Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
19.7.2009 | 20:09
Blindandi bros á hverju götuhorni
Ef til vill er það góða veðrið sem gerir sem gerir búmannsins-barmið dálítið hjáróma. Í myrkri og slyddu eða éli, hljóma dómsdagskenningar sennilegar.
En það er einhvern veginn erfitt að trúa því að allt sé á heljarþröm þegar blindandi bros mæta þér á hverju götuhorni og hægt er að ganga að sólskyni og yl sem gefnum hlut á hverjum degi.
Auk þess er landið er fullt af túristum sem keppast við að fylla aftur gjaldeyrishirslurnar og sjórinn er vaðandi í makríl sem einnig er spáð að verði okkur drjúg búbót. Þetta gerist þrátt fyrir að yfir þinghúsinu, nákvæmlega þar sem danska kóngskórónan snertir himininn, hangi kolsvart Icesave ský.
Í samræðum við ferðamann frá bresku eyjunni Mön í Írska hafinu (Isle of Man) heyrði ég skrýtið sjónarmið. Hann sagðist hafa tapað talverðu fé sem hann hafði lagt inn í peningastofnun í eigi gamla Kaupþings sem hafði hreiðrað um sig á heimaey hans.
Hann var samt ekki búinn að gefa upp alla von um að fá sitt til baka þegar tímar liðu fram, en ef það gerðist ekki, ætlaði hann að eyða því sem hann ætti eftir á Íslandi. Það færi vel á því, sagði hann, að við (Íslendingar) næðum þá restinni af sparifé hans af honum og hann fengi í staðinn að uppfylltan næstum ævilangan draum um að koma hingað og njóta hinnar einstæðu náttúru landsins og söguarfleifðar sem teygði sig til heimalands hans.
Á Isle of man er t.d. að finna "Þingvöll" eins og hér enda gerðu forfeður okkar sig heimakomna á eynni fyrir 1000 árum og margir Manverjar rekja ættir sínar aftur til víkinga. Þingið þeirra "Tingwald" hefur starfað óslitið frá 978.
Þrátt fyrir augljósa íroníuna í orðum hans, var hann alls-ekki gramur út í íslensku þjóðina. Mér þótti þessi maður verðskulda titilinn Íslandsvinur og hefði veitt honum hann þarna og þá, ef ekki væri búið að gjaldfella þetta virðingarheiti með því að klína því á næstum alla útlenda framagosa sem heimsótt hafa landið undanfarin ár í þeirri trú að brosin björtu væru óræk merki og boð um bólfarir.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það verður stöðugt erfiðara fyrir almenning að bera virðingu fyrir fólkinu sem vermir sæti löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Hið nýja Ísland sem það lofaði kjósendum fyrir kosningar, er eftir sem áður, gamla "góða" landið þar sem flest er með sama hætti og áður.
Meðhöndlun þeirra á Icesave málinu og ES aðildarumsókninni sýna svo ekki er hægt um að villast, að hrossakaup, eigin hagsmunahyggja og flokkspólitík ræður afstöðu þessa fólks,rétt eins og áður og miklu fremur en þjóðarheill.
Jafnvel þeir sem ætluðu að vera sérstakir málsvarar hins "nýja Íslands" á alþingi, kjósa þvert um hug sinn og gera nú tilraun til að stíga hér sín fyrstu spor í alvöru pólitískum hrossakaupum.
Enn og aftur er þjóðin sett í þvingu flokkspólitíkurinnar sem algjörlega er ófær um að leiða hugann út fyrir kassann sinn.
Mér finnst í sjálfu sér ekki skipta máli hvort fólk er með eða á móti umsókn í ES, eða með eða á móti ríkisábyrgð á Icesave. Það sem skiptir máli er að umfjöllun um þessi mál séu byggð á skynsemi, réttum upplýsingum og með þjóðarheill að leiðarljósi. - Yfirgangur meirihlutans og sá hroki sem hann og ríkistjórnin hafa sýnt, segja aðeins eitt; við höfum meirihlutann, það skiptir engu hvað þið hin segið, svona verður þetta.
Þras minni hlutans um tæknilega útfærslu og flokkspólitísk pissukeppni í stað málefnalegrar umræðu um ES, sýndi að hann hefur lítið sem ekkert fram að færa og réttlætir þannig með málefnafátækt sinni, að hluta til, hrokafulla framkomu meirihlutans.
Nú liggur það fyrir að ekki er hægt að vita hvort Ísland á eitthvað erindi í ES nema að sótt sé um aðild. Umsóknin er því ekki raunveruleg umsókn, heldur aðeins könnun á því hvað sé í boði. Það er því ótrúlegt að sjá fólk skipa sér í pólitískar fylkingar á forsendum þess sem það ekki veit, í stað þess sem það veit.
Að ekki skuli liggja fyrir óyggjandi lögfræðilegt mat á því hvort íslenska ríkinu beri yfirleitt að greiða Icesave skuldirnar, er vitaskuld fáránlegt. Eins og staðan er í dag er gengið út frá því sem vísu að loforð íslenskra stjórnmálamanna og pótintáta þeirra við kollega þeirra í Bretlandi og Hollandi, skuli standa. Það er í sjálfu sér virðingarverð afstaða að "orð skulu standa". En ef það þýðir langvarandi efnahagsörðugleika heillar þjóðar, er ástæða til að kanna málin frekar, ekki satt?
- Nei, pólitík er hlaupin í málið, meira segja margslungin og það sanna og það rétta, skiptir þess vegna ekki lengur máli.-
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
3.7.2009 | 13:35
Óhæft Alþingi
Í umræðum á Alþingi í gær um Icesave samninginn, kom vel í ljós hversu óhæf þessi stofnun er til að fjalla um mál sem varðar velferð allrar þjóðarinnar. Þegar að þjóðin þarf hvað mest á samstöðu og einurð að halda, hlupu stjórnmálaflokkarnir áður en varði niður í sínar gamalkunnu skotgrafir.
Fjármálráðherra mælti fyrir frumvarpinu um að heimildin til að borga Icesave yrði veitt. Hann talað af yfirvegun og leiddi fyrir því rök að hér væri um að ræða lokahnykk á slæmu máli sem allir flokkar ættu þátt í að hafa komið af stað.
Gylfi Magnússon fullyrti að Ísland hefði efni á þessum samningi ef að innflutningur yrði minnkaður til móts við það sem var um 2003 og útflutningur ykist í samræmi við það sem hann hefur gert síðast liðin ár.
Samt var blásið á þau orð hans af þeim sem til máls tóku til að andmæla eftir Það.
Þar kom greinilega fram hjá flestum sem til máls tóku að markmið þeirra var ekki að vinna landinu heilt, heldur að reyna að nota sér þetta mál til flokkspólitísks framdráttar. Jafnvel Ögmundur Jónsson sem virtist friðmælast við stjórnarandstöðu, eða allavega vin sinn Pétur Blöndal, var þrátt fyrir göfug orð um að fylgja eigin samvisku, aðeins að undirbúa málsvörn sína, þegar kemur að honum að greiða atkvæði og gera grein fyrir því. Hann lýtur greinilega svo á að málið geti hugsanlega fellt stjórnina og að því muni hann aldrei stuðla, jafnvel þótt hann verði að kjósa móti sannfæringu sinni í þessu Icesave máli.
Sá sáttatónn sem heyrðist örla á í Ræðu Þorgerðar Katrínar var greinilega litaður af hræðslu við að mjög djúpt yrði farið ofaní þau mörgu jaðar-mál sem tengjast hruninu þar sem bóndi hennar á hlut að máli. Hún lagði mesta áhersluna á samtrygginguna, eða að allir í síðustu ríkisstjórnstjórn væru jafn sekir.
Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson stigu hvað eftir annað í ræðustól og höguðu báðir sér eins og litlir drengir í skólaleikriti sem eru að reyna að herma eftir og tala eins og þeir halda að stjórnmálmenn eigi að gera. Sýndarmennskan í málfari þeirra og tilburðum var pínleg á að hlusta. Þeir slepptu því alveg að reyna að færa rök fyrir máli sínu en töluðu þess í stað um hversu mikill brandari það væri að þeir þyrftu að gera það. -
Pólitíski skotgrafarhernaðurinn var augljós í ræðu Árna Páls félagsmálráðherra, sem gerði út á að fela ábyrgð Samfylkingarinnar að hruninu.
Mér fannst augljóst að allir nema Fjármálaráðherra og Gylfi Magnússon höfðu slæman málstað að verja í þessu máli og reyndu hvað þeir gátu til að skafa yfir það.
Ræða Valgeirs Skagfjörð var dálítið með öðru sniði en hinar ræðurnar. En þrátt fyrir yfirlýstan vilja um að ætla ekki að feta í fótspor flokkadráttanna, var niðurstaða hans sú sama og hinna andstæðinga frumvarpsins, samninginn varð að fella, sama hverju tautaði.
Spurningin er; hvernig getur þjóðin vænst þess að þetta máli verði til lykta leitt á farsælan hátt þegar að þeir sem fara með völdin (Þing og ríkisstjórn) hafa að markmiði að nota málið fyrst og fremst til að ala á sundrungu og pólitískum deilum sín á milli.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
11.6.2009 | 16:42
Heppni og óheppni Íslendinga
Gömul saga úr Buddatrú segir frá bónda sem átti hest sem hljóp í burtu. Allir nágrannarnir komu til að votta honum samúð sína, segjandi; "mikil óheppni."
"Kannski" svaraði bóndinn.
Daginn eftir snéri hesturinn til baka og honum fylgdu margir villtir hestar. "Mikil heppni" sögðu nágrannarnir.
"Kannski" svaraði bóndinn
Nokkrum dögum seinna reyndi sonur bóndans að temja einn villihestanna. Hesturinn kastaði honum af baki þannig að hann fótbrotnaði. "þvílík óheppni" sögðu nágrannarnir.
"Kannski" svaraði bóndinn.
Viku síðar áttu hermenn leið um þorpið í leit að ungum mönnum til að þjóna í hernum. Þeir tóku alla sem þeir fundu nema fótbrotna bóndasoninn. "Þvílík heppni" kvað við í nágrönnunum.
Og þannig heldur sagan áfram.
Dag einn fengu íslenskir bankar ekki lengur fyrirgreiðslu annarra banka. Óheppni?
Í ljós kom að nokkrir íslenskir kaupsýslumenn höfðu farið með fjármuni þjóðarinnar og annarra sem eigin og tapað þeim. Nú komst loks upp um þá og sukkið stöðvaðist. Heppni?
Kannski sögðu margir.
Vegna þess að þeir höfðu platað peninga út úr almenningi í öðrum löndum urðu Íslendingar að borga fyrir þá skuldirnar og taka til þess lán. Óheppni.
Kannski sögðu margir.
Til að borga lánin verða Íslendingar að draga úr þenslunni í samfélaginu og reiða sig á það sem þeir raunverulega geta framleitt í staðinn fyrir blöðruviðskipti í útlöndum. Heppni.
Kannski sögðu margir.
Vegna þess að þetta hafði gerst á vaktinni hjá miklum frjálshyggjumönnum í pólitík, var efnt til mótmæla og þeir loks hraktir úr stjórn. Í staðinn komst til valda félagshyggjufólk sem beið það erfiða hlutverk að stýra landinu í gegnum erfiðleikanna. Óheppni fyrir þá.
Kannski sögðu margir.
En vegna þess að félagshyggjufólkinu stýrir kona sem mikill meiri hluti þjóðarinnar ber mikið traust til eru langflestir í landinu ánægðir. Heppni.
Kannski sögðu margir.
Svo kom að því að konan og hennar fólk gerði samninga um að borga það sem um var samið. Margir töldu að samningarnir væru slæmir, illa tímasettir, vextirnir of háir eða fara hefði átt með málið fyrir alþjóðlega dómstóla. Vegna þess var konan sem flestir treystu svo mikið, kölluð landráðamanneskja og svikari. Óheppni!
Kannski sögðu margir.
Og svona heldur sagan áfram.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.6.2009 | 17:27
Hjátrú er hættuleg náttúrunni
Nashyrningar í Simbabve eru að verða útdauðir. Talið er að fjöldi þeirra sé nú aðeins á milli 4-700 dýr. Án róttækra aðgerða munu þeir verða útidauðir í landinu einhvern tíman á næstu fimm árum. Ásókn veiðiþjófa í nashyrningahorn er haldið uppi af háu verði sem hægt er að fá fyrir hornin bæði í austurlöndum nær og fjær. Einkum eru Það Kínverjar sem ásælast hornin. Í Kína eru þau eru mulin niður í duft sem Kínverjar trúa að geti læknað ýmsa kvilla. Fyrir eitt horn fæst allt að ein milljón króna á svartamarkaðinum í Kína.
Samkvæmt kínverska sextándu aldar lyfjafræðingnum Li Shi Chen, getur nashyrningshorn læknað snákabit, skyntruflanir, hitasótt, höfuðverki, kartneglur, ælupestir, matareitrun og andsetningu. (Ekki samt kyndeyfð eins og margir halda.)
Til eru allt að þrjú þúsund ára gamlar heimildir um margvíslega notkun nashyrningshorna. Í grískri goðafræði er sagt að þau hafi þá náttúru að geta hreinsað vatn. Í forn-Persíu voru hornin notuð í bikara sem áttu að hafa á eiginleika að geta numið eitur í víni. Sú trú var einnig viðtekin við margar konunglegar hirðar í Evrópu fram á nítjándu öld.
Nashyrningshorn eru aðallega gerð úr keratíni, sem er eitt algengasta efni í heimi. Hár og neglur eru gerðar úr því efni, hófar, skjaldbökuskeljar og fuglsgoggar. Það ætti því að gera alveg sama gagn að naga á sér neglurnar og að gleypa malað nashyrningshorn.
Þessi hjátrú tengd nashyrningshorninu er gott dæmi um hvernig hjátrú og fáfræði í bland við öfgar fátæktar annarsvegar og ríkisdæmis hinsvegar, er náttúrunni hættuleg.
Veiðiþjófar í Simbabve nota mikið kínversk deyfilyf til að fella dýrið. Hljóðlausar loftbyssur eru notaðar til að skjóta því í dýrið svo erfitt er að standa þá að verki. Eftir að hafa höggvið hornin af með exi, skilja þeir nashyrninginn eftir meðvitundarlausan þar sem hann deyr að lokum úr ofhitun. Kjötið af honum er ekki hægt að nýta vegna eitursins í kjötinu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.6.2009 | 12:51
Fá 5 milljónir punda frá ESB til að útbreiða boðskapinn
Um helförina;
"Mér er fullljóst að réttatrúnaðarkenningin er að sex milljónir Gyðinga hafi verið gasaðar, brenndar eða breytt í ljósaskerma. Rétttrúarkenningin var líka eitt sinn að jörðin væri flöt." Nick Griffin
Mikla athygli hefur vakið, að í ný afstöðnum kosningum til Evrópuþingsins komu BNP (Breski þjóðarflokkurinn) að tveimur þingmönnum. Fyrir utan ummæli leiðtoga flokksins, þykir stefnuskrá þeirra sýna að þar fer stjórnmálflokkur sem boðar svipaða stefnu og leiddi heiminn út í heimsstyrjöld á síðustu öld. Fyrir utan að þingmennirnir fá 446.000 pund fyrir að sækja Evrópuþingið, fær flokkurinn framlög frá ESB sem nemur 147.000 árlega til starfsemi flokksins.
Á Stefnuskrá flokksins er að;
Bretland dragi sig úr ESB.
Vinna náið með ný-fasistahópum í öðrum löndum.
Stöðva óheft og ótakmarkað flæði innflytjenda til Bretlands og minka glæpi og hryðjuverk.
Bretland, ekki ESB, ákveði hver býr í landinu.
Vísa úr landi öllum sem ekki eru fæddir í Bretlandi og fremja þar afbrot.
Halda pundinu og allri stjórn yfir efnahag þjóðarinnar.
Hætta að greiða 9 milljarða punda framlag Bretlands til ESB.
Bresk störf séu fyrir breska verkamenn.
Taka upp aftur vog og mál kerfi breska heimsveldisins.
Stöðva afskipti ESB af breska þinginu og dómstólum landsins.
Stöðva lokanir pósthúsa.
Taka aftur upp dauðarefsingu fyrir dráp á börnum, raðmorð og hryðjuverk.
Leyfa húsráðendum að verja heimili sín fyrir innbrotsþjófum.
Leiðtogi flokksins sem er annar þeirra sem náði kjöri heitir Nick Griffin. Eftir honum er þetta haft um hin ýmsu málefni;
Um Adolf Hitler;
Já, Adolf gekk aðeins of langt.
Um Mein Kampf;
Þrettán ára las ég Mein Kampf og gerði glósur. Kaflinn sem mér líkað best var um áróður og skipulag. Í honum er að finna mjög gagnlegar hugmyndir.
Um helförina;
Mér er fullljóst að réttatrúnaðarkenningin er að sex milljónir Gyðinga hafi verið gasaðar, brenndar eða breytt í ljósaskerma. Rétttrúarkenningin var líka eitt sinn að jörðin væri flöt.
Um Íslam;
Illgjörn, mjög illgjörn trú sem brjálaðir klikkhausar iðka.
Um Bretland;
Fjölmenningarlegt helvíti.
Um hvíta kynstofninn;
Án hvíta kynstofnsins skiptir ekkert máli.
Um líkurnar á að ná kjöri;
Fram að þessu höfum við bara sent einhvern í framboð því við vissum að við mundum ekki vinna. Nú þurfum við að fá einhvern sem getur..."
Um fjölmenninguna;
Tilraunaverkefni sem neitt er upp á okkur af 10.000 stjórnmálamönnum og fjölmiðlafólki.
Um fasistaforingjann Oswald Mosley;
Það eru sterk og bein tengsl milli mín og Oswald Mosley.
Um sprengjutilræðið í Soho 1999;
Sjónvarpsútsendingin sem sýndi tólf samkynhneigða mótmælendur sem flöksuðu óeðli sínu fyrir framan blaðamenn heimsins, sýndi hvers vegna svo fjöldi venjulegs fólks finnst þessar verur ógeðslegar.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.6.2009 | 00:07
Arðsömustu viðskiptin í heiminum í dag
![]() | 10 stærstu vopnaframleiðendur ![]() Boeing $30.5bn BAE Systems $29.9bn Lockheed Martin $29.4bn Northrop Grumman $24.6bn General Dynamics $21.5bn Raytheon $19.5bn EADS (Vestur Evrópu) $13.1bn L-3 Communications $11.2bn Finmeccanica $9.9bn Thales $9.4bn Skrá: Sipri. Allar tölur frá 2007. |
Stærsta og arðsamasta viðskiptagreinin í heiminum í dag er vopnaframleiðsla. Það sem drífur iðnaðinn áfram eru styrjaldir og óöryggi þjóða heimsins. Heimskreppan hefur ekki haft nein samdráttaráhrif á þá iðju mannkynsins, þvert ámóti.
Útgjöld þjóða heimssins til hernaðar óx 4% árið 2008 og hafa aldrei verið hærri eða sem nemur; $1,464bn (£914bn) - sem er 45% hækkun síðan 1999, samkvæmt nýrri skýrslu Sipri, sem er alþjóðleg rannsóknarstofnun sem hefur aðsetur í Stokkhólmi. (Stockholm International Peace Research Institute) Athugið að miðað er við breskar bn.
Heimskreppan hefur enn ekki haft nein áhrif á stærstu hergagnaframleiðendur heimsins, hvorki á tekjulindir þeirra, arð, eða pantanir" segir Sipri.
Þá jókst kosnaður við friðargæslu, sem einnig er tengd ófriði og vopnaframleiðslu, jókst um 11%.
Þar vegur þyngst ástandið í Darfur og Kongó.
Annað met sem slegið var á árinu 2008 en það var fjöldi alþjóðlegra friðargæsluliða sem náði 187,586
![]() | 10 þeirra þjóða sem mestu eyða. ![]() USA $607bn Kína $84.9bn Frakkland $65.74bn Bretland $65.35bn Rússland $58.6bn Þýskaland $46.87bn Japan $46.38bn Italía $40.69bn Saudi Arabía $38.2bn Indland $30.0bn Skrá: Sipri. Allar tölur frá 2008. |
Samtals seldu 100 stærstu vopnasalarnir fyrir $347bn. árið 2007.
Langflest þeirra fyrirtækja eru annað hvort evrópsk eða bandarísk, 61% frá USA og 31% frá Evrópu.
Síðan 2002, hefur söluandvirði vopna í heiminum hækkað um 37%. Í Stjórnartíð George W Bush var stöðugur uppgangur sem fylgt var eftir af stöðugleika árin 1990- 2000.
Bandaríkin eyða allra þjóða mest í hergögn og styrjaldir eða 58% af heildareyðslunni.
Í Írak óx hergagnaeyðslan 133% á árinu 2008 miðað við 2007 en þeir kaupa vopn sín að mestu leiti frá Bandaríkjunum.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.6.2009 | 17:07
Icesave samningurinn frá sjónarhóli Breta
Ísland hefur samþykkt að endurgreiða breska og hollenska ríkinu þá fjarmuni sem þeir greiddu innlánshöfum í kjölfarið á hruni Icesave sjóðsins.
Bretland lánaði Íslandi £2.3 miljarða á síðasta ári til að endurgreiða breskum Icesave sparfjáreigendum, eftir að allt íslenska bankakerfið var þjóðnýtt.
Þannig hefst stutt grein BBC um nýgerða samninga Íslands, Bretlands og Hollands um Icesave málið. Niðurlagið fer hér á eftir, en það er augljóst að ekki er gefið mikið fyrir þau sjónarmið sem þar koma fram almennri umræðu hér á blogginu.
Sparifé 300,000 almennra breskra innlánenda var þannig í hættu.
Atburðarásin ollu spennu milli London og Reykjavík á þeim tíma.
Bretland notað lögin gegn hryðjuverkastarfsemi til að frysta eignir íslensku bankanna í Bretlandi sem höfðu hrunið í kjölfarið á efnahagsþrengingunum.
Breskir sparifjáreigendur fengu greitt að fullu af Breska ríkissjóðnum.
Góðar fréttir
Eftir langdregnar samningaviðræður, féllst Ísland á að endurgreiða £2.3 miljarða plús vexti.
Talsmenn Breska ríkissjóðsins segja að samningarnir séu mjög jákvætt skref til að bæta samskipti þjóðanna.
"Þetta eru góð tíðindi fyrir breska skattgreiðendur og góð tíðindi fyrir Ísland" sagði talsmaður ríkissjóðs.
"Ríkisstjórnin fagnar skuldbindingu Íslands til að viðurkenna skyldur sínar samkvæmt öryggisreglum ESB um innlánastarfsemi banka og endurgreiða þeim sem lögðu fé inn á Icesave.
Bresk bæjarfélög verða samt að bíða eitthvað eftir sínum peningum, því samkomulagið nær aðeins til almennra innlána.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2009 | 19:54
Ísland, eini ljósi punkturinn
"Við fórum til Íslands til að kynna okkur það sem er álitið af mörgum friðunarsinnum besta viðmiðunin (gold standard) í nútíma fiskveiði-aðferðum."
Þannig komast framleiðendur nýrrar heimildakvikmyndar um fiskveiðar í heiminum að orði. Sýningar á myndinni sem heitir The End of the line hefjast í næstu viku en hún dregur upp ansi dökka mynd af ofveiðum víðast hvar í heiminum.
Í henni kemur m.a. fram að 90% fiskjar sé ofveiddur í ESB löndunum og að þau geti lært sitthvað af Íslendingum hvað varðar verndun fiskistofnanna, sérstaklega þegar kemur að því að framfylgja lögum gegn brottkasti. Segja má að Íslandshluti myndarinnar sé eini ljósi punkturinn i henni.
Heimildarmyndin er byggð á samnefndri bók blaðamannsins Charles Clover. Charles segir í viðtali við BBC að; "Þessar miklu auðlindir sem trúðum eitt sinn að væru endurnýjanlegar, sem allt mannkynið stóð í þeirri trú að væru óþrjótandi, eru ekki lengur endurnýjanlegar vegna gjörða okkar. Þess vegna þarf að nálgast málið á algjörlega nýjan heimspekilegan hátt. Framtíðin verður ekki eins og fortíð okkar"
BBC fjallar um þessa merku kvikmynd og þá umfjöllun er hægt að nálgast hér
Við þetta lof sem borið er á fiskveiðistjórn Íslendinga í myndinni rifjaðist upp frétt sem ég bloggaði um fyrir stuttu þar sem sagt er frá að sjávarútvegmálaráðherrar landa Evrópusambandsins hafi ákveðið á sameiginlegum fundi í Brussel fyrir stuttu, að best sé að hætta að nota kvótakerfið sem ESB löndin notast við í dag og færa fiskveiðistjórnina aftur heim til landa og fyrirtækja sem veiðarnar stunda. Hér er sú grein.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2009 | 17:55
Síðustu dagar Gordons Brown sem forsætisráðherra Bretlands
Nú fjarar fljótt undan pólitískum stuðningi við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Fjórir ráðherrar í stjórn hans hafa fokið á tveimur dögum, fjöldi þingmanna í flokki hans hafa sagt af sér. Fleiri áföll af sama tagi eru í farvatninu. Fylgi flokksins mælist nú um 16%. Bæjar og Evrópuþing-kosningar fara fram á morgunn og ef útkoman úr þeim verður að verkamannaflokkinn fær 20% eða minna, eru dagar Browns í ráðherrastól taldir. Þegar er byrjað að safna undirskriftum meðal þingmanna verkamannafloksins til að skora á hann að segja af sér. Gordon er að reyna að endurskipuleggja ríkisstjórn sína en engir vilja gefa eftir ráðherrasæti sín og enn færi taka þau lausu sem í boði eru.
Það er komið að skuldadögum herra Brown.
Gordon lýsti því yfir í þinginu á sínum tíma að hann væri búinn að semja um skuldir Icesave við AGS. AGS neitaði þessu. En það er öruggt að eitthvað var makkað um Ísland á laun. Komið hefur í ljós að Gordon setti það skilyrði fyrir því að inngönguumsókn Íslands í ESB fengi meðferð, að Icesave skuldin yrði borguð eða tryggð af Íslandi að fullu. Til að fylgja þessu eftir, frysti hann eigur Íslands í Bretlandi og beitti til þess lögum sem ætluð voru til að stöðva fjárþvott og aðgang hryðjuverkasamtaka að fjármagni.
Nú er hann á förum og það sem hann sagði við Ingibjörgu Sólrúnu á sínum tíma skiptir þá ekki lengur máli. Það sem Árni Matt sagði eða sagði ekki við Darling, skiptir heldur ekki máli. Darling verður sá næsti til að yfirgefa stjórn Browns.
Íslendingar ættu því að bíða með undirskriftir á Icesave nauðungarsamningunum um stund og sjá til. Um leið og Gordon fer, leysast ýmiss samskiptamál sem staðið hafa í vegi Íslands til að ná réttlátari samningum um Icesave skuldirnar í Bretlandi. Talað er um að ný stjórn geti tekið við eftir aðeins 23 daga. Er ekki rétt að bíða og sjá til?
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)