Prófkjör, er það ekki gott nafn á matvöruverslun?

Gert við ÞjóðarskútunaÞað er víst voðalega mikilvæg helgi gengin í garð. Fólk um allt land er að velja þá lýðskrumara sem það vill helst sjá leiða framboðslistana í komandi kosningum.

Nú verða allir að gera upp við sig hvort virkar betur á þá; lopapeysa í stað jakkafata á  eða lýsta stutta hárið í stað þess móleita og tjásulega.

Framboðsræðurnar eru birtar í bunum hér á blogginu með formlegum ávörpum á fundarstjóra og alles. Þær segja nánast ekkert um frambjóðendur og eru fullar af sömu klisjunum og notaðar hafa verið undanfarin ár við sömu aðstæður, með einni og einni setningu inn á milli sem er örðuvísi og á að gefa í skyn að viðkomandi hafi verið á landinu síðastliðna mánuði og lesið blöðin.

Þeir sem eru nýir reyna að höfða til þess að það sé ekki komið í ljós enn þá hvernig hjartalag þeir hafi og því beri að kjósa þá umfram þá sem þegar hafa sýnt það.

Ég get ekki annað en óskað þeim öllum góðs gengis og vona að sem flestir vinni og nái því sæti á framboðslistunum sem þeir óska sér að sitja í.  Að öðru leiti vísa ég til bloggfærslu minnar hér á undan þessari.

Ég minni líka á það margkveðna að engin þjóð á betri stjórn skilið en hún kýs yfir sjálfa sig.


Er þátttaka í flokkspólitík mannskemmandi?

StrengjabrúðaStjórnmálaflokkar eru í eðli sínu sundrunarungaröfl í þjóðfélaginu. Tilvist þeirra byggir á ósætti og ágreiningi við aðra flokka.  Þeir virðast á yfirborðinu vera vettvangur fyrir fólk sem vill láta að sér kveða í mótun mannlífsins í okkar samfélagi en eru, þegar á hólminn er komið, lymskuleg aðferð til að koma í veg fyrir raunverulegt lýðræði.

Þar sem fólk er þvingað með einu eða öðru móti til að greiða atkvæði með því sem það telur ekki vænlegt, er ekkert lýðræði.

Um leið og þú gengur til liðs við stjórnmálflokk, undirgengst þú að styðja stefnu flokksins eins og hún er skilin og útfærð af leiðtogum hans. Til að komast til áhrifa í flokknum þarftu að sýna hollustu þína við klíkuna sem stjórnar honum.

KindarúlfurÞannig er pólitík ekki um málefni eða fólk, heldur vald. Flokkakerfið er með öðrum orðum kerfi til að fela vald fámenns hóps sem íklæðir sjálfan sig og flokkinn sauðargæru lýðræðis. 

Í raun bjóða þeir ekki upp á neitt lýðræði, heldur blekkja fólk til að halda að flokkspólitíkin sé hinn eina og sanna birtingarmynd þess. Ef þú villt taka þátt í stjórnmálum þarftu að loka augunum fyrir þessum augljósu staðreyndum.

Ef þú ætlar að komast til áhrifa innan stjórnmálaflokks þarftu að tileinka þér starfsaðferðir hans og endurspegla þar með sundrungaráhrif hans. Ef þú kemst á þing, verður þú að styðja flokkinn í öllum mikilvægum málum, hvort sem þér líkar betur eða verr. Samtryggingaráhrifin eru afar gagnleg til að tryggja að þú gerir ekkert annað. Þess vegna er heldur ekki  neinn sóttur til saka þegar illa fer eins og komið hefur vel í ljós á síðasta misseri. Í besta falli verða fundnir einhverjir blórabögglar og þeim hent fyrir ljónin. En kerfið blífur eins og nýlegar skaðaannakannanir sýna glögglega.

Niðurstaðan hlýtur að vera að það sé mannskemmandi að taka þátt í flokkspólitík. Hún grefur undan sjálfsvirðingu fólks og gerir það ónæmt fyrir muninum á réttu og  röngu. Hið rétta í þeirra augum er það sem flokksforystan ákveður.

Það skrýtna er að þrátt fyrir oft hatramma og líkamlega slítandi baráttu til að halda völdum, enda forystumenn flokkana, oftar en ekki, ævi sína óhamingjusamir og hugsjúkir. Þeirra eigin takmörk verða þeim ljós og enginn er þakklátur gamla þreytta hundinum þegar nýr "Alfa" er tekinn við.

Þess vegna ber að leggja alla stjórnmálaflokka niður og taka upp persónukosningar til Alþingis þar sem bannað er að bjóða sig fram í nafni stjórnmálasamtaka eða flokka.


Að hagnast á raunum annarra

Jake og Julie móðir hans 2004Jake Myerson er í dag rétt um tvítugt. Þegar hann var unglingur reykti hann kannabis í miklum mæli. Móðir hans þoldi ekki ástandið á drengnum og rak hann burtu af heimlinu. Um tíma var hann útigangur en fékk svo inni á heimili vinar síns.  Nú hefur Julie móðir hans skrifað bók um líf og neyslu Jakes og hvernig hann rústaði lífi sínu og fjölskyldunnar. Bókin heitir "The lost Child".  

Þegar að Jake las handrit móður sinnar, sá hann að í bókinni er hann niðurlægður með ýmsum hætti. Hann lagðist því gegn útgáfu hennar. Móðir hans telur aftur á móti að bókin geti orðið til að hjálpa fólki sem á við svipuð vandamál að stríða.

Fjölmiðlar í Bretlandi velta fyrir sér hvort hér sé enn einu sinni verið að gera einkamál fjölskyldu að fjölmiðalmat í gróða skini þar sem peningarnir eru raunverulega aðalatriðið en afsökunin sé almannaheill.

Meira hér

 


Að deyja í beinni

Jade 2Jade Goody heitir ung kona sem eflaust margir hafa heyrt um. Hróður hennar berst nú óðum um hamsbyggðina þrátt fyrir að hún hafi ekkert sér til frægðar unnið en að taka þátt í nokkrum raunveruleika-sjónvarpsþáttum í Bretlandi.

Raunveruleikaþættir eins og Big-Brother þar sem fylgst er með sérvöldum einstaklingum í einn mánuð eða svo, þar sem þeir eru lokaði saman inni einbýlishúsi, er auðvitað eins lágkúrulegt og sjónvarp getur orðið en jafnframt eitt vinsælasta sjónvarpsefni okkar tíma.

Jade hefur tekist að gera sér mat úr því að vera fræg fyrir það að vera fræg og haft af því síðustu ár dálaglega þénustu.

Fyrir skömmu kom í ljós að hún er haldin banvænu krabbameini sem leiða mun hana til dauða á næstu vikum. Jade sem á tvo litla drengi, ákvað að gera dauðastríð sitt að fjölmiðlamat og þiggja fyrir það greiðslur sem hún segist ætla að erfa drengina sína að. Jade Goody 1

Hún gekk á dögunum að eiga unnusta sinn, dæmdan brotamann sem yfirvöld gáfu  sérstaka undanþágu frá skilorði sínu svo hann gæti verið með Jade á brúðkaupsnóttina.

Vinsældir Jade eru svo miklar að jafnvel Gordon Brown sá ástæðu til að fara um hana lofsamlegum orðum í einni af ræðu sinni nýlega.

Bæði brúðkaupinu og veikindasögu Jade hefur verið gerð ærin skil í tveimur sérútgáfum á blaðinu sem hæst bauð í þetta umfjöllunarefni, og önnur blöð, útvarps og sjónvarpsstöðvar í Brtelandi lepja allt upp um Jade sem umfram fellur.

Fyrir nokkru dögum var kona ein handtekin í námunda við sjúkrahúsið sem Jade sagði að hefði staðið yfir sér þegar hún vaknaði og þulið bænir. Í fórum konunnar fannst hamar. Þetta þótti ágæt tilbreyting fyrir hinn mikla fjölda blaða og sjónvarpsmanna sem fylgjast grannt með öllu sem Jade viðkemur.

Image_1_for_Jade_Goody_Leaving_hospital_gallery_18018321Jade sem verið hefur í geislameðferð á sjúkrahúsi ákvað í dgær að yfirgefa sjúkrahúsið og eyða síðustu dögunum heima hjá sér.

Hún er í fréttum á hverjum degi og fólk bíður spennt eftir því að það dragi til tíðinda í dauðastríði hennar.

Fólk ræðir sín á milli hvort brúðskaupsnóttina hafi verið sársaukafull fyrir hana af því að krabbameinið er í legi hennar, það gerir athugasemdir við hversu vel hún líti út svona grönn eftir að hafa misst talsvert af þunga sínum í geislameðferðinni og hversu ljót hún sé svona sköllótt eftir að hafa misst allt hár sitt af sömu ástæðu.

Fyrir utan fréttatímana eru spjallþættirnir og morgunþættirnir uppfullir af þessum spekúleringum um Jade og væntanlegan dauða hennar. Þá er einnig mikið rætt hvort sýnt verði frá dauðastundinni sjálfri í beinni útsendingu eða hún bara sýnd eftirá.

Og svo spyr fólk hvað sé að í þessum heimi.


Fljúgandi mörgæsir, spennandi kostur

Stundum heyrir maður um hluti sem eru einfaldlega of ótrúlegir til að þeir geti verið sannir. En svo kemur í ljós að sannleikurinn er miklu ótrúlegri en skáldskapur getur nokkru sinni orðið. Íslendingar hafa sannreynt þetta aftur og aftur á síðast liðnum mánuðum.

Ofurhetjur heimsinsGrænmetissalar og búðarstrákar sem afgreiddu mig um kartöflupoka á góðum degi fyrir nokkrum árum, urðu einhvern veginn að ofur-krimmum eins og þeir gerast verstir í ofurhetju-teiknimynda-sögunum, sem við vitum öll að eru ótrúlegastar af öllum ótrúlegum skáldsögum. Þeir sátu með puttann á hnappinum, tilbúnir til að brjóta fjöregg þjóðarinnar ef þeim yrði ógnað. Og svo, alveg eins og í teiknimyndablöðunum gerðist eitthvað og allt fór í há loft en þeir voru snöggir til og ýttu á hnappinn og  tókst að flýja með allt sitt og komu sér fyrir í fylgsnum sínum út á eyðieyjum. Munurinn er sá að Þjóðin á enga súperhetju (Captain Ísland)  til að leita réttar síns á þeim. Þess vegna brosa þeir í kampinn í dag og láta taka við sig vitöl þar sem þeir segja drýgindalega hafa tapað miklu sjálfir og e.t.v. hefði það verið farsælast hefðu þeir haldið áfram að selja bara kartöflur út í búð.

BúðardrengurinnUpphæðirnar sem þessir drengir náðu að svindla út úr Íslendingum eru svo háar að það þarf sérstök útskýringa-myndbönd til að fólk fatti hversu miklir peningar þetta voru. - En satt að segja finnst mér upphæðirnar hættar að skipta máli. Þær hafa enga merkingu lengur fyrir mig og fá mig bara til að gapa eins og bjáni eina ferðina enn.

Þess vegna er líklega best að fá bara einhverjar ofurkonur með sæt nöfn og mikla reynslu utanúr heimi til að eltast við þessa bófa. Þá lendir heldur ekki einhver í því að þurfa handtaka og kæra besta vin sinn eða jafnvel bróður sinn.

En það sem kannski er verra er að fullt af frómu fólki reynir að sannfæra mig um að nú sé allt á leiðinni til betri vegar. Nýtt fólk sé að komast í valdastöðurnar, ný framboð séu í uppsiglingu og ný andlit séu að taka við af þeim gömlu í eldri framboðunum. Allt á að breytast nema, kerfið. Við því má ekki raska og mér líður eins og ég sé dottinn inn í kvikmyndina The Wall.

Mér finnst yfirstandandi  breytingar álíka trúverðugar og meðfylgjandi myndband. Myndbandið hefur það fram yfir framboðs-framagosa-hjalið að það er skemmtilegt.


Eldri feður eignast heimskari börn

Gamall faðirEftir því sem vísindin færa okkur meiri þekkingu breytist samfélag okkar, næstum því án þess að við tökum eftir því.

Fólk talar um að ýmis viðmiðunarmörk á æviferlinum hafi raskast og breyst þannig að fólk geti í dag t.d. átt fyrri og seinni starfsferil og stofnað fyrri og seinni fjölskyldu o.s.f.r.

Eftir því sem langlífi verður algengara, gerir fólk kröfur til þess að lifa lífi sínu sínu eftir eigin vali og skipulagi, frekar en náttúrulegu vali eins og áður virtist ráða. 

En eitthvað hefur náttúran sjálf  verið sein að átta sig á þessum nýungum í lífshlaupi hins vestræna nútíma-manns því í ljós hefur komið að það er ekki bara aldur mæðra sem getur ógnað heilsu afkvæma þeirra, heldur er hætta á að börn eldri feðra verði ekki eins gáfuð og börn yngri manna.

Að auki eru börn eldri karlmanna (eldri en 40 ára) líklegri til að fá allskonar sjúkdóma, bæði andlega og líkamlega. Helsta ástæðan er sögð að stökkbreytingar í litningum sæðis karla, hlaðast upp með aldrinum og  valdið þessum einkennum í börnunum þeirra.

Slíkar eru alla vega niðurstöður rannsókna sem nú eru kynntar okkur. hér, hér og hér


Góðar fréttir og slæmar fréttir

Æ, það er víst enginn maður með mönnum eða kona með konum, hér á bloggslóðum þessa dagana, nema að þú hafir lýst því yfir að þú ætlir að gefa kost á þér á einhverjum framboðslistanum fyrir komandi alþingiskosningar. Pistlarnir eru fullir af frösum og þeirra vinsælastur og jafnframt leiðinlegastur er "að axla ábyrgð" . Hann er á allra vörum. Sumir vilja ólmir axla ábyrgð með einhverjum hætti en aðrir vilja að einhverjir aðrir geri það. Frasinn er orðin svo altækur og almennur að hann er fyrir löngu hættur að hafa nokkra meiningu. Þess vegna er líka gott að nota hann, þá er maður eins og aðrir.

fflcamelSatt að segja veit ég ekki hvernig ástandið er raunverulega á Fróni þessa dagana, en ef dæma má af fréttum og þeim glugga sem bloggið er inn í þjóðarsálina, hefur hið pólitíska landslag lítið breyst. 

Það minnir mig á söguna um herdeildina úr útlendingahersveitinni sem reið á úlföldum sínum glaðbeitt út í Sahara eyðimörkina til að veita nokkrum uppreisnarmönnum eftirför. Eftir nokkra daga reið án þess að verða uppreisnarmannanna var,  kallaði liðsforinginn menn sína saman og ávarpaði þá. "Ég hef góðar fréttir að færa ykkur en líka slæmar fréttir" sagði hann. "Slæmu fréttirnar eru að við erum rammvilltir og matarlausir og höfum ekkert nema úlfaldaskít að éta. Góðu fréttirnar eru hins vegar  að það er nóg til af honum."


Þeir sem vilja óbreytt ástand þurfa ekki að lesa þetta

Maður í kassaEftirfarandi er til íhugunar fyrir alla þá sem hyggjast gefa kost á sér á framboðslistum stjórnmálaflokkanna í næstu kosningum.

Þessar einföldu setningar  hér að neðan eru einnig til ígrundunar fyrir þá sem halda að nýja fólkið sem hópast nú inn á listana, sé klárara, betra, samviskusamara, heiðarlegra og vinnusamara en það gamla sem annað hvort hefur  tilkynnt að það ætli ekki að gefa kost á sér eða reynir eftir mætti að verja sæti sín á flokkslistunum. 

Ef þú gerir

eins og þú hefur ætíð gert

muntu ætíð fá það

sem þú ætíð færð.

Ef þú villt

það sem þú hefur aldrei haft

verður þú að gera það

það sem þú hefur aldrei gert.


Hvað sagði Zaraþústra?

zoroastr_prophecyÍranski spámaðurinn Zóróaster (628 fk - 551 fK.) er upphafsmaður Zóróaster-trúar, átrúnaður sem hefur verið iðkaður í 2500 ár og á sér enn fylgjendur. Zóróaster er höfundur Gaþas, elsta hluta Avesta, heilagrar ritninga Zóróasters-fylgjenda.

Heimildir um líf Zóróasters (Zaraþústra á forn-persnesku) eru frekar fábrotnar en það er talið að hann hafi fæðst árið 628 fK. þar sem nú er norður Íran. Lítið er vitað um æsku hans. Sem fullorðinn maður hóf hanna að boða nýja trú. Hann mætti talsverðri andstöðu en þegar hann varð fertugur tókst honum að fullvissa konunginn Vishtaspa sem réði norð-austurhluta Íran, um sannleika boðskapar síns. Konungurinn gerðist eftir það verndari og vinur spámannsins. Samkvæmt írönskum arfsögnum varð Zóróaster sjötíu og sjö ára gamall.

GATHAGuðfræði Zóróasters er einskonar blanda af eingyðistrú og dúalisma. Hann kenndi að aðeins væri til einn Guð sem hann kallaði Ahura Mazda.(Ormuzd á nútíma persnesku). Ahura Mazda (Hinn vitri drottinn) hvetur til sannsögli og sanngirni. En Zóróasters-fylgjendur trúa líka að til sé illur andi, Angra Mainyu (Ahriman á nútíma persnesku) sem stendur fyrir hið illa og falska. Í hinum raunverulega heimi stendur yfir stöðug barátta milli þessara tveggja afla. Hver einstaklingur getur valið hvoru hann leggur lið. Þótt að vart megi á milli sjá hvor hefur betur sem stendur, trúa Zóróasters-fylgjendur að á endanum muni Ahura Mazda sigra. Trú þeirra gerir einnig sterklega ráð fyrir lífi eftir dauðann.

zoroastrianFIRE1Hvað siðferði varðar leggur Zóróaster áherslu á sannleiksást og sanngirni. Hann leggst gegn meinlætalifnaði og einlífi. Zóróasters-fylgjendur iðka ýmiskonar áhugaverða helgisiði og sumir þeirra tengjast þeirri helgi sem lögð er á eldinn. Sem dæmi, lifir helgur eldur ávalt í musterum þeirra. Einna sérstakastur helgisiða þeirra er hvernig þeir eyða líkum hinna látnu sem eru hvorki grafin eða brennd, heldur komið fyrir á turni út á víðavangi svo að hrægammar geti etið þau.

ZOROASTERFYLGJENDURÞótt að Zóróasters-trú eigi margt sameignlegt með eldri írönskum trúarbrögðum, virðist þau ekki hafa breiðst úr sérlega hratt eða vítt á meðan Zóróaster lifði. Skömmu eftir dauða hans var landsvæðið þar sem hann bjó, innlimað í persneska heimsveldið, af Sýrusi hinum mikla og á næstu tveimur öldum gerðu persnesku konungarnir trúna að ríkistrú.

Eftir að persneska veldið féll fyrir Alexander mikla á síðari hluta fjórðu aldar fK. hnignaði fylgi við trúna talvert. En þegar að Persar fengu aftur sjálfstæði og höfnuðu hellenskum siðum, varð vegur Zóróasters-trúar aftur glæstur og frá 226-651 eK., eða á tímum Sassanid-veldisins, varð trúin aftur að ríkistrú. 

ZOROASTERMUSTERIYASTÁ sjöundu öld eftir að Arabar höfðu sigrað Persíu, gerðust flestir íbúar landsins múslímar. Þrátt fyrir að njóta verndar Íslam samkvæmt  Kóraninum, voru Zóróasters-fylgjendur einangraðir og stundum ofsóttir. Á tíundu öld flúðu margir af eftirlifandi Zóróasters-fylgjendum til eyjarinnar Hormuz í Persaflóa og þaðan fluttust þeir yfir til Indlands þar sem þeir mynduðu lítið samfélag. Indverjar kölluðu þá Parsía og í dag telur samfélag þeirra í Indlandi rúmlega hundrað þúsund manns. Í Íran hefur trúin aldrei lognast út af til fulls og þar telur samfélag þeirra um tuttugu þúsund manns.

Um hríð var Zóróasters-trú meðal ríkjandi heimstrúarbragða en fyrst og fremst var hún sniðin að heimahögum spámannsins.

Víst er að guðfræði Zóróasters hafði áhrif á önnur trúarbrögð, Gyðingdóm og Kristindóm þar á meðal. Þá gætir áhrifa Zóróasters-trúar mjög í Manikeaisma, trúarbrögðin sem stofnuð voru af Mani (210-276 eK) í Írak. Hann tók kenningar Zóróasters um baráttu góð og ills og þróaði út frá þeim flókið og sannfærandi guðfræðikenningar. Þau trúarbrögð hafa síðan algjörlega horfið af sjónarsviðinu.


Ég og ánamaðkurinn

MaðkurVið flatmöguðum þarna í grasinu og nutum sólarinnar. Áin rann lygn við fætur mínar og liðaðist áfram eftir landslaginu uns hún hvarf á bak við næstu hæð.

Við ræddum um heima og geima og hann var afar viðkunnanlegur, virtist kunna á ýmsu skil sem ég hafði ekki reiknað með að venjulegir ánamaðkar væru að ómaka sig út af.

Af og til skreið hann ofaní moldina til að halda sér rökum og ég bar á mig sólolíu. Þegar hann kom upp í eitt skiptið sagði hann;

Ég sé að það er nú ekki mikill munur á okkur.

Nú, hvað meinarðu, svaraði ég.

Þú mátt ekkert við því að þorna frekar en ég.Og ef eitthvað, þá ertu mun þurftafrekari á umhverfið en ég. Þú þarft eflaust að kreista safann úr ótöldum tegundum jurta og blanda hann einhverri dýrafitu, bara til að geta smurt þessu á þig.

Nú ja, já, en það er nú mikill munur á okkur samt.

Það finnst mér ekki. Í raun ertu ánamaðkur sem ert búinn að safna utan á þig allskyns aukalíffærum sem þú hafðir upphaflega enga þörf fyrir.

Hu, ormur, ég er ekki ormur, ég er maður.

Jú, mannormur og ég get sannað það. Nokkrum dögum eftir að þú varst getinn, hvað varstu þá? Ég skal segja þér það. Eins sentímetra löng túpa með gat í sitt hvorum enda. Annað varð að munninum á þér og hitt að rassgatinu. Hvað er það annað en ormur?

Ja, þú ert nú bara að lýsa upphafinu á níu mámuða þroskaferli.

Upphafinu já já ,en upphafinu á hverju. Það sem gerist næst á þessu níu mánuða þróunarferli er að  fyrirtaks hönnun sem hefur staðið af sér breytingar í milljónir ára, er eyðilögð. Þú ormurinn, byrjar að hlaða utan á þig vefjum og líffærum sem gera ekkert fyrir þig?

Ja, þau gera mig hæfari til að komast af í lífinu.

Það get ég ekki séð. Þú ert enn maðkur í mörgu tilliti. Eiginlega maðkur sem hefur hneppt sjálfan sig í ánauð. Þetta sem þú kallar að vera "maður" er bara millistig.  Þegar því líkur, eftir allt bramboltið, muntu nefnilega enda aftur eins og þú byrjaðir, þú verður sem sagt að ormafæðu og þar með aftur að ormi. Nokkuð löng leið, fyrir ekki neitt, finnst þér ekki?

Við bakkannÉg var búin að fá nóg af þessu snakki maðksins í bili. Ég stóð upp og teygði mig í veiðistöngina, tróð ánamaðkinum á öngulinn og hélt áfram að renna fyrir boltann sem ég vissi að lá í felum einhversstaðar undir bakkanaum.


Túlipanar

Rauður túlipaniHvaða land kemur upp í hugann þegar minnst er á túlípana. Holland ekki satt. Það mætti ætla að blómið væri Þjóðarblóm þeirra. Svo er ekki, alla vega ekki formlega.

Hollendingar hafa gert þetta blóm sem er eitt af 150 tegundum lilju ættarinnar og er upphaflega ættað frá Mið-Asíu, að einni af helstu útflutningsvöru sinni.

Þegar að blómið barst til Hollands á seinni hluta sextándu aldar frá Tyrklandi, greip um sig einskonar túlípana-æði í landinu sem enn hefur ekki linnt.

Túlipana túrbanNafn blómsins  (einnig það latneska, Tulipa gesneriana) er dregið af Ottóman-Tyrkneska orðinu tülbend. Það orð er hinsvegar dregið af persneska heiti þess, slâleh. 

Af tülbend er einnig dregið orðið túrbani (turban) sem er vefjarhöttur. Orðsifjarnar á milli hattarins og blómsins eru auðvitað tilkomnar af svipuðu útliti fornra vefjarhatta og krónu túlípanans.

En það ætti ekki að koma Íslendingum á óvart. Á íslandi hafa blóm hatta, hettur, húfur og skúfa.

Ég veit ekki af hverju það stafar, en túlípanar hafa alltaf farið í taugarnar á mér.

Túrbani 1Vefjarhöttur (turban) er á Vesturlöndum samheiti yfir margar gerðir af höfuðfötum sem eiga það sameiginlegt að vera gert úr einum löngum klút sem vafið er á mismunandi vegu um höfuðið.

Meðal íslamskra klerka og kennimanna var hæð vefjarhattar hans talin gefa til kynna lærdóm hans og tignarstöðu. Sumir þeirra voru svo háir að þeir voru hærri en sá sem höttinn bar.


Bardaginn sem öllu breytti

Það var enginn smáræðis floti sem dró upp að ströndum Englands þann 28. september árið 1066. Mörg hundruð skip voru í flotanum og um borð voru ásamt átta þúsund hermönnum, sjómenn, eldabuskur og hestar og smiðir.

Vilhjálmur fellur viðFyrstur til að stökkva á land var Vilhjálmur hertogi af Normandí. Hann vildi sína mönnum sínum að hann væri maður sem hægt var að treysta. Um leið og hann kom upp í  fjöruna datt hann kylliflatur í mölina. Það fór kurr um mannskapinn.

Þetta gat ekki boðað gott. Orðatiltækið "fall er fararheill" var eflaust í hugum þeirra eins og okkar, slöpp tilraun til að breiða yfir klaufaskap og oftast sagt til að segja bara eitthvað undir afar vandræðalegum kringumstæðum. -

Vilhjálmur spratt á fætur og snéri sér við og rétti báðar hendur í átt að mönnum sínum. "Við dýrð Guðs" hrópaði hann. "Ég hef enska jörð tveimur höndum tekið". Þetta nægði til þess að mennirnir róuðust og sumir fóru að brosa aftur í kampinn. Vilhjálmur var eins og aðrir snjallir lýðskrumarar snillingur í að snúa því sem miður fer, sér í vil.

Vilhjámur gerir árasVilhjálmi tókst þennan dag, það sem engum hefur tekist síðan, að landa með glans innrásarher á enska grundu. Riddarar og bogaliðar þustu í land og á næstu dögum  leiddi Vilhjálmur þá frá Pevensey flóa til Hastingshæða þar sem hann setti upp búðir.  

Vilhjálmur var svo forsjáll að taka með sér forsmíðaðan trékastala sem hægt var að slá upp á nóinu. Grindurnar voru negldar saman með stautum sem pakkað hafði verið í tunnur og á skömmum tíma var Vilhjálmur búinn að koma sér fyrir í ágætis bækistöðvum.

Til að byrja með fóru Vilhjálmur og her hans  sínu fram algjörlega óáreittir. Haraldur konungur Englands hafði öðrum hnöppum að hneppa við að hrekja nokkra Norðmenn aftur í sjóinn sem gert höfðu strandhögg norður í landi.

Þegar að Haraldur loks heyrði að Vilhjálmur væri mættur með lið sitt til að hertaka landið, dreif hann sig suður til að mæta honum og kom á Hastingsslóðir þann 13. október. Hermenn hans var þreyttur eftir langa göngu í einum spreng suður á bóginn, húskarlarnir moldugir og pirraðir og þungvopnaðir fótgönguliðarnir frekar fúlir líka. Haraldur skipaði þeim að taka sér stöðu á hæð einni réttum ellefu km. norðaustur af bækistöðvum Vilhjálms og verjast þaðan. Öllum varaliðum og heimavarnaliði skipaði hann að baki þeim.

Og þá var sviðið tilbúið fyrir frægustu orrustu sem háð hefur verið á Englandi, kennd við Hastings.

Orrustan við HastingsNormannar áttu erfðan dag fyrir höndum. Í morgunskímunni 14. október, stigu fylkingar þeirra út úr morgunlæðunni fyrir neðan hæðina og sáu fyrir ofan sig þéttan vegg húskarla Haraldar tvíhenda sínar bitru axir. Úff. Klukkan hálftíu dró loks til tíðinda. Lúðraþeytarar Vilhjálms blésu til orrustu og bogaskyttur hans stigu fram fyrir skjöldu. Um leið og örvadrífurnar skullu hver á eftir annarri á ensku fótgönguliðunum og húskörlunum efst á hæðinni gerðu riddaraliðar Vilhjálms árás og knúðu hesta sína upp hæðina.

Ensku húskarlarnir reiddu upp axir sínar og hjuggu niður bæði hesta og menn um leið og þeir skullu á skjöldum framliðanna.

Húskarlar berjastÁ vinstri væng hers Vilhjálms börðust riddarar frá Bretaníu. Árás þeirra var hrundið og þeir komu aftur veltandi niður brekkuna, hestar og menn í einni kös. Á eftir þeim fylgdu grenjandi Englendingar sem ólmir vildu reka flóttann. Þegar að Vilhjálmur sá í hvað stefndi, reif hann af sér hjálminn og öskaraði; "Horfið vel á mig. Hér er ég enn og ég mun enn með náð Guðs verða sigursæll".

Þetta virtist virka á strákana því þeir snéru við á flóttanum, náðu að skipuleggja sig og hófu að brytja niður Englendingana sem komið höfðu á eftir þeim.

Við þetta fékk Vilhjálmur hugmynd.  Hann kom skilaboðum til sinna manna um að sviðsetja í skyndi nokkra slíka "flótta". Bragðið heppnaðist og Normönnum tókst að ginna talsverðan fjölda af mönnum Haraldar niður af hæðinni þar sem lífið var murkað úr þeim. En stærsti hluti hers Haraldar stóð samt stöðugur og húskarlar hans slógu skjaldborg um konung sinn sem riddarar Vilhjálms náðu ekki að brjóta á bak aftur.  

Orrustan hélt áfram langt fram eftri degi og það var byrjað að skyggja þegar að einum bogamanna Vilhjálms tókst að skjóta ör í auga Haraldar. 

Haraldur fellurVið að sjá konung sinn særast misstu Englendingar móðinn og hleyptu í gegnum raðir sínar hópi af riddurum Vilhjálms sem síðan náði fljótlega yfirráðum á hæðinni.

Þeir sóttu stíft að Haraldi sem var varinn hetjulega af húskörlum sínum og sagt er að hann hafi náð að draga örina úr hausnum á sér og berjast áfram. Loks náðu riddarar Vilhjálms að hakka sig í gegnum húskarlana, komast að konunginum og höggva hann niður. Megnið af enska hernum var þá flúinn.

Vilhjálmur fyrirskipaði seinna að klaustur skyldi byggt á hæðinni þar sem Haraldur féll og það helgað heilögum Martin og kallað Orrustu klaustur.


Sjaldgæfasti sjúkdómur í heimi - Ekki gefast upp

0 Sjaldgæfasti sjúkdómurinnHann heitir Ruben og er átta ára og á heima í Gomersal, West Yorkshire á Englandi. Sjúkdómurinn sem hann er haldinn er svo sjaldgæfur að það er ekki einu sinni búið að gefa honum nafn. Hann hefur þjáðst af sjúkdóminum frá fæðingu og læknar fundu enga lækningu. Það næsta sem þeir komust í greiningu sjúkdómsins var að segja hann líkjast Diamond Blackfan Anaemia (DBA)

Hann þjáðist af stöðugum svima og ónæmiskerfið var svo veikt að hann var með astma og exem á háu stigi. Hann þurfti stöðugar blóðgjafir vegna þess hve rauðu blóðkornin fjölguðu sér lítið. Hjartsláttur hans var stundum þrefalt hraðari en eðlilegt getur talist og hann var mikið á eftir jafnöldrum sínum í þroska.

Foreldrum hans Peter Mead og Michelle Grainger-Mead var sagt að líklega þyrfti hann að undirgangast beinmergskiptingu sem gæti verið honum lífshættuleg vegna þess hve veikbyggður hann var.

En þau gáfust ekki upp við að leita að lækningu fyrir son sinn. Þau rannsökuðu allar heimildir sem var að finna í þrjú ár og reyndu fjölda óhefðbundna læknisaðferða. Þau þræddu netið við að lesa læknisfræðigreinar og prófuðu jafnframt allt frá nálarstungu til sérstakra vatnsbaða.

Loks duttu þau niður á lausn sem virðist virka. Læknarnir sem önnuðust Ruben hafa lýst undrun sinni yfir því að drengur sem þurfti á blóðgjöf að halda einu sinni í mánuði hefur nú verið án þeirra  í þrjú ár. Einkenni sjúkdómsins hafa að mestu horfið og þroski Rubens tekið stór stökk fram á við.

Það var næringarfræðingurinn  Diana Wright sem kom þeim á sporið. Hún uppgötvaði að Ruben skorti ákveðnar kjarnasýrur (leucine og isoluceine) og eggjahvítuefni í líkama sinn. Hann var því settur á eisnkonar fæðubótarefni sem var blandað í drykk hans og fæðu. Áhrifin létu ekki á sér standa og nú hafa læknar ákveðið að rannsaka þessi tengsl ýtarlegan í von um að finna megi lækningu fyrir þau hundruð barna sem þjást af DBA.

Fæðubótarefnin sem Ruben tekur eru ekki ódýr. Þau kosta foreldra hans 10.000 pund á ári.


Hér séu Drekar

Svartur DrekiFrá því að farið var að skrá verk og hugmyndir mannkynsins hafa drekar komið við sögu. Í elstu heimildum um menningu Assýríumanna, Babýloníu, í Gamla testamentinu og sögu Gyðinga, fornum ritum Kínverja og Japana, í arfsögnum Grikkja, Rómverja og helgisögnum norður Ameríkubúa, Afríku og Indlands, er að finna dreka.

Á Íslandi er drekagammurinn talinn ein af landvættunum og rataði þess vegna inn í skjaldarmerkið. Reyndar var trúin á landvættina slík að það var bannað með lögum að styggja þá t.d. með því að sigla með gínandi trónu fyrir landi. Það er í raun erfitt að finna þjóð sem ekki hefur í menningu sinni að geyma frásögn af eða tengingu við dreka.


Fyrsta spurningin sem kemur upp í hugann er hvort drekinn eigi sé einhverja stoð í raunveruleikanum. Flestar bækur svara því neitandi og benda á að veran komi ekki fyrir í list og ritverkum fyrr en menning mannsins var komin vel á veg.

Forsöguleg flugeðlaBent hefur verið á að drekinn sé samsettur úr árásargjörnum og hættulegum dýrum eins og slöngu, krókódíl,  ljóni og jafnvel forsögulegum kvikindum. Drekinn er sem sagt tákn dýrsins „par exellence“ og hann birtist okkur fyrst sem slíkur í súmerskum hugmyndum um dýrið sem „óvini“ mannsins sem seinna voru settar í bein tengsl við djöfulinn.


Þetta á samt ekki við um nærri alla dreka, sérstaklega ekki þá kínversku sem eru frægir fyrir góðverk sín. Þessi ímynd dreka sem hræðilegra villidýra er líka dálítið ósanngjörn. Ef við t.d. berum hann saman við aðra ímyndaða sambræðinga eins og Kentára eða Griffina, og tökum í burtu augljósar ýkjur eins og eldspúandi gin,  er drekinn tiltölulega líffræðilega sannfærandi skeppna.

Moloch HorridusÞeir eiga margt sameiginlegt með forsögulegum drekum og eðlum sem svifu á milli fjallstoppana í fyrndinni.  Aristóteles og Pliny ásamt öðrum fornaldarskrifurum héldu  því fram að drekar væru hluti af náttúrunni frekar en ímyndunaraflinu og ef það er rétt eru bestu kandídatarnir eðlur.


Talverður fjöldi smáeðla, sérstaklega í Indó-Malasíu, geta látið sig svífa á fitjuðum vængjum og eru svo svipaðar drekum að þeim hefur verið gefið tegundarsamheitið Draco.

Hin bryn-skeljaða Moloch Horridus eðla er afar svipuð í sjón að sjá og gaddaður dreki. Indónesíska eðlutegundin Varanus komodoensis, kölluð Komododreki af innfæddum, getur orðið allt að þrír metrar á lengd. Náskyldur útdauður ættingi hennar í Ástralíu varð allt að sex metrar á lengd.

Varanus komodoensisÞað er ólíklegt að ein tegund skriðdýra hafi getað orðið fyrirmynd að drekanum þótt eflaust hafi þau hjálpað til við mótun hugmyndanna vítt og breytt um heiminn.

Þá eru tengsl dreka við himinhvolfin vel kunn. Það er vart hægt fyrir nútíma manninn að ímynda sér hversu heillaðir frummennirnir forfeður okkar voru af himninum. Plánetur og stjörnur voru í þeirra augum guðir og þegar að eitthvað óvenjulegt gerðist, eins og sól eða tunglmyrkvi,  eða þá að halastjarna með glóandi hala geystist um sjónarsviðið, þóttu það merkisviðburðir. Það er ekki erfitt að sjá hvernig barátta guðanna við eldspúandi dreka urðu að goðsögnum sem enn lifa góðu lífi eins og meðal frumstæðra ættálka og bókstafstrúaðra Biblíuskýrenda.
DrekaeyðirÍ vestrænum samfélögum höfum við vanist því horfa á drekann sem tákn hins illa, liggjandi dauðan fyrir fótum eins af hinum heilögu drekadrápurum eins og Heilags Georgs frá Kappadokíu eða Margrétar af Antiokíu eða þá erkiengilsins Mikaels. En sú táknmynd er afar mikil einföldun á hlutverki drekans í öðrum hlutum heimsins og reyndar heiminum öllum, áður en kristindómurinn kom til sögunnar.

Þegar að miðaldamenn reyndu að setja niður legu landa og sæva á kort, tíku drekar við þar sem þekkiningin endaði, eins og sjá má á mörgum kortum frá þeim tíma.

Í grískum og rómverskum sögnum er drekanum falið það hlutverk að gæta hofa og heilagara staða. Vegna skarprar sjónar og styrkleika síns, visku og forspárkunnáttu er hann einkar vel til slíkra verka fallinn og gætti því visku og fjársjóða. Í germönskum söguljóðum heygja hetjurnar hildi við dreka, líkt og Sigurður við Fáfni og Bjólfur við drekann sem varð honum að bana. 

Rauður DrekiÍ austurlöndum er drekinn miklu flóknari vera. Í bókmenntum og list fyrri tíma sést vel að hann getur breytt um útlit og tekið á sig mynd hvaða veru sem er. Hann getur ráðið veðri og vindum og því ábyrgur fyrir uppskerunni eða bresti hennar. Hann er Yang/Yin veran sem Feng –Shui meistararnir reyndu að setja í jafnvægi. Drekinn var svo mikilvægur að hann varð að tákni Keisaraveldisins. Keisarinn sat í drekahásætinu, svaf í drekarúminu, klæddist drekafatnaði og enginn annar mátti eiga fimmklóa dreka eftirmyndir.

Samkvæmt kínverskri heimspeki er drekaormurinn mikilvægasta og altækasta táknið fyrir þau öfl sem ráða alheiminum. Ólíkt því sem gerist á vesturlöndum, er drekinn aldrei sigraður eða drepinn í Kína, vegna þess að þeir eru nauðsynlegir milligönguaðilar milli jarðar og himins.


Maðurinn sem breytti heiminum en fáir þekkja

Tsai-Lun-Til eru alfræðibækur sem ekki minnast einu orði á TS´AI LUN og nafn hans kemur sjaldan fyrir í venjulegum sögubókum sem kenndar eru í skólum heimsins.  Samt verður hann að teljast, með tilliti til uppfinningar hans, einn af áhrifamestu einstaklingum heimssögunnar.


TS´AI LUN  var hirðmaður kínverska keisarans Ho Ti fyrir tæpum 2000 árum.  Hann var geldingur og fyrir hina mikilvægu uppgötvun sína sem hann kynnti fyrir keisaranum árið 105 e.k. var honum svo vel launað að hann varð vellauðugur. Seinna  blandaði hann sér í hallardeilur sem að lokum urðu til þess að hann féll í ónáð. Hann lauk lífi sínu með því að baða sig, klæðast sínum besta kirtli og taka síðan inn banvænt eitur.


Án uppfinningar hans væri heimurinn ekki eins og við þekkjum hann í dag. Lengi vel var formúlu hans haldið leyndri og það var ekki fyrr en árið 751 að  öðrum en Kínverjum var kunnugt um samsetningu hennar. Það ár handtóku Arabar nokkra sérfræðinga í notkun hennar og þaðan breiddist  þessi þekking út um heiminn.


Það sem TS´AI LUN fann upp var; Pappír.Pappírsgerð


Fram að uppfinningu TS´AI LUN höfðu Kínverjar aðallega notast við bambus og tré til að skrifa á. Á Vesturlöndum voru notuð skinn og síðar pergament, í Miðausturlöndum, leirtöflur og síðan papírus sem kom frá Egyptalandi. Pappír tekur öllum þessum tegundum áritunarefna fram og varð fljótlega allráðandi, ekki hvað síst eftir að Jóhann Gutenberg (1400-1468)  fann upp prentvélina.


Hið undarlega mál varðandi Dogon-fólkið

dieterlenSuður af Sahara eyðimörkinni búa fjórir Afrískir ættbálkar. Á árunum 1945-50 dvöldust frönsku mannfræðingarnir Marcel Griaule og Germaine Dieterlen á meðal þeirra, aðallega samt hjá ættbálki sem kallaður er Dogon fólkið.

griaule%5B2%5DÁ þessum  skamma tíma áunnu mannfræðingarnir sér trúnað Dogon fólksins og trúarleiðtogar þeirra trúðu þeim fyrir launhelgum sínum. Með því að teikna í moldina, drógu prestarnir upp heimsmynd sem þeir höfðu erft og varðveitt um aldir. Þekking þeirra á stjörnufræði  var svo mikil og nákvæm að undrum sætir. 

DagonMegin hluti þekkingar þeirra beindist að tvístirninu  Síríus A og Síríus B.  Síríus A er bjartasta stjarna á himnahvelfingunni en um hana snýst Síríus B sem er „hvítur dvergur“ með gríðarlegan efnisþéttleika og  eðlisþyngd en ógerlegt er að sjá berum augum frá jörðu. 

Síríus B var fyrst uppgötvuð árið 1862 af Bandaríkjamanninum Alvan Clark þegar hann beindi sterkasta sjónauka sem þá var til að Síríusi A og tók eftir litlum hvítum depli sem var 100.000 sinnum dimmari en Síríus A.


DogonadansÞrátt fyrir þetta vissu Dogonar um tilvist þessarar stjörnu og talvert um eiginleika hennar. Þeir vissu að hún var hvít og þótt hún væri  „með minnstu stjörnum sem finnast“  var hún jafnframt  „þyngsta stjarnan“ og gerð úr efni sem var „þyngra en allt járn jarðarinnar“. Þetta er ágæt lýsing á þéttleika Síríusar B þar sem einn rúmmetri af efni hennar vegur 20.000 tonn. Dogonar vissu að Síríus B var á sporbraut um Síríus A sem tók 50 ár að fara og að hann var ekki  fullkomalega hringlaga heldur ílangur líkt og sporbraut flestra himintungla er, staðreynd sem ekki var vel kunn utan vísindasamfélagsins.

NOMMO
Þekking Dogona á almennri stjörnufræði var líka undraverð. Þeir teiknuðu bauginn í kring um Satúrnus sem ekki er hægt að sjá frá jörðu, þeir vissu að að Júpíter hefur fjögur stór tungl, að pláneturnar snúast um sólina, að jörðin er hnöttur og að hún snýst um möttul sinn. Þeir vissu að Vetrarbrautin er spíral-laga, eitthvað sem ekki var uppgötvað fyrr en seint á síðustu öld.
En það sem hljómar ótrúlegast af öllu er að Dogonar segja að þessi þekking hafi verið færð þeim af verum sem komu fljúgandi ofan frá himnum í einskonar örk. Þessar verur urðu a lifa í vatni og kölluðu sjálfa sig Nommos.


OannesÞetta heiti  veranna og sú þekking sem þær eru sagðar hafa skilið eftir sig á meðal Dogo ættflokksins, vakti athygli sagnfræðingsins Robert Temple. Hann setti heitið í samhengi við vatnaguð Babýloníumanna Oannes, sem sagður er hafa kennt Súmerum stærðfræði, stjörnufræði, landbúnað og skipulagningu samfélags þeirra.


Gríski fornaldar presturinn Berossus lýsir Oannes í bók sinni "Saga Babýlonar"; „Allur líkami dýrsins var líkur fiski og undir fiskhausnum var annað höfuð líkt mannshöfði . Rödd þess og tungumál var mennskt og myndir af því eru enn til....Þegar að sól settist var það siður dýrsins að stinga sér í sjóinn og dveljast alla nóttina í djúpunum því dýrið var bæði land og sjávarskeppna.“


Hey Rama

RamaEinu sinni fyrir langa löngu, þegar að sögur voru ekki skráðar, heldur lifði í manna minnum, fæddist prins sem nefndur var Rama. Hann var frumburður Dasharatha konungs sem réði Kosala konungdæminu á norður Indlandi. Sem drengur réði Rama niðurlögum ógurlegrar andaveru sem lengi hafði hrellt þjóð hans. Þegar hann varð fullorðin vann hann hönd hinnar fögru Situ í keppni þar sem hann setti streng í boga og braut hann síðan sem aðrir gátu ekki einu sinni dregið.

Hann sameinaði þannig styrk, hugrekki og dyggðugt líferni. Vitaskuld vakti  það öfund hirðarinnar. Konungurinn valdi hann sem arftaka sinn en varð síðan að breyta því vali  til að heiðra gamalt loforð og útnefna Bharata  sem arftaka sinn, son sem hann átti með annarri konu en móður Rama. Hann skipaði Rama að yfirgefa konungdæmið. Rama sá öng föður síns og gekk viljugur á vit örlaga sinna.


Hvort Rama var raunverulega söguleg persóna, er ekki hægt að vita fyrir víst. Söguljóðið mikla sem segir sögu hans heitir Ramayana var ekki skrifað niður fyrr en fyrir þrjú þúsund árum eða um sama leiti og stórir hópar af fólki sem var ljóst á húð og há streymdu inn í landið úr norðri, - Aríarnir.

 Aríarnir eru m.a. ábyrgir fyrir því að kynna hið illræmda stéttakerfi  inn í menningu Indlands.

Sagan af Rama kann vel að vera byggð á raunverulegum prinsi því hún er mikilvægt mótvægi fyrir Hindúisma sem trúarbrögð gegn áhrifum Aría-innrásinnar.  Kristni, Búddatrú og Íslam eru trúarbrögð sem byggð eru á kenningum þriggja sögulegra persóna. Í Hindúatrú er enga slíka eina aðal-sögupersónu að finna. En ljómi Rama skín samt í gegnum arfleyfð Hindúa.


RavanEftir að Rama fór úr föðurgarði, reikaði hann ásamt konu sinni inn í álagaskóginn Dandaka. Þar bjargaði hann nokkrum heilögum mönnum úr klóm illrar andaveru. Sú afskiptasemi  kallaði yfir Rama reiði andans sem gætti skógarins, Ravan, sem var tíuhöfða djöflakonungur og bjó á eyjunni Lanka. Ravan hefndi sín á Rama með því að stela frá honum Situ eiginkonu hans og halda henni í rammgerðu virki sínu.


Rama sem var einn á báti og átti enga að. En vegna dyggða hans gekk her bjarna og apa í lið með honum og byggðu brú yfir sundið til eyjarinnar Lanka og tóku síðan virki Ravan í áhlaupi.

Rama vann svo fullnaðarsigur með því að drepa Ravan í einvígi.
Rama var ekki alveg viss um að hann vildi konu sína aftur vegna þess að hann var hræddur um að Ravan hefði spjallað hana. Sita hljóp því á eldköst til að sanna sakleysi sitt og sté úr honum ósködduð.


ValmikiEftir þessi ævintýr snéru þau aftur til Ayodhya, höfuðborgar Kosala. Þar var Rama krýndur konungur með miklum fögnuði. En þrautir hans voru ekki á enda. Illar tungur efuðust um hreinlífi Situ. Rama sem var fangi eign hreinlífis brást við með því að gera Situ útlæga til skógar þar sem hún var sett undir vernd sagnaþularins Valmiki.

Í skóginum ól hún Rama tvo syni. Þegar að þeir urðu fullveðja sameinaðist fjölskyldan um stundarsakir. En Sita sem áfram héllt fram sakleysi sínu, bað jörðina að gleypa sig, sem hún og gerði. Rama sagði af sér og afhenti konungsríkið sonum sínum til stjórnar og sté síðan sjálfur upp til himna.


Hinar 24.000 rímuðu tvíhendur Ramayna söguljóðsins eru flestum Hindúum kunnar. Líklegt er að ljóðið hafi verið samið fyrst á sanskrít, hinu forn-klassíska máli Indlands og sagt er að það hafi gert sagnaþulurinn Valmiki. Þema ljóðsins er dyggðir og hugrekki sem reynt er á með sífeldum prófraunum.


Í Hindúatrú er Rama álitinn sjöunda holdtekja Vishnu æðsta Guðs Hindúasiðar. Rama er ímynd hetjunnar en hann er einnig „vegurinn til Guðs“ og leið til persónulegrar frelsunar. Sita er ímynd kvenleika Hindúa, trú og auðmjúk. Lakshmana hálfbróðir Rama er líksamningur staðfestunnar og foringi apahersins, Hanuman, er álitin ímynd auðmýktar og hollustu við hinn andlega meistara.

Fyrir rúmum 1000 árum byrjuðu Hindúar að tilbiðja Rama sérstaklega og fyrir 500 árum var hann gerður að miðdepli átrúnaðar í söfnuði sem kallaður er Bhakti.

Á sextándu öld þegar að Mógúla-veldið þröngvaði almenningi til að taka Íslam voru viðbrögðin fyrst og fremst menningarleg frekar en pólitísk. Það leið ekki á löngu uns sigurvergarnir féllu kolflatir fyrir nýrri og frábæri túlkun á sögunni af Rama í orðum skáldsins Tulsi Das (1532-1623). Hann skrifaði á hindí, tungumáli nútíma og mið Indlands og aðrar þýðingar á öðrum tungumálum landsins fylgdu fljótt í kjölfarið.

Þegar að Hindúar deyja, ákalla þeir oftast Rama. Síustu orð Mahatma Gandhis þegar hann var skotinn voru „Hey Rama“.(ó Guð) – Þegar að upplestri á Ramayana var útvarpað árið 1982 í Indlandi er talið að 700 milljónir manna hafi fylgst með á hverjum sunnudegi í meira enn ár.

Í Indónesíu þar sem meiri hluti íbúa eru múslímar á Ramayana marga aðdáendur. Allt frá því að konungur Thailands skipaði fyrir um þýðingu ljóðsins fyrir tveimur öldum, hefur nafnið Rama verið hluti af titli konunga þessa lands þar sem flestir íbúar aðhyllast Búddisma.


Vélar sem búa til líf

DNAÞegar að uppruna lífsins ber á góma, halda margir, að með uppgötvun litninga og þróun litningafræðinnar hafi flestum ef ekki öllum spurningum um uppruna lífsins verið svarað. Því fer samt fjarri. Áður en fyrstu eggjahvítufrumeindirnar urðu til, áður en DNA og RNA urðu til, áttu hundruð ákveðinna efnaferla sér stað sem að lokum varð til þess að ákveðnar frumeindir komu saman í vélar sem gátu framleitt stutta strengi af DNA. Með öðrum orðum, ólífræn efnasambönd röðuðu sér sérstaklega niður til að búa til vélar, sem búa til DNA sem getur búið til líf.

Hin fræga þróunarkenning kemur hér ekki við sögu því þetta gerist áður enn nokkuð líf verður til. Spurningin; hvers vegna ólífræn efnasambönd taka upp á því að raða sér saman á þann hátt sem sýnt er á myndbandinu  hér , gefur ágætt tilefni til að leiða hugann að því hvort dautt efni lúti lögmálum sem fær það til að leitast við að framleiða líf. Og þá í framhaldi af því hvort vitrænn lífelskandi hönnuður sem felur sig bak við stórahvell, kunni að standa að baki tilurð alheimsins.

Einnig má smella á myndina til að sjá umrætt myndband.


Af hrossakaupum og reykfylltum bakherbergjum

Reykfyllt bakherbergiAllt frá því að lítill hópur öldungadeildarþingmanna bandaríska Repúblikanaflokksins settist niður í svítu 804-5 á Black stone hótelinu í Chicago árið 1920, til að ákveða hver skyldi verða forsetaframbjóðanda-efni flokksins, hefur frasinn og klisjan "reykfyllt bakherbergi" verið sett í samhengi við ákvarðanir stjórnmálamanna þar sem málamiðlanir og "hrossakaup" hafa augljóslega ráðið ferðinni.

Það er auðvelt að sjá fyrir sér harðsvíraða kaupsýslumenn og sjóaða pólitíkusa, súreygða og svefnlausa, takast á um orðalag og inntak yfirlýsinga eða jafnvel ákvarðanna sem skipta máli fyrir framgang sögunnar. Þess vegna varð frasinn fleygur og er enn notaður til túlka leynimakk og klíkugang í ákvörðunartöku um mikilvæg mál.

Nú var svita 804-5 síður en svo bakherbergi, en þegar að ákvörðun senatoranna var tilkynnt, að Warren Harding yrði forsetaefnið, urðu margir til að minnast orða helsta stuðningsmanns hans, Harry Daugherty, þegar hann spáði því fyrir nokkrum dögum áður, að ákvörðunin yrði tekin á þennan hátt, og því slegið upp á forsiðum blaða vítt og breitt um Bandaríkin.

HrossakaupÞá er orðatiltækið "hrossakaup" ekki síður merkingarhlaðið. Orðatiltækið er komið til af því hversu erfitt er á skjótum tíma að gera sér grein fyrir verðleikum hesta og þá býðst óprúttnum seljanda ágætt tækifæri til þess að hafa rangt við. Hér áður fyrr var ætíð reiknað með því að hestakaupmenn nýttu sér þessar aðstæður og fengu því á sig orð fyrir að vera óheiðarlegir. Enn eimir eftir af þessu víðsvegar um heiminn þar sem þetta vantraust fluttist yfir á þá sem selja notaðar bifreiðar.

Algengast er samt að heyra "hrossakaup" sett í samband við pólitískar ákvarðanir þar sem tveir eða fleiri ákveða að skiptast á stuðningi við mál hvers annars. -


Himnafiskar

SkyFishÞað veit enginn hvað nákvæmlega þetta fyrirbæri er. Það hefur verið ljósmyndað og kvikmyndað og margir hafa á því skoðun. Sumir kalla það Himnafiska, aðrir fljúgandi hólka og einhverjir nefna það Sólverur.

Nýlega birtist stutt en óvenju skýr kvikmynd af þessu fyrirbæri í fréttatíma BBC og ábirgðist fréttastofa þeirra að myndin væri ekki fölsuð.

Um er að ræða fljúgandi fyrirbæri sem margir trúa í dag að séu verur sem búi í einhverju af ytri hvolfum jarðarinnar. Þær ferðast svo hratt að þær eru varla sjánlegar berum augum, en hafa komið fram á ljósmyndum, kvikmyndum og videupptökum, einkum í seinni tíð. Nokkar gamlar ljósmyndir eru til teknar útan úr geimnum sem sýna fjölda slíkra himnafiska rétt fyrir utan gufuhvolvið.  

Fyrstur til að vekja athygli á fyrirbærinu var kvikmyndagerðarmaðurinn José Escamilla, sem uppgötvaði "verurnar" fyrir tilviljun. Árið 1994 var Escamilla að kvikmynda venjuleg UFO fyrirbæri nálægt Midway, New Mexico. Á flimunni birtust myndir af einhverju sem voru ekki faratæki. Escamilla héllt að um væri að ræða fugla eða skordýr. En þegar hann skoðaði kvikmyndina ramma eftir ramma , sá hann a þarna var eitthvað annað á ferðinni.

Síðan að upptökuvélar og símar búnir mynd og videotökugetu urðu algengir, hefur náðst fjöldi mynda af þessum hólkum sem stundum líta út eins og kjósrákir og stundum eins og einhverskonar verur.  En sjón er sögu ríkari;

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband