjum. Munurinn er sá að Þjóðin á enga súperhetju (Captain Ísland)  til að leita réttar síns á þeim. Þess vegna brosa þeir í kampinn í dag og láta taka við sig vitöl þar sem þeir segja drýgindalega hafa tapað miklu sjálfir og e.t.v. hefði það verið farsælast hefðu þeir haldið áfram að selja bara kartöflur út í búð.

BúðardrengurinnUpphæðirnar sem þessir drengir náðu að svindla út úr Íslendingum eru svo háar að það þarf sérstök útskýringa-myndbönd til að fólk fatti hversu miklir peningar þetta voru. - En satt að segja finnst mér upphæðirnar hættar að skipta máli. Þær hafa enga merkingu lengur fyrir mig og fá mig bara til að gapa eins og bjáni eina ferðina enn.

Þess vegna er líklega best að fá bara einhverjar ofurkonur með sæt nöfn og mikla reynslu utanúr heimi til að eltast við þessa bófa. Þá lendir heldur ekki einhver í því að þurfa handtaka og kæra besta vin sinn eða jafnvel bróður sinn.

En það sem kannski er verra er að fullt af frómu fólki reynir að sannfæra mig um að nú sé allt á leiðinni til betri vegar. Nýtt fólk sé að komast í valdastöðurnar, ný framboð séu í uppsiglingu og ný andlit séu að taka við af þeim gömlu í eldri framboðunum. Allt á að breytast nema, kerfið. Við því má ekki raska og mér líður eins og ég sé dottinn inn í kvikmyndina The Wall.

Mér finnst yfirstandandi  breytingar álíka trúverðugar og meðfylgjandi myndband. Myndbandið hefur það fram yfir framboðs-framagosa-hjalið að það er skemmtilegt.


Eldri feður eignast heimskari börn

Gamall faðirEftir því sem vísindin færa okkur meiri þekkingu breytist samfélag okkar, næstum því án þess að við tökum eftir því.

Fólk talar um að ýmis viðmiðunarmörk á æviferlinum hafi raskast og breyst þannig að fólk geti í dag t.d. átt fyrri og seinni starfsferil og stofnað fyrri og seinni fjölskyldu o.s.f.r.

Eftir því sem langlífi verður algengara, gerir fólk kröfur til þess að lifa lífi sínu sínu eftir eigin vali og skipulagi, frekar en náttúrulegu vali eins og áður virtist ráða. 

En eitthvað hefur náttúran sjálf  verið sein að átta sig á þessum nýungum í lífshlaupi hins vestræna nútíma-manns því í ljós hefur komið að það er ekki bara aldur mæðra sem getur ógnað heilsu afkvæma þeirra, heldur er hætta á að börn eldri feðra verði ekki eins gáfuð og börn yngri manna.

Að auki eru börn eldri karlmanna (eldri en 40 ára) líklegri til að fá allskonar sjúkdóma, bæði andlega og líkamlega. Helsta ástæðan er sögð að stökkbreytingar í litningum sæðis karla, hlaðast upp með aldrinum og  valdið þessum einkennum í börnunum þeirra.

Slíkar eru alla vega niðurstöður rannsókna sem nú eru kynntar okkur. hér, hér og hér


Góðar fréttir og slæmar fréttir

Æ, það er víst enginn maður með mönnum eða kona með konum, hér á bloggslóðum þessa dagana, nema að þú hafir lýst því yfir að þú ætlir að gefa kost á þér á einhverjum framboðslistanum fyrir komandi alþingiskosningar. Pistlarnir eru fullir af frösum og þeirra vinsælastur og jafnframt leiðinlegastur er "að axla ábyrgð" . Hann er á allra vörum. Sumir vilja ólmir axla ábyrgð með einhverjum hætti en aðrir vilja að einhverjir aðrir geri það. Frasinn er orðin svo altækur og almennur að hann er fyrir löngu hættur að hafa nokkra meiningu. Þess vegna er líka gott að nota hann, þá er maður eins og aðrir.

fflcamelSatt að segja veit ég ekki hvernig ástandið er raunverulega á Fróni þessa dagana, en ef dæma má af fréttum og þeim glugga sem bloggið er inn í þjóðarsálina, hefur hið pólitíska landslag lítið breyst. 

Það minnir mig á söguna um herdeildina úr útlendingahersveitinni sem reið á úlföldum sínum glaðbeitt út í Sahara eyðimörkina til að veita nokkrum uppreisnarmönnum eftirför. Eftir nokkra daga reið án þess að verða uppreisnarmannanna var,  kallaði liðsforinginn menn sína saman og ávarpaði þá. "Ég hef góðar fréttir að færa ykkur en líka slæmar fréttir" sagði hann. "Slæmu fréttirnar eru að við erum rammvilltir og matarlausir og höfum ekkert nema úlfaldaskít að éta. Góðu fréttirnar eru hins vegar  að það er nóg til af honum."


Þeir sem vilja óbreytt ástand þurfa ekki að lesa þetta

Maður í kassaEftirfarandi er til íhugunar fyrir alla þá sem hyggjast gefa kost á sér á framboðslistum stjórnmálaflokkanna í næstu kosningum.

Þessar einföldu setningar  hér að neðan eru einnig til ígrundunar fyrir þá sem halda að nýja fólkið sem hópast nú inn á listana, sé klárara, betra, samviskusamara, heiðarlegra og vinnusamara en það gamla sem annað hvort hefur  tilkynnt að það ætli ekki að gefa kost á sér eða reynir eftir mætti að verja sæti sín á flokkslistunum. 

Ef þú gerir

eins og þú hefur ætíð gert

muntu ætíð fá það

sem þú ætíð færð.

Ef þú villt

það sem þú hefur aldrei haft

verður þú að gera það

það sem þú hefur aldrei gert.


Hvað sagði Zaraþústra?

zoroastr_prophecyÍranski spámaðurinn Zóróaster (628 fk - 551 fK.) er upphafsmaður Zóróaster-trúar, átrúnaður sem hefur verið iðkaður í 2500 ár og á sér enn fylgjendur. Zóróaster er höfundur Gaþas, elsta hluta Avesta, heilagrar ritninga Zóróasters-fylgjenda.

Heimildir um líf Zóróasters (Zaraþústra á forn-persnesku) eru frekar fábrotnar en það er talið að hann hafi fæðst árið 628 fK. þar sem nú er norður Íran. Lítið er vitað um æsku hans. Sem fullorðinn maður hóf hanna að boða nýja trú. Hann mætti talsverðri andstöðu en þegar hann varð fertugur tókst honum að fullvissa konunginn Vishtaspa sem réði norð-austurhluta Íran, um sannleika boðskapar síns. Konungurinn gerðist eftir það verndari og vinur spámannsins. Samkvæmt írönskum arfsögnum varð Zóróaster sjötíu og sjö ára gamall.

GATHAGuðfræði Zóróasters er einskonar blanda af eingyðistrú og dúalisma. Hann kenndi að aðeins væri til einn Guð sem hann kallaði Ahura Mazda.(Ormuzd á nútíma persnesku). Ahura Mazda (Hinn vitri drottinn) hvetur til sannsögli og sanngirni. En Zóróasters-fylgjendur trúa líka að til sé illur andi, Angra Mainyu (Ahriman á nútíma persnesku) sem stendur fyrir hið illa og falska. Í hinum raunverulega heimi stendur yfir stöðug barátta milli þessara tveggja afla. Hver einstaklingur getur valið hvoru hann leggur lið. Þótt að vart megi á milli sjá hvor hefur betur sem stendur, trúa Zóróasters-fylgjendur að á endanum muni Ahura Mazda sigra. Trú þeirra gerir einnig sterklega ráð fyrir lífi eftir dauðann.

zoroastrianFIRE1Hvað siðferði varðar leggur Zóróaster áherslu á sannleiksást og sanngirni. Hann leggst gegn meinlætalifnaði og einlífi. Zóróasters-fylgjendur iðka ýmiskonar áhugaverða helgisiði og sumir þeirra tengjast þeirri helgi sem lögð er á eldinn. Sem dæmi, lifir helgur eldur ávalt í musterum þeirra. Einna sérstakastur helgisiða þeirra er hvernig þeir eyða líkum hinna látnu sem eru hvorki grafin eða brennd, heldur komið fyrir á turni út á víðavangi svo að hrægammar geti etið þau.

ZOROASTERFYLGJENDURÞótt að Zóróasters-trú eigi margt sameignlegt með eldri írönskum trúarbrögðum, virðist þau ekki hafa breiðst úr sérlega hratt eða vítt á meðan Zóróaster lifði. Skömmu eftir dauða hans var landsvæðið þar sem hann bjó, innlimað í persneska heimsveldið, af Sýrusi hinum mikla og á næstu tveimur öldum gerðu persnesku konungarnir trúna að ríkistrú.

Eftir að persneska veldið féll fyrir Alexander mikla á síðari hluta fjórðu aldar fK. hnignaði fylgi við trúna talvert. En þegar að Persar fengu aftur sjálfstæði og höfnuðu hellenskum siðum, varð vegur Zóróasters-trúar aftur glæstur og frá 226-651 eK., eða á tímum Sassanid-veldisins, varð trúin aftur að ríkistrú. 

ZOROASTERMUSTERIYASTÁ sjöundu öld eftir að Arabar höfðu sigrað Persíu, gerðust flestir íbúar landsins múslímar. Þrátt fyrir að njóta verndar Íslam samkvæmt  Kóraninum, voru Zóróasters-fylgjendur einangraðir og stundum ofsóttir. Á tíundu öld flúðu margir af eftirlifandi Zóróasters-fylgjendum til eyjarinnar Hormuz í Persaflóa og þaðan fluttust þeir yfir til Indlands þar sem þeir mynduðu lítið samfélag. Indverjar kölluðu þá Parsía og í dag telur samfélag þeirra í Indlandi rúmlega hundrað þúsund manns. Í Íran hefur trúin aldrei lognast út af til fulls og þar telur samfélag þeirra um tuttugu þúsund manns.

Um hríð var Zóróasters-trú meðal ríkjandi heimstrúarbragða en fyrst og fremst var hún sniðin að heimahögum spámannsins.

Víst er að guðfræði Zóróasters hafði áhrif á önnur trúarbrögð, Gyðingdóm og Kristindóm þar á meðal. Þá gætir áhrifa Zóróasters-trúar mjög í Manikeaisma, trúarbrögðin sem stofnuð voru af Mani (210-276 eK) í Írak. Hann tók kenningar Zóróasters um baráttu góð og ills og þróaði út frá þeim flókið og sannfærandi guðfræðikenningar. Þau trúarbrögð hafa síðan algjörlega horfið af sjónarsviðinu.


Ég og ánamaðkurinn

MaðkurVið flatmöguðum þarna í grasinu og nutum sólarinnar. Áin rann lygn við fætur mínar og liðaðist áfram eftir landslaginu uns hún hvarf á bak við næstu hæð.

Við ræddum um heima og geima og hann var afar viðkunnanlegur, virtist kunna á ýmsu skil sem ég hafði ekki reiknað með að venjulegir ánamaðkar væru að ómaka sig út af.

Af og til skreið hann ofaní moldina til að halda sér rökum og ég bar á mig sólolíu. Þegar hann kom upp í eitt skiptið sagði hann;

Ég sé að það er nú ekki mikill munur á okkur.

Nú, hvað meinarðu, svaraði ég.

Þú mátt ekkert við því að þorna frekar en ég.Og ef eitthvað, þá ertu mun þurftafrekari á umhverfið en ég. Þú þarft eflaust að kreista safann úr ótöldum tegundum jurta og blanda hann einhverri dýrafitu, bara til að geta smurt þessu á þig.

Nú ja, já, en það er nú mikill munur á okkur samt.

Það finnst mér ekki. Í raun ertu ánamaðkur sem ert búinn að safna utan á þig allskyns aukalíffærum sem þú hafðir upphaflega enga þörf fyrir.

Hu, ormur, ég er ekki ormur, ég er maður.

Jú, mannormur og ég get sannað það. Nokkrum dögum eftir að þú varst getinn, hvað varstu þá? Ég skal segja þér það. Eins sentímetra löng túpa með gat í sitt hvorum enda. Annað varð að munninum á þér og hitt að rassgatinu. Hvað er það annað en ormur?

Ja, þú ert nú bara að lýsa upphafinu á níu mámuða þroskaferli.

Upphafinu já já ,en upphafinu á hverju. Það sem gerist næst á þessu níu mánuða þróunarferli er að  fyrirtaks hönnun sem hefur staðið af sér breytingar í milljónir ára, er eyðilögð. Þú ormurinn, byrjar að hlaða utan á þig vefjum og líffærum sem gera ekkert fyrir þig?

Ja, þau gera mig hæfari til að komast af í lífinu.

Það get ég ekki séð. Þú ert enn maðkur í mörgu tilliti. Eiginlega maðkur sem hefur hneppt sjálfan sig í ánauð. Þetta sem þú kallar að vera "maður" er bara millistig.  Þegar því líkur, eftir allt bramboltið, muntu nefnilega enda aftur eins og þú byrjaðir, þú verður sem sagt að ormafæðu og þar með aftur að ormi. Nokkuð löng leið, fyrir ekki neitt, finnst þér ekki?

Við bakkannÉg var búin að fá nóg af þessu snakki maðksins í bili. Ég stóð upp og teygði mig í veiðistöngina, tróð ánamaðkinum á öngulinn og hélt áfram að renna fyrir boltann sem ég vissi að lá í felum einhversstaðar undir bakkanaum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband