Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

10 metra háan múr utan um Geysissvæðið

Það verður skemmtilegt, eða hitt þó heldur að þurfa að leggja rútunum meðfram girðingunni sem stúkar af hverasvæðið við Geysi í Haukadal svo að erlendir ferðamenn getið barið augum dýrðina á Geysissvæðinu. Þá neyðist hið gráðuga Landeigendafélag sem hyggist rukka 600 krónur á hvern gest sem vill inn á svæðið, líklega til að byggja 10 metra háa veggi utan um svæðið svo enginn sjái strókinn frá Strokki sem er auðvitað aðalaðdráttarafl svæðisins eftir að Geysir hætti að gjósa. 

Landeigendafélagið ætlar að rukka inn einhverjar hundruð milljóna á ári, til að viðhalda svæði sem kostar ca. tíu milljónir á ári að halda við. Það ætlar að fylgja í fótspor eigenda Kersins í Grímsnesi þar sem afar fáir ferðamenn hafa viðkomu eftir að byrjað var að rukka fyrir aðgang að því, miðað við sem áður var.

Gullgrafaræðið í ferðamennskunni er greinilega að hefjast. Stjórnvöld ættu vitanlega að sjá sóma sinn í því að veita nægjanlegu fjármagni til þessara fjölsóttustu staða landsins, þ.e. Þingvalla, Geysis og Gullfoss til að aðgengi að þeim geti haldið áfram án sérstakrar gjaldtöku. Nægar hafa þau tekjurnar af ferðamönnum, og það án þess að það þurfi að láta þá borga nefskatt við innkomuna í landið.


mbl.is Geta ekki beðið eftir stjórnvöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæleg vinnubrögð hjá mbl.is

article-2551393-1B2FCC7200000578-205_306x423

José Salvador Alvarenga er kallaður skipbrotsmaður af mbl.is þótt ekkert hafi verið skipsbrotið. Ef saga hans er sönn rak bát hans frá ströndum Mexíkó til Marshall eyja.

Þótt saga hans sé ótrúleg, sérstaklega í ljósi þess hversu þessi langa sjóferð hafði lítil áhrif á heilsu hans, er hún ekkert einsdæmi því árið 2006 rak þrjá sjómenn sömu leið og voru þá níu mánuði á leiðinni. Saga Jesu Vidana og félaga hans er að finna hér.

Mbl.is segir í fyrirsögn sögu José staðfesta, þótt innihald fréttarinnar fjalli að mestu um það sem ekki stenst í frásögn hans. José segist hafa farið til fiskjar í Desember 2012 við annan mann.

Hinsvegar segja yfirvöld í Mexíkó hafa saknað báts með tveimur mönnum í Nóvember sama ár, en hvorugur beri nafnið José Salvador Alvarenga. (Sem sagt engin alvara.)

Boat-4_watermarked_2811487b

Mbl.is klikkir út með að vitna í The Guardian en sú tilvitnun finnst hvergi í greininni sem þeir vísa til.

 „Það er með ólíkindum að lifa svona lengi við þessar aðstæður,“ segir einn mexíkóskur sjómaður við Guardian en bát hans rak á milli 8-9.000 kílómetra frá strönd Mexíkó til Marshall-eyja.

Saga José er um margt ótrúverðug en hún skánar ekki við það þegar fréttamenn bjaga fréttina á þennan hátt. 


mbl.is Saga skipbrotsmannsins staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dönsuðu allsber við eld inn í Hellinum Leiðarenda

Einkennilegt atvik átti sér stað í dag. Ég var á leið í hellinn Leiðarenda í Tvíbollahrauni með 13 manna hóp, erlendra ferðamanna, en hellirinn er einkar vel til þess fallinn að sýna ferðamönnum, hæfilega langur (ca. 900 metrar) og í hæfilegri fjarlægð frá Reykjavík. 

Þegar ég kom að Bláfjallaafleggjaranum fyrri ofan Hafnarfjörð var ég stöðvaður af öðrum leiðsögumanni sem tjáði mér að hann hefði verið hætt kominn með hóp sinn inn í hellinum. 

Hann kvaðst hafa fundið mikla reykjarlykt  þar sem hann var staddur  innst í hellinum og þegar hann fór að kanna málið gekk hann fram á nokkra íslendinga sem höfðu kveikt eldi í einum afhellinum og virtust vera að dansa í kringum hann kviknaktir. Þegar leiðsögumaðurinn sagðist mundi tilkynna þetta stórhættulega athæfi til lögreglu, þrifu Íslendingarnir pjönkur sínar og þustu út úr hellinum og óku á brott. Leiðsögumaðurinn sagðist hafa komist við illan leik út úr hellinum með gesti sína hóstandi og spýtandi.

Satt að segja átti ég erfitt með að trúa þessari sögu og ók því upp að hellinum til að kanna málið sjálfur. Þegar ég kom niður í hellinn lá þéttur reykur ca. hálfan metra frá gólfi inn eftir honum svo langt sem augað eygði. 

Þetta er vita skuld stórhættulegt athæfi, eða eins og annar leiðsögumaður orðaði það sem þarna bar að um sama leiti; Hvert skólabarn á Íslandi veit að svona gerir maður ekki, það er lífshættulegt að kveikja elda inn inn í djúpum hellum". 

Ég hætti vitaskuld við hellaferðina ferðafólkinu til mikilla vonbrigða. En þeir voru afar undrandi á að Íslendingar skyldu haga sér svona og spurðu aftur og aftur hvort ég væri viss um að þarna hefðu verið Íslendingar á ferð og hvort það væri algengt að Íslendingar dönsuðu alsberir í kringum elda inn í hellum. 

Á leiðinni frá hellinum hitti ég lögregluna sem hafði verið send á vettvang og ítrekaði við hana að það þyrfti að koma upp skilti sem fyrst sem varaði við hættunni af reyknum og eiturefnunum sem óhjákvæmilega verða til við eldsbruna, en staðurinn er heimsóttur af ferðamönnum á hverjum degi með og án leiðsögumanna.

Trúlega verður ekki hægt að fara í Leiðarenda í nokkra daga og mjög líklega þarf að ganga úr skugga með mælingum um að óhætt sé að fara niðrí hann aftur. 


Efnahagslegur stöðugleiki / stöðug fátækt

Þorsteinn Víglundsson bregður fyrir sig frösunum eins og þaulvanur pólitíkus. Hann talar um að markmið launasamninga sé fyrst og fremst að koma á eða varðveita svo kallaðan efnahagslegan stöðugleika. Efnahagslegur stöðugleiki fyrir þá sem ekki geta framfleytt fjölskyldum sínu af launum sínum, merkir einfaldlega áframhaldandi og stöðuga fátækt. Þetta vita þeir sem felldu samningana á dögunum. Það sem boðið var upp á í þeim náði engan veginn að breyta nokkru um afkomu þeirra. Kjarasamninga sem hafa að markmiði að viðhalda misskiptingu í nafni "efnahagslegs stöðugleika" ber líka að fella.
mbl.is Niðurstöðurnar valda vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augljós skilaboð Illuga

Mannréttindabrot í Rússlandi hafa verið að færast í aukanna, m.a. með harðari löggjöf sem skerða mannréttindi samkynhneigðra. Af þeirri ástæðu ætla þjóðhöfðingjar ýmissa landa ekki að þiggja boð Rússa um að vera viðstaddir vetrarólympíuleikana sem haldnir verða þar á næstunni. Sem stjórnmálamenn vita þessir þjóðhöfðingjar að  með því að hundsa ólympíuleikanna eru þeir að senda ákveðin táknræn pólitísk skilaboð til valdhafanna í Rússlandi. Þeir gera sér líka grein grein fyrir að gagnvart almenningi verða gjörðir þeirra ekki aðskildar frá skoðunum þeirra. Það felast ákveðin skilaboð í því að fara og í því að sitja heima.

Illugi Gunnarsson er stjórnmálamaður og er boðinn á vetrarólympíuleikanna í Sochi sem slíkur. Ef Illugi væri ekki ráðherra og stjórnmálamaður mundi honum ekki hafa verið boðið. Illugi segir að hann sé þeirrar skoðunar að það sé varhugavert að tengja saman um of ólympíuleikanna og stjórnmál. Ef hann væri þessari skoðun trúr mundi hann sitja heima. Eina ráðið til að aðskilja ólympíuleikanna frá stjórnmálum er að bjóða engum stjórnmálamanni formlega á þá.

Samt ætlar Illugi, í krafti þess að hann er stjórnmálamaður að þekkjast boðið og fara til Rússlands og vera þar með einhverjum félögum sínum frá hinum norðurlöndunum. Með því að virða boð Rússa sendir Illugi frá sér ákveðin pólitísk skilaboð og þau eru að hann getur vel hugsað sér sem stjórnmálamaður að umbera stefnu þeirra í mannréttindamálum.

 


mbl.is Gagnrýndu Rússlandsför ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæ bæ fésbók

Unga fólkið, fyrrum aðalmarkhópur fésbókar, er orðið leitt á að þvælast innan um öll hrukkudýrin þar. Það þolir illa  ömmur og afa, frændur og frænkur sem halda að það sé sjálfsagt að hnýsast þar ofaní mál krakkanna í gegnum fésbók og finnst voðalega sniðugt að setja athugasemdir við myndirnar og dægurhjalið sem er í raun eingöngu ætlað jafnöldrum þeirra. Ungt fólk nennir auk þess ekki lengur að eltihrella fólk, sem það þekkir sama og ekki neitt, út um allt net.

Samskipti unglinga við vini sína og kunningja fara í auknum mæli fram í gegnum smáforrit í símunum þeirra, öpp eins og Whatsapp, WeChatt og KakaoTalk. Þannig fá krakkarnir að vera í friði með einkasamskipti sín. Hið auglýsingalausa Whatsapp er t.d. komið úr Twitter hvað varðar daglegan fjölda skilaboða.

Það þarf því enga sérfræðinga til að sjá hrun fésbókar fyrir. Unga fólkið hefur hingað til leitt markaðinn í þessum efnum. Fólk hangir inni á fésbók af því að allir aðrir eru þar eins og er, ekki vegna þess að hún sé svo handhæg eða skemmtileg. Reyndar viðurkenndu fésbókarmenn þessa þróun sjálfir fyrir nokkru þegar þeir sögðu að notendum vefsvæðisins meðal ungs fólks fækkað daglega. - 


mbl.is Facebook gæti fjarað út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjálaðir borgarstjórar

Rob Ford borgarstjóri í Toronto í Kanada er á góðri leið með að hasla sér sess í stækkandi hópi klikkhausa sem kosnir hafa verið til valda af almenningi. íbúar í Toronto létu glepjast af gylliboðum Robs og lái þeim hver sem vill.

220px-Marionbarry001

En það er sem sagt ekkert nýtt að borgarstjórar og jafnvel þjóðhöfðingjar hafi misst glóruna ofan í vodkaflösku eða krakkpípu. Marion Barry borgarstjóri í Washington USA og Boris Yeltsin í USSR eru ágæt dæmi um slíkt.

Og það er freistandi að setja alla þá sem haga sér undarlega í virtum valdastöðum í einn hóp, en varla sanngjarnt.

1123mayors3

Ef við töku sem dæmi hegðun Arturas Zuokas borgarstóra í Vilnus sem ók sjálfur skriðdreka yfir Mercedes Benz bifreið sem hafði verið ólöglega lagt í reiðhjólastæði í miðborginni. Þetta gerði Arturas til að undirstrika að honum væri full alvara með að gera borgina reiðhjólavænni.

Þá hefur okkar eigin borgarstjóri Jón Gnarr oft gripið til óhefðbundinna leiða til að vekja athygli á einhverjum málum.

1123mayors2crop

Hann hefur opinberlega komið fram í bleikum hjól og geymverubúningi tuldrandi erindi úr söng Pussy Riot.

En það er langur vegur milli ástæðu hegðunar Rob Ford og Gnarrs. Rob hefur ekkert að markmiði með hegðun sinni en að svala eigin fýkn. Gnarr hegðar sér undarlega til að vekja athugli á hugsjónamálum sínum.


mbl.is Borgarstjórinn fullur og blótandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta annars ekki allt í gríni?

Harmleikurinn með grínið í Keflavík heldur áfram og nú birtist enn ein frétt um málið. Sævar Sævarsson grínisti og einn höfunda grínsins sem særði Hannes Friðriksson svo alvarlega að hann telur sér ekki vært lengur í bæjarfélaginu, er afar miður sín yfir því að Hannesi hafi sárnað grínið sem ekki átti að særa neinn.

Allt þetta grín er sem sagt nú orðið svo háalvarlegt að fréttveitur landsins keppast við að flytja af því fréttir og dramatíkin í gríninu er mikil. Þetta er að auki besta auglýsing sem grín-annálinn annálaði gat fengið. Nú vita allir hvað Keflvíkingum finnst hlægilegt eftir að hafa séð annálinn sem aðeins var saminn fyrir nokkra innvígða í Keflvíkinga og er fullur af innhúsbröndurum sem engir skilja nema þeir. 

Sævar segir að það hafi reyndar verið svo djúpt á skopinu að það þurfti "aðeins að vinna með það"  til að fatta það. Það þýðir líklega að í gríninu hafi verið dulið skop sem ekki var á allra færi að meðtaka strax og og þess vegna hafi verið mögulegt að ger þau mistök að taka því í fullri alvöru. Þetta á sérstakalega við ef grínfattarinn er svo langur hjá fólki að hann nær alla leið til Sandgerðis. Þá er einnig mögulegt að í gríninu hafi verið dulin alvarleg skilaboð, sett fram í yfirskini gríns. - Þannig skildi Hannes allavega grínið og sárnaði mikið.


mbl.is Annáll átti að vera saklaust grín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fetar í fótspor Rúnars Júl.

Hannes Friðriksson vill ekki eiga heima lengur í Keflavík. Það var gert grín af honum á Þorrablóti og það finnst Hannesi óþolandi. Frúin hans er honum sammála. Báðum finnst óþolandi að búa við skens og grín þorrablótandi Keflvíkinga, fyrir það eitt að skrifa gagnrýnar greinar í bæjarblaðið. Þrátt fyrir að hann viðurkenni að langflestir bæjarbúar séu bestu skinn hefur Hannes hefur ákveðið að feta í fótspor Rúnars heitins Júlíussonar og beita bitrasta vopni Suðurnesjabúans sem aðeins er beitt þegar allt annað hefur brugðist.

Hann hefur hótað að flytja burtu úr bænum.

Rúnar sá samt að sér og sættist við heitið Reykjanesbær sem er eitthvað svo óendanlega ótöff.  En Rúnar átti líka svo stórt hús að engin vildi kaupa það. Þess vegna sat hann fastur. Nú er bara að vona að ekki fari eins fyrir Hannesi, að hann eigi ekki alveg eins stórt hús og Rúnar svo honum takist að selja það og komast burt úr hrekkjusvínabænum sem fyrst.


mbl.is Ósáttur við þorraannál og flytur úr bænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvíta ekkjan frá Írlandi

Ww

Dagana eftir að eiginmaður hennar sprengdi sjálfan sig upp í lestargöngunum undir King Cross 7. júlí 2005 og drepið í leiðinni 26 manns, sagðist hin írska Samantha Lewthwait "alls ekki skilja" þessa "skelfilegu" gjörð.

Samantha er frá Banbridge, Co Down á Írlandi og gerðist ung múslími. 

Nokkrum vikum eftir dauða eiginmanns hennar Jermaine Lindsay, hvarf hún ásamt  tveimur börnum sínum, annað þeirra aðeins tveggja vikna gamalt. - Lögreglan segir að hætt hafi verið að fylgjast með fjölskyldunni seint árið 2005.

Sex árum seinna, um jólin 2011 var eftirgrennslan af hálfu bresku lögreglunnar hafin aftur. Þá fréttist af Samönthu í hreysa-úthverfi Mombasa á strönd Kenía. Þá 29 ára, komst hún undan klaufalegri tilraun kenísku lögreglunnar til að handsama hana.

Í einni af fjórum íbúðum sem hún hafði á leigu í borginni og hafði borgað fyrir marga mánuði fyrirfram með reiðufé, fundu lögreglumenn samskonar efni og eiginmaður hennar hafði notað í sjálfsmorðárásinni við King Cross. Í annarri íbúð, staðsett nálegt ferðamannasvæðinu, fann lögreglan skotfæri, sprengikveika, hríðskotariffil og reiðufé í svörtum plastpoka.

Lewthwait sem hvarf aftur eftir þetta er talin hafa ferðaðist með falskt Suður-Afrískt vegbréf undir nafninu Natalie Faye Webb, sem var nafn hjúkrunarkonu frá Essex sem aldrei hafði til Suður-Afríku komið. Hún var nú eftirlýst af Scotland Yard og talin ætla að skaða saklausa borgara með sprengiefnum. Hún var sögð á flótta með bresk-kenískum manni af pakkistanískum uppruna að nafni Habib Saleh Gani.

Eftir að þessar ásakanir voru settar fram formlega í janúar 2012 hafa engar upplýsingar borist um ferðir eða verustaði Samönthu.

Hún hefur verið sökuð um að vera helsti fjáröflunaraðili fyrir al-Qa´ida samtökin í Austur-Afríku, stundað fyrir þau mannaráðningar og að smygla ungum múslímum yfir til Sómalíu þar sem þeir voru þjálfaðir til hryðjuverka. Að auki var hún sögð ráða sjálf yfir kvenna-Jihad hópi. 

Samantha Lewthwait sem nú var kölluð "hvíta ekkjan" af lögreglunni og "hin hvíta systir okkar" af samstarfsfólki, var sökuð um að hafa staðið að baki og tekið þátt í árásum á kuffar tilbiðjendur í Kenískum kirkjum og öldurhúsum við að horfa á Evrópumótið í knattspyrnu 2012. Einnig aðrar sprengjuárásir sem hafa verið gerðar í A-Afríku upp á síðkastið.

Ekkert af þessu er þó sannað og er af mörgum talinn uppspuni til þess eins gerður að auka hróður hennar. 

Nú herma sagnir að Samantha hafi hætt sér aftur í gin ljónsins og snúið aftur til Kenía og fari jafnvel fyrir þessum hópi hryðjuverkamanna sem gerðu árásina á verslunarmiðstöðina í Nairóbí.

Sé það satt, vaknar sú spurning hvort allt annað sem sagt er að hún hafi gert sé raunverulega satt. 


mbl.is „Hvíta ekkjan“ meðal árásarmanna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband