Færsluflokkur: Menning og listir
15.9.2009 | 12:48
Heimskulega spurt
Mér finnst það vera til marks um hversu heilbrigð þjóðin er andlega, að 72,1% hennar telur sig ekki geta nefnt einstakling í samfélaginu sem sé eða geti orðið "sameiningartákn" fyrir þjóðina. Hvernig er hægt að búast við því að hugsandi fólk velji sér einhvern einn einstakling til að sameinast um? Eiginlega finnst mér spurningin gefa til kynna afar vanþroskaðan skilning á embætti forseta Íslands.
Embætti forseta Íslands verðskuldar allar virðingu og sem slíku er því ætlað að vera sameiningartákn. En merkir það endilega að fólk verði að sameinast í þeirri persónunni sem embættinu gegnir hverju sinni?
Að mínu viti er svo ekki. Á meðan fólk gengnir embættinu er því sýnd virðing en sú virðing tilheyrir embættinu fyrst og fremst, ekki persónunni. Embættið er "stærra" en persónan. -
Skoðannakönnunin spyr því afar heimskulega. -
Ef að spurt hefði verið: geturðu nefnt einhverja persónu sem þú telur hæfa til að gegna embætti forseta Íslands, mundi útkoman hafa verið allt öðru vísi. Alla vega gæti ég í fljótu bragði talið einar tíu persónur sem ég tel hæfar til að gegna embættinu.
Fáir telja forsetann sameiningartákn þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.9.2009 | 23:52
Listamaðurinn Adolf Hitler
Það berast alltaf af og til fréttir af því að málverk eftir Adolf Hitler hafi selst fyrir mjög háar upphæðir á uppboðum hér og hvar um heiminn. Framboðið er talsvert, enda málaði maðurinn meira en 2000 myndir yfir ævina sem að flestra mati var alltof löng. Þær voru mjög vinsælar í Þýskalandi, eftir að hann komst til valda. Bók með myndum eftir hann sem ætlað var að liggja frammi á sófaborðum á heimilum þriðja ríkisins, var prentuð í milljónum eintaka.
Hitler vann fyrir sér um tíma sem málari. Hann bjó þá í Vín ungur að árum og vonaðist til að geta lagt fyrir sig málaralistina. Faðir hans var þeim áformum andvígur og að auki var umsókn hans um að sækja lista-akademían í Vín hafnað tvívegis. það varð til þess að Hitler gaf upp á bátinn alla drauma um að verða málari, en kallaði sig stundum "misskyldan listamann".
Spurningin er hvort það sé í raun tilhlíðlegt og siðferðilega eðlilegt að borga tugi milljóna fyrir lélega mynd eftir mann sem var svo stórtækur fjöldamorðingi að það þurfti að finna ný orð yfir ódæðin eins og helför og þjóðarmorð. Það er eitthvað óhugnanlegt við að fólk sækist eftir að eiga handverk manns sem lét myrða ellefu milljón mans.
Listagagnrýnendur eru sammála um að myndir Hitlers frá listrænu sjónarmiði séu ekki upp á marga fiska, þótt hann hafi óneitanlega kunnað að herma eftir vinsælum þýskum og austurískum póstkortum á þriðja tug síðustu aldar.
En hvað er það sem fær fólk til að kasta milljónum á þennan vafasama glæ? Jú, einmitt þetta óhugnanlega hlutverk Hitlers sögu tuttugustu aldarinnar. Og hverskonar siðferði gefur það til kynna?
En hvar setur fólk þessi verk svo upp?
Inn í stofu þar sem það getur sýnt vinum sínum og kunningjum dásemdina til að prísa og kankast út af? Eða í borðstofunni þar sem viðastaddir geta minnst sveltandi fanganna í útrýmingarbúðum Nasista á meðan þeir gæða sér á kræsingunum. Verði þeim að góðu..
Myndir Hitlers fóru á 42 þúsund evrur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.9.2009 | 12:48
Að fella tár á tímans hvarm
Það hefur oft verið sagt um Íslendinga að þeir séu frekar lokaðir tilfinningalega og beri jafnan áhyggjur sínar og sorgir ekki á torg. Satt að segja hélt ég að þetta hefði breyst mikið á síðustu árum, ekki hvað síst meðal karlmanna. En þessi frétt undirstrikar hversu sterk þessi tilfinningabæling er í þjóðarsálinni. Það þykir með öðrum orðum fréttnæmt að einhver felli tár yfir meitlaðri kynningu á döprum örlögum lands og þjóðar eins og auglýsingastiklan um kvikmynd Helga Felixsonar Guð Blessi Ísland er.
Vá, einhver fór að gráta!!!!
Það hefði ekki verið fréttamatur ef einhver hefði bölvað, jafnvel þótt hann hefði gert það upphátt. Enn að fella tár yfir einhverju svona, að gráta yfir kvikmynd....það er eitthvað svo.. svo..yfirdrifið, svo...svo ókarlmannlegt....svo..svo óíslenskt. - Að gráta örlög sín og meðbræða sinna eru fullkomlega eðlileg viðbrögð. Mætið ófeimin með snýtuklútana ykkar í bíó því Guð blessi Ísland er "þriggja klúta mynd" fyrir eðlilegt fólk.
Tárfelldi yfir stiklu úr Guð blessi Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.9.2009 | 01:39
Fornir manngerðir hellar, undraverð listaverk
Dag einn í apríl mánuði árið 1819 fór Kaptein Smith á tígursdýraveiðar. Hann komst skjótt á slóð dýrs sem hann rakti að þröngri gjá. Inn af gjánni fann hann hellisop sem var vel byrgt af þykkum gróðrinum.
Hellirinn var manngerður þótt hann hefði greinilega í langan tíma eingöngu hýst leðurblökur og rottur.
Kapteinn Smith, var breskur hermaður og þjónaði í Midras hernum á Indlandi. Hann litaðist um og varð ljóst að hann hafði rekist á mjög sérstakar minjar. Hann var staddur skammt fyrir utan þorpið Ajinṭhā í Aurangabad héraði Maharashtra-svæðinu. Hann krotaði nafnið sitt með blýanti á hellisvegginn þar sem það er enn sjáanlegt þótt máð sé.
Þegar farið var að kanna hellinn betur kom í ljós að hér var ekki aðeins um einn helli að ræða, heldur heilt þorp sem höggvið var út úr hráu berginu. Segja má að byggingarnar séu ein samfelld höggmynd með forgarði, hofum, turni, samkomusal, og hýbýlum sem eitt sinn hýsti a.m.k. 200 manns.
Hvarvetna getur að líta listilegar skreytingar, höggmyndir og málverk og allir veggfletir eru útflúraðir með tilvitnunum úr hinum fornu Veda-ritum skrifaðar á sanskrít. Talið er að það hafi tekið 7000 hagleiksmenn 150 ár að meitla í burtu 200.000 tonn af hörðu graníti til að ljúka þessu mikla verki.
Þetta mikla listaverk er nefnt AJANTA HELLARNIR.
Gerð hellana hófst fyrir meira en 2000 árum. Haldið er að Búdda munkar hafi leitað skjóls í gjánni á monsún tímabilinu og byrjað að höggva hellana út úr berginu og skreyta þá með trúarlegum táknum til að stytta sér stundir á meðan rigningin varði. Eftir því sem hellarnir stækkuðu hefur viðdvöl þeirra orðið lengri uns þeir urðu að varanlegu heimili þeirra og klaustri.
Munkarnir voru miklir hagleiksmenn. Um það vitna haglega meitlaðar súlur, bekki, helgimyndir, greinar og stokkar. Jafnvel húsgögnin voru höggvin út úr steininum sem í raun má segja að hafi verið ein gríðarlega stór blokk úr hamrinum.
Skrautskriftin og máverkin voru máluð með náttúrulitum og það hlýtur að hafa verið vandasamt að framkvæma þar sem lítið sem ekkert sólarljós er að hafa við hellana. Mest af vinnunni hefur því farið fram við ljós frá olíulömpum.
Hvers vegna munkarnir yfirgáfu staðinn á sjöundu öld er enn ráðgáta. Kannski voru þeir að flýja ofsóknirnar á hendur Búddistum sem skóku Indland á þessum tíma. Eða ef til vill varð einangrunin þeim ofviða því erfitt er að lifa á ölmusu úr alfaraleið. Eftir að þeir fóru óx gróðurinn smá saman yfir hellaopin og öll ummerki um þessa merku byggð hurfu sjónum manna í rúm 1500 ár.
Sumt bendir til að íbúar Ajanta hafi flutt sig um set til Ellora sem er nær fjölfarinni verslunarleið. Ellora er staður sem að vissu leiti er áþekkur Ajanta því þar er einnig að finna skreytta úthöggna hella. Þar hefst byggð um sama leiti og hún leggst af í Ajanta.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 03:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.9.2009 | 23:41
Móðir jörð grætur
Þessi mynd var tekin í Austfonna jöklinum á eynni Nordaustlandet í Noregi í síðast liðnum júlí mánuði af ljósmyndaranum Michael Nolan. Myndinni hefur ekkert verið breytt og höfundurinn að þessari íshöggmynd er sjálf móðir jörð.
Tár móður jarðar hafa verið vinsælt yrkisefni ljóðskálda, ekki hvað síst upp á síðkastið þegar í ljós hefur komið hversu mjög er gengið nærri náttúrunni af hendi manna. Segja má að þessi mynd sem er af bráðnun í jöklinum, sé afar ljóðræn og jafnframt táknræn. Móðir jörð grætur örlög sín og okkar, harmar röskun mannsins á jafnvægi náttúrunnar.
Illa gengur að stemma stigu við hitnun jarðarinnar og hver sem hlutur mannsins er í því ferli, eru nú líkur á að það sé orðið of seint að hægja á því hvað þá að koma í veg fyrir það. Á næstu áratugum munu afleiðingar þess fyrir menn og lífríki jarðarinnar yfirleitt verða að fullu ljósar.
Menning og listir | Breytt 4.9.2009 kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.9.2009 | 03:13
Auglýst eftir "Nýja Íslandi"
Núverandi stjórnvöldum er tíðrætt um að þeirra helsta verkefni sé að "moka flórinn" eftir langvarandi óstjórn fyrri ríkisstjórna og "slökkva eldanna" sem ógna þjóðarskútunni og kveiktir voru af hálfri þjóðinni, miðað við öll krosstengslin sem eru að koma upp úr kafinu.
Að bjarga því sem bjargað verður er auðvitað göfugt verkefni og þarft. Fram að þessu hefur verið nóg að gera við að fá það samþykkt að flórinn og eldarnir verði yfirleitt meðhöndlaðir á einhvern hátt. Orkan og tíminn sem farið hafa í þetta verk fram að þessu hafa ekki skilið eftir mikið til að sinna öðrum og ekki síður brýnni málum. Það sem um ræðir er stefnumótun fyrir nýja þjóðarsátt og viðreisnarsýnar fyrir þjóðina.
Því miður sér ekki enn fyrir endann á björgunarstarfinu og ef fer sem horfir, munu stjórnmálflokkarnir halda áfram að nálgast lausnirnar sem ákveðið verður að beita, út frá sínum þröngu flokkspólitísku hagsmunum.
Áður en gengið var til kosninga fyrr á árinu, voru margir vongóðir um að mikilla endurbóta í þjóðfélaginu væri að vænta. Þannig töluðu stjórnmálamenn þá og almenningur talaði um "Nýja Ísland" og nýja sýn sem sameina mundi þjóðina í að endurreisa efnahagslíf hennar á réttlátari grunni. Þessi sýn, hafi hún nokkru sinni verið til í huga stjórnmálamanna, hefur horfið í þoku flokkspólitískra þræta og sundurlyndi.
Agnar Kristján Þorsteinsson (AK-72) skrifaði fyrir skemmstu afar góða grein sem hann nefnir "Hugleiðingar Ísþræls".
Í niðurlagi greinarinnar setur höfundar fram kröfur sem bergmála vel þær hugmyndirnar um betra og réttlátara samfélag sem svo mikið var haldið á lofti fyrir kosningar og kominn er tími til að minna kröftuglega á aftur því þær virðast hafa gleymst fljótlega eftir að stjórnmálaflokkunum var aftur gefið umboð til að stökkva niður í kunnuglegar skotgrafir sínar í meðhöndlun allra mála. Kröfur Agnars eru m.a. sem hér segir;
Ég krefst þess og tel það algjört skilyrði, að hér verði myndað nýr samfélagssáttmáli eða hið Nýja Ísland og það verði ekki andvana fætt eða kæft í þinghúsinu eftir að róast í samfélaginu. Það skal verða stjórnlagaþing, það skal verða ný stjórnarskrá skrifuð af almenningi og fyrir þjóðina alla.
Ég krefst þess að þingmenn, ráðherrar og stjórnsýslan öll verði látin gangast undir strangar siðareglur sem hafi hagsmuni almennings að leiðarljósi og að Alþingi verði ekki lengur skúffufyrirtæki valdaætta, viðskiptablokka, auðmanna eða Viðskiptaráðs heldur Alþingi verði fyrir alla borgara landsins.
Ég krefst þess að það verði tryggt með lögum að siðferði verði látið ríkja í viðskiptum og þrengt verði að því frelsi sem orsakaði hrunið, frelsinu til að mega vera siðblindur og iðka slíkt í viðskiptum og hörð viðurlög verði sett við brotum þar.
Og að lokum krefst ég þess, að hér rísi upp réttlátt samfélag, gott samfélag sem ég get og vil búa í, samfélag þar sem maður getur horft framan í spegilinn og sagt:Ég þraukaði, ég barðist og ég uppskar samfélag vonar, virðingar og sáttar öllum til handa. Ef það gengur eftir og þetta haft að leiðarljósi, þá er ég tilbúinn til þess að þrauka þorrann. Ef ekki þá er bara eitt sem hægt er að segja:
Guð blessi Ísland, ég er farinn!
31.8.2009 | 15:12
Illgjarn hrekkjalómur eða græskulaus prakkari
Hvenær verða hrekkjóttir að hrekkjusvínum og hvenær fá hrekklausir ofsóknarbrjálæði? Það er vandlifað í henni veröld og meðalvegurinn vinsæli vandfundinn. Mikill munur er samt á græskulausum grikkum og ósvífnum og oft skaðlegum hrekkjum þar sem blekkingum er beitt til að valda öðrum skaða.
Fyrir stjórnmálamönnum eru þess mörk hvað óskýrust. Þeir meta allt á þann veg að það sem er andstæðingnum til minnkunar, er það þeim sjálfum til framdráttar. Nýlegt dæmi um þetta er meðhöndlun Þingsins á Icesave málinu og yfirlýsingar flokksforingjanna eftir afgreiðslu málsins. Þeir töldu fráleitt á meðan verið var að fjalla um málið að það gæti fellt stjórnina. En eftir að hafa knúið fram einhverjar málmyndabreytingar, halda þeir því fram að ef ekki verði fallist á breytingarnar, sé eðlilegt að stjórnin fari frá.
Ég velti líka fyrir mér hversu langt er hægt að ganga í stríðni og hrekkjum án þess að særa fólk eða meiða. Sem dæmi, væri viðeigandi að gefa þetta rándýra abstrakt málverk, þeldökkum vini mínum.
Ófáir telja sér það til tekna að vera dálítið hrekkjóttir og sjaldan heyrir maður fólk sperra eyrun jafn mikið og þegar góð hrekkjasaga er sögð af hróðugum prakkara. - Vel skipulögð prakkarastrik eru meðal vinsælasta myndefnisins á youtube og sjónvarpsþættirnir "Falin myndavél" eru auðvitað ekkert annað en hrekkjaveisla.
Sumir frægir leikarar eru frægir hrekkjalómar. Þeir hafa unun af því að koma fram í viðtalsþáttum og segja frá hrekkjunum og hlægja dátt með þáttastjórnandanum að öllu saman.
George Clooney er orðlagður hrekkjalómur og hefur oft reynt að segja frá hrekkjum sínum í sjónvarpinu. Ég hef tekið eftir því að grikkurinn virðist ekki vera eins hlægilegur fyrir áhorfendur, oftast aðeins fáeinir sem reka upp hlátursrokur, leikaranum og þáttastórandanum til samlætis. "You had to be there"!.
Í bók sinni The Compleat Practical Joker eftir H.Allen Smith segir hann frá mörgum kunnum prökkurum. Einn þeirra var málarinn Valdo Peirs sem bjó í París í byrjun tuttugustu aldar. Dag einn gaf hann nágrannakonu sinni litla skjaldböku að gjöf. Konan dekraði við skjaldbökuna og þótti mjög vænt um hana. Nokkrum dögum seinna sætti Valdi færis og skipti á litlu skjaldbökunni fyrir aðra nokkru stærri. Þetta gerði hann nokkrum sinnum uns konan var komin með allstóra skjaldböku í hús sitt sem hún sýndi nágrönnum sínum afar stolt. Þá snéri Valdo ferlinum við þannig að skjaldbaka konunnar fór stöðugt minnkandi. Þetta olli nágrannakonunni skiljalega miklum áhyggjum og hugarangri en Valdo skemmti sér við að segja frá angist hennar.
Kanntu góða hrekkjasögu?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.8.2009 | 12:13
Saving Icesave
Þá er þessum þætti sýndar-veruleikasjónvarpsþáttarins frá Alþingi Íslendinga lokið. Saving Icesave hefur notið mikilla vinsælda upp á síðkastið en nú er ekki hægt að teygja lopann lengur, enda nóg komið að margra mati.
Samt var fullt af fólki hélt að þarna væri um alvöru alvöru að ræða, þ.e. raunverulegan raunveruleika. Það mætti jafnvel til að mótmæla niðrá Austurvöll. Ég er að velta fyrir mér hvað það fólk geri nú þegar það fattar að þetta var allt í plati.
Annars sýna fyrstu viðbrögð þess fyrst og fremst hvað leikurinn í þættinum var virkilega góður. Sérstaklega á endasprettinum, í kosningunni sjálfri, þegar Framsóknarflokkurinn sem greinilega er að reyna auka vinsældir sínar í þessu leikriti, sagði "nei, nei, nei". Vá..slíkan ofurleik hefur maður ekki séð lengi. - Sumir sem enn eru ekki búnir að fatta að þetta var og er bara sjónarspil ætla örugglega að kjósa þá næst.
Ég sá reyndar handritið að þessum farsa fyrir tæpu ári. Það var skrifað af fyrrverandi ríkisstjórn . Það var líka með; " við lofum að borga" sem endi á málinu og þeim endi hefur ekki verið breytt þrátt fyrir mikið stagl og streð. - En það var nú líka fyrirsjáanlegt. Þegar einu sinni er búið að taka ákvörðun um hvernig plottið gengur upp er ekki hægt að breyta því. En það var flott flétta að þykjast ætla að breyta því. Hélt manni við skjáinn ansi lengi.
26.8.2009 | 23:13
Tannburstaskeggið í miðnefsgrófinni
Frægasta og jafnframt óvinsælasta skegg veraldar er án efa það sem prýddi efri vör Hitlers. Til eru heimildir sem segja að Hitler, sem áður var með langt og endasnúið keisara-yfirvararskegg, hafi þurft að skera það svo hann gæti sett upp gasgrímu, þegar hann barðist í fyrri heimstyrjöldinni.
Tannburstaskeggið, eins og þessi tegund skeggs er jafnan nefnd, sé það ekki af öðrum kostum kennt við Hitler eða Charly Chaplin sem notaði það sem hluta af gervi flækingsins sem hann var svo frægur fyrir að leika, varð afar vinsælt meðal verkamanna í Evrópu upp úr 1920. Það varð einskonar mótvægi við stórkallalegt keisara-skegg yfirstéttanna sem voru vel vaxborin og gátu skagað talvert út fyrir ásjónu viðkomandi.
Chaplin sagðist hafa upphaflega notað tannburstaskeggið vegna þess hversu kómískt það liti út á flækingum og væri auk þess nógu lítið til að andlitsgeiflur hans skiluðu sér á hvíta tjaldinu. Að sjálfsögðu notaði hann einnig skeggið í gervi einvaldsins í kvikmyndinni The Great Dictator sem hann gerði árið 1940.
Í Kína þótti tannburstaskeggið vera einkennandi fyrir japanska karlmenn, einkum í seinni heimstyrjöldinni.
Fáir fást til að bera slíkt skegg í dag, enda kom Hitler á það miklu óorði með því einu að bera það. Sá orðstýr virðist samt ekki aftra einvaldinum Robert Mugabe í Simbabve, því hann ber tannburstaskegg sem skorið er nákvæmlega til að passa ofaní miðnefsgrófina á honum.
Miðnefsgróf er sem sagt lóðrétta dældin í efri vör beint undir miðju nefi á flestum mönnum. Hún var reyndar kölluð "efrivararrenna" í bók um líffæraheiti eftir Jóns Steffensen sem kom út árið 1956. Einhver lagði einnig til að hún yrði kölluð miðsnesisgróf en miðnefsgróf er best að mínu mati.
24.8.2009 | 19:11
Hvítur fíll
Þegar talað er um "hvítan fíl" í enskumælandi löndum er venjulega átt við einhverja verðmæta eign sem ekki er hægt að losa sig við og kostar mikið að viðhalda og eiga í samanburði við notagildi hennar.
Ég gæti gert þessa stuttu grein hundleiðinlega með því að telja upp nokkur dæmi um slíka "hvíta fíla" á Íslandi og víða annarsstaðar í heiminum. Þess í stað læt ég nægja að fjalla aðeins um hugtakið sem slíkt.
Líklega má rekja orðtiltækið til hvítu fílanna sem einræðisherrar suðaustur Asíulanda, eins og Tælands, Laos, Burma og Kambódíu sóttsut mikið eftir að eiga. Hvíti fíllinn sem í dag er frekar sjaldgæf skepna er yfirleitt ekki hvítur, heldur ljósbrúnn á litinn. Augnahár og tær eru einnig ljós á lit.
Hann var til forna tákn velgengni, friðar og gæfu alls konungsríkisins. Vegna þeirra helgi sem lögð var á hvíta fílinn má ekki beita honum til nokkurrar vinnu en hann er hins vegar nokkuð dýr að ala og halda.
Hvíta fíla mátti fyrrum sjá í þjóðfánum Los og Tælands og herstjórnin í Burma tilkynnti árið 2002 að tveir alhvítir (Albínóar) fílar hefðu fundist og átti sá fundur eflaust að tryggja henni aukið fylgi meðal alþýðunnar.
Ríkisstjórn Tælands veitir heiðursorður hins hvíta fíls. Sagt er að nýlega hafi starfsmanni Buckingham hallar verið tilkynnt að heiðra ætti hann með "hvítum fíl". Hann hafði samband við dýragarðinn í London til að athuga hvort þeir gætu hýst hann en andaði svo léttar þegar honum var sagt að um væri að ræða orðu sem hann gæti hengt utan á sig þegar hann vildi.
Sú helgi sem lögð var á hvíta fílinn í fyrrgreindum löndum kemur upphaflega frá Hindúatrú en berst frá henni yfir í Búddatrú. Í ritum Búdda-trúarinnar segir frá draumi sem Maja móður Siddharta (eiginafn Gautama Búdda) dreymdi nóttina fyrir fæðingu hans. Í draumnum færði hvítur fíll henni lótus blóm að gjöf sem er tákn visku og hreinleika í Hindúasið sem voru ríkjandi trúarbrögð á því svæði sem Búdda fæddist. Meðal hindúa er hvíti fíllinn nefndur Airavata og sagður konungur allra fíla. Hann er einnig reiðskjótti Indra himnadrottins.