Færsluflokkur: Bloggar

Hvað býr raunverulega að baki hjá Davíð

Ég velti tvennu fyrir mér þessa dagana.

Hvað vakir raunverulega fyrir Davíð að setjast í ritstjórastól Moggans....

og hvað býr raunverulega að baki ótta og reiði fólks yfir því að hann skuli hafa verið ráðinn í hann.

Ekki að ég sé haldinn þráhyggju varðandi Davíð. Þeir sem halda slíku fram eru bara þeir sem haldnir eru Davíðs blæti :)

Ég er alla vega kominn að niðurstöðu.

4a40f530deaa4Davíð hefur járnvilja. Án einbeitts vilja hefði hann aldrei getað gert það sem hann gerði. Vilji Davíðs hefur ekkert dofnað. Hann lofaði því opinberlega að ef honum yrði vísað úr starfi seðlabankastjóra og hann mundi nauðugur þurfa að yfirgefa embættið, mundi hann snúa aftur í stjórnmálin.

Það loforð ætlar hann að efna. Að ráða sig sem ritstjóra á víðlesnasta blaði landsins er snilldarbragð og fyrsta stig í þriggja þrepa áætlunar hans um að snúa  til baka, því hálfkveðin vísa er honum ekki að skapi. 

Úr ritstjórastólnum mun hann geta styrkt þá í trúnni sem áður voru einlægir átrúendur en héldu að goðið væri lagst í kör og þaðan getur hann laðað að sér nýja fylgjendur með beittum og skeleggum málflutningi á síðum Moggans. Að auki getur hann stýrt umræðunni með fréttaflutningi blaðsins þannig að þeir sem kunna að vera á móti honum í flokknum fara að líta illa út og  þeir sem ekki tilheyra flokknum enn verr.

Að ári verður Davíð orðinn óumdeildur foringi sjálfstæðismanna á ný og við tækifæri mun hann láta kjósa sig aftur sem formann Sjálfstæðisflokksins. Síðan  mun hann freista þess að komast aftur í forsætisráðherrastólinn, þ.e. um leið og hægt verður að knýja fram nýjar kosningar.

Svarið er sem sagt það sama við báðum spurningunum. Einmitt þetta er orsök óttans og reiðinnar sem gripið hefur andstæðinga Davíðs. Þeir eru ekki svo mikið að spá í hvað hann hefur gert þótt þeir beri það fyrir sig. Það sem þeir óttist miklu fremur er hvað hann á eftir að gera.


Atgervisflótti af blog.is

Fjöldi fólks hefur tilkynnt lokun á bloggsíðum sínum á blog.is eftir að það fékkst staðfest að Davíð Oddsson væri orðin einn af tveimur yfirmönnum bloggsvæðisins.

Sýnt þykir að atgerfisflóttinn standi í beinu samhengi við þá staðreynd að margir hafa óhræddir sagt sína meiningu um Davíð Oddsson  sem umdeildan stjórnmálamann og  afar mistækan embættismann, grandalausir fyrir því að hann mundi nokkru sinni getað komist í stöðu til að geta beitt sér gegn blogghöfundum með beinum hætti.

David+Oddsson+sn%C3%BDr+aftur+fr%C3%A1+ElbuEn nú er það orðin staðreynd. Davíð er kominn í stöðu til að stýra umræðunni með því að stýra fréttaflutninginum sem flestir blogga við. Sumir stuðningsmenn Davíðs hafa verið að hrópa húrra fyrir því á blogginu að hann sé komin í  aðstöðu til að hreinsa hér til sem er orðin mikil nauðsyn á að þeirra mati. Ef fer sem horfir er ekki langt í að blog.is verði að litlu jarmsvæði hægri öfgamanna á Íslandi. -

Auðvitað var stjórnendum og eigendum Moggans ljóst að þetta mundi gerast. Því verður að reikna með að þeim hafi einfaldlega verið sama.

Hér er verið að veita Davíð greiða leið til þess að hafa aftur mikil áhrif á þjóðmálin og gera honum auðvelt að snúa aftur í pólitíkina af fullum krafti eins og hann sagðist mundi gera ef hann yrði rekinn úr seðlabankanum.

Nú er hann mættur til leiks, með öflugan miðil sem hann stýrir að baki sér. Það slær óhug á kjaftaskana á blogginu og bara það að hann snéri aftur, sendi marga þeirra sem stundum voru þeir einu sem gagnrýndu Davíð að einhverju ráði, fussandi eitthvað út í buskann.


Ljóðakeppni hér og nú

Magritte_Ren_1928_LoversJóna Á Gísladóttir birtir á bloggsíðu sinni skemmtilegar vísur sem sendar voru til Washington Post þegar blaðið efndi til  ljóðasamkeppni á dögunum, sem fólst í því að semja rímu með tveimur braglínum. Skilyrði var að fyrri línan væri sérstaklega rómantísk en sú seinni andstæðan.  

Nú dettur mér í hug hvort ekki sé lag að efna til slíkrar keppni á íslensku hér á blogginu og hafa reglurnar nákvæmlega þær sömu og hjá Washington Post. Sem sagt tvær hendingar eða bragalínur, sú fyrri mjög rómantísk og sú síðari ekki.

Íslendingar eru margir orðlagðir hagyrðingar og ljóðelskir með eindæmum svo það er um að gera fyrir sem flesta að spreyta sig, hér og nú.

Ég legg til að þeir sem hyggjast taka þátt, skoði fyrst ensku vísurnar á síðu Jónu.


Blóðhefnd

Dead_child_by_TrixisFréttir af dauðsföllum og líkamsmeiðingum frá Írak og Afganistan eru jafn áhrifaríkar og regnið sem fellur í hafið.

Þjáningar fólks í þessum löndum eru hættar að snerta við vestrænum hjartastrengjum enda grimmd ofbeldisverkanna svo yfirþyrmandi og tilgangsleysið svo auðsætt.

Í báðum þessum löndum eru háð stríð sem herforingjarnir segja sjálfir að ekki sé hægt að vinna. 

Samt þráast allir við.

Hermennirnir skjóta og sprengja og spyrja spurninga eftir á. Nú, voru þetta óbreyttir borgarar, hvá þeir.

Þeir hugsa; betra að þau falli en við. Og hver er eiginlega munurinn á löggildum skotmörkum og þeim sem ekki má drepa?

Þeirra aðgerðir ganga út á að búa til eins margar ekkjur og munaðarleysingja og hægt er.

Ekkjunum er boðin leið út úr sorg og örbyrgð með því að stökkva á bál hatursins og aka bifreið fullfermdri af sprengiefni inn á einhvern markaðinn.

Hjörtu barnanna herðast við að sjá foreldra sína og ættingja falla og þau heita í huganum hefndum. Áður en varir er einhver búin að girða þau beltum og lofa þeim sætum endurfundum við ástvini sína í Paradís.

Allar aðgerðir kalla á viðbrögð, hefndarviðbrögð, blóðhefnd..

Bíddu, hver var aftur réttlætingin á styrjöldunum?


mbl.is Tvö börn myrt í sjálfsmorðsprengjuárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggarar að blogga um blogg

Upp á síðkastið hefur borið meira á því en venjulega hvað bloggarar moggabloggsins eru uppteknir af sjálfum sér. Segja má að margir þeirra hafi síðustu daga tekið upp svo kallaðan Sæmundarhátt á sínum bloggum. Ástæða þess kann að vera, a.m.k. að hluta, að einhver bankamaður og annar pólitíkus kvörtuðu hástöfum fyrir skömmu við fjölmiðla landsins undan bloggurum, hvað þeir væru dómharðir og ósanngjarnir. 

Strax eftir þau ummæli fóru málsmetandi bloggarar á kreik til að meta þetta enda bloggarar kannski upp með sér að skrif þeirra hefðu svona mikil áhrif en vildu jafnframt kryfja til mergjar hvort þeir sem blogguðu undir fullu nafni væru marktækari en þeir sem gerðu það ekki.

twodogsXÍ framhaldi af þeirri naflaskoðun birtist einhver úttekt á því í DV hverjir væru verstu og bestu bloggarar landsins. Um þá úttekt birtu a.m.k, tveir bloggarar umfjöllun  og mynduðust um leið við að gera einhverja könnun á því meðal lesenda sinna hvort þeir væru þessum listum sammála eða ekki. Þar kom m.a. fram sú skoðun að sum blogg væru ekki blogg heldur heimilda-utanumhald. Í framhaldi af því birtu bloggarar sem nefndir voru til sögunnar í DV,  blogg um sig og sín blogg og hvort þau væru blogg eða ekki.

Þá brast á sú nýlunda á fyrir stuttu að bloggari sem var nýhættur að blogga hóf annað blogg og helgaði tvö fyrstu bloggin bloggara sem ekki bloggar undir nafni.

Nú hef ég í þessu bloggi ekki nefnt nein nöfn, en þeir bloggarar sem lesa blogg annarra bloggara að einhverju marki vita nákvæmlega við hverja ég á. Er ekki tími til kominn að bloggarar hætti nú þessu bloggarabloggi og snúi sér að því að blogga um annað? Það mætti nefnilega halda að það sé hlaupinn einhver gúrka í bloggara landsins sem auðvitað er fjarri lagi. Það er bara þannig stundum að það sem er tungunni tamast er hjartanu kærast.

 


Lýst eftir barnaníðingi

shadowman-615Á unglingsárum mínum (1966-1969)  í Keflavík var ég mikið í félagi við ákveðinn hóp skólabræðra minna sem gerði lítið annað utan skólatímans en að slæpast um og hanga á sjoppum. Við vorum allir byrjaðir að fikta við reykingar og að drekka áfengi. Á þessum tíma komst ég í kynni við náunga sem kallaði sig Blacký. Hann var íslenskur eftir því sem ég best veit, þrátt fyrir að nafnið. 

Blacký þessi var maður á miðjum aldri sem gerði sér dælt við okkur drengina sem vorum þá á þrettánda og fjórtánda ári. Hann var ósínkur á sígarettur og fór oft í ríkið fyrir okkur strákana til að kaupa brennivín ef hann var látinn hafa peninga.

Blacký sem var drykkjumaður hélt sig oft í námunda við eða inn í sjoppu á Hafnargötunni og þá var kölluð "Dorró" eða Þórðarsjoppa. Þar var oft þröng á þingi því fjöldi unglinga hékk í þar á kvöldin, einkum í hinu svo kallað biðskýli.

Blacký vann á verkstæði við sandblástur og þangað stefndi hann oft drengjunum til að ná í áfengið sem hann hafði keypt fyrir þá.

Í staðinn fyrir greiðann (áfengiskaupin) misnotaði Blacký marga þeirra kynferðislega og fékk þá til að taka þátt í afar ósiðlegum kynferðislegum athöfnum með sér.

Auðvitað flokkast þetta framferði Blackýs undir argasta barnaníð.

Samt steinþögðu allir yfir þessu þ.e. ekki var minnst á þetta  fyrir utan hópinn og ég minnist þess ekki að þetta framferði Blackýs hafi nokkru sinni komist í hámæli í Keflavík.

En hvers vegna er ég að rifja upp þessa löngu liðnu atburði.

Fyrir það fyrsta hefur það lengi plagað mig, eftir að ég kom til vits og ára,  að svona nokkuð skuli hafa viðgengist fyrir svo til opnum tjöldum í heimabæ mínum og án þess, að því er virðist, að nokkur fengi við því gert. Blacký er þarna í minningunni eins og dimmur og ókennilegur skuggi sem nauðsynlega þarf að fá á sig raunverulegri mynd.

Í öðru lagi vegna þess að ég er að skrá niður minningar mínar m.a. frá þessum tíma í Keflavík og ég hef ekki hugmynd um hvað þessi maður raunverulega hét, hvaðan hann kom, hvað varð um hann og hvort hann er lífs eða liðinn.

Ef einhver veit frekari einhver deili á honum væru þær upplýsingar vel þegnar.


Brýtur Borgarahreyfingin stjórnarskrána með nýsamþykktum lögum sínum?

the-broken-chain148. gr. stjórnarskrár Íslands segir: " Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum."


Í nýjum lögum Borgarhreyfingarinnar segir svo:

"11.1.2. Frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar skulu skrifa undir eftirfarandi heit:
Ég (fullt nafn frambjóðanda) heiti því að vinna eftir bestu getu að stefnu hreyfingarinnar eins og hún er samþykkt á landsfundi. Gangi sannfæring mín gegn meginstefnu hreyfingarinnar mun ég leitast eftir því að gera félagsfundi grein fyrir því og leggja í dóm félagsfundar hvort ég skuli víkja sæti við afgreiðslu þess máls."

Getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig þetta stangast ekki á?

Og ef þetta stangast á, eins og mér finnst augljóst, hvers vegna setur nýr stjórnmálaflokkur í lög sín ákvæði sem brjóta stjórnarskrá landsins? Engin getur verið bundin þessu heiti um leið og sýnt er að það brýtur í bága við stjórnarskrána.


Af káfi japanskra karlmanna

785549-001 Allt frá því að neðanjarðarlestarnar í Tókýó urðu að stærstu samgönguæðum borgarinnar hefur þukl og káf í lestunum viðgengist.

Í lestarvögnunum sem eru yfirleitt svo troðnir af fólki að það notar sérstaka nælon jakka og kápur til að vera sleypara í troðningunum, stendur fólk svo þétt upp að hvert öðru að stundum er erfitt fyrir það að greina hvort þuklið er með vilja gert eða ekki.

Þessi einkennilega ópersónulega leið til að snerta og vera snertur virðist henta mörgum Japönum vel. Um þessa sérkennilegu aukaverkun japanskrar borgarmenningar hefur oft verið fjallað í ræðu og riti og margir velt því fyrir sér hvers vegna það er svona vinsælt, sérstaklega meðal karlamanna á leið í og úr vinnu að þukla konur sem þeir þekkja ekki neitt.  

Um leið og flestu fólki hefur fundist þessi hegðun óásættanleg og ósiðleg, hafa, eins og reyndar minnst er á í fréttinni, lestaþuklarar komið sér upp samtökum og meira að segja siðareglum. Í mörgum greinum sem skrifaðar hafa verið um málið hafa "fórnarlömbin" sem oftast eru konur, sagst hafa vanist þessu og jafnvel ekki verið því andsnúnar.


mbl.is Lögreglan vill stöðva þuklara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þefurinn af þrotabúinu trekkir

buzzardHinar alþjóðlegu auðhyggjugammar eru fljótir að renna á blóðlyktina. Ísland er í sárum og fréttir berast af fljótfærum og áköfum pólitíkusum suður með sjó sem gerst hafa sölumenn náttúru-auðlinda landsins og láta þær fyrir lítið. Þeir vilja sjálfsagt láta hylla sig sem bjargvætti en sagan mun bölva þeim.

Þar er ekki tjaldað til einnar nætur, heldur munu afkomendur kaupendana njóta þessara hagstæðu viðskipta í nokkrar kynslóðir.  Vatn og jarðvarmi er til lengra tíma litið besta fjárfesting sem hægt er að hugsa sér hér i heimi. Betra en olía sem fyrr eða síðar mun þverra, betra en gullið sem glóir en gefur ekki frá sér hita.

Þessi "hópur Japana" sem segir frá í þessari frétt, verður ekki sá síðasti sem kemur til með að hafa áhuga á orkuútsölunni á Íslandi. Því fyrir utan að mega nýta orkuna í jörðinni, búa orkufyrirtækin yfir þekkingu sem hægt er að selja háu verði út um allan heim. - Þetta vita fullt af hópum frá Japan og Kanada og Noregi og jafnvel Rússlandi sem eru í þann mund að stökkva upp í flugvél til Íslands með milljarð af einhverju í tösku.

Og bráðum verður líka til stór sjóður á vegum snjallra íslenskra peningamanna frá íslensku lífeyrissjóðunum sem ætlar að "fjárfesta" í íslensku atvinnulífi. Þeir ætla að blása lifi í glæðurnar á útbrunnum eldum fyrirtækjanna sem fóru illa í hruninu. 

Þeir hafa ekki nefnt neinar upphæðir enn, því þær skipta ekki máli vegna þess að lífeyrisgreiðslur til lífeyrisþeganna sem eiga sjóðina hafa þegar verið skertar. Þannig verður til áður ónýtt fjármagn sem þarf að nýta.

Lengi lifi "Nýja Ísland".


mbl.is Vilja fjárfesta fyrir milljarð dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrumarinn

david-cameron-pic-getty-230428788Mesta list lýðskrumarans er að gefa aldrei til kynna hvar hann í raun og veru stendur. Hann reynir því eftir bestu getu að leyna raunverulegum áformum sínum og stefnu ef hann yfirleitt hefur hana umfram að púkka undir eigin rass.

Lýðskrumarinn höfðar í málflutningi sínum til fordóma, vanþekkingar, tilfinninga, ótta og vona almennings, til að auka pólitísk áhrif sín og völd. Dæmigerður lýðskrumari bryddar aldrei upp á neinu nýju sjálfur. Hann býður eftir að kröfur almennings eða flokksins verða ljósar, og stekkur þá á vagninn sem vinsælastur er,  eftir að hann er kominn af stað. Þessi hér heitir David Cameron og er leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi.

Þegar að fólk segist óttast hitnun jarðarinnar, fær hann sér reiðhjól og lætur einkabílstjórann sinn aka bílnum sínum á eftir sér.

david-cameron-bike-stolen-again-image-2-248637709Þegar að fólk sá s.l. vor að fjölmargir þingmenn höfðu svindlað aukagreiðslur út úr sjóðum ríkisins lagði hann til að þingmönnum yrði fækkað.

Árslaun breskra þingmanna eru 62-3 þúsund pund. Það er svipað og miðstjórnendur í meðal stórum fyrirtækjum fá.

Sjálfur er David vellauðugur og þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum.

Bretar urðu fyrir miklu áfalli í vor þegar í ljós kom að þingmenn landsins fengu miklar greiðslur fram yfir laun sín. Einnig kom í ljós að nokkuð margir þingmenn höfðu misnotað almenningsjóði með að biðja þingið um að borga fyrir hina ólíklegustu hluti fyrir sig. Þingmenn og konur úr öllum flokkum urðu uppvís að þessu. Þarna eygði David tækifæri. Þessi ræða hans sem fréttin fjallar um eru viðbrögð hans við kröfu almennings um heiðarlegri stjórnmálamenn.

Íhaldsflokkur Davids skorar hærra í dag í skoðanakönnunum en hann hefur gert til fjölda ára. Öllum er ljóst að jálkurinn Brown getur ekki unnið kosningarnar sem eru á næsta leiti. En marga hryllir samt við að fá David Cameron yfir sig. Líklega verður gerð enn ein aðförin að Brown fljótlega, og nýr foringi Verkalýðsflokksins fundinn. Mín spá er að það verði Jack Straw. Ef aðförin að Brown tekst ekki mun David verða næsti forsætisráðherra Bretlands.


mbl.is Þing og ráðherrar spari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband