Færsluflokkur: Menning og listir

Er hún virkilega of feit?

Jennifer í fínu formiMig hefur oft langað til að skrifa um annars konar slúður en þetta pólitíska. Sárstaklega slúður um frægt fólk sem lætur plata sig til að tjá sig opinberlega um einkamál sín, skoðanir og lífsspeki, harm og hamingju - Það eru stórskemmtilegir atburðir. Við getum ekki annað en drukkið þá í okkur.

Nú stenst ég ekki mátið því Jennifer Lopez sem er besta söngkonan meðal kvenleikara í Hollywood og besta leikkonan meðal söngkvenna, hefur talað. 

Allt frá því hún varð fræg hefur hún þurft að þola háðsglósur bandarískra sjónvarpsþátta-stjórnenda og annarra brandarakalla fyrir að hafa stóran rass og vera of feit miðað við allar hinar anórexurnar sem hafa "rétta" lúkkið. -

Hún hefur fram að þessu þóttst kæra sig kollótta og látið ljósmynda sig og filma í bak og fyrir reglulega án nokkrar blygðunar fyrir útlit sitt.

Hún hefur líka ætíð verið vinsæl og vaðið í myndarlegum karlmönnum sem greinilega eru ekkert að setja stóra rassa fyrir sig....eða þannig.

Í þessu viðtali við Jane Fonda eilífðarfegurðardís, reynir á lífsspeki Lopezar. Hún segir í svo mörgum orðum að erfiðleikar séu til að læra af þeim.

Þetta er forn og gild háspeki sem fólk getur alveg tekið alvarlega. Lopes hefur örugglega þurft að kafa lengi í kabala-fræðin sín til að finna þetta út. -  Og hvað skyldi Lopes svo hafa lært í öllum sínum erfiðleikum sem einn ríkasti og vinsælasti skemmtikraftur í USA með alla sætu strákana á hælunum?

Jú,  að manni þurfi að líða vel í eigin skinni til að geta liðið vel með öðrum. Þetta er líka alkunnur sannleikur sem margir flaska á.

Einkum þeir sem alls ekki geta verið einir og með sjálfum sér um tíma, ja eða svona eins og Lopez sem ætíð hefur ætt úr einu sambandinu í annað.

En nú er hún öll að mannast og hefur lært sína lexíu.

Hún rekur umbann sinn fyrir að segja henni sannleikann, (eins og hann sér hann) af því henni líður svo vel í eigin skinni og er ekkert viðkvæm fyrir þessu bulli.

Go girl,  go.


mbl.is Rak umboðsmann sem sagði henni að léttast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Santa versus Stekkjastaur

santa_claus_3.gifAmerísk menning og þjóðhættir eiga greiðan aðgang að Íslandi og Íslendingar upp til hópa virðast afar ginkeyptir fyrir henni. Í hönd fara nú þeir mánuðir þegar mest ber á því hversu andsvaralítið íslenskir siðir og þjóðhættir hafa smá saman látið í minni pokann, eða upplitast af þeim amerísku og tínt sérkennum sínum.

stekkjastaur1.jpgÞótt reynt hafi verið t.d. að halda við, og endurvekja, íslensku jólasveinana, sjást þeir yfirleitt á ferli rauðklæddir og í búningi að hætti Coca Cola-sveinsins og haga sér svo til eins og hann,  - 

Aðeins nöfn hinna rammíslensku tröllasona hafa nokkurn veginn haldið sér. Grýla, Leppalúði og jólakötturinn eru yfirleitt hvergi sjánleg nema á Þjóðmynjasafninu.

Valentínusardagurinn er smá saman að ýta alveg út hinum íslenska konudegi sem þýðir að bóndadagurinn og það jafnræði sem þessir tveir dagar báru með sér, er ekki lengur í heiðri haft eða minnst á þeim dögum.

halloween-party-ideas.jpgÍ stað þess að árétta og þakka hinni góðu búkonu störf hennar og lofa hagsýni hennar, er tilhugalífið með tilheyrandi rósrauðri rómantík, blómum og súkkulaði orðið að aðalatriðum.

Þá skal ekki rugla bónda og konudegi saman við mæðra og feðradagana sem einnig eru amerísk uppfinning og blómasalar og konfekt framleiðendur hafa gert sér mat úr hér á landi allt frá árinu 1934.

_lfar.jpgNýafstaðin er Hrekkjavakan (Halloween) sem er smá saman að færa sig upp á skaftið hér á landi, þrátt fyrir að Íslendingar hafi haft talvert fyrir því á sínum tíma að koma sér upp þjóðlegum hátíðahöldum í svipuðum dúr og sem haldin voru upphaflega á gamlárskvöld.

Form þeirra hátíðahalda hefur reyndar sumsstaðar færst yfir á þrettándann. Í stað álfa, huldufólks og trölla, koma uppvakningar, blóðsugur og raðmorðingar í bland við amerísk ofurmenni ættuð úr þarlendum hasarblöðum og kvikmyndum.

_skupokar.jpgAð sama skapi og þessir amerísku þjóðhættir riðja sér hér til rúms, viðspyrnulítið, verður hlutur þeirra íslensku minni og máttlausari.

Sprengidagur og öskudagur koma og fara án þess að elduð sé baunasúpa á heimilum landsins eða saumaðir öskupokar.

Bolludegi er reyndar enn haldið uppi af bökurum en vendirnir eru horfnir ásamt tilheyrandi flengingum.

Að mörgu leiti hefur okkur íslendingum mistekist að heimfæra menningararf bændasamfélagsins yfir  á bæja og borgarsamfélagið. Jónsmessan er aflögð, sumardagurinn fyrsti á útleið eins og fyrsti vetrardagur. Það eru helst matarvenjurnar sem lifa. Skata er víða elduð á þorláksmessu og þorrablót lifa ágætu lífi með sínu súrmeti og hangiketi.

Ferðamenn (túristar)  hafa oft orð á því að þeim finnist íslensk menning vera mjög amerísk. Það sem dregur þá til landsins er sérstæði íslenskrar náttúru og þeir búast einhvern veginn við því að menning okkar sé jafn sérstök og landið. Til að upplifa ameríska menningu mundu þeir fara til Ameríku, er viðkvæðið.

Kannski er það gamla eylands-minnimáttarkenndin sem þarna birtist enn á ný, og aftur að ástæðulausu. Hún felst í því að halda að allt hljóti að vera merkilegra og betra meðal annarra þjóða. Oft er reynt að fela hana með innistæðulausum þjóðarrembingi og mikilmennsku-stælum eins og við þekkjum svo vel úr sögu síðustu ára.

Íslenskir þjóðhættir eru hins vegar menningararfur sem vert er að halda í. Þeir skilgreina okkur betur sem þjóð og gerir landið og íbúa þess mun áhugaverðari um leið.


Aftur vel efnað fólk á Íslandi

Svo að fólk geti selt frá sér ýmsan húsbúnað og skrautmuni til að eiga fyrir salti í grautinn, þarf einhver að eiga peninga til að kaupa. - Fréttirnar segja að neyðin sé það mikil að allt sé til týnt og sumt sem í boði er sé aðeins nokkra þúsundkalla virði.

En misjafnt hefst nú fólk samt að.

Á þessu uppboði hjá Gallerí Fold er greinilegt einhverjir hafa seilst í heilagt ættargóssið til að selja og aðrir í afar djúpar buddur til að kaupa. -

Það hlýtur samt að vita á gott að til er fólk á Íslandi sem munar ekkert um að slá út fyrir einu málverki á tvær og hálfa milljón. - Alveg í takt við uppganginn í landinu er það ekki og þá óhjákvæmilegu staðreynd að hinir ríku verða ætíð ríkari og hinir fátæku fátækari.


mbl.is Ingólfur sleginn á 900.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt sem Lennon væri óhress með

HUgsa sér friðImagineer frægasta lag John Lennon. Friðarsúlan í Viðey er einskonar framlenging af texta þess lags og á hana er rituð skírskotun í textann á nokkrum erlendum tungumálum, eða "Ímyndið ykkur frið".

Á íslensku stendur hinsvegar eitthvað allt annað, eða "hugsa sér frið" sem  á ensku mundi vera "thinking of peace". 

Hvað og hver réði því að þessi túlkun eða þýðingarvilla varð ofaná, þegar að friðarsúlan var sett upp, veit ég ekki. En trúlega mundi John ekki vera sáttur við hana, eins nákvæmur ljóðasmiður og hann var. - Munur orðanna er augljós og óþarfi að rökstyðja hann frekar.

 

 


mbl.is John væri ekki ánægður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna ekki textana í brekkusöngnum

Árni JÁrni Johnsen og Róbert Marshall eru báðir söngelskir og ljóðadýrkendur. Þeir vita hvað klukkan slær þegar kemur að kunnáttu íslensks ungdóms hvað varðar ljóð og sönglög. 

Báðir  hafa t.d. stýrt fjöldasöng á fjölmennustu útihátíð landsins til margra ára, Þ.e. Þjóðhátíð í Eyjum. (Það var einmitt Róbert sem leysti Árna af í brekkusöngnum sumarið sem Árni sat inni.) 

Árni hefur verið þekktur fyrir að halda uppi mikilli stemmningu með því að syngja og leika gamla íslenska slagara.

E.tv. hefur Árna blöskrað síðustu árin hversu illa krakkarnir kunna textana við íslensku sönglögin í brekkusöngnum og vill bæta úr því með þessari þingsályktunartillögu.

 Þriðji þingmaðurinn sem stendur fyrir ályktuninni er Ólína Þorvarðardóttir, sjálfskipuð útvörður íslenskrar menningar á þingi og af landsbyggðinni í þokkabót eins og hin tvö.

Vonandi verður þetta samþykkt svo rútu og brekku söngur verði vinsæll að nýju meðal ungmenna. Fátt er eins vel til þess fallið að vekja og viðhalda heilbrigðri þjóðerniskennd.


mbl.is Auka skuli hlut ljóðakennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar amma var ung

Sú var tíðin að það þótti heyra til tíðanda ef að dægurlag með öðrum en íslenskum eða enskum taxta náði teljandi vinsældum meðal þjóðarinnar. Ríkisútvarpið sem var allsráðandi í þessum efnum langt fram á síðustu öld og átti því stærstan þátt í móta tónlistarsmekk þjóðarinnar á þeim tíma, réði því að sú tónlist sem leikin var í tónlistarþáttum eins og "Óskalög sjómana", "Óskalög sjúklinga" og "Við sem heima sitjum" voru hvað erlenda dægurtónlist snerti, endurómun af breska vinsældarlistanum. "Lög unga fólksins" fylgdi þessari sömu stefnu enda litu vinsældarlistarnir, sem þá voru komnir til sögunnar, flestir svipað út og þeir bandarísku og bresku. Vissulega voru þessir þættir pipraðir með tónlist frá framandi löndum og lög eins og hið kúbanska Guantanamera, hið hebreska  Hava Nagila og hið mexikanska La Bamba heyrðust af og til og voru sjálfsagt langlífari í íslenskum útvarpsþáttum en nokkrum öðrum.

Fyrsta lagið sem ég man eftir að spilað var látlaust í öllum óskalagaþáttum og hvorki var íslenskt eða enskt var  þýska lagið sem ýmist var kynnt undir heitinu "Der fröhliche Wanderer"  eða "Mein Vater war ein Wandersmann".

Þetta glaðlega "göngulag" sem allir héldu að væri gamalt þýskt þjóðlag, var reyndar samið af  Friedrich-Wilhelm nokkrum Möller skömmu eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk.  Það varð geysi-vinsælt víða um heim árin 1953-4 í flutningi barnkórs frá Schaumburg. Mörg barnanna í kórnum sem þekktur varð undir nafninu Obernkirchen kórinn og stjórnað var af systur Fredrichs, Edith Möller, voru munaðarleysingjar sem misst höfðu foreldra sína í stríðinu.

Sjálfsagt hefði lagið aldrei orðið jafn vinsælt og raun ber vitni, ef BBC hefði ekki útvarpað úrslitunum í alþjólegu Llangollen kórkeppninni árið 1953 þar sem Obernkirchen kórinn vann keppnina með glans með flutningi sínum á þessu glaðhlakkalegu lagi.

Árið 1954 sat það í margar vikur í efstu sætum vinsældalista viða um heim t.d. á þeim breska, í ekki færri en 29 vikur.

Texti lagsins er eftir Edith, en hann hefur verið þýddur á fjölda tungumála og  á ensku heitir lagið "The Happy Wanderer". Obernkirchen kórinn kom til Íslands árið 1968 og flutti m.a. lagið sem þýtt var á íslensku sem "Káti vegfarandinn" á vel sóttum tónleikum í Þjóleikhúsinu.

Næst var það trúlega ítalskan sem ég fékk að kynnast í söng á öldum ljósvakans i lagi sem síðan hefur verið hljóðritað og gefið út af meira en 100 mismunandi flytjendum.  Lagið heitir "Nel blu dipinto di blu" en allir þekkja það undir heitinu Volare.

Ítalska tónskáldið Domenico Modugno samdi lagið og einnig ljóðið ásamt Franco Migliacci. Það var fyrst flutt af Domenico og Johnny Dorelli á tónlistarhátíð í  Sanremo 1958 og sama ár var það valið til að vera framlag Ítalíu til Júróvisjón keppninnar.- 

En þrátt fyrir að  Domenico og Franco fengju að flytja lagið tvisvar í keppninni, vegna truflana á útsendingu í fyrstu atrennu, nægði það ekki til að koma laginu hærra en í þriðja sæti. - Lagið flaug samt inn á vinsældarlistanna víða um heim og hlaut síðan verðlaunin "besta lag ársins" á fyrstu Grammy verðlaunahátíðinni sem haldin var 1958 í Bandaríkjunum.

 

Árið 1963 þegar að Bítlarnir klifruðu upp alla vinsældarlista á ofurhraða fengu þeir samkeppni úr óvæntri átt. Belgísk nunna sem þekkt varð undir nafninu Sœur Sourire (Systur bros) hafði þá samið og hljóðritað lagið Dominique, sem varð svo vinsælt að það rauk upp í fyrsta sæti vinsældarlista bæði vestan hafs og austan. Fram til þessa dags, er það eina belgíska lagið sem náð hefur fyrsta sæti á vinsældarlistum í Bandaríkjunum. Lagið varð svo vinsælt að Jeanine Deckers, en svo hét þessi syngjandi nunna réttu nafni, fór í hljómleikaferð um Bandaríkin og var auk þess boðið að koma fram í skemmtiþætti  Ed Sullivan.

Deckers, sem sjálf fékk aldrei krónu borgaða fyrir lagið, heldur lét ágóðann renna til klaustursins, gafst upp á klausturslifnaðinum árið 1967.  Í framhaldi af því reyndi hún árangurslítið fyrir sér með tónlistarflutningi undir nafninu Luc Dominique þar sem henni var meinað að nota nafnið Sœur Sourire, sem var sagt eign útgefanda hennar, þ.e. Philips samsteypunnar.

Seint á áttunda ártugnum reyndu belgísk skattayfirvöld að innheimta af Deckers fúlgur fjár sem þau vildu meina að hún skuldaði í skatta af tekjunum af Dominique. - Deckers hafði þá þegar fallið í ónáð kaþólsku kirkjunnar vegna opinbers stuðnings síns við notkun "pillunnar" og vegna samkynhneigðar sinnar. Árið 1985 frömdu hún og sambýliskona hennar til margra ára, Annie Pécher, sjálfsvíg og sögðu í bréfi sem þær skildu eftir sig, fjárhagserfiðleika ástæðurnar.

Upp úr 1966 átti franska kynbomban Birgitte Bardott í ástarsambandi við sjarmörinn og tónlistarmanninn Serge Gainbourg. Hún bað hann að semja fyrir sig fegursta ástaróð sem hann gæti upphugsað og þá sömu nótt samdi hann lag sem átti eftir að kenna allri heimsbyggðinni að segja "Ég elska þig" á franska tungu, eða; Je t'aime.

Fyrst hljóðritaði hann lagið með stunum Bardott og sjálfs sín en sú útgáfa lagsins kom ekki út fyrr en árið 1986. Það var hins vegar ástkona hans, ofurskutlan Jane Birkin sem söng og andvarpaði ásamt Serge sjálfum á útgáfunni sem fór eins og eldur í senu um heiminn árið 1967. Í þeim löndum sem ekki bönnuðu flutninginn fór lagið gjarnan í fyrsta sæti.


Vínlandsfáninn

Vínlands fáninnFáninn er hannaður í sama stíl og norðrænir fánar, svartur kross með hvítum jöðrum á grænum feldi. 

Hann er mikið notað af hvítum kynþáttahyggjumönnum í USA og Evrópu sem álíta föðurland sitt Norður Ameríku, Grænland, Ísland og Norður Evrópu. 

Sem fáni stór-Hvítramannalands, er það m.a til sölu á Ný-Nasistasíðunni Stormfront.org.

Vínlandsflaggið er hugarfóstur Peters Steele söngvara hljómsveitarinnar Type O Negative og á að vera táknrænt fyrir pólitískar skoðanir hans og önnur áhugamál, þar á meðal íslenskt ætterni hans.

Pælingar Peters í tengslum við fánagerðina gengu út á spekúleringar um hvað hefði gerst ef norðrænum mönnum hefði tekist að stofna ríki í Norður Ameríku í kjölfar landafunda Leifs Eiríkssonar. Hann ímyndaði sér það sæluríki sem byggði á vísindahyggju frekar en trúarbrögðum. Þetta ímyndaða ríki kallaði Peter People's Technocratic Republic of Vinnland.

Peter SteeleAf Pétri Steele er það að segja að hann var borinn og barnfæddur í Brooklyn en fjölskylda hans er kaþólsk og sögð af pólskum rússneskum, íslenskum og skoskum ættum. Móðir hans er/var? íslensk í aðra ættina.

Hann lærði að glamra á gítar og lék með nokkrum lítt kunnum þungarokks böndum áður enn hann stofnaði Type O Negative.

Vinsælasta breiðskífa hljómsveitarinnar heitir Bloody Kisses. Skífan gerði hljómsveitina fræga og  Steele að kyntákni. 1995 birtist mynd af honum nöktum á forsíðu tímaritsins Playgirl. Hann varð frekar óhress með þá ákvörðun eftir að hann frétti að aðeins 23% af lesendum blaðsins voru konur og þeir einu sem báðu hann um eiginhandaráritun á entak af blaðinu voru hommar.

Peter lést árið 2010 þá aðeins 48 ára.


Útnesjamenn eftirlegukindur í efnahagsbatanum

Það er erfitt að átta sig ástandi þjóðarsálarinnar um þessar mundir. Á sama tíma og stjórnarliðar segja efnahaglegan bata landsins vel á veg kominn og bankarnir tilkynna aftur um milljarða króna hagnað, skín vantrú og vonbrigði, sem oft verður líka að kaldhæðnislegu glotti,  úr andlitum almennings.

En hvers er að vænta af þjóð sem trúði einlægt á ákveðnar hugsjónir sem ollu þeim svo skelfilegum vonbrigðum, treysti fólki sem síðan sveik hana, sem hafði ákveðna sýn á framtíðina sem aldrei varð að veruleika.

ReykjanesbaerinnReyndar bera sig einhverjir mannalega, einkum í litlum byggðarlögum út á landi sem voru svo heppin, (eða forsjál) að kreppan náði aldrei til þeirra að ráði og allir héldu atvinnu sinni og lífsviðurværi.

En þar sem atvinnuleysið er mest og hefur varað hvað lengst, eins og suður með sjó í Reykjanesbæ,  þar sem atvinnuleysið er 13 til 14%, liggur ráðaleysið eins og mara yfir fólkinu og bænum öllum.

Fyrir marga er Hafnargatan í Keflavík andlit bæjarins. Að ganga eftir henni er átakanlegt. Þar getur að líta allt of marga auða útstillingarglugga, gapandi tómar augntóftir fyrirtækja sem eitt sinn voru matarholur einhverra íbúa bæjarins. -

ReykjanesbaerOg sú þjónusta og verslun sem enn lifir í plássinu á í vök að verjast. - Sumir bæjarbúar virðast halda að þeir séu að spara með því að aka alla leið til Reykjavíkur til að versla. - Á góðri stundu, er kallað eftir samstöðu, en hún fer fyrir lítið þegar fólk rýnir i budduna sína og heldur, hvort sem það er svo rétt eða ekki, að það geti sparað nokkrar krónur á að renna í Reykjavík til að versla. En það verður líka að horfa til þess að ýmsa þjónustu, sérstaklega heilbrigðisþjónustu sem skorin hefur verið niður af ríkisvaldinu,  er ekki  lengur hægt að fá í Keflavík.

Stóru hugmyndirnar, allsherjar-lausnirnar sem m.a. fólu í sér byggingu álvers í Helguvík og/eða annars orkufreks iðnaðar eða þjónustu eins og alþjóðlegs tölvugagnavers upp á velli,  og sem bæjarstjórinn þreytist ekki á að telja upp í ræðu sinni í tilefni Ljósanætur á hverju ári í mörg ár, hafa eins og allir vita, ekki orðið að veruleika.

Nýsköpun í atvinnulífinu eru orðin tóm á Suðurnesjum og það stoðar lítið að benda stöðugt á nýlegan rekstur sem enn stendur á brauðfótum eins og Háskólann Keili eða Heilsuhótelið hennar Jónínu Ben sem dæmi um nýleg fyrirtæki í bænum.

Bæjarstjórinn í ReykjanesbæFjölmenn en duglaus embættismannastétt bæjarins, að ekki sé minnst á fólkið sem situr á þingi fyrir þennan landshluta,  kennir pólitískum deilum, skort á orku til að breyta í rafmagn og viljaleysi peningastofnana til að lána fé í framkvæmdir, um ástandið -

(Er að furða að fólk spyrji til hvers sé verið að halda gangandi peningastofnunum hvort eð er Bönkum eða sjóðum sem ekki hafa að markmiði að þjóna fólki , heldur aðeins peningum.)   -  

Sem dæmi má taka "Eignarhaldsfélag Suðurnesja". Það auglýsir eftir hugmyndum um nýsköpun sem það gæti fjárfest í og er tilbúnið til að offra til atvinuuppbyggingar á Suðurnesjum heilum 150 milljónum, eða andvirði tveggja sæmilegra húseigna á Reykjavíkursvæðinu.

En stefna bæjaryfirvalda í atvinnuþróun er eftirfarandi eins og fram kemur á heimsíðu bæjarins:

HelguvíkReykjanesbær  byggir á sex meginstoðum til atvinnuþróunar á svæðinu:

1. Að orka Reykjaness sé virkjuð skynsamlega. Að hér sé staðsett öflugt orkufyrirtæki sem býður samkeppnishæfa orku til heimila og fyrirtækja og er fært um að hafa góðan arð af sölu raforku til annarra byggðarlaga.Á þessum grunni verði hlúið að frekari jarðhitarannsóknum á svæðinu. Reykjanesbær verði áfram leiðandi aðili í Hitaveitu Suðurnesja hf.

2. Að hér sé blómleg aðstaða fyrir þjónustu og verslun – Því er lífæðin frá Duus húsum eftir Hafnargötu og Njarðarbraut og inn á Fitjar í endurgerð, þar sem þegar eru um 200 fyrirtæki staðsett.

3. Að hér sé öflugt iðnaðarsvæði í Helguvík sem býður hentuga staðsetningu milli stórskipahafnar og alþjóðaflugvallar, með ljósleiðaratengingum og ódýrri raforku inn á svæðið.

4. Að byggt sé á þjónustu tengdri Keflavíkurflugvelli, m.a. ferðaþjónustu. Skapaður sé "segull" í ferðaþjónustu sem tryggi hlutverk Reykjanesbæjar í ferðaþjónustu landsmanna. Uppbygging Víkingaheims með Nausti Íslendings, Smithsonian safni og söguslóðasýningu er mikilvægt verkefni í þeim tilgangi.

5. Að hér sé áfram miðstöð varna þjóðarinnar og skoðaðir séu möguleikar á að styrkja þá starfsemi í breyttum heimi, s.s. tengt sjúkdómavörnum og skynsamlegri samþættingu verkefna á sviði öryggismála þjóðarinnar.

6. Að sveitarfélagið sé vakandi fyrir nýjum hugmyndum er aukið geta atvinnumöguleika .s.s í heilbrigðisþjónustu, íþróttum og háskólatengdri starfsemi.

ljosanottSíðustu misseri hefur Ríkistjórn landsins haft talverðar áhyggjur af stöðu atvinnumála suður með sjó og ákveðið var á fundi hennar 9. nóvember 2010 að hrinda af stað 11 verkefnum á Suðurnesjum til að efla atvinnu, menntun og velferð.

Til þess að halda utan um þau og vinna í sameiningu í landshlutanum ákvað ríkisstjórnin að mynda samráðsvettvang stjórnvalda og sveitarfélaga á svæðinu. Verkefnin urðu fljótlega 10 þar sem tvö voru sameinuð, þ.e. verkefni um fisktækniskólann og þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði.

Verkefnin 10 eru:

  1. Flutningur landhelgisgæslunnar  -  hagkvæmnismat liggur fyrir. (Ekki á dagskrá fljótlega)
  2. Gagnaver  -  lög um breytingar vegna gagnavera tóku gildi 1. maí  sl.  (Vantar raforku)
  3. Hersetusafn á Suðurnesjum  -  hluti fjármögnunar hefur verið tryggður. (200 millj.)
  4. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu  -  er í ferli. (Enginn vill kaupa)
  5. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum  -  lokaskýrsla liggur fyrir. (Fátt bitastætt)
  6. Klasasamstaf fyrirtækja á sviði líforku  -   er í ferli. (Hver skilur þetta?)
  7. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta  -  hefur verið hækkað. (Vá, gott framlag til atvinnuuppbyggingar.)
  8. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum  -  verkefnisstjóri ráðin og samstarf komið á. (Hver eru verkefnin?)
  9. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum  -  Útibú hefur verið opnað. (Hann hefur nóg að gera)
  10. Fisktækniskólin/þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði. Þróunarverkefni  um eflingu menntunar á Suðurnesjum. Verkefnisstjórar hafa verið ráðnir og verkefni er hafið. (Bók og verkvit verða vissulega í askana látin)

VatnagarðurHvað ætli þessar aðgerðir ef og þegar þær koma til framkvæmda, skapi mörg störf á svæðinu?

Á Suðurnesjum eru um 1600 manns atvinnulausir. Frá því að Ríkisstjórnin fundaði um málin, hefur atvinnulausum fjölgað um hálft hundrað. 

Jafnvel þessar vel meinandi aðgerðir stjórnvalda nægja engan veginn til að leysa atvinnuleysi Suðurnesjamanna.

Til þess þurfa að koma til miklu fleiri og varanlegri lausnir.

Þetta veit almenningur á Suðurnesjum og skilur samt illa  í því hversvegna forysta bæjarfélagsins hefur leyft ákveðnu sinnuleysi í kjölfar ráðaleysis að grafa um sig í samfélaginu. - Þeir segja stöðugt að bæjarfélagið sé fjárhagslega komið að fótum fram og  hafi ekki burði til að standa á bak við neina uppbyggingu. -

"Litlar hugmyndir" um iðnað eða þjónustu mæta auðvitað þessu sinnuleysi og eru blásnar út af borðum fjármálastofnanna og ráðamanna, jafn óðum og oft uppurðarlitlir hugmyndasmiðir fá viðrað þær. Og það þarf ekki nema smá skammt af svartsýni þeirra sem völdin og peningana hafa til að drepa hugmyndina alveg eða setja hana í salt "þar til betur árar." - Óhóflegar arðsemiskröfur ríkisrekinna peningastofnana setur einfaldlega starfsmönnum þeirra stólinn fyrir dyrnar, með fjármögnun til atvinnuuppbyggingar.

VíkingaþorpHvað verður t.d. um hugmyndina um;

víkingaþorp í Njarðvíkunum fyrir ferðamenn?

Um fjölskylduvæna Víkinga-vatnagarða í framhaldi af Blá lóninu?

Um hugmyndina að ræktun skelfisks út af  Bergi og Stapanum?

Um hugmyndirnar ófáu um verksmiðjur til að fullvinna sjávarfang?

Um hugmyndina um rafgeymaverksmiðju?

Um hugmyndina um æfingasvæði fyrir alþjóðlegar björgunarsveitir upp á velli?

UM hugmyndina um fjölþjóða kóramót í tengslum og samvinnu við ferðaskipuleggjendur og íþróttamannvirkin í bænum.

Þessar hugmyndir, sumar á frumstigi, aðrar lengra komnar, eiga allar á hættu að daga uppi, einkum vegna þess að ekkert fjármagn fæst til framkvæmda þeirra.

 


350 ný lög eftir John Lennon

mike_powell_228170aEf trúa má Mike Powell, hefur John Lennon, eða öllu heldur vofa hans, samið 350 ný lög og komið þeim á framfæri við Mike.

Til að Mike gæti komið lögunum áleiðis þurfti John fyrst að kenna Mike á gítar. Að sögn Mike, sem er 56 ára prentari komin á eftirlaun, birtist vofa Lennons við rúmgaflinn hjá honum, skömmu eftir að bítillinn var myrtur árið 1980 og hefur síðan komið að vitja hans í ekki færri en 50 skipti.

Mike sem ekki kunni eitt grip á gítar, og hefur fengið fjölskyldu sína til að skrifa undir vottorð um að svo hafi verið, var kennt af hinum framliðna að spila á gítar 350 lög sem Lennon á að hafa samið handan jarðlífsins.

Að John skuli hafa valið Mike til að miðla þessum nýju tónlistarsmíðum sínum er að mati Mikes, vegna þess að fyrrum Bítillinn vildi finna einhvern sem ekki mundi nota tónsmíðarnar til að auðgast á þeim.

jlghostHann hefði því valið "venjulegan" man sem var sjálfslaus og þráði ekki frama eða fjármuni fyrir að deila með heiminum þesum lögum og textum sem væru algert "dýnamít".

Mike segir að John hafi birst sér þegar hann sjálfur var að ganga í gegnum mjög erfiða tíma. Foreldrar hans báðir höfðu þá nýlega andast og  hann að fara í gegnum átakasaman skilnað við fyrrum eiginkonu sína.

"En þá birtist hann eina nóttina og ég sá að hann þarfnaðist jafn mikillar hjálpar og ég. Hann starði á mig og þegar að augu okkar mættust varð tónlistin til, fullmótuð í höfði mínu, rétt eins og ég heyrði hana af hljómplötu"

" Ég reyni aldrei að breyta neinu í lögunum sem hann hefur gefið mér"

Mike vill meina að gæði lagana sanni að þau séu eftir Lennon.  Hann hefur þegar hljóðritað 50 ný Lennon lög og ætlar að senda þau til Yoko Ono. "Ég er viss um að Yoko mun kannast við tilfinningarnar sem búa að baki lögunum og staðfesta að þarna er á ferðinni raunveruleg lög eftir John Lennon" er haft eftir Mike í þessari furðufrétt Daly Post.


Vinir Sjonna sveipaðir í appelsínugult

Sjonni-BrinkÞað er ekki seinna vænna að spá aðeins í gengi Vina Sjonna í Juróvisjón. Einhvern veginn finnst mér eins og stemmningin í kring um lagið og strákana sé lágstemmdari á landinu en vaninn er um lög og flytjendur okkar í júróvisjón yfirleitt.

Margir spáðu að lagið mundi ekki komast áfram í úrslitakeppnina og helsti júróvisjón spekingur landsins varð að éta hattinn sinn eftir að þessir hressu fullorðnu drengir gerðu þá hrakspá að engu á þriðjudagskvöldið og skutu um leið ref fyrir rass lögum sem talin voru örugg áfram.

Myndbandið af strákunum og Þórunni  þegar þau heyrðu að lagið hefði komist áfram er frábært og auðsætt að fögnuðurinn er einlægur. Það sýnir þá til að byrja með alla guggna og vondaufa núa saman höndum. En svo allt í einu spretta þeir á fætur,  hoppandi og öskrandi af fögnuði.

Vel má samt vera að best fari á frekar lágstefndri stemmningu í þetta sinn. Oft höfum við farið offari og ætlað að vinna keppnina á ákafanum og bjartsýninni einni saman. Það hefur reyndar næstum því gengið upp tvisvar sinnum, en aldrei samt náð að senda okkur alla leið í 1. sæti.

Mér segir samt hugur um að gamli júróvisjón fiðringurinn muni ná að grípa um sig þegar líður á daginn og fleiri en ekki verði límdir fyrir framan sjónvarpið í kvöld. Og hver veit, nema að hógværðin hafi bara góð skammtafræðileg áhrif á Evrópu og lagið nái mun lengra en nokkur þorði að vona. 

Spár veðbanka í Evrópu gefa Íslandi ekki mikla von um að vinna keppnina og staðsetja lagið á kunnuglegum slóðum, eða í 16-18 sæti. Það kætir kannski þá sem oft hafa haldið því fram að Ísland gæti ekki haldið keppnina vegna skorts á boðlegu húsnæði. Þær mótbárur hef ég aldrei skilið. Írar héldu eitt sinn keppnina í smáþorpi þar sem reiðhöll var breytt í risastórt útsendingarstúdíó. Eitthvað er jú til af reiðhöllum á Íslandi.

Æfingar fyrir lokasýninguna í kvöld gengu vel hjá Íslendingunum og vefsíða Júróvisjón segir að þeir gefi frá sér "góðar bylgjur". Á risastórum LED skjáum í bakgrunni munu appelsínugulir litir og tannhjól skapa hlýju sem hæfir lagi og flytjendum vel.  Texti lags Sjonna er eins og allir vita um hvernig best sé að grípa tækifærin og njóta lífsins á meðan tækifæri er til þess.  -  Í þeim anda samdi Sjonni lagið og í þeim anda er lagið flutt. - Í  þeim anda ætla ég að horfa á keppnina og hringja inn eins oft og ég get til að greiða Íslandi atkvæði mitt og pína alla kunningja mína hér í Bretlandi sem ég næ í, til að gera slíkt hið sama.


mbl.is Sjáumst í Reykjavík 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband