Færsluflokkur: Bloggar

Jólahald fátækra

RjúpaFlestar af núveandi matarhefðum Íslendinga á jólum, hafa borist til landsins frá nágrannalöndunum. Nokkrar eru samt heimatilbúnar og eiga það að auki sameiginlegt að verða viðteknar vegna fátæktar og sparnaðar ólíkt því sem gengur og gerist meðal annarra þjóða þar sem jólamatar-hefðirnar hafa mótast af því besta og dýrasta sem völ er á.

til dæmis er Rjúpa hvergi etin sem Jólamatur, nema á Íslandi. Haft er fyrir satt að neysla hennar á jólum hafi eingöngu komið til vegna þess að fátæktin hafi verið svo mikil sumstaðar á norðurlandi  þaðan sem siðurinn ku ættaður, að ekkert annað kjötmeti hafi staðið þar til boða á Jólum. -

LaufabrauðÞá er það alkunna að laufabrauðið, sem einnig finnst hvergi nema á Íslandi, varð til vegna skorts á mjöli. Ekki þótti stætt á því að sleppa brauðmeti algjörlega um jól, þótt hráefnið væri bæði  illfáanlegt og dýrt.

Jafnvel á tuttugustu öld móta sparnaðaraðgerðir landans matar-neysluvenjur hans á jólum.

Appelsín og MaltUm 1940 kemur hið gómsæta Malt á markaðinn. Það varð þegar vinsæll drykkur en þótti tiltölulega dýr. Fljótlega fór fólk að drýgja maltið með  gosdrykkjum og þegar Egils appelsín kom á markaðinn 1955 þótti það fara betur saman en nokkuð annað með Maltinu. Fimm árum síðar var siðurinn orðin útbreiddur um allt land og hefur síðan verið óformlegur jóladrykkur íslenskra heimila.

Vafalaust eru dæmin fleiri þótt eg muni ekki eftir fleirum bráð. 


Eins og hræða í melónugarði

Jóla-tréhöggÁ flestum íslenskum heimilum sem öðrum meðal kristinna þjóða, þykja engin jól, nema að jólatré standi uppi í stofunni ljósum skreytt og prýtt silfur og gullglysi.  Flestir vita að jólatré tengist ekki beint fæðingarhátíð frelsarans og að siðurinn á rætur sínar að rekja til heiðni. Reyndar tók Marteinn Lúther jólatréð upp á sína arma og sagði það vera táknrænt fyrir lífsins tré í aldingarðinum Eden og vera þannig mótvægi við eftirlíkingu og uppstillingu kaþólskara af fæðingu Krists þar sem hann liggur í jötunni.

Fæstir veita því nokkra eftirtekt eða finnst það skipta nokkru máli, úr því sem komið er, að Biblían sjálf sýnist tala á móti þessum sið og vara við honum.

Gullið JólatréJeramía 10:1-5

"1Heyrið orðið, sem Drottinn talar til yðar, Ísraels hús! 2Svo segir Drottinn:

Venjið yður ekki á sið heiðingjanna og hræðist ekki himintáknin, þótt heiðingjarnir hræðist þau.

3Siðir þjóðanna eru hégómi. Menn höggva tré í skógi, og trésmiðurinn lagar það til með öxinni, 4hann prýðir það silfri og gulli, hann festir það með nöglum og hömrum, svo að það riði ekki.

5Skurðgoðin eru eins og hræða í melónugarði og geta ekki talað, bera verður þau, því að gengið geta þau ekki. Óttist þau því ekki, því að þau geta ekki gjört mein, en þau eru ekki heldur þess umkomin að gjöra gott. "


Ljósin í bænum

Musteris -MenóraEitt af elstu trúartáknum Gyðingdóms er sjö arma ljósastika. Í annarri Mósebók er sagt frá því hvernig Guð fyrirskipar gerð hennar og lögun. Eftir gerð stikunar var henni komið fyrir í helgidómi þjóðarinnar, fyrst í tjaldbúðinni og síðar musterinu í Jerúsalem.

"31Enn fremur skalt þú ljósastiku gjöra af skíru gulli. Með drifnu smíði skal ljósastikan gjör, stétt hennar og leggur. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, skulu vera samfastir henni. 32Og sex álmur skulu liggja út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar. 33Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo skal vera á öllum sex álmunum, sem út ganga frá ljósastikunni. 34Og á sjálfri ljósastikunni skulu vera fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm: 35einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo undir sex álmunum, er út ganga frá ljósastikunni. 36Knapparnir og álmurnar skulu vera samfastar henni. Allt skal það gjört með drifnu smíði af skíru gulli.

37Þú skalt gjöra lampa hennar sjö og skalt svo upp setja lampana, að þeir beri birtu yfir svæðið fyrir framan hana. 38Ljósasöx og skarpönnur, sem ljósastikunni fylgja, skulu vera af skíru gulli. 39Af einni talentu skíragulls skal hana gjöra með öllum þessum áhöldum. 40Og sjá svo til, að þú gjörir þessa hluti eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu."

Á hebresku er stikan kölluð Menóra sem einfaldlega þýðir lampi eða ljósastika. Á hverjum degi voru bikarar stikunnar fylltar af ólívur-olíu og síðdegis kveiktu prestarnir á þeim. Andleg merking stikunnar kemur fram í lokasetningu tilvitnunarinnar. Hún á að minna á opinberun Móses á fjallinu þar sem Drottinn birtist honum sem logandi runni. Stikan er sem sagt listræn eftirlíking af trjárunna.

Fram undir árið 200 F.K. heyrði Júdea undir Egyptaland. Þá réðist Antiochus III  Sýrlandskonungur inn í Egyptaland og yfirtók lendur þess. Um hríð bjuggu Gyðingar við einskonar heimastjórn. Árið 175 F.K. réðist Antiochus IV inn í  Jerúsalem og hertók borgina. Hann spillti helgidómi musterisins og bannaði hinar daglegu fórnir sem þar voru færðar og aðrar helgiathafnir sem fóru fram. Bannið varði í þrjú ár og sex mánuði, eða þar til allsherjar uppreisn var gerð í borginni, leidd af Matthíasi yfirpresti og sonum hans. Einn þeirra Judah, sem varð þekktur undir nafninu  Yehuda HaMakabi, (hamarinn) tók síðar við embætti föður síns.  Árið 165 F.K. tókst gyðingum að reka sýrlendinga af höndum sér og frelsa helgidóm sinn.

Sagan segir að þegar endurhelga átti musterið og kveikja skyldi aftur á hinum helga ljósastjaka, kom í ljós að sýrlendingar höfðu eyðilagt allt ljósmetið fyrir utan litla krukku sem bar innsigli yfirprestsins. Átta daga og nætur tók að útbúa nýja olíu og á meðan loguðu ljósin á stikunni af olíunni úr krukku prestsins sem dugði allan þann tíma.

Menorah 2Til að minnast þessa atburða lét Judah efna til hátíðarhalda, ljósahátíðarinnar Hanukkah sem festi sig í sessi og er haldin hátíðleg hvar sem Gyðingar búa enn í dag. Hún hefst  25. dag Kislev mánaðar hebreska dagatalsins sem fellur á seinni hluta nóvember til seinni hluta desember mánaðar samkvæmt Gregoríska tímatalinu. Hátíðin stendur í átta daga og átta nætur og með með henni varð til níu arma ljósastikan sem gjarnan logar fyrir utan hús Gyðinga yfir hátíðna.

Níu arma ljósastikan er táknræn fyrir dagana og næturnar átta en ljósið í miðjunni er kallað shamash (hjálpari), og er því einu ætlað að lýsa fólki. Hin átta eru tendruð til minningar um kraftaverkið með olíuna og til að lofa Guð.

AðventuljósVíkur þá sögunni til Svíþjóðar. Í kring um jólin 1964, (á þeim tíma sem flest öll hús á Íslandi voru komin með rafmagn), var kaupsýslumaðurinn Gunnar Ásgeirsson á ferð í Stokkhólmi. Gunnar átti mikil skipti við sænsk fyrirtæki og flutti til að mynda bæði inn Volvo og Husquarna. Á þessari ferð rakst hann á einfalda trépíramíta með sjö ljósum og ýmislega í laginu. Hér var um að ræða nýjung í Svíþjóð; lítt þekktir smáframleiðendur voru að reyna að koma föndri sínu á framfæri í jólavertíðinni. Um þetta segir ágætisgrein um uppruna "gyðingaljósanna" á Íslandi á vísindavefnum. 

"Þessi framleiðsla hafði þá ekki slegið í gegn í Svíþjóð og mun ekki hafa gert fyrr en um 1980. Gunnari datt hinsvegar í hug að þetta gæti verið sniðugt að gefa gömlum frænkum sínum, handa hverjum menn eru oft í vandræðum með að finna gjafir. Hann keypti held ég þrjú lítil ljós, og þau gerðu mikla lukku hjá frænkunum og vinkonum þeirra. Gunnar keypti því fleiri ljós næsta ár til gjafa sem hlutu sömu viðtökur. Þá fyrst fór hann að flytja þetta inn sem verslunarvöru, og smám saman þótti það naumast hús með húsi ef ekki er slíkt glingur í gluggum."

Menóra í KirkjuÞessi tegund af ljósum eru stundum kölluð "gyðingaljós" af því þau minna um margt á ljósahátíðar ljósastikur Gyðinga. En myndir af slíku stikum er einnig að finna í sumum kirkjum og er líklegra að sænsku hagleiksmennirnir hafi fengið hugmyndina þaðan, frekar en úr musteri gyðinga til forna.  


Viltu kaupa líkkistu?

Útsýnið innan úr kistu OswaldsÁrið 1981 voru starfsmenn útfararþjónustunnar Baumgardner Funeral Home í Fort Worth, Texas fengnir til að grafa upp líkið af Lee Harvey Oswald, þeim sem talinn er hafa skotið John Kennedey forseta.

Ástæðan var að Marina, sovésk ættuð eiginkona Oswalds var sannfærð um að í kistunni lægi sovéskur tvífari Oswalds, en ekki hann sjálfur. Róbert bróðir Oswalds reyndi í lengstu lög að koma í veg fyrir að líkamsleifar Lee yrðu grafnar upp, en svo fór sem fór.

Eftir að réttarkrufning staðfesti að í kistunni voru líkamsleifar Oswalds, var hann grafinn aftur á sama stað og fyr, en í annarri kistu.

Magic BulletÞað er þessi fyrri kista Oswalds sem útfararþjónustan ætlar að láta bjóða upp í næstu viku.

Margir safna munum sem tengjast morðinu á Kennedy og er búist við að kistan seljist fyrir dágóða upphæð.

Ef ég tilheyrði þessum hópi safnara, mundi ég eflaust hafa mestan áhuga á að kaupa töfrakúluna svokölluðu, en líklegast á eftir á líða langur tími þangað til að hún verður föl.


mbl.is Líkkista Lee Harvey Oswald til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hætta á Marinó snúningi?

Þá er loks komið á hreint hverjum er ætlað að fara höndum (og huga) um lífssamninginn sem við köllum stjórnarskrá. 10 konur og 15 karlar á öllum aldri og úr mörgum stéttum þjóðfélagsins. Sum andlitin þekki ég önnur ekki. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli.

Strax eru farnar að heyrast óánægjuraddir með hópinn og eiga greinilega erfitt með að beygja sig undir reglur lýðræðisins. Sumir spyrja í forundran hvernig þessi hópur ætli sér þá dul að koma með tillögur að nýrri stjórnarskrá. -

Nú verður eflaust tekið til að rýna í bakgrunn þessa fólks. Kannski taka fjölmiðlar Marinó (Njálsson) snúning á þeim og byrja að hnýsast í skuldastöðu þess og fortíð. Þá á eftir að rekja pólitísk og efnahagsleg tengsl allra og spá í hverjir studdu það og hverjir ekki.

Ég vona samt að þessu fólki verði gefinn vinnufriður. Saman myndar það nokkuð sannfærandi þverskurð af þjóðinni. Það voru kosið persónukosningu sem er mikill áfangi í lýðræðisþróun þjóðarinnar og þrátt fyrir að kosningaþátttaka hafi verið dræm, ber að fagna því.


mbl.is 25 kjörin á stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin má vel við una

40% þátttaka er alls ekki slæmt þegar tekið er tillit til þess að þjóðin hefur aldrei fyrr gengið til slíkra kosninga. Á kjörseðlinum voru engir bókstafir sem fólk er búið að harðkóða í flokkspólitíska heilastarfsemi sína. Pólitíska uppalninginn, hefðir og áhrif fyrirgreiðslupólitíkur kikkaði aldrei inn fyrir þessar kosningar.

 Hefðbundnar þrætur farmbjóðenda í sjónvarpi og útvarpi,fóru ekki fram og lítið var um auglýsingar og loforðaskilti blaðskellandi frambjóðenda með uppbrettar ermar sem lofuðu gulli og grænum skógum.

Samt lagði 40% þjóðarinnar það á sig að kynna sér stefnu meira en 500 einstakra frambjóðenda, og taka þátt í persónukosningum sem í raun eru algjör nýlunda að undantöldum forsetakosningum þar sem aðeins fáeinir eru í framboði þegar best lætur. 

Þá útkomu tel ég því nokkuð góða.

Margir verða eflaust til að gagnrýna hana og segja að ekki hafi nægilega vel til tekist. Þeir sömu ættu að hugleiða það að þetta er aðeins byrjunin. Á þessari reynslu er vel byggjandi í  framtíðinni.

 Að gagnrýna "dræma" þátttöku í kosningunum og telja hana rýra umboð þingsins á einhvern hátt, er dálítið likt því að gagnrýna ungabarn fyrir að pissa á sig.


mbl.is Kosningaþátttaka líklega um 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmælisveislan sem aldrei verður haldin

DagbjörtDagbjört varð snemma afar rökvís á lifið og tilveruna. Ung að árum hóf hún að vanda um fyrir meðborgurum sínum standandi á kassa niður á Lækjartorgi.

Hún var síður en svo ánægð með það þegar að foreldrar hennar, sem var mjög áreiðanlegt fólk, sögðust ætla að koma henni á óvart með að halda henni afmælisveislu einhvern tíman í vikunni fyrir 18. afmælisdaginn hennar.

Til að byrja með fylltist Dagbjört skelfingu. Veislan var sóun á tíma og fjármunum. Síðan fór hún að hugsa nánar út í hverju nákvæmlega foreldrar hennar höfðu lofað og varð þá ljóst að hún hafði ekkert að óttast. Það mundi enginn veisla verða haldin.

Rökhugsun hennar var á þessa leið. Foreldrar hennar sögðust á sunnudegi ætla að halda veisluna einhvern daginn í vikunni fyrir afmælið hennar sem yrði á laugardeginum næsta og veislan átti að koma henni á óvart.

Föstudagurinn kom ekki til greina vegna þess að á fimmtudeginum mundi hann vera eini dagurinn sem eftir væri og þá kæmi boðið ekki á óvart.

Dagarnir sem komu þá til greina voru; mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur.

Ef ekkert hefði gerst fyrir klukkan 24.00 á miðvikudegi, kom fimmtudagur heldur ekki til greina.

 Þannig afgreiddi Dagbjört alla dagana koll af kolli og útkoman var að enginn þeirra kom til greina. 

Þessi rök nægðu til þess að Dagbjört varð sannfærð um að veislan mundi aldrei verða haldin.

Hafði Dagbjört rétt fyrir sér?


þúsundkallinn sem hvarf

Þrír sölumenn komu samtímis á Hótel Húsavík. Til að spara dagpeningana sína ákváðu þeir að deila saman einu herbergi. Herbergið kostaði 30.000 krónur sem þeir staðgreiddu. Rétt í þann mund sem sölumennirnir komu upp á herbergið, uppgötvaði stúlkan í afgreiðslunni að hún hafði gert mistök. Sumarverðin voru runnin úr gildi og vetrarverð tekin við.

Herbergið kostaði í raun 25.000 krónur en ekki 30.000.

Stúlkan kallaði þegar í stað á einn þjóninn úr matsalnum og bað hann að taka strax 5000 krónur upp á herbergi til sölumannanna. Þjónninn tók við fimm þúsund króna seðlum og hélt með þá upp á herbergið til sölumannanna.

ÞúsundkallÁ leiðinni varð honum hugsað til þess að það mundi verða erfitt fyrir hann að skipta 5000 krónunum jafnt á milli manna þriggja. Hann ákvað því að stinga tveimur þúsundum í vasann og láta sölumennina hafa aðeins 3000 krónur, eða 1000 krónur hvern.

Þetta gerði svo kauði. -

En við þetta kom upp óvænt staða. Það lítur út fyrir að 1000 krónur (þúsundkall) hafi einfaldlega horfið.

Förum aðeins yfir dæmið;

Sölumennirnir greiddu fyrir herbergið 30.000 krónur, 10.000 hver.

Stúlkan sendi þjóninn með 5000 krónur af þessum 30.000 sem sölumennirnir greiddu með, sem hann átti að færa þeim. Þjónninn stakk tveimur þúsundum í vasann og lét sölumennina aðeins hafa 3000 krónur, eða eitt þúsund hvern.

Hver sölumaður greiddi upphaflega 10.000 (3 X 10.000= 30.000), og hver fékk eitt þúsund til baka sem þýðir að hver sölumaður greiddi í raun 9.000 krónur fyrir herbergið.

3 X 9000 gera 27.000. Tvö þúsund enduðu uppi í vasa þjónsins, eins og áður segir. Það gera samtals 29.000 krónur.

Getur einhver sagt mér, hvar er þúsundkallinn sem upp á vantar?


Sam Hashimi og Samantha og Charles Kane

sam-hashimiÁrið 1977 kom sautján ára stráklingur til London frá Írak til að leggja þar stund á nám í verkfræði. Hann hét Sam Hashimi. Á níunda áratugnum vegnaði honum mjög vel og græddist nokkurt fé á fasteignabraski. Hann gifti sig árið 1985 og eignaðist fljótlega með konu sinni Trudi, tvö börn. 

Árið 1990 var orðin svo stöndugur að hann reyndi að festa kaup á fótboltafélaginu Sheffield United. Áhangendur Sheffield voru ósáttir við Sam og kaupin gengu aldrei í gegn. Skömmu síðar hrundi fasteignaverð á Bretlandi og fyrirtæki Sams fór á hausinn. Í kjölfarið á tapinu fór 10 ára hjónaband Sams í vaskinn.

Árið 1997 var svo komið að hann hafði hvorki samband við fyrrverandi konu sína eða börnin sín tvö, stúlku og dreng. Sam einangraðist mjög félagslega eftir skilnaðinn. Hann sagðist hafa fundið fyrir mikilli örvæntingu og fannst hann til einskis nýtur. Sam lýsir þessum tíma á eftirfarandi hátt;

Sam og Trudi"Ég fann fyrir miklu vonleysi. Ég hafði tapað fótboltafélaginu mínu, fyrirtækinu, konunni, börnunum og heimili mínu  Ég var misheppnaður karlmaður. Ég var ekki karlmaður. "

Sam leitaði til sálfræðings og tjáði honum að hann vildi ekki lengur vera karlmaður og dreymdi um að verð kvenmaður. Sjö mánuðum seinna var hann skráður inn á skurðdeild á einkasjúkrahúsi og í Desember 1997 varð Sam Hashimi að Samönthu Kane.

Kynskiptiaðgerðin heppnaðist vel. Ekki leið á löngu uns Samantha hóf að endurreisa fyrirtækið sem Sam hafði tapað.  Á örfáum árum var Samantha orðin milljónamæringur sem gat leyft sér það sem hugur hennar girntist. Hún fór í lýtaaðgerðir og lét m.a. gera nef sitt kvenlegra,  leysigeislaaðgerð á augum gerðu gleraugun óþörf, tennurnar voru skjannaðar og réttar og skeggrótin var fjarlægð. Þeir sem kynntust Samönthu eftir aðgerðina áttu bágt með að trúa því að hún hefði verið karlmaður. Hún lét minka barkakýlið og strekkja á raddböndunum og gekkst undir brjóstastækkanir.

SamanthaÁrið 2004, eftir að hafa lifað sjö ár sem kona fóru að renna tvær grímur á Samönthu. Hún fann fyrir æ ríkari hvöt til þess að haga sér eins og karlmaður og velti því fyrir sér hvort hún væri ekki frekar að leika konu en að vera það raunverulega.  Blaðamaður einn spurði hana hvort hún væri ekki hommi, því hvernig gæti hann/hún sofið hjá karlmönnum ef svo væri ekki. Samantha svaraði; Ég reyndi það nokkrum sinnum (að sofa hjá karlmönnum) en það var frekar vélrænt. Ég hætti fljótlega við karlmenn og fór að hitta konur sem lesbía.

Svo fór að Samantha lét breyta sér aftur í karlmann sem nú kallar sig Charles Kane. Fyrsta skrefið var að láta fjarlægja brjóstin.  Öllu flóknari er aðgerðin sem á að endurskapa henni ný karlmannskynfæri.  Fyrst þurfti að fjarlægja allan hárvöxt af skinninu sem notað var í að endurhanna reður á Charles. Inn í nýja tippinu er túpa sem hægt er að pumpa upp til að líkja eftir stinningu. Ný gervi-eistu eru hengd í pung fyrir neðan tippið og þarf að kreista þau til að blása það upp.Charles verður að taka inn stóra skammta af  karlmannhormónum á hverju degi því líkami hans framleiðir þá ekki. Í fimm ár hefur hann verið á ströngum hormónakúr til að fá líkama sinn til að líkjast aftur karlmannslíkama en enn má sjá í honum leifar af Samönthu.

Í viðtali sem nýlega var tekið við Charles lýsir hann muninum á því að vera kona. 

"Til að byrja með var það mjög ánægjulegt að vera kona, sérstaklega fögur kona sem stundaði viðskipti. Fólk tekur eftir þér og það er mun auðveldara að ná athyglinni á fundum. Ég var oft mjög upp með mér af athyglinni. - Ég var miklu meira skapandi sem persóna. Áður tók það mig nokkrar sekúndur að taka ákvörðun, en sem kona hugsaði ég hlutina til enda, tók allt með í reikninginn áður en ég tók ákvörðun. -

Fólk vanmetur áhrif kven- og karl hormóna. Miðað við mína reynslu hafa þeir áhrif á allt líf þitt, líkamlega og tilfinningalega.- Og svo er það kynlífið. Fyrir karlmann er kynlífið mjög líkamlegt og mun ánægjulegra. Sem kona velta gæði þess mjög á skapinu og tilfinningum.-

Sem karlmaður hugsaði ég um kynlíf á hverjum degi, en sem kona var mér sama þótt ég stundaði ekki kynlíf í nokkra mánuði. - Kynlíf sem kona, var gott á marga vegu, en það var ekki sérlega lostakennt.- Það versta við að vera kona var að karlmenn komu stöðugt fram við mig sem kynveru. Ég varð frekar pirraður á því að hluta á karlmenn sem hafði ekki minnsta áhuga á, reyna við mig með fáránlegum húkklínum. -

Þótt ég væri kona á marga lund, fannst mér eins og heili minn starfaði enn sem karlmaður. Ég hafði áfram mikinn áhuga á umheiminum, fréttum, viðskiptum og íþróttum. En konurnar sem ég átti mest samneyti við höfðu ekki áhuga á þessu að sama skapi. -

Að vera kona fannst mér í raun frekar grunnt og takmarkandi. Allt virtist velta á hvernig maður leit út á kostnað alls annars. Ég hafði því miður lítinn áhuga á að versla.- Ég hafði heldur ekki áhuga á glansblöðum en ef ég reyndi að tala við karlmenn um hluti sem ég hafði áhuga á, tóku þeir mig ekki alvarlega.- 

Og vegna þess að ég hafði áður verið karlmaður, vissi ég alveg hvernig þeir hugsuðu og mundu bregðast við. Fyrir mér var það enginn leyndardómur. Það varð allt frekar leiðinlegt á endanum. - Svo fannst mér afar erfitt að fást við skapsveiflurnar og depurðina sem ég held að fylgi því að taka inn kvenhormóna. -

Sem karlmaður fann ég aldrei fyrir depurð. Ef eitthvað angraði mig, hristi ég það ef mér og hélt áfram. Sem kona var þetta stöðugur rússíbani tilfinninga. - Rifrildi við vinkonu eða vin hafði áhrif á mig í marga daga." -

"Trudi var í mínum augum hin fullkomna kona, hún var ástin í lífi mínu, en ég var týpískur karlmaður sem einbeitti mér of mikið að vinnunni og sinnti ekki fjölskyldunni. -

Ég hélt að ef ég skaffaði henni gott hús og nóg af peningum til að spandera í Harrods, yrði hún hamingjusöm. En það var hún ekki. - Þegar hún fór frá mér vegna annars manns fór ég allur í klessu og skilnaðurinn breytti öllu.- Ég fékk ekki að hitta börnin mín, sem fór alveg með mig. "

"Sem unglingur var ég dálítið skotinn í strák og  ruglaði smá um tíma. Ég fór á homma bari og kynntist klæða og kynskiptingum. Ég fór í gengum tímabil og gerði tilraunir. Mér fannst kynhneigð mín alltaf vera á floti, þótt ég laðaðist ekki að karlmönnum eftir að ég giftist Trudi."

Ég hitti kynskiptinga og klæðaskiptinga sem voru að undirbúa kynskiptingu, sem lofuðu það í hástert að vera kona, hversu gott kynlífið væri, hversu hamingjusamar þær væru og mig langaði að verða eins. - En ég sé það nú að ég var aldrei raunverulega kynskiptingur. Sannur kynskiptingur er einhver sem er staðráðin í að verða kona jafnvel þótt hún líti út eins 200 kg vörubílsstjóri. Mig langaði að verða fullkomin kona. Líf mitt var ímyndun ein.

Í einum kynskiptingaklúbbinum heyrði Sam minnst á Dr. Russell Reid og fékk tíma hjá honum. - 

"þetta gekk allt svo fljótt fyrir sig. Við ræddum um fantssíur mínar um að verða kona og hann greindi mig sem kynhverfing og gaf mér kvenhormóna. Þetta gerðist allt og fljótt en ég ólst upp við að treysta læknum. Að auki var ég ringlaður og þjáðist ég af depurð. Ég samþykkti greiningu læknisins án þess að spyrja.  

Sam gekkst undir kynskiptiaðgerð aðeins sex mánuðum eftir að hann fór í fyrsta sinn til Dr. Reid. Samkvæmt leiðbeiningunum, sem þó eru ekki löglega bindandi, er fólki gert að vera í hormónameðferð a.m.k. 12 mánuði fyrir aðgerð.

Eftir aðgerðina var Samantha afar ánægð. Hún náði miklu árangir á skömmum tíma í viðskiptalífinu, blandaði geði við hina ríku, saup kampavín og lifði hátt í Cannes og  Monte Carlo.

Samantha varð smá saman aftur döpur, sérstaklega eftir misheppnað ástarævintýri með breskum auðjöfri sem þó vissi að hún var kynskiptingur. Það var eftir þau vonbrigði að Samantha tók þá ákvörðun að láta breyta sér aftur í karlmann.

Charles"Til að byrja með virtist það ekki trufla hann að ég hafði eitt sinn verið karlmaður. En því lengur sem við vorum saman, kom það oftar upp. Hann sagði að ég hugsaði svona eða hinsegin vegna þess að ég væri ekki raunveruleg kona. Mér varð ljóst að ég mundi aldrei verða viðurkennd að fullu sem kona."

En stærsta ástæðan fyrir því að breyta sér aftur í mann segir Charles vera að hann vonaðist eftir að fá að umgangast börnin sín aftur sem hann hefur ekki séð í 13 ár.

"Eftir aðgerðina sem breytti mér aftur í karlmann reyndi ég að hafa samband við börnin en þau aftóku með öllu að hitta mig. Það var mikið áfall. Þannig hefur eiginlega ekkert af því sem ég hef reynt gengið upp. Stundum er ég mjög einmanna. ég hélt að ef ég yrði aftur karlmaður mundu hlutirnir ganga upp. En það hefur bara gert hlutina enn erfiðar" segir Charles.

"Eftir það sem ég hef gengið í gegn um finnst mér að það eigi að banna kynskiptiaðgerðir. Við lifum í neytandasamfélagi þar sem trúum öll að við getum fengið allt sem við viljum. En of mikið valfrelsi getur verið hættulegt."

 


mbl.is Skipti tvisvar um kyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

12 ára fjöldamorðingi

El_PonchisÍ Mexíkó ríkir mikil skálmöld. Glæpaklíkur eru margar og starfsemi þeirra, bæði mannrán og eiturlyfjasmygl og sala, afar arðvænleg. Fjöldi glæpa á hverjum degi er svo mikill að lögregla og yfirvöld takast ekki á við nema brot af þeim. Almenningur er auk þess löngu hættur að tilkynna glæpi til lögreglunnar, því af þeim glæpum sem þó er tilkynnt um, enda aðeins 1,5% með sakfellingu eða refsingu.
Meðalaldur meðlima mexíkanskra glæpagenga er 16 ár. Flestir eru þeir drengir þó ungar stúlkur séu einnig hafðar með til að sinna ýmsum smáverkum.
Þessa dagana hefur ástandið í Mexíkó dregið að sér athygli heimsins vegna myndbands sem birt var á youtube sem sýnir viðtal við12 ára dreng sem kallaður er “El Ponchis”.
el-ponchisEl Ponchis er meðlimur Suður kyrrahafs glæpa-samsteypunnar sem er afar sterk í Morelos Héraði í Mexíkó. Á myndbandinu sést El Ponchis skera dreng á háls, lúskra á öðrum og stilla sér síðan upp við hliðina á líkinu. El Ponschis er sagður vera fjöldamorðingi, blóðþyrstur með eindæmum og afar grimmur við fórnarlömb sín.
Gengi El Ponchis hefur haft þann sið að setja myndir af vopnum sínum og fórnarlömbum á netið og leiddi það loks til sérstakrar rannsóknar. Sérstök hersveit var send í síðasta mánuði til borgarinnar Tejalpa þar sem nokkrir meðlimir gengisins voru handteknir.

 
GengiðEkki er vitað hvert raunverulegt nafn El Ponchis er, en hann komst undan ásamt Jesus Radilla sem einnig er frægur orðin fyrir glæpi sína. Talsmenn hersins segja að gengið hafi notið vernda yfirvalda í borginni og fengið að athafna sig þar að vild. Einnig töldu þeir glæpaklíkuna tengjast pólitískum samtökunum "Democratic Revolution Party".  (PRD).

Jesus Ralla er samstarfsmaður  El Ponchis, sem er sagður aðeins 12 ára. El Ponchis er sagður hafa tekið þátt í pyndingum og morðum á fjölda manns en nákvæm tala þeirra hefur enn ekki komið fram  Eftir að hafa drepið fórnarlömb sín, hendir drengurinn líkum þeirra gjarnan á fjölfarin vegamót eða skilur þau eftir á bílastæðum smáborga víðsvegar um héraðið.

Glæpina fremur  El Ponchis gjarnan að viðstöddum stúlkum sem eru taldar vera systur hans, þekktar í Tejalpa undir nafninu “Chavelas.” Þær eru sagðar hjálpa til við að koma líkunum af fórnarlömbum El Ponchis þangað sem ákveðið hefur verið að skilja þau eftir.

Mexíkó er ellefta fjölmennasta land í heiminum og fjölmennasta spænskumælandi þjóðin. Með um 111 milljónir íbúa er landið tiltölulega þéttbýlt. Eftir því sem næst verður komist er talið að 7,48 milljón glæpir séu framdir í landinu árlega, en rétt um 64.000 þeirra tilkynntir til yfirvalda.

15% af þeim eru rannsakaðir en aðeins 4% þeirra lýkur með dómi vegna þess hversu yfirvöldum gengur illa að fara að lögum. Hver rannsókn tekur að meðaltali 130 daga.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband