Svarthol geðveikinnar

mokka_8_9_08_s"Hann var með rottuandlit. Útskúfaður hraktist hann um götur með kaldan straum í hnakkanum uns hann kom að kunnuglegu húsi. Hann drap á dyr og unglingsstúlka kom til dyra. Hann bað um að fá að koma snöggvast inn fyrir. Það kom smá hik á stúlkuna en síðan hleypti hún honum inn. Hann settist við eldhúsborðið og átti í erfiðleikum með rottuandlitið. Gömul kona kom fram úr stofunni án þess að virða hann viðlits eða bjóða góðan daginn."

Tilvitnunin er úr Bókinni Kaleikur sem er eftir Bjarna Bernharð. Í henni dregur Bjarni upp mynd af ævi sinni með stórum expressionískum strokum þar sem áhrif eiturlyfja, einkum sýru, á geðklofa og aðrar geðtruflanir sem hann á við að etja, eru megin þemað.

Ég hitti Bjarna fyrir skömmu eftir að hafa ekki séð hann eða heyrt í nokkur ár. Hann seldi mér tvær bækur eftir sig, Kaleikinn og ljóðabókina "Blóm í byssukjafta græðginnar".- Nokkru síðar eftir að ég hafði lesið báðar bækurnar, hitti ég Bjarna aftur og tjáði honum að mér fyndist hver kafli í bókinni vera eins og lýsing á því sem hann ætlai að fjalla um. Bjarni svarað mér því til að nálgun við efnið og þá sem hann minnist á bókinni mundi hafa orðið honum ofviða tilfinningalega ef hann hefði teiknað upp með orðum nákvæmari og fínlegri myndir.  Ég fór heim og las bókina aftur og sá þá alveg hvað Bjarni átti við.

Kristbergur O Pétursson myndlistarmaður fjallaði um þessa bók stuttu eftir að hún kom og  segir;  

Kaleikur Bjarna Bernharðs er undir leslampanum, ekki löng bók, rétt rúmar 100 bls. Þar eru engar málalengingar, Bjarni er fáorður og gagnorður um lífshlaup sitt í hverjum kafla og hógvær þegar hann lýsir upprisu sinni og endurkomu. Ekki kann ég að gera bókinni nein frekari skil á gagnrýninn hátt - var ekki ætlunin heldur. Bjarni sogaðist inní svarthol geðveikinnar með hörmulegum afleiðingum og margra ára frelsissviptingu á réttargeðdeild. Hann tæmdi sinn bikar í botn og það var djúpur og víður kaleikur. Haldreipi hans í útlegðinni var listin, sköpunarþrá listamanns sem skyldi fullnægt, og staðfastur ásetningur í því að byggja sig upp.

Það eiga ekki allir afturkvæmt, margir eru beygðir og brotnir eftir skipbrot í lífinu og halda sér til hlés. En ekki verður annað séð en Bjarni standi traustum fótum í mannheimum eftir endurkomuna og hefur síðan tekið til óspilltra málanna, galvaskur í ætlunarverki sínu listinni í ljóðum og málverkum.

Ég á nokkrar af fyrri ljóðabókum Bjarna og sá strax að í þessari nýju ljóðabók "Blóm í byssukjafta græðginnar" kveður við nýjan tón. Sýru og geðklofa-ruglið er farið og í staðinn komin einföld og hrein hugsun.

Frelsið

Að brjóta hlekki

ánauðar

er frumhvöt

hver manns

og heilög skylda

 

Hitt sætir furðu

að frelsið

virðist mörgum

sem myllusteinn

um háls.

Annars hvet ég ykkur til að kanna ljóð hans af eign raun. Venjulega er hægt að hitta á Bjarna þar sem hann er að selja bækurnar sínar á götuhorni niðrí bæ eða þar sem hann situr og sötrar kaffi á Mokka. - 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband