4.9.2009 | 04:04
Hið dularfulla sjórán á Arctic Sea
Í júlí mánuði sigldi skipið Arctic Sea frá Finnlandi með rússneska áhöfn innanborðs. Förinni var heitið til Alsír og um borð var samkvæmt farmskjölum; timbur talið ca. tveggja milljóna dala virði. Nokkrum dögum síðar var tilkynnt um hvarf skipsins og síðan að skipinu hefði verið rænt af sjóræningjum. Ef rétt reynist er þetta fyrsta sjóránið á þessum slóðum í nokkur hundruð ár.
Mjög fljótlega varð ljóst að ekki var allt sem sýndist. Upp spruttu sögur um að skipið hefði einhvern allt annan farm en farmskjölin segðu til um.
Það sem gerst hefur síðan er að skip úr rússneska flotanum hafa fundið Arctic Sea og mennirnir sem komu um borð í skipið þann 24. júlí hafa verið ákærðir fyrir mannrán og sjórán. Skipsstjórinn og áhöfnin eru einnig enn í haldi og hver sem farmurinn var, hefur hann verið kyrrsettur.
Við fyrstu leit fannst ekkert óvenjulegt í lestum skipsins og nú hafa rússnesk yfirvöld gefið út yfirlýsingu sem sjálfsagt verður að duga sem endanleg skýring á því sem gerðist. Þetta var tilraun til sjóráns sem rússneski sjóherinn kom í veg fyrir án þess að skoti væri hleypt af.
Ýmis smáatriði sem virka ruglandi eru látin óskýrð og þess vegna grunar marga að sannleikurinn sé öllu vafasamari. Bent hefur verið á þann möguleika að Arctic Sea hafi verið að flytja vopn til mið-austurlanda og skipið hafi verið stöðvað af Ísraelsmönnum.
Sá sem er hvað fróðastur um málið er án efa sérfræðingur ESB um sjórán; Tarmo Kouts aðmíráll frá Eistlandi . Hann segir að ef farmurinn hafi verið flugskeyti geti það skýrt furðulega hegðun Rússa þennan mánuð sem atburðirnir áttu sér stað.
Kouts segir að lang-líklegast sé að Ísraelsmenn hafi stöðvað skipið. Þeirri útgáfu hafa rússnesk yfirvöld mótmælt kröftuglega og fulltrúi Rússa hjá NATO, Dmitri Rogozin hefur sagt að Kouts eigi að "hætta þessari munnræpu".
Útgáfan frá Moskvu er svona; Arctic Sea, mannað rússneskri áhöfn, sigldi frá Finnlandi þann 22. júlí undir maltneskum fána á leið til Alsír. Um borð var timbur sem var tveggja milljóna dollara virði. 24. júlí réðust átta fyrrum rússneskir mannræningjar um borð.
Tækið sem gaf til kynna staðsetningu skipsins var tekið úr sambandi í enda mánaðarins þegar að skipið sigldi út úr Ermasundi út á Atlantshaf og hvarf svo eftir það. 12. ágúst sendi rússneski sjóherinn skip á vettvang til að leita að Arctic Sea. Viku seinna lýstu Rússar því yfir að skipinu og áhöfninni hefði verið bjargað.
En eftir því sem fleiri smáatriði málsins komu í ljós, varð sagan æ gruggugri og skýringar Rússa hjálpa lítið til að skýra hana.
Til dæmis er spurt; af hverju réðust ræningjarnir á Arctic Sea sem sigldi með mjög ódýran farm, þegar fullt var af skipum á sömu slóðum með miklu verðmætari farm? Hvers vegna sendi skipið ekki út hjálparkall þegar á það var ráðist?
Hvað var forseti Ísraels Shimon Peres að gera í skyndiheimsókn til Rússlands daginn eftir að skipinu var bjargað?
Hversvegna beið Rússland svona lengi með að senda skip á vettvang til að finna skipið?
Og hvað meinti Dmitri Bartenev, bróðir eins hinna meintu sjóræningja þegar hann sagði í viðtali við eistneska sjónvarpið þann 24. ágúst að bróðir sinn og félagar hans hefðu verið "veiddir í gildru." "...þeir fóru til að finna vinnu og nú eru þeir peð í einhverjum pólitískum leik"?
Svo eru það spurningarnar í tengslum við björgun Arctic Sea. Skipanir komu frá Kremlin, Anatoly Serdyukov varnarmálráðherra um að floti sem m.a. samanstóð af kafbátum og tundurspillum tæki þátt í aðgerðinni ásamt fleiri skipum. Til hvers þessir miklu yfirburðir gegn átta mönnum?
Það tók fimm daga að finna skipið þótt utanríkisráðuneytið bæri það seinna til baka og sagði að rússnesk stjórnvöld hefðu alltaf vitað hvar skipið væri.
Til að fljúga áhöfninni og ræningjunum til Moskvu, alls 19 manns, voru sendar tvær risastórar hergagna-flutningsvélar.
Og þegar komið var til Moskvu var áhöfnin sett í einangrun eins og sjóræningjarnir. Hvorugir máttu tala við fjölskyldur sínar hvað þá fjölmiðla.
"Af þeim staðreyndum sem liggja fyrir, án getgáta, er ljóst að þetta var ekki sjórán" segir Mikhail Voitenko, ritstjóri rússneska sjávarmála ritsins Sovfrakht, sem hefur fylgst með og skýrt frá óvenjulegum atburðum sem gerast til sjós, í tugi ára. "Það er ekki hægt að fela skip í margar vikur nema með aðstoð ríkisstjórna."
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 04:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.9.2009 | 23:41
Móðir jörð grætur
Þessi mynd var tekin í Austfonna jöklinum á eynni Nordaustlandet í Noregi í síðast liðnum júlí mánuði af ljósmyndaranum Michael Nolan. Myndinni hefur ekkert verið breytt og höfundurinn að þessari íshöggmynd er sjálf móðir jörð.
Tár móður jarðar hafa verið vinsælt yrkisefni ljóðskálda, ekki hvað síst upp á síðkastið þegar í ljós hefur komið hversu mjög er gengið nærri náttúrunni af hendi manna. Segja má að þessi mynd sem er af bráðnun í jöklinum, sé afar ljóðræn og jafnframt táknræn. Móðir jörð grætur örlög sín og okkar, harmar röskun mannsins á jafnvægi náttúrunnar.
Illa gengur að stemma stigu við hitnun jarðarinnar og hver sem hlutur mannsins er í því ferli, eru nú líkur á að það sé orðið of seint að hægja á því hvað þá að koma í veg fyrir það. Á næstu áratugum munu afleiðingar þess fyrir menn og lífríki jarðarinnar yfirleitt verða að fullu ljósar.
Umhverfismál | Breytt 4.9.2009 kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.9.2009 | 17:17
Heimssál blaðamanna og fyrirsætan sem notar föt númer 14
Það er ekki á hverju degi sem fyrirsætur komast í heimspressuna fyrir það eitt að líta ekki út eins og flestar fyrirsætur gera. En það gerði Lizzie Miller, tvítug bandarísk stelpa sem sat fyrir í nýjasta tölublaði tímaritsins Glamour. Hún notar víst talsvert stærri númer en aðrar fyrirsætur gera, en hver sér það á myndum eins og þessari sem príðir forsíðu þessa bandaríska tímarits.
Það sem mér finnst mest áhugavert við þessa frétt er að hún skuli vera frétt sem birtist í öllum helstu fjölmiðlum heimsins. Það er eins og að Lizzie hafi snert við einhverju í heimssál blaðamanna og fjölmiðlafólks sem segir þeim að það séu fréttir, ekki bara til næsta bæjar, heldur tíðindi sem heimsbyggðin má ekki missa af, að stúlka sitji fyrir hjá tímariti sem hefur maga, læri og brjóst eins og flestar jafnöldrur hennar.
Sagan segir að tímaritið hafi fengið óvenju mikil viðbrögð við þessari myndbirtingu. Konur víðs vegar um Bandaríkin segjast hafa "gert sér grein fyrir að það væru til aðrar konur sem litu út eins og þær."
Það gefur sterklega til kynna að búið sé að koma þeirri firru kyrfilega fyrir í bandarískum konum að flestar konur líti út eins og myndirnar af súpermódelunum þar sem hver punktur hefur verið fótósjoppaður.
3.9.2009 | 04:08
Af gjábakkanum á Bessastöðum
Hvað hefði gerst ef forsetinn hefði neitað að skrifa undir Icesave. Jú, það mundi hafa myndast mikil "gjá" milli hans og þjóðarinnar. Líka milli hans og alþingis sem segist vera hluti af þjóðinni þrátt fyrir að þeir samþykktu lög sem mikill meir hluti hennar er á móti. En það heitir víst lýðræði.
Lögin hefðu svo beðið eftir að alþingi kæmi saman á ný, til að hægt yrði að ákveða örlög þeirra og permafrostið í samskiptum Íslands við fjármálheiminn mundi halda áfram um ófyrirsjáalegan tíma.
Við að samþykkja lögin, hefur víst myndast "mikil gjá" milli forsetans og a.m.k. 10.000 þeirra landsmanna sem skoruðu á hann að samþykkja ekki lögin og svo milli hans og einhvers hluta þess mikla meiri hluta þjóðarinnar sem var á móti því að þingið samþykkti þau.
Mér sýnist að á hvorn veginn sem þetta er litið, Ólafur gat ekki komið vel út úr þessu. Hann var milli steins og sleggju, bölvaður ef hann stæði og bölvaður ef hann hrykki. Svo hafði hann sett ákveðið fordæmi sjálfur með að samþykkja ekki umdeildfjölmiðla-lög á sínum tíma. Það eitt virðist fá suma til að halda að hann eigi að gera slíkt að reglu frekar en undantekningu.
Margir fara mikinn í bloggheimum út af þessu máli og spara ekki stóru orðin. Sumir kallar Forsetann "ekki sinn" og aðrir kalla eftir afsögn hans vegna þess að hann fór ekki eftir því sem þeir sögðu. Hann er sakaður um að vera heigull og gunga, svo einhver orðfæri bloggara séu hér staðfærð sem dæmi. Meira að segja Mogginn sjálfur byrjaði að blogga um málið til að benda á að Ólafur hafði hafnað fjölmiðlalögunum til að koma höggi á Davíð Oddsson. - Það er greinilegt að sumir eru þegar farnir að undirbúa forsetaframboð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.9.2009 | 16:36
Breskir unglingar drekka meira og eignast fleiri börn
Á Bretlandi viðgengst meiri drykkjuskapur á meðal barna og unglinga en víðast hvar annarsstaðar. 33% krakka undir sextán ára aldri viðurkennir í nýlegri alþjóðlegri könnun að hafa dottið í það a.m.k. tvisvar sinnum sem er miklu hærra en meðaltalið í öðrum OECD löndum seme er 20%. Í Bandaríkjunum er hlutfallið undir 12%.
50% af fimmtán ára breskum stúlkum segjast hafa drukkið a.m.k. tvisvar sem er 10% hærra en gengur og gerst meðal drengja.
Barneignir meðal unglingsstúlkna í Bretlandi eru einnig miklar. Aðeins í Tyrklandi, Mexíkó og Bandaríkjunum eru þær algengari. Til breskra barna rennur þó mun stærri hluti af skattfé almennings en víðast hvar annarsstaðar.
Að þessu leiti virðist ekki vera beint samband milli góðrar hegðunar og hamingju barna og hversu mikið er í þau eytt af skattpeningum. Hvert barn í Bretlandi fær rúmlega til sín 90.000 pund sem er 10.000 pundum minna en meðaltalið í OECD löndunum og fjórum sinnum minna en börn í Bandaríkjunum fá af almannafé.
Dawn Primarolo sem er Barnamálaráðherra í Bretlandi að við þessu mundi ríkisstjórnin bregðast og efna til mikillar auglýsingarherferðar á næsta ári, gegn víndrykkju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2009 | 04:24
Jessica Simpson um undirfötin sín
Ljósið fer hraðar en hljóðið. Þess vegna virðast sumar manneskjur ljóma þangað til þú heyrir hvað þær eru segja.
Mér datt þessi lumma í hug þegar ég las þetta (gamla) slúður um Jessicu Simpson sem ég féll fyrir í ca. 10 sekúndur fyrst þegar ég sá myndina af henni. Svo las ég viðtalið þar sem hún segir að hún "trúi því fastlega" að nærfötin hennar "setji tóninn" fyrir daginn. Þessi 29 ára gamla ljóska sem er nýbúin að setja á markaðinn eigin undirfatalínu sagði þessa ódauðlegu setningu við það tækifæri; "Auðvitað elska ég undirfatnað. Hvaða stelpa gerir það ekki? Undirfatnaðurinn minn endurspeglar hvernig mér líður þegar ég vakna og hjálpar mér að setja tóninn fyrir daginn. Ég klæðist því sem skap mitt segir til um".
Með svona gullkorn á reiðum höndum ætti hún vel heima í Simpson teiknimyndunum. Hún þarf ekki einu sinni að breyta um nafn.
1.9.2009 | 19:43
Til hamingju Jón Ólafsson
Það er fátt sem fær mig til að brjóta þá reglu mína að blogga ekki við fréttir. Hér verður gerð undantekning. Góðu fréttirnar frá Íslandi eru of fáar þessa dagana til að sleppa þessari.
Íslenska vatnið sem á eftir að verða helsta auðlind landsins er að gera það gott á erlendum mörkuðum og brautryðjandi i markaðssetningu þess er hinn umdeildi kaupsýslumaður Jón Ólafsson.
Jón Ólafsson skólabróðir minn og æskufélagi, var á sínum tíma nánast hrakinn úr landi, sakaður um skattsvik og fleira sem síðan reyndust tómir órar. Hann var borin þungum sökum af ýmsum fyrirmönnum í landinu og neyddist á endanum til að verja hendur sínar fyrir dómstólum. Þau mál féllu öll honum í hag.
Það er kaldhæðni örlaganna að svo til einu góðu fjármálfréttirnar frá Íslandi þessa dagana, skuli vera af fyrirtæki sem Jón veitir forystu , á meðan að þeir sem reyndu að koma hinum í koll á sínum tíma, leika nú hlutverk hirðfífla í fjölmiðlum landsins.
![]() |
Íslenskt vatn á bandarískum flugvöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.9.2009 | 03:13
Auglýst eftir "Nýja Íslandi"
Núverandi stjórnvöldum er tíðrætt um að þeirra helsta verkefni sé að "moka flórinn" eftir langvarandi óstjórn fyrri ríkisstjórna og "slökkva eldanna" sem ógna þjóðarskútunni og kveiktir voru af hálfri þjóðinni, miðað við öll krosstengslin sem eru að koma upp úr kafinu.
Að bjarga því sem bjargað verður er auðvitað göfugt verkefni og þarft. Fram að þessu hefur verið nóg að gera við að fá það samþykkt að flórinn og eldarnir verði yfirleitt meðhöndlaðir á einhvern hátt. Orkan og tíminn sem farið hafa í þetta verk fram að þessu hafa ekki skilið eftir mikið til að sinna öðrum og ekki síður brýnni málum. Það sem um ræðir er stefnumótun fyrir nýja þjóðarsátt og viðreisnarsýnar fyrir þjóðina.
Því miður sér ekki enn fyrir endann á björgunarstarfinu og ef fer sem horfir, munu stjórnmálflokkarnir halda áfram að nálgast lausnirnar sem ákveðið verður að beita, út frá sínum þröngu flokkspólitísku hagsmunum.
Áður en gengið var til kosninga fyrr á árinu, voru margir vongóðir um að mikilla endurbóta í þjóðfélaginu væri að vænta. Þannig töluðu stjórnmálamenn þá og almenningur talaði um "Nýja Ísland" og nýja sýn sem sameina mundi þjóðina í að endurreisa efnahagslíf hennar á réttlátari grunni. Þessi sýn, hafi hún nokkru sinni verið til í huga stjórnmálamanna, hefur horfið í þoku flokkspólitískra þræta og sundurlyndi.
Agnar Kristján Þorsteinsson (AK-72) skrifaði fyrir skemmstu afar góða grein sem hann nefnir "Hugleiðingar Ísþræls".
Í niðurlagi greinarinnar setur höfundar fram kröfur sem bergmála vel þær hugmyndirnar um betra og réttlátara samfélag sem svo mikið var haldið á lofti fyrir kosningar og kominn er tími til að minna kröftuglega á aftur því þær virðast hafa gleymst fljótlega eftir að stjórnmálaflokkunum var aftur gefið umboð til að stökkva niður í kunnuglegar skotgrafir sínar í meðhöndlun allra mála. Kröfur Agnars eru m.a. sem hér segir;
Ég krefst þess og tel það algjört skilyrði, að hér verði myndað nýr samfélagssáttmáli eða hið Nýja Ísland og það verði ekki andvana fætt eða kæft í þinghúsinu eftir að róast í samfélaginu. Það skal verða stjórnlagaþing, það skal verða ný stjórnarskrá skrifuð af almenningi og fyrir þjóðina alla.
Ég krefst þess að þingmenn, ráðherrar og stjórnsýslan öll verði látin gangast undir strangar siðareglur sem hafi hagsmuni almennings að leiðarljósi og að Alþingi verði ekki lengur skúffufyrirtæki valdaætta, viðskiptablokka, auðmanna eða Viðskiptaráðs heldur Alþingi verði fyrir alla borgara landsins.
Ég krefst þess að það verði tryggt með lögum að siðferði verði látið ríkja í viðskiptum og þrengt verði að því frelsi sem orsakaði hrunið, frelsinu til að mega vera siðblindur og iðka slíkt í viðskiptum og hörð viðurlög verði sett við brotum þar.
Og að lokum krefst ég þess, að hér rísi upp réttlátt samfélag, gott samfélag sem ég get og vil búa í, samfélag þar sem maður getur horft framan í spegilinn og sagt:Ég þraukaði, ég barðist og ég uppskar samfélag vonar, virðingar og sáttar öllum til handa. Ef það gengur eftir og þetta haft að leiðarljósi, þá er ég tilbúinn til þess að þrauka þorrann. Ef ekki þá er bara eitt sem hægt er að segja:
Guð blessi Ísland, ég er farinn!
31.8.2009 | 15:12
Illgjarn hrekkjalómur eða græskulaus prakkari
Hvenær verða hrekkjóttir að hrekkjusvínum og hvenær fá hrekklausir ofsóknarbrjálæði? Það er vandlifað í henni veröld og meðalvegurinn vinsæli vandfundinn. Mikill munur er samt á græskulausum grikkum og ósvífnum og oft skaðlegum hrekkjum þar sem blekkingum er beitt til að valda öðrum skaða.
Fyrir stjórnmálamönnum eru þess mörk hvað óskýrust. Þeir meta allt á þann veg að það sem er andstæðingnum til minnkunar, er það þeim sjálfum til framdráttar. Nýlegt dæmi um þetta er meðhöndlun Þingsins á Icesave málinu og yfirlýsingar flokksforingjanna eftir afgreiðslu málsins. Þeir töldu fráleitt á meðan verið var að fjalla um málið að það gæti fellt stjórnina. En eftir að hafa knúið fram einhverjar málmyndabreytingar, halda þeir því fram að ef ekki verði fallist á breytingarnar, sé eðlilegt að stjórnin fari frá.
Ég velti líka fyrir mér hversu langt er hægt að ganga í stríðni og hrekkjum án þess að særa fólk eða meiða. Sem dæmi, væri viðeigandi að gefa þetta rándýra abstrakt málverk, þeldökkum vini mínum.
Ófáir telja sér það til tekna að vera dálítið hrekkjóttir og sjaldan heyrir maður fólk sperra eyrun jafn mikið og þegar góð hrekkjasaga er sögð af hróðugum prakkara. - Vel skipulögð prakkarastrik eru meðal vinsælasta myndefnisins á youtube og sjónvarpsþættirnir "Falin myndavél" eru auðvitað ekkert annað en hrekkjaveisla.
Sumir frægir leikarar eru frægir hrekkjalómar. Þeir hafa unun af því að koma fram í viðtalsþáttum og segja frá hrekkjunum og hlægja dátt með þáttastjórnandanum að öllu saman.
George Clooney er orðlagður hrekkjalómur og hefur oft reynt að segja frá hrekkjum sínum í sjónvarpinu. Ég hef tekið eftir því að grikkurinn virðist ekki vera eins hlægilegur fyrir áhorfendur, oftast aðeins fáeinir sem reka upp hlátursrokur, leikaranum og þáttastórandanum til samlætis. "You had to be there"!.
Í bók sinni The Compleat Practical Joker eftir H.Allen Smith segir hann frá mörgum kunnum prökkurum. Einn þeirra var málarinn Valdo Peirs sem bjó í París í byrjun tuttugustu aldar. Dag einn gaf hann nágrannakonu sinni litla skjaldböku að gjöf. Konan dekraði við skjaldbökuna og þótti mjög vænt um hana. Nokkrum dögum seinna sætti Valdi færis og skipti á litlu skjaldbökunni fyrir aðra nokkru stærri. Þetta gerði hann nokkrum sinnum uns konan var komin með allstóra skjaldböku í hús sitt sem hún sýndi nágrönnum sínum afar stolt. Þá snéri Valdo ferlinum við þannig að skjaldbaka konunnar fór stöðugt minnkandi. Þetta olli nágrannakonunni skiljalega miklum áhyggjum og hugarangri en Valdo skemmti sér við að segja frá angist hennar.
Kanntu góða hrekkjasögu?
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.8.2009 | 02:15
Keppt um að komast til Tortóla
"Nútíma Víkingar" setur þig í spor nútíma víkinga eða "útrásarvíkinga" eins og þeir eru kallaðir á Íslandi. Markmið leiksins er að koma eins miklu af "skítugum" peningum til karabísku eyjarinnar Tortóla til hreinsunar. Komdu eins miklu af skítugum peningum undan og hægt er áður en að lögreglan nær þér. Lykilinn að góðum árangri er í verðbréfunum. Safnaðu peningum og verðbréfum.
Þetta eru byrjunarleiðbeiningarnar í tölvuleik sem þau Friðrik, Guðný og Friðbert hafa hannað og heitir "Modern Viking - The Race to Tortola". Hann er að finna hér. og víða annarsstaðar á netinu.
Eins og kom fram í fréttum fyrr á árinu voru mörg hundruð félög stofnuð á Tortóla eyju af íslenskum aðilum og dótturfélögum íslenskra fyrirtækja erlendis.
Eflaust hafa þær fréttir orðið kveikjan að leiknum. Í leiknum er löggan á fleygiferð til að reyna að ná útrásarvíkingunum og að því leiti er hann ekki raunveruleikanum samkvæmur.
Tortóla er mikil skattaparadís og hefur eins og hinar Jómfrúareyjarnar miklar tekjur af að þjónusta þá sem vilja skjóta peningum sínum undan skatti í heimalöndum sínum.
Á Tortóla er líka góð aðstaða er fyrir þá sem geta hugsað sér að setjast í helgan stein eftir að hafa sankað að sér einhverju fé, illa fengnu eða ekki og sólað sig í góðu yfirlæti í sundlaugum eða heitum hafstraumunum sem leika um eyjarnar. Aðeins 7% eyjarbúa eru ekki innfæddir og Íslendingana sem þar búa má t.d. þekkja úr langri fjarlægð.
30.8.2009 | 00:20
Gamalt morð
Í kistu á ég gamalt morð.
þar myrti ég gleðikonu og grínista
sem bæði voru gamanleikarar
og skemmtilegasta fólk.
Nú liggur það allt í tætlum
ofaní kistunni,
því um daginn tók ég morðið upp
og áður en varði leystist það.
Það var líka illa bundið
og orðið voðalega gamalt.
Þetta varð svo fréttamatur
um kvöldmatarleitið daginn eftir,
því það er ekki á hverjum degi
sem gömul morð leysast.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.8.2009 | 12:15
Af hverju girðir hún bara ekki niðrum sig og málið er dautt?
Af hverju girðir hún bara ekki niðrum sig og málið er dautt?
Margir spurðu þessarar spurningar og enn fleiri hugsuðu hana þegar sá kvittur komst upp að Caster Semenya, 18 ára stúlka frá suður Afríku sem vann óvænt 800 metra hlaupið (1:55.45.) á heimsmeistaramótinu í frjálsum í Berlín fyrir nokkrum dögum, væri ekki stúlka heldur karlmaður.
En því miður er málið ekki svona einfalt. Kyn ræðst víst ekki lengur af gerð kynfæra fremur en kynhneigð. Til að greina kyn hennar (ég læt hana njóta vafans og kalla hana "hana") svo ekki verði um villst verður hún að ganga í gegnum margar læknaskoðanir og rannsóknir.
Sumar þeirra eru ansi flóknar. Að þeim verða að koma hol-líffærasérfræðingur, kvenlæknir, sálfræðingur, litninga og erfða-sérfræðingur og innkirtlafræðingur og vaka og hormónafræðingur.
Gullpeninginn sem hún vann fékk hún að taka með sér á skilorði. Ef hún greinist sem kvenmaður fær hún að halda honum. Niðurstöður í hinum margþátta rannsóknum sem hún verður að gangast undir er ekki að vænta fyrr en eftir nokkrar vikur.
Ég læt hér að fylgja niðurlag greinar á ensku af taragana.com. sem fjallar um málið.
About 1 percent of people are born with some kind of sexual ambiguity, sometimes referred to as intersexuality. These people may have the physical characteristics of both genders, a chromosomal disorder, or simply have ambiguous features. People who have both male and female organs are hermaphrodites.
Until 1999, the International Olympic Committee analyzed chromosomes from saliva samples to confirm the gender of female competitors and prevent men from masquerading as women. Other sports organizations have called the tests unreliable. The tests were scrapped before the 2000 Sydney Games.
The most common cause of sexual ambiguity is congenital adrenal hyperplasia, an endocrine disorder where the adrenal glands produce abnormally high levels of hormones.
In women, this means a masculine appearance. They may have female sexual organs, but the ovaries may be unable to produce estrogen, preventing the growth of breasts or pubic hair.
There are also several rare chromosomal disorders where women may have some male characteristics. Women with Turner syndrome, which affects about 1 in 2,000 babies, typically have broad chests and very small breasts. Their ovaries do not develop normally and they cannot ovulate.
About 1 in 1,000 women are also born with three X chromosomes. They tend to be exceptionally tall, with long legs and slender torsos. They usually have female sexual organs and are fertile.
A handful of athletes have typically dropped out or been thrown out of the Olympics for failing gender tests over the years. But no evidence supports the idea that such competitors have an unfair athletic advantage.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.8.2009 | 02:37
Óþekkt vera (alien) föst í rottugildru
Þá er komið að því. Hér getur að sjá óþekkta veru sem hugsanlega er ekki jarðnesk. Veran fannst í Mexico 2007 þar sem hún sat föst og lífvana í rottugildru. Þetta myndband sem virðist ófalsað er tekið þegar að vísindamenn eru við rannsóknir sínar á henni.
Veran er svo lítil að sumir segja aðum barn (alien) sé að ræða. En sem fyrr, sjón er sögu ríkari.
28.8.2009 | 12:13
Saving Icesave
Þá er þessum þætti sýndar-veruleikasjónvarpsþáttarins frá Alþingi Íslendinga lokið. Saving Icesave hefur notið mikilla vinsælda upp á síðkastið en nú er ekki hægt að teygja lopann lengur, enda nóg komið að margra mati.
Samt var fullt af fólki hélt að þarna væri um alvöru alvöru að ræða, þ.e. raunverulegan raunveruleika. Það mætti jafnvel til að mótmæla niðrá Austurvöll. Ég er að velta fyrir mér hvað það fólk geri nú þegar það fattar að þetta var allt í plati.
Annars sýna fyrstu viðbrögð þess fyrst og fremst hvað leikurinn í þættinum var virkilega góður. Sérstaklega á endasprettinum, í kosningunni sjálfri, þegar Framsóknarflokkurinn sem greinilega er að reyna auka vinsældir sínar í þessu leikriti, sagði "nei, nei, nei". Vá..slíkan ofurleik hefur maður ekki séð lengi. - Sumir sem enn eru ekki búnir að fatta að þetta var og er bara sjónarspil ætla örugglega að kjósa þá næst.
Ég sá reyndar handritið að þessum farsa fyrir tæpu ári. Það var skrifað af fyrrverandi ríkisstjórn . Það var líka með; " við lofum að borga" sem endi á málinu og þeim endi hefur ekki verið breytt þrátt fyrir mikið stagl og streð. - En það var nú líka fyrirsjáanlegt. Þegar einu sinni er búið að taka ákvörðun um hvernig plottið gengur upp er ekki hægt að breyta því. En það var flott flétta að þykjast ætla að breyta því. Hélt manni við skjáinn ansi lengi.
27.8.2009 | 15:25
Sláðu blettinn til að losna við streituna
Það er fátt sem lyktar betur en nýslegið gras. Um þetta getur fjöldi Íslendinga vitnað, ekki hvað síst þeir sem alist hafa upp í sveitum landsins. Borgarbúar vita þetta líka því jafnvel þótt sumir heykist á því um stund að slá blettinn, líður þeim alltaf betur eftir að verkinu er lokið.
Hamingjan er heyskapur
Nýjar rannsóknir benda til þess að heyskapur og blettasláttur geti hamlað streitu. Í ljós hefur komið að efni sem losnar þegar gras er slegið gerir fólk glaðara og hægir á elliglöpum. Vísindamennirnir sem stóðu að þessum rannsóknum segja að efnið virki beint á heilann og hafi einkum áhrif á minnis og tilfinningastöðvar hans staðsettar á svæðum sem nefnd hafa verið Amygdala og Hippocampus.
Eftir sjö ára rannsóknir hefur tekist að búa til ilmvatn sem lyktar eins og nýsleginn blettur og verður sett á markaðinn fljótlega undir nafninu eau de mow.
Frekari upplýsingar um þessa "nýju" uppgötvun hér.
27.8.2009 | 02:13
Michael Jackson bloggar hér!
Ég veit ekki af hverju Michael Jackson kaus að senda mér þetta skeyti og biðja mig um að þýða það og birta það hér á blogginu.
Kannski er það vegna þess að hann veit að ég er svo frjálslyndur. Það er næstum sama hvaða vitleysa er í gangi, ég lep það upp og birti eitthvað um það hér á blogginu, svo fremi sem mér finnst fyrirsögnin geta verið flott.
Eða kannski er það vegna þess að ég var aldrei yfir mig hrifinn af Jackó þótt mér fyndist hann góður sjómaður og nú er hann að gera lokatilraunina til að vinna mig á sitt band.
Alla vega ætla ég að verða við bón hans í þetta sinn og birta skeytið frá honum sem er það fyrsta sem hann hefur sent frá sér, eftir því sem ég best veit, eftir að hann lést.
Kæru vinir.
Allar fréttir um að ég sé enn í tölu lifenda eru stórlega ýktar. Það er alveg rétt sem fram hefur komið í fréttum að ég sofnaði og hef ekki vaknað aftur.
Ástæðan fyrir að ég sendi þetta skeyti er að mig langar að koma sérstökum skilaboðum til ykkar.
En fyrst langar til að koma því á framfæri við alla íslenska aðdáendur mína og bara alla Íslendinga að gefast ekki upp þótt móti blási. Ég vil að þeir viti að þeir eiga alla mína samúð á þessum síðustu og erfiðustu tímum. Ég veit nefnilega af eigin reynslu hvað það er þegar manni finnst útlitið vera heldur dökkt. Ég hef fundið fyrir því á eigin skinni get ég sagt ykkur. Og hvernig það er að vera smáður af fólki sem ekkert þekkir mann. Ég var líka, eins og þið, neyddur til að borga háar upphæðir fyrir hluti sem ég átti enga sök á. Og ég veit svo sannarlega hvað það er að vera blankur en þykjast eiga peninga, eftir að hafa verið rændur af einhverjum fjármálaspekingum. Ég tala því af reynslu.
Þá eru það skilaboðin sem mér fannst að ég yrði að senda ykkur eftir að ég heyrði hversu hræðilegt útlitið hjá ykkur er eftir bankahrunið og allt það.
Þannig er að ég fann snemma fyrir því að mér líkaði ekki við andlitið á mér. Ég gekkst því undir all-margar lýtaaðgerðir. En það var alveg sama hversu mikið mér var breytt, ég var aldrei alveg ánægður með útlitið. Á endanum endaði ég uppi með ónýtt nef framan í mér og mér var sagt af lýtalækninum mínum að ef hann hreyfði meira við því mundi það detta alveg af.
Nú veit ég að útlitið hjá mörgum ykkar á Íslandi er svart, eins og það var hjá mér og meira að segja svo slæmt hjá sumum ykkar að þið eruð að hugsa um að flýja land.
Það finnst mér óheillaráð. Útlitið er nefnilega ekki allt. Ég reyndi að flýja mitt útlit og endaði uppi næstum neflaus.
Þið verðið að sætta ykkur við það sem þið eruð og vera ánægð með það sem Guð hefur gefið ykkur.
Vona svo að þið séuð dugleg við að hlusta á lögin mín og núna er mér alveg sama þótt þið halið þeim niður ólöglega.
Bestu kveðjur
Michael Jackson
Tónlist | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
26.8.2009 | 23:13
Tannburstaskeggið í miðnefsgrófinni
Frægasta og jafnframt óvinsælasta skegg veraldar er án efa það sem prýddi efri vör Hitlers. Til eru heimildir sem segja að Hitler, sem áður var með langt og endasnúið keisara-yfirvararskegg, hafi þurft að skera það svo hann gæti sett upp gasgrímu, þegar hann barðist í fyrri heimstyrjöldinni.
Tannburstaskeggið, eins og þessi tegund skeggs er jafnan nefnd, sé það ekki af öðrum kostum kennt við Hitler eða Charly Chaplin sem notaði það sem hluta af gervi flækingsins sem hann var svo frægur fyrir að leika, varð afar vinsælt meðal verkamanna í Evrópu upp úr 1920. Það varð einskonar mótvægi við stórkallalegt keisara-skegg yfirstéttanna sem voru vel vaxborin og gátu skagað talvert út fyrir ásjónu viðkomandi.
Chaplin sagðist hafa upphaflega notað tannburstaskeggið vegna þess hversu kómískt það liti út á flækingum og væri auk þess nógu lítið til að andlitsgeiflur hans skiluðu sér á hvíta tjaldinu. Að sjálfsögðu notaði hann einnig skeggið í gervi einvaldsins í kvikmyndinni The Great Dictator sem hann gerði árið 1940.
Í Kína þótti tannburstaskeggið vera einkennandi fyrir japanska karlmenn, einkum í seinni heimstyrjöldinni.
Fáir fást til að bera slíkt skegg í dag, enda kom Hitler á það miklu óorði með því einu að bera það. Sá orðstýr virðist samt ekki aftra einvaldinum Robert Mugabe í Simbabve, því hann ber tannburstaskegg sem skorið er nákvæmlega til að passa ofaní miðnefsgrófina á honum.
Miðnefsgróf er sem sagt lóðrétta dældin í efri vör beint undir miðju nefi á flestum mönnum. Hún var reyndar kölluð "efrivararrenna" í bók um líffæraheiti eftir Jóns Steffensen sem kom út árið 1956. Einhver lagði einnig til að hún yrði kölluð miðsnesisgróf en miðnefsgróf er best að mínu mati.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.8.2009 | 02:35
Öðruvísi Hitler
25.8.2009 | 22:45
Risabolinn Chilli
Hann heitir Chilli og hann er stundum kallaður "góðlyndi risinn" sem er eins gott fyrir Töru Nirula, stúlkuna sem sér um hann og sést hér á meðfylgjandi mynd. Chilli hefur orð á sér fyrir að vera ljúflingur og hvers manns eftirlæti.
Eigendur Chilli hafa haft samband við heimsmetabókina sem nú metur gögnin um það hvort nautið er mögulega það stærsta í Bretlandi.
Þetta svarthvíta frísneska ungnaut vegur meira en eitt tonn og er sex fet og sex tommur á hæð sem er einni tommu hærra en hæsta naut Bretlands er skráð í dag.
Þrátt fyrir stærð sína, hefur Chilli aldrei verið alinn á neinu nema venjulegu grasi og sælgæti endrum og eins.
Tuddinn er næstum jafn hár og hann er langur sýndi þess snemma merki að hann mundi verða stór, en hann var skilinn eftir á tröppunum á Ferne dýraskjólinu í Chard, Somerset, aðeins sex daga gamall ásamt systur sinni sem aldrei hefur stækkað neitt umfram aðrar kýr.
Núna, níu árum seinna er Chilli enn að stækka og trúlega fer hann langt yfir núverandi hæðarmet kusa í Bretlandi og jafnvel í heiminum en það á bolinn Fiorino sem býr á Ítalíu og er sex fet og átta tommur á hæð.
Stærð Chilli varð fyrst áþreifanleg þegar einhver tók eftir því að hann passaði ekki lengur í básinn sem honum var ætlaður í fjósinu.
(Það minnir nokkuð á ástæðuna fyrir því að aldrei var farið út í að splæsa gen íslenska kúakynsins við það norska, því þótt það mundi eflaust auka mjólkurframleiðslu þess íslenska, mundi um leið þurfa að stækka alla bása í íslenskum fjósum og af því hljótast mikill kostnaður)
25.8.2009 | 02:22
Mundir þú vilja lúmskan rass?
Þegar ég sá þessa auglýsingu á netinu, vissi ég að ég gat ekki látið hjá líða að segja ykkur frá henni. Fyrirtækið The Pond Inc. hefur hafið framleiðslu á vöru sem það kallar "Subtle Butt", eða "lúmskur rass" sem hefur þá eiginleika að geta komið í veg fyrir að prump lykti illa.
Það þekkja flestir hið vandræðalega andrúmsloft sem getur skapast þegar einhverjum, að ekki sé talað um þegar það kemur fyrir þig sjálfan, verður á að leysa vind svo mikill fnykur verður af.
Nú er þetta vandmál úr sögunni með tilkomu Carbon-innleggsins frá The Pond Inc. sem líma má innan í nærbuxur eða vefja utan um g-strengi. Þegar að þú rekur við, dregur þessi carbon-rassbót í sig allan óþefinn. Nú getur þú sem sagt borðað hvað sem er án þess að eiga það á hættu að verða þér til skammar og öðrum til óþæginda vegna óþefsins af fretunum frá þér.
PS. Tilvalin tækifærisgjöf eða bara leið til að segja við maka þinn; "ég elska þig".
En sjón er sögu ríkari. Hér kemur auglýsingin.