Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
10.9.2009 | 23:39
Börnin neydd til að tyggja og gleypa smokka
Þetta er kort af næst stærstu eyju í heimi, á henni eru stærstu ókönnuðu svæðin í heiminum og þar er að finna fjölbreyttustu náttúru sem um getur.
Landið sker sig úr frá öðrum þjóðlöndum jarðarinnar þar sem menningin verður einsleitari með hverju ári sem líður.
Á Nýju-Gíneu er að finna 1000 tungumál, 12.000 mismunandi menningarsamfélög, afar fjölbreytt landslag og plöntu og dýralíf. Fjallstopparnir eru snævi þaktir allt árið í kring, enda var hlegið af Hollendingnum sem fyrstur sagði frá því árið 1623 að til væru jöklar í hitabeltinu.
Nýlega var sýnd fræðslumynd um Nýju-Gíneu á BBC þar sem sjá mátti ómannfælnar risarottur narta í laufblöð,(komst í heimspressuna) fossa sem féllu út úr hellum og ár sem runnu inn í þykkan regnskóg sem virtist ósnertur af manna höndum með öllu. Það var auðvelt að ímynda sér að þarna væri í það minnsta kosti eitt land á jarðríki sem mennirnir hefðu ekki eyðilagt með græðgi sinni, mengað árnar með kvikasilfri og spillt dýralífinu.
En sannleikurinn er að það er sótt að Nýju-Gíneu og íbúunum sem nú telja 7.1 millj. úr öllum áttum. Hitnun jarðar veldur því að jöklarnir eru að bráðna, skógarhögg gengur nær skógunum en nokkru sinni fyrr og andi nýlenduþjóðanna svífur yfir vötnunum.
Landið skiptist í tvö ríki. Vestur Papúa er vestri hluti eyjarinnar sem áður var nýlenda Hollendinga, en þar ræður Indónesía.
Eystri hluti hennar Papúa í Nýju Gíneu fékk sjálfstæði frá Ástralíu (og Bretlandi) 1975 þótt drottningin sé þar enn þjóðhöfðinginn.
Eins og segir í fréttinni hér að neðan herja farsóttir á innfædda um þessar mundir, sérstaklega í Papúa á Nýju Gíneu. En það hafa aðrar plágur, öllu alvarlegri, herjað á þá íbúa Papúa sem minnst mega sín, þ.e. börnin. Því miður hefur farið lítið fyrir þeim í fréttum fjölmiðla heimsins.
Mannréttindavakt SÞ hefur nýlega látið semja sérstaka skýrslu um þessa plágu sem grafið hefur um sig einkum á meðal lögreglu landsins. Í henni er fullyrt að Lögreglan í Nýju Gíneu stundi að fangelsa börn, berja þau, nauðga þeim og pynda þau.
Mannréttindavaktin hefur farið þess á leit við stjórnvöld að þau grípi þegar til aðgerða til að stöðva miskunnarlaust ofbeldi gegn börnum í vörslu lögreglunnar.
Í skýrslunni er að finna heimildir um börn bæði stúlkur og drengi, sem hafa verið skotin, sparkað í, og barin með; byssuskeftum. járnrörum, trékylfum, hnefum og gúmíslöngubútum. Sum þeirra voru neydd til að tyggja og gleypa smokka.
Vitni lýsa í skýrslunni nauðgunum á börnum á lögreglustöðum, í bifreiðum, svefnskálum og annarsstaðar. Þau eru einnig fangelsuð til langs tíma og neitað um læknishjálp eða aðstoð.
Mannréttindavaktin hefur einnig skorað á stjórnvöld Ástalíu sem veita allmiklu fé í þróunarhjálp til landsins, að beita sér fyrir að stjórnvöld í Nýju-Gíneu taki á þessum óhugnanlegu málum.
![]() |
Neyðarástand á Papúa Nýju-Gíneu vegna farsótta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 11.9.2009 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.9.2009 | 03:27
Japanir taka af lífi gamalmenni á áttræðis aldri.
Eftir að hafa borðað morgunmat á jóladag árið 2006 var þremur öldruðum japönskum föngum og miðaldra fyrrum leigubílstjóra tilkynnt að þeir yrðu hengdir eftir klukkustund. Þeim var skipað að hreinsa klefa sína, biðja bænir sínar og skrifa erfðaskrár sínar.
Einn þeirra, Fujinami Yoshio, 75 ára fangi á dauðdeildinni skrifaði á snepil sem hann sendi til stuðningsfólks síns, áður en honum var ekið að gálganum í hjólastól; "Ég get ekki gengið sjálfur, ég er veikur, samt getið þið fengið ykkur til að drepa slíkan mann. Ég ætti að vera sá síðasti."
Japanir hafa löngum haft orð á sér fyrir að vera ólinir við sakamenn. Í Japan enda 99% af málum sem koma fyrir dóm með sakfellingu hins ákærða. Þá er einnig til þess tekið að stærsti hluti ákærðra játar á sig glæpinn.
Í Japan er dauðarefsing enn við lýði og nýtur mikils fylgis meðal almennings en 102 fangar bíða nú aftöku á dauðadeildum ríkisins. Margir þeirra eru háaldraðir og hafa verið geymdir í einangrun í tugi ára.
Aðstaða þeirra er svo skelfileg að Amnesty International (AI) hefur nýlega sent frá sér greinagerð þar sem fullyrt er að margir þeirra séu þegar orðnir geðveikir af vistinni. AI fer fram á að öllum aftökum í landinu verði frestað og gengið verði úr skugga um geðheilsu fanganna þar sem alþjóðleg lög kveða á um að ekki megi taka af lífi geðveika einstaklinga. Þá geri japönsk lög ráð fyrir hinu sama.
Talsmaður IA telur að meðferð fanganna á dauðdeildunum einkennist af "þögn,einangrun og algeru tilvistarleysi".
Fangar eru látnir vita af aftöku sinni með mjög skömmum fyrirvara. Þeir fá aðeins að hreyfa sig þrisvar í viku en verða þess á milli að sitja kyrrir í klefum sínum. Samskipti við aðra fanga eru engin. Af þessum sökum þjást þeir af geðsjúkdómum og ímyndunum.
Frá 1. janúar 2006 til 1. Janúar 2009 hafa 32 fangar verið teknir af lífi Japan. 17 þeirra voru eldri en 60 ára. Fimm voru á áttræðisaldri.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
9.9.2009 | 11:36
Þá hlógu allir í helvíti
Ísland og íslendingar er óðum að missa sakleysi sitt. Vígin falla eitt af öðru fyrir því sem hjörtun þrá, peningum.
Við höfum lengi óhreinkað sál og orðstý landsins með að nota hreina orku þess til að framleiða ál, m.a. fyrir hergögn, orðið rík þegar ófriður geisar og verðið hækka og snúið okkur undan í ólund þegar friðsamt var, því þá lækkaði álverðið aftur.
Bein þátttaka landsins í styrjöldum þótti eitt sinn fjarlægur möguleiki. Svo gerðist Ísland aðili að árásarstyrjöld í von um að geta mjólkað Bandaríkjaher dálítið lengur, en það reyndist á endanum vafurloginn einn. Samt tókum við þátt í flytja hergögnin, sendum Herdísi hermann til að herja og leyfðum flugvélum á leið að sprengja Íraka að millilenda hér.
Nú höldum við áfram að kanna þennan dimma veg sem stríð og átök heimsins eru og spreytum okkur á hergagnagerð. Þetta eru sérstakir bílar fyrir norska herinn til að nota í austurlöndum. Loksins fannst iðnaður sem er landi og þjóð sæmandi, og arðvænlegur líka. Miklar vonir bundnar við að fleiri vopnaskakarar bíti á krókinn. Enn er það náttúra Íslands sem er dreginn upp úr svaðinu með að nota hana til að prófa stríðs-djásnin. Nei, þetta eru ekki morðtól, kunna sumir að segja. Þá hlógu allir í helvíti.
Auglýsing frá Arctic Trucs sem birtist m.a. á þessari hergagnasölusíðu.
Arctic Trucks offer a range of modifications for 4x4 light wheeled vehicles for special missions as Medevac, patrolling, MP, law enforcement, liaison, escort, EOD services, dog transport and so forth. Arctic Trucks modifications enhance extreme off-road mobility for military organizations, humanitarian aid, rescue organizations and companies who must be able to operate in complex environments under the most rigorous conditions. One of the 4x4 modification is the High Mobility Multi Purpose G290 light wheeled vehicle. The G290 is one of the world's most sold vehicle for military purposes in its class. The rigid chassis and drive line allows large wheels to be fitted, thus improving the mobility greatly. The basic construction of the G-class, combined with accessibility of spare parts world wide, makes the G-class superb as a platform for military purposes. The High Mobility editions are combat proven in many operations and over many years with excellent results.
![]() |
Íslendingar selja norska hernum sérútbúna jeppa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.9.2009 | 00:50
Lýðskrumarinn
Mesta list lýðskrumarans er að gefa aldrei til kynna hvar hann í raun og veru stendur. Hann reynir því eftir bestu getu að leyna raunverulegum áformum sínum og stefnu ef hann yfirleitt hefur hana umfram að púkka undir eigin rass.
Lýðskrumarinn höfðar í málflutningi sínum til fordóma, vanþekkingar, tilfinninga, ótta og vona almennings, til að auka pólitísk áhrif sín og völd. Dæmigerður lýðskrumari bryddar aldrei upp á neinu nýju sjálfur. Hann býður eftir að kröfur almennings eða flokksins verða ljósar, og stekkur þá á vagninn sem vinsælastur er, eftir að hann er kominn af stað. Þessi hér heitir David Cameron og er leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi.
Þegar að fólk segist óttast hitnun jarðarinnar, fær hann sér reiðhjól og lætur einkabílstjórann sinn aka bílnum sínum á eftir sér.
Þegar að fólk sá s.l. vor að fjölmargir þingmenn höfðu svindlað aukagreiðslur út úr sjóðum ríkisins lagði hann til að þingmönnum yrði fækkað.
Árslaun breskra þingmanna eru 62-3 þúsund pund. Það er svipað og miðstjórnendur í meðal stórum fyrirtækjum fá.
Sjálfur er David vellauðugur og þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum.
Bretar urðu fyrir miklu áfalli í vor þegar í ljós kom að þingmenn landsins fengu miklar greiðslur fram yfir laun sín. Einnig kom í ljós að nokkuð margir þingmenn höfðu misnotað almenningsjóði með að biðja þingið um að borga fyrir hina ólíklegustu hluti fyrir sig. Þingmenn og konur úr öllum flokkum urðu uppvís að þessu. Þarna eygði David tækifæri. Þessi ræða hans sem fréttin fjallar um eru viðbrögð hans við kröfu almennings um heiðarlegri stjórnmálamenn.
Íhaldsflokkur Davids skorar hærra í dag í skoðanakönnunum en hann hefur gert til fjölda ára. Öllum er ljóst að jálkurinn Brown getur ekki unnið kosningarnar sem eru á næsta leiti. En marga hryllir samt við að fá David Cameron yfir sig. Líklega verður gerð enn ein aðförin að Brown fljótlega, og nýr foringi Verkalýðsflokksins fundinn. Mín spá er að það verði Jack Straw. Ef aðförin að Brown tekst ekki mun David verða næsti forsætisráðherra Bretlands.
![]() |
Þing og ráðherrar spari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.9.2009 | 19:09
He he he..Kongó
Það er fróðlegt að bera saman viðbrögð fólks og fjölmiðla við þessari frétt af norsku málaliðunum í Kongó og fréttinni þegar að Lockerbie tilræðismanninum var sleppt. Þær virðast í fljótu bragði vera alls óskildar en eru samt tengdar á ákveðin hátt.
Í Kongó var verið að dæma tvo málaliða til dauða fyrir morð og njósnir. Af því landið heitir Kongó þar sem siðgæðið er ekki upp á marga fiska, er þetta allt sagt einhver sýndarmennska og lítt dulbúnar tilraunir til að kúga fé út úr norsku ríkistjórninni. Einhver lögmaður var svo vitlaus að setja allt of háa upphæð í lausnargjaldskröfuna, eða sem nam tekjum Norðmanna af olíuauðlindum sínum og varð aðhlátursefni fyrir bragðið.
Hins vegar þótti það ekkert fyndið þegar ljóst varð að líbýska leyniþjónustumanninum sem grandaði farþegum þotunnar fyrir ofan Lockerbie í Skotlandi, var skilað heim í staðinn fyrir réttindi BP til að vinna gas og olíu í Líbýu.
Eins og við vitum, hafa Bretar sett heimsstaðalinn í hvað er spilling og hvað ekki. Þar á bæ þykir ekki mikið að fórna réttlæti ættingja og aðstandenda fórnarlamba Lockerbie morðanna, fyrir aðgang að olíu. Líbýa var tilbúin að greiða umtalvert lausnargjald fyrir sinn mann og Bretar tilbúnir að horfa fram hjá rétti sinna þegna.
Er nokkur furða að Kongóbúar hugsi sem svo; svona gerast kaupin á eyrinni.
![]() |
Norðmenn dæmdir til dauða í Kongó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.9.2009 | 00:27
Kona til að kúga konur
Hversu margar harðlínu kvensur getur Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, sem er slóttugur pólitíkus, fundið til að gegna embætti menntamálaráðherra? Sú sem hann útnefndi áður var hafnað af þinginu en hann er greinilega staðráðin í að fá konu til að halda uppi stefnu misréttis og kúgunar gegn konum í Íran.
Írönsk stjórnvöld hafa lengi verið gagnrýnd fyrir að vera skeytingarlaus um réttindi kvenna. Það er ekki langt síðan að þau létu hengja konur fyrir það eitt að kenna börnum sínum að lesa, þegar þeim hafði verið neitað um að ganga í skóla rétttrúaðra múslíma. - Nú ætlar Ahmadinejadn en að freista þess að slá vopnin úr höndum gagnrýnenda sinna og fá konu þ.e. Fatemeh Alia til að stjórna kúgun kvenna í Íran.
![]() |
Ahmadinejad útnefnir aðra konu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.9.2009 | 04:04
Hið dularfulla sjórán á Arctic Sea
Í júlí mánuði sigldi skipið Arctic Sea frá Finnlandi með rússneska áhöfn innanborðs. Förinni var heitið til Alsír og um borð var samkvæmt farmskjölum; timbur talið ca. tveggja milljóna dala virði. Nokkrum dögum síðar var tilkynnt um hvarf skipsins og síðan að skipinu hefði verið rænt af sjóræningjum. Ef rétt reynist er þetta fyrsta sjóránið á þessum slóðum í nokkur hundruð ár.
Mjög fljótlega varð ljóst að ekki var allt sem sýndist. Upp spruttu sögur um að skipið hefði einhvern allt annan farm en farmskjölin segðu til um.
Það sem gerst hefur síðan er að skip úr rússneska flotanum hafa fundið Arctic Sea og mennirnir sem komu um borð í skipið þann 24. júlí hafa verið ákærðir fyrir mannrán og sjórán. Skipsstjórinn og áhöfnin eru einnig enn í haldi og hver sem farmurinn var, hefur hann verið kyrrsettur.
Við fyrstu leit fannst ekkert óvenjulegt í lestum skipsins og nú hafa rússnesk yfirvöld gefið út yfirlýsingu sem sjálfsagt verður að duga sem endanleg skýring á því sem gerðist. Þetta var tilraun til sjóráns sem rússneski sjóherinn kom í veg fyrir án þess að skoti væri hleypt af.
Ýmis smáatriði sem virka ruglandi eru látin óskýrð og þess vegna grunar marga að sannleikurinn sé öllu vafasamari. Bent hefur verið á þann möguleika að Arctic Sea hafi verið að flytja vopn til mið-austurlanda og skipið hafi verið stöðvað af Ísraelsmönnum.
Sá sem er hvað fróðastur um málið er án efa sérfræðingur ESB um sjórán; Tarmo Kouts aðmíráll frá Eistlandi . Hann segir að ef farmurinn hafi verið flugskeyti geti það skýrt furðulega hegðun Rússa þennan mánuð sem atburðirnir áttu sér stað.
Kouts segir að lang-líklegast sé að Ísraelsmenn hafi stöðvað skipið. Þeirri útgáfu hafa rússnesk yfirvöld mótmælt kröftuglega og fulltrúi Rússa hjá NATO, Dmitri Rogozin hefur sagt að Kouts eigi að "hætta þessari munnræpu".
Útgáfan frá Moskvu er svona; Arctic Sea, mannað rússneskri áhöfn, sigldi frá Finnlandi þann 22. júlí undir maltneskum fána á leið til Alsír. Um borð var timbur sem var tveggja milljóna dollara virði. 24. júlí réðust átta fyrrum rússneskir mannræningjar um borð.
Tækið sem gaf til kynna staðsetningu skipsins var tekið úr sambandi í enda mánaðarins þegar að skipið sigldi út úr Ermasundi út á Atlantshaf og hvarf svo eftir það. 12. ágúst sendi rússneski sjóherinn skip á vettvang til að leita að Arctic Sea. Viku seinna lýstu Rússar því yfir að skipinu og áhöfninni hefði verið bjargað.
En eftir því sem fleiri smáatriði málsins komu í ljós, varð sagan æ gruggugri og skýringar Rússa hjálpa lítið til að skýra hana.
Til dæmis er spurt; af hverju réðust ræningjarnir á Arctic Sea sem sigldi með mjög ódýran farm, þegar fullt var af skipum á sömu slóðum með miklu verðmætari farm? Hvers vegna sendi skipið ekki út hjálparkall þegar á það var ráðist?
Hvað var forseti Ísraels Shimon Peres að gera í skyndiheimsókn til Rússlands daginn eftir að skipinu var bjargað?
Hversvegna beið Rússland svona lengi með að senda skip á vettvang til að finna skipið?
Og hvað meinti Dmitri Bartenev, bróðir eins hinna meintu sjóræningja þegar hann sagði í viðtali við eistneska sjónvarpið þann 24. ágúst að bróðir sinn og félagar hans hefðu verið "veiddir í gildru." "...þeir fóru til að finna vinnu og nú eru þeir peð í einhverjum pólitískum leik"?
Svo eru það spurningarnar í tengslum við björgun Arctic Sea. Skipanir komu frá Kremlin, Anatoly Serdyukov varnarmálráðherra um að floti sem m.a. samanstóð af kafbátum og tundurspillum tæki þátt í aðgerðinni ásamt fleiri skipum. Til hvers þessir miklu yfirburðir gegn átta mönnum?
Það tók fimm daga að finna skipið þótt utanríkisráðuneytið bæri það seinna til baka og sagði að rússnesk stjórnvöld hefðu alltaf vitað hvar skipið væri.
Til að fljúga áhöfninni og ræningjunum til Moskvu, alls 19 manns, voru sendar tvær risastórar hergagna-flutningsvélar.
Og þegar komið var til Moskvu var áhöfnin sett í einangrun eins og sjóræningjarnir. Hvorugir máttu tala við fjölskyldur sínar hvað þá fjölmiðla.
"Af þeim staðreyndum sem liggja fyrir, án getgáta, er ljóst að þetta var ekki sjórán" segir Mikhail Voitenko, ritstjóri rússneska sjávarmála ritsins Sovfrakht, sem hefur fylgst með og skýrt frá óvenjulegum atburðum sem gerast til sjós, í tugi ára. "Það er ekki hægt að fela skip í margar vikur nema með aðstoð ríkisstjórna."
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 04:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.8.2009 | 02:15
Keppt um að komast til Tortóla
"Nútíma Víkingar" setur þig í spor nútíma víkinga eða "útrásarvíkinga" eins og þeir eru kallaðir á Íslandi. Markmið leiksins er að koma eins miklu af "skítugum" peningum til karabísku eyjarinnar Tortóla til hreinsunar. Komdu eins miklu af skítugum peningum undan og hægt er áður en að lögreglan nær þér. Lykilinn að góðum árangri er í verðbréfunum. Safnaðu peningum og verðbréfum.
Þetta eru byrjunarleiðbeiningarnar í tölvuleik sem þau Friðrik, Guðný og Friðbert hafa hannað og heitir "Modern Viking - The Race to Tortola". Hann er að finna hér. og víða annarsstaðar á netinu.
Eins og kom fram í fréttum fyrr á árinu voru mörg hundruð félög stofnuð á Tortóla eyju af íslenskum aðilum og dótturfélögum íslenskra fyrirtækja erlendis.
Eflaust hafa þær fréttir orðið kveikjan að leiknum. Í leiknum er löggan á fleygiferð til að reyna að ná útrásarvíkingunum og að því leiti er hann ekki raunveruleikanum samkvæmur.
Tortóla er mikil skattaparadís og hefur eins og hinar Jómfrúareyjarnar miklar tekjur af að þjónusta þá sem vilja skjóta peningum sínum undan skatti í heimalöndum sínum.
Á Tortóla er líka góð aðstaða er fyrir þá sem geta hugsað sér að setjast í helgan stein eftir að hafa sankað að sér einhverju fé, illa fengnu eða ekki og sólað sig í góðu yfirlæti í sundlaugum eða heitum hafstraumunum sem leika um eyjarnar. Aðeins 7% eyjarbúa eru ekki innfæddir og Íslendingana sem þar búa má t.d. þekkja úr langri fjarlægð.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.8.2009 | 00:13
Löglegt að svelta konuna ef hún neitar bóndanum um kynlíf
Því er stundum haldið fram að innrásin í Afganistan hafi m.a. verið til þess að frelsa konur þar í landi undan ánauð og skelfilegu óréttlæti sem viðgekkst undir stjórn Talibana. Sé eitthvað til í því hefur innrásin að þessu leiti litlu breytt.
Löggjöf sem heimilar giftum karlmönnum að svelta konur sínar ef þær neita að eiga við þá mök, hefur verið birt í lögbirtingablaði landsins og öðlast þannig gildi.
BBC fréttasíðan skýrir frá þessu í kvöld og þar kemur fram að þegar lögin voru kynnt fyrr á árinu hafi forseti landsins neyðst til að draga þau til baka vegna mótmæla. En nú hefur lagfrumvarpið lítið breytt, verið hljóðlega gert að lögum.
Herra Karzai, forseti landsins, er sakaður um að selt málstað kvenna landsins fyrir stuðning Shia múslíma í komandi forsetakosningum.
Lögin eru sérstaklega ætluð fjölskyldum Shia minnihlutans í landinu.
Kynferðislegar kröfur
Í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir að Shia konur væru skyldaðar til að hafa mök við menn sína minnst fjórum sinnum í viku og þannig var nauðgun þeirra gerð lögleg þar sem vilji þeirra til samræðis þurfti ekki að vera til staðar.
![]() Fyrri útgáfa frumvarpsins olli kröfugöngum í Afganistan og mótmælum víða um heim. |
Þessi útfærsla á lögunum var fordæmd af leiðtogum vesturlanda þar sem hún þótti afturför til þeirra tíma er Talibanar réðu landinu.
Nú er lítið breytt útgáfa af sama frumvarpi orðin að lögum með samþykki Karzai forseta.
Forsetkosningar verða haldnar í landinu á fimmtudag og mannréttindahópar segja að tímasetning laganna sé ekki tilviljun.
Frumvarpið leifir eiginmanni að svelta konu sína ef hún neitar honum um samræði, konan verður að fá leifi bónda síns til að sækja vinnu utan heimils síns og feður og afar barna hafa einir umráðarétt yfir þeim.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.8.2009 | 02:24
Fúll á móti er megin inntak íslenskra stjórnmála
Eva Joly er fræg og flott og greinilega mun klárari en flestir okkar Frónbúa. Á dögunum fékk hún birta eftir sig sömu greinina í dagblöðum margra landa samtímis. Það gera ekki aðrir en snillingar, poppkóngar og kvikmyndastjörnur. Í henni talar hún m.a. um Ísland og segir frá því sem altalað hefur verið og margrætt hér heima í marga mánuði en engin hefur haft dug í sér til að koma á framfæri við erlendu pressuna, að ekki sé minnst á viðsemjendur okkar í Icesave-deilunni.
Þetta framtak finnst mörgum gott hjá Evu nema kannski Hrannari þeim sem hjálpar Jóhönnu forsetráðsmaddömu. Hann var fúll af því að Eva var eitthvað að hnýta í fráganginn á Icesave-samningunum þar sem greinilega er verið að kúga litlu þjóðina í norðri til að borga miklu meira en hún á á borga. Svo urðu margir aðrir fúlir út í Hrannar fyrir að vera svona fúll, sérstaklega þeir sem eru í stjórnarandstöðu og telja það heilaga skyldu sína að vera fúlir út í allt og alla sem viðkemur stjórninni.
Það verður æ erfiðar að skilja þolgæði þeirra sem enn reyna að elta ólar við flokkspólitíkina. Að manni sækir samtímis hlátur og grátur við lestur eða hlustun á það sem þeir hafa að segja. Já, hlátur, vegna þess hve kjánalegir þeir eru við að kasta að hver öðrum pólitískum drullukökum, grát vegna þess hve mikilvægt er fyrir land og þjóð að ná samstöðu og einingu í þeim erfiðu málum sem fyrir liggja að leysa.Flest einkennist það af gamaldags hnútakasti, úreltum flokkadráttum og dýrkun á flokkum og fyrirmönnum þeirra.
- Og svo láta þeir eins og ekkert annað betra sé til og að þjóðinni sé nauðugur einn kostur að sætta sig við þetta fár.- Þeir slá allar tillögur um Þjóðstjórn eða neyðarstjórn beint út af borðinu, vegna þess að hagmunir flokkanna koma fyrst. Fjölskyldutengsl og efnahagsleg krosstengsl eru svo samofin í flokkunum að hagmunir eins flokks og þjóðarinnar allrar geta aldrei farið saman.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)