Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
19.9.2011 | 21:53
Okur á Ljósanótt
Í byrjun september var Ljósanótt haldin í Reykjanesbæ með pompi og prakt. Hátíðin var sú fjölmennasta fram að þessu og ekki var veðrið til að spilla gleðinni. - Mikið var í borið og greinilega reynt að koma til móts við alla aldurshópa enda hátíðin auglýst sem fjölskylduhátíð.
Á rölti um bæinn meðal þúsunda gesta kom ég að þar sem verið var að selja helíum-fylltar álblöðrur eins og gjarnan tíðkast á hinum ýmsu bæjarhátíðum um allt land. - Kunningi minn með þrjú börn stóð við söluborðið og á litaskiptunum í andliti hans sá ég að eitthvað var að.
Hann hafði ætlað að kaupa eina blöðru af stærri gerðina fyrir hvert barn en fannst 6000 krónur sem hann var rukkaður um, eða 2000 krónur fyrir hverja blöðru, vera heldur hátt verð fyrir glysið.
Hann spurði þá um minni blöðrurnar og var sagt að fyrir þær þyrfti hann að greiða 1500 krónur fyrir stykkið, eða samtals 4500.
Með andlitið rautt og rínandi ofaní budduna sína gekk kunningi minn frá borðinu og ég sá hvernig skeifur færðust hægt og rólega yfir andlit barna hans.
Konan sem stóð fyrir þessu okri tjáði undirrituðum að hún þyrfti að borga Reykjanesbæ Kr. 67.500 fyrir leyfið til að fá að að selja blöðrurunar og hitt skranið sem hún hafði til sölu í básnum sínum. Sú upphæð væri ástæðan fyrir þessu háa verði á blöðrunum.
Til að hafa upp í kosnaðinn fyrir söluleyfið þurfti hún sem sagt að selja 34 blöðrur af stærri gerðinni. -
Nú er mér ókunnugt um hvað svona blöðrur kosta í innkaupum hérlendins en erlendis er hægt að kaupa þær hjá heildsölum fyrir ca. 25 krónur stykkið. - Kannski er það helíum-flaskan sem er svona dýr.
Svona okur er svo sem ekkert stórmál og gleymist áreiðanlega öllum fljótlega. Mörgum finnst þetta jafnvel titlingaskítur sem óþarfi er að tíunda í öðrum sveitum. En mér finnst þetta dæmi bera vott um hvernig 2007 hugsunarhátturinn lifir enn góðu lífi. - Er það ekki einmitt svona okur sem er best til þess fallið til að slæva dómgreind og verðskyn almennings? Við síkar aðstæður verða flestir foreldar að láta okrið yfir sig ganga, þegjandi og hljóðalaust, af því að það eru börnin þeirra sem eiga hlut að máli. -
14.8.2011 | 12:53
Öfugmælið Iceland Express
Ég ætlaði að fljúga til London í morgunn með Iceland Express. Ætlaði að vera viðstaddur stór-afmæli niður í Cornwall í kvöld. Vélin átti að fara samkvæmt bókuninni kl: 08.20 og lenda 20 mín yfir 12 að staðartíma. Nægur tími til að komast með lest á áfangastað, jafnvel þótt fluginu seinkaði dálítið eins og vaninn er hjá þessu flugfélagi sem reyndar er svo alls ekki flugfélag þegar nánar er skoðað heldur söluskrifstofa fyrir eitthvað enskt flugfélag og lætur bara alla halda að hún sé alvöru flugfélag.-
Þegar ég kom á Keflavíkurflugvöll sá ég að flugið var áætlað kl: 8:50,- seinkun sem ég get sætt mig við, hugsaði ég. Þegar klukkan nálgaðist 9:00 og ekki var enn farið að hleypa um borð í vélina mjakaði ég mér fram hjá langri röð farþega sem stóðu þolinmóðir við útganginn og biðu eftir að verða hleypt um borð.
Fyrir aftan afgreiðsluborðið stóð ung stúlka og brosti. "Hvað er mikil seinkun í viðbót?", spurði ég. Hún sagðist ekki vita það, en hún væri að bíða eftir nákvæmari upplýsingum. Í þeim töluðu orðum kom ungur maður að borðinu og af orðum hans sem hann beindi reyndar að stúlkunni, mátti skilja að flugvélin væri biluð og það ætti að athuga með flugið kl. 11:00.
Hann bað stúlkuna, sem var greinilega farin að vera óstyrk, að tilkynna þetta í kallkerfið. Fyrir aftan mig var fólk farið að ókyrrast og kalla á pörin fyrir innan borðið og vildi geinilega vita hvað væri á seyði.
Stúlkan færðist undan því að tilkynna seinkunina og sagðist aldrei hafa gert svona áður og hún kynni ekkert á kallkerfið. Ungi maðurinn reyndi að telja í hana kjark og eftir nokkurt þref beygði hún sig niður undir afgreiðsluborðið og af því að ég stóð svo nálægt heyrði ég hana stauta sig fram úr afsökunarbeiðni, tilbúnum texta sem maðurinn hafð fundið handa henni í einhverri möppu.
Ekki heyrðist samt múkk í hátalarakerfi flustöðvarinnar.
Fólk fyrir aftan mig var nú byrjað að hrópa og vildi fá að vita hvort það ætti að fljúga eða ekki. Unga manninum varð þá ljóst að skilaboð stúlkunnar höfðu ekki komist til skila því kallkerfið virkaði ekki frá afgreiðsluborðinu.
Þetta var all-pínleg staða. Úti stóð flugvélin biluð og inni var kallkerfið bilað. Ungi maðurinn tók sér nú stöðu fyrir framan afgreiðsluborðið og hóf að útskýra það fyrir nærstöddum að hann væri ekki vélvirki og gæti því ekki sagt neitt um hvenær eða hvort vélin mundi fljúga.
Stúlkan sat á meðan fyrir aftan hann heldur hnýpin og lét lítið fyrir sér fara. - Ungi maðurinn benti fólki á að fara til þjónustuborðs fyrir utan biðsalinn til að fá nánari upplýsingar. - Ég brá mér þangað og hitti þar fyrir miðaldra konu sem sat við tölvu. "Það á að athuga með flugið kl:11:00" tjáði hún mér. "Matarmiðum verður útbýtt eftir að þrjár klukkustundir eru liðnar frá áætlaðri brottför" tilkynnti hún svo á ensku, því fyrir framan hana hafði nú safnast saman hópur farþega sem vildi fá upplýsingar um hvað þessi söluskrifstofa ætlaði að gera fyrir fólkið. Margir sögðust vera að missa af tengiflugi til annarra áfangastaða. Við því var lítið að gera taldi konan.
Um kl. 10:30 birtist á skjánum og brottfarir og komur að þessu ákveðna flugi til London mundi seinka til 16:30.
Það er auðvitað nokkuð ljóst að ég verð af afmælisveislunni. Næsta flug til Bretlands er kl: 16:00 með Icelandair og með þeim kostar farið um 80.000 kall. Farmiðinn með Iceland Express var 50.000 krónum ódýrari og sá munur nægði til að ég var tilbúinn til að taka áhættuna (sem ég vissi að var veruleg) á talverðri seinkun. En að hún yrði meira en 8 tíma var nokkuð sem ég reiknaði alls ekki með.
Nú sit ég leiður og súr og bíð eftir að skrifstofa þeirra Express manna svari í símann. Ég er númer 2 í röðinni en komst áðan upp í að vera númer eitt í röðinni. Ég hringdi um leið og ég hóf að skrifa þennan leiða pistil fyrir klukkustund eða um leið og skrifstofa þeirra á að opnaði kl. 11.00.
Rétt í þessu var mér svarað. Jú það verður örugglega flogið í dag, staðfest brottför kl: 17:15!
Ef ég vill fá miðann endurgreiddan verð ég að hringja aftur í dag, jafnvel þótt það taki klukkustund að fá samband. Ekki er hægt að senda tölvupóst í því skyni og já, hún mundi láta einhvern vita af þessu rugli í símkerfinu þar sem fólk rokkar sjálfvirkt milli sæta í röðinni sem það bíður í.
Niðurstaðan er að það sé um að gera fyrir fólk að fljúga með Iceland Express ef það skiptir engu máli fyrir það hvenær flogið er.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.6.2011 | 07:13
Máttarstólpar þjóðfélagsins
Maður skilur ekkert orðið í þessari fréttamennsku. Til hvers er verið að rifja þetta upp núna? Eða er eitthvað athugavert við að þessir máttarstólpar þjóðfélagsins hafi fengi nokkrar millur í bónus út úr fyrirtækinu sem þeir voru að þræla fyrir? - Áttu þeir þær ekki skilið, eða hvað? -
Ok, allir vita að fyrirtækið stóð höllum fæti og skuldaði skrilljónir til íslenskra banka. En þeir voru hvort eð er allir að fara hausinn líka. Var ekki sjálfsagt að reyna að ná einhverju út úr draslinu áður en allt fór til helv.....
En ég endurtek, til hvers er verið að rifja þetta upp núna? Til hvers er eiginlega ætlast af þessum heiðursmönnum? Er kannski verið að vonast til að þeir skili þessu smáræði til baka? - Eða er bara verið að reyna gera orðspor þeirra eitthvað vafasamt núna þegar þeir eru búnir að koma sér vel fyrir aftur eftir þetta Existu ævintýri.
Haha, glætan að það takist.
Þeir eru og verða virtir máttarstólpar þjóðfélagsins. Að auki hefur þjóðin ekki lengur lyst á neinu blóði. - Í stað þess að berja bumbur niður á Austurvelli mætir fólk nú uppáklætt í Hörpuna til að sýna stuðning sinn við höfuðpaurinn í hruninu sem verið er að lögsækja fyrir sinn þátt í Hrunadansinum. - Hann reynir að afsaka sig og segir réttarhöldin pólitísk. Á hvaða plánetu býr sá maður? Veit hann ekki að það er verið að ásaka hann um pólitíska glæpi? - Af hverju ættu þá réttarhöldin ekki að vera pólitísk?
Exista greiddi bónusa 2009 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 07:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2011 | 02:32
Kínverska hugmyndalögreglan
Myndlistamaðurinn Ai Weiei situr enn í fangelsi einhversstaðar í Kína. Til að minna á hann og baráttu hans, héldu nokkrir listamenn myndlistarsýningu sem opnuð var fyrir þremur dögum.. Einn vegginn, sem þeir skildu eftir auðan, helguðu þeir minningu Ai Weiei.
Sýningin sem sett var upp í Beijing hafði varla opnað dyrnar þegar að kínverskar öryggissveitir birtust. Þar var komin sendinefnd frá kínversku hugmyndalögreglunni sem er ætlað að hafa hemil á öllum hugmyndum sem ríkinu líkar ekki við einhverra hluta vegna. Talið er að fjöldi manna og kvenna í þjónustu hugmyndalögreglunnar sem m.a. reynir að stjórna aðgangi Kínverja að internetinu, skipti milljónum.
Hugmyndalöggan tók niður allar myndir sýningarinnar og handtók síðan aðstandendur hennar. Tveir þeirra voru hnepptir í fangelsi og ekkert hefur til þeirra spurst. -
Þessi og önnur miklu grófar mannréttindabrot líða þjóðirnar Kína. Ísland, sem í stað þess að fordæma þetta fasíska og úrelta stjórnarfar sem viðgengst í Kína, sækist eftir meiri samskiptum og auknum viðskiptum við ríkið.
Mannréttindasamtök sem hvetja til aðgerða gegn Kína er sagt að tillögur þeirra mundu í framkvæmd standa í vegi fyrir efnahagslegum vexti Kína og það væru líka mannréttindabrot gegn hinum almenna Kínverja. Sannleikurinn er sá að umsvif Kína í heiminum aukast dag frá degi og áhrif þess á efnahagslíf annarra þjóða eru nú orðin svo mikil að ekkert þeirra getur fórnað ábatanum af viðskiptunum við Kína án þess að finna verulega fyrir því. Þess vegna sleppa flest lönd að gagnrýna kínversk stjórnvöld, hvað þá að grípa til aðgerða gegn þeim.
Minnast mannréttindabrota í Kína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2011 | 14:17
Útnesjamenn eftirlegukindur í efnahagsbatanum
Það er erfitt að átta sig ástandi þjóðarsálarinnar um þessar mundir. Á sama tíma og stjórnarliðar segja efnahaglegan bata landsins vel á veg kominn og bankarnir tilkynna aftur um milljarða króna hagnað, skín vantrú og vonbrigði, sem oft verður líka að kaldhæðnislegu glotti, úr andlitum almennings.
En hvers er að vænta af þjóð sem trúði einlægt á ákveðnar hugsjónir sem ollu þeim svo skelfilegum vonbrigðum, treysti fólki sem síðan sveik hana, sem hafði ákveðna sýn á framtíðina sem aldrei varð að veruleika.
Reyndar bera sig einhverjir mannalega, einkum í litlum byggðarlögum út á landi sem voru svo heppin, (eða forsjál) að kreppan náði aldrei til þeirra að ráði og allir héldu atvinnu sinni og lífsviðurværi.
En þar sem atvinnuleysið er mest og hefur varað hvað lengst, eins og suður með sjó í Reykjanesbæ, þar sem atvinnuleysið er 13 til 14%, liggur ráðaleysið eins og mara yfir fólkinu og bænum öllum.
Fyrir marga er Hafnargatan í Keflavík andlit bæjarins. Að ganga eftir henni er átakanlegt. Þar getur að líta allt of marga auða útstillingarglugga, gapandi tómar augntóftir fyrirtækja sem eitt sinn voru matarholur einhverra íbúa bæjarins. -
Og sú þjónusta og verslun sem enn lifir í plássinu á í vök að verjast. - Sumir bæjarbúar virðast halda að þeir séu að spara með því að aka alla leið til Reykjavíkur til að versla. - Á góðri stundu, er kallað eftir samstöðu, en hún fer fyrir lítið þegar fólk rýnir i budduna sína og heldur, hvort sem það er svo rétt eða ekki, að það geti sparað nokkrar krónur á að renna í Reykjavík til að versla. En það verður líka að horfa til þess að ýmsa þjónustu, sérstaklega heilbrigðisþjónustu sem skorin hefur verið niður af ríkisvaldinu, er ekki lengur hægt að fá í Keflavík.
Stóru hugmyndirnar, allsherjar-lausnirnar sem m.a. fólu í sér byggingu álvers í Helguvík og/eða annars orkufreks iðnaðar eða þjónustu eins og alþjóðlegs tölvugagnavers upp á velli, og sem bæjarstjórinn þreytist ekki á að telja upp í ræðu sinni í tilefni Ljósanætur á hverju ári í mörg ár, hafa eins og allir vita, ekki orðið að veruleika.
Nýsköpun í atvinnulífinu eru orðin tóm á Suðurnesjum og það stoðar lítið að benda stöðugt á nýlegan rekstur sem enn stendur á brauðfótum eins og Háskólann Keili eða Heilsuhótelið hennar Jónínu Ben sem dæmi um nýleg fyrirtæki í bænum.
Fjölmenn en duglaus embættismannastétt bæjarins, að ekki sé minnst á fólkið sem situr á þingi fyrir þennan landshluta, kennir pólitískum deilum, skort á orku til að breyta í rafmagn og viljaleysi peningastofnana til að lána fé í framkvæmdir, um ástandið -
(Er að furða að fólk spyrji til hvers sé verið að halda gangandi peningastofnunum hvort eð er Bönkum eða sjóðum sem ekki hafa að markmiði að þjóna fólki , heldur aðeins peningum.) -
Sem dæmi má taka "Eignarhaldsfélag Suðurnesja". Það auglýsir eftir hugmyndum um nýsköpun sem það gæti fjárfest í og er tilbúnið til að offra til atvinuuppbyggingar á Suðurnesjum heilum 150 milljónum, eða andvirði tveggja sæmilegra húseigna á Reykjavíkursvæðinu.
En stefna bæjaryfirvalda í atvinnuþróun er eftirfarandi eins og fram kemur á heimsíðu bæjarins:
Reykjanesbær byggir á sex meginstoðum til atvinnuþróunar á svæðinu:
1. Að orka Reykjaness sé virkjuð skynsamlega. Að hér sé staðsett öflugt orkufyrirtæki sem býður samkeppnishæfa orku til heimila og fyrirtækja og er fært um að hafa góðan arð af sölu raforku til annarra byggðarlaga.Á þessum grunni verði hlúið að frekari jarðhitarannsóknum á svæðinu. Reykjanesbær verði áfram leiðandi aðili í Hitaveitu Suðurnesja hf.
2. Að hér sé blómleg aðstaða fyrir þjónustu og verslun Því er lífæðin frá Duus húsum eftir Hafnargötu og Njarðarbraut og inn á Fitjar í endurgerð, þar sem þegar eru um 200 fyrirtæki staðsett.
3. Að hér sé öflugt iðnaðarsvæði í Helguvík sem býður hentuga staðsetningu milli stórskipahafnar og alþjóðaflugvallar, með ljósleiðaratengingum og ódýrri raforku inn á svæðið.
4. Að byggt sé á þjónustu tengdri Keflavíkurflugvelli, m.a. ferðaþjónustu. Skapaður sé "segull" í ferðaþjónustu sem tryggi hlutverk Reykjanesbæjar í ferðaþjónustu landsmanna. Uppbygging Víkingaheims með Nausti Íslendings, Smithsonian safni og söguslóðasýningu er mikilvægt verkefni í þeim tilgangi.
5. Að hér sé áfram miðstöð varna þjóðarinnar og skoðaðir séu möguleikar á að styrkja þá starfsemi í breyttum heimi, s.s. tengt sjúkdómavörnum og skynsamlegri samþættingu verkefna á sviði öryggismála þjóðarinnar.
6. Að sveitarfélagið sé vakandi fyrir nýjum hugmyndum er aukið geta atvinnumöguleika .s.s í heilbrigðisþjónustu, íþróttum og háskólatengdri starfsemi.
Síðustu misseri hefur Ríkistjórn landsins haft talverðar áhyggjur af stöðu atvinnumála suður með sjó og ákveðið var á fundi hennar 9. nóvember 2010 að hrinda af stað 11 verkefnum á Suðurnesjum til að efla atvinnu, menntun og velferð.
Til þess að halda utan um þau og vinna í sameiningu í landshlutanum ákvað ríkisstjórnin að mynda samráðsvettvang stjórnvalda og sveitarfélaga á svæðinu. Verkefnin urðu fljótlega 10 þar sem tvö voru sameinuð, þ.e. verkefni um fisktækniskólann og þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði.
Verkefnin 10 eru:
- Flutningur landhelgisgæslunnar - hagkvæmnismat liggur fyrir. (Ekki á dagskrá fljótlega)
- Gagnaver - lög um breytingar vegna gagnavera tóku gildi 1. maí sl. (Vantar raforku)
- Hersetusafn á Suðurnesjum - hluti fjármögnunar hefur verið tryggður. (200 millj.)
- Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu - er í ferli. (Enginn vill kaupa)
- Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum - lokaskýrsla liggur fyrir. (Fátt bitastætt)
- Klasasamstaf fyrirtækja á sviði líforku - er í ferli. (Hver skilur þetta?)
- Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta - hefur verið hækkað. (Vá, gott framlag til atvinnuuppbyggingar.)
- Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum - verkefnisstjóri ráðin og samstarf komið á. (Hver eru verkefnin?)
- Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum - Útibú hefur verið opnað. (Hann hefur nóg að gera)
- Fisktækniskólin/þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði. Þróunarverkefni um eflingu menntunar á Suðurnesjum. Verkefnisstjórar hafa verið ráðnir og verkefni er hafið. (Bók og verkvit verða vissulega í askana látin)
Hvað ætli þessar aðgerðir ef og þegar þær koma til framkvæmda, skapi mörg störf á svæðinu?
Á Suðurnesjum eru um 1600 manns atvinnulausir. Frá því að Ríkisstjórnin fundaði um málin, hefur atvinnulausum fjölgað um hálft hundrað.
Jafnvel þessar vel meinandi aðgerðir stjórnvalda nægja engan veginn til að leysa atvinnuleysi Suðurnesjamanna.
Til þess þurfa að koma til miklu fleiri og varanlegri lausnir.
Þetta veit almenningur á Suðurnesjum og skilur samt illa í því hversvegna forysta bæjarfélagsins hefur leyft ákveðnu sinnuleysi í kjölfar ráðaleysis að grafa um sig í samfélaginu. - Þeir segja stöðugt að bæjarfélagið sé fjárhagslega komið að fótum fram og hafi ekki burði til að standa á bak við neina uppbyggingu. -
"Litlar hugmyndir" um iðnað eða þjónustu mæta auðvitað þessu sinnuleysi og eru blásnar út af borðum fjármálastofnanna og ráðamanna, jafn óðum og oft uppurðarlitlir hugmyndasmiðir fá viðrað þær. Og það þarf ekki nema smá skammt af svartsýni þeirra sem völdin og peningana hafa til að drepa hugmyndina alveg eða setja hana í salt "þar til betur árar." - Óhóflegar arðsemiskröfur ríkisrekinna peningastofnana setur einfaldlega starfsmönnum þeirra stólinn fyrir dyrnar, með fjármögnun til atvinnuuppbyggingar.
Hvað verður t.d. um hugmyndina um;
víkingaþorp í Njarðvíkunum fyrir ferðamenn?
Um fjölskylduvæna Víkinga-vatnagarða í framhaldi af Blá lóninu?
Um hugmyndina að ræktun skelfisks út af Bergi og Stapanum?
Um hugmyndirnar ófáu um verksmiðjur til að fullvinna sjávarfang?
Um hugmyndina um rafgeymaverksmiðju?
Um hugmyndina um æfingasvæði fyrir alþjóðlegar björgunarsveitir upp á velli?
UM hugmyndina um fjölþjóða kóramót í tengslum og samvinnu við ferðaskipuleggjendur og íþróttamannvirkin í bænum.
Þessar hugmyndir, sumar á frumstigi, aðrar lengra komnar, eiga allar á hættu að daga uppi, einkum vegna þess að ekkert fjármagn fæst til framkvæmda þeirra.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2011 | 22:03
Bíður réttarhalda á Rikerseyju
Hinn sextíu og tveggja ára Dominique Strauss-Kahn gistir nú í fangelsinu á Rikerseyju. Á föstudaginn n.k. á hann að mæta fyrir rétti en hann hefur verið ákærður fyrir að hafa reynt að nauðga Nafissatou Diallo. (Sem fyrstu fréttir nefndu Ofelíu. Sjá mynd) Lítið er enn vitað um hagi Diallo, annað en að hún sögð upprunalega frá Senegal, vera múlími og eiga 16 ára dóttur sem hún býr með í Bronx. Hótelið sem hún vinnur fyrir ber henni góða söguna fyrir að vera áreiðanlegur starfskraftur.
Melissa Jackson dómari neitaði í fyrradag að láta DSK lausan gegn tryggingu jafnvel þótt einginkona hans hafi verið snögg að senda honum milljón dollara í reiðufé yfir til New York. Dómarinn tók þessa ákvörðun eftir að sækjandinn í málinu sagði að DSK hefði verið ásakaður um svipaðar árásir áður.
DSK verður því að dúsa á "klettinum" ásamt 13000 sakamönnum sem sem hann samt fær ekki að hafa samneyti við því hann var settur í einangrun. Það þýðir að hann má ekki yfirgefa klefa sinn nema í fylgd fangavarða. Rikersfangelsið er staðsett á eyju í Austurá rétt norður af Queens, ekki langt frá La Guardia flugvelli og er eitt af stærstu fangelsum í heiminum. Það getur hýst allt að 17.000 fanga.
Herra Benjamin Brafman verjandi DSK hefur í dag breytt vörn sinn frá því í gær þegar hann sagði að DSK hefði fjarvistarsönnun. Nú segir hann að vörnin verði byggð á þeirri staðreynd að það sem farið hafi á milli DSK og Nafissatou Diallo hafi verið með fullu samþykki hennar. Talið er að skýrsla lögreglunnar um lífsýni sem tekið var úr sakborningi og til rannsóknar og samanurðar við lífsýni úr Nafissatou Diallo hafi átt þátt í að breyta varnartaktíkinni.
Greiddi sjálfur fyrir hótelið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 18.5.2011 kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.5.2011 | 02:35
Líkurnar á að um samsæri sé að ræða
Samsærakenningasmiðir hafa nógu úr að moða þessa dagana. Þegar hafa komið fram nokkrar í tengslum við ásakanirnar á hendur Dominique Strauss-Kahn um að hann hafi reynt að nauðga 32 tveggja ára giftri afrísk-amerískri konu sem vinnur sem þerna á franska keðuhótelinu Sofitel í New York, þar sem yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dvaldist.
Þernan fór inn í svítuna sem hann dvaldist, því henni hafði verið sagt að hún væri mannlaus. -
Lögfræðingur Dominique heldur því fram að DSK hafi fjarvistarsönnun. Lögfræðingurinn segir að Þernan, sem ekki sé neitt augnayndi, haldi því fram að árásin á hana hafi átt sér stað um klukkan 13:00 en Dominique hafi skilað lyklinum kl: 12:30 og farið af hótelinu til að snæða með dóttur sinni hádegisverð. -
Þegar að Verjandinn reyndi að fá Dominique lausan fyrir eina milljón dollara tryggingu, benti hann einnig á að Dominique hafði ekki reynt að flýja Bandaríkin eins og haldið hefur verið fram. Hann hafi verið fyrir löngu bókaður á þetta ákveðna flug.
Hann sagði líka að Dominique hefði hringt í öryggisverði hótelsins til að tilkynna að hann hefði skilið eftir síma á hótelherberginu og jafnframt sagt þeim að hann væri á leiðinni úr landi. Það sé ekki háttarlag manns sem er að reyna að flýja lögregluna né beri það vitni um hugarfar manns sem viti að hann hefur gerst sekur um glæp.
Þrátt fyrir þessi rök var beiðninni um að láta Dominique lausan gegn tryggingu hafnað af dómaranum sem er kvenkyns.
En hverjar eru þá líkurnar á, eins og samsæriskenningarnar segja, að pólitískir andstæðingar hans í Frakklandi séu að leiða Dominique Strauss-Kahn í gildru?
Vissulega má segja að þessar ásakanir komi fram á hentugum tíma fyrir andstæðinga DSK. Hann var langlíklegastur til að verða frambjóðandinn í forsetakosningunum 2012 sem átti besta möguleika á að vinna hinn óvinsæla Nicolas Sarkozy. Talið er að slíkir draumar eru að engu orðnir, hver sem útkoman úr réttarhöldunum yfir DSK verður, en þeim skal fram haldið þann 20. þ.m.
DSK er nokkuð þekktur sem kvennaflagari af samstarfsfólki sínu. Það orðspor hefur verið opinbert leyndarmál í Frakklandi í mörg ár. Að auki hafa áður komið fram ásakanir á hendur honum fyrir að kynferðislega áreitni og árásir. Þær hafa ætíð verið þaggaðar niður. Margir voru samt á því að um leið og hann tilkynnti framboð sitt mundu margar af skápa-beinagrindum hans skjóta aftur upp höfðinu.
Samsæriskenningin sem virðist hafa mest kjöt á beinunum kom fram á vefsíðu LePost. Þar segir að sá sem fyrstur varð til að tweeta um handtökuna hafi verið Jonathan Pinet, franskur andófsmaður sem starfar fyrir franska hægriflokkinn UMP. Hann tweetaði um handtökuna nokkru áður en hún átti sér stað.
Sá sem var fyrstur til að endur-tweeta um málið var Arnaud Dassier, franskur spunameistari sem áður hefur reynt að breiða út óhróður um DSK og lúxus-einkalíf hans.
Fyrsta vefsíðan sem skýrði frá handtökunni var franska hægri sinnaða bloggsíðan 24heuresactu. Grein birtist þar um handtökuna löngu áður en t.d. The New York Post birti fréttina fyrstur bandarískra fjölmiðla.
Pinet sagðist hafa fengið fréttirnar frá kunningja sínum sem vinnur á hótelinu.
- Frönskum opinberum persónum er liðið ýmislegt þegar kemur að einkalífinu sem enn er virt að mestu. En þegar kemur að þessari meintu hegðun DKS, virðist franskir stjórnmálamenn margir hverjir vera þeirrar skoðunar að þetta hafi verið fyrirsjáanlegt. Og eins og vænta mátti, hefur önnur kona, frönsk blaðakona, nú þegar gefið sig fram og hyggist stefna DSK fyrir kynferðislega árás sem á að hafa átt sér stað fyrir 10 árum.
Með fjarvistarsönnun? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 07:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
15.5.2011 | 09:10
Peningar og kynferðislegt ofbeldi
Strauss-Kahn ákærður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.5.2011 | 08:22
Efnahagslegir blóðtappar
Tvö lönd voru öðrum fremur völd af "heimskreppunni" svo kallaðri. Bandaríkin og Bretland. Bæði löndin skófluðu stórkostlegum fjármunum teknum af almannafé inn í einkarekin fyrirtæki til að forða þeim frá gjaldþrotaskiptum og settu þannig fordæmi sem önnur lönd fylgdu í góðri trú. - Á sama tíma og "kreppan" er sögð á hægu undanhaldi hækka laun forstjóra bandarískra fyrirtækja um 11% og milljarðamæringum í Bretlandi fjölgar sem aldrei fyrr. - Á sama tíma er hvergi fé að fá til atvinnuuppbyggingar og atvinnuleysið því mikið. -
Fyrir þessari þróun eru einfaldar skýringar. Samfélagi manna má líkja við mannslíkamann og peningum heimsins við blóð hans. Til að allir hlutar líkamans séu heilbrigðir þarf blóðið að flæða óhindrað til allra líffæra hans og fruma. Um leið og eitt líffæri veikist vegna skorts á blóðstreymi veikjast brátt aðrir líkamshlutar líka. Þess vegna er það allra hagur að blóðið streymi og haldi áfram að næra allar frumur jafnt. - Þegar að blóðið safnast saman á einum stað, myndast blóðtappi sem hæglega getur leitt líkamann til dauða. -
Bankar og auðmenn heimsins eru blóðtappar efnahagslegs líkama hans. Gúllinn sem blóðið myndar þegar að blóðstreymið er heft, gefur falska mynd af ástandinu. Fólk heldur að um ávöxtun og aukningu sé að ræða, en í raun er verið að svelta aðra hluta líkamans og veikja þá. -
Laun forstjóranna hækka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.4.2011 | 02:36
Ellý Blanka smá
Hún heitir Petronella Johanna Maria Godefrida Blanksma-van den Heuvel og situr á hollenska þinginu fyrir guðhrædda krata. Hún á tvö börn og eiginmann. Hún kallar sig Ellý (lái henni það hver sem vill) og stendur nú í því að "hóta" Íslendingum því að ef þeir standi ekki við Icesave lll samninginn munu Hollendingar fara í mál við þá.
Ellý hefur orð á glundroðanum í innanríkismálum Íslands og segist hafa fylgst vel með þeim. Samt virðist hún ekki gera sér grein fyrir að hluti af ástæðunni fyrir því að samningnum var hafnað er einmitt til að fá úr því skorið fyrir rétti hvort íslenskir þegnar eigi að vera ábyrgir fyrir Icesave greiðslum til Hollendinga. Íslendingum er því lítil ógn í þeim orðum hennar.
Svo held ég líka að Ellý sé bara að plata. Ég held að hún sigli dálítið undir fölsku flaggi í svörum sínum eins og hún gerir á heimasíðu sinni. (Efri myndin er tekin af heimsíðunni og sú neðri er nýlegt fréttaskot)
Ég held að hún viti ekki neitt um Icesave. Ég held að Morgunblaðið hafi beðið hana um þessa yfirlýsingu vegna þess að þeir á ritstjórninni vissu að hún vissi ekki neitt um málið en sem pólitíkus mundi hún ekki geta staðist að fá tækifæri til að segja eitthvað við erlent blað.
Hún féll í gildruna og á Íslandi hlægja allir sig máttlausa af Ellý blönku smá.
Sjáumst í réttarsalnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)