Dönsuðu allsber við eld inn í Hellinum Leiðarenda

Einkennilegt atvik átti sér stað í dag. Ég var á leið í hellinn Leiðarenda í Tvíbollahrauni með 13 manna hóp, erlendra ferðamanna, en hellirinn er einkar vel til þess fallinn að sýna ferðamönnum, hæfilega langur (ca. 900 metrar) og í hæfilegri fjarlægð frá Reykjavík. 

Þegar ég kom að Bláfjallaafleggjaranum fyrri ofan Hafnarfjörð var ég stöðvaður af öðrum leiðsögumanni sem tjáði mér að hann hefði verið hætt kominn með hóp sinn inn í hellinum. 

Hann kvaðst hafa fundið mikla reykjarlykt  þar sem hann var staddur  innst í hellinum og þegar hann fór að kanna málið gekk hann fram á nokkra íslendinga sem höfðu kveikt eldi í einum afhellinum og virtust vera að dansa í kringum hann kviknaktir. Þegar leiðsögumaðurinn sagðist mundi tilkynna þetta stórhættulega athæfi til lögreglu, þrifu Íslendingarnir pjönkur sínar og þustu út úr hellinum og óku á brott. Leiðsögumaðurinn sagðist hafa komist við illan leik út úr hellinum með gesti sína hóstandi og spýtandi.

Satt að segja átti ég erfitt með að trúa þessari sögu og ók því upp að hellinum til að kanna málið sjálfur. Þegar ég kom niður í hellinn lá þéttur reykur ca. hálfan metra frá gólfi inn eftir honum svo langt sem augað eygði. 

Þetta er vita skuld stórhættulegt athæfi, eða eins og annar leiðsögumaður orðaði það sem þarna bar að um sama leiti; Hvert skólabarn á Íslandi veit að svona gerir maður ekki, það er lífshættulegt að kveikja elda inn inn í djúpum hellum". 

Ég hætti vitaskuld við hellaferðina ferðafólkinu til mikilla vonbrigða. En þeir voru afar undrandi á að Íslendingar skyldu haga sér svona og spurðu aftur og aftur hvort ég væri viss um að þarna hefðu verið Íslendingar á ferð og hvort það væri algengt að Íslendingar dönsuðu alsberir í kringum elda inn í hellum. 

Á leiðinni frá hellinum hitti ég lögregluna sem hafði verið send á vettvang og ítrekaði við hana að það þyrfti að koma upp skilti sem fyrst sem varaði við hættunni af reyknum og eiturefnunum sem óhjákvæmilega verða til við eldsbruna, en staðurinn er heimsóttur af ferðamönnum á hverjum degi með og án leiðsögumanna.

Trúlega verður ekki hægt að fara í Leiðarenda í nokkra daga og mjög líklega þarf að ganga úr skugga með mælingum um að óhætt sé að fara niðrí hann aftur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er bara 21% súrefni í loftinu og það þurfa lungun að geta nýtt sér

Þeir sem hafa gengið inn í súrefnissnautt rými hafa steinlegið án nokkurrar viðvörunar (reykingarmenn þola það betur)

Algengt við skipavinnu og líka þar sem mikil rotnun á sér stað

Ef þú ert oft að fara í hella með léleg loftskipti þá ættir þú að vera með súrefnismæli fæst t.d. hjá Dynjanda

Grímur (IP-tala skráð) 25.1.2014 kl. 21:41

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Gott að vita Grímur. Reikna með að kíkja við hjá Dynjanda næstu daga ;)

Svanur Gísli Þorkelsson, 25.1.2014 kl. 23:03

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ekki í lagi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.1.2014 kl. 04:30

4 identicon

Takk fyrir þessar frétt. Þetta hefði allt getað farið hrikalega.

Sigmar Þormar (IP-tala skráð) 26.1.2014 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband