Færsluflokkur: Trúmál

Trúleysi eyðanna

Brösuglega gengur að sannfæra trúlausa um að alheimurinn eigi sér upphaf. Stóri hvellur þarf í augum þeirra sumra ekki að vera neitt upphaf, heldur er á þeim að skilja að handan hans séu aðrir heimar og aðrar víddir, sem orsökuðu þennan heim. 

Aðrir segja að fjöldamörg tilfelli orsaka og upphafslausra hluta séu til í þessum heimi. Þess vegna sé spurningin "af hverju" alls óviðeigandi í vissum tilfellum því eina svarið sem sé mögulegt er  "af því bara".  Af þeim má skilja að ekkert sé víst að alheimurinn sjálfur eigi sér upphaf. Lögmálið um orsök og afleiðingu eigi ekki lengur við og í stað þess er komið "trúleysi eyðanna."

Aðrir vilja meina að efniseindir (frumeiningar og byggingarefni frumeinda) séu ósamsettar og því sé ekki hægt að draga þá ályktun að þær hafi átt sér upphaf heldur hafi ætíð verið til, jafnvel áður en alheimurinn varð til. Þeir tala um virk eðlislögmál áður en tími, rúm og efni urðu til.

Þau eðlislögmál hljóta að vera óháð tíma rúmi og efni sem fyrst urðu til eftir að alheimurinn varð til. Þegar blandað er saman við þessar pælingar góðum skammti af skammtafræði og spekúleringum um aðrar víddir erum við komin grunsamlega nálægt því sem nýaldarsinnar þekkja vel úr sínum fræðum um eðli andlegra heima og samspil þeirra og efnisheimsins.


Frumorsökin útskýrð

Í trúmálaumræðunni hér á blogginu þreytast trúlausir aldrei á að fullyrða að engar sannanir eða góð rök séu til sem bendi til tilvistar Guðs. Þeir viðurkenna samt yfirleitt að þeir útiloki ekki tilvist hans en þeim finnist bara ólíklegt að hann sé til. 

Ef færa skal rök fyrir tilvist einhvers er nauðsynlegt að skilgreina það.

Til þess að leiða líkur að tilvist Guðs er best að notast við skilgreiningu sem gerir ráð fyrir minnstu mögulegum skilyrðum fyrir guðdómi.

Við erum sem sagt að tala um guðdóm sem er að minnsta kosti; frumorsök allra hluta og sem sjálf á ekkert upphaf, hvað annað sem hún kann að vera.

Allt í hinum þekkta alheimi er samsett. Því er líklegt að allt sem tilheyrir alheiminum sé samsett.

Samsettir hlutir geta ekki verið til án þess að einingarnar sem þeir eru saman settir úr séu þegar til staðar. Þess vegna getur alheimurinn ekki hafa skapað sig sjálfur.

Ef að alheimurinn skapaði sig ekki sjálfur hefur eitthvað annað gert það sem stendur fyrir utan alheiminn og er frumorsök alls þess sem tilheyrir alheiminum.

Sé til fyrirbæri sem er frumorsök alls segir það sig sjálft að ekkert orsakaði það sjálft.

Slíkt fyrirbæri uppfyllir rökfræðilega þau skilyrði sem við settum fyrir Guðdómi.


Skammarlegar ofsóknir

birta_mynd_storÍrönsk yfirvöld ásaka þau fyrir að njósna fyrir Ísrael. Þrjár konur og fjórir karlmenn, miðaldra íranskt fjölskyldufólk,  voru sótt heim til sín um miðja nótt í Maí 2008 og hafa setið í fangelsi  í rúm tvö ár. Nú hefur dómur loks verið kveðinn upp. Í 20 ár skulu þau dúsa í fangelsi.

Stjórnvöld í Íra hafa löngum haft horn í síðu stærsta minnihlutahópsins í landinu, Bahaía og ofsótt hann frá því að hann varð til 1844.  Þetta Fólk tilheyrir honum.

Fangarnir – Fariba Kamalabadi, Jamaloddin Khanjani, Afif Naeimi, Saeid Rezaie, Mahvash Sabet, Behrouz Tavakkoli og Vahid Tizfahm – voru allir meðlimir þjóðarnefndar sem sinnti lágmarksþörfum bahá’í samfélagsins í Íran. Samfélagið telur um 300.000 meðlimi og er stærsti trúarminnihluti landsins.

Sjömenningarnir höfðu setið um 20 mánuði í fangelsi áður en þeir voru fyrst leiddir fyrir rétt 12. janúar síðastliðinn. Allan þann tíma fengu þeir að ræða við lögfræðing sinn í tæpa klukkustund.

Réttað hefur verið stuttlega yfir þeim fimm sinnum síðan en réttarhöldum lauk 14. júní. Bahá’íarnir voru m.a. ákærðir fyrir njósnir, áróðursstarfsemi gegn islam og stofnun ólöglegrar stjórnar. Öllum ákærum var undantekningarlaust vísað á bug.

Ekki snefill af sönnunargögnum var lagður fram við réttarhöld þeirra sem fóru fram fyrir luktum dyrum. Stjórnvöld voru heldur ekki að hafa fyrir því að tilkynna neinum um að þau hefðu hlotið dóm. Vitneskjan um dóminn barst í gegnum lögfræðing þeirra.

Mannréttindasamtök og stjórnvöld víða um heim, meðal annars mannréttindavakt Sameinuðu þjóðanna hafa fordæmt handtökurnar.


mbl.is Bandaríkin skora á Írana að fresta aftökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Níu bloggsíðum lokað í kjölfar trúardeilna á blog.is

Svo virðist sem blog.is hafi loks tekist að þagga niður í Greflinum (Guðbergi Ísleifssyni) . Eins og bloggarar á þessum slóðum vita, var bloggsíðum hans lokað í kjölfarið á trúarrifrildi við Kristinn Theódórsson sem rekur trúarþrasvöll mikinn hér á blogginu.

Af blog.is var helst að skilja að Guðbergur væri tröllabloggari og því ekki húsum hæfur en skírskotaði þó að mestu til almennra notkunarreglna sem gilda á svæðinu.

Grefill undi lokununum illa og reyndi halda áfram bloggi í gegnum síðu félaga síns Kristjáns Sigurjónssonar. (Grefilinn sjálfur)  Það endaði með að blog.is lokaði fyrir lánsíðuna og einnig einkasíðu Kristjáns, kiddi.blog.is. -

Guðbergur leitaði þá næst á náðir frænda síns, Steindórs Friðrikssonar sem aldrei hefur bloggað hér á blog.is og fékk hann til að opna síðuna ofbeldi.blog.is með það í huga að fjalla um Grefilsmálið.

Þeirri síðu var umsvifalaust lokað af blog.is. 

Í þokkabót var svo lokað á ip tölu tölvu Guðbergs sem gerir honum ómögulegt að gera athugasemdir á blog.is úr henni.

Síðurnar sem blog.is hefur lokað vegna Grefils eru því nú orðnar níu, sex á kennitölu Guðbergs sjálfs, tvær á kennitölu félaga hans Kristjáns og eina á kennitölu frændans, Steindóri.

Guðbergur segir að persónulega hafi sér ekki borist viðvaranir eða neinar skýringar frá blog.is um ástæður fyrir lokuninni.


Ástæðurnar fyrir að sex bloggum Grefils var lokað

Þá er loks komið á hreint, alla vega frá sjónarhóli stjórnenda blog.is, hvers vegna lokað var einum sex bloggsíðum Grefils (Guðbergs). Að fengnu samþykki Guðbergs birti ég hér svar blog.is við fyrirspurn minni um ástæður lokunarinnar.

Sæll Svanur,

Vegna fyrirspurnar um lokanir blogga er rétt að eftirfarandi komi fram almenns eðlis:

Útgáfufélagið Árvakur á og rekur vefsvæðið blog.is. Á blog.is gilda fáir og einfaldir notkunarskilmálar sem notendur svæðisins gangast undir gegn því að fá ókeypis aðgang að svæðinu. Þessa skilmála er að finna hér: http://blog.is/forsida/disclaimer.htmlen að öðru leyti vísast til íslenskra laga, svo sem 25. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (http://www.althingi.is/lagas/nuna/1940019.html) sem gilda á vefsvæðinu eins og annars staðar.

Eigandinn, Árvakur, áskilur sér vitanlega rétt til að sjá til þess að farið sé að lögum og eigin reglum á svæði fyrirtækisins. Notandi sem kýs að gera það ekki, þarf að finna sér annan vettvang fyrir blogg sitt. Umsjónarmenn blog.is er þó mannlegir og vilja gjarnan gefa mönnum kost á að bæta ráð sitt þegar um stöku afmörkuð tilvik er að ræða. Notandinn fær þá senda áminningu frá umsjónarmönnum blog.is um að halda sig innan marka. Í allnokkrum tilvikum er þó ákveðið að loka fyrirvaralaust á notanda. Það er gert þegar um margítrekuð brot er að ræða og ábendingar hafa ekkert að segja. Það er einnig gert þegar notandi misnotar vefsvæðið, til dæmis með atgangi sínum, framkomu gagnvart öðrum notendum, sífelldum tilhæfulausum fréttatengingum, ruslpóstsendingum eða að hann villi á sér heimildir, sé svokallað "tröll".

Rétt er að geta þess að notendur vefjarins blog.is eru rösklega 20 þúsund talsins. Í síðustu viku, sem var þó heldur róleg, voru birtar á vefnum nærri 2000 færslur og um 5500 athugasemdir.  Ógerningur er fyrir umsjónarmenn að fylgjast með öllum bloggum og athugasemdum á vefsvæðinu og vart ástæða til. Ábendingar notenda  um það sem miður fer eru okkur því mikilvægar.  En notendur blog.is gera eðlilega ríkar kröfur til þess að þar geti farið fram heilbrigð skoðanaskipti og umræður, hvort sem þeir kjósa að taka þátt í umræðunni eða ekki.

 

Varðandi lokun á bloggarann Grefil (vinsamlegast fáðu samþykki hans ef þú hyggur á birtingu):

Ég tók um helgina ákvörðun um lokun á sex blogg Grefils, án samráðs við nokkurn mann eða félagasamtök(!), og sú ákvörðun stendur.  Grefli sendi ég afrit af öllum hans bloggum um leið og tilkynnt var um lokunina og óskaði honum velfarnaðar á öðrum vettvangi.  Um ástæður lokunarinnar vísast til þess sem segir almenns eðlis hér að framan.  Rétt er, að ég hafði ekki áður sett mig í samband við Grefil og lokaði því fyrirvaralaust. Rangt er, að umsjónarmenn blog.is (þ.e. ég, aðrir umsjónarmenn eða einhverjir okkur tengdir) hafi sett skoðanir hans fyrir sig eða látið stjórnast af einhvers konar okkur óviðkomandi félagsskap.  Á blog.is er sem betur fer að finna mikið litróf skoðana, sem kemur í sjálfu sér okkur umsjónarmönnunum ekkert við. Notkun vefsvæðisins kemur okkur hins vegar við, að þar sé farið að lögum og reglum og að þar sé að finna eftirsóknarverðan umræðuvettvang.


Með kveðju,
Soffía - blog.is


Grefill fær lánaða bloggsíðu á blog.is

Áfram heldur bloggsápan um þá Kristinn Th. og Grefil. Margir munu telja þessa uppákomu storm í vatnsglasi en fyrir þeim Kristni og Grefli er þetta mikið alvörumál. Nokkrir bloggarar, þar á meðal ég, hafa fjallað um málið og hafa þeir félagar verið duglegir við að hnýta í hvern annan í löngum athugasemdahölum.

Um hríð virtist sem sættir væru að nást, en þær fóru út um þúfur. Nú hefst væntanlega nýr kafli því það nýjasta í söguþræðinum sem hófst með illa skipulögðum og enn ver útfærðum kappræðum á síðu Kristins, er að Grefill hefur fengið að láni vefsíðu og kennitölu félaga síns Kristjáns Sigurjónssonar og bloggar nú þar undir heitinu Grefillinn sjálfur.


Herra trúaður

Klerkar heimsins eru samir við sig, sama hvaðan þeir koma og hverrar trúar þeir eru. Þeir hefja sig upp í predikunarstólana yfir almúgann til að leiða hann í allan sannleikann og þykjast hafa til þess eitthvert umboð í krafti almættisins. Eins og verða vill afvegaleiða þeir marga, enda aðeins breyskir menn, þegar allt kemur til alls. 

Trúarskilningur klerka nær yfirleitt afar stutt, svona rétt ofaní eigin buddu.  Alla vega aldrei það langt að þeir sjái að í þeirra eigin trúarritum er staða (klerkastéttin)  þeirra yfirleitt fordæmd og ekki stafkrók þar að finna sem réttlætt gæti sjálftöku þeirra á guðlegu umboði til  túlkunar trúarinnar fyrir aðra eða einhverra embættisverka yfirleitt.

Í Malasíu keppa þeir í þessum ófögnuði um " Imam Muda" titilinn í nokkurskonar raunveruleika þáttum. Sigurvegarinn þetta árið heitir Muhammad Asyraf Mohd Ridzuan og hlýtur að launum stöðu sem bænakallari í einni af helstu moskum Kuala Lumpur. Þá fær hann frýja pílagrímsferð til Mekka, styrk til náms í Sádi Arabíu, nýjan bíl, fartölvu og eitthvað af reiðufé. Allt eru þetta fín verðlaun fyrir það að geta tónað kóraninn. -


mbl.is Krýndur „Ungur trúarleiðtogi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var ekki Snorri Þorgrímsson búinn að afgreiða þetta?

Alltaf er það jafn fróðlegt að fylgjast með kjánalegum birtingarmyndum hjátrúar og fáfræði í samfélögum sem eiga að teljast siðmenntuð og uppfrædd.- Fyrir rúmum þúsund árum þegar að "kristnitökuhraunið" vall sögðu heiðnir menn að goðin væru reið vegna þess að Íslendingar hugðust taka kristni. Snorri goði Þorgrímsson afgreiddi málið með einni setningu sem flestir Íslendingar kunna í dag; "Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?"

Árið eitt þúsund tókust menn á um trúarbrögð á Alþingi á Þingvöllum. Stefndi allt í voða því hvorki kristnir menn né heiðnir vildi gefa eftir. Þegar deilurnar stóðu sem hæst kom maður hlaupandi og sagði að jarðeldur væri kominn upp í Ölfusi og stefndi í að hraun rynni yfir bæ Þórodds goða. Heiðnir menn drógu þá ályktun að jarðeldurinn væri vitnisburður um reiði goðanna, þannig væru þau að koma fram hefnd fyrir yfirgang hinna kristnu. En þá mælti Snorri goði Þorgrímsson hin fleygu orð: "Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?" Snorri virðist því ekki aðeins telja jarðelda af öðrum toga en reiði guðs eða guða, heldur einnig að jörð sú sem hann standi á hafi ekki sprottið fram fullsköpuð við sköpun heimsins. Þetta viðhorf Snorra telst mjög óvenjulegt á miðöldum og Sigurður Þórarinsson hefur kallað orð hans við þetta tækifæri "fyrstu jarðfræðiathugunina".

Snorri goði var líklega á undan samtíð sinni hvað þetta varðar, og það leið langur tími þar til fræðilegar skýringar á náttúruhamförum voru almennt á dagskrá. Kristnin sigraði á Íslandi og heimsmynd kaþólsku kirkjunnar skaut föstum rótum í þjóðlífinu.


mbl.is Gosið endurspeglaði reiði Guðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Albínóar United

albino1Heimsmeistaramótið í Knattspyrnu hefur orðið til að vekja athygli á lífi fólks víða um Afríku, ekki aðeins í tengslum við fótboltann heldur einnig almenna menningu Afríkulandanna. Ein athyglisverðasta sagan sem ég hef heyrt er samt tengd fótbolta og galdratrú.

Í Tansaníu og reyndar víðar í Afríku ríkir sú hjátrú að líkamshlutar albínóa búi yfir miklu töframætti. Talvert hefur verið um að Albínóum sé rænt, þeir drepnir og galdramönnum seldir líkamar þeirra til að nota i seyði sína eins og lesa má um hér. 

Síðasta haust fékk kaupsýslumaðurinn Oscacr Haule þá hugmynd að hægt væri að berjast gegn fáfræði og hjátrú í tengslum við Albínóa ef þeir yrðu gerðir sýnilegri í samfélaginu við iðju sem allir könnuðust við.

Albino 2Oscacr tók sig til og stofnaði knattspyrnulið eingöngu skipað albínóum.

Liðið var fyrst kallað Töfralið Albínóa. En sú nafngift virkaði andstætt tilgangi liðsins og var fljótt breytt í Albino United. 

Liðið ferðast nú um Tansaníu og spilar fótbolta við hin ýmsu lið við góðar undirtektir.

 


Hermenn skynseminnar

Í samskiptum mínum við trúlausa síðustu daga, einkum þá sem tilheyra félagskapnum Vantrú, hef ég orðið margs vísari. Rökræður og orðaleikfimi eru þeirra ær og kýr sem eftir nokkra snúninga reynast öllu magrari en þeir vilja vera láta. Sumir líta greinilega á sig sem hermenn skynseminnar og virka því dálítið árásargjarnir og stífir. Kannski er það lærfeðrunum Dawkins og Hitchens að kenna sem frægir hafa orðið fyrir þennan háttinn.

Þeir vilja ólmir fá að teikna skopmyndir af guðsmönnum. Þegar þeim er bent á að slíkt athæfi feli í sér háð og spott sem lög landsins vernda fólk fyrir, kalla þeir það gagnrýni. Þeim er fyrirmunað að skilja hvernig hægt er að taka tillit til þess að eitthvað getur sært fólk sem ekki veldur því beinum líkamlegum skaða. Lífsleikni hlýtur að vera þeim framandi hugtak.

Samt eru þeir sjálfir afar hörundsárir og bregðast ókvæða við með miklum greinarskrifum og persónuárásum ef þeim er sjálfum strítt, hvort sem er með gagnrýni eða háði,  eins og viðbrögð við grein minni "Vantrú á Vantrú" ber vitni um.

Þeim virðist fæstum vera það ljóst að stærsti hluti trúaðra hefur ekki tileinkað sér trúarleg viðhorf sín af ást til Guðs eða mannkynsins, heldur af ótta sem á sér djúpar rætur í mannlegu eðli. Ekki af ótta við Guð, heldur dauðann, hið óþekkta, að finna sig einan í alheiminum og að lífið sé tilgangslaust. Sá ótti er fylgifiskur vitmunanna og getur þegar best lætur, verið kveikjan að viðleitni sem snýr óttanum upp í andhverfu sína, þ.e. þekkingar og  ástar til Guðs og mannkynsins.

Óttanum tekst trúuðum oft að bægja frá með trú á æðri máttarvöld sem gæta þeirra, hlusta á bænir þeirra og gefur þeim eilíft líf að jarðvist lokinni.

Margir trúlausir segjast hafa lært að lifa með sínum ótta. Þeir hafa enga trú og enga þekkingu sem kemur í stað hennar. Er það kannski það sem hefur forhert huga þeirra og hjörtu? Hvers vegna virðast þeir líta svo á að bein árás á það sem trúaðir álíta grunnstefin í lífi sínu, allt það sem þeir álíta satt og gott, sé besta aðferðin til að koma trúleysis-málstað sínum á framfæri? 

Fyrir það fyrsta er skynseminni og rökhyggju manna takmörk sett. Hún leysir ekki allar gátur lífsins, ekki einu sinni gátur sem ætlast er til að hún geti leyst eins og t.d. mótsögn Russells.

Í öðru lagi kallar bein árás oftast á varnarviðbrögð. Fólki finnst sér ógnað og algengustu viðbrögðin eru að það hættir að hlusta (lesa). Því meira sem trúlausir hamast, því minna heyrir viðmælandinn.

Í þriðja lagi réttlæta ekki ofsafengin viðbrögð sumra trúaðra við háði og spotti, háð og spott. Að beita fyrir sig skýrskotunum til mikilvægi tjáningarfrelsins er að afvegaleiða umræðuna. Háð og spott er aldrei til góðs, það er hluti af vandmálinu, ekki lausninni. Tjáningarfrelsinu, eins og öllu öðru frelsi, fylgir sú ábyrgð að nota ekki frelsi sitt til að gera öðrum viljandi miska.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband