Bretar kunna ekki til verka

Almenningur í Bretlandi veit ekki hvaðan á hann stendur veðrið þessa dagana. Segja má að yfir landið gangi pólitískt gjörningaveður.

Fjaðrafokið í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður Cleggs og Frjálslyndra við Íhaldið og Verkalýðsflokkinn sýnir greinilega hversu gamaldags og staðnaðar hugmyndir Breta um lýðræði eru. Flestar Evrópuþjóðir búa við samsteypustjórnir og flokkar hafa lært að ganga til stjórnamyndunarviðræðna við aðra flokka eftir kosningar og taka til þess þann tíma sem þarf. Þetta kunna Bretar einfaldlega ekki.

Clegg sem er í oddastöðu, byrjaði vel og sagðist vilja gefa íhaldinu, "sigurvegurum" kosninganna, tækifæri til að mynda stjórn. Án þess að klára þær viðræður, hóf hann viðræður við Verkalýðsflokkinn sem tölfræðilega getur aðeins myndað stjórn ef það fengi alla með sér fyrir utan Íhaldið. - Brown forsætisráðherra lýsti því síðan yfir að hann ætli að hætta í pólitík, til að liðka fyrir hugsanlegum samningum við Frjálslynda en Clegg hafði lýst því yfir að hann mundi ekki vilja vinna með Brown.

Almenningur er alveg ruglaður. Hann er vanur því að einn sigurvegari standi eftir hverjar kosningar sem síðan tekur við stjórn landsins. Hann skilur einfaldlega ekki hugtakið "samsteypustjórn".

Spjótin beinast einkum að Clegg sem er sagður reyna að notfæra sér oddastöðu sína og vilja ekki gefa eftir helsta baráttumál sitt, þ.e. umbreytingar á kosningakerfinu. Þær breytingar mundu hins vegar hafa þær afleiðingar að þingmenn mundu deilast jafnara á flokkana og breyta pólitísku landslagi  Bretlands til  frambúðar.


Allt Íslandi að kenna!

Eins og ég fjallaði um í síðustu færslu er Ísland mikið í breskum fjölmiðlum þessa dagana. Í gærkveldi voru tveir þættir um landið í sjónvarpinu, annar fjallaði um gosið í Eyjafjallajökli og hinn um þorskastríðin. þótt báðir þættirnir hafi verið afar fræðandi og í sjálfu sér jákvæðir í garð Íslands og Íslendinga, læddist að mér sá grunur í morgun að klisjan um að allar auglýsingar séu góðar auglýsingar, sé ekki alltaf sönn.

Þrátt fyrir hremmingaranar í tengslum við efnahagshrunið fundust mér Bretar ætíð tiltölulega jákvæðir gagnvart landi og þjóð. Nú kveður við annan tón. Fólk verður jafnvel vandræðalegt þegar það heyrir að ég sé frá Íslandi og það er styttra í aulabrandarana en áður.

Það er eins og fólk bregðist verr við því sem ógjörningur er að stjórna en því sem gerist af mannavöldum.

Ókunn kona á pósthúsinu sagði við mig í fúlustu alvöru að Ísland bæri ábyrgðina á því að sumarfríið hennar væri nú í uppnámi.

Kennarinn á námskeiðinu sem ég sótti í dag, lét aulabrandarana rigna yfir mig, en sá svo eftir öllu saman og baðst afsökunar á bullinu.

Jafnvel góðir kunningjar mínir sjá nú ástæðu til að hafa þetta á orði eins og lesa má úr þessum tölvupósti sem ég fékk sendan í dag:

Just to see if you're still going to do a spot at May 21st What A Performance!
What would it be? A 12 minute something?
Let me know
There will of course be no references or cheap jokes about ash, volcanoes, banks or anything of that sort - trust me!

Á síðasta ári lýstu margir íslendingar búsettir erlendis því hvernig þeir máttu þola háð, spott og jafnvel reiði út í Íslendinga vegna hamfaranna í efnahagslífinu og þá átti ég  bágt með að trúa þeim. Ekki bjóst ég við að ég ætti eftir að finna fyrir slíku á eigin skinni vegna náttúrhamfara á landinu. Svo lærir sem lifir.


Ísland stöðugt í fréttum

Sjaldan eða aldrei hefur Ísland verið eins mikið á milli tannanna á fólki hér í Bretlandi og um þessar mundir. Aska frá Eyjafjallajökli heldur áfram að raska flugáætlunum flugfélaga víða um Evrópu og erlendir fréttahaukar klæmast stöðugt á nafni eldfjallsins. Síðasta dæmið sem ég rakst á er þetta;

Þá hafa handtökur Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra bankans í Lúxemborg sem og arftaka hans, Banque Havilland, vegna gruns um skjalafals, auðgunarbrot og markaðsmisnotkun vakið talsverða athygli í hérlendum fjölmiðlum.

En ef að Ólafi Haukssyni mistekst að sanna misferli á þá félaga og jafnvel þótt svo fari, er mögulegt að þeir þurfi að svara til saka fyrir breskum dómstólum.

Mál Kaupþings hefur verið til rannsóknar hjá Britain's Serious Fraud Office (Rannsóknardeild alvarlegra fjársvika) í nokkurn tíma, einkum hvernig staðið var að því að laða að innlánsfé með loforðum um háa ávöxtun á Kaupthing Edge.

Mál þeirra Kaupþingsmanna þykir einnig áhugavert meðal almennings fyrir þær sakir að sjálfir hafa Bretar verið verið heldur linir við að sækja "sína menn" til saka, þ.e. þá sem farið hafa illa með fé almennings í breskum bönkum. Í Bretlandi sitja yfirleitt sömu menn við stjórn bankanna og gerðu fyrir hrun og þiggja enn himinháar bónusgreiðslur fyrir ómakið.


Stephen Fry segir Ísland stærsta banana lýðveldi Evrópu

Stephen_Fry_croppedStephen Fry er einn kunnasti sviðs-leikari, grínisti og sjónvarpsþátta-stjórnandi í Bretlandi. Hann er einnig þekktur úr kvikmyndum eins og Wilde, Gosford Park og síðast Alice in Wonderland sem Tim Burton leikstýrði.

Fry er mikill háðfugl og í sjónavarpsþáttunum QI blandar hann saman gríni og fróðleik. Í einum þáttanna spyr hann um hvert sé stærsta banana lýðveldið í Evrópu.

Einn gesta hans ratar óvænt á svarið. Hér má sjá klippuna úr þættinum þar sem Fry segir Ísland stærsta banana framleiðanda í Evrópu.


Clegg the kingmaker

Þá er kosningunum lokið hér í Bretlandi og úrslitin verið tilkynnt. Þingið er hengt eins og flestir bjuggust við og enginn flokkur með nægilegan þingstyrk til að mynda ríkisstjórn einn. Bæði Brown og Cameron biðla til Cleggs sem eygir nú tækifæri til að koma á endurbótum á kosningakerfinu.

Reyndar nægir sameiginlegur þingmannafjöldi Frjálslyndra Demókrata og Verkamannaflokksins heldur ekki til að mynda meirihlutastjórn. Bónorð Browns hljóta því að hljóma dálítið hjáróma. Kosningakerfið Í Bretlandi er þannig að aðeins 6% munur er á almennu fylgi Frjálslyndra og Verkamannaflokksins en þessi 6% gefa samt þeim síðarnefndu 101 þingmann umfram Frjálslynda.

Er það furða að Clegg setji endurbætur á kosningakerfinu sem skilyrði fyrir þátttöku í stjórn. Hann vill að horfið verði frá einmenningskjördæmum og flokkar fái úthlutað þingmönnum eftir hlutfalli atkvæða sem þeir hljóta. En það verður þrautin þyngri að fá Cameron til að fallast á það.


Litningar úr Neanderdals-manninum finnast í nútíma-manninum

Þá þarf ekki að velkjast lengur í vafa um hver urðu örlög Neanderdals fólksins (Homo neanderthalensis). Það blöndaðist nútíma manninum (Homo sapiens sapiens). Vísindamenn skýrðu frá því í dag að þeir hefðu fundið að 1%- 4% af litningum nútíma mannsins, einkum þeirra sem búa í Evrópu og Asíu, eru fengin frá Neanderdals manninum.

Sjá nánar um þessa merkilegu frétt hér.


Hengt þing

a_hung_parliament_771655Það eru þingkosningar í Bretlandi í dag. Kosningarnar eru svo mikilvægar og leiðinlegar að  í síðustu könnun voru 40% kjósenda óákveðnir um hvað þeir ætluðu að kjósa. Fyrir mörgum er enginn þeirra kosta sem í boði eru ásættanlegur. Kerfið í Bretlandi er þannig að aðeins einn þingmaður kemst að í hverju kjördæmi, þ.e. sá sem fær flest atkvæði. Mikill munur er á íbúafjölda í kjördæmum. Því er vel hugsanlegt að flokkur fá flesta þingmenn enn ekki flest atkvæði í heildina.

Allir vita að Verkamannaflokkurinn hefur hagrætt kjördæmunum á þennan hátt til að tryggja sér sem flesta þingmenn. Íhaldið heftur ekkert kvartað yfir þessu, aðeins minni flokkarnarnir sem fá afar fáa fulltrúa á þing mótmæla. Annars er bresk pólitík hundleiðinleg og afar gamaldags.

Stefnumál flokkanna eru áþekk og flokksforingjarnir líka, litlaus jakkaföt með bindi (blátt, rautt og gult). Þeir tala svo loðið um alla hluti að eins og áður sagði getur 40% ekki ákveðið sig hvaða leiðindadurgur er skástur.

Ef úrslitin verða á þá lund að enginn flokkur fær hreinan meirihluta þingmanna, (eins og algengt er í flestum löndum Evrópu) kalla Bretar það "hengt Þing". Vonandi fara leikar svo að þingið verði hengt.  


Söguþankar

history333Megin efni margra íslenskra blogga eru persónulegar frétta og söguskýringar. Það í sjálfu sér mjög merkilegt hvað margir vita hvað er að gerast á bak við tjöldin og þekkja "hina raunverulegu" sögu vel.  Þetta hljóta að verða ómetanlegar heimildir fyrir framtíðina og eru enn mikilvægari fyrir fortíðina sem er stöðugt þarf að umrita hvort eð er. 

Þótt ég hafi gaman að Því að lesa slíkar sagnfræðitúlkanir, nálgast ég þær með varúð. Ég veit sem er að fátt, ef nokkuð, á meira skilið að vera endurskrifað en einmitt slíkar söguskýringar.

Þannig hugsa margir sér þá dul að geta sagt fyrir um framtíðina af því Þeir þekkja fortíðina.

Að það sé mikilvægt að þekkja söguna til að endurtaka hana ekki, eins og einhver sagði, er í besta falli óskhyggja. Sögulegar ákvarðanir sem reynast happadrjúgar fyrir almenning eru yfirleitt teknar eftir að allt annað hefur verið reynt. 

Sagan, jafnvel þótt hún sé sögð óumdeild, lýtur jafnan í gras fyrir einbeittum vilja þeirra sem vilja komast á spjöld hennar eða skrifa hana upp á nýtt.  Eini vísdómurinn sem má draga af sögunni með vissu, er að það er oftast viturlegt að gera alls ekki neitt og altaf best að segja ekki neitt.


Mótsagnir hamingjunnar

success_and_happinessSumir hafa mjög þróað með sér mjög öfluga óhamingjuhvöt. Þeir líkjast mjög "gáfufólkinu" sem heldur að það eitt að vera neikvætt og gagnrýnið sé það sama og að vera rosalega klárt.

Því  finnst jafnframt að jákvætt fólk hljóti að vera heimskt. Það eina sem veitir slíku fólki hamingju eru sorg og vandræði.

Ég á auðvitað ekki við að lífið eigi að vera uppfullt af óendanlegri hamingu. Slíkt mundi gera hverja manneskju brjálaða.

Í raun er aðeins tvennt sem gerir fólk óhamingjusamt. Að fá allt það sem hjarta þeirra girnist og að fá það ekki.

En hvað er raunveruleg hamingja? Sumir segja langlífi og góð heilsa.

Allt sem mér þykir virkilega skemmtilegt er annað hvort ólöglegt, ósiðlegt eða fitandi. Og ég spyr mig, er það þess virði að gefa allar nautnir upp á bátinn í staðinn fyrir tvö ár í viðbót á einhverju elliheimili?


Fjórar brúðargjafir

Óhamingjusöm hjónabönd hafa aldrei verið vinsælli en nú. Mörg þeirra taka loksins enda (sem betur fer) og fólk hefur leitina að nýjum mökum. Á endanum tekst það og efnt er til nýs brúðakaups. En hvað hvað gefur maður marggiftu fólki sem flest á, í brúðargjöf. Hér koma fjórar hugmyndir.

1. Andafælu. Þetta er ódýrt frumbyggjaprjál sem heldur í burtu illum öndum frá heimilinu. Andafæla er búin til úr náttúrlegum efnum, oft dýrabeinum og leyfum af einhverju fiðurfé. Fælan tryggir að engir fúlir andar komist inn á heimilið og safnar auk þess á sig ryki og ari sem annars gæti valdið heimilisfólki hnerra.

2. Draumafangara. Fátt er mikilvægara en að geta látið drauma sína rætast. (Þá er gengið út frá að draumfarir fólks séu góðar) Draumafangari sem einnig er búinn til úr einföldu frumbyggjaskrani, hjálpar þér að muna drauma þína þegar þú vaknar svo þú getir látið þá rætast.

3. Stafrænan stjörnuteljara. Hvað er rómantískara en að liggja úti undir berum himni á stjörnubjartri nóttu með ástina þína í fanginu og telja stjörnur. Stjörnuteljarinn gerir þér kleift að segja nákvæmlega til um hversu margar stjörnur eru sjáanlegar og það sem meira er, hvað þær heita. Teljarinn er því um leið rafrænt stjörnukort sem stillir sig sjálft, hvar sem þú ert staddur í á jarðarkringlunni. 

4. Wikipídía leikurinn. Hvað hafa margir leikið sér í Wikipídía leiknum? Hann felst í því að komast frá einni WP síðu til annarrar í sem fæstum smellum. Þannig komst ég t.d. frá smjöri (butter)  til Íslands í 3 smellum. WP leikboxið inniheldur 3 milljón tillögur um byrjunarsíðu og endasíðu og segir þér jafnframt hver besti mögulegi árangurinn er. Frábær leikur sem allir sem eiga tölvu og eru nettengdir geta stytt sér stundir við.


Gamla brjósta nornin

sheelanagig_07-08_toby_farrowÞjóðlagatónlist er afar vinsæl um þessar mundir hér í Bretlandi. Margar þjóðlagahljómsveitir spreyta sig á að bræða saman tónlist frá öðrum löndum við hefðbundinna keltneska tónlist svo oft verður úr stórskemmtileg blanda.

Eitt vinsælasta þjóðlaga-bandið um þessar mundir í mið-Englandi stígur á stokk í kvöld hér í Bath. (Chapel Arts Centre) Bandið kallar sig Sheelanagig og leikur bræðing af Sígauna djassi og írskri tónlist. Nafnið er nokkuð sérkennilegt enda samrunni þriggja forn-írskra orða, þ.e. Sheela, na og gig. Mér lék forvitni á að vita hvað nafnið þýddi og fann strax upplýsingar um það á netinu.

Satt að segja brá mér dálítið í brún við lesturinn.

Gargoyle,_Dornoch_CathedralMargir furða sig á því, þegar þeir skoða gamlar dómkirkjur, að byggingarnar eru oft "skreyttar" með ófrýnilegum og afmynduðum andlitum eða skrímslum sem ganga undir samheitinu "Gargoyles" (ófreskjur). Gargoyle er dregið af franska orðinu gargouill sem þýðir háls eða kok, enda ófreskjuskolturinn oftast notaður sem affall fyrir vatn af þökum bygginganna. Hugmyndin bak við þessar ófreskjumyndir er að best sé að bægja frá hinu illa með illu, þ.e. "að með illu skuli illt út reka".

Fornar hugmyndir fólks um heiðnar vættir hverskonar fundu sér þannig leið og var viðhaldið af smíðameisturum miðalda sem reistu margar af helstu og frægustu kirkjubyggingum Evrópu.

SheelaWikiÁ keltneskum áhrifasvæðum, einkum á Írlandi, tíðkaðist gerð sérstæðrar kvenkyns-ófreskju sem bar nafnið Sheela na gig. Deildar meiningar eru um nákvæmlega merkingu orðanna en líklegast er hún dregin af gelísku setningunni Sighle na gCíoch, sem merkir "Gamla brjósta nornin".

Samt eru Sheela na gig fígúrur ekki brjóstastórar konur. Þvert á móti eru þær allar brjóstalausar. Þær sýna þess í stað óferskju sem teygir út sköp sín líkt og sést hér á meðfylgjandi mynd.

 

 

 


Eyjamolar

300px-Heimaey1309Vestmannaeyjar og sér í lagi Heimaey, er að mínu áliti merkasti staðurinn á Íslandi. Bæði í jarðfræðilegu og sögulegu tilliti eiga Vestmannaeyjar ekki sinn líka á Íslandi og eru að margra mati einstæðar í heiminum. Fyrir þessu mati liggja margar orsakir sem allar leggjast á eitt. Ætlunin er að tilfæra hér nokkrar.

Til að byrja með er Heimaey afar ung og verður svo að segja til um það leiti sem fyrstu merki um siðmenningu mannsins koma fram.

Í lok síðustu ísaldar fyrir rúmum 11.000 árum, þegar að mennirnir voru rétt að byrja að stunda akuryrkju suður í Mesópótamíu og mynda með sér samfélög, urðu nokkur eldgos suður af  Íslandi undir jöklinum sem enn lá yfir landinu. Í þessum gosum urðu til elstu hlutar Heimaeyjar; Dalfjallið, Klif, Háin, Heimaklettur, Miðklettur og Ystiklettur. 5000 árum síðar, þegar borgríki höfðu verið stofnuð víða um lönd og siðmenningin sitt hvoru megin við miðbaug var komin vel á veg,  urðu aftur gos á svipuðum slóðum sem mynduðu Stórhöfða, Stakkabótina og nokkru síðar Helgafell. Hraun úr Helgafelli tengdi Stórhöfða og Sæfjall við Dalfjall og myndaði eyjuna eins og hún var fram til 1973. Þá bættist við Heimaey í gosinu sem hófst 23. janúar 1973 og þá stækkaði eyjan um 2,2km², en nýja hraunið þekur alls 3,3km².

Elstu hlutar Heimaeyjar eru að mestu gerðir úr Móbergi,  enda bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu. Lengi var talið að það tæki Móberg langan tíma að harðna og verða til og þess vegna kom það nokkuð á óvart þegar í rannsóknum á Surtseyjargosinu 1963 kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gjóska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita.

Fuglalíf við eyjar er afar fjölbreytt og þar m.a að finna stærstu lundabyggðir í veröldinni.

200px-Keiko-airplaneTelja má víst að Ísland hafi komist oftast í heimspressuna vegna atburða sem tengjast Vestmannaeyjum. 

Fyrst var það árið 1963 þegar að Surtsey reis úr hafi ásamt nokkrum smáeyjum sem síðan sukku aftur.

Þá vakti gosið á Heimaey 1973 einnig heimsathygli. Í því gosi reyndu menn í fyrsta sinn í sögu heimsins að stöðva og breyta hraunrennsli frá virkum eldgígum með raunhæfum aðgerðum.

Síðast var það koma háhyrningsins Keikó til Heimaeyjar 1998 sem greip athygli umheimsins. Hvalnum var flogið til eyjarinnar með Hercules hergagna-flutningavél sem svo braut á sér annan hjóla-útbúnaðinn í lendingu og festist á miðjum flugvellinum í tvo daga

Lengi hefur skráð saga Vestmannaeyja verið tengd fyrstu landnámsmönnunum, þeim fóstbræðrum Ingólfi og Hjörleifi. Eyjarnar eru sagðar nefndar eftir írskum þrælum Hjörleifs sem Ingólfur drap alla á Þrælaeyði, nema foringja þeirra Dufþak. Hann er sagður hafa hlaupið á flótta undan Ingólfi fram af Heimakletti þar sem nú heitir Dufþekja.

mynd4Lítið hefur verið sett út á þessa sögu þótt bent hafi verið á að Írar hafi alls ekki verið kallaðir Vestmenn af Normönnum, heldur aðeins þeir norrænu menn sem sest höfðu að vestan Danmerkur, þ.e. í Setlandseyjum, Orkneyjum, á Mön eða á  Írlandi. – Ef að eyjarnar hefðu verið byggðar norrænum mönnum þegar Ingólfur nefndi þær, á nafnið alveg við. Reyndar bendir margt til að svo hafi verið.

Sumarið 1971 hóf Margrét Hermanns Auðardóttir, fornleifafræðingur, ásamt öðrum sérfræðingum, uppgröft í Herjólfsdal. Niðurstöður hennar og aldursgreiningar á fornleyfum af staðnum enda til þess að byggða hafi verið í Eyjum allt að 200 árum fyrr en haldið er fram í sögubókum.

Páll Theódórsson, eðlisfræðingur, hefur rýnt í þessa vinnu og fleiri aldursgreiningar og sagt niðurstöðu þeirra og nýrra aldursgreininga breskra og bandarískra vísindamanna, sýna nærri óvefengjanlega,  að landnám hófst á Íslandi tveimur öldum fyrr en almennt er talið, eða um árið 670.

Vestmannaeyjum tengjast ýmsir atburðir í sögu landsins og jafnvel heimsins sem ekki er oft getið um.  Verið getur að mörgum þyki heimildirnar eða ályktanir dregnar af þeim séu of veikar til að halda mikið á lofti.

viki13Landnáma segir að Herjólfur Bárðarson hafi numið Vestmannaeyjar fyrstur manna. Í Grænlendingasögu segir frá alnafna hans sem bjó skammt frá Eyrarakka og sem sagður er hafa siglt með Eiríki Rauða til Grænlands. Bjarni Herjólfsson sonur hans hafði þá verið í siglingum og ætlaði á eftir föður sínum til Grænlands. Hann villtist af leið og fann land í vestri. Seinna segir hann Leifi syni Eiríks frá þessu en Leifur er sagður hafa fyrstur vestrænna manna tekið land í Norður Ameríku.

Í febrúarmánuði árið 1477, fimmtán árum fyrir sögufræga siglingu sína yfir Atlantsálaárið 1492, kom ítalskur sæfari að nafni Kristófer Kólumbus til Íslands. Frá þessu segir í ævisögu hans, sem á frummáli heitir Historia del Almirante Don Cristóbal Colón og var skrifuð af syni hans Ferdinand Kólumbus nokkru eftir dauða "Cristobals".

Ævisöguna skrifaði sonurinn m.a. sem andsvar við tilraunum spænsku krúnunnar til að gera lítið úr hlut Kólumbusar í landafundunum miklu. Sú rimma snerist, eins og svo margar aðrar, um tilkall til valda og auðæfa. Leiðangur Kólumbusar var farinn með fulltingi Ísabellu drottningar af Spáni með samkomulagi um verulega upphefð Kólumbusi til handa ef leiðangurinn bæri árangur.

Colombus_portraitAfkomendur hans höfðu hins vegar verið þvingaðir til að afsala sér þeim forréttindum að miklu leiti. Það er athyglisvert að ein af rökum spænsku krúnunnar í því máli voru að Kólumbus hefði fengið hugmyndina að leiðangri sínum hjá öðrum, sem vekur spurningar um hvort slíkur orðrómur hafi verið á kreiki á þeim tíma?

Í stuttri frásögninni lýsir Kólumbus Íslandi sem eyju jafn stórri og Englandi og gefur upp sínar mælingar á staðarhnitum. Hann segir að Englendingar sigli þangað með vörur sínar, einkum frá Bristól. Hann segir að sjórinn við landið hafi ekki verið frosinn þegar hann var þar en öldur hafi verið ógnarháar. Kólumbus skrifaði þennan stutta texta, ásamt fleiri svipuðum, til að sýna að hann hefði víða farið og hafi verið fullfær um að leiða leiðangurinn yfir Atlantshafið til að leita Indíum.

Eins og margt annað sem haft er eftir Kólumbusi er frásögn hans af heimsókn hans til Íslands frá Írlandi algjörlega út úr kú að mestu leyti. Staðsetning hans á landinu skeikar litlum 400 mílum og stærðin er stórlega ýkt. En að einu leiti hefur hann rétt fyrir sér, enskir kaupmenn frá Bristól sigldu til og frá landinu með varning. Ýmsir telja í dag að Kólumbus hafi komið að Rifi á Snæfellsnesi með Englendingum, en þeir sigldu gjarnan þangað, hæfilega langt frá dönsku valdi sem kærði sig lítið um að þeir væru að stunda hér verslun. Hinn möguleikinn er að hann hafi komið til Vestmannaeyja þar sem enskir kaupmenn versluðu með saltfisk, lýsi og vaðmál. Þaðan getur Kólumbus hafa siglt í kring um landið á minni fiskiát og síðan til baka með kaupfari til Írlands.

Víst er að landi hans John Cobott kom við í Vestmannaeyjum á ferðum sínum um norðurhöf áður en  hann fékk leyfi Bretakonungs til að kanna ókunn fiskimið strendur Nýfundnaland 1495-6. John og Kólumbus áttu reyndar sameiginlegan vin í Englandi og til eru nokkur sendibréf frá honum stíluð á Kólumbus.  Sumir segja að Kólumbus og Cabott hafi verið afar góðir vinir en að Cabott hafi afrekað það fram yfir Kólumbus að stíga fæti á Ameríska meginlandið.

Eins og allir vita gerði  hollenski sjóræninginn Jan Janszoon, einnig þekktur sem Murat Reis, strandhögg í Vestmannaeyjum árið 1627. Strandhöggið er oftast nefnt Tyrkjaránið. Um ránið og afdrif sumra þeirra sem rænt var hafa varðveist nokkrar upplýsingar.

Minna fer fyrir upplýsingum um atburði sem áttu sér stað í Vestmannaeyjum 1614 þegar flokkur sjóræningja dvaldi á Heimaey í 20 daga samfleytt við rán og gripdeildir. Ef til vill  vegna þess að þessir kumpánar drápu enga, þóttu ránin varla heyra til tíðinda, alla vega bliknuðu þau alveg fyrir Tyrkjaráninu 13 árum seinna.

Kláus lögréttumaður Eyjólfsson (1584-1674)  skráði frásagnir af Tyrkjaráninu. Hann var um tíma sýslumaður í Vestmannaeyjum  Þar segir nánar af ýmsum fyrirburðum á himni og á jörð. “Þau teikn sem sáust áður en þessir morðlegu Tyrkir ræntu í Vestmannaeyjum og Austfjörðum voru:
Ein hræðileg ókind með síðum hornum, er gekk úr sjónum lifandi þar upp á eyjarnar, aktandi ei fallstykki, spjót og lensur. Hún sást þar og áður það fyrra Vestmannaeyjarán skeði af Jóhann Gentelmann, hver þar rænti, en enginn var þó drepinn, svo eg viti, en rændir voru þeir eignum sínum
.”

bonnethangingÁ þessum tíma gengu sjóræningjar undir mörgum nöfnum. Eyjamenn muna þennan Jóhann undir nafninu John Gentelman eða “Jón Herramann.”  Réttu nafni ku maðurinn hafa heitið James Gentleman og félagi hans, einnig kunnur stigamaður frá Englandi, Williams Clark.

Í júní 1614 komu þessir ensku sjóræningjar til Heimaeyjar. Áður höfðu þeir rænt tveimur dönskum skipum út fyrir eyjum. Þeir fóru síðan ránshendi um Vestmannaeyjar í tvær vikur . – Seinna sama ár voru þessir ræningja-herramenn handsamaðir, dæmdir og hengdir í Englandi, m.a. fyrir rán sín í Vestmannaeyjum.


Eldfjallið sem stöðvaði Bretland

lightningSegja má að "úrfellið" af völdum gosins í Eyjafjallajökli sé rétt að hefjast hér í Bretlandi. 

Næstkomandi Sunnudag mun Channel 4 frumsýna heimildarmyndina 'The Volcano That Stopped Britain'.

Myndin er sú fyrsta af nokkrum heimildarmyndum um gosið í Eyjafjallajökli sem breskar sjónavarpsstöðvar keppast nú við að ljúka og koma í sýningu, á meðan efnið er enn "heitt".

Sem aldrei fyrr hefur Ísland verið milli tannanna á Bretum og þótt ummælin séu oft látin falla í hálfkæringi, leynir neikvæðnin í garð landsins sér ekki.

Gremja þúsunda strandaðra farþega víðsvegar um Evrópu blandaðist fljótlega saman við það sem þeir höfðu heyrt um landið í fréttum á síðastliðnu ári í tengslum við efnahagshrunið. Ein sjónvarpsstöðin sýndi til dæmis graman farþega hrópa beint inn í myndavélina: "I hate you Iceland". 

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson núði salti í sárið í útvarpsviðtali við BBC þar sem hann talaði um að Evrópubúar væru alls andvaralausir og óviðbúnir slíkum hamförum en mættu jafnvel búast við  miklu verri afleiðingum ef t.d. Katla tæki að gjósa. 

Grínarar og brandarakallar hafa ekki hikað við að gera sér mat úr  náttúrhamförunum og einn brandarinn þeirra er svona; Íslendingar kunna ekki að lesa, við báðum um peningana (cash) okkar aftur, ekki ösku (ash).  

 Myndasyrpa sem sýnir sjónvarpsþuli víðsvegar um heiminn reyna af miklum vanmætti að bera fram "Eyjafjallajökull" er vinsæl á utube. Tilraunum eins þeirra hefur meira að segja verið blandað inn í rapplag um gosið eins og heyra má hér.

Í heimildarmyndinni 'The Volcano That Stopped Britain' mun einn kunnasti eldfjallafræðingur Breta; Prófessor Nick Petford stikla um fjöll á Suðurlandi og reyna að útskýra fyrir fólki hvað öfl ráða ferð þegar kemur að eldsumbrotum og gosstöðvum.

Reyndar er það annar Nick (Clegg) sem Bretar eru uppteknir af um þessar mundir. Sá er formaður Frjálslyndra Demókrata og þykir hafa staðið sig með ágætum í sjónvarpskappræðum formanna þriggja stærstu flokkanna sem bjóða fram til þings í kosningunum 6. Maí.

Þetta er í fyrsta sinn sem Bretar efna til slíkra kappræðna í sjónvarpi og bæði Davíð Cameron og Gordon Brown urðu á þau regin mistök að samþykkja að Nick Clegg fengi að taka þátt í þeim. 

Allir fréttatímar eru þó að mestu undirlagðir af sögunni af óförum Gordons Browns verkalýðsflokks-forseta og forsætisráðherra, sem í fyrradag varð það á að sýna sitt rétta andlit í beinni útsendingu (óvart),  þar sem hann kallið konu sem hann hafði átt orðastað við, "fordómafulla" .

Samkvæmt skoðanakönnunum virðast dagar hans í þessum embættum taldir, nema hann nái samkomulagi við Frjálslynda Demókrata sem í fyrsta sinn í langan tíma eygja von um að geta blandað sér í stjórnarmyndunarviðræður í Bretlandi.


Óður Akhenatons

AkhnatonAkhenaton var fyrstu fimm ár sutján ára valdaferils síns sem Faró í Egyptalandi þekktur undir nafninu Amenhotep IV. Hann lést 1334 f.k. en er kunnastur fyrir að hafa reynt að koma á eingyðistrú í Egyptalandi þrátt fyrir að slíkt væri landsmönnum hans afar framandi. - Tilraun hans mistókst, því eftir andlát hans tóku landsmenn upp fyrri trúarsiði. Eina ritið sem varðveist hefur um trúarvakningu Amenhoteps IV er þessi óður til sólguðsins Atons, hér í lauslegri þýðingu úr ensku.

Hve fögur er dögun þín á sjóndeildarhring himins, Ó lifandi Aton, uppruni lífsins! Þegar þú ríst á sjóndeildarhringnum í austri, fyllir þú hvert land af fegurð þinni. Þú ert fagur, mikill og skínandi hátt yfir hverju landi, geislar þínir umlykja löndin og alla sem þú hefur skapað. Þú ert Ra og þú alla með þér, fangna og bundna af ást þinni. Þótt þú sért fjarlægur falla geislar þínir á jörðina; þótt þú sért í hæstum hæðum, er dagurinn fótspor þitt.

Þegar þú hefur sest við sjóndeildarhring himinsins í vestri, er jörðin í myrkri eins hinir dauðu; Þeir sofa í sínum hýsum, höfuð þeirra eru vafin, nasir þeirra eru troðnar og engin þeirra sér hvorn annan, á meðan öllum eigum þeirra undir höfðalagi þeirra þeirra er stolið  og þeir vita ekki af því. Hvert ljón kemur úr híði sínu, allir spordrekarnir stinga, myrkur...Veröldin er í þögn, því  hann endar hvern dag, aftur og aftur út við sjóndeildarhringnum.

Björt er jörðin þegar þú ríst aftur út við sjóndeildarhringinn. Þegar þú lýsir sem Aton að degi, rekur þú myrkrið á brott. Þegar þú sendir frá þér geisla þína, er daglega haldin hátíð í löndunum tveimur, vakandi og komnir á fætur því þú reisir þá upp, limir þeirra baðaðir og þeir klæðast, hendur þeirra reistar upp í aðdáun á dögun þinni. Þá munu allir í heiminum vinna sína vinnu.

 Allur nautpeningurinn hvílir sig í högum sínum, tré og plöntur blómstra, fuglar svífa yfir mýrum, vængir þeirra bifast í aðdáun á þér. Allt sauðféð dansar fimum fótum og allt sem hefur vængi flýgur. Það lifir þá þú hefur baðað það í geislum þínum. Reyrbátarnir sigla upp og niður fljótið. Hver þjóðvegur er opinn þegar þú hefur risið. Fiskar árinnar stökkva upp til að mæta þér. Geislar þínir glampa á hinum mikla græna hafi.

Skapari frjós konunnar, sá sem bjóst til sæði mannsins, gefur syninum líf í líkama móðurinnar, huggar hann svo hann gráti ekki, elur hann í móðurlífinu, sá sem gefur andardráttinn sem lífgar allt sem þú hefur skapað! Þegar hann stígur fram í líkamanum á fæðingadegi sínum, opnar þú munn hans svo mann megi mæla og sérð honum fyrir öllum nauðsynjum.

Þegar að unginn tístir í eggjaskurnunum, gefur þú honum andardrátt svo hann megi lifa. Þegar þú hefur framfleytt honum, þar til hann brýst út úr eggi sínu, stígur hann fram úr eggi sínu og tístir af öllum mætti. Hann gengur um á tveimur fótum, þegar hann hefur stigið fram úr því.

Hversu mörg eru verk þín! Þau eru hulin fyrir okkur, Ó þú eini Guð, hvers krafta enginn annar hefur.  Þegar þú varst einn, skapaðir þú jörðina eftir hjarta þínu, manninn, alla nautgripina smáa og stóra, allt sem er á jörðinni og gengur um á fótum sínum. Allt sem er á hæðum, allt sem flýgur um á vængjum, útlöndin Sýrland,  Kush, og Egyptaland. Þú ákvarðar hverjum manni stað, hverjum sínar eignir og telur ævidaga allra. Menn tala ýmsum tungum, útlit þeirra og hörundslitur er mismunandi, því þú gerir hina ókunnugu öðruvísi.

Þú skapaðir Níl í neðri heimum og ræður henni sem þér sýnist, til að vernda líf fólksins. Því það hefur þú búið til handa sjálfum þér, drottinn þess alls, hvílandi á meðal þeirra; Þú drottin allra landa, sem ríst fyrir öllum mönnum, þú sól dagsins í mikilli tign. Öllum fjarlægu löndum gefur þú einnig líf, þú hefur sett Níl á himininn svo hún falli yfir þau, skapi öldur upp á fjöllum, líkt og mikið haf, sem veitt er á akrana í bæjum manna.

Hversu ágæt er hönnun þín, Ó drottin eilífðarinnar! Á himnum er Níl fyrir hina ókunnugu og fyrir nautpeninginn í hverju landi sem gengur um á fótum sínum. En Níl kemur úr neðri heimi Egyptalands.

Geislar þínir næra hvern garð; Þegar þú ríst lifir hann og vex vegna þín. Þú gerðir árstíðirnar til að öll verk þín verði unnin, Veturinn færir þeim svala og hitinn er til að þeir fái bragðað á þér. Þú lést hinn fjarlæga himinn rísa yfir svo þú gætir séða allt sem þú hefur skapað, Þú einn, skínandi í líki hins lifandi Atons, í dögun, glitrandi ferðu í burtu og kemur svo aftur. Þú skapar milljónir af formum, einn af sjálfum þér, borgir, bæi og ættflokka, þjóðvegi og ár. Öll augu sjá þig fyrri sér, því þú ert Aton dagsins yfir nótunni.

Þú býrð í hjarta mínu og enginn þekkir þig utan sonur þinn Akhnaton. Þú hefur gert hann vitran með áformum þínum og mætti. Veröldin er í hendi þinni, jafnvel þótt þú hafir skapað hana og þegar þú ríst lifir hún og þegar þú sest, deyr hún. Því þú ert lífsferillin sjálfur, menn lifa vegna þín, á meðan augu þeirra beinast að fegurð þinni, þar til þú sest. Öll vinna er sett til hliðar þegar þú sest í vestri.

nefer_2Þú skapaðir heiminn með hendi þinni og reisir hann upp fyrir son þinn, sem er staðfesting þín, Konungur efri og neðri  Egyptalands, sá er lifir í sannleika, drottinn hinna tveggja landa, Nefer-khrpuru-Ra, Van-Ra, sonur Ra, sem lifir í sannleika, drottinn kórónanna, Akhnaton sem er langlífur og hans heittelskaða, sú er ræður löndunum tveimur; Nefer-nefru-Aton, Nofretete sem lifir og blómstrar að eilífu.

 

 


Hvernig gera má heimatilbúna sprengju

Til eru ótal leiðir til að útbúa sprengjur. Flestar eru of flóknar og hættulegar til að hinn almenni borgari reyni slíkt, jafnvel þótt hann gæti vel hugsað sér að sprengja eitthvað upp.

Hér fyrir neðan er að finna uppskrift að því hvernig búa má til skaðlausa sprengju á fljótlegan hátt, án mikillar áhættu og með lítilli fyrirhöfn. 

Þetta er ekki sú tegund sprengja sem notaðar eru til að sprengja upp ríkisstjórnir og stundum stjórnmálaflokka.  Slíkar sprengjur eru eins og allir vita oftast búnar til úr ego-þrútnum sjálfsmyndum.

Og ekki á ég heldur við hinar svokölluðu fýlubombur sem eru notaðar í samskiptum fólks, og einkum búnar til úr gremju og vonbrigðum.

Því síður á ég við sprengjur sem notaðar eru til að eyða mannslífum eða umbreyta útliti náttúrunnar.

Hér kemur uppskriftin og þið sjáið hvað ég er að meina.

 

1. Opnaðu Microsoft Word skjal á tölvunni þinni.

2. Breyttu stafagerðinni í Wingdings

3. Sláðu inn M (stórt).

Útkoman ætti að líta svona út!


Aldrei einmana

lighthouse_keeper"Ég er aldrei einmana" sagði vitavörðurinn og horfði í gaupnir sér. "Ég held að þeir sem eru einmana séu þeir sem ekki vita hvað þeir eiga af sér að gera þegar þeir eru einir og jafnvel þótt þeir séu það ekki.  Ég er nánast alltaf einn og hef alltaf nóg fyrir stafni, finn mér ætíð eitthvað til dundurs. Þess vegna er ég aldrei einmana. Það kemur jú fyrir að ég geri ekki neitt. En ég er samt aldrei einmana. Stundum geng ég hérna niðrí fjöruna og stend ég eins og stúlkan og stari á hafið, tímunum saman. Ég fyllist einkennilegri ró við það eitt að horfa á mismunandi kraftmiklar árásir Ægis á urðina, brjóstvörn landsins, sem reynir að sporna við áganginum. Ekki þannig að mér sé eitthvað órótt. Nei, hafið er sko minn vímugjafi. Það örvar hugann um leið og það sefar kroppinn. Stundum finnst mér eins og hafið hljóti að hafa mótað hrynjandina í íslenskri tungu. Orðagjálfur mest er það ekki?"

Hann stóð upp, strauk aftur grásprengt hárið og pírði augun á móti síðdegissólinni og hélt svo áfram að tala; -

"Nei  ég er ekki einmana. Einn, rétt er það, en ekki einmana. Viðhaldið tekur sinn tíma, eldamennskan sinn, ég hlusta á tónlist, hugsa og svo eru allir þessir föstu liðir í tilverunni, allir taka þeir sinn tíma og orku. Maður getur orðið afar þreyttur af því að hugsa skal ég segja þér. Þess vegna kemst maður oft að niðurstöðu einfaldlega vegna þess að maður er of þreyttur til að halda áfram. Þannig fann ég út úr því til dæmis að því að sterkasta sönnun þess að það séu til  vitsmunaverur á öðrum plánetum er að þær hafa haft vit á því að láta okkur hér á jörðinni eiga sig.  Það er nú svo maður minn... Og svo eru það skrifin félagi.  Auðvitað skrifa ég eins og allir aðrir.  Það geta auðvitað allir skrifað, allir sem ekki eiga síma eða eiginkonu. Eitt sinn átti ég konu og síma. Það var ágætt. Þá hlustaði ég mikið en ég skrifaði ekki neitt. Nú skrifa ég heilmikið, eitthvað á hverjum degi, stundum á nótunni líka. Jamm... Það hefur svo sem enginn lesið þetta enn. Kannski gerist það einhvern tímann. Einhverjir mundu nú eflaust verða reiðir ef þeir læsu það sem ég hef skrifað. Það væru ekki merkileg skrif ef enginn yrði reiður við að lesa þau. Ég gef ekki mikið fyrir hugmyndir sem ganga út á málamiðlanir. Fólk sem stöðugt gerir málamiðlun hefur greinilega engan áhuga á sannleikanum eða það hefur gefist upp á að finna hann. Hugmyndir og bókmenntir sem eru volgar eins og munnvatn eru nefnilega einskis virði. Þegar volgt munnvatn rennur úr úr fólki er það venjulega kallað slef. Maður má ekki tala svona, veit ég vel. Allar alhæfingar eru vondar." 

Á meðan Jóhann vitavörður lét dæluna ganga röltum við í kring um vitann. Hann á undan og ég á eftir með upptökutækið á lofti og vonaði að ekkert af því sem hann sagði færi forgörðum.

"Áður en ég kom hingað keypti ég mér 200 bækur á fornbókasölu. Flestar voru eins og gengur og gerist, samansettar af notuðum hugsunum. Fátt nýtt eða frumlegt. Skrýtið, sjáðu til,  þegar ein setning er höfð eftir öðrum án þess að getið sé um höfund hennar,  er það kallað ritstuldur. En þegar allt ritið er vaðandi í eða nánast samsett úr slíkum setningum er það kallað rannsóknarstarf. Í Háskólanum vinna greinilega margir knáir rannsakendur. Ein bókin var eftir hinn rómaða William Shakespeare. Merkilegt hvað hann er góður þrátt fyrir að allir segi að hann sé rosalega góður"

Jóhann snéri sér skyndilega við, klóraði sér í skegginu og spurði; "ertu viss um að þú viljir heyra þetta allt saman? Þetta er óttalegt raus, finnst þér ekki?"

Ég ætlaði að fara að svara einhverju til þegar hann tók aftur á rás og hélt áfram einræðunni.

"Þetta heitir að hringsóla. Það geri ég á hverjum degi. Hringsóla fyrst eins og geggjaður skóari og fer svo inn að hlusta. Tónlistin er mér ómissandi. Einkennilegt hvernig hljóðbylgjur með mismunandi tíðni geta fengið þig til að gráta. Það voru mikil mistök hjá mér að læra aldrei á hljóðfæri. En ekki harmonikku. Mér hefur ætíð fundist það tákn um mikla sjentilmennsku af manni sem kann að spila á harmónikku en gerir það ekki. Ég held að ég hefði  helst kosið fiðlu. Fiðla er svo fjári angurvær og meðfærileg. Alla vega held ég að í faðmi hennar hefði ég getað fundið ásetninginn styrkjast aftur, sérstaklega eftir nætur þegar honum var algjörlega varpað fyrir róða, þú veist hvað ég meina, ha? Sumir læra á hljóðfæri eingöngu til þess að verða frægir. Og þegar þeim tekst það loks,  byrja þeir að nota sólgleraugu í hvert sinn sem þeir fara úr húsi, í von um að þekkjast ekki. -  Heyrðu, eigum við að koma inn og fá okkur kaffisopa?" 

Stuttur kafli úr netbókinni Síðasti vitavörðurinn

PS. Eftir talsverðar vomur og rúmlega þriggja og hálfsmánaðar fjarveru af blog.is ætla ég að hefja blogg hér á ný.

SGÞ

 


Nóg komið

Ágætu lesendur.

Ég hef tekið þá ákvörðun að hætta að blogga hér á blog.is.

Ég þakka bloggvinum mínum skemmtilega samleið í þessi tvö ár sem ég hef verið að og þeim fjölda sem skrifað hafa athugasemdir við bloggið mitt.

Umhverfi og viðmót blog.is er að mínu viti afar gott og ekkert út á það að setja. Ég er hins vegar ósáttur við ýmsa aðra þróun mála á mbl.is sem ekki er nauðsynlegt að tíunda hér.

Bestu kveðjur,


Feitismi - Fordómar sem beinast gegn feitu fólki

fat-people-celebÞað er sjálfsagt ekkert nýtt að grín sé gert af feitu fólki. En nú hafa verið svo mikil brögð af þessu í Bretlandi að fordómunum á feitum hefur verið gefið nafn þ.e. feitismi. (Fattism)

Algengt er að ráðist sé að feitu fólki á almannafæri, gerð að því hróp, því hrint og það hætt. Mikill áróður gegn offitu síðustu misseri hefur haft þau áhrif að feitt fólk er minna á stjái og þess vegna meira áberandi þegar það sést.

Áróðurinn er tengdur þeirri staðreynd að talið er að í Bretlandi sé 60% fullorðinna séu of þungir og 26% þeirra eigi við offitu að glíma. 28% barna eru talin of þung og 15% þeira eigi við offituvandamál að etja.

Þá eru sterkar líkur á að feitt fólk eigi erfiðara með að fá atvinnu, sé oftar beitt einelti á vinnustöðum og eigi erfiðara með að stofna til vinasambanda almennt og eigi þar með á hættu að einangrast samfélagslega.

Kynnt er undir þessum fordómum með ýmsu móti.  Oft sjást í blöðum og sjónvarpi myndir af stjörnum og selbitum sem sögð eru hafa bætt á sig kílóum og á því hneykslast í textum við myndirnar.

Fordómar gegn feitu fólki þykja orðnir sjálfsagðir  vegna þess að gert ráð fyrir því að feitt fólk hafi litla sjálfsstjórn sem virkar ógnandi á samfélag þar sem öll áherslan er á að vera magur. 

Oft er rót vandans ekki tengt fólkinu sem er of feitt, heldur hjá þeim sem viðleitnin til að halda sér grönnum hefur snúist upp í þráhyggju.  Ótti og óhamingja þeirra brýst út í andúð og hræðslu við fólk sem er feitt. 

Ágæta frétt um þetta mál er að finna hér á fréttavef BBC.


Dauðir menn blogga ekki

Eftir því sem örvæntingin eykst í samfélaginu og ráða og dugleysi pólitíkusa verður augljósara, grípa skríbentar bloggsins til æ grófari orða til að lýsa því sem þeir skynja sem atferli og innræti þeirra. Það þykir ekki lengur tiltökumál að kalla fólk landráðamenn og föðurlandssvikara.

Búið er að gengisfella merkingu þeirra orða svo að þau eru gjörsamlega búin að missa merkingu sína sem alvarleg ásökun.

Gömlu fúkyrðin; fáviti, vitleysingur og asni, nægja greinilega ekki lengur til að lýsa tilfinningunum sem sumir hafa í garð annars fólks.

NáhirðMeðal skammaryrðanna og uppnefnanna eru þó ákveðin orð sem komist hafa í tísku og eru notuð óspart vinstri, hægri, sem mér finnast ógeðfeldari en önnur.

Eitt þeirra er orðið "náhirð." sem er svo ofnotað að það kemur fyrir á 7.360 síðum á goggle.

Náhirð er væntanlega hirð þeirra sem dýrka dauðann eða fylkja sér um dauðan konung eða leiðtoga.

Náhirð getur einnig verið hirð dauðra, rétt eins og blóðsuguhirð lifandi dauðra sem Drakúla greifi hafði um sig.

Þá hafa einnig sést orðin násker og nábítur og náriðill. 

Násker getur auðvitað átt við sker hinna dauðu, þ.e. okkur Íslendinga sem búum "á skerinu" en ég sá það einnig notað fyrir skömmu sem uppnefni á nafninu Ásgeir.

Nábítur er líkæta eða gæti líka verið ein blóðsugan úr náhirð Drakúlu.

Náriðill er sjaldgæfara en bregður þó fyrir. Orðið er afar óviðfelldið þegar það er notað sem uppnefni og það er vafasamt hvort til eru öllu strekari orð til að lýsa andúð eða viðjóði.

Annað sem komið virðist í tísku er að hefja greinar með eins miklum fúkyrðum og hægt er að koma fyrir í einni setningu.


Eru sjálfstæðismenn Gyðingar Íslands

Gyðingar í Þýskalandi á tímum HitlersHalldór Jónsson fjallar á bloggsíðu  sinni um grein Njarðar P. Njarðvík "Niðurlæging þjóðar" sem birtist í  Fréttablaðinu fyrir skömmu og einnig á bloggi Láru Hönnu hér.  Halldóri finnst Njörður tala um meðlimi Sjálfstæðisflokksins eins og Hitler talaði um Gyðinga. Með öðrum orðum líkir hann meðlimum Sjálfstæðisflokksins á Íslandi við gyðinga í Þýskalandi á dögum Hitlers.

Halldór segir orðrétt;

Nú kemur þessi maður fram og segir að ég sé bara fífl, sem hafi með spillingu minni valdið hruninu. Væntanlega beri þá ábyrgð á falli Lehmansbræðra, alþjóðlegri lánsfjárkreppu, Icesave ‚ Jóni Ásgeiri, Tenghuiz, Kaupthingi  og þar fram eftir götunum.

Fyrir mörgum árum var maður uppi í Þýskalandi sem hét Adolf Hitler. Hann steig ekki í vitið en hafði hæfileika til að láta dæluna ganga svo að menn trúðu stundum heimskuvaðlinum. Hans aðalkenning var að Júðar væru í heild sinni óalandi og óferjandi og skyldu því verða drepnir. Allir ! Hafði ekkert með að gera hvernig þessi eða hinn var innréttaður. Það var nóg að vera fæddur Júði og í gasklefann með hann.


Einhver kann að halda  að tími svona fífla væri liðinn með almennri upplýsingu. En það er greinilega ekki.

Hugsið ykkur ! Prófessor Emeritus !

Afar algeng mælskulistarbrella er að ýkja málflutning andstæðinga sinna og líkja þeim við eitthvað eða einhverja sem flestir hafa andúð á. Fátt vekur upp eins mikli viðbrögð og þegar einstaklingum er líkt við Nasista eða Hitler sjálfan. Rökvillan er svo algeng  að hún hefur fengið nafn Reductio ad Hitlerum.  Þessari brellu beitir Halldór gegn Nirði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband