Færsluflokkur: Bækur

Lýsingin á andlátinu hefði alveg getað komið úr penna hans sjálfs

Faðir hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var eins árs. Móðir hans dó þegar hann var tveggja ára. Seinna afneitaði fósturfaðir hans honum og hann var lengi heimilislaus. Ástarsambönd hans fóru öll út um þúfur og þegar hann loks gekk í hjónaband var það með þrettán ára gamalli frænku sinni sem dó úr berklum áður en hún varð tvítug.

Edgar Allan PoeHann þjáðist af þunglyndi, alkóhólisma og ópíum fíkn og lést aðeins fertugur að aldri á dularfullan hátt, snauður, forsmáður og vinalaus. Til jarðarfararinnar, sem aldrei var auglýst, komu aðeins tíu manns sem urðu vitni að því þegar að Edgar Allan Poe,  einn áhrifamesti bandaríski rithöfundur allra tíma, var til jarðar borinn í borginni Baltimore árið 1849.

Síðast liðinn sunnudag, 160 árum eftir þessa fámennu athöfn, ákváðu bæjabúar í Baltimore að heiðra minningu Edgars með því að efna til gervi útfarar þar sem eftirlíking af líki hans var borið að gröf hans með viðhöfn.

Frægir leikarar fóru með minningarorð og brugðu sér í gervi frægra aðdáenda skáldsins, m.a. Sir Arthur Conan Doyle og Sir Alfred Hitchcock.

Athöfnin var svo vel sótt að ákveðið var að endurtaka hana strax sama kvöld þannig að úr varð líkvaka við grafreitinn.

Allt þetta umstang rúmlega 200 árum eftir fæðingu Edgars er ansi ólíkt kringumstæðunum þegar dauða hans bar að þann 7. október 1849.

Nokkrum dögum áður fannst hann með óráði fyrir utan bar einn í Baltimore. Hann var klæddur fatnaði sem greinilega var ekki hans eigin og gat ekki gert neina grein fyrir ferðum sínum eða hvað að honum amaði. Hann lést á Washington College Hospital, (sjúkrahúsinu) sem hann hafði verið fluttur til, hrópandi  nafnið "Reynolds" aftur og aftur.

Grafreitur E.A:P:Edgar Allan Poe er einn áhrifamesti bandaríski rithöfundur allra tíma. Hann er talinn upphafsmaður spæjarasögunnar og frumkvöðull í gerð hryllingssagna. Nokkrar hafa verið kvikmyndaðar þ.á.m. The Pit and the Pendulum og The Fall of the House of Usher. Af ljóðum hans er Hrafninn án efa þekktast og eftir því hefur einnig verið gerð kvikmynd.

Meðal samtíðafólks hans var Edgar best þekktur sem óvæginn bókmenntagagnrýnandi. Orðstír hann sem slíks fór víða og fyrir bragðið eignaðist hann marga óvildarmenn sem sumir gerðu sér far um að ófrægja hann eftir lát hans.

Sem dæmi þá birtist minningargrein um Edgar í New York Tribune sem hófst svona; "Edgar Alan Poe er dáinn. Hann dó í Baltomore í fyrra dag. Þessi tilkynning mun koma mörgum á óvart en hryggja fáa." Fyrir greininni var skrifaður einhver "Ludwig".

Seinna kom í ljós að þar var á ferð Rufus Wilmot Griswold, ritstjóri og ritrýnir en þeir Edgar höfðu eldað saman grátt silfur allt frá árinu 1842. Rufus tók að sér að stjórna útgáfu á verkum Edgars og gerði hvað hann gat til að sverta orðspor skáldsins.

Rufus skrifaði m.a. grein sem hann sagði að væri byggð á bréfum frá Edgari og sem lýstu honum sem sídrukknu ómenni. Flest af því sem Rufus skrifaði voru hreinar lygar og einnig sannaðist að bréfin voru fölsuð.  

Edgar var fæddur 19. janúar 1809 í Boston. Foreldrar hans voru farandleikararnir David og Elizabeth Poe sem fyrir áttu soninn Henry og seinna eignuðust dótturina Rosalie. David Poe yfirgaf fjölskylduna ári síðar (1810) og 1811 lést Elizabeth úr tæringu. Edgar sem þá var tveggja ára var tekinn í fóstur af John Allan, ríkum kaupmanni af skoskum ættum frá Richmond í Virginíu sem verslaði með ýmsan varning, þ.á.m. þræla. Þótt Poe hafi bætt nafni hans við sitt, ættleiddi Allen aldrei drenginn.

HrafninnÞegar Edgar var 17 ára varð hann ástfanginn af stúlku sem hét Sarah Elmira Royster. Hann kann að hafa trúlofast henni áður en hann hóf nám við háskólann í Virginíu 1826. Þar safnaði hann spilaskuldum og John Allan rak hann úr fjölskyldu sinni.

Hungraður og heimilislaus yfirgaf Edgar háskólanámið og þegar hann frétti að Sarah hefði gifst öðrum manni, innritaði hann sig í herinn. Honum tókst að fá sína fyrstu bók; Tamerlane, útgefna og síðan ljóðabók, sem hvorug vöktu nokkra athygli.

Dauði Fanny, fósturmóður Edgars, hafði þau áhrif að um stund urðu sættir milli hans og Johns Allen sem útvegaði fóstursyninum inngöngu í herskólann í West Point í júlí 1830. En innan fárra mánaða fór allt í sama horfið og Edgar var aftur vísað úr fjölskyldunni.

Poe  lét reka sig frá West Point með því að sýna af sér vítavert kæruleysi þannig að hann var færður fyrir herrétt. Frá herskólanum lá leið hans til New York þar sem hann hóf að skrifa gagnrýni fyrir tímarit og dagblöð. Hvernig sem á því stóð, slógu félagar hans í West Point saman fyrir útgáfu á ljóðahefti fyrir hann sem einfaldlega bar nafnið "Ljóð."

Þegar að Poe snéri aftur til Baltimore, fékk hann inni hjá frænku sinni Maríu Clemm, dóttur hennar Virginíu. Eldri bróðir hans Henry bjó einnig undir sama þaki en lést fljótlega úr alkóhólisma eftir að Edgar settist þar að. Þrátt fyrir að geta sér gott orð fyrir að vera skeleggur gagnrýnandi, var hann ætíð í vandræðum. Hann missti ætíð störfin vegna drykkjuskaparins og reyndi að stjórna þunglyndi sínu með laudanum (ópíumblöndu) og víni.

Virginia PoeÁrið 1835 gekk Edgar að eiga frænku sína á laun. Virginía var 13 ára dóttir Maríu Clemm sem Edgar kallaði ávalt eftir það " elskulegu litlu eiginkonuna." María sá um þau bæði og fylgdi oft Edgari eftir til að reyna að koma í veg fyrir drykkju hans.  -

Húsakynni þeirra voru hreysi og kofar og oft nærðust þau aðeins á brauði og sýrópi. Poe reyndi hvað eftir annað að gera sér mat úr skrifum sínum en drakk sig meðvitundarlausan þegar illa gekk.

Virginía var aðeins 19 ára þegar hún smitaðist af berklum en Edgar neitaði að viðurkenna að hún væri að deyja og sagði blóðið sem kom upp úr henni, koma úr brostinni æð. Eftir dauða hennar varð Edgar enn óstöðugri og skrif hans myrkari. 

Sögur hans og ljóð lýstu hvernig líkamar voru sundur limaðir, étnir af mönnum, brenndir, grafnir lifandi,  troðið upp í reykháfa af órangútum og étnir af ormum á sama tíma og meginpersónurnar monta sig af því hvernig þeir hafa komist upp með glæpina.

Tveimur árum eftir dauða Virginíu fannst hann ráfandi um göturnar, klæddur í garma og dauðvona.

Þrátt fyrir allt þetta var poe um þessar mundir sá gagnrýnandi sem höfundar óttuðust mest í Lík EdgarsBandaríkjunum. Hið magnaða ljóð hans "Hrafninn" hafði getið af sér fjölda eftirlíkinga og útlegginga og hafði meira að segja verið notað í sápuauglýsingar.

Smásagan Morðin í Rue Morgue ruddi veginn fyrir nýrri tegund leynilögreglusagna, þar á meðal Sherlock Holmes. Hryllingssögur hans höfðu sumar verið þýddar á frönsku og rússnesku og gefið skáldum eins og Charles Baudelaire sem safnað öllu sem Poe skrifaði, mikinn innblástur.

Edgar hefði átt að vera orðinn ríkur en hann var stöðugt undir þumlinum á óprúttnum ritstjórum sem aldrei borguðu honum vel og það sem hann fékk eyddi hann í fýsnir sínar.

Áhugi Poes í lifanda lífi beindist mest að dauðanum.  Ímyndanir, skjálfti og meðvitundarleysi á milli var lýsingin á ástandi hans rétt fram að andlátinu. Hún hefði alveg getað komið úr penna hans sjálfs.


Lýst eftir barnaníðingi

shadowman-615Á unglingsárum mínum (1966-1969)  í Keflavík var ég mikið í félagi við ákveðinn hóp skólabræðra minna sem gerði lítið annað utan skólatímans en að slæpast um og hanga á sjoppum. Við vorum allir byrjaðir að fikta við reykingar og að drekka áfengi. Á þessum tíma komst ég í kynni við náunga sem kallaði sig Blacký. Hann var íslenskur eftir því sem ég best veit, þrátt fyrir að nafnið. 

Blacký þessi var maður á miðjum aldri sem gerði sér dælt við okkur drengina sem vorum þá á þrettánda og fjórtánda ári. Hann var ósínkur á sígarettur og fór oft í ríkið fyrir okkur strákana til að kaupa brennivín ef hann var látinn hafa peninga.

Blacký sem var drykkjumaður hélt sig oft í námunda við eða inn í sjoppu á Hafnargötunni og þá var kölluð "Dorró" eða Þórðarsjoppa. Þar var oft þröng á þingi því fjöldi unglinga hékk í þar á kvöldin, einkum í hinu svo kallað biðskýli.

Blacký vann á verkstæði við sandblástur og þangað stefndi hann oft drengjunum til að ná í áfengið sem hann hafði keypt fyrir þá.

Í staðinn fyrir greiðann (áfengiskaupin) misnotaði Blacký marga þeirra kynferðislega og fékk þá til að taka þátt í afar ósiðlegum kynferðislegum athöfnum með sér.

Auðvitað flokkast þetta framferði Blackýs undir argasta barnaníð.

Samt steinþögðu allir yfir þessu þ.e. ekki var minnst á þetta  fyrir utan hópinn og ég minnist þess ekki að þetta framferði Blackýs hafi nokkru sinni komist í hámæli í Keflavík.

En hvers vegna er ég að rifja upp þessa löngu liðnu atburði.

Fyrir það fyrsta hefur það lengi plagað mig, eftir að ég kom til vits og ára,  að svona nokkuð skuli hafa viðgengist fyrir svo til opnum tjöldum í heimabæ mínum og án þess, að því er virðist, að nokkur fengi við því gert. Blacký er þarna í minningunni eins og dimmur og ókennilegur skuggi sem nauðsynlega þarf að fá á sig raunverulegri mynd.

Í öðru lagi vegna þess að ég er að skrá niður minningar mínar m.a. frá þessum tíma í Keflavík og ég hef ekki hugmynd um hvað þessi maður raunverulega hét, hvaðan hann kom, hvað varð um hann og hvort hann er lífs eða liðinn.

Ef einhver veit frekari einhver deili á honum væru þær upplýsingar vel þegnar.


Svarthol geðveikinnar

mokka_8_9_08_s"Hann var með rottuandlit. Útskúfaður hraktist hann um götur með kaldan straum í hnakkanum uns hann kom að kunnuglegu húsi. Hann drap á dyr og unglingsstúlka kom til dyra. Hann bað um að fá að koma snöggvast inn fyrir. Það kom smá hik á stúlkuna en síðan hleypti hún honum inn. Hann settist við eldhúsborðið og átti í erfiðleikum með rottuandlitið. Gömul kona kom fram úr stofunni án þess að virða hann viðlits eða bjóða góðan daginn."

Tilvitnunin er úr Bókinni Kaleikur sem er eftir Bjarna Bernharð. Í henni dregur Bjarni upp mynd af ævi sinni með stórum expressionískum strokum þar sem áhrif eiturlyfja, einkum sýru, á geðklofa og aðrar geðtruflanir sem hann á við að etja, eru megin þemað.

Ég hitti Bjarna fyrir skömmu eftir að hafa ekki séð hann eða heyrt í nokkur ár. Hann seldi mér tvær bækur eftir sig, Kaleikinn og ljóðabókina "Blóm í byssukjafta græðginnar".- Nokkru síðar eftir að ég hafði lesið báðar bækurnar, hitti ég Bjarna aftur og tjáði honum að mér fyndist hver kafli í bókinni vera eins og lýsing á því sem hann ætlai að fjalla um. Bjarni svarað mér því til að nálgun við efnið og þá sem hann minnist á bókinni mundi hafa orðið honum ofviða tilfinningalega ef hann hefði teiknað upp með orðum nákvæmari og fínlegri myndir.  Ég fór heim og las bókina aftur og sá þá alveg hvað Bjarni átti við.

Kristbergur O Pétursson myndlistarmaður fjallaði um þessa bók stuttu eftir að hún kom og  segir;  

Kaleikur Bjarna Bernharðs er undir leslampanum, ekki löng bók, rétt rúmar 100 bls. Þar eru engar málalengingar, Bjarni er fáorður og gagnorður um lífshlaup sitt í hverjum kafla og hógvær þegar hann lýsir upprisu sinni og endurkomu. Ekki kann ég að gera bókinni nein frekari skil á gagnrýninn hátt - var ekki ætlunin heldur. Bjarni sogaðist inní svarthol geðveikinnar með hörmulegum afleiðingum og margra ára frelsissviptingu á réttargeðdeild. Hann tæmdi sinn bikar í botn og það var djúpur og víður kaleikur. Haldreipi hans í útlegðinni var listin, sköpunarþrá listamanns sem skyldi fullnægt, og staðfastur ásetningur í því að byggja sig upp.

Það eiga ekki allir afturkvæmt, margir eru beygðir og brotnir eftir skipbrot í lífinu og halda sér til hlés. En ekki verður annað séð en Bjarni standi traustum fótum í mannheimum eftir endurkomuna og hefur síðan tekið til óspilltra málanna, galvaskur í ætlunarverki sínu listinni í ljóðum og málverkum.

Ég á nokkrar af fyrri ljóðabókum Bjarna og sá strax að í þessari nýju ljóðabók "Blóm í byssukjafta græðginnar" kveður við nýjan tón. Sýru og geðklofa-ruglið er farið og í staðinn komin einföld og hrein hugsun.

Frelsið

Að brjóta hlekki

ánauðar

er frumhvöt

hver manns

og heilög skylda

 

Hitt sætir furðu

að frelsið

virðist mörgum

sem myllusteinn

um háls.

Annars hvet ég ykkur til að kanna ljóð hans af eign raun. Venjulega er hægt að hitta á Bjarna þar sem hann er að selja bækurnar sínar á götuhorni niðrí bæ eða þar sem hann situr og sötrar kaffi á Mokka. - 


Hinn dularfulli William Shakespeare

Besti rithöfundur allra tíma er yfirleitt sagður William Shakespeare. þótt flestir séu sammála um að afrek hans á sviði bókmenntanna óviðjafnanleg er enn umdeilt hver sá maður var í lifanda lífi. William skrifaði þrjátíu og sex leikrit þ.á.m. Hamlet, Macbeth, Lér Konung, Júlíus Sesar og Óþelló.

william_shakespeareAð auki reit hann 154 frábærar sonnettur og nokkur lengri ljóð. Þrátt fyrir að Shakespeare hafi verið enskur, er hann fyrir löngu orðin heimspersóna og sá sem hvað oftast er vitnað í af rithöfundum þessa heims sem og leikmönnum. Orðatiltæki og málshættir úr ritum hans eru svo algengir að sumum hverjum er alls ókunnugt um þegar þeir vitna í orð hans.

Hið almenna viðhorf (stundum kallað orthadox) er að höfundurinn William Shakespeare (einnig skrifað Shaxpere, Shakspeyr, Shagspere eða Shaxbere) hafi verið maðurinn sem hét William Shakespere og var fæddur árið 1564 í Stratford á Avon og dó þar árið 1616.

Æviferill hans í stuttu máli var svona; Faðir Shakesperes var um tíma farsæll ullarkaupmaður en lánið lék ekki við hann. William sonur hans ólst því upp við fátækt. Hann gekk í barnaskólann í Stratford og lærði þar latínu og sígildar bókmenntir.  Þegar að William varð átján ára gerði hann unga konu, Anne Hathaway, ófríska. Hann gekk að eiga hana og nokkrum mánuðum seinna ól hún fyrsta barn þeirra.

Tveimur og hálfu ári seinna ól Anne tvíbura. Áður en William náði tuttugu og eins árs aldri hafði hann fyrir fimm manna fjölskyldu að sjá. Um næstu sex ár í ævi Williams eru ekki til neinar heimildir. En snemma á árinu 1590 er hann sagður starfa með í leikhópi í London. Honum gekk vel sem leikara og hóf fljótlega að skrifa leikrit og ljóð.

Árið 1559 var hann þegar talinn vera fremstur rithöfunda á Englandi fyrr og síðar. Shakespere dvaldist í London í rúm tuttugu ár og komst fljótlega í álnir þannig að árið 1597 gat hann keypt sér nýtt hús (New Place) í Stratford. Fjölskylda hans dvaldist í Stratford allan þennan tíma og William sá fyrir þeim.

Það þykir einkennilegt að Shakespere gaf ekki sjálfur úr neitt af leikritum sínum en óforskammaðir prentarar sáu að þarna var á ferðinni góð söluvara og stálust til að gefa út verk hans sem oft voru þá ónákvæm og ranglega með farin. Shakespere gerði engar tilraunir til að koma í veg fyrir þennan höfundarstuld.

Legsteinn ShakaspereÁrið 1612, fjörutíu og tveggja ára að aldri, hætti Shakespere skyndilega að skrifa, hélt til baka til Stratford þar sem hann bjó í faðmi fjölskyldu sinnar til dauðadags í apríl 1616 og var þá grafinn í kirkjugarði staðarins. Legsteinninn á leiði hans ber ekki nafn hans en nokkrum árum síðar var minnismerki um hann komið fyrir á kirkjuveggnum.

Nokkrum vikum fyrir dauða hans gerði hann erfðaskrá þar sem hann arfleiddi Susönnu dóttur sína að flestum eignum sínum. Hún og afkomendur hennar eftir hennar dag, bjuggu í New Place þar til 1670.

Þess skal gæta að stór hluti af þessum æviágripum sem minnst er á hér að ofan eru byggðar á getgátum þeirra sem aðhyllast "orthadox" útgáfuna um æviferil Shakasperes. Til dæmis eru engar heimildir til um að William hafi nokkru sinni gengið í barnaskólann í Stratford. Engin minnist nokkurn staðar á að hafa verið skólabróðir eða kennari stórskáldsins. Þá ríkir einnig óvissa um leikaraferil hans.

Minnismerkið um ShakespereVandamálið við ævi "þessa" Shakespears, sem margir af "orthadox" ævisöguriturum hans viðurkenna, er að undarlega litlar upplýsingar er að finna um jafn merkan mann. Á tímum Elísabetar drottningar voru til fjölmargir sagnritarar, blaða og bæklingaútgefendur. Segja má að gnótt heimilda sé til yfir tímabilið og milljónir frumrita af ýmsu tagi frá þeim tíma hafi varðveist. Samt hafa aðeins fundist fáeinar heimildir um Sheikspere og engin þeirra lýsir honum sem leik eða ljóðskáldi. Í þau tuttugu ár sem sagt er að hann hafi dvalist í London virðist hann hafa verið næsta ósýnilegur.

Í heimabæ hans Stratford virðist engin hafa vitað neitt um að mesti rithöfundur þeirra tíma bjó á meðal þeirra. Hvorki fjölskylda hans eða aðrir bæjarbúar nefna það að hann skuli hafa verið rithöfundur, hvað þá landþekkt leikritaskáld. Erfðaskrá hans minnist hvergi á ritverk hans eða hefur að geyma nokkur fyrirmæli um meðhöndlun þeirra. Þegar hann lést voru ekki færri en tuttugu leikrita hans enn óbirt.

Það er því ekki nema von að margir hafi komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar séu ekki að finna vegna þess að þeim var viljandi leynt og höfundinum valið nafn sem hjálpaði við að hylja slóð hins raunverulega "Shakespears".

Marga hefur lengi grunað að rithöfundurinn mikili hafi verið einhver allt annar maður sem eingöngu fékk nafn Williams frá Stratford lánað og þeirri blekkingu hafi síðan verið viðhaldið af ættingjum skáldsins þegar að verk þau sem kennd eru við Shakespeare voru fyrst gefin út árið 1623.

Á meðal efasemdamannanna eru afar þekkt nöfn eins og t.d. Mark Twain, Orson Welles, Charlie Chaplin, Sigmund Fraud, Harry A. Blackmun, Charles Dickens, Rlph Waldo Emerson og Walt Whitman.

Margir menn hafa verið kynntir til sögunnar sem mögulegir kandidatar og á meðal þeirra merkismenn eins og heimspekingurinn Francis Bacon.

Edward de Vere 2En líklegastur allra er talin vera Edward de Vere, sjöundi jarlin af Oxford og er í því sambandi talað um  Oxford kenninguna. Um ævi þess manns er talvert vitað. Hann var fæddur árið 1550 og var af kunnum og auðugum aðalsættum. Hann hlaut bestu menntun sem völ var á og þjálfun í siðum aðalsins. Hann stundaði útreiðar, veiðar, herlist, hljóðfæraleik og dans. Hann hafði einkakennara sem kenndi honum frönsku og latínu. Hann fékk að lokum gráður bæði frá háskólanum í Cambridge og Oxford.

Engum sem lesið hefur Shakespeare getur dulist að höfundurinn er víðlesinn, vel menntaður og kunnugur vel hirð og hallarsiðum og háttum aðalsins yfirleitt. Edward uppfyllir þær kröfur á mjög sannfærandi hátt.

Edward ferðaðist einnig víða um Evrópu um tíma og dvaldist m.a. í öllum þeim ítölsku borgum sem Shakespeare finnur leikritum sínum stað. Hann var í góðum tengslum við leikhúsin í London og var forsvarsmaður a.m.k. eins þeirra. Hann hafði nægan tíma til að sinna skriftum og góðar tekjur (1000 pund á  ári) frá Englandsdrottningu sem reyndar aldrei skýrði fyrir hvað hún greiddi de Vere þau laun. 

Shakespeare helgaði nokkur af leikritum sínum þekktum aðalsmönnum sem allir áttu það sameiginlegt að tengjast Edward fjölskylduböndum. Hann lést í plágufaraldrinum sem gekk yfir England árið 1604 og er grafinn í Hackney nálægt þorpinu Stratford sem á þeim tíma var mun stærra en Stratford við Avon.

Einkalíf Edward var með þeim hætti að mörg atvik í lífi hans gætu hæglega veið fyrirmynd af sennum og atburðum sem Shakspeare fléttar inn í leikrit sín.

Svona mætti lengi telja og er það reyndar gert á listilegan hátt í bókinni The Mysterious William Shakspear eftir Charlton Ogburn.

Edwavr de Vere 1En hvers vegna vildi Edward þá halda því leyndu að hann væri maðurinn á bak við skáldsnafnið? Það kunna að hafa verið margar ástæður fyrir því. Á þessum tíma var það forboðin iðja fyrir aðalsmenn að skrifa ljóð og leikrit ætluð leikhúsunum.

 De Vere var þekktur hirðmaður drottningar og fólk hefði vafalaust verið fljótt að draga sínar ályktanir af ýmsu í verkum Shakespeare ef það hefði vitað um tengsl höfundarins við hirðina. þá eru margar af sonnettum skáldsins ortar til ástmeyjar þess. Það mundi hafa orðið eiginkonu jarlsins til mikillar smánar ef nafn höfundar þeirra hefi verið heyrum kunnugt. Að auki voru nokkrar þeirra ortar til elskhuga af karlkyni sem mundi hafa valdið regin hneyksli fyrir jarlinn á þeim tímum.

Hér er ekki kostur á að rekja öll þau rök sem leiða líkur að því að Edward de Vere sé hinn sanni Shakespeare og þessi pistill er líklega þegar orðinn of langur fyrir þennan vettvang. Ég hef sett krækjur við nöfn sumra sem hér koma við sögu og ég hvet áhugasama lesendur til að nýta sér þá  til að kynna sér frekar málið um hinn dularfulla William Shakespeare.


Að hagnast á raunum annarra

Jake og Julie móðir hans 2004Jake Myerson er í dag rétt um tvítugt. Þegar hann var unglingur reykti hann kannabis í miklum mæli. Móðir hans þoldi ekki ástandið á drengnum og rak hann burtu af heimlinu. Um tíma var hann útigangur en fékk svo inni á heimili vinar síns.  Nú hefur Julie móðir hans skrifað bók um líf og neyslu Jakes og hvernig hann rústaði lífi sínu og fjölskyldunnar. Bókin heitir "The lost Child".  

Þegar að Jake las handrit móður sinnar, sá hann að í bókinni er hann niðurlægður með ýmsum hætti. Hann lagðist því gegn útgáfu hennar. Móðir hans telur aftur á móti að bókin geti orðið til að hjálpa fólki sem á við svipuð vandamál að stríða.

Fjölmiðlar í Bretlandi velta fyrir sér hvort hér sé enn einu sinni verið að gera einkamál fjölskyldu að fjölmiðalmat í gróða skini þar sem peningarnir eru raunverulega aðalatriðið en afsökunin sé almannaheill.

Meira hér

 


Hrafninn, tilvalin miðnæturlesning

Megin efni þessa bloggs er einskonar formáli að hljóðritun á þýðingu Jochums Magnúsar Eggertssonar á ljóði Edgars Allans Poe, The Raven (Hrafninn) . Ég hef lengi haft áhuga á lífi og störfum Jochums og haft það í huga að gera því einver skil hér á blogginu. Þegar mér barst þessi hljóðritun í hendur frá náskyldum ættingja hans fyrir stuttu, stóðst ég ekki lengur mátið og birti hana hér. Skrif Jochums um launhelgar og leynda sögu Íslands munu því bíða enn um sinn, enda of langt mál til að gera skil í þessari færslu.

HrafnMargar þjóðsögur og frásagnir af hröfnum eru kunnar, svo ekki sé minnst á fjölda vísna, ljóða og söngtexta.

Hrafninn er fugl Hrafna-Flóka og landnáms Íslands. Hann er jafnframt fugl Óðins en Huginn og Muninn voru tákn visku og spádómsgáfu.

Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir.

Sagt er að þeir sem skilji hrafnamál séu gáfaðri en aðrir. Einnig að ef hrafn hoppi hingað og þangað uppi á húsum, skipti um hljóð og krunki upp í loftið, hristi vængina og yppti fiðrinu, boði það að einhver maður sé að drukkna.

Vel þekkt er að flug hrafna boði annaðhvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann.

Það þótti ekki gott að heyra krunkið í hröfnum um nætur við bóndabæi. Það var vegna þess að þá hélt fólk að það væru draugar. Þeir voru kallaðir nátthrafnar.

Krummi er sagður bæði stríðinn og hrekkjóttur. Hann er mikill spádómsfugl og hans er víða getið í hverskyns göldrum. Hrafnsgall og heili hrafnsins þykja t.d. nauðsynleg bætiefni í marga galdra, svo sem til að gera mann ósýnilegan.

Þekkt er sú sögn frá Tower of London að meðan hrafnar lifi þar muni enginn erlendur innrásarher ná að vinna England.

Hrafninn kemur oft fyrir í bókmenntum sem boðberi válegra tíðinda. Sem dæmi má nefna kvæðið Hrafninn eftir Edgar Allan Poe, leikritið Óþelló eftir William Shakespeare og í skáldsöguna Hobbitinn eftir J. R. R. Tolkien.

Edgar Allan PoeHrafninn er nafn á söguljóði eftir Edgar Allan Poe sem kom fyrst út 29. janúar árið 1845 í dagblaðinu New York Evening Mirror. Kvæðið fjallar um hrafn sem heimsækir mann sem syrgir ástkonu sína. Maðurinn er ljóðmælandi en hrafninn, sem fær sér sæti á brjóstmynd af Aþenu, krunkar „Nevermore“ í lok hvers erindis.

Edgar Allan Poe orti Hrafninn veturinn 1843. Meðan hann var að yrkja kvæðið, bjó hann ásamt konu sinni og tengdamóður við sult og seyru. Hann fór með kvæðið til ýmsa ritstjóra, en enginn þeirra hafði lyst á að kaupa það til birtingar. Einn af ritstjórunum sem hann talaði við, Godey að nafni, sagði:

Kvæðið kæri ég mig ekki um, en hérna eru 15 dollarar, sem þér getið keypt yður mat fyrir.

Á endanum tókst Poe að selja Hrafninn fyrir 10 dollara og þótti geipihátt verð. Hann var nú, eftir allt, sem á undan var gengið, búinn að glata trúnni á ágæti kvæðisins og það til þeirra muna, að hann setti dulnefnið Quarles undir það í stað nafns síns. En aldrei hefur nokkuð kvæði vakið aðra eins athygli á svo skömmum tíma. Allur hinn enskumælandi heimur las það með hrifningu. Gekkst Poe þá að sjálfsögðu við faðerni kvæðisins, og eftir það var nafn hans prentað undir því.

Til eru að minnsta kosti fjórar þýðingar kvæðisins á íslensku. Sú sem er langþekktust er þýðing Einars Benediktssonar sem kom út á prenti 1892, en einnig eru til þýðingar kvæðisins eftir Matthías Jochumsson, Þorstein frá Hamri og Jochum Eggertsson.    Heimildir; Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þýðing Jochums Magnúsar Eggertssonar var tekin upp fyrir upp fyrir Ríkisútvarpið 1949 í tilefni þess að hundrað ár voru þá liðin frá fæðingu Poes. Ljóðið var þó ekki flutt á þeim tíma. Þýðingin birtist svo í heftinu Jólagjöfin, sem var útgáfa Jochums sjálfs. Í upplestri sínum fer Jochum á kostum svo unun er á að hlíða. Jochum var fæddur á Skógum í Þorskafirði 1896 og lést 1966. Hann var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar.

Paul Gustave DoréMargir hafa orðið til að teikna myndir við ljóð Poes og a.m.k. ein kvikmynd er byggð á efniviði ljóðsins. Frægastar eru þó myndskreytingar Paul Gustave Doré (janúar 6, 1832 - janúar 23, 1883), sem var franskborinn listamaður fæddur í  Strassborg. Hann gerðist bókskreytingamaður og gerði myndir fyrir bækur þekktra skálda eins og  Rabelais, Balzac og Dante. Árið 1853, var hann beðin um að myndskreyta verk Lord Byron. Skömmu fyrir dauða hans tók hann að sér að gera myndir við Hrafninn ljóð Edgars. Hann sagðist byggja myndirnar á "leyndadómi dauðans og ímyndunum óhuggandi sálar". Hann lést aðeins 51. árs að aldri og var þá að ljúka myndunum fyrir Hrafninn.

Ég hef tekið mér það bessaleyfi að setja saman upplestur Jochums og myndir Pauls. Túlkun þeirra á ljóði Poes er greinilega mjög ólík en samt fellur íslenski textinn að myndunum. Ég legg til að þið gefið ykkur góðan tíma til að njóta þessa magnaða upplesturs Jochums.

 


Kolbítar

Tolkien_youngMargt hefur verið rætt og ritað um "Inklings" (Bleklingana) lesklúbb þeirra félaga J. R. R. Tolkien og C. S. Lewis. En löngu áður en þeir mynduðu með sér það laushnýtta samfélag samtímaskálda voru þeir saman í leshring sem þeir kölluðu Kolbíta.  

Eða eins og Ármann Jakobsson orðar það á Vísindavefnum;

Tolkien kenndi við Leeds-háskóla í fimm ár (1920-1925) en var síðan prófessor við Oxford-háskóla í 34 ár (1925-1959). Hann hafði þó aldrei lokið nema grunnnámi við háskóla en Oxfordháskóli veitti MA-gráður án prófs. Tolkien var mikils metinn í heimi fræðanna og eftir hann liggja áhrifamiklar fræðilegar greinar, þar á meðal fyrirlesturinn Beowulf, the Monster and the Critics sem hafði mikil áhrif á rannsóknir á Bjólfskviðu, fyrir utan auðvitað öll skáldverkin.

Íslenskumaður var Tolkien prýðilegur og var fremstur í flokki í leshring einum í Oxford sem einbeitti sér að íslenskum miðaldasögum. Nefndu þeir sig kolbítana (The Coalbiters). Meðal helstu vina hans í Oxford var C.S. Lewis, höfundur bókanna um Narníu, en saga hans er sögð í leikritinu og kvikmyndinni Shadowlands.

 

Áhrif íslenskra bókmennta á vinsælustu lesningu síðustu aldar; Hringadróttinssögu,  eru ótvíræð og sögusviðið sjálft "Miðgarður" ættleitt beint úr heimsmynd norrænnar goðafræðar. Kolbíta leshringurinn var starfræktur frá 1926 til 1933 átti stóran þátt í að móta frásagnarstíl og efnistök Tolkiens.

coal_fire_lgMargir Tolkiens aðdáendur hafa orðið til að velta fyrir sér nafninu "Kolbítar" og um það er að finna ýmislegt almennt á enskri tungu.

Ég var nýlega að leita að góðri lýsingu á hugtakinu til að segja frá því í boði  sem haldið var til að minnast  Tolkiens á fæðingardegi hans 3. janúar, þegar ég rakst á stórskemmtilega grein sem Már Viðar Másson skrifaði og heitir "Að rísa úr öskustónni" . Þar segir m.a;

Að leggjast í öskustóna var að taka sér hvíld frá amstri dagsins og taka út þroska sinn í friði. Öskustóin var við langeldinn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar eða í eldahúsi. Sá sem lagðist þar fékk að vera í friði. Hann þurfti ekki að vinna hefðbundna vinnu þótt kannski hafi hann aðstoðað eldabuskurnar að einhverju marki, enda eins gott að koma sér vel við þær. Hann þurfti ekki að þrífa sig og mátti klæðast druslum. Vegna öskunnar kallaðist hann kolbítur. Aska er cinder, ella er kona og Öskubuska var kolbítur. A Kolbíturinn gat legið í öskunni mánuðum saman.

Einn góðan veðurdag reis hann upp, baðaði sig, rakaði (ef hann var karl), klippti hárið, klæddist og tók til við dagleg störf á nýjan leik. Hann hafði nú náð sáttum við sjálfan sig og aðra og var því tilbúinn til nýrra átaka. Í sumum tilvikum gekk faðir kolbítsins til hans, kannski á öðru ári, og fékk honum frækilegt verkefni að starfa að. Best var ef faðir gekk til sonar síns, sem þá var kannski sextán ára, og sagði: “Þykir mér góð sonareign í þér. Nú skalt þú koma þér í skip með kaupmönnum, sigla með þeim til Noregs, heimsækja frændur þína þar, skila kveðju til konungs og koma aftur að hausti, færandi heimvarning og nokkurn frama. Hafðu þetta forláta sverð með í för og þennan farareyri.” Líklega var algengast að menn legðust í öskustóna 12-15 ára gamlir. Ég veit það þó ekki fyrir víst.

Sumir telja að ekki hafi verið ástæða til að sinna þessum sið nema snurða hefði hlaupið á þráðinn í samskiptum föður og sonar. Var þá stundumsagt að sonurinn hefði óhlýðnast lögmáli föðurins. Ég ætla einmitt að taka dæmi af þannig vandræðaástandi hér. Þegar um stúlku var að ræða hefur líklega verið umerfitt samband að ræða milli hennar og móður, nema móðurina hafi hreinlega vantað. Öskubuska og Mjallhvít eru þekkt dæmi þar um. Oft fylgir sögunni að samband unglingsins við hitt foreldri sitt, það er af hinu kyninu, hafi veri náið, enda hefur kolbíturinn getað skákað í því skjólinu. Öskustóin var líklega tilraun unglingsins til að ná sáttum, til að bíða eftir því að nægilegur þroski yrði, svo hann mætti skilja betur hvert næsta skref hans yrði í lífinu. Sama gilti væntanlega um föðurinn, tíminn nýttist honum einnig til þroska. Efvel tókst til varð af því mikil gæfa. Og taugaveiklun og aðrir sálrænir kvillar voru þar með læknaðir. Kolbítar voru t.d. hinn norski Askaladden, hetjan Starkaður, Grettir, Egill og jafnvel Skalla-Grímur á gamals aldri. Og svo mætti lengi telja.

Oft er frá því sagt að kolbíturinn búi yfir undraverðum eiginleikum; sé óvenju stór og sterkur, búi yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum, sé óvenju vel ættaður, eða sérlega fallegur. Og iðulega er eins og askan nái ekki að skyggja á gullið sem undir skín og bíður þess aðeins að af því sé dustað rykið. Hver man ekki eftir Bláskjá sem var af fínum ættum, en lenti um tíma hjá ribböldum. Í dimmum helli skógarmanna mátti sjá gylla í hárið undir skítnum og blámi augnanna var algerlega ósvikinn. Þegar Blárskjár komst aftur til manna spratt fram fullskapaður hefðarmaður. Dvölin í myrkrinu hafði ekki beygt hann, heldur þvert á móti dregið fram það besta í drengnum. Sama átti við um Oliver Twist.

Már Viðar Másson Að rísa úr öskustónni.


Rutka Laskier, rödd úr fortíðinni, Laila El-Haddad rödd dagsins í dag

1_61_holocaust_diaryÁn þess að nokkur vissi af því hélt Rutka Laskier, 14 ára pólsk stúlka dagbók frá 24. Janúar til 24. Apríl 1943.  Dagbókin er um sextíu síður og var ekki kynnt opinberlega fyrr en 2006.

Rudka bjó í Bedzin í Póllandi og var flutt í Ágúst mánuði það sama ár til Auschwitz þar sem hún og foreldrar hennar létu lífið í gasklefum Nazista.

6. Feb. 1943 skrifaði Rutka þetta;

Eitthvað hefur brotnað inn í mér. Þegar ég geng fram hjá þjóðverja, dregur allt sig saman inn í mér. Ég veit ekki hvort það er af ótta eða hatri. Mig langar að kvelja þá, konur þeirra og börn, þeirra sem sem slepptu hundum sínum á okkur, berja þá og kirkja þá af afli, smátt og smátt. Hvenær kemur sá dagur sem Nica talaði um..Það er eitt málið.

Annað málið er, að ég held að ég sé orðin að konu. Það þýðir að í gær þegar ég var að baða mig og vatnið lék um mig, þráði ég hendur einhvers að strjúka mér...Ég veit ekki hvað það var, ég hef aldrei fyrr haft slíkar tilfinningar...

...Oh, Ég gleymdi því mikilvægasta. Ég sá hermann rífa nokkra mánaða gamalt barn úr örmum móður þess og mola höfuð þess með að berja því upp við rafmagnsstaur. Heili barnsins slettist á viðinn. Móðurinn sturlaðist.

Laila El-Haddad er ung tveggja barna móðir sem bloggar þegar hún getur frá Gaza strönd þar sem hún er búsett.

9. Janúar 2009 skrifaði Laila þetta;

our_family-Fyrst hristist húsið, svo brotna gluggarnir og þá..óttinn..óttinn. Og þegar þú sérð öll þessi börn sem liggja á sjúkrahúsinu. Sum þeirra geta teiknað og það sem þau teikna er ótrúlegt.

Sex ára drengur sem býr í sama húsi og ég teiknaði mynd af dreng sem var lifandi og af öðrum sem var dáinn. Hann sagði að dáni drengurinn væri vinnur sinn sem Ísraelar hefðu drepið.

Feður geta ekki verndað börn sín. Mæður gera sitt besta til að láta ekki börnin sjá óttann.

Faðir minn sagði að í dag hefðu fleiri fluguritum verið dreift til að reyna að kúga íbúana sem þegar eru örþreyttir, soltnir og skelfdir.

"Til íbúa þessa svæðis. Vegna starfsemi hryðjuverkamanna í nágrenni við hús ykkar og sem beint er gegn Ísraelsríki verður Ísraelski Varnarherinn að grípa til tafarlausra aðgerða í grennd við íbúahverfi ykkar. ....Ykkur er skipað að yfirgefa svæðið þegar í stað. "


Aðeins um Ástina

astineinÁst er tímabundið brjálæði. Hún skellur á eins og jarðskjálfti og hjaðnar síðan. Og þegar hún hjaðnar, þarf að taka ákvörðun.

Það þarf að ákveða hvort ræturnar séu svo samtvinnaðar að það sé óhugsandi að þær skiljist nokkru sinni að. Því það er ást.

Ástin er ekki að missa andann, ekki geðshræringin, ekki loforðin um endalausan losta. Slíkt er aðeins vera ástfanginn sem við öll getum sannfært okkur sjálf um að við séum.

Ástin sjálf, að elska, er það sem verður eftir að ástarbríminn hefur dvínað en slíkt er bæði list og heppileg slysni.

Móðir þín og ég áttum slíka ást, við áttum rætur sem gréru undir yfirborðinu í átt að hvor annarri  og þegar að öll fögru blómin voru fallin af greinum okkar komumst við að því að því að stofninn var einn en ekki tveir.

Úr: Captain Corelli's Mandólín í þýðingu SGÞ.


Síðasta blómið

462px-James_Thurber_NYWTSÉg ætla að fara að ráðum bloggvinar míns Kreppumannsins og blogga um "eitthvað fallegt og uppbyggilegt." Auðvitað er það persónulegt hvað fólki finnst fallegt og uppbyggilegt en það sem hér fer á eftir finnast mér uppfylla þau skilyrði.  
Ein af þeim bókum sem hreyfst af í æsku var bókin Síðasta blómið. Skilaboð bókarinnar, ljóðsins  og teikninganna eftir James Thurber sem kom fyrst út á Ensku 1939, höfðu djúp áhrif á mig. Thurber var bandarískur teiknari og húmoristi og var vel kunnur fyrir skopmyndir sínar og smásögur sem birtust m.a. í hinu virta blaði eins og The New Yorker Magazine. 
Thurber var fæddur í Columbus í Ohio 1894 og lést árið 1961. Hann lýsti móður sinni sem "fæddum grínara" og sem "mestu hæfileikamanneskju sem ég hef þekkt". Hún átti það til að þykjast vera fötluð á kristnum vakningarsamkomum og stökkva svo um með látum eftir að hún hafi hlotið "lækningu."
Thurber átti tvo bræður; William og Robert. Eitt sin léku þeir sér saman og þóttist William vera William Tell. Leikurinn endaði þegar William skaut ör í auga Thurber. Thurber tapaði auganu og með aldrinum varð hann því næst blindur á hinu auganu líka. Í æsku tók Thurber lítinn þátt í íþróttum og örum leikjum en þróaði með sér í staðinn sköpunargáfu sem augljóst er af verkum hans.
Myndirnar í bókinni Síðasta blómið, voru einfaldar, nánast barnalegar en hæfðu samt erindinu ákaflega vel.
Hér kemur ljóðið og fyrr neðan það getið þið séð teikningarnar ásamt enska textanum á stuttu myndbandi.Seinna sömdu Utangarðsmenn lag við íslenska textann eftir Magnús Ásgeirsson og því er líklegt að margir kannist við ljóðið.

Síðasta blómið

Undir XII. alheimsfrið
(eins og fólk mun kannast við).

eftir blóðug öfgaspor
endursteyptist menning vor
.

Heimsbyggð öll var eydd að grunni.
Uppi stóð ei tré né runni.

Bældir heimsins blómsturgarðar.
Brotnir heimsins minnisvarðar.

Lægra en dýr með loðinn bjór
lagðist mannkind smá og stór

Horfin von, með hlýðni þrotna,
hundar sviku lánadrottna.

Sótti á bágstatt mannkyn margur
meinkvikinda stefnisvargur.

Músík-, bóka- og myndalaus
manneskjan sat með kindahaus,
gleði-, dáða- og girndalaus.

Glötunin virtist þindarlaus…

Pótintátar XII. stríðsins,
tórandi enn á meðal lýðsins,
mundu orðin ekki par
út af hverju stríðið var.

Hvort til annars drós og drengur
dreymdum augum renndu ei lengur,
heldur gláptu öndverð á:
Ástin sjálf var lögst í dá…

Ein síns liðs á víðavangi
vorkvöld eitt var telpa á gangi
og hún fann á sínu sveimi:

Síðasta blóm í heimi.

Heim hún stökk þá sögu að segja
að síðasta blómið væri að deyja.

Ungum pilti út í haga
einum fannst það markverð saga.

Saman forðuðu sveinn og meyja
síðasta blóminu frá að deyja.
Í heimsókn komu, að heilsa því,
hunangsfluga og kólibrí.

Bráðum urðu blómin tvö
og blómin tvö að fjórum,
fimm, sex, sjö… …
og síðast breiðum stórum.

Laufgast tók hvert tré og lundur.
(Telpan fékk sér snyrtingu).

Piltinum fannst hún alheims undur.
Ástin var í birtingu.

Börnin tóku að hoppa og hlæja
hnellin, keik og létt á brá.

Hundar snéru heim til bæja
(hefði verið að ræða um þá).

Ungi maðurinn framtaksfús
fór að byggja úr steinum hús,

og senn fóru allir að hlaða og hýsa,
og heimsins byggðir að endurrísa,

og söngvar lífsins upphófust menn,

og fram komu fiðlarar
og fjölbragða smágusar
og skraddarar og skóarar
og skáld og listamenn,
höggmeistarar, hugvitsmenn
og hermenn!

Og aftur komu ofurstar
og aftur risu upp kapteinar
og majórar og marskálkar
og mannkynslausnarar!

Niður í dölum, fram til fjalla
fólk sér dreifði um veröld alla.

En fyrr en varði fjallahyggja
fór að sækja á dalabyggja,

og þeir sem áttu heima á hæðum
hugann sveigðu að lægri gæðum.

Lýðinn ærðu í lygaskaki
lausnarar, með guð að baki,

uns eftir skamma hríð
hófst alheimsstríð.

Í stríði því var öllu eytt

ekki neitt
lifði af þann lokadóm,

nema einn piltur

nema ein telpa

nema eitt lítið blóm

Upprunalegur texti James Thurber, þýðing: Magnús Ásgeirsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband