Færsluflokkur: Bloggar

Hvers eiga Vestmanneyingar að gjalda?

Það er mikið glapræði af stjórnvöldum að leggja til einhvers konar skerðingu á heilbrigðisþjónustu við Vestamanneyinga. Eyjamenn leggja meira til þjóðarbúsins enn nokkuð annað samfélag miðað við höfðatölu og eiga það síst skilið, ef litið er algjörlega efnahagslegum augu á málið, að verða fyrir niðurskurðasaxi stjórnavalda. Þar að auki eiga þeir fárra kosta völ, ef fer sem horfir. Þeim eru settir ofurkostir sem hafa í för með sér mikinn kostnað sem t.d. Reykjavíkingar mundu aldrei þurfa að sætta sig við.

Vestmannaeyjar hafa, þrátt fyrir mikla sjálfstæðislund, þurft að þola afleiðingar misgáfulegra ákvarðanna stjórnvalda í gegnum tíðina. Eins og Elliði Vignisson Bæjarstjóri kom inn á í ræðu sinni við þessi mótmæli, hafa Eyjamenn auk þess þurf að glíma við margt mótlætið af völdum  náttúruaflanna í sinni hráustu mynd. Og það hafa þeir gert betur en flestir aðrir jarðarbúar, Íslendingum og íslensku þjóðarbúi til mikils ávinnings. En nú eru það klárlega mannanna verk sem ógna afkomu þeirra, frekar en nokkuð annað.

Engin getur sakað Eyjamenn um bruðl eða að hafa tekið þátt í þeim sýndarveruleika sem kom þjóðinni allri á vonarvöl. Sumir kunna að líta til Landeyjarhafnar og segja að þar hafi Eyjamenn farið offörum. Staðreyndin er sú að á meðan margir Eyjamenn þráðu betri samgöngur, vöruðu þeir jafnframt við þessum framkvæmdum í Landeyjunum. Þeir þekkja hegðun náattúröflin betur enn nokkur aðrir í sínu nágrenni, og jafnvel þótt allir hafi vonað að allt gengi vel, voru margir með varann á sér gagnvart þessari hugmynd.


mbl.is Á annað þúsund mótmæla í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig verður utanþingsstjórn til

Til að utanþingsstjórn geti orðið að veruleika þarf annað tveggja að koma til. Það fyrra er að efnt verði sem fyrst til kosninga og í þeim verði flokkum veitt svo rækileg ráðning að fylgi þeirra nánast þurrkist út,  líkt og gerðist á Ítalíu fyrir nokkrum árum.

Hin aðferðin er mun fljótlegri, þ.e. að fá þá til að draga sig í hlé. Til þess þyrfti ríkisstjórnin sem fyrst að biðjast lausnar, svo að forseti Íslands geti skipað utanþingsstjórn til að skipuleggja og halda utan um endurreisn efnahagslífsins.

Utanþingsstjórn er í þingræðisríki ríkisstjórn sem tekur við völdum tímabundið þegar ekki tekst að mynda ríkisstjórn eftir hefðbundnum lýðræðislegum leiðum af einhverjum ástæðum. Utanþingsstjórnir eru skipaðar beint af þjóðhöfðingja og stjórna með stuðningi eða hlutleysi löggjafarvaldsins.

Þorvaldur Gylfason segir svo um utanþingsstjórnina 1942-44 sem er eina skiptið sem slík stjórn hefur verð skipuð á Íslandi.

Íslendingar hafa einu sinni búið við utanþingsstjórn, í miðju stríði 1942-44. Hún var skipuð vegna þess, að þingflokkarnir komu sér ekki saman um myndun meirihlutastjórnar. Ríkisstjóri Íslands þurfti því að taka af skarið og skipaði stjórn undir forsæti dr. Björns Þórðarsonar, héraðsdómara í Reykjavík. Björn hafði boðið sig fram til þings 1927 fyrir Framsóknarflokkinn, en ekki náð kjöri. Með honum í stjórninni sátu við fimmta mann Björn Ólafsson stórkaupmaður, sem var tengdur Sjálfstæðisflokknum og síðar þingmaður hans 1948-59, og Vilhjálmur Þór, forstjóri SÍS og síðar seðlabankastjóri, nátengdur Framsóknarflokknum. Utanþingsstjórnin var í daglegu tali kölluð "Coca Cola"-stjórnin, þar eð eigendur verksmiðjunnar voru Björn Ólafsson og Vilhjálmur Þór, holdgervingar helmingaskiptanna.

Utanþingsstjórn nú yrði líkt og fyrr litin hornauga á Alþingi. Sex ráðuneyti myndu duga: forsætis, utanríkis, fjármála, heilbrigðis- og menntamála, atvinnuvega (byggða, iðnaðar, landbúnaðar, sjávarútvegs, viðskipta), og innanríkis (dóms, kirkju, félagsmála, samgöngu, umhverfis).


Almenningur hefur tekið við hlutverki stjórnarandstöðunnar

Þórs Saari bar af öllum þeim tóku til máls á Alþingi í kvöld. Ræða Baldvins Jónssonar var líka ágæt. Hann benti á það sem er skelfilegast við aðstæðurnar, að engir betri kostir eru raunverulega í stöðunni eins og komið er,  þar sem tækifærinu til að koma á persónukjöri hefur verið fyrirgert. Þjóðarstjórn virðist nú eini raunhæfi kosturinn. 

Þór var hvassari. Hann virtist vera sá eini sem endurómaði að einhverju leiti kröfur þeirra þúsunda sem börðu ílátin fyrir utan þinghúsið. Þór talaði tæpitungulaust og skammaði alla þingmenn jafnt. Þeir áttu það skilið.

Ótrúlegur uppgjafatónn var í stjórnarliðum enda gera þeir grein fyrir að þeim hefur mistekist ætlunarverk sitt. Gömul meðul duga ekki. Bæði Sjálfstæðisfólkið og Framsóknarmenn virtust ekki vita í hvern fótinn átti að standa. Þeir reyndu að gagnrýna enn vissu að um leið voru þeir að gagnrýna sjálfa sig og engar nýungar höfðu þeir með í farteskinu.

Fólk gerir sér í auknum mæli grein fyrir því að efnahagsbati og réttlæti i þjóðfélaginu veltur á að gamla flokkspólitíska hugafarinu sé mokað út.

Krafan um Þjóðstjórn verður sjálfsagt ofaná eins og komið er. Þessi stjórn er í andarslitrunum. Almenningur hefur tekið að sér hlutverk stjórnarandstöðunnar og mun eflaust halda því áfram þar til viðunandi lýðræðisumbætur verða að veruleika.

 


mbl.is „Stúta réttaríkinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir H. Haarde skal fórnað

Ansi er ég hræddur um að almenningur, hvað þá þeir sem hyggjast ætla aða sækja málið gegn Geir Haarde, verði að herða hjarta sitt til að sjá þetta mál til enda. Það þarf að hafa einbeittan vilja til að sakfella mann fyrir að gera nákvæmlega það sem allir aðrir voru að gera í kringum hann.

Hræsni pólitíkusa sem halda að það sé einhver friðþæging fólgin í því að fórna Geir, er svo auðsæ og pínleg að almenningur hlýtur að skammast sín fyrir það eitt að hafa nokkru sinni kallað eftir réttlæti. 

Og slæm samviska allra sem að komu er farin að segja til sín. 

Það var skelfilegt að sjá niðurlúta þingmenn við þingsetninguna, ganga sneypugönguna frá dómkirkjunni yfir í þinghúsið, berskjaldaðir fyrir eggjum og tómötum fólksins sem þeir hafa svikið. Hvílík hneisa, og hvílík skömm.

En hvaða önnur þjóð mundi gefa almenningi kost á að hæða þingmenn sína á þennan hátt. Það var eins og þeir væru þarna til að láta refsa sér.

Hvaða öryggisgæsla annars lands mundi gefa æstum lýð möguleika á að komast í slíkt návígi við æðstu stjórnendur landsins?

Að þessu leiti er Ísland eintakt. Allt er svo einfalt og augljóst.

Dorit forsetafrú var eins og hún væri að leika í bíómynd. Leikur hennar er ávalt svo einlægur. Hún starði sleginn út yfir æstan múginn eins og hún vildi segja;  ég gref hjarta mitt við undað auga, er þetta virkilega orðið svona slæmt? Sama fólkið og sló búsáhöldin fyrir rúmu ári er mætt aftur og hrópar "Vanhæf ríkisstjórn". Hvað vill þessi skríll eiginlega?

En hvað fær gott og heiðarlegt fólk yfirleitt til að vera þingmenn, vitandi að eina leiðin til þess er að koma sér fyrir í einhverjum flokknum, læra að spila refskákina og taka þátt í óheiðarleikanum sem harðkóðaður er í alla flokkspólitík. Fólk sem veit af reynslunni að flokkakerfið sem það starfar eftir er megin sundrungaraflið í samfélaginu.  Niðurlæging Geirs er einmitt niðurlæging hins pólitíska kerfis sem hann starfaði fyrir. Með því að ásaka Geir er fólk að ásaka sjálft sig.

 


mbl.is Ekki sekur frekar en Brown eða Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klofin tunga ♫♫♪♫

Það er ekki alltaf hið óvenjulega og fáséða sem grípur athygli okkar. Þótt boðið sé upp á hvoru tveggja í bókinni Snákar og eyrnalokkar eftir japönsku stúlkuna Hitomi Kanehara, er það fyrst og fremst næmt innsæi hennar sem heldur fólki við þessa stuttu bók uns henni er lokið. 
Bókin hefur verið gefin út á íslensku og umfjöllun um hana má finna hér. og hér.

klofintungaSnákar og eyrnalokkar varð metsölubók og Kanehara þá tuttugu ára, varð yngsti höfundurinn til að hljóta hin frægu Akutagawa bókmenntaverðlaun.

Stelpan sem segir söguna í bókinni heitir Lui og er 19 ára –  Hún er með dellu fyrir líkamsgötun, og fellur fyrir Ama vegna þess að honum hefur smám saman tekist að búa til svo stórt gat á tunguna á sér með sífellt stærri pinnum að það var enginn vandi að lokum að kljúfa tungubroddinn. Klofna snákstungan í honum heillar Lui og hún ákveður að gera eins.

Við lestur bókarinnar var mér títt hugsað til þess að meðal sumra Indíána-ættflokka í norður Ameríku merkir "að tala með klofinni tungu" að segja ósatt. Á Íslandi þekkjum við að orðatiltækið "að tala tveimur tungum".

KloftungaÓheiðarleikinn tengdur gaffaltungu á í vestrænum samfélögum örugglega rætur sínar að rekja til sögunnar af Adam og Evu. Eva var tæld af orminum til að tæla Adam til að eta af ávexti skilningstrénu sem svo var til að þau gerðu sér grein fyrir hvað var gott og hvað illt. Fyrir utan slöngur og snáka er það aðeins Kólibrí-fuglinn sem hefur klofna tungu.

Vinsældir klofinna tungna fara vaxandi meðal ungs fólks, en það getur verið dýrt að láta lýtalækni framkvæma aðgerðina. Margir gera það því sjálfir og eru til nokkrar aðferðir. Þú þarft að geta þolað sársauka í miklu mæli. Það tekur margar vikur að kljúfa tunguna og aðferðin er afar sársaukafull.  Ein er þessi;

1. Gerið gat á tunguna með pinna. Látið gatið gróa með pinnanum. Það tekur allt að mánuði fyrir gatið sárið að gróa. Ekki er hægt að kljúfa tunguna án þess að byrja á að gata hana.

2. Þræddu grannt girni í gegnum gatið og bittu endana saman við tungubroddinn. Athugaðu að það þarf að herða vel á girninu.

3. Þegar losnar á girninu sem ætti að vera á 3-4 daga fresti, skerðu það burtu og setur í nýtt og herðir að.  

4. Þannig heldurðu áfram uns tungan er næstum klofinn í tvennt að framan. Þetta getur tekið allt að 8 vikur. Þú notar síðan rakvélablað eða skurðhníf til að skera síðasta haftið.

6. Þá taka við æfingar með tungunni. Fljótlega muntu geta hreyft sitthvorn tunguhlutann sér og þú getur talað án vandræða.


Kynþáttafordómar enn og aftur.

Kynþáttafordómar? Nei, ekki hér á landi. Allavega ekki neitt til að hafa áhyggjur af. Ofbeldi vegna kynþáttafordóma? Því síður.

Einhverjir geta verið dálítið gamaldags í hugsun, en engum mundi detta í hug að flæma fólk í burtu af landinu.

En einmitt það gerðist hér og ekki í fyrsta sinn. Samt er fólk í afneitun á að slíkt eigi sér stað á litla friðsæla Íslandi.

Kynþáttafordómar eru útbreiddir meðal Íslendinga en þeir fara leynt. Þeir sem verða fyrir þeim eiga erfitt með að tjá sig um þá og þeir sem eru haldnir þeim, neita að horfast í augu  við það. Það er einmitt eðli kynþáttfordóma. Fólk veit ekki einu sinni að það er haldið þeim.


mbl.is Feðgar flýðu land vegna hótana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mario 25 ára

MarioÍ aldarfjórðung hefur hann bjargað konungsdætrum, gætt sér á sveppum og hoppað á vondu kallana, en aldrei gert við svo mikið sem einn vask. Hér er auðvitað verið að tala um heimsins frægasta pípara, Mario, sem verður 25 ára um þessar mundir.

Það er eflaust erfitt að finna einhvern sem yfirleitt spilar tölvuleiki, sem ekki hefur spilað í það minnsta einn af Super Mario leikjunum.

Litli Ítalinn með risastóra yfirskeggið hefur skemmt tölvuleikjaspilurum frá því 13. September 1985 þegar fyrsti Super Marios Bros leikurinn kom á markað fyrir Nintendo leikjatölvurnar.

Leikurinn seldist í meira en 40 milljónum eintökum og skildi eftir hrúgu af gullpeningum í kistum hönnuðanna.

Í fyrsta leiknum þurfti hetjan að ferðast um átta borð í Sveppalandi, til að bjarga Froskaprinssessunni frá hinni illu skjaldböku Bowser. - Þetta voru tímar sakleysis í tölvuleikjunum, löngu áður en bílaþjófar og morðingjar urðu að aðal söguhetjunum.

Þótt veröld Mario hafi breyst mikið með þróun tölvuteikninga og leikjatölva, hefur formúla leiksins haldið sér, jafnvel þegar að Mario og félagi hans settust undir stýrið í Super Mario Kart.

Mario og félagi hans Luigi, sem oft vill gleymast, eru alltaf jafn vinsælir eins og  sölutölur nýjasta leiksins;  Super Mario Galaxy 2, sanna.

Mario var skapaður fyrir Nintendo af þeirra fremsta hönnuði Shigeru Miyamoto. Hann nefndi hetjuna eftir Mario Segale, yfirsmið Nintendo vöruhússins sem þá var í byggingu.

Reyndar kom Mario fyrst fram árið 1981 í Donkey Kong leiknum og þá (haldið ykkur fast)  sem trésmiður. Hann var kallaður Jumpman, að sjálfsögðu  vegna þess að hann hoppaði svo mikið. Í Donkey Kong Junior, sem kom á eftir, var Mario meira að segja einn af vondu köllunum.

Til hamingju með áfangann Mario!

 


Skamm skamm á Alþingi

Stundum geta þingmenn þjóðarinnar bara ekki meira. Pirringurinn og óánægjan í samfélaginu er farin að segja til sín í þingsölum. Sýndarleikurinn er sem á að varveita virðugleika þeirra og heiður er orðin svo þrúgandi og leiðinlegur og hið rétta eðli þingmanna verður að fá að brjótast út.

Það gerist af og til og þá verða umræðurnar svipaðar og í sandkassanum á róló eða á leiðinlegum bloggsíðum um trúmál eða pólitík.

Nei.

Jú víst.

Nei.

Jú víst.

Sannaðu það!

 

 


mbl.is Og skammastu þín Árni Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jenis af Rana og siðgæðið

Jenis av Rana hefur tekist að hreyfa við einhverju í þjóðarsál Íslendinga sem legið hefur í dvala í nokkra hríð.  

Þegar að ég bloggaði á sínum tíma um að Jóhanna Sig. væri  (svo vitað sé) fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann í heiminum, sögðu margir í athugasemdum að kynhneigð hennar skipti akkúrat engu máli.

Samt þótti heimspressunni það eitt merkilegt við kjör Jóhönnu að hún væri samkynhneigð.

Þegar að bandaríska tímaritið TIME valdi áhrifamestu konur heims setti það Jóhönnu meðal hinna fremstu, einkum vegna kynhneigðar hennar.

Þá var fussað og sveiað á Íslandi.

Margir Íslendingar vilja ekki þurfa að horfast í augu við kynhneigð Jóhönnu.

Þeir segjast ekki vilja skipta sér af því sem gerist í svefnherbergi fólks. Það er gott að vera ekki nefið ofan í hvers manns koppi. Eru Íslendingar virkilega orðnir svona siðferðilega sótthreinsaðir. 

Einkennilegt hvað mörgum örðum en okkur finnst kynhneigð Jóhönnu merkileg.

Margir sjá kjör hennar sem forsætisráðherra sem skref fram á við í réttindabaráttu samkynhneigðra. -

Margir sjá líka kjör Jóhönnu, eins og Janis, sem ögrun við kristið siðferði. Þeir taka ofan fyrir Jenis fyrir að vilja ekki sitja til borðs með konum sem eru giftar hvor annarri.

Og svo eru þeir sem segja að kynhneigð hennar, opinberar heimsóknir með konu sinni, skipti engu máli, svo fremi sem hún vinni starf sitt af kostgæfni. Og hverjir eru sammála um að svo sé raunin í dag?

 


mbl.is Jenis ætti að skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynlíf í geimnum

Stephen Hawking og fleiri virtir vísindamenn hafa bent á það í bókum sínum að framtíð mankyns geti oltið á því hversu vel því tekst að lifa í aðstæðum þar sem þyngdaraflsins gætir lítið eða ekki. Fyrst og fremst hafa þeir í huga langar geimferðir.

Líklegt er að mannkynið þurfi fyrr eða síðar að leggja á sig slíkar geimferðir til að leggja undir sig nýjar plánetur og gera þær að heimili sínu. Ferðirnar eru svo langar að mannkyninu mun reynast nauðsynlegt að viðhalda sér með einhver konar tímgun á meðan á þeim stendur. 

Þrátt fyrir að vísindamenn hafi bent á þetta, hefur enn verið lítið fjallað um þennan þátt geimferða og enn minna reynt til að rannsaka hann. Þá liggja nánast engar upplýsingar fyrir um áhrif langvarandi þyngdarleysis á fóstur.

Tvö einNokkrar umræður um þetta spennandi rannsóknarefni fóru í gang 1989 eftir að gabb-skýrslu sem gengur undir heitinu "skjal 12-571-3570" var dreift um heiminn. Margir trúðu skjalinu sem fjallaði um kynlífs tilraunir sem NASA var sögð hafa staðið fyrir í geimnum.

Samkvæmt skjalinu áttu þátttakendur í tilraununum að hafa reynt mismunandi samræðis-stellingar í þyngdarleysi. Tíu þeirra voru útlistaðar sérstakalega og sex þeirra voru taldar raunhæfar, en þær notuðu ákveðin hjálpargöng eins og belti og uppblásinn göng.

Þá fengu þessar sérstöku kynlífspælingar byr undir báða vængi þegar að hjónin Mark C. Lee og Jan Davis, bæði þrautþjálfaðir bandarískir geimfarar, flugu út í geiminn í rannsóknarerindum. Þau hafa samt aldrei staðfest að um kynlífsrannsóknir hafi verið að ræða.

Þá má eining geta þess að í fyrstu kynblönduðu geimferðinni sem farin var á vegum Sovétríkjanna sálugu árið 1982, lék sterkur grunur um að  Svetlana Savitskaya sem einnig var fyrsta konan sem fór í "geimgöngu" hafi átt vingott við karl geimfarana sem tóku þátt í ferðinni og þannig í geimnum orðið fyrstu meðlimir 100 km.( 62 mílu)  klúbbsins svo kallaða. Svipaður orðrómur komst aftur á kreik árið 1990 þegar að Elena Kondakova og  Valery Polyakov, rússneskir geimfarar dvöldu samtímis um hríð í rússnesku geimstöðinni MIR.   

Samkvæmt bestu heimildum hafa kynlífrannsóknir í geimnum aldrei farið fram. Miðað við hugsanlegt mikilvægi slíkrar þekkingar, er það með ólíkindum. Kannski hugsa menn sem svo að nægur tími sé til stefnu eða að óþarfi sé að rannsaka hluti sem sjái um sig sjálfir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband