Björguðu víkingar Evrópu úr miðaldaruglinu

Víkingagull

Þegar að breskur og hollenskur almenningur sem lagt hafði sparifé sitt inn á Icesave reikninn varð ljóst að þar voru í reynd á ferð snjallir bankaræningjar sem notuðu þá aðferð að ræna banka innanfrá, voru fréttahaukar ekki lengi að líkja þeim við víkinga fyrri tíma.

Og þegar að það fréttist að Íslendingar sjálfir kölluðu þá "útrásarvíkinga" var ekki aftur snúið með það.  Þrátt fyrir að víkingarnir til forna hafi haft á sér afar illt orð, sérstaklega hjá þeim sem urðu fyrir barðinu á þeim, verður það að segjast eins og er, að þessi samanburður samlíking er frekar ósanngjarn og hallar mjög á gömlu víkingana, því ólíkt höfðust þeir að.

Víkingar hafa nefnilega aldrei notið sannmælis fyrir framlag sitt til efnahagsþróunar Evrópu.

Eftir fall Rómaveldis áti Evrópa við langvarandi efnahagslega kreppu að stríða. Miðaldasagan er saga fólks sem þurfti að strita frá morgni til kvölds til að hafa ofaní sig og á. Og stundum dugði það ekki til. Hagvöxtur í löndum álfunnar var enginn.

Hið skammlífa veldi Karlamagnúsar náði ekki að binda endi á afar slæman aðbúnað almennings víðast hvar um álfuna og þegar það hrundi, festu lénsherrarnir sig í sessi og samræmdu fátæktina hvarvetna í  Evrópu.

Samt var til mikill auður í álfunni. Hann lá engum til gagns í fjárhirslum kirkjunnar og  klaustra sem sankað höfðu að sér miklum fjársjóðum og gagnaðist engum. Peningar þá, eins og í dag, virkuðu eins og blóð líkamans. Það þarf stöðugt að vera á hreyfingu til að gera gagn. Samansöfnun blóðs á einum stað, kallast blóðtappi og getur verið lífshættulegur. Út um alla Evrópu voru til slíkir "blóðtappar"   það þurfti ofbeldi, ófyrirleitni og ofurefli til að ráðast á þá og leysa þá upp. 

Og einmitt þetta þrennt höfðu norrænir sjóræningjar í ríkum mæli. Þeir hófu árásir sínar árið 797 með strandhöggi á klaustrið á Lindisfarne  og gerðu mikinn usla víðs vegar um álfuna næstu þrjú hundruð árin.   Ránsferðirnar hófust rétt í þann mund sem heitara loftslag vermdi norðurhvel jarðar og því viðraði vel til rána, verslunar og landafunda. Þessir sjóræningjarnir kölluðu sig Víkinga.

StrandhöggÍ næstum þrjár aldir sigldu þeir um höfin blá, ár og vötn Evrópu, rændu óávöxtuðu og rykföllnu fé kirkjunnar og byggðu fyrir það fjölfarnar verslunarmiðstöðvar og borgir langt inn í austur Evrópu, keyptu sér sambönd suður í Miklagarði og fundu ný lönd í vestri og gerðu mið-Evrópuþjóðir að framsæknum þjóðum.  Þeir lánuðu fé, jafnvel til annarra álfa,  og innheimtu af því ávöxtun og arð. - Þeir lögðu grunninn að því verslunarveldi sem öll lönd norður-Evrópu áttu hlut í.

Þessi afgerandi aðkoma þeirra að "földu fjármagni", svona einskonar "fé án hirðis",  hrundi af stað hagvexti í álfunni sem síðan var enn aukið við með landafundunum miklu.

Víkingar höfðu reyndar þegar fundið þessi lönd, en gleymdu þeim aftur ef því að Evrópa ´hafði ekki þörf fyrir þau´ þá stundina, svo vitnað sé í Henri Pirenne, en það er sönnur saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

flottur pistill enn eina ferðina :)

það má bæta við að víkingar fóru ekki bara rænandi og ruplandi heldur voru þeir einnig framtaksamir kaupmenn og komu á "föstu" verðlagi með því að greiða fyrir með silfri sem þeir bútuðu niður.  Það flýtti fyrir notkun penga sem konungar evrópu högnuðust á seinna meir..   minnir mig :) 

Óskar Þorkelsson, 19.11.2010 kl. 17:12

2 Smámynd: Ólafur Als

Forvitnileg og skemmtileg  sýn á sögu miðalda, jafn langt og þetta nær. Myrkrið grúfði reyndar lengur yfir Evrópu af þeim völdum, sem þú tiltekur. Þrátt fyrir útrás norrænna manna (Skandinava og Dana) þá hélst verslun niðri nema um allra nauðsynlegustu vörur, t.d. salt. Markaði var að finna víða um álfuna með salt, járn og fleira en sjálfsþurftarbúskapurinn var alls ráðandi, allt fram á daga Kalvins eða þar um bil.

Þú nefnir fall Rómaveldis, en vitanlega verður að hafa í huga ris Kirkjunnar í Róm og þess þúsund ára veldi sem hún stýrði. Þeir bönnuðu snemma töku vaxta af félánum, sem þeir töldu af hinu illa. Hinir illa þokkuðu Gyðingar sátu að nokkru um félánaþjónustu og arður þeirra af félánum var litinn hornauga. Kirkjan ýtti undir hatur á Gyðingum og þeirri starfsemi sem var sögð einkenna þennan þjóðflokk - þess fólks sem hafði myrt frelsarann ...

Vitanlega lá fleira að baki, m.a. að vernda þá sem þurftu á félánum að halda. Þessi samúðaraðgerð að nokkru fól í sér myndun mikils blóðtappa, sem þú nefnir svo skemmtilega, sem hélt íbúum Evrópu við nákjör um aldir og hélt aftur af þreki þjóða og einstaklinga, ýtti undir forheimskun og fordóma. Að vísu voru eftirtektarverðar undantekningar, sbr. víkingana, sem þú nefnir en einnig verslun Feneyjabúa við t.d. Arabaþjóðir.

Segja má að með aukinni verslun og viðskiptum hafi verið lögð frækorn að uppgangi Evrópu. Það var í raun ekki fyrr en á öndverðri tólftu öld, með tilkomu borgríkja, sem verslun var skapaður sá grunnur sem hún þurfti til þess að vaxa og dafna. Borgarsamfélögin skópu atvinnutækifæri og sérhæfðan vinnukraft; verkaskipting, háskólar urðu til - fyrst í borgríkjum Ítalíu á 14. öld og síðar um alla álfuna. Efnahagslegur ávinningur skapaði auð, lifandi auð, sem ýtti undir listir og um siðir vísindi og jafnvel umburðarlyndi, sem borgríkið þrífst á ef það á að lifa af til lengdar. Skýrasta dæmið um þetta er viðhorf Hollendinga á öldum áður sem umbáru Gyðinga, enda bent á að fjármunir þeirra væru hinir sömu og annarra.

Ástæða þess að ég nefni Gyðinga hér, er að einn mælisteinn framfara og hagsældar hefur alla jafna haldist í hendur við vöxt og viðgang umburðarlyndis - og Gyðingar, sem voru hataðir um Evrópu alla í yfir þúsund ár, útskúfaðir, hundeltir og drepnir, allt fram á okkar daga, gátu einungis notið sín þar sem umburðarlyndið (skynsemin) náði einhverjum hæðum. 

Þrátt fyrir að frjálsri hugsun væru sett nokkur takmörk, jafnvel á dögum upplýsingar, þá var það ekki fyrr en skynsemir menn settust við valdaborðið í Vesturheimi að grunnur var lagður að falli lénsveldisins; vopnaðir skynsemis- og frjálshyggjuhugmyndum frá gamla heiminum (að mestu en einnig reynslunni af því að frjáls viðskipti lögðu grunn að auðlegð) lögðu þeir grunninn að stjórnarskrám Vesturlanda og í kjölfarið fylgdi franska byltingin. Það tók að vísu nokkra stund að hreinsa til og losna undan helsi fortíðarinnar, sérstaklega í gamla heiminum og vonandi var uppgangur kommúnismans og fasismans síðustu andartök þeirrar hugsunar sem kennir sig við flest annað en umburðarlyndi - á Vesturlöndum.

Kveðja,

Ólafur Als, 19.11.2010 kl. 22:47

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Auðvitað fléttast inn í þróun efnahags í Evrópu eftir að miðöldum líkur, fjölmargir þættir og suma hverja drepur þú á Ólafur, þökk sé þér. Áherslan hér var að rétta hlut víkinganna sem eins og Óskar benti á, komu á ýmsum nýungum í okkar heimshluta. Áhrif Íslam, krossferðirnar, innrás Mongóla og síðan landafundirnir í viðbót við það sem fram kemur hjá þér, eru allt mikilvæg atriði í þessu tilliti.

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.11.2010 kl. 12:55

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

gaman að sjá að þú gerir greinarmun á skandinövum og dönum Ólafur :)  því það er svona.. danir eru ekki skandinavar :)

Óskar Þorkelsson, 21.11.2010 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband