Færsluflokkur: Bloggar

Eru sjálfstæðismenn Gyðingar Íslands

Gyðingar í Þýskalandi á tímum HitlersHalldór Jónsson fjallar á bloggsíðu  sinni um grein Njarðar P. Njarðvík "Niðurlæging þjóðar" sem birtist í  Fréttablaðinu fyrir skömmu og einnig á bloggi Láru Hönnu hér.  Halldóri finnst Njörður tala um meðlimi Sjálfstæðisflokksins eins og Hitler talaði um Gyðinga. Með öðrum orðum líkir hann meðlimum Sjálfstæðisflokksins á Íslandi við gyðinga í Þýskalandi á dögum Hitlers.

Halldór segir orðrétt;

Nú kemur þessi maður fram og segir að ég sé bara fífl, sem hafi með spillingu minni valdið hruninu. Væntanlega beri þá ábyrgð á falli Lehmansbræðra, alþjóðlegri lánsfjárkreppu, Icesave ‚ Jóni Ásgeiri, Tenghuiz, Kaupthingi  og þar fram eftir götunum.

Fyrir mörgum árum var maður uppi í Þýskalandi sem hét Adolf Hitler. Hann steig ekki í vitið en hafði hæfileika til að láta dæluna ganga svo að menn trúðu stundum heimskuvaðlinum. Hans aðalkenning var að Júðar væru í heild sinni óalandi og óferjandi og skyldu því verða drepnir. Allir ! Hafði ekkert með að gera hvernig þessi eða hinn var innréttaður. Það var nóg að vera fæddur Júði og í gasklefann með hann.


Einhver kann að halda  að tími svona fífla væri liðinn með almennri upplýsingu. En það er greinilega ekki.

Hugsið ykkur ! Prófessor Emeritus !

Afar algeng mælskulistarbrella er að ýkja málflutning andstæðinga sinna og líkja þeim við eitthvað eða einhverja sem flestir hafa andúð á. Fátt vekur upp eins mikli viðbrögð og þegar einstaklingum er líkt við Nasista eða Hitler sjálfan. Rökvillan er svo algeng  að hún hefur fengið nafn Reductio ad Hitlerum.  Þessari brellu beitir Halldór gegn Nirði.


Ofbeldi með orðum

Ofeldi orðaÞað er löngu viðurkennt að orð, hvort sem þau eru sögð eða skrifuð, geta flokkast undir virkt ofbeldi.

Viðvarandi obeldi í orðum er mjög skaðlegt og getur valdið alvarlegum truflunum á tilfinningalífi þeirra sem því er beint gegn, skaðað sjálfsmynd þeirra og haft áhrif á andlegt og líkamlegt heilsufar þeirra. 

Sífelldar skammir og svívirðingar teljast andlegt ofbeldi. Slíkt á sér ekki aðeins innan veggja heimilanna, heldur einnig á vinnustöðum og á opinberum vettvangi. Þá er algengt að því sé beint gegn hópum eða pólitískum andstæðingum.

Að baki þess að beita einhvern ofbeldi af þessu tagi liggur einatt mjög lágt sjálfsmat gerandans:

Honum finnst hann ekki nógu góður og líklegt er að honum finnist hann valda öðrum stöðugum vonbrigðum. Þess vegna sækist hann eftir að setja fórnarlömb sín í sömu stöðu og hann er sjálfur.

Þá hefur það sannast að vaxandi ofeldi í orðum, leiðir til líkamslegs ofbeldis.

Helstu einkenni ofbeldis með orðum eru m.a. þessi:

  • Skeytingarleysi, hæðni, vanvirðing, og stöðug gagnrýni á aðra.
  • Lymskulegt orðaval.
  • Að niðurlægja aðra með ásetningi. 
  • Að ásaka aðra ranglega til að stjórna umræðunni  
  • Láta öðrum finnast þeir minnimáttar og undirmáls.
  • Láta sem orsakir ofbeldisins sé hegðun annarra.
  • Reyna að einangra fórnalamb sitt frá stuðningi annarra.

Hvað má og hvað má ekki

Eins og flesta bloggara hér um slóðir rekur eflaust minni til var bloggi hins dularfulla DoctorE lokað fyrir ummæli hans um spákonu sem hann sagði geðveikt glæpakvendi. DoctorE tók hús á blogginu mínu í gær og spurði einfaldrar spurningar eða;

 

"Ég er að spá hvort ég hefði verið bannaður á sínum tíma ef ég hefði gefið í skyn að myrða ætti sjáandann án dóms og laga... í stað þess að segja bara að hún væri annaðhvort geðveik og eða glæpakvendi

DoctorE, 25.10.2009 kl. 21:21"

 

Athugasemd Doctorsins var vitaskuld í tengslum við umfjöllun mína á afar ósmekklegum athugasemdum Lofts Altice á bloggsíðu Jóns Vals Jenssonar. Jóni fannst greinilega nóg komið og fjarlægði athugasemd Lofts og lokaði þar á eftir alfarið fyrir athugasemdir.

Í framhaldi af birtingum hinna myrku athugasemda Lofts Altice víða á blogginu urðu einhverjir, þ.á.m.  Björn Birgisson til að kalla eftir því að bloggi Lofts yrði lokað. Guðmundur 2. Gunnarsson skrifaði af því tilefni;

 

"Var að benda honum á að ef Loftur verði bannaður, þá er óhjákvæmilegt að hann sjálfur verði það líka fyrir að margbirta texta sem hann vill láta bannfæra mann fyrir.  Bendi honum á að hann yrði jafn sekur einhverjum sem birti barnaníð, ef hann myndi endurbirta það til að vekja athygli á glæpnum. 

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 21:09"

 

Mér finnast þessar tvær athugasemdir umhugsunar verðar. -  Hvað athugasemd DoctorE varðar finnst mér hann hafa nokkuð til síns máls. Hvernig er hægt að leyfa blogg manns sem ýjar að því að aflífa beri pólitíska andstæðinga hans, en banna uppnefningar.

Hvort er alvarlegra?

Og sé því borið við að Doctorinn hafi oft áður verið aðvaraður má benda á  að Þessi athugasemd Lofts á síðu Jóns Vals er ekkert einsdæmi um grófar duldar hótanir. Á bloggsíðu Lofts Altice er t.d þetta að finna;

"18.4.2009 | 11:49

Landráðamenn allra flokka sameinast !
Er það raunverulega svo, að þessu landráðahjali um innlimun landsins í Evrópusambandið (ESB) eigi ekki að linna ? Eru predikarar Andskotans (ESB) ekki að verða saddir lífdaga ? Þarf þjóðin að losa þessa menn við hausinn á sér, svo að þeir þagni ?"

Athugasemdin frá Guðmundi finnst mér líka áhugaverð. Hvernig er hægt að segja frá því í miðlum að einhver hafi verið ásakaður eða dæmdur fyrir að segja eitthvað ef ekki má vitna í ummælin. Við það eitt að vitna í þau verða ummælin eflaust kunnari sem eykur á skaðsemi þeirra, sérstaklega ef þau eru ærumeiðandi. -


Á að hengja lík Jóhönnu Sigurðardóttur upp á afturlöppunum?

Loftur Altich þorsteinssonLoftur Altice Þorsteinsson , verkfræðingur og vísindakennari, bauð sig fram til formanns sjálfstæðisflokksins á síðasta landsfundi hans.

 Loftur Altice er afar ósáttur við niðurstöður Icesave deilunnar og spyr að því hvernig Jóhanna Sigurðadóttir mundi taka sig út ef hún yrði meðhöndluð líkt og Benito Mussolini.  Loftur Altice biður fólk um að kynna sér þá meðferð.

Í athugasemd sem Loftur Altice Þorsteinsson , verkfræðingur og vísindakennari, skrifar á bloggi vinar síns Jóns Vals Jenssonar segir;

Hvernig væri að menn kynntu sér hvernig Benito Mussolini var meðhöndlaður og hengdur upp á afturlöppunum ? Myndi Jóhanna ekki taka sig ámóta vel út ?

Nicolae Ceauşescu er sérstök fyrirmynd Svika-Móra. Væri ekki við hæfi að þeir fóstbræður fengju sömu brottför úr Jarðvistinni ?

Annars er mér sama hvernig við losnum við þessar skaðræðis kvik-kindur.

Burt með allt Sossa-stóðið !

Loftur Altice Þorsteinsson, 24.10.2009 kl. 17:05

 

mussolini-hangingHér á Loftur Altice við afdrif Benito Mussolini einræðisherra á Ítalíu sem ásamt Clöru Petacci  hjákonu sinni var handtekinn á leið sinni til Svisslands 27. apríl 1945. Daginn eftir voru þau tekin af lífi ásamt nokkrum af fremstu mönnum úr ríkisstjórn Mussolini.

Því næst voru líkamir þeirra settir á vörubílspall og ekið til Mílanó og þar sem þeim var sturtað á torgið Piazza Loreto.

Þar var líkunum misþyrmt, þau skotin, sparkað í þau og hrækt á þau áður en þau voru hengd upp á kjötkrókum frá þaki bensínstöðvar í grenndinni.

Líkin vori síðan grýtt af vegfarendum. Eftir að líkin féllu rotnuð af kjötkrókunum voru þau enn hædd og sundurrifin af almenningi.

Þetta er sem sagt það sem Loftur Altice vill að við kynnum okkur varðandi Benito Mussolini svo að við getum gert okkur grein fyrir hverju hann er að ýja að að ættu að vera örlög Jóhönnu.

ceausescu_ne04"Svika-Móri" er gælunafn sem Loftur hefur gefið Steingrími J. Sigfússyni.

Loftur stingur upp á því að Steingrímur fái "sömu brottför úr Jarðvistinni" og Nicolae Ceauşescu fyrrum forseti Rúmeníu sem var, ásamt eiginkonu sinni Elenu,  skotinn af aftökusveit á jóladag 1989.

Vitaskuld er freistandi að halda því fram að Loftur hafi ekki meint það sem hann skrifar eða ekki skrifað það sem hann meinti. En þegar að "pólitísk" umræða er kominn á þetta stig er rétt að menn hugsi sig aðeins um.

 


Baka fólkið og tónlistin þeirra

Baka börnÁ regnskógasvæðinu í suðaustur Kamerún býr ættbálkur sem heitir Baka. Baka fólkið sem ekki telur fleiri en 28.000 manns, er enn á safnara og veiðimannastiginu, talar sitt eigið tungumál (Baka) , hefur sérstakan átrúnað og með honum hefur þróast frá fráær tónlist sem ég var svo heppinn að fá að hlusta á í gærkvöldi þegar ég fór á tónleika með hljómsveitinni Baka Beyond.

Meðal Baka fólksins gegnir tónlistin þýðingarmiklu hlutverki. Allt frá bernsku þróar hver einstaklingur með sér hrynjandi og þegar komið er saman til að syngja má sjá ungabörn klappa saman höndum í takt við tónlistina. Tónlist er notuð í trúarlegum athöfnum, einnig til að skila þekkingu ættbálksins, frásögnum hans og sögu til næstu kynslóðar og síðast en ekki síst til skemmtunar. Á meðal þeirra er ekki hægt að skynja að einhver einn flytji tónlistina frekar en annar, allir taka þátt. Þegar sögur eru sungnar leiðir einn sönginn en allir taka undir í viðkvæðunum sem eru ávalt rödduð og spila að auki á ásláttarhljóðfærin. 

Baka drengurTil að komast af í regnskóginum er nauðsynlegt að kunna að hlusta. Þar er sjaldgæft að hægt sé að sjá lengra en 50 metra fram fyrir sig og þess vegna reiðir Baka fólkið sig frekar á heyrn en sjón þegar það ferðast umskóginn. Hver á hefur sín sérstöku hljóð, hvert svæði í skóginum sína sérstöku ábúendur sem gefa frá sérstök hljóð , jafnvel einstaka tré er þekkt meðal fólksins og er lýst í samræmi við hljóðin sem koma frá því.

Baka fólkið hefur því afskaplega næma heyrn. Við sem búum í borgum og bæjum reynum að sigta út og heyra ekki hljóð sem eru okkur til þæginda, Baka fólkið reynir að heyra og taka eftir öllum umhverfishljóðum enda eru þau öll mikilvæg afkomu þess. Þegar kemur að tónlist er það undarvert hversu auðveldlega og fljótt það lærir nýjar laglínur.

1248606600_a5cc167aa5Baka-menn trúa því að þeir séu börn regnskógarins og að skógurinn láti sér annt um þá og sjái þeim fyrir öllu. Ef eitthvað slæmt gerist á meðal þeirra, segja þeir að frumskógurinn hafi sofnað. Til þess að vekja hann aftur nota þeir tónlist og jafnframt tak þeir gleði sína á ný. Þegar að vel gengur nota þeir einnig tónlist til að deila gleði sinni með skóginum.

Baka fólk reiðir sig á það sem finna má til átu í skóginum og það sem veiða í honum og ám hans. Þeir notað eitraðar örvar og spjót með góðum árangri á ýmsa bráð en fisk veiðir það með að blanda efni í vatnið sem eyðir úr því súrefninu þannig að fiskarnir fljóta dauðir upp á yfirborðið. Ávextir, hnetur og hunang eru einnig hluti af fæðu þeirra.

baka3Baka fólkið flytur sig reglulega um set og forðast að misbjóða náttúrunni með ofveiði eða á annan hátt. Ákvörðunin um að flytja og aðrar mikilvægar ákvarðanir sem varða allan hópinn, tekur fólkið sameiginlega.

Hljómsveitinni Baka Beyond sem ég fór að hlusta á í gærkveldi er skipuð átta meðlimum, þremur söngvurum, gítarleikara, trymbli, fiðluleikara og ásláttarhljóðfæraleikara.

Sveitin var stofnuð 1992 eftir að frum-meðlimir hennar höfðu heimsótt Baka fólkið og hrifist mjög a tónlist þeirra og menningu. Hljómsveitin flytur sambræðing af Baka tónlist og keltneskri þjóðlagatónlist sem einhvern veginn krefst þess að líkaminn hreyfi sig eftir henni á meðan hún hljómar.


Sjónhverfingar

Dansarinn

Þetta er mynd af dansmey. Í hvaða átt snýr hún sér, réttsælis eða rangsælis.  Stundum sérð þú hana dansa réttsælis og stundum rangsælis.

Gamla konan og kallinn hennar

Myndir eins og þessar voru algengar í blöðum og tímaritum hér áður fyrr, en eru nú orðnar frekar fáséðar.

Svart hvít blekking

Þessi er alveg sígild.

Allt á iði

 


Ástarbréf

loveletter-main_Full

"Ég þarfnast þín. Ég hugsa um þig, dag og nótt. Þú ert hér hjá mér þótt þú sért svo fjarri. Ég faðma sængina og óska mér að þú værir hér. Hvað ég vildi að ást mín væri án sektakenndar. Hvað ég vldi að þú værir sama sinnis og ég svo við gætum verið saman að eilífu."

Sú var tíðin að ástarbréf þóttu meðal mestu gersema sem fólk átti í fórum sínum. Ástarbréf voru oftast geymd í lokuðum hirslum sem enginn nema eignandinn hafði aðgang að og venjulega komust slík bréf ekki fyrir almenningssjónir fyrr en bæði ritari þeirra og vitakandi voru fallnir frá.

Sum þeirra urðu að ómetanlegum heimildum um viðkomandi og vörpuðu  nýju ljósi á þankagang og hjartalag þeirra. - Ritun ástarbréfa var talsverð list, enda þurftu elskendurnir að setjast niður í ró og næði, og vanda sig við að setja sínar innstu hugrenningar niður á pappírinn með sinni bestu rithönd.

Spurningin er hvort sú list sé að týnast á öld farsíma, sms skilaboða, emaila, twitter, og bloggs. Það er orðið ansi langt síðan að ég skrifaði einhverjum sendibréf sem póstlagt var upp á gamla mátann. Flest skrifleg samskipti mín við annað fólk er í gegnum emaila. Þegar ég sest niður við tölvuna hamra ég niður í flýti það sem ég held að komi meiningu minni eða erindi sem fljótast til skila. - Og jafnvel þótt ég færi eins að tölvunni og  bréfritarar í gamla daga nálguðust pappírsörkina með sinn blekpenna, finnst mér sendibréfið enn miklu rómantískari miðill. -

1245009572af7FIvHvað geyma margir emailana sína til lengri tíma, að ekki sé talað um SMS skilaboð eða Twitt. Þó að ég sé alveg viss um að að fólk er ekkert síður rómantískt en áður, er þessi þessi hárómantíska tegund tjáningar klárlega á undahaldi.

Eða á kannski ungt fólk framtíðarinnar eftir að koma opinminnt fram í eldhús með eldgamla fartölvu í höndunum segjandi;" Vá, mér tókst loks að kveikja á gömlu tölvunni hennar ömmu og opna þetta fornaldar póstforrit. Gettu hvað ég fann? Viltu heyra;

Ég þarfnast þín. Ég hugsa um þig, dag og nótt. Þú ert hér hjá mér þótt þú sért svo fjarri. Ég faðma sængina og óska mér að þú værir hér.

Hvað ég vildi að ást mín væri án sektakenndar. Hvað ég vildi að þú værir sama sinnis og ég svo við gætum verið saman að eilífu. Ég hlusta stöðugt á uppáhalds lagið þitt án þess að gera mér grein fyrir því, af því að þá finnst mér ég vera nær þér. Í hvert sinn sem ég sé þig þrái ég þig meira, ef það er mögulegt.

Hugur minn segir mér að hitta þig ekki aftur nema að ég þurfi aldrei að yfirgefa þig aftur, vegna þess hve sársaukafullt það er að kveðja þig. En hjarta mitt segir að ekkert fái stöðvað mig frá að njóta með þér hverrar mínútu sem ég mögulega get. Og í hvert sinn sem ég er nálægt þér, bíð ég eftir að samveran nái einhverjum hápunkti, en hún gerir það aldrei. Þráin til að vera hjá þér er viðvarandi, stöðug og fær mig til að vilja þrýsta þér að brjósti mínu svo þú getir hlustað á hjarta mitt hrópa nafn þitt og segja þér frá þeim hræðilegu dögum og skelfilegu nóttum sem ég er fjarri þér.

Augu mín vökna í hvert sinn sem ég horfi á þig og ég verð að neyða þau til þess að horfa á þig eins og vinur á að gera. Ég vona enn, árangurslaust, að sársaukin muni dofna eða hverfa með tímanum. En tíminn hefur svikið mig, því eftir því sem hann líður, þrái ég þig meira.

Hvert smáatriði í sambandi við þig er sem grafið á hjarta mitt, heillar mig, snarar mig. Þegar ég segi að þú sért undraverð, er það aum lýsing á áliti mínu á þér, því þú ert mér ráðgáta. Hvað á ég að kalla þig? Hvað kallar maður þann sem er manni allt og ekkert? Allt,  vegna þess ég elska þig, ekkert,  vegna þess að ég get aldrei látið í ljósi við þig það sem býr í brjósti mínu. Orðið "vinur" nægir mér ekki. Ég er ekki ánægður með þann titil. En hvað er ég þá?  Ég er löngu hættur að vera bara "vinur" þinn.

Ég hef oft pælt í hvað mundi gerast ef ég segði þér hvernig mér raunverulega líður. En við eru föst einhversstaðar á milli þess að vera vinir og einhvers meira,  vegna þess að ég er hræddur við að þú hafnir mér ef ég segi þér sannleikann. Aðeins ótti minn stendur í vegi fyrir mér. Því þótt ég fái ekki að elska þig á þann hátt sem ég hef lýst, vil ég samt ekki fórna vinskapnum. Ótti minn er að þú klippir á sambandið fyrir fullt og allt af því þér líður ekki eins. 

Í dag mun ég sitja hér og þú þarna og ég mun gæta þess að augu mín endurspegli ekki ástinni og sársaukanum sem beinist að þér. Og í kvöld mun ég fara í rúmið og dreyma sama drauminn og ætíð, þar sem við erum stödd út við hafið.  Þú ert í sjónum og ég stend á bryggjusporðinum. Ég er að hugsa um að stökkva út í til þín en er hræddur. Og þegar ég loks stekk er ég ósjálfbjarga í vatninu og það er undir þér komið hvort þú bjargar mér eða ekki. Og þegar ég byrja að sökkva finn ég arma þína lykjast um mig og toga mig upp og ég get andað á ný.

Og ég horfi í augu þín og sé hvað þau hafa falið frá mér allan þennan tíma. Síðan syndum við saman inn í sólsetrið.

Á morgun mun ég aftur sjá þig og þykjast elska þig eins og vinur, hræddur við að stökkva. Ef ég ákveð að stökkva, viltu þá grípa mig... ef ég ýti á... senda?

"Og frá hverjum er þetta?" spyr mamman.

"Hvurjum heldurru.... afa audda."

 


Heimsfræga konan á Heiðarveginum

BlaðadrengurFljótlega eftir að ég kom fyrst til Keflavíkur (1962) , byrjaði ég að bera út Moggann. Gísli Guðmundsson afi minn vann hjá Skafta í efnalauginni á Hafnargötunni og hann var einmitt umboðsmaður Morgunblaðsins. Þar með átti ég hauk í horni sem hjálpaði mér að fá starfið.  Það fylgdi djobbinu að rukka fyrir áskriftina og þess vegna kynntist ég flestum "viðskiptavinum" mínum lauslega, þótt fæstir þeirra væru á ferli laust fyrir klukkan sjö á morgnanna þegar ég skaust upp að húsdyrunum til að troða blaðinu inn um bréfalúguna eða festa það milli stafs og hurðahúnsins.

Í litlu ljósgrænu húsi við Heiðarveginn sem tilheyrði því hverfi sem ég bar út í, bjó kona sem er mér afar minnisstæð. Hún kom mér fyrir sjónir sem glæsileg miðaldra kona, með rautt og mikið hár. Hún hafði þann sið að taka alltaf á móti mér við útdyrnar, gjarnan í skrautlegum náttkjól en ávalt með andlitsfarða og varalit. Oft bauð hún mér upp á mjólkurglas og kexköku sem ég sporðrenndi venjulega fyrir framan hana á dyrapallinum, áður en ég hljóp svo aftur af stað. Satt að segja vissi ég ekki hvað ég átti að halda um hana því lyktin heima hjá henni var líka miklu betri en ég átti að venjast í öðrum húsum.

ThumbnailMariaMarkanEinhverju sinni var móðir mín að fara yfir rukkunarheftið og rak þá augun í nafn þessarar konu. Henni þótti greinilega talsvert til hennar koma því hún fræddi mig á því að hún væri "heimsfræg" fyrir söng sinn. Sérstaklega tíundaði hún að þessari konu hefði einni allra Íslendinga verið boðið að syngja við Metropolitanóperuna í New York. Ég man að mér þótti þetta nokkuð merkilegt og var talvert upp með mér um tíma fyrir að bera út moggann til frægustu söngkonu Íslands, frú Maríu Markan. 

Eitt sinn þegar ég fór að rukka hana að kvöldlagi kom til dyranna stálpaður unglingur með rauðan lubba. Hann náði í mömmu sína og samskipti okkar urðu ekki meiri. Þarna mun hafa verið á ferð sonur Maríu, sá sem síðar varð einhver besti og þekktasti trymbill Íslendinga, Pétur Östlund.

Pétur segir einmitt þetta um dvöl sína í Keflavík;

353485Það var árið 1957. Ég var 14 ára,  bjó í Keflavík og gekk í skóla uppá velli (innsk.: "völlurinn" er fyrrum herstöðin á Keflavíkurflugvelli). Ég hafði ekkert að gera og var að þvælast í svokölluðum "Service Club" og sá auglýsingu um ókeypis trommukennslu og skráði mig í það. Fyrsti kennarinn minn hét Gene Stone. Hjá honum fékk ég kjuðapar og æfingaplatta og þá var ekki aftur snúið. Atvinnumannaferill minn hófst um 16 ára aldur og ég hef starfað við trommuleik og trommukennslu allar götur síðan. 

Mér er ekki kunnugt um hversu mikinn þátt María átti  í mótun tónlistarlífsins í Keflavík á þessum árum,  fyrir utan að vera móðir Péturs sem verður að teljast þó nokkuð. Pétur spilaði með keflvískum hljómsveitum eins og Hljómum og Óðmönnum við góðan orðstír. En eitthvað hefur hún lagt sig eftir að kenna og leiðbeina keflvískum ungmennum því á heimasíðu hins frábæra dægurlaga söngvara Einars Júlíussonar sem frægur varð fyrir söng sinn með hljómsveitinni Pónik, fann ég þessa frásögn;

imageÞegar  rokkæðið skall á Íslandi var Einar Júlíusson þegar orðinn barnastjarna í Keflavík. Hann fæddist þar, yngstur systkina sinna, 24. ágúst 1944 og var farinn að syngja opinberlega áður en hann fór í barnaskóla. Svo skemmtilega vildi til að í sama bekk og hann var annar upprennandi tónlistarmaður; Þórir Baldursson.

Á unglingsárunum bauðst Einari óvænt söngnám hjá  Maríu Markan sem á þessum árum bjó í Keflavík. Einar hafði það fyrir sið þegar illa lá á honum að setjast í róluna á róluvellinum, þar rólaði hann sér og söng hástöfum, nágrönnum leiksvæðisins til dægurstyttingar sem öllu jafna fannst gaman að heyra þessa björtu og hljómfögru söngrödd. María Markan átti einhverju sinni leið hjá og bauð hún Einari að koma til sín í tíma án endurgjalds. Einar var hins vegar of feiminn til að þiggja boðið og sagði síðar frá því að þar hefði hann farið illa að ráði sínu.

Um merkiskonuna Maríu er ekki margt að finna á netinu en endurminningar hennar voru gefnar út af Setberg árið 1965 og ritaðar af Sigríði Thorlacíus. Eftirfarandi æviágrip eru tekin úr Tónlistarsögu Reykjavíkur.

María Markan er fædd í Ólafsvík 25. júní 1905. Hún er systir Einars og Sigurðar Markan söngvara og Elísabetar, sem einnig er kunn söngkona. María Markan lærði að syngja hjá Ellen Schmücker í Berlín frá 1928 og nær óslitið til 1935. Hún hélt fyrstu sjálfstæðu tónleika sína í Berlín 16. febrúar 1935 með undirleik prófessors Michaels Raucheisen, sem er frægur píanóleikari og mjög eftirsóttur undirleikari. Hún vann þá mikinn sigur. Hún var ráðin að Schilleróperunni í Hamborg 1935, og söng þar frá því um haustið til næsta vors, en þá rann samningurinn út. Fór hún Þá aftur til Berlínar og hélt áfram í tímum hjá sínum gamla kennara, Madame Ellen Schmücker. Síðan var hún ráðin að óperunni í Zittau, skammt frá Dresden, og var það árssamningur. Forráðamenn óperunnar vildu endurnýja samningin annað ár til viðbótar, en því boði hafnaði María, og fór hún þá aftur til Berlínar vorið 1937. Valt nú á ýmsu hjá henni eins og gerist og gengur í lífi listamanna, sem ekki hafa unnið fullnaðarsigur, og varð henni ljóst, og reyndar sagt það af sjálfum forstjóra Berlínaróperunnar, að það eitt myndi hamla því, að hún kæmist í fremstu röð söngvara í þýskalandi, að hún væri útlendingur.

champselyseesfigaro1En brátt fór að vænkast hagurinn. Hún söng á norrænni viku í Kaupmannahöfn 1938 og ennfremur greifafrúna í „Brúðkaupi Figarós“ eftir Mozart í konunglega leikhúsinu þar í borg. Fritz Busch, hljómsveitarstjórinn heimsfrægi, hafði fengið augastað á söngkonunni og réð hana til að syngja þetta hlutverk í Glyndbourne-óperunni í Englandi, en þessu óperuhúsi stjórnaði hann. Þetta var mestur heiður, sem Maríu Markan hafði hlotnast fram að þessu, því valið er úr beztu söngvurum álfunnar í hvert sinn til að syngja þar. María tók við þessu hlutverki af Aulikki Rautavara, beztu söngkonu Finnlands, sem minnst verður á hér á eftir. Glyndbourne-óperan starfar á sumrin, og til skams tíma voru þar eingöngu fluttar óperur eftir Mozart, en ekki eftir önnur tónskáld.

Er heimstyrjöldin var skollin á, breyttist viðhorfið, og fór María þá til Ástralíu, skv. samningi við Ástralíuútvarpið, og söng þar í útvarp og í konsertsölum í ýmsum borgum. Henni var hvarvetna mjög vel tekið og framlengdi útvarpið samninginn við hana. Dvaldi hún ár í landinu.

opera_romaSíðan lagði hún leið sína til Kanada, hélt sjálfstæða tónleika í Winnipeg og víðar, og síðan til New York. Þar var hún ráðin við Metropolitanóperuna 1941-1942. Þangað eru sjaldan ráðnir aðrir listamenn en þeir, sem hlotið hafa heimsfrægð.

Í Reykjavík hefur María Markan margoft sungið, allt frá því að hún var enn við söngnám í Berlín - hún söng þá hér heima í sumarleyfum, t.d. árin 1930, 1933 og 1938. Ennfremur söng hún hér um haustið 1946 og sumarið 1949. Undirleikarinn er Fritz Weisshappel, sem var kvæntur systurdóttur hennar. Loks söng hún hér í Þjóðleikhúsinu um veturinn 1957 í óperunni „Töfraflautunni“ eftir Mozart. Í óperunni koma fram þrjár þernur, sem syngja saman terzetta. María söng þá hlutverk fyrstu þernunnar.

María Markan hefur háa sópranrödd, sem er í senn mikil og glæsileg. Raddsviðið er sérstaklega mikið og dýpstu tónarnir svo fagrir, að mörg alt-söngkonan mætti öfunda hana af þeim. Hér á landi á hún vinsældir sínar mest að þakka söng sínum í ljóðrænum lögum, ekki sízt íslenzkum, sem hún syngur mjög fallega. En hún er meiri sem óperusöngkona. Hin mikla rödd hennar fær fyrst notið sín til fulls í óperuaríum. Dr. Páll Ísólfsson sagði í Morgunblaðinu eftir söng hennar sumarið 1949: „Mesta söngkona Íslands fram að þessu.“

María Markan var gift George Östlund og var búsett í Bandaríkjunum 1940-1955. Þau hjónin fluttust heim til Íslands vorið 1955. Hún missti mann sinn í árslok 1961.


Tveir froskar

Heyrðist frétt um heiminn óma

hvernig froskar tveir,

féllu í skál full´af rjóma,

þar fangaðir voru þeir.

 

Annar reyndist raunagóð

og rausnarleg sál,

hinn einn þeirra huglausu,

hvað allt er voða mál.

 

Við drukknum hér dugleysan æpti,

dæmalaust óhress,

niðrá botninn síðan sökk

og sífrandi kvaddi bless.

 

Sá er áfram svamlaði

sagði við sjálfan sig;

dug skal sýna dómi,

þótt dauðinn taki mig.

 

Ótrauður mun ég áfram synda

uns mig þrýtur þol,

örlögin ég læt mér lynda,

lýtt mér hugnast vol.

 

Hugrökk sundið hetjan þreytti,

með hamagangi rjómann þeytti.

 

Hann barðist um og buslaði

bullandi af fjöri,

og skjótt varð rjóminn allur aðFroskurinn sem slapp

indælis þykku smjöri.

 

Loks á smjörinu lafmóður stoppaði,

léttur svo upp úr skálinni hoppaði.

 


Eiga sprangið og íslenska glíman heima á heimsminjaskrá?

3188686950_58d6b0eaffÞegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, fór ég með ófáa hópa af skólakrökkum víðs vegar af landinu í útsýnisferðir um Heimaey. Einn af viðkomustöðum okkar var undantekningarlaust Sprangan undir Skiphellum þar sem ungt eyjafólk lærir að klifra í klettum og sveifla sér í kaðli.

Á tungumáli "innfæddra" kallast þetta "sprang“.  Misháar syllur eru í bjarginu, allt frá „almenningi“ og upp í „gras" eða "tó".  

Margir úr hópunum spreyttu sig á að klifra upp í lægstu sylluna og spranga út frá henni sem tókst misjafnlega, enda sprang ekki auðveld íþrótt.

Einn hópur sem ég man eftir bar þó af öllum öðrum hvað leikni í kaðlinum varðaði. Þegar ég spurði hvers vegna þau virtust kunna svona vel til verka, svöruðu þau að flest þeirra væru frá Rifi og Sandi á Snæfellsnesi og skammt þar frá væru Gufuskálar.

Að Gufuskálum væri mikið og hátt mastur og utan í því hefðu þau oft sveiflað sér á reipi. Ég kannaðist vitskuld við Loren C mastrið á Gufuskálum sem lengi var sagt hæsta mannvirki á Íslandi og er það kannski enn. 

esja-_glimaMér datt þetta í hug þegar ég las fréttina sem ég tengi hér við, því trúlega hafa krakkarnir frá Snæfellsnesi snúið sér á alla kanta á reipinu eins og indíánarnir gerðu forðum suður í Mexíkó og sýnt er á meðfylgjandi myndskeiði.

Annað sem einnig kom upp í hugann er hvort ekki sé ástæða til að koma Sprangi inn á þessa ágætu heimsminjaskrá fyrir þjóðhætti sem eru í hættu að leggjast af og gleymast.

Ég veit ekki hvað það eru margir sem kunna þá list svo vel sé, en flestir eiga þeir eflaust heima í Vestmannaeyjum.

Auðvitað má segja að viss tegund af sprangi lifi góðu lífi meðal þeirra milljóna í heiminum sem stunda fjallaklifur. En búnaður til klifurs hefur mikið breyst frá því sem var og miðað við það eitt er varla hægt að segja að um sömu íþrótt sé að ræða.

Þá mætti einnig huga að í þessu sambandi hinni íslensku glímu. Ég veit að enn eru íþróttafélög sem leggja stund á glímuna, en tilfinning mín segir mér að þeim fari fækkandi.


mbl.is Guðadans á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband