Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mismunandi verðmæti mannlífa

Hann er skrýtinn þessi heimur. Að mati fréttaseljenda, sem gjarnan hafa fingurinn á þjóðarpúlsinum, og skilja okkur betur en við sjálf, finnst okkur líf og dauði í Bandaríkjunum miklu merkilegri og áhugaverðari en líf og dauði fólks í Írak eða Afganistan.

Þrjú deyja í sprengingu í Bandaríkjunum á svipuðum tíma og 37 láta lífið í sprengjuárásum í Írak. Sjá hér  . Í Írak er þetta hversdagslegur viðburður, hugsum við. Líf  og dauði Íraka snertir okkur lítið, finnst okkur.

Þess vegna er lítið sem ekkert um þetta atvik fjallað.

En Atvikið í Boston tekur umsvifalaust yfir alla fréttatíma í sjónvarpi, og fólk keppist um að gefa frá sér yfirgengilegar yfirlýsingar. Fyrirfólk líkir þessu tveimur heimatilbúnum sprengingum jafnvel við árásina á tvíburaturnana í New York 2001.

Fórnarlömb sprenginganna í  Boston eru þegar orðin heimsfræg og nú flytja fjölmiðlar okkur greinar um líf þessa fólks.

Ekki eitt einasta nafn þerra sem dóu í sprengjuárásunum í  Írak,  sem áttu sér stað á sama tíma er þekkt.

Líf fólks í USA er svo miklu meira virði, sérstaklega fyrir frétta menn.


mbl.is 29 ára kona meðal látinna í Boston
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ding-Dong Nornin er dauð

wwDing-Dong! The Witch Is Dead" er gamalt lag úr Galdrakarlinum í OZ sem hatursfólk Margrétar Thatcher hefur um þessar mundir komið upp í fjórða sæti breska vinsældarlistans, í tilefni af andláti járnfrúarinnar. -

Á dögunum var gerð tilraun til þess í fjölmiðlum að líkja Hönnu Birnu við járnfrúna, en sú samlíking þótti dálítið langsótt og ástæðulaus, enda Hanna Birna talin frekar plastkennd.

Í ljósi þess sem Bjarni Ben hefur sagt um innherja-árásirnar á sig er ekki laust við að maður hafi ástæðu til að líkja Hönnu Birnu við sjálfa vondu Nornina úr téðu ævintýri.

hbHanna Birna sagði þegar hún tók við formannsstöðunni í Sjálfstæðisflokknum; " Ég veit varla hvað ég á að segja. Ég er hrikalega stolt og ofboðslega þakklát fyrir þennan mikla og afdráttarlausa stuðning og þá miklu vináttu og kraft sem ég finn á þessum fundi. Ég held að þetta skipti Sjálfstæðisflokkinn miklu máli, mjög miklu máli"

Hanna Birna leggur áherslu á hvað kjör hennar er gott fyrir flokkinn og að mikilvægt sé að flokkurinn njóti krafta hennar. Það er miklu mikilvægara en hún sjálf. Hún er svo fórnfús og óeigingjörn.

 Og núna þegar hún er næstum búin að hrekja Bjarna frá formannsstarfinu lætur hún hafa eftir sér orð sem minna á orð nornarinnar illu úr vestrinu; "Going so soon? I wouldn't hear of it. Why my little party's just beginning."


mbl.is Formannsskipti engin óskastaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ill öfl innan Sjálfstæðisflokksins

Bjarni Ben segir að öfl innan flokksins hans, séu að gera að honum aðför. Hann segir að  stuðningsmenn Hönnu Birnu láti gera kannanir sem sýni að flokknum mundi ganga betur í næstu kosningum ef hún væri stjórinn.

HB B KMaður sem á sér slíka vini, sem halda í höndina á manni sigrihrósandi á landsfundi, en undirbúa svo launráð,  þarf ekki óvini.

Nema auðvitað að Hanna Birna viti ekkert hvað helstu stuðningsmenn hennar aðhafast, sem er afar ólíklegt.

Hún er að verða alvöru pólitíkus sem kann að horfa í aðra átt þegar ódæðisverkin eru framin, svo fremi að hún hagnist á því á einhvern hátt.

Þessi lúalega aðför að Bjarna varð til þess að hann íhugar nú að hlaupast undan merkjum.

Allt fyrir flokkinn auðvitað.

Svo er hugsanlegt að hann sé líka mannlegur og svíði soldið undan vanþakklætinu í flokksystkinum sínum.


mbl.is „Ég útiloka ekkert“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt Bjarna að kenna og þakka

Framsóknarflokkurinn er orðinn að hæli fyrir pólitískt flóttafólk úr Sjálfstæðisflokknum og víst er satt að einhversstaðar verða vondir að vera.  Flóttafólkið telur að það verði finna sér afdrep þangað til Hanna Birna getur velt Bjarna Ben úr sessi sem formanni.

En geta ekki flokksgæðingar Sjálfstæðisflokksins sjálfum sér um kennt? Þeir studdu ekki Hönnu Birnu þegar hún gerði tilraun til þess að taka völdin af Bjarna fyrir skömmu, og þeir hljóta því að naga sig nú í handarbökin því formanninum þeirra hefur tekist að ná fylgi flokksins niður í sögulegt lágmark og um leið koma fylgi Framsóknarflokks í sögulegt hámark.

Á meðan Sjálfstæðismenn kenna Bjarna um hrakfarir flokksins í undanförnum skoðanakönnunum, hljóta Framsóknarmenn að vera honum afar þakklátir og er vísir til að launa honum ómakið eins og þeim er einum lagið, þegar þeir komast að kjötkötlunum.

Þeir gætu til dæmis boðið honum með sér í stjórnarsamstarf og falið honum að útfæra öll innantómu loforðin með því að setja hann yfir fjármálaráðuneytið.


mbl.is Fylgið myndi aukast ef Hanna Birna væri formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Usss, þetta má ekki fréttast strax.

SigmundurFramsóknarfólki gengur vel að matreiða þessa dagana. Sigmundi og Eygló hefur tekist að brasa saman uppstúf sem fýldum Sjálfstæðisflokkkjósendum og súru Samfylkingarfólki virðast falla vel í geð. Og það verður auðvitað að viðhalda fjórflokknum hvað sem á dynur.

Eins og allir vita var næstum því búið að útrýma óværunni sem við köllum Framsóknarfólk. En nú gengur flokkurinn í endurnýjun lífdaga sem hæli fyrir pólitískt flóttafólk úr öðrum öngum fjórflokksins.

Og þótt það fólk viti sem er, að Framsóknar-uppstúfurinn og hrærigrauturinn sem vellur upp úr framsóknar-Gangnam style leiðtoganum er uppsuða á útjöskuðum og margnota kosningaloforðum, hljómar hann eitthvað svo indislega heimilislega og kunnuglega. 

Og svo kemur bara ekki til greina að kjósa eitthvað ferskt. -

PSY__Gangnam-StyleÞetta vita vitaskuld flokkseigendurnir, þeir Halldór, Finnur, Ólafur og Alfreð sem núa nú saman höndunum í gleði og eftirvæntingu. Þeir hafa beðið þolinmóðir við að gera sér mat úr því sem þeir náðu að öngla að sér á fyrri valdatíðum flokksins. Og nú er þeirra tími kominn aftur.

Með nýjum sakleysislegum andlitum mun flokknum þeirra takast að komast aftur til valda og þar með eru þeir, aftur komnir að gjöfulum kjötkötlunum. Mikið verður gaman þá.

Eða  eins og Bjöggi mundi orða það, er hér á ferðinni ;"Nýr jakki, sama röddin"

En usss, þetta má ekki eiginlega fréttast strax.


mbl.is Framsókn eykur forskotið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nályktin loðir við Framsóknarflokkinn

SaddamSpiderHoleUm þetta leiti minnumst við skelfilegra afglapa forystumanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem áttu sér stað fyrir 10 árum.  Ótrúlegt en satt, því þeir eru enn að.  Meira en tíu ár eru liðin frá því að þeir Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson gerðu þjóðina með yfirlýsingum sínum um stuðning hennar við innrásina í Írak,  meðábyrga og samseka í skelfilegri og ólöglegri styrjöld sem enn sér ekki fyrir endann á. -

Innrásin var gerð á fölskum forsendum og síðar reynt að réttlæta hana á forsendum sem innrásaraðilarnir gerðu hlægilegar með eigin hegðun í landinu þegar þeir sjálfir voru staðnir að pyntingum og fjöldamorðum. 

Það var jú gott að losna við Saddam  segja Írakar, en sýnu verra að sitja uppi með setuliðið.

450px-Abu_Ghraib_39E.t.v. vilja Íslendingar gleyma sem fyrst þessum ljóta bletti á sögu sinni og það er skiljanlegt. En það gera þeir varla með að verðlauna og hampa þeim flokkum og því fólki sem að hneisunni stóðu. Í hvert sinn sem brautargengi þeirra vex leggur fyrir vit fólks áleitin þef.

Nályktin frá Írak loðir enn við Framsóknarflokkinn og þaðan hefur ekki enn borist svo mikið sem stuna um að þeir sjái eitthvað athugavert við ódæðisverk forystusauða sinna.

Og þeir vissu fullvel hverju þeir gengu að.

"Þátttaka á lista hinna staðföstu þjóða fólst í pólitískri yfirlýsingu og henni fylgdu ekki aðrar skuldbindingar á því stigi. Þær pólitísku yfirlýsingar voru gefnar af réttum aðilum og voru í fullu samræmi við margendurteknar yfirlýsingar forustumanna stjórnarflokkanna, um að ekki væri hægt að útiloka valdbeitingu í Írak." sagði Davíð Oddson á sínum tíma.


Sumir karlmenn og sumar konur

Gnarr í dragÞað verður væntanlega mikið um dýrðir á næstunni þótt undirbúningurinn hafi farið leynt, því framundan er stórafmæli kosningaréttarins á Íslandi. Alþingi undirbýr mikla afmælishátíð, enda merk tímamót í aðsigi, sem einhverra hluta vegna hefur gleymst að halda uppá á fyrri stigum. (Nei annars, það dettur engum í hug að halda upp á svoleiðis vitleysu.)

Agnes Biskup8. Mars næstkomandi verða sem sagt liðin 170 ár frá því að Kristján 8. Danakonungur gaf út tilskipunina árið 1843, þess efnis að íslendingar fengju kosningarétt. - Ekki samt allir íslendingar heldur aðeins karlmenn, sem "væru orðnir 25 ára, hefðu óflekkað mannorð og ættu að minnsta kosti 10 hundraðajörð eða múr- eða timburhús í kaupstað sem metið væri á að minnsta kosti 1000 ríkisdali eða hefðu lífstíðarábúð á 20 hundraða jörð."

johanna_sigurdardottirKonur og hverskyns undirmálsfólk urðu að bíða dálítið lengur.

Reglurnar um eignir kjósenda voru reyndar rýmkaðar dálítið þegar kosið var til þjóðfundarins 1851 og aftur árið 1903. Þá fengu karlmenn kosningarétt sem ekki voru öðrum háðir sem hjú og borguðu fjórar krónur eða meira í útsvar.

orgÁrið 1915 var svo gerð sú breyting að konur fengu kosningarétt og einnig allir aðrir sem orðnir voru 40 ára og skulduðu ekki sveitarstyrk.  Það aldursmark átti síðan að færast niður um eitt ár á ári þar til 25 ára markinu væri náð. Þær takmarkanir voru þó felldar niður árið 1920.

Og vel á minnst, upp á þetta á örugglega að halda,(sj´´a viðtengda frétt) en samt aðeins konuhlutann.

Enn varð breyting árið 1934, þegar kosningaréttur var færður niður í 21 árs aldur og takmarkanir á kosningarétti vegna skuldar við sveitarsjóð voru numdar úr gildi. Þá fyrst gátu allir kosið án tillits til kyns eða eigna og áttatíu ára afmæli þess mætti svo sem halda a næsta ári.

Kosningaaldurinn var svo lækkaður í 20 ár árið 1968 og að lokum í 18 ár 1984.


mbl.is Konur hafa kosið í 100 ár 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski svona skilti

Það var fallegt af Ingólfi Bruun leiðsögumanni að aðstoða konuna sem féll í Reynisfjöru. Og einkar vel til fundið hjá honum að koma því í blöðin.

Ingólfur vill nú að aðilar í ferðaþjónustu komi upp skilti við bílastæðið sem vari við hættunni af briminu þarna við ströndina.

Kannski skilti eins og þessu sem m.a. varar við hættunni af holskeflum.Reynisfjara

Þetta skilti hefur reyndar staðið við bílastæðið í Reynisfjöru í nokkur ár. En kannski hefur Ingólfur ekki tekið eftir því, frekar en konan sem hnaut í sandinum.

Staðreyndin er sú að það er sama hversu vel hlutirnir eru merktir á mörgum skiltum, ef engin tekur sér tíma til að lesa það sem á þeim stendur.


mbl.is Kom konu til bjargar í fjörunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram klappar klappstýran

Hrun íslensku bankanna er greinilega mjög persónulegt mál fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, sem er skiljanlegt því hann var þekktasta og háværasta klappstýra útrásarvíkinganna. Þegar ljóst var að þeim hafði mistekist, tók ÓRG því sem persónulegu áfalli.

Auðvitað var það ekki skemmtilegt fyrir Íslendinga að sjá nafn Ísland við hliðina á alræmdum hryðjuverkasamtökum á netsíðu breska fjármálaráðneytisins. Því snöggreiddust margir Íslendingar.

En einu lögin sem gáfu Bretum heimild til að stöðva fjármagnflutninga af reikningum gjaldþrota íslenskra banka í Bretlandi, náðu einnig til slíkra hópa.

ÓRG hefur hinsvegar að engu afsakanir Breta eða skýringar, jafnvel þótt þeim hafi tekist með þessum aðgerðum að koma í veg fyrir að fjármunir úr þrotabúum bankanna gufuðu upp, eins og þeir gerðu annarsstaðar.

ÓRG heldur áfram klappinu með því að finna sér og þjóðinni blóraböggul og erkióvin og segir jafnframt íslensku þjóðina svo langrækna að nafn Gordons komi til að lifa með henni um ókomna framtíð.

Kannski verður Gordon að Kolskegg 21. aldarinnar sem nú er nefndur Kölski og er eitt af mörgum samheitum djöfulsins sjálfs.

Spurningin er hvort Íslendingar séu ekki að vaða reyk með að reyna að koma lögum yfir hrunverja og ættu frekar að reyna að koma fram hefndum á Gordon Brown. -

En svo kann þetta líka að vera tóm mistúlkun á orðum ÓRG. Það hefur líka komið fyrir áður.


mbl.is Forsetinn ræðst að Gordon Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

David farið að förlast

David Attenborough er meðal fremstu náttúru kvikmyndagerðamanna heims. Í Bretlandi er litið á hann sem þjóðargersemi og þegar hann tjáir sig um eitthvað leggur fólk við hlustir. Í seinni tíð hefur hann gerst æ gagnrýnari og einnig svartsýnni á framtíðarhorfur lífríkis jarðarinnar.

Í viðtalinu sem viðtengd frétt vísar til, segir David mannkynið vera plágu og fjölgun þess beri að hefta, og endurómar þannig fræg orð Agent Smith í kvikmyndinni Matrix sem segir að mannkynið sé krabbamein sem sjúgi í sig alla orku og auðlindir og skilji eftir sig auðnina eina.

David segir að eina leiðin til þess að bjarga jörðinni frá hungursneyð og útrýmingu tegunda væri að draga úr fjölgun mannkynsins.

 Fyrir skömmu fluttu fjölmiðlar heimsins okkur fréttir af því hversu ógnarmikið magn af framleiddum matvörum færu til spillis og er hreinlega sóað. Á jörðinni eru þegar framleidd matvæli sem mundu duga til að fæða tvöfaldan fjölda mannkynsins. Hungursneyðir stafa ekki af því að næg matvæli séu ekki til í heiminum, heldur hvernig matvælum heimsins er dreift og hvernig pólitík og stríð koma í veg fyrir að fólk geti bjargað sér. 

Það sama gildir um ofnýtingu annarra auðlinda. Neyslumenningunni er viðhaldið með gengdarlausri sóun, frekar en að mennirnir séu orðnir of margir til að jörðin geti alið þá.

Þrátt fyrir hin ýmsu vandamál sem mannkynið á við að stríða hefur langlífi þess aldrei verið meira, heilsufar þess aldrei betra og velmegun þess aldrei verið meiri eða útbreiddari.

Ást og aðdáun Davids Attenborough á öðrum lífverum jarðarinnar virðist hafa glapið honum sýn og orðið til þess að hann ýkir stórlega hættuna af offjölgun mannkynsins.

 


mbl.is Vill hefta fjölgun mannkyns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband