Færsluflokkur: Menning og listir
12.10.2009 | 12:09
Eiga sprangið og íslenska glíman heima á heimsminjaskrá?
Þegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, fór ég með ófáa hópa af skólakrökkum víðs vegar af landinu í útsýnisferðir um Heimaey. Einn af viðkomustöðum okkar var undantekningarlaust Sprangan undir Skiphellum þar sem ungt eyjafólk lærir að klifra í klettum og sveifla sér í kaðli.
Á tungumáli "innfæddra" kallast þetta "sprang. Misháar syllur eru í bjarginu, allt frá almenningi og upp í gras" eða "tó".
Margir úr hópunum spreyttu sig á að klifra upp í lægstu sylluna og spranga út frá henni sem tókst misjafnlega, enda sprang ekki auðveld íþrótt.
Einn hópur sem ég man eftir bar þó af öllum öðrum hvað leikni í kaðlinum varðaði. Þegar ég spurði hvers vegna þau virtust kunna svona vel til verka, svöruðu þau að flest þeirra væru frá Rifi og Sandi á Snæfellsnesi og skammt þar frá væru Gufuskálar.
Að Gufuskálum væri mikið og hátt mastur og utan í því hefðu þau oft sveiflað sér á reipi. Ég kannaðist vitskuld við Loren C mastrið á Gufuskálum sem lengi var sagt hæsta mannvirki á Íslandi og er það kannski enn.
Mér datt þetta í hug þegar ég las fréttina sem ég tengi hér við, því trúlega hafa krakkarnir frá Snæfellsnesi snúið sér á alla kanta á reipinu eins og indíánarnir gerðu forðum suður í Mexíkó og sýnt er á meðfylgjandi myndskeiði.
Annað sem einnig kom upp í hugann er hvort ekki sé ástæða til að koma Sprangi inn á þessa ágætu heimsminjaskrá fyrir þjóðhætti sem eru í hættu að leggjast af og gleymast.
Ég veit ekki hvað það eru margir sem kunna þá list svo vel sé, en flestir eiga þeir eflaust heima í Vestmannaeyjum.
Auðvitað má segja að viss tegund af sprangi lifi góðu lífi meðal þeirra milljóna í heiminum sem stunda fjallaklifur. En búnaður til klifurs hefur mikið breyst frá því sem var og miðað við það eitt er varla hægt að segja að um sömu íþrótt sé að ræða.
Þá mætti einnig huga að í þessu sambandi hinni íslensku glímu. Ég veit að enn eru íþróttafélög sem leggja stund á glímuna, en tilfinning mín segir mér að þeim fari fækkandi.
Guðadans á heimsminjaskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2009 | 11:35
Kvikmyndir sem tala inn í íslenskan veruleika
Blade Runner, Terminator og Matrix, allar dæmi um góðar kvikmyndir. Bestu kvikmyndirnar sameina marga þætti. Þær eru fræðandi, listrænar og góð afþreying. Þær bestu tala til okkar á sama hátt og dæmisögur og ævintýri bókmenntanna gera líka. Ég hef löngum haft dálæti á vísindaskáldsögum og kvikmyndum sem fjalla um svipuð efni. Í miklu uppáhaldi eru einmitt myndirnar Blade Runner, Matrix og Terminator serían.
Fyrsta Matrix myndin er algjör snilld, vegna þess að hún sýnir svo vel hvernig fólk getur gert sér að góðu að lifa með hauspoka alla ævi, svo fremi sem það heldur að það sé að japla á á nautakjöti af og til.
Terminator karakterinn er líka frábær af því að hann sýnir hvað erfitt er að losa sig við forritunina sem við öll erum ofurseld og einnig hvað erfitt er að koma fyrir kattarnef skálkum með einbeittan vilja.
Blade Runner spyr m.a. spurningarinnar hvað það sé sem gerir manninn mennskan.
Efnisinntök þessara kvikmynda má auðveldlega heimfæra upp á þjóðmálin á Íslandi (og víðar) á fleiri en einn hátt. Sem dæmi;
Í hvert sinn sem ég les útskýringar stjórnmálamanna á því hvers vegna þeir gera það sem þeir gera, dettur mér Matrixið í hug, rafræna blekkingarvefinn sem ætlað er að umlykja alla huga til þess að þeir séu til friðs á meðan lífsorkan er sogin úr þeim. -
Þegar ég les um útbrunna pólitíkusa sem neita að gefast upp og troða sér aftur til áhrifa einhverri mynd, kemur upp í hugann gereyðandinn sem druslast áfram með rafmagnsgarnirnar á eftir sér eftir að hann hefur verið sprengdur í loft upp eða klesstur í stálþjöppu. -
Í hvert sinn sem ég les um fólk sem hefur komið sér fyrir efst í valdapíramídanum og hvernig það áskilur sér rétt til að ákvarða innrætingu undir-linga sinna, lífdaga þeirra og lífgæði, af því að það hefur einhvern stjórnmálflokk eða fyrirtæki á bak við sig, minnist ég Blade Runner og hvernig slíkt fólk er í hættu að verða á endanum tortímt af endurgerð sjálfs sín.
7.10.2009 | 23:33
Konur ekki eins vinsælar og karlmenn
Eins og fleiri velti ég fyrir mér blogginu og stöðu þess almennt í samfélaginu. Ef það er sanngjarnt mat að á blog.is skrifi sæmilegur þverskurður af íslenskum bloggurum, bendir margt til að mikill munur sé á milli kynjanna hvað lesningu blogga þeirra varðar.
Ég hef reyndar lengi verið þess meðvitaður að mikið hallar á konur miðað við karla í þessum efnum, en aldrei lagt það sérstaklega niður fyrir mig, hvers vegna.
En upp á síðkastið finnst mér þetta sérstaklega áberandi og þess vegna fór ég að telja.
Af 50 vinsælustu bloggsíðunum hér um slóðir eru aðeins 9 þeirra skrifaðar af konum.
Ef að 100 vinsælustu bloggin eru talin kemur í ljós að aðeins 13 þeirra eru kvennablogg. Og af þeim þrettán eru a.m.k. tvær sem eru hættar að blogga á blog.is.
Hefur einhver skýringu á þessum mikla mismun?
6.10.2009 | 11:24
Amy Winehouse á réttri leið
Það hefur farið frekar lítið fyrir söngkonunni ólánsömu Amy Winehouse í fjölmiðlum upp á síðkastið. ÞAÐ veit þó á gott því hún var svo til daglega í pressunni á síðasta ári fyrir að dópa sig og drekka svo mikið að margir hugðu henni ekki langlífi.
Undanfarna mánuði hefur Amy mest dvalið á St Lucia þar sem hún hefur reynt að halda sig fjarri vímunni og unnið jafnframt að plötu til að fylgja eftir hinni frábæru Back to Black.
Aðeins einu sinni á þessu ári hefur dívan komið opinberlega fram til að syngja og það gerði hún þegar hún kom í heimsókn til Bretlands í ágúst mánuði og tróð óvænt upp með ska bandinu The Specials á V tónlistarhátíðinni í Essex.
Amy stofnaði nýlega útgáfufyrirtæki sem heitir Liones og fyrsta platan sem það kemur til með að gefa út verður einnig fyrsta plata hinnar 13 ára gömlu Dionne Bromfield en Amy er guðmóðir hennar.
Nú hefru verið tilkynnt að Amy og Dionne munu koma fram um næstu helgi í hinum vinsæla þætti Strightly Come Dancing sem sýndur er á BBC 1.
Amy ætlar að syngja bakrödd hjá Dionne sem mun flytja lagið Mama Said sem upphaflega var sungið og gert vinsælt af The Shirelles árið 1961. . Meðal laga á plötunni sem Amy hefur skipt sér mikið af, eru; Ain't No Mountain High Enough, Tell Him og My Boy Lollipop.
Amy segist sannfærð um að Dionne sé hæfileikaríkari en hún sjálf og eigi glæstan feril framundan.
" Í fyrsta sinn sem ég heyrði Dionne syngja, trúði ég var eigin eyrum - Því lík rödd sem þessi unga stúlka er með"- "Hún er miklu betri en ég var á hennar aldri."
2.10.2009 | 01:00
The Long Goodbye
Atgerfisflótti af moggablogginu heldur áfram. Talsverður fjöldi af bloggurum sem blogga reglulega og taka það sem þeir skrifa alvarlega, haf tilkynnt um að þeir séu farnir eitthvert annað. Margir til Eyjunnar.is. sem er helsta flóttamanna hælið á Íslandi fyrir "eðalbloggara" sem ekki vilja samvisku sinnar vegna, skrifa á vefsvæði hvers æðsti maður heitir Davíð Oddsson. -
Nú á eftir að koma í ljós hvernig þeir þrífast á bloggsvæði Eyjunnar, sem er talsvert minna sótt en blog.is og hefur að ég held miklu minni samfélagskennd. Sumir hafa ekki útilokað að snúa aftur á blog.is og ég tel að svo verði raunin, einkum ef fólk fer að finna sig í sporum The Kinks þegar þeir komu til Íslands forðum og sömdu lokaðir inn á hótel herbergi einhversstaðar í Reykjavík; "I´m on an Island, and I got nowere to go".
Kveðjubloggin eru skemmtileg aflestrar og margir kveðja bloggarana eins og þeir séu að hverfa til annarrar plánetu. samt get ég alveg skilið "söknuðinn" því blog.is er á margan hátt eins og samfélag.
Einhverjir hafa bent á að skelegg skrif á blog.is gætu virkað sem gott mótvægi við þeimbreytingum sem Davíð kann að standa fyrir á mbl.is og að ef áður hafi verið þörf fyrir gagnrýnin skrif á blog.is þá sé nú nauðsyn. - Bloggarar á förum svara þessu að þarna spili líka inn í að mbl.is hafi tekjur af skrifum þeirra og burtséð frá þeim og almennum stuðning við svæðið, sé þeim ekki stætt lengur á að blogga hér.
Ég hef það fyrir víst að margir aðrir í viðbót við þá sem eru þegar farnir séu að undirbúa flutning, sumir jafnvel úr röðum þeirra sem hafa verið í efstu sætum yfir fjölmennustu bloggin.
Miðað við daglegar tölur yfir nýjar skráningar á blog.is hefur þeim ekki fækkað og eflaust verða einhverjir til að rísa upp og fylla í skarð þeirra sem farnir eru eða eru á förum.
PS: Þetta er auðvitað blogg um bloggara og þess vegna mjög í stíl við svo kallaðan "Sæmundarhátt" á bloggi
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
28.9.2009 | 01:04
Hvað býr raunverulega að baki hjá Davíð
Ég velti tvennu fyrir mér þessa dagana.
Hvað vakir raunverulega fyrir Davíð að setjast í ritstjórastól Moggans....
og hvað býr raunverulega að baki ótta og reiði fólks yfir því að hann skuli hafa verið ráðinn í hann.
Ekki að ég sé haldinn þráhyggju varðandi Davíð. Þeir sem halda slíku fram eru bara þeir sem haldnir eru Davíðs blæti :)
Ég er alla vega kominn að niðurstöðu.
Davíð hefur járnvilja. Án einbeitts vilja hefði hann aldrei getað gert það sem hann gerði. Vilji Davíðs hefur ekkert dofnað. Hann lofaði því opinberlega að ef honum yrði vísað úr starfi seðlabankastjóra og hann mundi nauðugur þurfa að yfirgefa embættið, mundi hann snúa aftur í stjórnmálin.
Það loforð ætlar hann að efna. Að ráða sig sem ritstjóra á víðlesnasta blaði landsins er snilldarbragð og fyrsta stig í þriggja þrepa áætlunar hans um að snúa til baka, því hálfkveðin vísa er honum ekki að skapi.
Úr ritstjórastólnum mun hann geta styrkt þá í trúnni sem áður voru einlægir átrúendur en héldu að goðið væri lagst í kör og þaðan getur hann laðað að sér nýja fylgjendur með beittum og skeleggum málflutningi á síðum Moggans. Að auki getur hann stýrt umræðunni með fréttaflutningi blaðsins þannig að þeir sem kunna að vera á móti honum í flokknum fara að líta illa út og þeir sem ekki tilheyra flokknum enn verr.
Að ári verður Davíð orðinn óumdeildur foringi sjálfstæðismanna á ný og við tækifæri mun hann láta kjósa sig aftur sem formann Sjálfstæðisflokksins. Síðan mun hann freista þess að komast aftur í forsætisráðherrastólinn, þ.e. um leið og hægt verður að knýja fram nýjar kosningar.
Svarið er sem sagt það sama við báðum spurningunum. Einmitt þetta er orsök óttans og reiðinnar sem gripið hefur andstæðinga Davíðs. Þeir eru ekki svo mikið að spá í hvað hann hefur gert þótt þeir beri það fyrir sig. Það sem þeir óttist miklu fremur er hvað hann á eftir að gera.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
27.9.2009 | 03:44
Ekkert að marka páfa
Þann 9. maí fyrr á þessu ári, hélt Benedikt 16. páfi um margt merka ræðu í Al-Hussein Bin Talal moskunni í Jórdaníu. Ræðuna hélt hann eftir að hafa verið boðinn þangað velkominn trúarleiðtogum múslíma og rektorum háskólanna í Jórdaníu. Fyrr um daginn hafði hann blessað hornsteininn að Madaba háskólanum þar sem bæði kristnir og múslímar munu stunda nám. Í máli Benedikts kom fram að sá Guð sem kaþólikkar tilbiðja sé sá sami og múslímar ákalla.
Hann sagði meðal annars;
"Kristnir lýsa Guði einmitt, meðal annars, sem skapandi vitsmunum, sem skipar og leiðbeinir veröldinni. Og Guð hefur gefið okkur getuna til að deila með honum þeim vitsmunum og geta þannig hagað okkur í samræmi við það sem er gott. Múslímar tilbiðja Guð, skapara himins og jarðar, sem talað hefur til mannkynsins.
Og sem átrúendur á hinn eina Guð vitum við að mannlegir vitsmunir eru í sjálfu sér gjöf Guðs og að þeir rísa til hæðstu hæða þegar þeir eru uppljómaðir af ljósi sannleika Guðs."
Ræðuna í fullri lengd á ensku er að finna hér.
Þegar að ný stjórnmálsamtök kváðu sér hljóðs hér á blogginu fyrir nokkrum dögum og mótmæltu á bloggsíðu sinni að múslímar fengu aðgang til bæna að kapellu Háskóla Íslands, sá forsvarsmaður þessa svokallað "Kristilega þjóðarflokks", kaþólikkinn Jón Valur Jensson, ástæðu til að efast um að Páfi hefði verið að meina það sem hann sagði.
Jón Valur hafði þetta að segja um málið, eftir að honum hafði verið bent á að æðsti embættismaður kirkjunnar hans hefði staðfest að Guð Íslam og Guð kristinna væri sá hinn sami.
"þessi orð Benedikts páfa 16. mætti hugsanlega lesa í þessari merkingu: "Múslímar tilbiðja Guð, [sem þeir líta á sem] skapara himins og jarðar, sem talað hefur til mannkynsins". Þarna væri áherslumunur, sem getur þýtt merkingarmun."
Til vara sagði Jón Valur að æðri orðum Páfans sem reyndar er álitinn af kaþólikkum óskeikull í öllum túlkunaratriðum trúarinnar, væru orð þrettándu aldar kennimannsins Tómasar af Aquinas, sem hefði sagt að Guð Íslam og hinn kristni Guð væri ekki sá sami.
Nú vill svo til að eftir Tómas liggur ágætis útlistun á hvernig Guð kristinna manna er og hann er alveg samhljóma þeirri sem múslímar nota. Í Summa Theologica ræðir Tómas um eðli Guðs. Með quinquae viae (útilokunaraðferð) kemst hann að fimm niðurstöðum um Guð.
- Guð er ekki samsettur.
- Guð er fullkominn.
- Guð er óendanlegur.
- Guð er óumbreytanlegur.
- Guð er einn.
Undir alla þessa eiginleika Guðs mundi Múhameð taka og gerir það í Kóraninum á mismunandi stöðum.
Þannig gengur vara-vörn Jóns heldur ekki upp.
Nú fer Jón Valur sem áður mikinn á blogginu til að útbreiða boðskapinn fyrir nýja flokkinn og hefur greinilega brotið af sér allar viðjar, því ekki fer hann eftir því sem páfinn segir um að sýna umburðalyndi íslömskum námsmönnum við HÍ og ekki er hann þjóðkirkjumaður og því spurning hvaða umboð hann telur sig hafa til að mótmæla notkun kapellunnar.
Helst er hægt að álykta af málflutningi Jóns að hann hafi stofnað sína eigin útgáfu af kristnum samtökum, einskonar Kristilegan Sértrúar-þjóðarflokk.
Fagnaði falli kommúnismans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 03:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (55)
26.9.2009 | 14:20
Klisjukennd ímynd lesbía
Graham Norton, vinsæll spjallþáttarstjórnandi í Bretlandi, sá hinn sami og hefur verið hvað duglegastur við að gera grín að Íslandi og Íslendingum eftir bankahrunið, hefur nú hlotið áminningu frá BBC fyrir að fara niðrandi orðum um samkynhneigðar konur í spjallþætti sínum.
Graham sem er sjálfur samkynhneigður, hefur oft verið staðinn að því áður í þáttum sínum að gefa klisjukennda og móðgandi mynd af lesbíum.
Áminninguna fékk Graham í kjölfarið á þætti þar sem sýnd var mynd af stúlku sem hélt á umsókn fyrir einkaleyfi. Honum varð að orði; Ég veit ekki af hverju þeir fengu einhverja skrýtna lesbíú til að vera fyrirsætan".
Kunnur rithöfundur sem var gestur Nortons reyndi að malda í móinn og útskýra fyrir hinum að ekki ætti að dæma fólk eftir útlitinu. ; "Það getur vel verið að hún sé ekki Lesbía, láttu ekki svona, hvernig lítur annars lesbía út?"
"Svona"svaraði Norton að bragði og benti á myndina. Norton var samt fljótur að bæta við " það er auðvitað ekkert að því að vera lessa".
Graham tók að sér að vera kynnir í síðustu Júróvisjon keppni fyrir BBC og er afar vel þekktur sem kynnir í mismunandi stjörnuleitarþáttum í Bretlandi.
Það sem mér finnst merkilegt við þessa frétt er að aðeins ein persóna, áhorfandi í salnum þegar þátturinn var tekinn upp, klagaði Norton fyrir BBC. BBC brást samt strax við og áminnti Norton og allt tökuliðið um að gæta þess að draga ekki upp klisjukenndar myndir af samkynhneigðum konum í þáttunum.
23.9.2009 | 23:29
Ljóðakeppni hér og nú
Jóna Á Gísladóttir birtir á bloggsíðu sinni skemmtilegar vísur sem sendar voru til Washington Post þegar blaðið efndi til ljóðasamkeppni á dögunum, sem fólst í því að semja rímu með tveimur braglínum. Skilyrði var að fyrri línan væri sérstaklega rómantísk en sú seinni andstæðan.
Nú dettur mér í hug hvort ekki sé lag að efna til slíkrar keppni á íslensku hér á blogginu og hafa reglurnar nákvæmlega þær sömu og hjá Washington Post. Sem sagt tvær hendingar eða bragalínur, sú fyrri mjög rómantísk og sú síðari ekki.
Íslendingar eru margir orðlagðir hagyrðingar og ljóðelskir með eindæmum svo það er um að gera fyrir sem flesta að spreyta sig, hér og nú.
Ég legg til að þeir sem hyggjast taka þátt, skoði fyrst ensku vísurnar á síðu Jónu.
16.9.2009 | 01:16
Míkael erkiengill og Michael Jackson
Rétt eins og Elvis var á sínum tíma tekin í dýrlinga tölu af áköfum og einlægum aðdáendum hans, stefnir allt í að helgifárið í kring um Michael Jackson verði svipað eða jafnvel gangi miklu lengra. Nýjar sögur um Jackson halda áfram að flæða um netið og aðra fjölmiðla á hverjum degi. Hann var popp-goð í lifanda lífi og er nú á leiðinni að verða popp-Guð.
David LaChapelle er orðinn vel kunnur fyrir ljósmyndir sínar af frægu fólki. Hann stillir þeim gjarnan upp þannig að útkoman minnir á helgimyndir af Kristi eða einhverjum dýrlingum. Myndir Davids hafa birst í Vanity Fair, Ítalska Vouge og Rolling Stone. Hann hafði lengi vonast eftir að fá tækifæri til að ljósmynda Michael Jackson en af því varð ekki.
Eftir lát Jacksons ákvað David að ljósmynda "tvífara" Jacsons sem hann fann á Havaii. Tvífarinn í gervi Jacksons á myndunum, minnir á erkiengilinn Míkael, sem samkvæmt kristnum hefðum er herforingi Guðs. Hann fór fyrir herjum Guðs þegar að Lúsífer var kastað úr himnaríki og er gjarnan sýndur á helgimyndum þar sem hann er í þann mund að veita Satan náðarhöggið með sverði sínu eða hefur þegar drepið hann.
Á ljósmynd Davids (sjá hér að ofan) hefur Jackson kastað fá sér sverðinu en stendur með annan fótinn ofaná brjósti Satans og setur saman hendur sínar í bæn. Þannig er gefið til kynna að Michael Jackson sé svo góðhjartaður að hann geti ekki einu sinni unnið skrattanum mein en biður fyrir honum þess í stað.
David LaChapelle segist vera sannfærður um að Michael hafi verið saklaus af þeim ásökunum að vera haldin barnagirnd.
"Ég held að hann hafi ekki geta meitt neinn. Mér finnast örlög hans Biblíuleg. Textar hans eru svo fallegir og ljúfir. Saga hans er sú stórbrotnasta sem um getur á okkar tímum. Hann fer frá hæstu hæðum niður í djúpin. Hann er nútíma píslarvottur."
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)