Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Kína mun kaupa heiminn

Herra Hu sá ástæðu til að reyna sannfæra Obama um að Kína mundi aldrei sækjast eftir heimsyfirráðum. Hu er sennilega skyggn úr því hann getur fullyrt þetta.  Kína er fjölmennasta ríki veraldar. Efnahagskerfi þeirra hefur þanist út á s.l.  30 árum og  skotist fram fyrir allar þjóðir nema Bandaríkin.

Engin þjóð hefur á síðustu 10 árum fjárfest eins mikið í iðnaði annarra þjóða, en Kína. Hu getur óhræddur lýst því yfir að Kína ætli ekki að fara með hernaði gegn þjóðum heimsins. Innan skamms munu þeir geta keypt þær með húð og hári.

Samt á Kína langt í land þegar augun beinast inn á við. Þeir eru, miðað við höfðatölu, enn fátæk þjóð, þótt þeir sitji á billjónum að dollurum í varasjóðum sínum. Vandamál Kína snúa fyrst og fremst inn á við og varða innviði samfélags þeirra.

Í fljótu bragði má benda á þrennt.

Mikil ósátt milli þeirra sem stjórna landinu, og þeirra sem stjórnað er. Kommúnistaflokkurinn er enn við völd og í gegnum hann liggja allir valdþræðir í Kína.  Þeir sem á einn eða annan hátt vinna gegn flokknum,  eru ofsóttir og fangelsaðir.

Þá er einnig óeining innan kommúnistaflokksins. Valdabaráttan innan hans stafar ekki af mismunandi hugsjónum, heldur er hún eingöngu barátta um völd og áhrif. Kerfið býður ekki upp á skilgreindar leiðir fyrir flokkmeðlimi að velja helstu leiðtoga sína og þess vegna er þetta ætíð spurning hver er snjallastur í pólitísku hrossakaupmennskunni sem stunduð er í flokknum. 

Enn er talsvert um árekstra milli einkageirans og hins opinbera. Kína er með blandað hagkerfi sem gefur stjórnvöldum í raun yfirráð yfir öllu hagkerfinu um leið og þeir sigla undir flöggum frjálsra viðskipta þegar það hentar þeim. Sá auður sem skapast hefur í Kína, sést aðeins í borgum landsins. Mestur hluti íbúa landsins lifir enn við mikla fátækt. -

 


mbl.is Kínverjar vilja ekki heimsyfirráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja Íslendingar fyrirgefa Gordon Brown

Forseti Íslands kallar eftir afsökunarbeiðni frá Gordon Brown. Spurningin er hvað það mundi hafa upp á sig að Gordon Brown biðji Íslendinga afsökunar á að hafa kallað Íslendinga gjaldþrota, eins og Ólafur Ragnar vill að hann geri.  - Breski varnarmálráðherrann Liam Fox bað Íslendinga afsökunar á að hafa beitt hryðjuverkalögunum gegn Íslandi og það hefur komið fram í máli Össurar Skarphéðinssonar að ýmsir breskir ráðamenn hafa tjáð honum eftirsjá sína yfir meðferðina á Íslandi að Breta hálfu í kjölfar bankahrunsins. Þessar afsökunarbeinir eru mikils virði af því þær koma frá núverandi stjórnvöldum sem hafa einnig tök á að láta gjörðir fylgja máli.

Eftir að Gordon Brown tapaði kosningunum hefur svo til horfið af sjónarsviðinu, þótt hann sé vissulega enn þingmaður er hann áhrifalítill í breskri pólitík í dag. Afsökunarbeiðni frá honum mundi aðeins vera persónuleg beiðni, en ekki fyrir hönd bresku ríkisstjórnarinnar. Og svo er spurning hvernig slíkri beiðni yrði tekið af Íslendingum. Mundu þeir raunvrulega vera tilbúnir til að fyrirgefa Brown og taka hann í sátt.


mbl.is Brown ætti að biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að náða bankaræningja

BillykidÞað skiptir kannski litlu fyrir Billy the Kid eins og komið er, hvort hann verður náðaður eða ekki fyrir þessi níu morð sem vitað er með vissu að hann framdi. Alla vega hefur hann ekki tækifæri lengur til að bæta fyrir brot sín. Billy the Kid er af mörgum, þ.á.m. af nafna sínum Joel, sem söng um hann vinsæla ballöðu, sagður bankaræningi. Þótt hann hafi eflaust haft margt misyndisverkið á samviskunni, var bankarán aldrei eitt af því.

Íslenskir bankaræningjar sitja nú margir eins og útlagar á setrum sínum (hole in the wall)  í útlöndum og virðast eiga litla von um sakaruppgjöf frá almenningi þótt ránin hafi aldrei verið og verði líklega aldrei lagalega sönnuð upp á þá.

Nú þegar landsmenn eru farnir að nota aftur kreditkortin sín af krafti og líka að spandera fúlgum í flugelda eins og fréttir herma, er spurning hvort ekki sé komin tími til að náða kallana og bjóða þá aftur velkomna til starfa við að byggja upp landið sem þeir fóru eitt sinn svo illa með.  

Þeir mundu hafa það umfram Billy the Kid að fá tækifæri til að bæta fyrir brot sín og ölast uppreisn æru í lifanda lífi, frekar en löngu eftir dauða sinn eins og hugmyndin virðist vera með náðun Billy the Kid.

 

 


mbl.is Billy the Kid ekki náðaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar fagna Icesave samningum

Breska fjármálaráðuneytið er mjög ánægt með nýju  Icesave samningana. Svo ánægt reyndar, að kanslarinn (aðal-gjaldkerinn)  George Osborne segir samningana eiga stóran þátt í að Bretar leggist ekki lengur gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið, eins og þeir gerðu þar til nýlega.

"Ásættanlegri samningar til að loka málinu fyrir alla aðila og kaflaskil í samskiptum Breta og Íslendinga" er haft eftir talmanni ráðuneytisins.

"Ég held að þetta muni leiða til mun uppbyggilegri sambands milli Íslenski ríkisstjórnarinnar og þeirrar bresku, en það hefur verið frekar frosið upp á síðkastið" er haft eftir Osborne.

Þar á Osborne eflaust við hnútakastið milli fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, sem kallaði viðbrögð íslenskra stjórnvalda "óásættanleg" og "ólögleg" og  Geir Haarde sem sakaði Brown um að beita Íslendinga "eineltistilburðum" með því að frysta eigur þjóðarinnar í Bretlandi undir ákvæðum hryðjuverkalaga.


mbl.is Sátt við nýjan Icesave samning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sukkið orðið eins og áður og aftur glatt í höllinni

Það er gott veganesti fyrir nýkjörna meðlimi stjórnlagaþings að fá þessar fréttir á kjördegi. Landsbankinn, banki allra landsmanna, er aftur kominn á fulla ferð í fjármálsukkið sem einkenndi ferilinn sem leiddi til hrunsins. 

Eins og áður, reiðir bankinn sig á að fólk telji sig ekki hafa nægilegt vit til að gagnrýna starf hans og til vara, passar hann sig á að hafa málin svo flókin að enginn getur með góðu móti komist til botns í þeim án þess að hafa aðgang að öllum gögnum.

Eins og áður er brask með auðlindir þjóðarinnar, skuldsetning umfram eignir, flókið kennitöluflakk og massífar afskriftir eru helstu  hráefnin í þessa skuldasúpu. - 

Eins og áður koma hér við sögu íslenskir kvótabraskarar sem þegar er búið að afskrifa nokkra milljarða fyrir persónulega, og auðvitað lenti sá skellur á þjóðarbúinu og almenningi í landinu.

Eins og áður er langlundargeð Íslendinga gagnvart þeim bankamönnum sem leiða þessa hersingu og þessum bröskurum sjálfum, með ólíkindum.

Eins og áður er engra viðbragða er að vænta frá ríkisstjórn eða þingi. Þar er fólk orðið svo samduna að það finnur ekki rotlyktina. -

Ekki nema vona að fólk bindi miklar vonir við stjórnlagaþingið til að koma með tillögur að lögum yfir þetta misferli.


mbl.is Skuldsetning hafin á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

þúsundkallinn sem hvarf

Þrír sölumenn komu samtímis á Hótel Húsavík. Til að spara dagpeningana sína ákváðu þeir að deila saman einu herbergi. Herbergið kostaði 30.000 krónur sem þeir staðgreiddu. Rétt í þann mund sem sölumennirnir komu upp á herbergið, uppgötvaði stúlkan í afgreiðslunni að hún hafði gert mistök. Sumarverðin voru runnin úr gildi og vetrarverð tekin við.

Herbergið kostaði í raun 25.000 krónur en ekki 30.000.

Stúlkan kallaði þegar í stað á einn þjóninn úr matsalnum og bað hann að taka strax 5000 krónur upp á herbergi til sölumannanna. Þjónninn tók við fimm þúsund króna seðlum og hélt með þá upp á herbergið til sölumannanna.

ÞúsundkallÁ leiðinni varð honum hugsað til þess að það mundi verða erfitt fyrir hann að skipta 5000 krónunum jafnt á milli manna þriggja. Hann ákvað því að stinga tveimur þúsundum í vasann og láta sölumennina hafa aðeins 3000 krónur, eða 1000 krónur hvern.

Þetta gerði svo kauði. -

En við þetta kom upp óvænt staða. Það lítur út fyrir að 1000 krónur (þúsundkall) hafi einfaldlega horfið.

Förum aðeins yfir dæmið;

Sölumennirnir greiddu fyrir herbergið 30.000 krónur, 10.000 hver.

Stúlkan sendi þjóninn með 5000 krónur af þessum 30.000 sem sölumennirnir greiddu með, sem hann átti að færa þeim. Þjónninn stakk tveimur þúsundum í vasann og lét sölumennina aðeins hafa 3000 krónur, eða eitt þúsund hvern.

Hver sölumaður greiddi upphaflega 10.000 (3 X 10.000= 30.000), og hver fékk eitt þúsund til baka sem þýðir að hver sölumaður greiddi í raun 9.000 krónur fyrir herbergið.

3 X 9000 gera 27.000. Tvö þúsund enduðu uppi í vasa þjónsins, eins og áður segir. Það gera samtals 29.000 krónur.

Getur einhver sagt mér, hvar er þúsundkallinn sem upp á vantar?


Björguðu víkingar Evrópu úr miðaldaruglinu

Víkingagull

Þegar að breskur og hollenskur almenningur sem lagt hafði sparifé sitt inn á Icesave reikninn varð ljóst að þar voru í reynd á ferð snjallir bankaræningjar sem notuðu þá aðferð að ræna banka innanfrá, voru fréttahaukar ekki lengi að líkja þeim við víkinga fyrri tíma.

Og þegar að það fréttist að Íslendingar sjálfir kölluðu þá "útrásarvíkinga" var ekki aftur snúið með það.  Þrátt fyrir að víkingarnir til forna hafi haft á sér afar illt orð, sérstaklega hjá þeim sem urðu fyrir barðinu á þeim, verður það að segjast eins og er, að þessi samanburður samlíking er frekar ósanngjarn og hallar mjög á gömlu víkingana, því ólíkt höfðust þeir að.

Víkingar hafa nefnilega aldrei notið sannmælis fyrir framlag sitt til efnahagsþróunar Evrópu.

Eftir fall Rómaveldis áti Evrópa við langvarandi efnahagslega kreppu að stríða. Miðaldasagan er saga fólks sem þurfti að strita frá morgni til kvölds til að hafa ofaní sig og á. Og stundum dugði það ekki til. Hagvöxtur í löndum álfunnar var enginn.

Hið skammlífa veldi Karlamagnúsar náði ekki að binda endi á afar slæman aðbúnað almennings víðast hvar um álfuna og þegar það hrundi, festu lénsherrarnir sig í sessi og samræmdu fátæktina hvarvetna í  Evrópu.

Samt var til mikill auður í álfunni. Hann lá engum til gagns í fjárhirslum kirkjunnar og  klaustra sem sankað höfðu að sér miklum fjársjóðum og gagnaðist engum. Peningar þá, eins og í dag, virkuðu eins og blóð líkamans. Það þarf stöðugt að vera á hreyfingu til að gera gagn. Samansöfnun blóðs á einum stað, kallast blóðtappi og getur verið lífshættulegur. Út um alla Evrópu voru til slíkir "blóðtappar"   það þurfti ofbeldi, ófyrirleitni og ofurefli til að ráðast á þá og leysa þá upp. 

Og einmitt þetta þrennt höfðu norrænir sjóræningjar í ríkum mæli. Þeir hófu árásir sínar árið 797 með strandhöggi á klaustrið á Lindisfarne  og gerðu mikinn usla víðs vegar um álfuna næstu þrjú hundruð árin.   Ránsferðirnar hófust rétt í þann mund sem heitara loftslag vermdi norðurhvel jarðar og því viðraði vel til rána, verslunar og landafunda. Þessir sjóræningjarnir kölluðu sig Víkinga.

StrandhöggÍ næstum þrjár aldir sigldu þeir um höfin blá, ár og vötn Evrópu, rændu óávöxtuðu og rykföllnu fé kirkjunnar og byggðu fyrir það fjölfarnar verslunarmiðstöðvar og borgir langt inn í austur Evrópu, keyptu sér sambönd suður í Miklagarði og fundu ný lönd í vestri og gerðu mið-Evrópuþjóðir að framsæknum þjóðum.  Þeir lánuðu fé, jafnvel til annarra álfa,  og innheimtu af því ávöxtun og arð. - Þeir lögðu grunninn að því verslunarveldi sem öll lönd norður-Evrópu áttu hlut í.

Þessi afgerandi aðkoma þeirra að "földu fjármagni", svona einskonar "fé án hirðis",  hrundi af stað hagvexti í álfunni sem síðan var enn aukið við með landafundunum miklu.

Víkingar höfðu reyndar þegar fundið þessi lönd, en gleymdu þeim aftur ef því að Evrópa ´hafði ekki þörf fyrir þau´ þá stundina, svo vitnað sé í Henri Pirenne, en það er sönnur saga.


Shit happens

Þrír fyrrum ráðherrar segjast engu hafa getað bjargað og að hrunið og kreppan sem því fylgdi, hafi ekki verið þeim að kenna. Ég er alveg sammála þeim. Þeir eru saklausir. En þeir sleppa samt ekki svo létt úr snörunni.

Það er ekki sanngjarnt að allir þeir sem töpuðu á hruninu þurfi að sætta sig við að það hafi ekki verið neinum að kenna. Einhver verður að axla ábyrgðina. Einhver verður að borga. Einhver verður að taka á sig sökina. Við viljum alvöru blóraböggla.

Og eins og við öll vitum, gerast stundum mistök. Það voru greinilega mistök sem ollu hruninu og kreppunni. Stundum bitna mistökin á almenningi og stundum á þeim sem segjast vera ábirgir fyrir stjórn landsins. Nú er kominn tími til að mistökin bitni smá á þeim.

Eða eins og þeir segja á enskunni; Shit happens and What Goes Around.../...Comes Around.


mbl.is Átti ekki þátt í hruninu og gat ekki komið í veg fyrir það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósanótt í skugga skulda

Þetta er gersamlega óskiljanlegt. Fáir bæjarstjórar hafa notið eins mikillar hylli meðal bæjarbúa og bæjarstjóri Reykjanesbæjar sl. ár og fáir bæjarstjórar landsins fengið jafn óskorað umboð til verka og Árni og flokkur hans. Allt virtist ganga svo vel. Alla vega fyrir kosningar. Nú blasir bara við gjaldþrot.

Þetta eru skelfileg tíðindi og ljósanótt á næsta leiti. Ætli að það verði að spara að lýsa upp bergið?

Annars mátti alveg segja sér að það mundi kosta eitthvað að fegra bæinn eins og Árni hefur gert. Allar þessar grjóthrúgur á hringtorgunum og eiginlega hvar sem hægt hefur verið að sturta þeim, hafa þurft sitt.


mbl.is Rukkaður um 1,8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undir hvaða flokk fellur meydómur á eBey?

8833_galleryÞessi stúlka (sjá mynd) er 17 ára og vill selja meydóm sinn hæstbjóðanda. Það er ýmislegt sem er athugavert við þessa frétt á mbl.is.

Það fyrsta er að það skuli þykja fréttnæmt að stúlka selji meydóm sinn á eBay.

Það hefur verið stundað um nokkurt skeið og mörg dæmi um það að finna. Samt ekki beint á eBey, heldur er bent á vefsíður seljendanna, enda erfitt að sjá undir hvaða flokk slík þjónusta ætti að falla á eBey.

Kannski er það upphæðin (100.000 pund) sem fólki finnst fréttnæm og það að hæstbjóðandi skuli vera breskt nörd.

Að stúlkur selji meydóm sinn yfirleitt er ekki heldur frétt í sjálfu sér, svo algengt er það og hefur verið um allangt skeið og er sumstaðar regla, frekar en undatekning. Þá er það oft kallaður heimamundur frekar en greiðsla fyrir meydóm.

Eitt sinn tíðkaðist þetta líka á Íslandi.

Laxdæla fjallar t.d. um eina slíka. Sumir mundu eflaust kalla það sem Guðrún Ósvífursdóttir gerði að "giftast til fjár" en þessi ungverska skólamær  hefur vit á að hafna hjónabandstilboðum og þarf því ekki að losa sig við kallinn á einhvern óprúttinn hátt eins og Guðrún gerði, eftir að kaupin hafa farið fram.

Einhverjir hafa orðið til að benda á að hér sé ekkert á ferðinni annað en vændi. Mundi t.d. vera hægt að sækja íslenska bjóðendur í þjónustu þessarar stúlku til saka? Samkvæmt nýju lögunum ætti svo að vera.

 


mbl.is Selur meydóminn til bjargar heimilinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband