Margur verður af aurum api segir máltækið og það hefur oft sannast á þeim sem verða skyndilega forríkir en ekki kunnað að "fara með" eins og stundum er sagt.
Auðfenginn auður virðist renna auðveldlega úr greypum hinum nýríku og sérstaklega þeirra sem ekki hafa þurft mikið fyrir honum að hafa eins og að vinna í happdrætti.
Margar sögur eru til að fólki sem unnið hefur miklar fúlgur fjár í happdrættum en orðið skítblankt eftir tiltölulega stuttan tíma.
Enginn slær þó við hinum breska Michael Carroll, sem árið 2002 þá 19 ára, vann 9,7 milljónir sterlingspunda (1.722.429.000 krónur) í happdrætti. Saga hans ætti að verða öðrum víti til varnaðar, þótt ég efist um að svo verði.
Michael var að vinna við sorphirðingu þegar að honum bárust þau tíðindi að hann væri orðinn einn að auðugustu æskumönnum á Bretlandi.
Í bókinni "Gættu hvers þú óskar þér" (Careful What You Wish For) sem er ævisaga hans skrifuð af Sean Boru, kemur fram að á minna 18 mánuðum tókst Michael að sóa svo miklu af auði sínum, mest í sukk með þúsundum gleðikvenna, áfengi, hörð eiturlyf og veðmál, að hann átti þá aðeins eftir hálfa milljón punda.
Michael byrjaði á því að kaupa sér fjögur heimili, sumarvillu á Spáni og tvo BMW sportbíla, tvo Mercedes-Benza. Hann dældi peningum í ættingja sína og vini sem fjölgaði svo um munaði eftir að hann varð ríkur.
Michael komst fljótlega í kast við löginn vegna eiturlyfjanna og var sagður dyggur stuðningsmaður vígamanna-klíkunnar Ulster Defence Association.
Michael segist samt ekki sjá eftir neinu og kallar sjálfan sig konung hyskisins, (King of Chavs) uppnefninu sem sorpritin kölluðu hann á meðan þau fylgdist grannt með öllu sem honum viðkom og hann átti peninga. Samnefnd heimildakvikmynd var gerð um hann árið 2006.
Snemma á síðasta ári var Michael gerður gjaldþrota og það sem eftir var af eignum hans var selt á uppboði.
Um svipað leiti lék hann karakter sem var eins og hann sjálfur, í kvikmyndinni Killer Bitch.
Um tíma var hann á atvinnuleysisbótum en endaði að lokum aftur við sorphirðuna, starfið sem hann fékkst við áður en hann varð að "apa".