Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Maður sem þorir, getur og vill

Ólafur Ragnar er vinsæll maður um þessar mundir. Hann er maður ársins sem er að líða og hann er líka maður komandi árs og jafnvel ára. 

Hann er svo vinsæll að hann mun vart sjá sér fært annað en að verða við þeim fjölda áskoranna sem honum hafa borist og gefa enn aftur kost á sér í embætti forseta í a.m.k. næstu fjögur árin.

Þjóðin þarf svo sannarlega á honum að halda og hann getur bara ekki sett sig upp á móti vilja hennar. - Engum öðrum er treystandi til að standa vörð um lýðræðið eins og hann hefur gert fram að þessu. Hann hefur sannað að hann er að sönnu maður fólksins, fulltrúi alþýðunnar, maður sem þorir, getur og vill.

Einhverjir kunna að halda að Ólafur í lítillæti sínu muni stíga til hliðar, hætta á toppnum eins og sagt er stundum. - Þeir sem slíkt hugsa, þekkja ekki Ólaf.  Hann gefst aldrei upp fyrr en í fulla hnefana. Og jafnvel þá, er hann eins kafteinn Kirk í stjörnufarinu Enterprice, sem ætíð finnur leið út úr vonlausri stöðu. -

Eitt sinn var Ólafur óvinsælasti maður þjóðarinnar. Þá var hann fjármálaráðherra og uppnefndur "skattmann". - Þegar að hann ákvað að bjóða sig fram til forseta, var hann útbrunninn pólitíkus sem hafði unnið sér það eitt til alvöru-frægðar (fyrir utan að vera kallaður skattmann)  að segja úr ræðustóli alþingis Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra hafa "skítlegt eðli".

En Ólafi tókst að endur-uppgötva sjálfan sig sem forseta allrar þjóðarinnar og er nú elskaður af öllum sem áður formæltu honum. Davíð er búinn að fyrirgefa honum og Jóhanna og Steingrímur elska hann líka. (Eða svo segir hann) Allt leikur í lyndi. -

Ef ekki fyrir einhverja athyglissjúka friðarsinna mundi Ólafur með framboði sínu spara þjóðinni stórfé, því ekki mundi þurfa að efna til kosninga.


mbl.is Valinn maður ársins á Stöð 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískar mannfórnir sem leiða munu til utanþingsstjórnar....vonandi

Árið 2012 byrjar ekki björgulega fyrir ríkisstjórn landsins. Fyrir henni er nú komið eins og sumum landsmönnum sem vita að þeir hafa eitt um efni fram fyrir jólin og kvíða því að vísareikningnum komi í gegnum lúguna. - 

Þessar pólitísku mannfórnir sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa staðið að á síðust dögum þessa árs hafa lagst illa í þjóðina og enn ver í suma stuðningsmenn stjórnarinnar á þingi. - Þótt látið sé að því liggja að allt hafi farið fram í sátt og samlyndi, vita allir,  að nú bíða þeir sem hafa orðið verst úti í þessum "skipulagsbreytingum" aðeins eftir því að það komi að skuldadögum. 

Þegar þing kemur aftur saman eftir áramót, verður ríkistjórnin að horfast í augu við þá staðreynd að hún nýtur ekki lengur stuðnings meirihluta þingsins. Þá fattar Jógrímur hann hafði  ekki efni á því að fæla frá sér tvo stuðningsmenn í viðbót við þá sem þegar hafa flúið hann. Naumur var meirihlutinn fyrir og nú er hann enginn.

Hræsnin og svikin sem pólitísk hrossakaup sem þessi útheimta af stjórnmálamönnum landsins hljóta að ofbjóða stórum hluta landsmanna, hvar í flokki sem þeir sitja. - Að leyfa forystu stjórnmálflokkanna að fótum troða lýðræðið hvað eftir annað á þennan hátt og segja svo brosandi við þjóðina að um það ríki full sátt um aðgerðirnar í flokkunum, eins og það sé æðsta uppfylling lýðræðislegra hátta, ætti að vera næg ástæða til þess að fólk safnaðist eina ferðina enn saman fyrir framan þinghúsið með olíutunnurnar og búsáhöldin.

Eitt liggur þó fyrir, ekki dugar að krefjast nýrra kosninga. Flestir stjórnmálamenn landsins eru löngu búnir að fyrirgera öllu trausti sem almenningur hafði til þeirra, hvar í flokki sem þeir standa. - Hefðbundin flokkapólitík virkar ekki lengur frekar en gufuaflið til að knýja farartæki nútímans. Búið er að færa okkur sanninn um það með nokkrum tilkostnaði?

Eina raunhæfa leiðin í stöðunni er að forseti rjúfi sem fyrst þing og skipi utanþingsstjórn  sem taki að sér ópólitíska ráðsmennsku fyrir land og þjóð næstu 3 - 4 árin a.m.k.


Nótt hinna löngu hnífa framundan

Þá fer í hönd nótt hinna löngu hnífa hjá ríkisstjórninni. Skera þarf af dragbítanna á samstarfinu, þá sem ekki kunna að hlíða og lúta ákvörðunum flokksstóranna. - (Á pólitísku heitir þetta hagræðing)

Rétt eins og það skiptir pólitíkusa mestu máli að komast í valdastöðu, (sem heitir á pólitísku - að taka ábyrgð) skiptir þá mestu eftir að þeir hafa komist til valda, að halda þeim. - 

Til að tryggja að meiri hluti sé enn á þingi fyrir ríkisstjórnina, var leitað á náðir þingmanna hreyfingarinnar. - Í staðinn fyrir stuðning var þeim lofað gulli og grænum skógum, samt ekki "endilega ráðherrasætum". (Á pólitísku heitir þetta óformlegar samræður)

Það vita allir sem hafa komið nálægt pólitík að þegar fólk fær völd, hefst ákveðin umbreyting í sálum þeirra og hugarfari. - (Á pólitísku heitir þetta að taka mið af mismunandi áherslum)

Þeir sem streitast á móti þessum breytingum og halda að þeir geti farið eftir samvisku sinni, finna fljótt að þeir eru í hættu að mála út í horn. (Á pólitísku heitir það að kunna ekki að gera málamiðlun.)

Stjórnmálamenn sem setjast í ráðherrastóla sjá fljótt að hugmyndir sem þeim þóttu eitt sinn góðar og þeir hlutu jafnvel brautargengi sitt út á, eru það ekki lengur og varpa þeim  fyrir róða. -

Þeir sem kusu viðkomandi halda oft að þingmenninrnir séu að svíkja málstaðinn. Svo er ekki. Málstaðurinn/stefnan var raunverulega aldrei til. Hún er hluti af sýndarveruleika sem allir pólitíkusar þurfa að taka þátt í til að hljóta kosningu.  Þeir eru aðeins að fylgja eftir þeim reglum sem harðkóðaðar eru í stjórnmálin þar sem flokksræðið ræður. (Á pólitísku heitir það lýðræði.)


mbl.is „Ekki sami maður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða flokk kjósa ríkir Íslendingar

socialismo_vs_capitalismo-gifKlisjan segir að þeir ríkustu kjósi og hafi ætíð kosið Sjálfstæðisflokkinn. Þar hafi Kolkrabbar og önnur auðdýr hreiðrað um sig og í staðinn fengið ótakmarkað frelsi til að athafna sig í landinu og aðgang að bestu bitunum úr kjötkötlunum.

Þeir næst ríkustu héldu sig í námunda við Framsóknarflokkinn og þegar loks koma að því að einkavæða stöndug fyritæki í þjóðareign hafi framsóknarmenn og sjálfstæðismenn skipt þeim nokkurn veginn jafnt á milli sín.

En svo er bent á að fjölmargir verkamenn styðji og hafi stutt Sjálfstæðisflokkinn og stór hluti millistéttarinnar, þ.e. kaupmenn, tannlæknar, verðbréfabraskarar og aðrir vanabí ríkir.

Kommar og kratar segja þá vera þann hluta verkalýðsins sem ætíð sýni húsbóndanum hollustu, elski svipuna og telji það heiður að fá að taka við molunum sem af borði höfðingjanna falla, einskonar Tómas frændi íslensks mannlífs. Og að millistéttin sé ætíð sú sem hægt sé að sveigja til og frá með loforðum um betri afkomu.

Sjálfstæðismenn benda á móti á að að kommar og kratar séu upp til hópa undirmálsfólk sem horfi ætíð til ríkis og bæjar til að tryggja afkomu sína. -  Þeim sé hreppsómagalundin í blóð borin og sjálfsbjargaviðleitni þar á bæ sé hvergi að finna.


mbl.is Hvernig hugsa þeir 1% ríkustu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr forseti, nýtt embætti

Hvort sem Ólafur Ragnar býður sig fram eða ekki, er ljóst að hann hefur með veru sinni í embættinu gjörbreytt eðli þess. Í næstu kosningum  ganga landsmenn í fyrsta sinn til forsetakosninga með þann skilning að það skipti þá persónulega máli,  hver þjónar í þessu embætti.

Skjöldur og skjólEngin mun líta til þess eingöngu í næstu kosningum til hversu kúltiveraður frambjóðandinn er, þótt það hjálpi að hann kunni mannasiði.

Engin mun velja aftur forseta sem sátt ríkir um vegna þess að hann lofar að halda skoðunum sínum til hlés, í mikilvægum málum fyrir þjóðina. - Næsti forseti verður valinn á allt öðrum forsendum.

Megin tilgangur embættisins er allt í einu orðin sá að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar gagnvart meirihluta þingsins og ríkisstjórna sem vilja þvinga óréttlátum lögum upp á þjóðina.-

Til þess að geta sinnt því hlutverki þarf persónu með bein í nefinu sem getur staðið upp í hárinu á gírugum flokshestum og séð í gegnum flokkadráttapólitíkina, aðal ókosts þess lýðræðiskerfis sem við búum við. -

Þannig verður forsetinn að sönnu sameiningartákni, sem fulltrúi okkar erlendis, en ekki síður innanlands. - Möguleikinn á að skjóta dellu-frumvörpum og umdeildum tillögum ríkisstjórna til þjóðarinnar, verður megin forsenda þessa tákns.


mbl.is Ekki enn gert upp hug sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið sigrar

Nú hrín mikið í lýðræðisandstöðunni. Þeim er brugðið. Áróður hennar er að missa marks. En þetta eru góðar fréttir sem segja okkur að þjóðin er að ná áttum. Stuðningur við forræðishyggjuöflin er á undahaldi.

Auðvitað er það eina vitið að ljúka ESB viðræðunum. Annars fær þjóðin ekki að kjósa um málið. Ekki má taka af henni þann rétt eins og forysta Sjálfstæðisflokksins vill. 

Heppilegt einnig að Framsókn sé ekki stór flokkur. Andstaða þess flokks við lýðræðið er alkunna og kemur berlega í ljós í þessari könnun. 63% stuðningsfólks hans er á móti því að klára þessar viðræður, svona álíka og hlutfallið meðal allar þjóðarinnar sem eru með því á að klára viðræðurnar.

 


mbl.is Meirihluti vill ljúka ESB-viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kína gefst ekki upp

Huang Nubo er ekki af baki dottinn þótt hann hafi fengið neikvætt svar um að kaupa Grímsstaði. Þrátt fyrir yfirlýsingar hans um að honum hafi verið sýnt óréttlæti og hann hafi mætt þröngsýni, og að hann hafi að þeim sökum hætt við að reyna að kaupa Grímsstaði, er hann aftur farinn að banka á dyrnar hjá stjórnvöldum á Íslandi. 

Huang vill endilega kaupa Grímsstaði og einhverjir sem telja sig geta komið hlutunum þannig fyrir að það sé hægt, eggja hann áfram. Huang hélt því fram að hann hefði ekki tapað neinu sjálfur á tilraun sinni til að ná Grímsstöðum. Nú segir hann að ferlið hafi kostað  mikið fé. Hver var það sem kostaði tilraunina?

En umdeild ákvörðun Ögmundar, er sem sagt í endurskoðun, viðhorf Huangs til stjórnarfarsins á Íslandi hlýtur að vera endurskoðun og ákvörðun hans um að fjárfesta einhversstaðar annarsstaðar er í endurskoðun. - Allt þetta endurskoðunarferli fer að stað eftir að ljóst varð að kínversk yfirvöld eru ekki á þeim buxunum að endurskoða sína stefnu sem er að ná með einhverju móti fótfestu á landi sem liggur að norður heimsskautasvæðinu og þeim siglingaleiðum sem þar eru að opnast.

Ögmundur vann þessa orrustu, en stríðið er ekki búið. Það sem Kína vill, fær Kína. - Gömlu geimvísindaskáldsögurnar um ófreskjurnar sem komu utan úr geimnum til jarðarinnar í leit að nýtanlegum auðlindum, eftir að hafa gjörnýtt sínar eigin, er orðin að veruleika. Nema að það eru ekki geimverur sem fara um jörðina og mergsjúga hana hvar sem þeir fá tækifæri til, heldur Kínverjar.

Fólk sem heldur enn að Huang sé að sækjast eftir því að fjárfesta á Íslandi af einhverjum mannúðarhugsjónum, ættu að kynna sér starfsemi kínverskra fyrirtækja í þeim Afríkulöndum sem þeir hafa náð náð að nýta sér fátækt og ringulreið til að komast að auðlindum landsins, sem sumstaðar þeir greiða fyrir með vopnum og "vernd". Einnig í suður Ameríku hafa kínversk fyrirtæki, í krafti nýfengins dollara-gróða sem skapaður er með blóði og svita fátækrar kínverskrar alþýðu, keypt gríðar stór landsvæði og þar á meðal heilu fjöllin til að vinna úr þeim málma og efni sem þeir flytja síðan til Kína til frekari vinnslu.

Vonandi sjá íslensk stjórnvöld og almenningur í gegnum þessa svikamillu Huang Nobo fyrir hönd kínverskra stjórnvalda og hafna öllum tilboðum í að gera íslensk landsvæði að nýlendum þeirra.  


mbl.is Vill enn fjárfesta á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta nafnið á flokkinn

Ég held að ég viti hvað þessi nýi stjórnmálaflokkur verður kallaður. Besta nafnið verður fyrir valinu. En það má ekki upplýsa um það fyrr en á þrettándanum, eftir að allir jólasveinarnir eru farnir heim til sín. Og ég er líka alveg pottþéttur á því hvað hann verður ekki kallaður. Hann verður ekki kallaður O framboðið eða neitt af nöfnunum á eftirfarandi lista.  
  • Framsóknarflokkurinn
  • Hreyfingin
  • Samfylkingin
  • Sjálfstæðisflokkurinn
  • Vinstri hreyfingin - grænt framboð
  • Borgarahreyfingin
  • Frjálslyndi flokkurinn
  • Samtök Fullveldissinna
  • Alþýðubandalagið
  • Alþýðuflokkurinn
  • Bandalag jafnaðarmanna
  • Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja
  • Borgaraflokkurinn
  • Flokkur mannsins
  • Framboðsflokkurinn
  • Framfaraflokkurinn
  • Heimastjórnarflokkurinn
  • Hinn flokkurinn
  • Húmanistaflokkurinn
  • Íhaldsflokkurinn
  • Íslandshreyfingin - lifandi land
  • Kommúnistaflokkur Íslands
  • Landvarnaflokkurinn
  • Náttúrulagaflokkur Íslands
  • Nýtt afl
  • Samtök frjálslyndra og vinstri manna
  • Samtök um kvennalista
  • Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn
  • Samtök um jafnrétti og félagshyggju
  • Sólskinsflokkurinn
  • Þjóðræðisflokkurinn
  • Þjóðvaki
  • Þjóðvarnarflokkur Íslands
  • Öfgasinnaðir jafnaðarmenn

mbl.is Nýtt nafnlaust stjórnmálaafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað í öldum

Ögmundur Jónasson hvetur landa sína til að hugsa um framtíðina, ekki bara nánustu framtíð, heldur langt fram í aldir. Hann vill koma í veg fyrir að útlendingar nái eignarhaldi á auðlindum landsins um alla eilífð,  en telur of seint að banna þeim að fjárfesta í atvinnulífinu. -

Þetta er fremur holur málflutningur hjá Ögmundi. Hann veit betur en er að reyna að gera sér sem mestan pólitískan mat úr vinsælli ákvörðun sinni um að hafna hinum kínverska Huang um að kaupa Grímsstaði.

Ögmundur veit að með því að gera einkaaðilum mögulegt að eignast auðlindir Íslands, eins og gert hefur verið með fisk, raforku, vatn og jarðvarma, er ekki hægt að koma í veg fyrir að útlendingar séu þar á meðal.

Það sem vakir fyrir erlendum fjárfestum, sem sækast eftir að eignast íslenskar auðlindir, er að græða á þeim. Þeim er nokk sama hvernig eignarhaldið er skráð, svo fremi sem arðurinn lendi í þeirra vasa.

Eina leiðin til að halda í eignaréttinn er að gera allar auðlindir landsins að þjóðareign og banna alla erlenda fjárfestingu í landinu. Og til þess að það verði mögulegt þarf að segja upp talvert af milliríkjasamningum og breyta lögum landsins á víðtækan hátt.

Erlendir fjárfestar hafa þegar komið ár sinni vel fyrir borð á Íslandi og sjúga til sín fé almennings í gegnum fjarfestingasjóði og banka sem Íslendingar reka fyrir þá. -

Til þess að sú framtíðarsýn sem Ögmundur er að boða verði að veruleika þarf að vinda ofan af tímanum um það bil eina öld aftur á bak.


mbl.is Hurð skall nærri hælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Goðsagan um íslenska hrunið breiðist út

Eftir að Íslendingar höfnuðu Icesave samningunum í Þjóðaratkvæðagreiðslu hefur smá saman orðið til í útlöndum, goðsögnin um þjóðina í norðri sem neitaði að greiða skuldir bankanna, líkt og t.d breska ríkisstjórnin gerði þegar Northern Rock og aðrir breskir bankar komust í hann krappann.

Goðsögnin um að Íslendingar hafi á einhvern hátt staðið upp í hárinu á peningavaldinu, með forseta landsins í fararbroddi, hefur orðið til, einkum hjá glaðbeittum þjóðernissinnuðum pennum Evrópulanda, sem oftar en ekki virðast ekki þekkja mikið til mála á Íslandi, en eru ekki smeykir við að herma eftir og endurtaka það sem þeir hafa heyrt fleygt og virðist verða  málstað þeirra sjálfra til framdráttar. Þetta á einkum við þá möguleika sem Íslendingar höfðu til að stjórna handvirkt gengi krónunnar. -

Viðhengi við mítuna er að Íslendingar hafi sótt bankaræningjana til saka og velt úr sessi þeim ráðmönnum og pólitíkusum sem gerðu svikamillurnar og hrunið í kjölfar þeirra mögulegt. -

Auðvitað verða goðsagnir ekki til úr engu en þær eru oftast ýkjusögur. 

Íslendingar höfnuðu að greiða Icesave á þann hátt sem þingið vildi, en borga þarf nú skuldirnar samt eftir öðrum leiðum.

Íslensku ríkisstjórnirnar dældu vissulega almannafé í að endurreisa bankanna, þótt það hafi verið gert með þeim formerkjum að mögulegt væri ða ná því til baka.

Og þótt fjöldi manna hafi verið rannsakaðir í tengslum við hrunið, hefur ekki einn einast hlotið dóm fram að þessu.

Að hrunflokkunum hafi verið hegnt fyrir sinn þátt í hruninu, er rétt á vissan hátt en sú hegning virðist ekki ætla að vera langvarandi. Aðal hrunflokkurinn er aftur orðin stærsti flokkurinn í landinu og hinn hefur setið við völd allan tímann.

 


mbl.is Írar horfi til Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband