Færsluflokkur: Bloggar
11.10.2009 | 21:03
Undrasalir - (Fyrir Hildi Helgu)
Zotov var áttatíu og fjögra ára gamall þegar hann gekk að eiga ekkju, sem var jafn gömul og hann. Til brúðkaupsins var boðið af köllurum, eins og þá tíðkaðist, í þetta sinn af fjórum eldri mönnum sem allir stömuðu. Háaldraðir voru einnig mennirnir óku brúðarvagninum og á undan honum hlupu, móðir og másandi, fjórir af feitustu mönnum Rússlands.
Vagninn sjálfur var dreginn af tveimur skógarbjörnum sem reknir voru áfram með gaddasvipu og öskur þeirra í bland við básúnublástur kom í staðinn fyrir brúðarmarsa. Upp við altari dómkirkjunnar gaf blindur og mállaus prestur hjónin saman sem síðan var fylgt af öllum brúðkaupsgestum að hjónasænginni þar sem þau voru afklædd í augsýn allra.
Á þessa leið lýsir Voltaire þessu afkáralega brúðkaupi sem haldið var í Pétursborg árið 1710 fyrir tilstilli Péturs mikla Rússakeisara, en brúðguminn Zotov hafði verið æskukennari Péturs og einskonar hirðfífl hans í seinni tíð.
Skömmu áður hafði Pétur skipulagt brúðkaup frænku sinnar, síðar keisaraynju, Önnu Ivanovna og hertogans af Courland. Strax eftir að hafa veitt þeim blessun sína í upp við altarið í dómkirkjunni í Mosku, hófst annað brúðkaup. Brúðhjón þess voru tveir dvergar, uppáhalds dvergur Péturs Valakoff, og "prinsessa dverganna" Prescovie Theodorovna.
Dverghestar frá Settlandseyjum drógu brúðarvagninn og Pétur veitti þeim blessun sína á sama hátt og hann hafði gert fyrr um daginn fyrir Önnu. - Í brúðkaupsveislu Önnu og hertogans, var veglegri borðskreytingu komið fyrir á miðju veisluborðinu og út úr henni stukku tveir dvergar sem síðan dönsuðu menúett á milli veisluréttanna og borðbúnaðarins.
Pétur mikli Rússakeisari hafði mikinn áhuga á öllum afbrigðlegum náttúrufyrirbrigðum, svo mikinn að hann lét reisa mikla byggingu í Pétursborg þar sem hann kom sér upp safni af allskyns viðundrum og afbrigðilegum lífverum, þ.á.m. mennskum.
Safnið var kallað Kunstkamera (Undrasalir) og stendur bygging þess enn. Margir af 2.000.000 munum þess eru enn varðveittir á Museum of Anthropology and Ethnography(MAE) í Pétursborg.
En Pétur safnaði ekki aðeins því sem koma mátti fyrir í krukkum og skápum, því hann stefndi til Pétursborgar fjölda af dvergum, þeim sem þóttu óvenju hávaxnir, óvenju feitlangir, krypplingum og þeim sem vanskapaðir voru á einhvern óvenjulegan hátt.
Talið er að dvergahirð Péturs hafi talið 80 dverga þegar mest lét. Anna Ivanovna er sögð hafa haft áhuga á dvergarækt. Eftir að nokkrir kvendvergar Péturs létust af barnsförunum, bannaði Pétur frekari tilraunir með æxlun dverga.
Pétur virðist hafa haft sérstakan áhuga og dálæti á dvergum. Þeir máttu samt vara sig eins og aðrir á skapofsa keisarans, sem átti það til að leggja til nærstaddra með sverði sínu ef þannig lá á honum. Og áhugi hans smitaði út frá sér því vart var hægt að finna heldri manna fjölskyldu í Rússlandi á valdatíma hans, sem ekki átti einn eða tvo dverga.
Pétur mikli notaði oft afkáraleikann til að undirstrika andstöðu sína við gamlar kreddur og helgisiði kirkjunnar. Áður en hann skipulagði brúðkaup hirðfíflsins Zotov, hafði hann látið krýna hann sem páfa. Þá samdi hann einnig samkvæmisleiki sem gengu út á að gera grín að kristnum helgisögum og siðum þar sem vinir hans og þau viðundur sem hann valdi, var gert að leika hlutverk tengdum viðkomandi sögum.
Nú er víst að Pétur var þeirrar skoðunar að Rússland væri langt á eftir öðrum Evrópulöndum hvað varðaði menningu og siðfágun. Hann t.d. bannaði með lögum að karlmenn bæru alskegg og lét leggja sérstakan skatt á aðrar tegundir skeggja.
E.t.v. hefur Pétur mikli sett dvergaeign í samband við siðfágun því sá siður var all-útbreiddur og hafði verið það um langa hríð, meðal konungshirða Evrópu. Allir rómversku keisararnir áttu dverga. T.d. er þess sérstaklega getið að Júlía, frænka Ágústusar hafi átt tvo dverga, þau Knopas og Andromedíu sem aðeins voru 2 fet og þrír þumlungar á hæð.
Sagt er að einn konungur Danaveldis hafi gert dverg að ráðherra. Karl lX átti níu dverga og fengið fjóra þeirra gefins frá Sigmundi Ágústusi Póllandskonungs og þrjá frá hinum þýska Maximillan ll. Á þeim tíma voru dvergar taldir mjög snjallir og vitrir. Segja má að þeir hafi komið í stað hirðfífla því þeir máttu mæla þegar aðrir urðu að vera hljóðir. Catherine de Medicis átti þrjú pör á sama tíma og árið 1579 er hún sög hafa átt fimm smámenni sem hétu; Merlín, Mandricart, Pelavine, Rodomont, og Majoski. Líklegt er að síðasti dvergurinn við frönsku hirðina hafi verið Balthazar Simon, sem lést árið 1662.
Stundum var karlmannsdvergum boðið að vera viðstaddir þegar að mikilmenni komu saman. Árið 1566 bauð t.d. Vitelli Kardínáli í Róm til mikillar veislu þar sem 34 dvergar þjónuðu til borðs.
Á Englandi og á Spáni áttu aðalsmennirnir það til að láta bestu málara samtíðar sinnar mála myndir af dvergum sínum. Velasquez málaði t.d. Don Antonio el Ingles, fínbúinn dverg ásamt stórum hundi til að leggja áherslu á smæð hans. Sá listamaður málaði fjölda annarra dverga við knungshirðina á Spáni og á einu málverkinu, Infanta Marguerite, sýnir hann hana ásamt dvergapari. Þá má sjá dverga á myndum listamanna eins og Raphael, Paul Veronese, Dominiquin og einnig í "Sigur Sesars" eftir Mantegna.
Bloggar | Breytt 12.10.2009 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.10.2009 | 15:30
Fyrsta þjóðarmorð tuttugustu aldarinnar
Á 17. og 18 öld flutti þjóðbálkur sem nefndi sig Hereróa, um set og settist að þar með hjarðir sínar sem í dag er landið Namibía í Afríku. Í byrjun 19. aldar hófu einnig Namar, ættflokkur frá Suður Afríku, að leggja undir sig þetta land sem seinna varð kennt við þá. Nömum fylgdu þýskir trúboðar og hvítir kaupsýslumenn. Á milli Hereróa og Nama urðu talverðar skærur allt fram eftir 19 öld.
Á seinni hluta 19 aldar fjölgaði hvítum landnemum mikið í Namibíu sem fengu land undir búgarða sína aðallega frá Hereróum. Árið 1883 gerði Franz Adolf Eduard Lüderitz samning við innfædda höfðingja sem seinna var notaður sem grunnur að stofnun þýskrar nýlendu í landinu undir nafninu Hin þýska suð-vestur-Afríka.
Fljótlega eftir stofnun nýlendunnar hófust erjur milli landnemanna og Hereróa sem aðallega stóðu í samandi við aðgang að vatni og beitilandi, en einnig vegna laga sem stuðluðu að miklu misrétti milli innfæddra og innflytjenda. Algengt var að innfæddir væru hnepptir í þrældóm enda þrælahald löglegt.
12. janúar 1904 gerðu Hereróar skipulagða uppreisn undir stjórn Samuel Maharero gegn nýlendustjórn þjóðverja. En í ágúst mánuði sama ár voru uppreisnarmenn gersigraðir í orrustunni við Waterberg af her þjóðverja undir stjórn Lothar von Trotha hershöfðingja.
Þjóðverjar voru vopnaðir rifflum, fallbyssum og vélbyssum. Þrátt fyrir að vera aðeins 1500, stráfelldu þeir 6000 hermenn Hereróa og fjölskyldur þeirra sem fylgdu þeim.
Í kjölfarið voru Hereróar hraktir út í Omaheke eyðimörkina þar sem flestir þeirra sem eftir voru dóu úr sulti og þorsta. Þýskir hermenn sem eltu þá út á eyðimörkina fundu beinagrindur þeirra oft ofan í 4-5 metra djúpum holum, sem þeir höfðu grafið í leit að vatni.
Í október mánuði þetta afdrifaríka ár í sögu Namibíu, risu Namar einnig upp gegn Nýlenduherrunum og voru afgreiddir á svipaðan hátt og Hereróar.
Um manfall í röðum Hereróa eru allar tölu mjög á reiki, en talið er að á milli 24.000 og 65.000 þeirra hafi dáið eða allt að 70% þjóðarinnar. Meðal Nama sem voru miklu fámennari í landinu er talið að 10.000 manns hafi fallið eða 50% af ættflokknum.
Árið 1985 úrskurðuðu Sameinuðu þjóðirnar á grundvelli svo kallaðrar Whitaker skýrslu að Þjóðverjar hefðu gerst sekir um þjóðarmorð á Hereróum, það fyrsta á tuttugustu öldinni.
Þjóðverjar báðust fyrst formlega afsökunar á þessum atburðum árið 2004.
Í dag er talið að fjöldi Hereróa í heiminum sé um 240.000. Flestir þeirra eru enn í Namibíu en þá er einnig að finna í Botsvana og Angóla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2009 | 03:48
Tvíkynjungar
Árið 1843 óskaði Levi Suydam, 23 ára íbúi í Salisbury, Connecticut, eftir því að fá að kjósa í bæjarstjórnarkosningum sem voru á næsta leiti þar sem afar tvísýnt var um útkomuna. Ósk Levi olli miklu fjaðrafoki í bænum þar sem margir sögðu að Levi væri meira kona en karl og aðeins karlmenn hefðu kosningarétt. Bent var á að hann væri afar kvenlegur í útliti, hefði gaman að bútasaumi og væri hrifinn af skærum litum. Að auki færust honum karlmannleg verk illa úr hendi.
Kjörnefndin kallaði til Dr. William Barry lækni til að fá úr þessu skorið. Eftir að hafa gengið úr skugga um að Levi var búinn bæði limi og eistum, lýsti læknirinn góði yfir því að Levi væri karlmaður. Kosningarnar fóru síðan fram og báru þeir sigur úr býtum sem Levi hafði stutt, með einu atkvæði.
Nokkrum dögum seinna uppgötvaði Barry að "herra" Levi Suydam hafði reglulegar tíðir og kvenmanns-sköp. En hvernig gat þetta hafa gerst. Jóna Ingibjörg Kynfræðingur lýsir því á eftirfarandi hátt:
Við vitum að grunnkynið er kvenkyns, þ.e.a.s. fram að sjöttu viku meðgöngu eru öll fóstur með útlit kvenkynskynfæra. En ef fóstrið hefur Y-litning þá er byggt ofan á grunninn (sumir kysu að segja: þá verður frávik), þ.e.a.s. innri og ytri kynfærin sem eru með kvenkyns útlit breytast þá í karlkynskynfæri. Þannig verða t.d. ytri skapabarmar að pung, innri skapabarmar eiginlega hverfa en sjá má leifar af þeim sem röndina eða sauminn á limbolnum. Og geirvörturnar - hvað með þær hjá körlum? Þær verða bara þessir tveir blettir sem karlar skarta á brjóstkassanum, hálf tilgangslausir sem slíkir eða hvað?? Jæja, alla vega kemur Adam úr Evu en ekki öfugt! Þar hafið þið það!
Engin veit hvort Levi missti kosningaréttinn við þessa uppgötvun læknisins en sagan sýnir að vandamál sem stafa af óvissu um kyn einstaklinga eru ekki ný af nálinni.
Tvíkynja einstaklingar hafa gjarnan verið nefndir "Hermaphrodite" eftir hinum gríska Hermaphroditusi sem var sonur Hermesar og Afródítu og er heiti hans samsett í nöfnum foreldranna. Samkvæmt arfsögninni var Hermaphroditus alin upp af skógargyðjum á hinu helga fjalli Phrygja (Freyja) í Tyrklandi. Þegar hann varð fimmtán ára var hann orðinn leiður á vistinni á fjallinu og lagði því land undir fót. Hann heimsótti borgirnar Lysíu og Karíu og þar hitti hann vatnagyðjuna Salmakíu sem hafist við í stöðuvatni í skóginum fyrir utan Karíu.
Lysía varð svo hrifinn af drengnum að hún reyndi að draga hann á tálar. Hermaphroditus færðist undan ástleitni Lysíu og þegar hann hélt að hún væri farin óð hann út í vatnið til að baða sig. Lysía sem hafði falið sig á bak við tré, stökk á bakið á Hermaphroditusi og vafði fótunum um lendar hans. Á meðan þau flugust þannig á, ákallaði Lysía guðina og bað þá um að gera þau óaðskiljanleg. Guðirnir urðu við ósk hennar og hún sameinaðist líkama Hermaphroditusar sem varð við það tvíkynja.
Gríski sagnritarinn Herodotus (484 f.K. 425 f.K.) segir frá tvíkynja ættbálkinum Makhlya sem hafðist við í norð-vestur Líbýu við strendur Triton vatns. Hann segir meðlimi ættbálksins vera konur örðu megin en karlmenn á hina hliðina. - Líklegt þykir að stríðstilburðir kvenna ættbálksins og sá siður karlmanna hans að láta hár sitt vaxa niður á mitti hafi verið megin orsök þessarar sögusagnar.
Segja má að athygli almennings nú til dags beinist mest að tvíkynjungum í tengslum við íþróttir. Fyrir skömmu gerðist það einmitt, svo um munaði þegar Caster Semenya, 18 ára stúlka frá suður Afríku vann óvænt 800 metra hlaupið (1:55.45.) á heimsmeistaramótinu í frjálsum í Berlín fyrir nokkrum mánuðum. Í ljós kom eftir mikið umstang og rannsóknir, að Caster er líffræðilega tvíkynja en þrefið hafði mjög alvarlegar sálfræðilegar afleiðingar fyrir Caster sem ekki hefur teyst sér til að taka þátt í keppnum eftir þetta.
Þá er fræg sagan af hinni pólsk fæddu Stanisłöwu Walasiewicz eða Stellu Walsh sem var nafnið sem henni var gefið eftir að foreldrar hennar fluttu til Bandaríkjanna. Þar sem hún fékk ekki að keppa fyrir Bandaríkin hóf hún að æfa hlaup í Póllandi og varð fljótlega að alþjóðlegri hlaupastjörnu. Á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1932 vann hún gullið í 100 metra hlaupinu. Á leikunum í Berlín árið 1936 fékk hún silfur þar sem hún kom önnur í mark á eftir Helen Stephens. Andrúmsloftið á Nasistaleikunum 1936 var lævi blandið og m.a var Helen sökuð um að vera karlmaður og þá ásökun studdi Walasiewicz. Helen var neydd til að gangast undir kynpróf og stóðst það með glans; hún var kona.
4. desember árið 1980 varð Walasiewicz (Stella Walsh) þá 69 ára gömul, óvart fyrir byssukúlu í misheppnaðri vopnaðri ránstilraun í Cleveland í USA. Hún lést á sjúkrahúsinu þar í borg og krufning leiddi í ljós að hún var með karlmanns kynfæri. Við frekari rannsókn varð ljóst að hún hafði karlmannslitningin XY og hefði því, samkvæmt reglum Ólympíuleikana, ekki verið leyft að keppa sem kvenmaður.
Kynjapróf urðu skylda á Ólympíuleikum upp úr 1968 þegar það uppgötvaðist á Evrópuleikunum 1967 að önnur pólsk hlaupadrottning, Ewa Klobukowska var með karllitninginn. Klobukowska varð að skila aftur gull og brons verðlaununum sem hún hafði unnið á Tokyo leikunum 1964.
Sá gjörningur var reyndar mjög óréttlátur því seinna kom í ljós að hún var ekki með karllitninginn XY heldur stökkbreyttan XXXY litning sem hafði engin áhrif á kynfæri hennar eða kynferði.
Örðu máli gegnir hins vegar um Úkraínsku systurnar Tömru og Irinu Press sem unnu samtals fimm gull í frjálsum Íþróttum á Ólympíuleikunum 1960 en hurfu síðan af sjónarsviðinu eftir að kynjaprófið var gert að skyldu. Margir eru þeirrar skoðunar að þær hafi báðar verið tvíkynjungar þótt Rússar hafi ætíð neitað því.
Frá árinu 2000 hefur ekki verið kafist að keppendur á Ólympíuleikum gangist undir kynjapróf en nefndin áskilur sér rétt til að krefjast slíks ef ástæða þykir til.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.10.2009 | 23:33
Konur ekki eins vinsælar og karlmenn
Eins og fleiri velti ég fyrir mér blogginu og stöðu þess almennt í samfélaginu. Ef það er sanngjarnt mat að á blog.is skrifi sæmilegur þverskurður af íslenskum bloggurum, bendir margt til að mikill munur sé á milli kynjanna hvað lesningu blogga þeirra varðar.
Ég hef reyndar lengi verið þess meðvitaður að mikið hallar á konur miðað við karla í þessum efnum, en aldrei lagt það sérstaklega niður fyrir mig, hvers vegna.
En upp á síðkastið finnst mér þetta sérstaklega áberandi og þess vegna fór ég að telja.
Af 50 vinsælustu bloggsíðunum hér um slóðir eru aðeins 9 þeirra skrifaðar af konum.
Ef að 100 vinsælustu bloggin eru talin kemur í ljós að aðeins 13 þeirra eru kvennablogg. Og af þeim þrettán eru a.m.k. tvær sem eru hættar að blogga á blog.is.
Hefur einhver skýringu á þessum mikla mismun?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
7.10.2009 | 01:09
Íslendingar "ótrúlega ruddalegir"
Skýrsla Sameinuðu Þjóðanna um í hvaða löndum sé best að búa í heiminum, hefur laðað að sér ótrúlegan fjölda athugasemda á vef BBC (have your say) þar sem fólk hvaðanæva úr heiminum lætur í ljós skoðanir sínar á málinu.
Fróðlegt er að lesa hvað fólk hefur að segja um Ísland sem var í fjórða sæti á listanum, en þess ber að gæta að stuðst var við hvernig ástandið var í löndunum 2007.
Í athugasemdum sínum byrjar fólk oft á að útnefna það land sem það vildi helst búa í og af þeim löndum sem eru í efstu sætunum hefur Kanada án efa vinninginn.
Hér koma nokkrar athugasemdir sem lúta að Íslandi úr hinum heljarlanga athugasemdahala á BBC .
Ísland.....Vegna þess að mér finnst það einangrað og að því er virðist ríkja sterk samfélagskennd. Owen, London
Noregur eða Ísland? Vitið þið hvað bjórinn kostar þarna? Will Story
Ég bjó á Íslandi í níu ár og ég skil ekki hvers vegna Ísland þykir góður staður til að búa á. Landslagið er auðn, veðrið er stormasamt, grátt og regnið fellur lárétt, (hljómar ótrúlega en það er satt.) Fólkið er ótrúlega ruddalegt og kann ekki lágmarks kurteisi. Heilbrigðiskerfið þar fær þig til að skilja hversvegna Ameríkanar eru svona hræddir við það sem Obama er að reyna að koma á í Bandaríkjunum. Eiginmaður minn og barn eru í heimsókn á Íslandi þessa dagana en ég vildi ekki fara. Jennie, Hampstead, QC, CANADA
Noregur? Ástralía? Ísland? Á þetta að vera brandari. Noregur er leiðinlegur, Ástralía of heit og af langt í burtu frá öllu öðru og Ísland er blankt. - Ég mundi ekki vilja búa utan Evrópu. Mér líkar ágætlega við Bretland en hefði ekki á móti því að búa dálítið sunnar. Katherine, Cheshire
Ísland? Land hvers efnahagur hefur algerlega hrunið á síðastliðnu ári finnst mér ekki vera eftirsóknaverður staður að búa á. Walter, Buckinghamshire
Ég hélt að Ísland væri gjaldþrota. Paul M, Staffs, UK
Aðeins efnahagslega, ólíkt Bretlandi sem er siðferðislega, pólitískt séð, samfélagslega og efnahagslega gjaldþrota. Steve HadenoughSouth Shields, United Kingdom
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
6.10.2009 | 11:24
Amy Winehouse á réttri leið
Það hefur farið frekar lítið fyrir söngkonunni ólánsömu Amy Winehouse í fjölmiðlum upp á síðkastið. ÞAÐ veit þó á gott því hún var svo til daglega í pressunni á síðasta ári fyrir að dópa sig og drekka svo mikið að margir hugðu henni ekki langlífi.
Undanfarna mánuði hefur Amy mest dvalið á St Lucia þar sem hún hefur reynt að halda sig fjarri vímunni og unnið jafnframt að plötu til að fylgja eftir hinni frábæru Back to Black.
Aðeins einu sinni á þessu ári hefur dívan komið opinberlega fram til að syngja og það gerði hún þegar hún kom í heimsókn til Bretlands í ágúst mánuði og tróð óvænt upp með ska bandinu The Specials á V tónlistarhátíðinni í Essex.
Amy stofnaði nýlega útgáfufyrirtæki sem heitir Liones og fyrsta platan sem það kemur til með að gefa út verður einnig fyrsta plata hinnar 13 ára gömlu Dionne Bromfield en Amy er guðmóðir hennar.
Nú hefru verið tilkynnt að Amy og Dionne munu koma fram um næstu helgi í hinum vinsæla þætti Strightly Come Dancing sem sýndur er á BBC 1.
Amy ætlar að syngja bakrödd hjá Dionne sem mun flytja lagið Mama Said sem upphaflega var sungið og gert vinsælt af The Shirelles árið 1961. . Meðal laga á plötunni sem Amy hefur skipt sér mikið af, eru; Ain't No Mountain High Enough, Tell Him og My Boy Lollipop.
Amy segist sannfærð um að Dionne sé hæfileikaríkari en hún sjálf og eigi glæstan feril framundan.
" Í fyrsta sinn sem ég heyrði Dionne syngja, trúði ég var eigin eyrum - Því lík rödd sem þessi unga stúlka er með"- "Hún er miklu betri en ég var á hennar aldri."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2009 | 10:25
Davíð svarar í sömu minnt
Naflaskoðun Bloggara heldur áfram og það er gott. Nú rýnum við í lóna hver í kapp við annan með Sæmundarhætti, út af því að Davíð Oddsson sagði bloggurum til syndanna í Mogga í gær.
Davíð var að æfa sig í að veifa sprotanum og pissaði dálítið yfir fætur háværa pistlahöfunda. Það hafi tilætluð áhrif. -
Margir efuðust um að Davíð mundi nokkuð skipta sér af blogginu þótt hann yrði ritstjóri, sérstaklega hægra liðið sem var sama hvort eð er.
Nú hefur Davíð tekið af allan vafa um það mál og þurfti ekki lengi að bíða. -
Sumir væla áfram yfir nafnleysingjunum á blogginu. Það fer skelfilega í taugarnar á íslensku smáborgarasálinni að vita ekki hver segir hvað og geta ekki flett fólki upp og tékkað ferilinn og allt það.
En það eru ekki nafnlausu bloggararnir sem Davíð er að agnúast út í sérstaklega, enda hefur hann aðgang að kennitölum allra sem hér blogga allavega. Hann hreytir ónotum í alla bloggara sem geisa með gífuryrðum út á ritvöllinn. Margir þeirra hafa beint spjótum sínum Davíð persónulega í gegnum tíðina og nú svarar hann í sömu minnt og gefur forsmekkinn að því sem koma skal.
Sumir þeirra sem vegið hafa hvað harðast að Davíð hafa þegar forðað sér af blog.is. Þeir eru í betri stöðu núna til að svara fyrir sig enda logar bloggheimar á eyjunni...eða alla vega smá varðeldar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.10.2009 | 01:44
Dvergar í Kína byggja sér þorp

Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.10.2009 | 01:00
The Long Goodbye
Atgerfisflótti af moggablogginu heldur áfram. Talsverður fjöldi af bloggurum sem blogga reglulega og taka það sem þeir skrifa alvarlega, haf tilkynnt um að þeir séu farnir eitthvert annað. Margir til Eyjunnar.is. sem er helsta flóttamanna hælið á Íslandi fyrir "eðalbloggara" sem ekki vilja samvisku sinnar vegna, skrifa á vefsvæði hvers æðsti maður heitir Davíð Oddsson. -
Nú á eftir að koma í ljós hvernig þeir þrífast á bloggsvæði Eyjunnar, sem er talsvert minna sótt en blog.is og hefur að ég held miklu minni samfélagskennd. Sumir hafa ekki útilokað að snúa aftur á blog.is og ég tel að svo verði raunin, einkum ef fólk fer að finna sig í sporum The Kinks þegar þeir komu til Íslands forðum og sömdu lokaðir inn á hótel herbergi einhversstaðar í Reykjavík; "I´m on an Island, and I got nowere to go".
Kveðjubloggin eru skemmtileg aflestrar og margir kveðja bloggarana eins og þeir séu að hverfa til annarrar plánetu. samt get ég alveg skilið "söknuðinn" því blog.is er á margan hátt eins og samfélag.
Einhverjir hafa bent á að skelegg skrif á blog.is gætu virkað sem gott mótvægi við þeim
breytingum sem Davíð kann að standa fyrir á mbl.is og að ef áður hafi verið þörf fyrir gagnrýnin skrif á blog.is þá sé nú nauðsyn. - Bloggarar á förum svara þessu að þarna spili líka inn í að mbl.is hafi tekjur af skrifum þeirra og burtséð frá þeim og almennum stuðning
við svæðið, sé þeim ekki stætt lengur á að blogga hér.
Ég hef það fyrir víst að margir aðrir í viðbót við þá sem eru þegar farnir séu að undirbúa flutning, sumir jafnvel úr röðum þeirra sem hafa verið í efstu sætum yfir fjölmennustu
bloggin.
Miðað við daglegar tölur yfir nýjar skráningar á blog.is hefur þeim ekki fækkað og eflaust verða einhverjir til að rísa upp og fylla í skarð þeirra sem farnir eru eða eru á förum.
PS: Þetta er auðvitað blogg um bloggara og þess vegna mjög í stíl við svo kallaðan "Sæmundarhátt" á bloggi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
29.9.2009 | 02:04
Kiðlingur með mannshöfuð
Flestir Íslendingar eru með meðvitaðir um að í mörgum Afríkulöndum ríkir mikil fáfræði meðal almennings. fátækt, sjúkdómar, tíðar styrjaldir og samfélagsleg upplausn valda því að sum staðar ríkir jafn mikil fáfræði og algeng var í Evrópu á miðöldum.
Stundum rata inn í heims-pressuna fréttir sem eru svo talandi fyrir menntunarleysið og hindurvitnin sem af henni leiða, að fólk hlýtur að staldra við og spyrja hvort hér sé virkilega alvöru frétt á ferðum.
Í nokkrum dagblöðum heimsins birtist í gær frétt af fæðingu kiðlings í Lower Gweru í Zimbabve, sem sagður hafa mennskt höfuð.
Þorpsbúar sögðu samkvæmt fréttinni að kiðið sem reyndar dó tveimur tímum eftir fæðingu, hafi verið svo hræðilegt að jafnvel hundarnir hafi ekki viljað koma nálægt því. Af því að það leit svo hræðilega út var hræið síðan brennt.
"Þetta er sannkallað kraftaverk",er haft eftir Themba Moyo einum þorpsbúanum.
Eigandi geitarinnar hringdi á lögreglu og myndir voru teknar af dauðum kiðlingnum sem litu út fyrir að vera illa vanskapað kið eða hrein og klár fölsun.
"Þetta er í fyrsta sinn sem geitin mín gerir þetta. Ég á fimmtán geitur og flestar eru afkomendur þessarar geitar. Hún hefur oft fætt tvíbura" er haft eftir eigandanum.
Zimbabwe Guardian fylgir þessari frétt eftir með annarri grein og segir;
Zimbabwe Guardian skýrir frá að landsstjórinn í Midland, Jason Machaya sé þeirrar skoðunar að skepnan sem fæddist sé afleiðing þess að maður og geit höfðu samræði.
"Þetta er mjög alvarlegt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé svo illan hlut. Þetta er mjög skömmustulegt" þusaði í honum.
"Höfuðið er mannshöfuð en restin af líkamanum geit. Það er auðsætt að fullorðin maður er ábyrgur. Ill öfl hafa fengið hann til að missa sjálfstjórnina. Við heyrum oft um tilfelli þar sem maður hefur samræði við dýr en þetta er í fyrsta sinn sem úr verður vera með mennskt útlit"
Og eins og þessi saga sé ekki nógu fáránleg bætir einhver blaðamaðurinn þessu við fréttina;
Hálfur maður, hálf geit, skepnur eins og skógarpúkar og satýrar eru vinsælar í grískri og rómverskri goðafræði. James McAvoy lék hinn fræga skógarpúka herra Tumnus í stórmyndinni sem byggð var á sögu CS Lewis Narnia krónikurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)