Ofbeldi með orðum

Ofeldi orðaÞað er löngu viðurkennt að orð, hvort sem þau eru sögð eða skrifuð, geta flokkast undir virkt ofbeldi.

Viðvarandi obeldi í orðum er mjög skaðlegt og getur valdið alvarlegum truflunum á tilfinningalífi þeirra sem því er beint gegn, skaðað sjálfsmynd þeirra og haft áhrif á andlegt og líkamlegt heilsufar þeirra. 

Sífelldar skammir og svívirðingar teljast andlegt ofbeldi. Slíkt á sér ekki aðeins innan veggja heimilanna, heldur einnig á vinnustöðum og á opinberum vettvangi. Þá er algengt að því sé beint gegn hópum eða pólitískum andstæðingum.

Að baki þess að beita einhvern ofbeldi af þessu tagi liggur einatt mjög lágt sjálfsmat gerandans:

Honum finnst hann ekki nógu góður og líklegt er að honum finnist hann valda öðrum stöðugum vonbrigðum. Þess vegna sækist hann eftir að setja fórnarlömb sín í sömu stöðu og hann er sjálfur.

Þá hefur það sannast að vaxandi ofeldi í orðum, leiðir til líkamslegs ofbeldis.

Helstu einkenni ofbeldis með orðum eru m.a. þessi:

  • Skeytingarleysi, hæðni, vanvirðing, og stöðug gagnrýni á aðra.
  • Lymskulegt orðaval.
  • Að niðurlægja aðra með ásetningi. 
  • Að ásaka aðra ranglega til að stjórna umræðunni  
  • Láta öðrum finnast þeir minnimáttar og undirmáls.
  • Láta sem orsakir ofbeldisins sé hegðun annarra.
  • Reyna að einangra fórnalamb sitt frá stuðningi annarra.

Hvað má og hvað má ekki

Eins og flesta bloggara hér um slóðir rekur eflaust minni til var bloggi hins dularfulla DoctorE lokað fyrir ummæli hans um spákonu sem hann sagði geðveikt glæpakvendi. DoctorE tók hús á blogginu mínu í gær og spurði einfaldrar spurningar eða;

 

"Ég er að spá hvort ég hefði verið bannaður á sínum tíma ef ég hefði gefið í skyn að myrða ætti sjáandann án dóms og laga... í stað þess að segja bara að hún væri annaðhvort geðveik og eða glæpakvendi

DoctorE, 25.10.2009 kl. 21:21"

 

Athugasemd Doctorsins var vitaskuld í tengslum við umfjöllun mína á afar ósmekklegum athugasemdum Lofts Altice á bloggsíðu Jóns Vals Jenssonar. Jóni fannst greinilega nóg komið og fjarlægði athugasemd Lofts og lokaði þar á eftir alfarið fyrir athugasemdir.

Í framhaldi af birtingum hinna myrku athugasemda Lofts Altice víða á blogginu urðu einhverjir, þ.á.m.  Björn Birgisson til að kalla eftir því að bloggi Lofts yrði lokað. Guðmundur 2. Gunnarsson skrifaði af því tilefni;

 

"Var að benda honum á að ef Loftur verði bannaður, þá er óhjákvæmilegt að hann sjálfur verði það líka fyrir að margbirta texta sem hann vill láta bannfæra mann fyrir.  Bendi honum á að hann yrði jafn sekur einhverjum sem birti barnaníð, ef hann myndi endurbirta það til að vekja athygli á glæpnum. 

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 21:09"

 

Mér finnast þessar tvær athugasemdir umhugsunar verðar. -  Hvað athugasemd DoctorE varðar finnst mér hann hafa nokkuð til síns máls. Hvernig er hægt að leyfa blogg manns sem ýjar að því að aflífa beri pólitíska andstæðinga hans, en banna uppnefningar.

Hvort er alvarlegra?

Og sé því borið við að Doctorinn hafi oft áður verið aðvaraður má benda á  að Þessi athugasemd Lofts á síðu Jóns Vals er ekkert einsdæmi um grófar duldar hótanir. Á bloggsíðu Lofts Altice er t.d þetta að finna;

"18.4.2009 | 11:49

Landráðamenn allra flokka sameinast !
Er það raunverulega svo, að þessu landráðahjali um innlimun landsins í Evrópusambandið (ESB) eigi ekki að linna ? Eru predikarar Andskotans (ESB) ekki að verða saddir lífdaga ? Þarf þjóðin að losa þessa menn við hausinn á sér, svo að þeir þagni ?"

Athugasemdin frá Guðmundi finnst mér líka áhugaverð. Hvernig er hægt að segja frá því í miðlum að einhver hafi verið ásakaður eða dæmdur fyrir að segja eitthvað ef ekki má vitna í ummælin. Við það eitt að vitna í þau verða ummælin eflaust kunnari sem eykur á skaðsemi þeirra, sérstaklega ef þau eru ærumeiðandi. -


Á að hengja lík Jóhönnu Sigurðardóttur upp á afturlöppunum?

Loftur Altich þorsteinssonLoftur Altice Þorsteinsson , verkfræðingur og vísindakennari, bauð sig fram til formanns sjálfstæðisflokksins á síðasta landsfundi hans.

 Loftur Altice er afar ósáttur við niðurstöður Icesave deilunnar og spyr að því hvernig Jóhanna Sigurðadóttir mundi taka sig út ef hún yrði meðhöndluð líkt og Benito Mussolini.  Loftur Altice biður fólk um að kynna sér þá meðferð.

Í athugasemd sem Loftur Altice Þorsteinsson , verkfræðingur og vísindakennari, skrifar á bloggi vinar síns Jóns Vals Jenssonar segir;

Hvernig væri að menn kynntu sér hvernig Benito Mussolini var meðhöndlaður og hengdur upp á afturlöppunum ? Myndi Jóhanna ekki taka sig ámóta vel út ?

Nicolae Ceauşescu er sérstök fyrirmynd Svika-Móra. Væri ekki við hæfi að þeir fóstbræður fengju sömu brottför úr Jarðvistinni ?

Annars er mér sama hvernig við losnum við þessar skaðræðis kvik-kindur.

Burt með allt Sossa-stóðið !

Loftur Altice Þorsteinsson, 24.10.2009 kl. 17:05

 

mussolini-hangingHér á Loftur Altice við afdrif Benito Mussolini einræðisherra á Ítalíu sem ásamt Clöru Petacci  hjákonu sinni var handtekinn á leið sinni til Svisslands 27. apríl 1945. Daginn eftir voru þau tekin af lífi ásamt nokkrum af fremstu mönnum úr ríkisstjórn Mussolini.

Því næst voru líkamir þeirra settir á vörubílspall og ekið til Mílanó og þar sem þeim var sturtað á torgið Piazza Loreto.

Þar var líkunum misþyrmt, þau skotin, sparkað í þau og hrækt á þau áður en þau voru hengd upp á kjötkrókum frá þaki bensínstöðvar í grenndinni.

Líkin vori síðan grýtt af vegfarendum. Eftir að líkin féllu rotnuð af kjötkrókunum voru þau enn hædd og sundurrifin af almenningi.

Þetta er sem sagt það sem Loftur Altice vill að við kynnum okkur varðandi Benito Mussolini svo að við getum gert okkur grein fyrir hverju hann er að ýja að að ættu að vera örlög Jóhönnu.

ceausescu_ne04"Svika-Móri" er gælunafn sem Loftur hefur gefið Steingrími J. Sigfússyni.

Loftur stingur upp á því að Steingrímur fái "sömu brottför úr Jarðvistinni" og Nicolae Ceauşescu fyrrum forseti Rúmeníu sem var, ásamt eiginkonu sinni Elenu,  skotinn af aftökusveit á jóladag 1989.

Vitaskuld er freistandi að halda því fram að Loftur hafi ekki meint það sem hann skrifar eða ekki skrifað það sem hann meinti. En þegar að "pólitísk" umræða er kominn á þetta stig er rétt að menn hugsi sig aðeins um.

 


John Lennon bað Yoko Ono að byggja handa sér ljósaturn

Yoko OnoÍ dag (laugardag 24. okt.) er forsíða The Times Saturday Reveiew tileinkuð Yoko Ono sem Bretar virðast loks vera að taka í sátt. Yoko nú 76 ára, hefur einatt verið kennt um losaraganginn sem kom á The Beatles eftir að hún og John Lennon tóku upp samband fyrir fjörutíu og tveimur árum síðan.

Síðustu plötu Yoko; Between My Head and the Sky, hefur verið vel tekið í Bretlandi og fengið afar góða dóma.

Viðtalið í Times er tekið á Íslandi 9. okt. s.l. og stór hluti þess fjallar um ástæður þess að Yoko ákvað að láta drauminn um að byggja listaverk úr ljósi rætast á Íslandi. 

Hún segir það tengjast fyrstu fundum þeirra Lennons þá hann bauð henni í hádegismat að heimili sínu í Weybridge í Surrey. Þetta gerðist  fljótlega eftir að hann hafði séð sýningu á verkum hennar í London og kynnst huglægri  list hennar, þ.á.m. sýn hennar á að útbúa "Lighthouse"  eða listaverk úr ljósi.  

ipt_gudlauguJohn bað hana að byggja handa sér slikan ljósaturn í garðinum sínum. Yoko svaraði að verkið væri aðeins huglægt og enn væri ekki til tæknin til að byggja það eins og hún sæi það fyrir sér. Síðan eru liðin 42 ár.

Yoko er greinilega afar hrifin af Íslandi og íslenskri menningu. Henni er tíðrætt um hreinleika landsins og segir það byggt af "annarri gerð fólks líkt og landið sé land álfa og seiðkarla". "Mér fannst landið afar áhugavert og varð ástfanginn af því. Landið liggur mjög norðarlega og úr norðri kemur viskan og krafturinn. Þú vilt gefa þá visku og þann kraft úr norðri öllum heiminum. Og þess vegna fannst mér þetta kjörinn staður til að byggja friðarsúluna hér."


Baka fólkið og tónlistin þeirra

Baka börnÁ regnskógasvæðinu í suðaustur Kamerún býr ættbálkur sem heitir Baka. Baka fólkið sem ekki telur fleiri en 28.000 manns, er enn á safnara og veiðimannastiginu, talar sitt eigið tungumál (Baka) , hefur sérstakan átrúnað og með honum hefur þróast frá fráær tónlist sem ég var svo heppinn að fá að hlusta á í gærkvöldi þegar ég fór á tónleika með hljómsveitinni Baka Beyond.

Meðal Baka fólksins gegnir tónlistin þýðingarmiklu hlutverki. Allt frá bernsku þróar hver einstaklingur með sér hrynjandi og þegar komið er saman til að syngja má sjá ungabörn klappa saman höndum í takt við tónlistina. Tónlist er notuð í trúarlegum athöfnum, einnig til að skila þekkingu ættbálksins, frásögnum hans og sögu til næstu kynslóðar og síðast en ekki síst til skemmtunar. Á meðal þeirra er ekki hægt að skynja að einhver einn flytji tónlistina frekar en annar, allir taka þátt. Þegar sögur eru sungnar leiðir einn sönginn en allir taka undir í viðkvæðunum sem eru ávalt rödduð og spila að auki á ásláttarhljóðfærin. 

Baka drengurTil að komast af í regnskóginum er nauðsynlegt að kunna að hlusta. Þar er sjaldgæft að hægt sé að sjá lengra en 50 metra fram fyrir sig og þess vegna reiðir Baka fólkið sig frekar á heyrn en sjón þegar það ferðast umskóginn. Hver á hefur sín sérstöku hljóð, hvert svæði í skóginum sína sérstöku ábúendur sem gefa frá sérstök hljóð , jafnvel einstaka tré er þekkt meðal fólksins og er lýst í samræmi við hljóðin sem koma frá því.

Baka fólkið hefur því afskaplega næma heyrn. Við sem búum í borgum og bæjum reynum að sigta út og heyra ekki hljóð sem eru okkur til þæginda, Baka fólkið reynir að heyra og taka eftir öllum umhverfishljóðum enda eru þau öll mikilvæg afkomu þess. Þegar kemur að tónlist er það undarvert hversu auðveldlega og fljótt það lærir nýjar laglínur.

1248606600_a5cc167aa5Baka-menn trúa því að þeir séu börn regnskógarins og að skógurinn láti sér annt um þá og sjái þeim fyrir öllu. Ef eitthvað slæmt gerist á meðal þeirra, segja þeir að frumskógurinn hafi sofnað. Til þess að vekja hann aftur nota þeir tónlist og jafnframt tak þeir gleði sína á ný. Þegar að vel gengur nota þeir einnig tónlist til að deila gleði sinni með skóginum.

Baka fólk reiðir sig á það sem finna má til átu í skóginum og það sem veiða í honum og ám hans. Þeir notað eitraðar örvar og spjót með góðum árangri á ýmsa bráð en fisk veiðir það með að blanda efni í vatnið sem eyðir úr því súrefninu þannig að fiskarnir fljóta dauðir upp á yfirborðið. Ávextir, hnetur og hunang eru einnig hluti af fæðu þeirra.

baka3Baka fólkið flytur sig reglulega um set og forðast að misbjóða náttúrunni með ofveiði eða á annan hátt. Ákvörðunin um að flytja og aðrar mikilvægar ákvarðanir sem varða allan hópinn, tekur fólkið sameiginlega.

Hljómsveitinni Baka Beyond sem ég fór að hlusta á í gærkveldi er skipuð átta meðlimum, þremur söngvurum, gítarleikara, trymbli, fiðluleikara og ásláttarhljóðfæraleikara.

Sveitin var stofnuð 1992 eftir að frum-meðlimir hennar höfðu heimsótt Baka fólkið og hrifist mjög a tónlist þeirra og menningu. Hljómsveitin flytur sambræðing af Baka tónlist og keltneskri þjóðlagatónlist sem einhvern veginn krefst þess að líkaminn hreyfi sig eftir henni á meðan hún hljómar.


Nauðgunum beitt sem vopni

y196213869640110

"Árásin var gerð að nóttu til og við neyddumst til að flýja inn í skóginn" sagði hún og rödd hennar varð að hvísli. "Fjórir menn tóku mig. Þeir nauðguðu mér allir. Þegar þetta gerðist var ég komin níu mánuði á leið."  Hún heitir Vumi og hún er svo illa farin eftir þessa atburði að hún heldur hvorki saur né þvagi.

Ár eftir ár berast sömu hörmungarfréttirnar frá Kongó. Þar berst stjórnarherinn ásamt fjölþjóðlegu liði Sameinuðu Þjóðanna gegn "frelsisher Rúanda", sem samanstendur af Hútúa hermönnum sem flúðu yfir til Kongó þegar að Tútsi menn komust til valda í Rúanda eftir þjóðarmorðið sem í landinu var framið árið 1994.

Fjöldi ránshópa veður uppi í austurhluta landsins þar sem einnig má finna þorp kongóskra Tútsi manna. Þá eru enn á ferðinni leifar af kóngóskum vígasveitum frá því að borgarastyrjöldinni lauk í landinu árið 2003 og ekki hafa viljað ganga til liðs við ríkisherinn.

Eitt af vopnum hermannanna eru nauðganir og limlestingar kvenna. Skelfilegum nauðgunum og misþyrmingum er beitt til að vana konurnar og gera þær um leið að fórnarlömbum eigin ættmenna sem oft fyrirlíta þær eftir að þeim hefur verið nauðgað. Engu skiptir hvort um er að ræða stúlkur á barnsaldri eða gamalmenni. Jafnframt er eggvopnum og kylfum beitt á þann veg að bæði leg og meltingarkerfi kvennanna er eyðilagt.

201052671Oft eru konur neyddar til samræðis og eiginmönnum þeirra og fjölskyldu gert að horfa á aðfarirnar.

Það sem af er þessu ári hafa hátt á sex þúsund konur leitað sér aðstoðar í sjúkraskýlum og sjúkrahúsum landsins og gengið þar undir alvarlegar aðgerðir.

Læknar í Goma borg telja að 400 konum sé nauðgað og misþyrmt í Kongó á hverjum degi og aðeins komi hluti þeirra strax undir læknahendur. Margar sýkjast af HIV verunni sérstaklega þær sem hafa þurft að þola hópnauðgun.

Fjöldi kvenna sem þurfa að þola þessar pyntingar eykst með hverju ári án þess að nokkur fái að gert.

Kongó er á stærð við Vestur Evrópu og þar ganga ekki lestar né hafa vegir verið lagðir um stóra hluta landsins og aðstæður þar því afar erfiðar.

Hundruð þúsunda austur Kongóbúa eru á vergangi og á flótta frá átakasvæðunum en búðir þeirra eru algjörlega varnalausar gegn vel vopnuðum sveitum vígamanna.

 


mbl.is Gífurlegur fjöldi nauðgana í Kongó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Agli Helgasyni ber að fara að lögum um RÚV" segir Björn Bjarna

Egill Helgason hefur skoðun á stjórnmálum og jafnvel einhverjum öðrum málum. Egill Helgason stjórnar spjallþætti um stjórnmál og stundum lætur hann í ljósi skoðanir sínar við viðmælendur sína.

 Í lögum um Ríkisútvarpið segir m.a.

Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:

Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð

Birni Bjarnasyni finnst Egill hafa brotið þessi lög. Björn segir á bloggsíðu sinni;

 Hér skal áréttuð sú skoðun, að hlutdrægni Egils Helgasonar í afstöðu hans til manna og málefna geri hann óhæfan til að stjórna sjónvarpsþætti um þjóðmál, eigi þátturinn að lúta lögum um ríkisútvarpið.

Þessi ummæli vöktu miklar umræður um hvort Björn væri að mælast til að reka ætti Egil. Eðal og orku-bloggarinn Ketill Sigurjónsson sendi Birni bréf sem hann birtir á bloggsíðu sinni þar sem hann mótmælir skoðun Bjarna.

Björn sendi honum svar um hæl þar sem hann segir;

hið eina, sem ég er að segja, er, að Agli Helgasyni ber að fara að lögum um RÚV. Ég tel, að hann geri það ekki.
Starfaði hann við aðra opinbera stofnun, yrði slík framganga ekki liðin. Gilda sérreglur um Egil? Eða RÚV? Er slík sniðganga við lög best til þess fallin að auka virðingu Íslendinga fyrir lögum og rétti?

crop_500xSpurningarnar sem vert er að velta fyrir sér í þessu sambandi eru t.d;

Hvað mundi B.B. hafa gert ef hann væri enn dómsmálaráðherra?

Mundi Egill e.t.v. hafa hagað orðum sínum öðruvísi ef B.B. hefði verið dómsmálráðherra?

Hvaða önnur opinber stofnun mundi hafa þaggað niður í Agli ef hann starfaði við hana?


"En innrásin í Írak var réttlætanleg" sagði Davíð Oddsson

david21Á vordögum 2003 réðist Bandaríkjaher inn í Írak. Sér til stuðnings við innrásina höfðu Bandaríkjamenn 10 aðrar þjóðir, sumar hverjar herlausar smáþjóðir eins og Ísland.

Helgi Ágústsson þáverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum var spurður að því á þessum tíma af blaðakonunni Dönu Milbank hvort Ísland hugðist senda hermenn til Írak.

"Auðvitað ekki" svaraði Helgi, "Við höfum engan her. Þessi var góður, já. Við lögðum niður vopn einhvern tíman á 14. öld.....Okkar hlutverk verður enduruppbygging og mannúðaraðstoð".

b021121biUpphaflega átti innrásin að heita "Operation Iraqi Liberation". Þessu var breytt í "Operation Iraqi Freedom" vegna þess að hitt hefði verið skammstafað OIL.

Það hefði samt verið meira viðeigandi því allir vissu að stríðið var háð vegna olíuhagsmuna Bandaríkjanna og Bretlands en ekki vegna þess að meiri ógn stæði af Írak en öðrum þjóðum. Í ljós kom að öll gögn sem áttu að sýna og sanna það, voru fölsuð.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson nú ritstjóri á Mogga, voru báðir miklir fylgismenn þessarar innrásar Bandaríkjanna í Írak sem leitt hefur af sér dauða yfir hundrað þúsund óbreyttra íbúa landsins og er ann að. 

Til Þess að stuðningur þeirra við stríðið yrði Bandaríkjamönnum ljós settu þeir þjóðina á lista yfir stuðningsaðila innrásarinnar sem Bandaríkin notuðu síðan til að flagga framan í þá sem sögðu að þau stæðu þarna í ólöglegri árásarstyrjöld.

Davíð Oddsson flutti ræður í fínum boðum hér heima og erlendis og sagðist þess fullviss að allt væri þetta hernaðarbrölt öllum fyrir bestu. Í Washington sagði hann þetta;

Iceland aligned itself with the nations in the Coalition of the Willing under US leadership before the Iraq war. We are all aware of the problems and difficulties that have arisen after the invasion and which have led to even more claims than before that it was a mistake made on false assumptions.

But the invasion of Iraq was justified. The Iraqi regime was a threat to peace and stability. Under Saddam Hussein, Iraq had attacked its neighbours, and not only produced weapons of mass destruction, but used them as well. Address by Davíð Oddsson, Prime Minister of Iceland
The American Enterprise Institute, Washington DC, 14 June 2004

Í fínni veislu á Bessastöðum sagði Davíð áður en hann skálaði við viðstadda;

"Í mínum huga er ekki vafi á að styrjöldin var í raun óumflýjanlegur endapunktur á þeim aðgerðum sem gripið var til 17. janúar 1991. Hvorki vopnahlésskilmálum né ályktunum hinna Sameinuðu þjóða hafði verið fylgt og ógnarstjórnin söm og áður. Og hvað sem deilum um lögmæti styrjalda líður er ekki vafi á að friðsamlegra er í þessum heimshluta nú en fyrir hana." 27. mars 2004

iraq-dead-bodiesSeinna játaði Davíð Oddsson að ekki hefði verið haft samráð við utanríkismálanefnd um málið. Talið er að yfir 80% þjóðarinnar hafi verið andvíg því að Ísland var sett á umræddan stuðningslista yfir þær þjóðir sem voru "viljugar og gátu" eins og Bush forseti orðaði það. 

Spurningin er hvort ekki sé kominn tími til að Davíð Oddson, sem enn er í mikilli ábyrgðarstöðu í íslensku samfélagi, biðji þjóðina afsökunar á þessum skelfilegu mistökum sem öllum eru nú orðin ljós, mistökunum sem honum urðu á þegar hann gerði Ísland og Íslendinga alla siðferðislega samábyrga fyrir öllum þessum skelfingum í Írak.


Kannski stólpípa sé ekki svo slæm

Tælensk StólpípaÍ níunda mánuði hins kínverska tunglárs er haldin mikil grænmetis-fæðu hátíð á Phuket eyju suður af Tælandi. Hátíðinni er ætlað að vera sá tími þegar fólk hreinsar líkama sinn, eins konar andleg og líkamleg detox eða afeitrunar hátíð.

Fagnaðurinn hefst með sérstakari athöfn sem stýrt er af anda-miðli og fyrir utan að borða bara grænmeti yfir hátíðisdagana gerir fólk sér sitt hvað til skemmtunar.

Hluti af fjörinu, sem stendur í níu daga samfleytt, er mikil skrúðganga um götur bæjarins þar sem þramma karlmenn sem hafa stungið sveðjum, hnífum og sverðum í munn sér, líkt og sést á meðfylgjandi mynd. 

Hátíðin er sögð eiga rætur sínar að rekja til kínversks óperu-hóps sem veiktist af malaríu á meðan hann var í heimsókn á eyjunni.  Hópurinn ákvað að neyta aðeins grænmetis og biðja til guðs hinna níu keisara til að hreinsa huga sinn jafnt sem líkama. 

Þegar að söngfólkið náði sér af veikindunum sem í þá daga voru talin banvæn, var haldin mikil hátíð til að fagna fenginni heilsu og heiðra um leið guðina.


Sjónhverfingar

Dansarinn

Þetta er mynd af dansmey. Í hvaða átt snýr hún sér, réttsælis eða rangsælis.  Stundum sérð þú hana dansa réttsælis og stundum rangsælis.

Gamla konan og kallinn hennar

Myndir eins og þessar voru algengar í blöðum og tímaritum hér áður fyrr, en eru nú orðnar frekar fáséðar.

Svart hvít blekking

Þessi er alveg sígild.

Allt á iði

 


Hvar er Umbarumbamba?

Hljómar.Umbarumbamba1966 kom út hljómplatan Umbarumbamba með Hljómum frá Keflavík. Platan kom einnig út í Bretlandi og nefndi hljómsveitin sig  þar Thor´s Hammer. Sú plata mun nú vera verðmætasta safnplata sem íslenskir hljómlistarmenn hafa staðið að. Jafnframt létu Hljómar gera kvikmynd sem einnig bar nafnið Umbarumbamba með undirtitlinum; Sveitaball. Myndin fjallaði um sveitaball, slagsmál og fyllerí, og verður að teljast afskaplega frumstæð í alla staði.

Hún var gerð af Reyni Oddsyni, þeim sama og seinna (1977) gerði kvikmyndina Morðsaga. Reynir stýrði verkinu og bar hitann og þungann af vinnslunni. Hljómar greiddu stærsta hluta kostnaðarins, rúmlega hálfa milljón og fóru upptökurnar fram um sumarið og haustið ´65.  Upphaflega átti myndin að vera hálftíma löng en hún endaði sem 13 mínútna stuttmynd.

Torshammer. umbarumbambaUmbarumbamba var aðeins sýnd í tvo daga sem aukamynd í Austurbæjarbíói. Eftir það var hún send út á land og var sýnd í kvikmynda- og samkomuhúsum sem aðalmynd á eftir klukkutíma langri aukamynd sem ég man ekki lengur hver var. Samt þótti enginn maður með mönnum sem ekki hafði séð hana. Kvikmyndir bresku Bítlanna A Hard Day's Night (1964) og Help (1965) sátu fastar í unglingum landsins, enda sáu þær margir ótal sinnum, og nú var komið íslensku Bítlunum.

Ég sá myndina þegar hún var fyrst sýnd í Félagsbíói í Keflavík og verð að viðurkenna að mér þótti lítið til hennar koma. Fyrir það fyrsta var hún allt of stutt. Hljómgæðin voru döpur og samtölin stirðbusaleg. Þá saknaði maður Engilberts á trommunum en í hans stað var kominn Pétur Östlund sem lék með Hljómum í stuttan tíma um það leiti sem myndin var tekin upp. En auðvitað lét ég á engu bera. Það hefði verið algjör goðgá í Keflavík á þeim tíma að gagnrýna eitthvað sem kom frá Hljómum.

Hljómar.m.Pétri ÖstlundÍ dag er myndin eflaust ómetaneg heimild sem marga mun fýsa að sjá aftur.  Þar sem knöpp peningaráð réðu því að aðeins var gerð eitt sýningareintak af myndinni, fór þetta eina eintak mjög illa, rispaðist og skemmdist þegar það var sýnt vítt og breitt um landið.

Eftir að sýningum lauk á myndinni hvarf hún sporlaust og sú flökkusaga gekk um að hún hefði hreinlega týnst eða eyðilagst. Löngu síðar kom í ljós að leikstjórinn Reynir Oddson hafði tekið hana til varðveislu.

Eflaust vakir enn fyrir Reyni að  koma kvikmyndinni í sýningarhæft ástand og vona ég að svo verði sem fyrst.


Ástarbréf

loveletter-main_Full

"Ég þarfnast þín. Ég hugsa um þig, dag og nótt. Þú ert hér hjá mér þótt þú sért svo fjarri. Ég faðma sængina og óska mér að þú værir hér. Hvað ég vildi að ást mín væri án sektakenndar. Hvað ég vldi að þú værir sama sinnis og ég svo við gætum verið saman að eilífu."

Sú var tíðin að ástarbréf þóttu meðal mestu gersema sem fólk átti í fórum sínum. Ástarbréf voru oftast geymd í lokuðum hirslum sem enginn nema eignandinn hafði aðgang að og venjulega komust slík bréf ekki fyrir almenningssjónir fyrr en bæði ritari þeirra og vitakandi voru fallnir frá.

Sum þeirra urðu að ómetanlegum heimildum um viðkomandi og vörpuðu  nýju ljósi á þankagang og hjartalag þeirra. - Ritun ástarbréfa var talsverð list, enda þurftu elskendurnir að setjast niður í ró og næði, og vanda sig við að setja sínar innstu hugrenningar niður á pappírinn með sinni bestu rithönd.

Spurningin er hvort sú list sé að týnast á öld farsíma, sms skilaboða, emaila, twitter, og bloggs. Það er orðið ansi langt síðan að ég skrifaði einhverjum sendibréf sem póstlagt var upp á gamla mátann. Flest skrifleg samskipti mín við annað fólk er í gegnum emaila. Þegar ég sest niður við tölvuna hamra ég niður í flýti það sem ég held að komi meiningu minni eða erindi sem fljótast til skila. - Og jafnvel þótt ég færi eins að tölvunni og  bréfritarar í gamla daga nálguðust pappírsörkina með sinn blekpenna, finnst mér sendibréfið enn miklu rómantískari miðill. -

1245009572af7FIvHvað geyma margir emailana sína til lengri tíma, að ekki sé talað um SMS skilaboð eða Twitt. Þó að ég sé alveg viss um að að fólk er ekkert síður rómantískt en áður, er þessi þessi hárómantíska tegund tjáningar klárlega á undahaldi.

Eða á kannski ungt fólk framtíðarinnar eftir að koma opinminnt fram í eldhús með eldgamla fartölvu í höndunum segjandi;" Vá, mér tókst loks að kveikja á gömlu tölvunni hennar ömmu og opna þetta fornaldar póstforrit. Gettu hvað ég fann? Viltu heyra;

Ég þarfnast þín. Ég hugsa um þig, dag og nótt. Þú ert hér hjá mér þótt þú sért svo fjarri. Ég faðma sængina og óska mér að þú værir hér.

Hvað ég vildi að ást mín væri án sektakenndar. Hvað ég vildi að þú værir sama sinnis og ég svo við gætum verið saman að eilífu. Ég hlusta stöðugt á uppáhalds lagið þitt án þess að gera mér grein fyrir því, af því að þá finnst mér ég vera nær þér. Í hvert sinn sem ég sé þig þrái ég þig meira, ef það er mögulegt.

Hugur minn segir mér að hitta þig ekki aftur nema að ég þurfi aldrei að yfirgefa þig aftur, vegna þess hve sársaukafullt það er að kveðja þig. En hjarta mitt segir að ekkert fái stöðvað mig frá að njóta með þér hverrar mínútu sem ég mögulega get. Og í hvert sinn sem ég er nálægt þér, bíð ég eftir að samveran nái einhverjum hápunkti, en hún gerir það aldrei. Þráin til að vera hjá þér er viðvarandi, stöðug og fær mig til að vilja þrýsta þér að brjósti mínu svo þú getir hlustað á hjarta mitt hrópa nafn þitt og segja þér frá þeim hræðilegu dögum og skelfilegu nóttum sem ég er fjarri þér.

Augu mín vökna í hvert sinn sem ég horfi á þig og ég verð að neyða þau til þess að horfa á þig eins og vinur á að gera. Ég vona enn, árangurslaust, að sársaukin muni dofna eða hverfa með tímanum. En tíminn hefur svikið mig, því eftir því sem hann líður, þrái ég þig meira.

Hvert smáatriði í sambandi við þig er sem grafið á hjarta mitt, heillar mig, snarar mig. Þegar ég segi að þú sért undraverð, er það aum lýsing á áliti mínu á þér, því þú ert mér ráðgáta. Hvað á ég að kalla þig? Hvað kallar maður þann sem er manni allt og ekkert? Allt,  vegna þess ég elska þig, ekkert,  vegna þess að ég get aldrei látið í ljósi við þig það sem býr í brjósti mínu. Orðið "vinur" nægir mér ekki. Ég er ekki ánægður með þann titil. En hvað er ég þá?  Ég er löngu hættur að vera bara "vinur" þinn.

Ég hef oft pælt í hvað mundi gerast ef ég segði þér hvernig mér raunverulega líður. En við eru föst einhversstaðar á milli þess að vera vinir og einhvers meira,  vegna þess að ég er hræddur við að þú hafnir mér ef ég segi þér sannleikann. Aðeins ótti minn stendur í vegi fyrir mér. Því þótt ég fái ekki að elska þig á þann hátt sem ég hef lýst, vil ég samt ekki fórna vinskapnum. Ótti minn er að þú klippir á sambandið fyrir fullt og allt af því þér líður ekki eins. 

Í dag mun ég sitja hér og þú þarna og ég mun gæta þess að augu mín endurspegli ekki ástinni og sársaukanum sem beinist að þér. Og í kvöld mun ég fara í rúmið og dreyma sama drauminn og ætíð, þar sem við erum stödd út við hafið.  Þú ert í sjónum og ég stend á bryggjusporðinum. Ég er að hugsa um að stökkva út í til þín en er hræddur. Og þegar ég loks stekk er ég ósjálfbjarga í vatninu og það er undir þér komið hvort þú bjargar mér eða ekki. Og þegar ég byrja að sökkva finn ég arma þína lykjast um mig og toga mig upp og ég get andað á ný.

Og ég horfi í augu þín og sé hvað þau hafa falið frá mér allan þennan tíma. Síðan syndum við saman inn í sólsetrið.

Á morgun mun ég aftur sjá þig og þykjast elska þig eins og vinur, hræddur við að stökkva. Ef ég ákveð að stökkva, viltu þá grípa mig... ef ég ýti á... senda?

"Og frá hverjum er þetta?" spyr mamman.

"Hvurjum heldurru.... afa audda."

 


Að verða gamall er ekki svo slæmt miðað við hinn möguleikann

Happy birthdayÁrið 1893 gáfu systurnar Patty og Mildred J. Hill saman út bók sem hafði að geyma barna-sönglög og barnagælur. Báðar störfuðu þær á barnaheimili í  Louisville í Kentucky í Bandaríkjunum, en meðal lagnanna sem í bókinni birtust var lag sem í dag er, samkvæmt heimsmetabók Guinness, þekktasta lagið í heiminum í dag. Textinn við lagið í umræddri bók er svona;  

Good morning to you,
Good morning to you,
Good morning, dear children,
Good morning to all.

Víst er að  lagið var ekki eftir systurnar, því á 19 öld voru margir textar sungnir við þessa sömu laglínu. Á meðal þeirra voru; "Happy Greetings to All", "Good Night to You All" og "A Happy New Year to All".

Fljótlega eftir að bókin kom út, byrjuðu krakkar samankomnir í afmælisboðum að syngja annan texta við auðlært lagið og með þeim texta varð lagið heimsþekkt; "Happy Birthday to you." Síðan þá hafa ýmsir textar verið samdir við lagið og eru flestir þeirra "ortir" á staðnum. Ein grínútgáfa hefur orðið vinsæl, sérstaklega í USA. Hún er svona;

Happy Birthday to You
You live in a zoo
You look like a monkey
And you smell like one too.

Sungið fyrir forsetannÍslensku útgáfuna þekkja allir ;"Hann/hún á afmæli í dag," enda ómar hún í svo til öllum afmælisboðum jafnt aldinna sem ungra á landinu. (Að vísu halda múslímar og vottar Jehóva ekki  upp á persónulega afmælisdaga af trúarlegum ástæðum.)

Stundum riðlast þó samhljómurinn þegar kemur að því að nefna nafn afmælsisbarnsins, sérstakelga ef nafnið er lengra en fjögur atkvæði.

Þrátt fyrir hina miklu úrbreiðslu lagsins, heyrist það sjaldan sungið í kvikmyndum eða á hljómplötum. En margir kannast við eina frægastu útgáfu lagsins sem  var sungin af Marilyn Monroe, persónulega fyrir forseta Bandaríkjanna; John F. Kennedy í Maí mánuði árið 1962.

Ætla mætti að lagið væri löngu orðið almenningseign og öllum frjálst að nota að vild, svo er ekki, þ.e. ekki með "Happy Birthday" textanum. Fyrir utan að fyrstu nótunni í laginu er skipt til að koma að tveimur sérhljóðum í orðinu "happy" eru lögin "Happy birthday" og "Good morning to you" nákvæmlega eins.

Höfundarréttur á laginu "Good Morning to All" er löngu útrunninn og þess vegna almenningseign, en réttinn á "Happy birthday" á milljónamæringurinn  Edgar Miles Bronfman, Jr.sem  keypti hann af bandaríska útgáfufyrirtækinu The Time-Warner Corporation árið 2004. Time-Warner hafði keypti  árið 1998 af Birch Tree Group Limited sem átt hafði réttinn frá 1935.

Eitt sinn kom upp sú kjaftasaga að Paul Mcartney hefði keypt höfundarréttinn að laginu en það mun vera rangt.

Til hamingju með daginnSamkvæmt höfundarréttarlögum á því að greiða stefgjöld af laginu í hvert sinn sem það er sungið á opinberum vettvangi og sú er ástæðan að kvikmyndagerðarmenn t.d. skipta því oft út fyrir lög eins og "For He's a Jolly Good Fellow". Talið er að Edgar hafi meira en tvær milljónir bandaríkjadala í stefgjöld af laginu árlega.  

Skiljanlega reynir Edgar hvað hann getur til að fylgja eftir höfundaréttar-eign sinni og hefur höfðað nokkur mál fyrir rétti þar að lútandi. Mörgum hefur þótt það langsótt að gamalt þjóðlag sem texta sem saminn var af fimm og sex ára börnum fyrir margt löngu, skuli þéna peninga fyrir moldríkan mann.

Lagið mun verða almenningseign árið 2030 þegar höfundarréttur á því rennur út.

 

Lýsingin á andlátinu hefði alveg getað komið úr penna hans sjálfs

Faðir hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var eins árs. Móðir hans dó þegar hann var tveggja ára. Seinna afneitaði fósturfaðir hans honum og hann var lengi heimilislaus. Ástarsambönd hans fóru öll út um þúfur og þegar hann loks gekk í hjónaband var það með þrettán ára gamalli frænku sinni sem dó úr berklum áður en hún varð tvítug.

Edgar Allan PoeHann þjáðist af þunglyndi, alkóhólisma og ópíum fíkn og lést aðeins fertugur að aldri á dularfullan hátt, snauður, forsmáður og vinalaus. Til jarðarfararinnar, sem aldrei var auglýst, komu aðeins tíu manns sem urðu vitni að því þegar að Edgar Allan Poe,  einn áhrifamesti bandaríski rithöfundur allra tíma, var til jarðar borinn í borginni Baltimore árið 1849.

Síðast liðinn sunnudag, 160 árum eftir þessa fámennu athöfn, ákváðu bæjabúar í Baltimore að heiðra minningu Edgars með því að efna til gervi útfarar þar sem eftirlíking af líki hans var borið að gröf hans með viðhöfn.

Frægir leikarar fóru með minningarorð og brugðu sér í gervi frægra aðdáenda skáldsins, m.a. Sir Arthur Conan Doyle og Sir Alfred Hitchcock.

Athöfnin var svo vel sótt að ákveðið var að endurtaka hana strax sama kvöld þannig að úr varð líkvaka við grafreitinn.

Allt þetta umstang rúmlega 200 árum eftir fæðingu Edgars er ansi ólíkt kringumstæðunum þegar dauða hans bar að þann 7. október 1849.

Nokkrum dögum áður fannst hann með óráði fyrir utan bar einn í Baltimore. Hann var klæddur fatnaði sem greinilega var ekki hans eigin og gat ekki gert neina grein fyrir ferðum sínum eða hvað að honum amaði. Hann lést á Washington College Hospital, (sjúkrahúsinu) sem hann hafði verið fluttur til, hrópandi  nafnið "Reynolds" aftur og aftur.

Grafreitur E.A:P:Edgar Allan Poe er einn áhrifamesti bandaríski rithöfundur allra tíma. Hann er talinn upphafsmaður spæjarasögunnar og frumkvöðull í gerð hryllingssagna. Nokkrar hafa verið kvikmyndaðar þ.á.m. The Pit and the Pendulum og The Fall of the House of Usher. Af ljóðum hans er Hrafninn án efa þekktast og eftir því hefur einnig verið gerð kvikmynd.

Meðal samtíðafólks hans var Edgar best þekktur sem óvæginn bókmenntagagnrýnandi. Orðstír hann sem slíks fór víða og fyrir bragðið eignaðist hann marga óvildarmenn sem sumir gerðu sér far um að ófrægja hann eftir lát hans.

Sem dæmi þá birtist minningargrein um Edgar í New York Tribune sem hófst svona; "Edgar Alan Poe er dáinn. Hann dó í Baltomore í fyrra dag. Þessi tilkynning mun koma mörgum á óvart en hryggja fáa." Fyrir greininni var skrifaður einhver "Ludwig".

Seinna kom í ljós að þar var á ferð Rufus Wilmot Griswold, ritstjóri og ritrýnir en þeir Edgar höfðu eldað saman grátt silfur allt frá árinu 1842. Rufus tók að sér að stjórna útgáfu á verkum Edgars og gerði hvað hann gat til að sverta orðspor skáldsins.

Rufus skrifaði m.a. grein sem hann sagði að væri byggð á bréfum frá Edgari og sem lýstu honum sem sídrukknu ómenni. Flest af því sem Rufus skrifaði voru hreinar lygar og einnig sannaðist að bréfin voru fölsuð.  

Edgar var fæddur 19. janúar 1809 í Boston. Foreldrar hans voru farandleikararnir David og Elizabeth Poe sem fyrir áttu soninn Henry og seinna eignuðust dótturina Rosalie. David Poe yfirgaf fjölskylduna ári síðar (1810) og 1811 lést Elizabeth úr tæringu. Edgar sem þá var tveggja ára var tekinn í fóstur af John Allan, ríkum kaupmanni af skoskum ættum frá Richmond í Virginíu sem verslaði með ýmsan varning, þ.á.m. þræla. Þótt Poe hafi bætt nafni hans við sitt, ættleiddi Allen aldrei drenginn.

HrafninnÞegar Edgar var 17 ára varð hann ástfanginn af stúlku sem hét Sarah Elmira Royster. Hann kann að hafa trúlofast henni áður en hann hóf nám við háskólann í Virginíu 1826. Þar safnaði hann spilaskuldum og John Allan rak hann úr fjölskyldu sinni.

Hungraður og heimilislaus yfirgaf Edgar háskólanámið og þegar hann frétti að Sarah hefði gifst öðrum manni, innritaði hann sig í herinn. Honum tókst að fá sína fyrstu bók; Tamerlane, útgefna og síðan ljóðabók, sem hvorug vöktu nokkra athygli.

Dauði Fanny, fósturmóður Edgars, hafði þau áhrif að um stund urðu sættir milli hans og Johns Allen sem útvegaði fóstursyninum inngöngu í herskólann í West Point í júlí 1830. En innan fárra mánaða fór allt í sama horfið og Edgar var aftur vísað úr fjölskyldunni.

Poe  lét reka sig frá West Point með því að sýna af sér vítavert kæruleysi þannig að hann var færður fyrir herrétt. Frá herskólanum lá leið hans til New York þar sem hann hóf að skrifa gagnrýni fyrir tímarit og dagblöð. Hvernig sem á því stóð, slógu félagar hans í West Point saman fyrir útgáfu á ljóðahefti fyrir hann sem einfaldlega bar nafnið "Ljóð."

Þegar að Poe snéri aftur til Baltimore, fékk hann inni hjá frænku sinni Maríu Clemm, dóttur hennar Virginíu. Eldri bróðir hans Henry bjó einnig undir sama þaki en lést fljótlega úr alkóhólisma eftir að Edgar settist þar að. Þrátt fyrir að geta sér gott orð fyrir að vera skeleggur gagnrýnandi, var hann ætíð í vandræðum. Hann missti ætíð störfin vegna drykkjuskaparins og reyndi að stjórna þunglyndi sínu með laudanum (ópíumblöndu) og víni.

Virginia PoeÁrið 1835 gekk Edgar að eiga frænku sína á laun. Virginía var 13 ára dóttir Maríu Clemm sem Edgar kallaði ávalt eftir það " elskulegu litlu eiginkonuna." María sá um þau bæði og fylgdi oft Edgari eftir til að reyna að koma í veg fyrir drykkju hans.  -

Húsakynni þeirra voru hreysi og kofar og oft nærðust þau aðeins á brauði og sýrópi. Poe reyndi hvað eftir annað að gera sér mat úr skrifum sínum en drakk sig meðvitundarlausan þegar illa gekk.

Virginía var aðeins 19 ára þegar hún smitaðist af berklum en Edgar neitaði að viðurkenna að hún væri að deyja og sagði blóðið sem kom upp úr henni, koma úr brostinni æð. Eftir dauða hennar varð Edgar enn óstöðugri og skrif hans myrkari. 

Sögur hans og ljóð lýstu hvernig líkamar voru sundur limaðir, étnir af mönnum, brenndir, grafnir lifandi,  troðið upp í reykháfa af órangútum og étnir af ormum á sama tíma og meginpersónurnar monta sig af því hvernig þeir hafa komist upp með glæpina.

Tveimur árum eftir dauða Virginíu fannst hann ráfandi um göturnar, klæddur í garma og dauðvona.

Þrátt fyrir allt þetta var poe um þessar mundir sá gagnrýnandi sem höfundar óttuðust mest í Lík EdgarsBandaríkjunum. Hið magnaða ljóð hans "Hrafninn" hafði getið af sér fjölda eftirlíkinga og útlegginga og hafði meira að segja verið notað í sápuauglýsingar.

Smásagan Morðin í Rue Morgue ruddi veginn fyrir nýrri tegund leynilögreglusagna, þar á meðal Sherlock Holmes. Hryllingssögur hans höfðu sumar verið þýddar á frönsku og rússnesku og gefið skáldum eins og Charles Baudelaire sem safnað öllu sem Poe skrifaði, mikinn innblástur.

Edgar hefði átt að vera orðinn ríkur en hann var stöðugt undir þumlinum á óprúttnum ritstjórum sem aldrei borguðu honum vel og það sem hann fékk eyddi hann í fýsnir sínar.

Áhugi Poes í lifanda lífi beindist mest að dauðanum.  Ímyndanir, skjálfti og meðvitundarleysi á milli var lýsingin á ástandi hans rétt fram að andlátinu. Hún hefði alveg getað komið úr penna hans sjálfs.


Beðið fyrir Icesave

Trúaðir og vantrúaðirBoðið er til þver-pólitísks bænafundar við Alþingishúsið næsta sunnudagsmorgunn kl; 06:00 til að biðja fyrir farsælli lausn Icesave málsins. Tekið skal fram að hver og einn getur ákallað þann guð sem honum sýnist, jafnvel Mammon ef einhverjum hugnast það eða þá Helga Hós, fyrir þá sem það vilja.  

Einkum eru flokkspólitískir rétttrúnaðarbloggarar, með sitt óþrjótandi þolgæði þrátt fyrir að hafa aldrei rétt fyrir sér, hvattir til að mæta og fara með sínar hefðbundnu bölbænir,  ef ekki til annars en að öllum verði ljóst hversu einlægir þeir eru.

Fundurinn er boðaður vegna þess að fullreynt þykir að mannleg máttarvöld fái gengið frá Icesave málunum svo að friður og sátt verði meðal þjóðarinnar um niðurstöðuna. 

Í þessu mikla prófmáli þjóðarinnar þar sem fyrst og fremst reyndi á hvort hún væri raunverulega nægilega samhuga til að teljast "ein þjóð" sem hefði nægilega mikla þjóðarvitund til að standa saman þegar sjálfri tilvisst hennar var ógnað, hafa mál öll þróast á þann veg að flokkadrættir á meðal hennar hafa aldrei verið meiri. -

Icesave deilan hefur sýnt þjóðinni með óyggjandi hætti að hún hefur algerlega gleymt þeim gildum sem gerðu hana að þjóð. Gömlu heilræðin eru öll orðin að óþolandi klisjum sem enginn fer lengur eftir.

stupid-catDæmi; Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.  Þetta er nú orðið öfugmæli.  Sundrung hefur reyndar  verið endurnefnd og kallast núna "aðhald" sem sagt er afar nauðsynlegt fyrir lýðræðið. Æðsta og besta skipulag lýðræðis er að hafa stjórn og stjórnarandstöðu.  Eins og "gamla sundrungin", krefst "aðhaldið" þess að stjórnarandstaðan sé ávalt ósammála öllu því sem stjórnin hefur að segja. Þess vegna segja pólitíkusar og flestir trúa því; Sundraðir stöndum vér, sameinaðir föllum vér.

Þá er þjóðin líka svo heilaþveginn að hún kannast varla lengur við orðið samvinna. Það orð er orðið algerlega úrelt.  Í staðinn notar hún ætíð orðið samkeppni og hnýtir aftan í það orð til vonar og vara, setningunni; "til að forða fákeppni" . Fákeppni er mesti bölvaldur sem hægt er að ímynda sér, nema þegar hún er sköpuð í krafti samkeppni að sjálfsögðu.

Fundinum verður auðvitað aflýst ef að Icesave málið verður að mestu til lykta leitt með einarðri meirihluta samþykkt Alþingis fyrir Sunnudagsmorgunn og/eða Bretar og Hollendingar fá endanlega nóg af vitleysunni í okkur og samþykkja samninginn með öllum sínum fyrirvörum og bókhaldsrugli.


Heimsfræga konan á Heiðarveginum

BlaðadrengurFljótlega eftir að ég kom fyrst til Keflavíkur (1962) , byrjaði ég að bera út Moggann. Gísli Guðmundsson afi minn vann hjá Skafta í efnalauginni á Hafnargötunni og hann var einmitt umboðsmaður Morgunblaðsins. Þar með átti ég hauk í horni sem hjálpaði mér að fá starfið.  Það fylgdi djobbinu að rukka fyrir áskriftina og þess vegna kynntist ég flestum "viðskiptavinum" mínum lauslega, þótt fæstir þeirra væru á ferli laust fyrir klukkan sjö á morgnanna þegar ég skaust upp að húsdyrunum til að troða blaðinu inn um bréfalúguna eða festa það milli stafs og hurðahúnsins.

Í litlu ljósgrænu húsi við Heiðarveginn sem tilheyrði því hverfi sem ég bar út í, bjó kona sem er mér afar minnisstæð. Hún kom mér fyrir sjónir sem glæsileg miðaldra kona, með rautt og mikið hár. Hún hafði þann sið að taka alltaf á móti mér við útdyrnar, gjarnan í skrautlegum náttkjól en ávalt með andlitsfarða og varalit. Oft bauð hún mér upp á mjólkurglas og kexköku sem ég sporðrenndi venjulega fyrir framan hana á dyrapallinum, áður en ég hljóp svo aftur af stað. Satt að segja vissi ég ekki hvað ég átti að halda um hana því lyktin heima hjá henni var líka miklu betri en ég átti að venjast í öðrum húsum.

ThumbnailMariaMarkanEinhverju sinni var móðir mín að fara yfir rukkunarheftið og rak þá augun í nafn þessarar konu. Henni þótti greinilega talsvert til hennar koma því hún fræddi mig á því að hún væri "heimsfræg" fyrir söng sinn. Sérstaklega tíundaði hún að þessari konu hefði einni allra Íslendinga verið boðið að syngja við Metropolitanóperuna í New York. Ég man að mér þótti þetta nokkuð merkilegt og var talvert upp með mér um tíma fyrir að bera út moggann til frægustu söngkonu Íslands, frú Maríu Markan. 

Eitt sinn þegar ég fór að rukka hana að kvöldlagi kom til dyranna stálpaður unglingur með rauðan lubba. Hann náði í mömmu sína og samskipti okkar urðu ekki meiri. Þarna mun hafa verið á ferð sonur Maríu, sá sem síðar varð einhver besti og þekktasti trymbill Íslendinga, Pétur Östlund.

Pétur segir einmitt þetta um dvöl sína í Keflavík;

353485Það var árið 1957. Ég var 14 ára,  bjó í Keflavík og gekk í skóla uppá velli (innsk.: "völlurinn" er fyrrum herstöðin á Keflavíkurflugvelli). Ég hafði ekkert að gera og var að þvælast í svokölluðum "Service Club" og sá auglýsingu um ókeypis trommukennslu og skráði mig í það. Fyrsti kennarinn minn hét Gene Stone. Hjá honum fékk ég kjuðapar og æfingaplatta og þá var ekki aftur snúið. Atvinnumannaferill minn hófst um 16 ára aldur og ég hef starfað við trommuleik og trommukennslu allar götur síðan. 

Mér er ekki kunnugt um hversu mikinn þátt María átti  í mótun tónlistarlífsins í Keflavík á þessum árum,  fyrir utan að vera móðir Péturs sem verður að teljast þó nokkuð. Pétur spilaði með keflvískum hljómsveitum eins og Hljómum og Óðmönnum við góðan orðstír. En eitthvað hefur hún lagt sig eftir að kenna og leiðbeina keflvískum ungmennum því á heimasíðu hins frábæra dægurlaga söngvara Einars Júlíussonar sem frægur varð fyrir söng sinn með hljómsveitinni Pónik, fann ég þessa frásögn;

imageÞegar  rokkæðið skall á Íslandi var Einar Júlíusson þegar orðinn barnastjarna í Keflavík. Hann fæddist þar, yngstur systkina sinna, 24. ágúst 1944 og var farinn að syngja opinberlega áður en hann fór í barnaskóla. Svo skemmtilega vildi til að í sama bekk og hann var annar upprennandi tónlistarmaður; Þórir Baldursson.

Á unglingsárunum bauðst Einari óvænt söngnám hjá  Maríu Markan sem á þessum árum bjó í Keflavík. Einar hafði það fyrir sið þegar illa lá á honum að setjast í róluna á róluvellinum, þar rólaði hann sér og söng hástöfum, nágrönnum leiksvæðisins til dægurstyttingar sem öllu jafna fannst gaman að heyra þessa björtu og hljómfögru söngrödd. María Markan átti einhverju sinni leið hjá og bauð hún Einari að koma til sín í tíma án endurgjalds. Einar var hins vegar of feiminn til að þiggja boðið og sagði síðar frá því að þar hefði hann farið illa að ráði sínu.

Um merkiskonuna Maríu er ekki margt að finna á netinu en endurminningar hennar voru gefnar út af Setberg árið 1965 og ritaðar af Sigríði Thorlacíus. Eftirfarandi æviágrip eru tekin úr Tónlistarsögu Reykjavíkur.

María Markan er fædd í Ólafsvík 25. júní 1905. Hún er systir Einars og Sigurðar Markan söngvara og Elísabetar, sem einnig er kunn söngkona. María Markan lærði að syngja hjá Ellen Schmücker í Berlín frá 1928 og nær óslitið til 1935. Hún hélt fyrstu sjálfstæðu tónleika sína í Berlín 16. febrúar 1935 með undirleik prófessors Michaels Raucheisen, sem er frægur píanóleikari og mjög eftirsóttur undirleikari. Hún vann þá mikinn sigur. Hún var ráðin að Schilleróperunni í Hamborg 1935, og söng þar frá því um haustið til næsta vors, en þá rann samningurinn út. Fór hún Þá aftur til Berlínar og hélt áfram í tímum hjá sínum gamla kennara, Madame Ellen Schmücker. Síðan var hún ráðin að óperunni í Zittau, skammt frá Dresden, og var það árssamningur. Forráðamenn óperunnar vildu endurnýja samningin annað ár til viðbótar, en því boði hafnaði María, og fór hún þá aftur til Berlínar vorið 1937. Valt nú á ýmsu hjá henni eins og gerist og gengur í lífi listamanna, sem ekki hafa unnið fullnaðarsigur, og varð henni ljóst, og reyndar sagt það af sjálfum forstjóra Berlínaróperunnar, að það eitt myndi hamla því, að hún kæmist í fremstu röð söngvara í þýskalandi, að hún væri útlendingur.

champselyseesfigaro1En brátt fór að vænkast hagurinn. Hún söng á norrænni viku í Kaupmannahöfn 1938 og ennfremur greifafrúna í „Brúðkaupi Figarós“ eftir Mozart í konunglega leikhúsinu þar í borg. Fritz Busch, hljómsveitarstjórinn heimsfrægi, hafði fengið augastað á söngkonunni og réð hana til að syngja þetta hlutverk í Glyndbourne-óperunni í Englandi, en þessu óperuhúsi stjórnaði hann. Þetta var mestur heiður, sem Maríu Markan hafði hlotnast fram að þessu, því valið er úr beztu söngvurum álfunnar í hvert sinn til að syngja þar. María tók við þessu hlutverki af Aulikki Rautavara, beztu söngkonu Finnlands, sem minnst verður á hér á eftir. Glyndbourne-óperan starfar á sumrin, og til skams tíma voru þar eingöngu fluttar óperur eftir Mozart, en ekki eftir önnur tónskáld.

Er heimstyrjöldin var skollin á, breyttist viðhorfið, og fór María þá til Ástralíu, skv. samningi við Ástralíuútvarpið, og söng þar í útvarp og í konsertsölum í ýmsum borgum. Henni var hvarvetna mjög vel tekið og framlengdi útvarpið samninginn við hana. Dvaldi hún ár í landinu.

opera_romaSíðan lagði hún leið sína til Kanada, hélt sjálfstæða tónleika í Winnipeg og víðar, og síðan til New York. Þar var hún ráðin við Metropolitanóperuna 1941-1942. Þangað eru sjaldan ráðnir aðrir listamenn en þeir, sem hlotið hafa heimsfrægð.

Í Reykjavík hefur María Markan margoft sungið, allt frá því að hún var enn við söngnám í Berlín - hún söng þá hér heima í sumarleyfum, t.d. árin 1930, 1933 og 1938. Ennfremur söng hún hér um haustið 1946 og sumarið 1949. Undirleikarinn er Fritz Weisshappel, sem var kvæntur systurdóttur hennar. Loks söng hún hér í Þjóðleikhúsinu um veturinn 1957 í óperunni „Töfraflautunni“ eftir Mozart. Í óperunni koma fram þrjár þernur, sem syngja saman terzetta. María söng þá hlutverk fyrstu þernunnar.

María Markan hefur háa sópranrödd, sem er í senn mikil og glæsileg. Raddsviðið er sérstaklega mikið og dýpstu tónarnir svo fagrir, að mörg alt-söngkonan mætti öfunda hana af þeim. Hér á landi á hún vinsældir sínar mest að þakka söng sínum í ljóðrænum lögum, ekki sízt íslenzkum, sem hún syngur mjög fallega. En hún er meiri sem óperusöngkona. Hin mikla rödd hennar fær fyrst notið sín til fulls í óperuaríum. Dr. Páll Ísólfsson sagði í Morgunblaðinu eftir söng hennar sumarið 1949: „Mesta söngkona Íslands fram að þessu.“

María Markan var gift George Östlund og var búsett í Bandaríkjunum 1940-1955. Þau hjónin fluttust heim til Íslands vorið 1955. Hún missti mann sinn í árslok 1961.


Teygjustökk og N´gol

TeygjustökkEin af vinsælustu jaðaríþróttum seinni tíma er teygjustökk. (Bungee jumping) Teygjustökk á rætur sínar að rekja til athafnar sem  þekkt er undir nafninu "Landdýfingar" (N´gol) og er ein af sérkennilegustu leiðum sem hægt er að hugsa sér til að hætta lífi og limum. N´gol er stundað á hinum lítt þekktu Hvítasunnueyjum í Vanuatu Archipelago í Kyrrahafi, um það bil 2000 km. austur af austurströnd Ástralíu. Í dag er athöfnin aðeins stunduð á suður hluta eyjarinnar. Sjá myndband.

Arfsögn á Hvítasunnueyjum rekur upphaf hennar til sögunnar af Tamale. Tamele var maður sem átti konu sem hljóp oft í burtu frá honum. Eitt sinn eftir að hann hafði lúskrað henni fyrir að flýja, hljóp hún í burtu og faldi sig hátt upp í tré. Tamale klifraði á eftir henni en þegar hann ætlaði að grípa í hana, stökk hún niður úr trénu. Tamele stökk á eftir henni en þar sem konan hafði bundið vafningsvið um ökkla sinn, lifði hún af fallið en hann lét lífið.

Eftir þessa atburði tóku menn og drengir, sumir ekki eldri en sjö ára, að stunda það að stökkva af þar til gerðum stökkpöllum, til að sína styrk sinn og hugrekki og til að sýna konum sínum að þær mundu ekki framar komast upp með nein brögð. Þá stökkva þeir einnig til að tryggja að Yam uppskeran verði góð, en Yam er þeirra helsta lífsviðurværi. Um leið og strekkist á vafningsviðnum, fetta þeir höfuðið fram á við og herðarnar snerta jörðina, sem gerir hana frjóa.  Ár hvert í apríl byggja eyjaskeggjar a.m.k. einn 25 metra háan turn með stökkpalli og hefja athöfnina sem getur tekið tvo daga.

Aðeins umskornir karlmenn fá að taka þátt í þessari athöfn þar sem vafningsviður er bundin utan um hvorn ökkla til að taka af fallið. Hár mannsins verður að snerta jörðina til að hún teljist hafa heppnast og gert er ráð fyrir að allir sem mögulega geta , taki þátt.


Tveir froskar

Heyrðist frétt um heiminn óma

hvernig froskar tveir,

féllu í skál full´af rjóma,

þar fangaðir voru þeir.

 

Annar reyndist raunagóð

og rausnarleg sál,

hinn einn þeirra huglausu,

hvað allt er voða mál.

 

Við drukknum hér dugleysan æpti,

dæmalaust óhress,

niðrá botninn síðan sökk

og sífrandi kvaddi bless.

 

Sá er áfram svamlaði

sagði við sjálfan sig;

dug skal sýna dómi,

þótt dauðinn taki mig.

 

Ótrauður mun ég áfram synda

uns mig þrýtur þol,

örlögin ég læt mér lynda,

lýtt mér hugnast vol.

 

Hugrökk sundið hetjan þreytti,

með hamagangi rjómann þeytti.

 

Hann barðist um og buslaði

bullandi af fjöri,

og skjótt varð rjóminn allur aðFroskurinn sem slapp

indælis þykku smjöri.

 

Loks á smjörinu lafmóður stoppaði,

léttur svo upp úr skálinni hoppaði.

 


Eiga sprangið og íslenska glíman heima á heimsminjaskrá?

3188686950_58d6b0eaffÞegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, fór ég með ófáa hópa af skólakrökkum víðs vegar af landinu í útsýnisferðir um Heimaey. Einn af viðkomustöðum okkar var undantekningarlaust Sprangan undir Skiphellum þar sem ungt eyjafólk lærir að klifra í klettum og sveifla sér í kaðli.

Á tungumáli "innfæddra" kallast þetta "sprang“.  Misháar syllur eru í bjarginu, allt frá „almenningi“ og upp í „gras" eða "tó".  

Margir úr hópunum spreyttu sig á að klifra upp í lægstu sylluna og spranga út frá henni sem tókst misjafnlega, enda sprang ekki auðveld íþrótt.

Einn hópur sem ég man eftir bar þó af öllum öðrum hvað leikni í kaðlinum varðaði. Þegar ég spurði hvers vegna þau virtust kunna svona vel til verka, svöruðu þau að flest þeirra væru frá Rifi og Sandi á Snæfellsnesi og skammt þar frá væru Gufuskálar.

Að Gufuskálum væri mikið og hátt mastur og utan í því hefðu þau oft sveiflað sér á reipi. Ég kannaðist vitskuld við Loren C mastrið á Gufuskálum sem lengi var sagt hæsta mannvirki á Íslandi og er það kannski enn. 

esja-_glimaMér datt þetta í hug þegar ég las fréttina sem ég tengi hér við, því trúlega hafa krakkarnir frá Snæfellsnesi snúið sér á alla kanta á reipinu eins og indíánarnir gerðu forðum suður í Mexíkó og sýnt er á meðfylgjandi myndskeiði.

Annað sem einnig kom upp í hugann er hvort ekki sé ástæða til að koma Sprangi inn á þessa ágætu heimsminjaskrá fyrir þjóðhætti sem eru í hættu að leggjast af og gleymast.

Ég veit ekki hvað það eru margir sem kunna þá list svo vel sé, en flestir eiga þeir eflaust heima í Vestmannaeyjum.

Auðvitað má segja að viss tegund af sprangi lifi góðu lífi meðal þeirra milljóna í heiminum sem stunda fjallaklifur. En búnaður til klifurs hefur mikið breyst frá því sem var og miðað við það eitt er varla hægt að segja að um sömu íþrótt sé að ræða.

Þá mætti einnig huga að í þessu sambandi hinni íslensku glímu. Ég veit að enn eru íþróttafélög sem leggja stund á glímuna, en tilfinning mín segir mér að þeim fari fækkandi.


mbl.is Guðadans á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undrasalir - (Fyrir Hildi Helgu)

ZotovZotov var áttatíu og fjögra ára gamall þegar hann gekk að eiga ekkju, sem var jafn gömul og hann. Til brúðkaupsins var boðið af köllurum, eins og þá tíðkaðist, í þetta sinn af fjórum eldri mönnum sem allir stömuðu. Háaldraðir voru einnig mennirnir óku brúðarvagninum og á undan honum hlupu, móðir og másandi, fjórir af feitustu mönnum Rússlands.

Vagninn sjálfur var dreginn af tveimur skógarbjörnum sem reknir voru áfram með gaddasvipu og öskur þeirra í bland við básúnublástur kom í staðinn fyrir brúðarmarsa. Upp við altari dómkirkjunnar gaf blindur og mállaus prestur hjónin saman sem síðan var fylgt af öllum brúðkaupsgestum að hjónasænginni þar sem þau voru afklædd í augsýn allra.

Á þessa leið lýsir Voltaire þessu afkáralega brúðkaupi sem haldið var í Pétursborg árið 1710 fyrir tilstilli Péturs mikla Rússakeisara, en brúðguminn Zotov hafði verið æskukennari Péturs og einskonar hirðfífl hans í seinni tíð.

Brúðkaup ÖnnuSkömmu áður hafði Pétur skipulagt brúðkaup frænku sinnar, síðar keisaraynju, Önnu Ivanovna og hertogans af Courland. Strax eftir að hafa veitt þeim blessun sína í upp við altarið í dómkirkjunni í Mosku, hófst annað brúðkaup. Brúðhjón þess voru tveir dvergar, uppáhalds dvergur Péturs Valakoff, og "prinsessa dverganna" Prescovie Theodorovna.

Dverghestar frá Settlandseyjum drógu brúðarvagninn og Pétur veitti þeim blessun sína á sama hátt og hann hafði gert fyrr um daginn fyrir Önnu. - Í brúðkaupsveislu Önnu og hertogans, var veglegri borðskreytingu komið fyrir á miðju veisluborðinu og út úr henni stukku tveir dvergar sem síðan dönsuðu menúett á milli veisluréttanna og borðbúnaðarins.

Pétur Mikli 1838Pétur mikli Rússakeisari hafði mikinn áhuga á öllum afbrigðlegum náttúrufyrirbrigðum, svo mikinn að hann lét reisa mikla byggingu í Pétursborg þar sem hann kom sér upp safni af allskyns viðundrum og afbrigðilegum lífverum, þ.á.m. mennskum. 

Safnið var kallað Kunstkamera (Undrasalir) og stendur bygging þess enn. Margir af 2.000.000 munum þess eru enn varðveittir á Museum of Anthropology and Ethnography(MAE) í Pétursborg.

En Pétur safnaði ekki aðeins því sem koma mátti fyrir í krukkum og skápum, því hann stefndi til Pétursborgar fjölda af dvergum, þeim sem þóttu óvenju hávaxnir, óvenju feitlangir, krypplingum og þeim sem vanskapaðir voru á einhvern óvenjulegan hátt.

Talið er að dvergahirð Péturs hafi talið 80 dverga þegar mest lét. Anna Ivanovna er sögð hafa haft áhuga á dvergarækt. Eftir að nokkrir kvendvergar Péturs létust af barnsförunum, bannaði  Pétur frekari tilraunir með æxlun dverga.

Anna Ioannovna og dvergar hennarPétur virðist hafa haft sérstakan áhuga og dálæti á dvergum. Þeir máttu samt vara sig eins og aðrir á skapofsa keisarans, sem átti það til að leggja til nærstaddra með sverði sínu ef þannig lá á honum. Og áhugi hans smitaði út frá sér því vart var hægt að finna heldri manna fjölskyldu í Rússlandi á valdatíma hans, sem ekki átti einn eða tvo dverga.

Pétur mikli notaði oft afkáraleikann til að undirstrika andstöðu sína við gamlar kreddur og helgisiði kirkjunnar. Áður en hann skipulagði brúðkaup hirðfíflsins Zotov, hafði hann látið krýna hann sem páfa. Þá samdi hann einnig samkvæmisleiki sem gengu út á að gera grín að kristnum helgisögum og siðum þar sem vinir hans og þau viðundur sem hann valdi, var gert að leika hlutverk tengdum viðkomandi sögum.

Anna Ioannovna Nú er víst að Pétur var þeirrar skoðunar að Rússland væri langt á eftir öðrum Evrópulöndum hvað varðaði menningu og siðfágun. Hann t.d. bannaði með lögum að karlmenn bæru alskegg og lét leggja sérstakan skatt á aðrar tegundir skeggja.

E.t.v. hefur Pétur mikli sett dvergaeign í samband við siðfágun því sá siður var all-útbreiddur og hafði verið það um langa hríð, meðal konungshirða Evrópu. Allir rómversku keisararnir áttu dverga. T.d. er þess sérstaklega getið að Júlía, frænka Ágústusar hafi átt tvo dverga, þau Knopas og Andromedíu sem aðeins voru 2 fet og þrír þumlungar á hæð.

Sagt er að einn konungur Danaveldis hafi gert dverg að ráðherra. Karl lX átti níu dverga og fengið fjóra þeirra gefins frá  Sigmundi Ágústusi Póllandskonungs og þrjá frá hinum þýska Maximillan ll. Á þeim tíma voru dvergar taldir mjög snjallir og vitrir. Segja má að þeir hafi komið í stað hirðfífla því þeir máttu mæla þegar aðrir urðu að vera hljóðir. Catherine de Medicis átti þrjú pör á sama tíma og árið  1579  er hún sög hafa átt fimm smámenni sem hétu; Merlín,  Mandricart, Pelavine, Rodomont, og Majoski. Líklegt er að síðasti dvergurinn við frönsku hirðina hafi verið  Balthazar Simon, sem lést árið 1662.

Dvergur dansar við hundStundum var karlmannsdvergum boðið að vera viðstaddir þegar að mikilmenni komu saman.   Árið 1566 bauð t.d. Vitelli Kardínáli í Róm  til mikillar veislu þar sem 34 dvergar þjónuðu til borðs.

Á Englandi og á Spáni áttu aðalsmennirnir það til að láta bestu málara samtíðar sinnar mála myndir af dvergum sínum. Velasquez málaði t.d.  Don Antonio el Ingles, fínbúinn dverg ásamt stórum hundi til að leggja áherslu á smæð hans. Sá listamaður málaði fjölda annarra dverga við knungshirðina á Spáni  og á einu málverkinu, Infanta Marguerite, sýnir hann hana ásamt dvergapari.  Þá má sjá dverga á myndum listamanna eins og Raphael, Paul Veronese, Dominiquin og einnig í  "Sigur Sesars" eftir  Mantegna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband