Ástarbréf

loveletter-main_Full

"Ég þarfnast þín. Ég hugsa um þig, dag og nótt. Þú ert hér hjá mér þótt þú sért svo fjarri. Ég faðma sængina og óska mér að þú værir hér. Hvað ég vildi að ást mín væri án sektakenndar. Hvað ég vldi að þú værir sama sinnis og ég svo við gætum verið saman að eilífu."

Sú var tíðin að ástarbréf þóttu meðal mestu gersema sem fólk átti í fórum sínum. Ástarbréf voru oftast geymd í lokuðum hirslum sem enginn nema eignandinn hafði aðgang að og venjulega komust slík bréf ekki fyrir almenningssjónir fyrr en bæði ritari þeirra og vitakandi voru fallnir frá.

Sum þeirra urðu að ómetanlegum heimildum um viðkomandi og vörpuðu  nýju ljósi á þankagang og hjartalag þeirra. - Ritun ástarbréfa var talsverð list, enda þurftu elskendurnir að setjast niður í ró og næði, og vanda sig við að setja sínar innstu hugrenningar niður á pappírinn með sinni bestu rithönd.

Spurningin er hvort sú list sé að týnast á öld farsíma, sms skilaboða, emaila, twitter, og bloggs. Það er orðið ansi langt síðan að ég skrifaði einhverjum sendibréf sem póstlagt var upp á gamla mátann. Flest skrifleg samskipti mín við annað fólk er í gegnum emaila. Þegar ég sest niður við tölvuna hamra ég niður í flýti það sem ég held að komi meiningu minni eða erindi sem fljótast til skila. - Og jafnvel þótt ég færi eins að tölvunni og  bréfritarar í gamla daga nálguðust pappírsörkina með sinn blekpenna, finnst mér sendibréfið enn miklu rómantískari miðill. -

1245009572af7FIvHvað geyma margir emailana sína til lengri tíma, að ekki sé talað um SMS skilaboð eða Twitt. Þó að ég sé alveg viss um að að fólk er ekkert síður rómantískt en áður, er þessi þessi hárómantíska tegund tjáningar klárlega á undahaldi.

Eða á kannski ungt fólk framtíðarinnar eftir að koma opinminnt fram í eldhús með eldgamla fartölvu í höndunum segjandi;" Vá, mér tókst loks að kveikja á gömlu tölvunni hennar ömmu og opna þetta fornaldar póstforrit. Gettu hvað ég fann? Viltu heyra;

Ég þarfnast þín. Ég hugsa um þig, dag og nótt. Þú ert hér hjá mér þótt þú sért svo fjarri. Ég faðma sængina og óska mér að þú værir hér.

Hvað ég vildi að ást mín væri án sektakenndar. Hvað ég vildi að þú værir sama sinnis og ég svo við gætum verið saman að eilífu. Ég hlusta stöðugt á uppáhalds lagið þitt án þess að gera mér grein fyrir því, af því að þá finnst mér ég vera nær þér. Í hvert sinn sem ég sé þig þrái ég þig meira, ef það er mögulegt.

Hugur minn segir mér að hitta þig ekki aftur nema að ég þurfi aldrei að yfirgefa þig aftur, vegna þess hve sársaukafullt það er að kveðja þig. En hjarta mitt segir að ekkert fái stöðvað mig frá að njóta með þér hverrar mínútu sem ég mögulega get. Og í hvert sinn sem ég er nálægt þér, bíð ég eftir að samveran nái einhverjum hápunkti, en hún gerir það aldrei. Þráin til að vera hjá þér er viðvarandi, stöðug og fær mig til að vilja þrýsta þér að brjósti mínu svo þú getir hlustað á hjarta mitt hrópa nafn þitt og segja þér frá þeim hræðilegu dögum og skelfilegu nóttum sem ég er fjarri þér.

Augu mín vökna í hvert sinn sem ég horfi á þig og ég verð að neyða þau til þess að horfa á þig eins og vinur á að gera. Ég vona enn, árangurslaust, að sársaukin muni dofna eða hverfa með tímanum. En tíminn hefur svikið mig, því eftir því sem hann líður, þrái ég þig meira.

Hvert smáatriði í sambandi við þig er sem grafið á hjarta mitt, heillar mig, snarar mig. Þegar ég segi að þú sért undraverð, er það aum lýsing á áliti mínu á þér, því þú ert mér ráðgáta. Hvað á ég að kalla þig? Hvað kallar maður þann sem er manni allt og ekkert? Allt,  vegna þess ég elska þig, ekkert,  vegna þess að ég get aldrei látið í ljósi við þig það sem býr í brjósti mínu. Orðið "vinur" nægir mér ekki. Ég er ekki ánægður með þann titil. En hvað er ég þá?  Ég er löngu hættur að vera bara "vinur" þinn.

Ég hef oft pælt í hvað mundi gerast ef ég segði þér hvernig mér raunverulega líður. En við eru föst einhversstaðar á milli þess að vera vinir og einhvers meira,  vegna þess að ég er hræddur við að þú hafnir mér ef ég segi þér sannleikann. Aðeins ótti minn stendur í vegi fyrir mér. Því þótt ég fái ekki að elska þig á þann hátt sem ég hef lýst, vil ég samt ekki fórna vinskapnum. Ótti minn er að þú klippir á sambandið fyrir fullt og allt af því þér líður ekki eins. 

Í dag mun ég sitja hér og þú þarna og ég mun gæta þess að augu mín endurspegli ekki ástinni og sársaukanum sem beinist að þér. Og í kvöld mun ég fara í rúmið og dreyma sama drauminn og ætíð, þar sem við erum stödd út við hafið.  Þú ert í sjónum og ég stend á bryggjusporðinum. Ég er að hugsa um að stökkva út í til þín en er hræddur. Og þegar ég loks stekk er ég ósjálfbjarga í vatninu og það er undir þér komið hvort þú bjargar mér eða ekki. Og þegar ég byrja að sökkva finn ég arma þína lykjast um mig og toga mig upp og ég get andað á ný.

Og ég horfi í augu þín og sé hvað þau hafa falið frá mér allan þennan tíma. Síðan syndum við saman inn í sólsetrið.

Á morgun mun ég aftur sjá þig og þykjast elska þig eins og vinur, hræddur við að stökkva. Ef ég ákveð að stökkva, viltu þá grípa mig... ef ég ýti á... senda?

"Og frá hverjum er þetta?" spyr mamman.

"Hvurjum heldurru.... afa audda."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Broken Hearth Syndrome. Kanski kvalafyllsti kvilli sem til er.

Finnur Bárðarson, 16.10.2009 kl. 16:50

2 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Nei alls ekki, ég vildi að einhver sendi mér slík bréf, reyndar hef ég fengið eitthvað langt frá þessu á emaili og hef ekki treyst því fetið, svo gleymið þessu bara :)

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 16.10.2009 kl. 19:16

3 Smámynd: Brattur

Satt er það að fólk er enn rómantískt... guði sé lof... ástarbréf standa fyrir sínu hvort sem þau eru handskrifuð eða send með tölvupósti eða hvernig sem er... Slík bréf geta verið mjög falleg komi innihaldið frá hjartanu...

Brattur, 16.10.2009 kl. 19:22

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Mér líka,  þ.e. sendibréfið er einlægari miðill  (handskrifað með koparstungu) þó Script forritin í Word komist nálægt henni.  Þrátt fyrir að ástvinir og vandamenn séu allir með e-mail, eyði ég heilli kvöldstund í jólaglöggi og kardimommum að skrifa árlegt "2 bls. jólabréf", handskrifuð umslög, og sérvalin frímerki. 

Þessir ástvinir, hafa sagt mér að "þetta" bréf sé opnað með viðhöfn á aðfangadagskvöld og lesið upphátt!  (krúttlegt)  Komst að því að þetta er satt, því í einu jólabréfinu boðaði ég alla í Þorláksmessuhitting  á skautasvellið á Ingólfstorgi og  Ara í Ögri á eftir í súkkulaði og romm.  Fámennt á skautunum, en náði að fanga nokkra á göngu upp Bankastrætið sem voru að spóka sig.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 17.10.2009 kl. 02:51

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er svo sem enginn munur, nema að formi, á bréfum sem skrifuð eru á pappír og send með pósti og ímeilbréfum. Það er líka hæglega hægt að gera uppkast að bréfum í wördi og senda þau sem ímeil. Það geri ég oft. Og það er hægðarleikur að prenta út ímeil þó þeim pósti sé kannski eytt að lokum inni í tölvunni. Það eina, sem þarna gæti truflað, er að aðrir en viðtakandinn gætu komist í tölvupóstinn eins og frægt hefur orðið!

Annars eru ástabréf, sem koma manni ekki sjálfum við, einhver væmnasta vella og froða sem hægt er að hugsa sér! Það er líka oft eins og bréfritari hafi misst glóruna og kannski er það einmitt svo.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.10.2009 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband