Færsluflokkur: Bloggar

Undarleg tilviljun

Ég hef bloggað tvisvar um þetta mál og gerðist meira að segja svo djarfur að hringja í tölvu fyrirtæki Vickram Bedi til að fá frekari upplýsingar um aðkomu hans að þróun pentium fartölvunnar, sem sagt er að hann hafi á afrekaskrá sinni í Wikipedia grein á netinu.  - Ég hef verið nettengdur í fjölda ára og aldrei þurft að hafa neinar sérstakar áhyggjur af netvörnum.

Í gær brá svo við að allar varnir höfðu varla við að láta mig vita af tölvuormi sem var stöðugt að reyna að komast inn í tölvuna mína og sækja þar persónuupplýsingar, leyniorð og kreditkortanúmer. Allur gærdagurinn fór í að koma tölvunni í samt lag og kveða niður orminn. Ég er ekki sérlega tölvufróður maður, en kemst samt af. Undarleg tilviljun fannst mér samt að verða fyrir svona "árás" á sama tíma og ég er að fjalla um Bedi/Davidson málið á blogginu mínu.


mbl.is Fórnarlamb bíræfinna svikahrappa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

C-3PO ♫♫♪♫

C3POAugljóst er að stór hluti bloggara skilur ekki Jón Gnarr. Líka er augljóst að meirihluti þeirra sem ekki skilja Jón Gnarr eru í "gamla Sjálfstæðisflokknum" og halda að allt sé eins og áður var.

Þeir skilja ekki að þegar þeir kalla Jón Gnarr "trúð" er það mikið hól fyrir Jón Gnarr og allir fylgjendur Jóns klappa saman hreifunum fyrir því.

Þegar Jón hagar sér eins og hann viti ekki neitt um pólitík, finnst gamla flokks meðlimunum það vera hneisa. Jón telur sér það hins vegar til tekna og þeir sem kusu hann segja sjúkk, sem betur fer.

Með öðrum orðum, "gamli Sjálfstæðisflokkurinn" skilur ekki geimverumálið hans Jóns.

Ég ráðlegg þeim öllum að festa sem fyrst kaup á einum C-3PO vélmenni sem skilur öll mál alheimsins, stilla hann á "íslensk pólitík í dag", og láta hann þýða það sem haft er eftir Jóni Gnarr.

Megi mátturinn vera með yður.


mbl.is Geimvera í íslenskum stjórnmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin frábæra Stella K. Víðisdóttir

Nei, það hvetur ekki til sjálfshjálpar að þiggja eitthvað í poka að borða fyrir sjálfan sig og börnin sín. Það er nefnilega ekkert atvinnuleysi og fólk getur fengið nóg að gera og þannig keypt sinn mat sjálft. Það eru þessi aumingjaelskendur sem kalla sig hjálparsamtök skemma allt og koma í veg fyrir að þetta pakk fái sér vinnu.

Að auki láta þau borgaryfirvöld líta illa út. Bara af því að borgaryfirvöld gera ekkert í þessum málum þýðir ekki að þau viti ekki um þurftalingana. Nei, ástæðan fyrir því að yfirvöld bregðast ekki við fátæktinni, er að þau vilja það ekki. Þannig er þetta í pottinn búið og það veit Stella K. Víðisdóttir, sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.


mbl.is Deila á matargjafir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tintron

TintronÉg hef verið að velta fyrir mér nafninu á hraunstrýtunni sunnan við Gjábakka í Þingvallasveit nærri veginum að Laugarvatni sem ýmist er sögð gervigígur eða hraunketill og nefnd Tintron. Tilefni þessa vangavelta er auðvitað að Sæmundur Bjarnason hefur verið að monta sig af því að hafa sigið niður um strýtuhálsinn og niður í hellinn fyrir neðan hann.

Ég hef ekki hugmynd um hversu gömul nafngiftin er, en hef á tilfinningunni að hún geti ekki verið mjög gömul. Því síður veit ég hver það var sem gaf strýtunni þetta forvitnilega nafn.

Donjon Jeanne_D'ArcHáskólavefurinn svarar því til í fyrirspurn um um nafnið að Helgi Guðmundsson telji nafnið á Tintron vera komið af frönsku donjon' dýflisa, svarthol'. Orðið er komið úr latínu. (dominio , að drottna)

Sú skýring finnst mér, eins og Svavari Sigmundssyni fyrrv. forstöðumanni Örnefnastofnunar, dálítið langsótt. Merkingin getur samt alveg staðist því af donjon er komið orðið dyngja (dungeon á ensku og reyndar oft notað sem sérheiti yfir allt annað fyrirbrigði í jarðfræði) en í Frakklandi voru og eru donjon oftast turnar með dýflissum sem lögun Tintron getur auðveldlega minnt á. (sjá myndir)

Þá segir háskólavefurinn þetta ennfremur um  strýtuna;

Í færeysku merkir orðið tint 'mælikanna, -staukur' en erfitt er að finna seinni hluta nafnsins skýringu. Ef til vill er það dregið af sagnorðinu tróna 'hreykja sér; gnæfa yfir', og trón'hásæti', og nafnið þá hugsanlega dregið af tilbúna orðinu Tint-trón. Merkingarlega er erfiðara að koma því heim og saman en fyrrnefndri skýringu. Enn annar kostur er að það sé dregið af tilbúna orðinu Tind-trón.

Þetta eru ágætar pælingar en hafa ekki við mikið að styðjast.

En hvaða aðrir möguleikar koma þá til greina?

Trona turnar 4Í Kaliforníu eyðimörkinni er að finna lítt kunn náttúrufyrirbæri sem kallast Trona. Þetta eru strýtur eða turnar, ekki ólíkir gervigígum á að líta og jafnvel viðkomu.

Orðið trona er upphaflega komið úr egypsku (ntry) eftir talverðum krókaleiðum inn í enskuna. Bæði á spænsku og sænsku þýðir orðið það sama og á ensku. Víst er að spánskan fékk orðið úr arabísku (tron) sem er samstofna arabíska orðinu natron og hebreska orðinu natruna sem aftur  kemur úr forngrísku og þaðan úr forn egypsku og merkir;  Natrín . (natríum eða sódi).

Tintron 2Trona turnarnir eru gerðir úr frekar óvenjulegri gerð tufa sem er samheiti yfir ákveðnar tegundir kalksteins. Sú tegund tufa sem trona turnar eru gerðir úr, verður einkum til við heita hveri og ölkeldur og kallast travertine.  

 Travertine Trona er því réttnefni á þessu fyrirbæri í Kaliforníu. 

Trona turnar 2Tintron getur hæglega verið íslensk stytting og samruni á þessum tveimur orðum og þess vegna gefið gervigígs- turn sem ekki er ólíkur í sjón og viðkomu og "trona-turnarnir"  í Kaliforníu. Það er alla vega mín tilgáta.


Indversk súluleikfimi

Úr Erótískum súludansi spratt á sínum tíma samnefnd tegund af húsmæðraleikfimi sem fjölmargar konur fullyrða að sé afar skemmtileg útfærsla á nauðsynlegri líkamshreyfingu. - Sjálfsagt mundu samt fæstir iðkendur þess slags leikfimi, komast með tærnar þar sem iðkendur hinnar forn-indversku súluleikfimi Mallakhamb hafa hælanna. Satt að segja er ótrúlegt að sjá hvernig þessi kappar bjóða aðdráttaraflinu birginn.  - Sjón er sögu ríkari. -

 


Kolbrabbinn Páll er dauður

Páll KolkrabbiÞær leiðu fréttir berast nú um heimsbyggðina að hið getspaka knattspyrnuáhuga-lindýr, Páll kolkrabbi, sem hýst var í tanki í sædýrasafninu í Oberhausen í Þýskalandi, hafi drepist s.l. nótt.

Kolkrabbar lifa sjaldan meira en tvö ár svo að dauði Páls kom ekki á óvart.

Samkvæmt upplýsingum þýska sædýrasafnsins var Páll orðin tveggja og hálfs árs, en honum var klakið út í sædýrasafni í Weymouth á England árið 2008.

Páll varð heimsfrægur fyrir að geta rétt til um sigurvegara í sjö leikjum Þýska landliðsins í síðustu heimsmeistarakeppni, þ.á.m. í leik liðsins gegn Spáni þar sem Þjóðverjar biðu ósigur.

Líklegt þykir að lifshlaup spákrabbans Páls verði lengi í minnum haft.  Í undirbúningi er heimildarmynd um líf hans og spádóma og bækur og leikföng honum tengd munu koma á markaðinn fyrir jól.

Þá mun minnisvarði um hann rísa fljótlega í sædýrasafninu þar sem hann átti heima.

R.I.P. Páll.


Sýningarfólkið

Sirkus tjaldAð síðustu, aðeins örstutt um farandfólkið sem kallar sig "Sýningarfólkið"

Í Bretlandi hafa yfir 20.000 manns atvinnu af Fjölleikahúsum og sirkusum. Þetta fólk myndar með sér samfélag og kalla sig The showmen. Flestir þeirra ferðast um landið, setja upp sýningar í stórum sirkustjöldum og leiktæki. Þeir búa í húsbílum eða jafnvel farartækjunum sjálfum sem notaðir eru til að flytja þungann búnaðinn á milli borga. Í Bretlandi eru 20 stórir sirkushópar auk fjölda smærri sýningarhópa sem ferðast um mestan hluta ársins.

Sýningar fólk á ferðSýningarfólkið á sér langa sögu sem rekja má aftur til farandsýninga-flokka miðalada.  Því tilheyrir sýningarfólkið sjálft, aðstoðarfólk og tæknimenn. Stóru fjölleikahúsin hafa vetursetu í nokkar mánuði á vissum stöðum og þá sækja börn sýningarfólksins nærliggjandi skóla í nokkar mánuði. Í seinni tíð hefur fjærkennsla boðist Sýningarfólkinu í auknum mæli.

Ólík því sem gegngur og gerist meðal annars farandsfólks á Betlandi, er lýtur starfsemi Sýninarfólksins ströngum reglum sem fylgt er eftir af stéttafélaginu "The Showmens’ Guild."


Nýaldar-flakkarar

Nýaldarflakkarar

Ég held uppteknum hætti við að fjalla um flökkufólk á Bretlandi. Þriðji pistillinn fjallar um svokallaða Nýaldar-flakkara. (New Age Travellers) 

Nýaldar-flakkarar eru hópar fólks sem oft eru kenndir við nýöld og hippa-lífstíl en hafa að auki tekið upp flökkulíf. Þá er helst a finna á vegum Bretlands þar sem þeir ferðast frá einni útihátíð til annarrar og mynda þannig með sér all-sérstætt samfélag. Talið er að þeir telji allt að 30.000.

Nýaldar-flakkarar ferðast um á sendiferðabílum, vörubílum, breyttum langferðabílum, hjólhýsum og jafn vel langbátum sem sigla upp og niður skurðina og díkin sem skera England þvers og kruss. Á áningastöðum setja þeir upp tjaldbúðir af ýmsum toga og herma þá gjarnan eftir tjöldum hirðingja beggja megin Atlantshafsins.

glastonbury-2004-travellers-lFyrstu hópar þessa tegundar farandfólks urðu til upp úr 1970 þegar fjöldi tónlistar-úthátíða á Bretlandi var sem mestur.

Einkum drógust þeir að "frjálsu útihátíðunum" (þær voru kallaðar frjálsar af því þær voru ólöglegar) eins og Windsor free hátíðinni , fyrstu Glastonbury hátíðunum og Stonehenge free hátíðunum. Í dag tilheyra margir þeirra  þriðju og fjórðu kynslóð flakkara.

Á níunda áratugnum fóru Nýaldar-flakkararnir um í löngum bílalestum. Breskum yfirvöldum og að er virðist, fjölmiðlum, var og er mjög í nöp við þetta nýtísku förufólk. Umfjöllun um þá í fjölmiðlum er yfirleitt afar neikvæð og stjórnvöld gera sitt ýtrasta til að leggja stein í götu þeirra.

Til dæmis var reynt að koma í veg fyrir að þeir reisti búðir við Stonehenge árið 1985 og enduðu þau afskipti með átökum í svo hinni frægu  Baunaengis-orrustu, (Battle of the Beanfield) þar sem mestu fjöldahandtökur í enskri sögu áttu sér stað.

Núaldarflakkarar við StonehengeÁrið eftir (1986) reyndi lögreglan að stöðva "friðarlest" Nýaldar-flakkara sem var á leið til Stonehenge til að halda upp á sumarsólstöður. (21. júní)

Þau átök urðu til þess að hundruð Nýaldar-flakkara ílengdist í grennd við Stonehenge og Wiltiskíri á England.

Nýaldar-flakkarar hafa orð á sér fyrir að setja gjarnan upp ólöglegar búðir, hvar sem þeir sjá færi á. Einnig að þeir flytji sig ört um set og eigi þar af leiðandi oft erfitt með að mennta börn sín, gæta hreinlætis og bjarga sér með nauðþurftir án þess að betla fyrir þeim eða taka þær ófrjálsri hendi.

Nýaldar flakkararFlest bæjarfélög á Bretlandi neita að veita þeim almenna þjónustu og gera sitt besta til að losna við þá sem fyrst út fyrir bæjarmörkin. Vímuefnaneysla er mjög algeng meðal þeirra og "frjálsar ástir" megin einkenni lífshátta þeirra.

Það er viðtekin skoðun að Nýaldar-flakkarar séu utangarðsfólk og hreppsómagar.

Margir þeirra stunda samt vinnu tímabundið við tilfallandi störf á búgörðum og við byggingarvinnu, í verksmiðjum og á veitingastöðum. Aðrir stunda flóamarkaði eða afla sér fjár með tónlistarflutningi á götum úti. Þeir eru þekktir fyrir að aðstoða hvern annan eftir getu, hirða um börn hvers annars og deila því sem einn aflar, með öllum.


Írska flökkufólkið

Í Bretlandi er flökkufólk (Travellers) af ýmsu tagi  talið vera 300.000 talsins.  Þar sem annarstaðar í Evrópu er Róma fólkið fjölmennast. Næst fjölmennastir eru svo kallaðir írskir flakkarar. Erfitt að segja til með vissu um fjölda þeirra en þeir eru taldir vera ekki færri en 30.000.

An Lucht Siúil , Fólkið gangandi.

Írskt farandfólkÍrska farandfólkið er eins og nafnið bendir til upprunalega frá Írlandi. Það hefur eigin siði og hefðir og að mörgu leiti sjálfstæða menningu. Það er að finna einkum á Írlandi, á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum. 

Upp á enska tungu kallar það sig stundum  Minceir eða Pavees  en á Shelta, sem er þeirra móðurmál,  kalla þeir sig an Lucht Siúil sem merkir bókstaflega "Fólkið gangandi". Shelta málið sem er talið vara frá átjándu öld, skiptist í tvær mállýskur; Gammon og Cant.

Margir trúa enn að tungumálið hafi verið þróað meðal flökkufólksins til að aðrir gætu ekki skilið það þegar það reyndi að svíkja og pretta almenning. Svo er þó ekki því tungumálið er raunverulegt tungumál.

Mjög er deilt um uppruna írska farandfólksins. Vandamálið er að þeir sjálfir hafa ekki haldið til haga sögu sinni og ákaflega lítið er um það að finna í heimildum frá Írlandi sem þó verður að teljast mikil söguþjóð.  

írskir flakkararLengi hefur því verið haldið fram að "fólkið gangandi" væri afkomendur landeigenda og vinnufólks þess sem Oliwer Cromwell flæmdi burt af írskum býlum á árunum 1649–53. Aldur tungumáls þeirra styður þá kenningu.

Aðrir segja að þeir séu afkomendur þeirra sem neyddust á vergang í sultarkreppunni miklu upp úr 1840.  En aðrir segja að ýmislegt bendi til að það sé komið af hirðingjum sem bjuggu á Írlandi á fimmtu öld og sem á tólftu öld voru kunnir undir nöfnunum "Tynkler" og "Tynker" (Tinnari). Slík nöfn þykja írska farandfólkinu niðrandi í dag.

Ljóst er að sumar fjölskyldur írska farandfólksins rekja ættir sínar tiltölulega stutt aftur í tímann en aðrar nokkrar aldir. Á Bretlandi er talið að þær telji allt að 30.000 manns.

Það safnar gjarnan brotamálmi á ferðum sínum um landið og sérhæfir sig í hundarækt og ræktun og sölu hesta.

BrúðurÞá kemur það árlega saman á stórum mótum bæði í Ballinasloe á Írlandi og í Appleby á Bretlandi til að eiga viðskipti við hvort annað og finna maka fyrir börn sín. Algengt er að stúlkur trúlofist nokkuð eldri drengjum þegar þær eru 14 ára og gifti sig þegar þær verða 16 ára.

Fyrrum ferðuðust írskir flakkarar um á hestvögnum. Í dag hafa margir þeirra sest að í hjólhýsahverfum. þeir sem enn eru á ferðinni,  ferðast um í stórum hjólhýsum.

Upp til hópa eru írsku flakkararnir fátækir og ómenntaðir. Lífslíkur á meðal þeirra eru undir meðaltali og barnadauði hærri en gengur og gerist annarstaðar í breskum samfélögum.

Almenningur er haldin miklum fordómum gagnvart þessu fólki og telur það vera þjófótta lygara og glæpamenn upp til hópa. 

 


Af uppruna Roma fólksins

Roma fólkÍ öllum Evrópulöndum nema e.t.v. á Íslandi, má finna farandfólk af ýmsu tagi. Fjölmennasti og langþekktasti hópurinn er án efa Roma fólkið sem jafnan gengur undir ýmsum nöfnum í  mismunandi þjóðlöndum. Á Íslandi er það jafnan nefnt Sígaunar. 

Algengasta samheitið yfir Roma fólkið er "Gyptar" (Gypsy) sem er dregið af landinu sem lengi vel var talið vera upprunaleg heimkynni þessa fólks, Egyptalandi. Seinni tíma mannfræðirannsóknir, orðsifjafræði og litningarannsóknir, hafa hins vegar leitt í ljós að Roma fólkið á ættir sínar að rekja til  Indlands.

Víða á Indlandi en einkum í Rajastan í Punjap héraði, er enn að finna hópa fólks sem tilheyrir þjóðflokki sem nefndist Domba. Nafnið kemur úr sanskrít og þýðir trumba eða tromma.

Domba Fólk á IndlandiDomba fólkið er flökkufólk sem tilheyrir stétt hinna "ósnertanlegu". Meðal þess hefur þróast mikil sagnahefð , rík hefð fyrir tónlistarflutningi, dansi, spádómaspuna og óvenjulegu dýrahaldi.  

Í helgiritum hindúa og búddista eru orðin doma og/eða domba, notuð yfir fólk sem eru þrælar eða aðskilið að einhverju leiti frá samfélagi manna. Sem stétt hina "óhreinu" eða "ósnertanlegu" gengur Doma fólkið einnig undir nafninu "Chandala".

Líklegt  þykir að Róma fólkið eigi ættir sínar og uppruna að rekja til Domba fólksins. Nafnið Roma er komið af orðinu Domba og mörg önnur orð í romönsku, tungumáli Roma fólksins, eru greinilega komin úr domba-mállýskunni.

Í frægu persnesku  hetjukvæði eftir skáldið Firdawsi, segir m.a. frá því hvernig persneska konunginum Shah Bahram V. (einnig nefndur Bahramgur) var árið 420 e.k. færðir að gjöf 12.000 tónlistamenn og skemmtikraftar af Domba kynþættinum, að launum fyrir að hafa hjálpað indverska kónginum Shankal af Kanauj  í stríði hans við Kínverja.

Fólk þetta settist til að byrja með að í Persíu en dreifði sér síðan til allflestra landa Mið-austurlanda.  Eitt sinn var því haldið fram að Roma fólkið í Evrópu, væri komið af þessum listamönnum. Svo mun þó ekki vera. Orðsifjafræðin gefur til kynna að forfeður nútíma Roma fólks hafi ekki yfirgefið Indland fyrr en um og eftir árið 1000 e.k.

Dom börn frá ÍsraelÞað er samt athyglisvert að í dag má finna afkomendur þessa listafólksfólks í Íran, Írak, Tyrklandi, Egyptalandi , Líbýu og Ísrael.  Það kallast Dom eða Domi og hefur enn atvinnu sem söng, dansi og frásögnum og stundar að auki flökkulíf, líkt og forfeður þeirra á Indlandi fyrir 1500 árum.

Romanskan er mikil heimild um langa leið Roma fólksins frá Indlandi til Evrópu. Í því má finna fjölda tökuorða frá hverju því landi sem það hafði viðdvöl í. Þess vegna má segja með nokkurri vissu að leiðir þess fyrir rétt þúsund árum, hafi legið um Afganistan, Persíu (Írak og Íran), Tyrkland, Grikkland og Armeníu.

Líklegasta ástæðan fyrir því að fólk þetta yfirgaf Indland er að það hafi hrakist undan landvinningum Mahmuds af Ghazni sem á árunum 1001-1027 e.k. herjaði mjög á Punjab og Sindh héruðin þar sem Doma fólkið var fjölmennt.

Þá segir sagan að Mahmud hafi í þessum herferðum hertekið mikinn fjölda listamanna og fjölleikafólks og flutt það til borga sinna í Afganistan og Persíu. Enn í dag kennir ein af a.m.k. 60 þekktum ættum Roma fólks í Evrópu sig við héraðið Khurasan í Persíu.

Roma í TyrkalndiViðdvöl Roma fólksins í Austrómverska-ríkinu, Tyrklandi og Grikklandi, áður en það hélt inn í mið- Evrópu mun hafa varað í 2-300 ár. Við komuna þangað var það fljótlega kennt við óhreina trúvillinga, svo kallaða Atsingani eða Athiganoi,  sem eitt sinn voru til í Phrygíu. E.t.v. vill var einfaldlega um að ræða þýðingu á orðinu "Chandala". Af Atsingani er heitið latneska Cigani dregið, á þýsku Zigeuner og á íslensku Sígaunar.

Roma fólki er af þessum sökum skiljanlega ekki vel við að láta kalla sig Sígauna. Það vill kalla sig Roma, Gypta eða Sinti. (merkir maður og kemur úr mállýsku frá Sind sem nú er hérað í Pakistan þar sem Roma fólkið hafi aðsetur um langt skeið á leið sinni til Evrópu)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband