Færsluflokkur: Heilbrigðismál
3.6.2009 | 00:22
Sex skot af Tequila....í morgunmat
Undanfarna mánuði hefur Amy Winehouse dvalið á eynni St. Lucia í Karíbahafi. Amy er söngkonan hæfileikaríka sem allir fremstu jass og funk tónlistamenn okkar tíma hafa reynt að fá til liðs við sig, án árangurs hingað til.
Hugmyndin með að senda hana til þessarar flottræfla sérlendu og leigja þar undir hana tvær villur, var að gera, að margra mati, lokatilraun til að forða henni frá því að deyja langt um aldur fram.
Amy hefur oft verið nálægt því að enda líf sitt. Hún er eituræta fram í fingurgóma, forfallinn fíkill á heróín, krakk og kók. Að auki er hún haldin sjálfsmeiðingarhvöt. Líkami hennar er öróttur eftir fjölda skurða og sígarettubruna sem hún hefur veitt sjálfri sér.
Á St. Luciu hefur átta manna starfslið reynt að koma í veg fyrir að hún næði í eiturlyf að áfengi undaskildu. Amy kann alveg að meta bús, það er ekki óalgengt að hún hefji daginn með nokkrum skotum að Tequila. Mitch faðir hennar flaug til baka til Bretlands fyrir nokkrum dögum og sagði að "Amy þarf að bjarga sér sjálf". Talsmenn útgáfufyrirtækisins sem borgar brúsann fyrir Amy eru alveg búnir að missa vonina um að Amy geri nokkru sinni aðra plötu. Í örðu húsinu sem hún hefur til umráða var innréttað hljóðupptökustúdíó fyrir hálfa milljón punda. Amy hefur varla komið þar inn fyrir dyr. Þeim stundum sem hún er nokkurn veginn edrú, eyðir hún í félagi við sex ára innfædda stelpu sem heitir Aaliyah.
Skilnaður þeirra Amy og Blakes er í farvatninu. Hann á von á barni með núverandi sambýliskonu sinni. Amy saknar hans sárt og kvartar yfir að minningarnar sæki á hana. Blake og Amy eyddu hveitibrauðsdögunum einmitt á St. Lucia.
Sögurnar um drykkjuskap hennar "í meðferðinni" eru yfirgengilegar. Innfæddir eru orðnir vanir að sjá "Crazy Amy" skríðandi á fjórum fótum og spúandi yfir fætur annarra gesta sem gera sitt besta til að forðast allt samneyti við hana.
En hvað gengur Amy til með þessu framferði. Allir sem þekkja hana vita að hún er bráðskörp og afar hæfileikarík kona sem var á góðri leið með að leggja heiminn að fótum sér. Faðir hennar hefur aðeins eina skýringu. "Sem barn þóttist hún oft vera að kafna eða þóttist villast og tínast í miðri London. Það sem hún var að sækjast eftir var að fólk hefði áhyggjur af henni."
Nánari umfjöllun um Amy er að finna hér.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.6.2009 | 01:47
Geymdu barnið sitt í frosti í nær 11 ár
Þessi litla stúlka heitir Shani Moran Simmonds. Hún var getin árið 1996 en fæddist ekki fyrr en árið 2006. Líffræðilega er hægt að segja að hún sé bæði 14 ára og þriggja ára. Hún er talið elsta "frostbarnið" (frostie) í heiminum.
Foreldrar hennar heita Debbie og Colin og búa í Bretlandi. Þau reyndu árangurslaust að eignast barn á árunum 1995-6. Læknarnir sem þau leituðu til komust að því að báðir eggjaleiðarar Debbie voru stíflaðir.
Læknunum tókst samt að taka úr Debbie talvert af eggfrumum og frjóvga þau með sæði Colins. En þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að fá fóstrin til að lifa eftir að þeim hafði verið komið fyrir í Debbie.Að lokum gáfust þau upp og eftir það sættust þau á að þeim yrði ekki barna auðið.
Í 11 ár greiddu þau samt 150 pund á ári fyrir frostgeymslu á þeim fóstrum sem eftir voru án þess þó að hafa nokkra von um að þau mundu nokkru sinni verða að börnum.
Í Bretlandi er löglegt að geyma fóstur í allt að 10 ár og aðeins lengur ef læknar telja einhverja von um að mögulegt sé að koma þeim á legg. Þegar að þeim hjónum var tilkynnt um að árin 10 væru úti og fyrir dyrum stæði að eyða fóstrunum ákváðu þau að reyna einu sinni enn. Tækninni hefur fleytt fram á þessum tíma og ný lyf til að örva vöxt fóstra komið fram.
Tveimur fóstrum var komið fyrir í Debbie og í þetta sinn hafnaði líkami hennar bara öðru fóstrinu. Debbie varð ófrísk og ól heilbrigða og fallega dóttir eftir eðlilega meðgöngu.
Saga Debbie og Colins er vitaskuld miklu flóknari og lengri en hér verður við komið að segja frá, en þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessa óvenjulegu frásögn geta nálgast hana á enskri tungu hér.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.6.2009 | 01:35
Susan Boyle lögð inn á geðdeild
Aðeins einum degi eftir að hafa náð öðru sæti í stærstu hæfileikakeppni Bretlands, er söngkonan Susan Boyle í vandræðum. Miskunnarlaus pressan sem m.a. hefur uppnefnt hana "loðna engilinn" veittist að henni á rætinn hátt strax daginn eftir og sagði að hún hefði "tapað" keppninni þrátt fyrir að hafa fengið lengri tíma á sviðinu en aðrir keppendur. Þá hefur mikið verið gert úr þeim peningum sem Susan á hugsanlega í vændum vegna frægðar sinnar, þótt ekki hafi enn verið skrifað undir einn einasta samning þar að lútandi. Nú hefur Susan fengið alvarlegt taugaáfall og verið lögð inn sjálfviljug á geðdeild í Lundúnum. Scotland Yard skýrði frá því að lögreglan hefði verið kölluð að hóteli hennar í gærkveldi og að læknir hefði úrskurðað hana til vistar á stofnuninni í samræmi við geðheilsulögin. Pistill um Susan skrifaður fyrir keppnina á laugardagskvöld hér.
Millvina Dean Látin
Hún var aðeins níu vikna gömul og á leið yfir Atlantshafið með foreldrum sínum um borð í Titanic þegar það sökk. Í gær fór hún yfir móðuna miklu síðust allra farþega hins fræga fleys, búin að lifa rúm 97 ár. Fyrir nokkru skrifaði ég fáeinar línur um Millvinu hér á blogginu. Við það er í sjálfu sér engu að bæta. Þann pistil er að finna hér
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 02:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.5.2009 | 02:10
Verðandi feður fitna á meðgöngutíma makans
Að jafnaði bætir verðandi faðir á sig 6.35 kg. á meðan að meðgöngu makans stendur. Þetta kemur fram í nýlegri skoðanakönnun sem gerð var í Bretlandi fyrir markaðsfyrirtækið Onepoll.
1000 af 5000 karlmönnum sem tóku þátt í könnuninni sögðu að matarskammtarnir hefðu einfaldlega stækkað og 41% þeirra sögðu að meiri snarlfæðu væri að finna í húsinu.
Þá kom í ljós að 25% karla borðuðu meiri mat til að mökum þeirra liði betur með að þyngjast.
Uppáhald óléttu snarl feðra er m.a. pizza, súkkulaði, kartöfluflögur og bjór.
![]() |
Meðalþunginn sem feður auka við sig sest aðallega um mittið og mittismálið eykst um tvær tommur. Fjórðungur viðurkenndi að hafa fjárfest í sérstökum þungunarfatnaði.
Fimmtungur kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir þyngdaraukningunni fyrr en fötin sem þeir klæddust hættu að passa.
42% sögðust sækja veitingastaði og krár meira með maka sínum á meðgöngunni en áður, til þess eins að gera mest úr þeim tíma sem þau höfðu til að vera saman ein þangað til að barnið fæddist.
En aðeins þriðjungur karlanna tók þátt í grenningarprógrammi makans eftir fæðinguna.
Ekki konum að kenna
Verðandi mæður þyngjast að meðaltali um 16 kg. á meðgöngunni. Það er ekkert óeðlilegt þótt þær neyti feitari fæðu og borði snarl oftar en áður.
Á meðgöngunni eru konur einnig hvattar til að neyta sem nemur 300 hitaeiningum meira á dag en ella. Það er ekki nema von að karlmenn freistist til að taka þátt þegar eldhússkáparnir fyllast allt í einu að snakki og snarlmat.
23.5.2009 | 14:40
Eru sjálfsvíg "smitandi" ?
Lucy Gordon ein efnilegasta leikkona Breta framdi sjálfsvíg um nótt eina fyrir nokkrum dögum. Lucy bjó ásamt kærastanum sínum í leiguíbúð í París og það var hann sem fann hana þegar hann vaknaði um morguninn hangandi í reipi sem hún hafði bundið utan um bjálka í loftinu. Lucy var 28 ára þegar dún dó, jafngömul og mótleikari hennar í kvikmyndinni "Fjórar fjaðrir"(2002) Heath Ledger þegar hann lést, einnig á válegan hátt, í búð sinni í New York á síðasta ári.
Lucy hafði nýlokið við að leika kvikmyndinni Serge Gainsbourg, vie héroïque, sem er um ævi og starf franska tónlistarmannsins Serge Gainsbourg. Þar fór hún þar með hlutverk hinnar bresku ástkonu Serge, Jane Birkin. (Frægasta lag hans er án efa "Je t'aime... moi non plus," 1969, þar sem Serge og Jane stynja saman eins og í ástaratlotum en lagið var upphaflega tekið upp með Brigitte Bardot.)
Svipað og hjá Heath Ledger var ferill Lucy rétt að byrja. Eftir farsælan feril sem fyrirsæta hóf hún að leika í kvikmyndum. Árið 2007 lék hún fréttakonuna í Spiderman og 2008 fór hún með stórt hlutverk í hinni stórgóðu mynd Frost.
Samkvæmt heimildum frá foreldrum og vinum, virtist allt leika í lyndi hjá Lucy. Skýringar á framferði hennar liggja ekki á lausu. Það eina sem komið hefur fram er að nýlega fékk hún slæmar fréttir að heiman. Vinur hennar hafði framið sjálfsvíg. Vangaveltur fólks ganga út á hvort þessar fréttir hafi haft svona mikil á hrif á Lucy að hún hafi ákveðið að taka sitt eigið líf.
Læknar og sáfræðingar hafa lengi haldið því fram að sjálfsvíg geti verið "smitandi", sérstaklega á meðal ungs fólks. Mikið er til af dæmum um að ungmenni fremji sjálfsvíg í "öldum" og oft verði fréttir af sjálfsvígum til að aðrir herma eftir.
Þetta er alls ekki nýtt fyrirbrigði. Þvert á móti er þetta kallað "Werther heilkennið" eftir skáldsögu Goethe Die Leiden des jungen Werther (Sorgir hins unga Werther) sem kom út árið 1774. Í kjölfarið bókarinnar áttu sér stað fjöldi sjálfsvíga meðal ungmenna í Evrópu og í sumum löndum var bókin bönnuð til að vernda hina viðkvæmu.
Miðað við rannsóknir sem hafa verið gerðar í Bandaríkjunum er tvisvar til fjórum sinnum meiri hætta á að unglingar á aldrinum 15-19 ára verði fyrir smitáhrifum af fréttum um sjálfsvíg. Þá er það einkum athyglisvert að sumar kannanir hafa getað sýnt fram á tengsl milli þess hversu oft fréttir eru sagðar af sjálfsvígum og tíðni sjálfsvíga í kjölfarið. Til dæmis kom í ljós þegar að frægur aðili Austurríki framdi sjálfsvíg með skotvopni og um það var fjallað ýtarlega í slúðurblaði einu, mátti rekja sjálfsvígsölduna sem á eftir fylgdi til sömu slóða og dreifing blaðsins var sem mest.
Þá er einnig ljóst að sjálfsvíg þekktra einstaklinga er fjórtán sinnum líklegra til að verða til þess að aðrir hermi eftir en þegar óþekktir einstaklingar eiga í hlut.
Þrátt fyrir að sjálfsvígsöldur meðal unglinga fái yfirleitt meiri umfjöllun en önnur sjálfsvíg, eru þau tiltölulega lítill hluti af heildarmyndinni. Fjárhagslegar aðstæður, aldur og heilsa eiga mun meiri þátt en eftirherma eða "smit".
Á Vesturlöndum hefur t.d. sjálfsvíg ungra manna farið hraðfækkandi frá 1970 og er á það bent að almenn velmegun eigi sinn þátt í því. Það sama er að segja um sjálfvíg kvenfólks, þótt munurinn sé minni.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2009 | 02:58
Hefur ekki baðað sig í 35 ár
Hann heitir Kailash Kalau Singh og er frá litlu þorpi skammt frá hinni "helgu borg" Varanasi á Indlandi. Hann er 63. ára og faðir sjö dætra. Hann hefur ekki þvegið sér eða baðað sig í 35 ár vegna þess að honum langar til að eignast son. (Af þessari nýlegu mynd að dæma er hér kannski komin góð aðferð til að halda sér ungum. Singh lítur ekki út eins og 63 ára gamall maður)
Madhusudan, einn af nágrönnum Singh, segir að sjáandi nokkur hafi mælt svo fyrir um að ef Singh baðaði sig ekki, mundi honum auðnast að geta sveinbarn með konu sinni.
Margir Indverjar óttast um afkomu sína ef þeir eignast ekki syni til að sjá fyrir þeim í ellinni. Greiða verður heimamund með stúlkum þegar þær giftast og allt sem þær vinna sér inn, rennur til fjölskyldu bónda þeirra. Stúlkubörn eru því álitin byrði frekar en blessun.
Í 35 ár hefur herra Singh ekki baðað sig, en þrátt fyrir þessa einlægu viðleitni hefur hún ekki borið árangur. Herra Singh á enn engan son.
Óhreinlætið hefur verið honum dýrkeypt. Fyrrum átti hann matvöruverslun en fór á hausinn með hana þegar kúnnarnir hættu að koma vegna þess hversu illa hann lyktaði. Í dag vinnur hann sem daglaunamaður á ökrunum í kringum þorpið þar sem hann býr. Fjölskylda hans hefur líka útskúfað honum fyrir að vilja ekki undirgangast hefðbundin böð í ánni Ganges, jafnvel ekki eftir dauða bróður hans fyrir fimm árum.
Þótt nágranni Singh segi að svona sé sagan, segist hann sjálfur ekki muna hvernig óhreinlætiseiðurinn er til kominn. Stundum segist hann gera þetta í þágu þjóðarinnar. "Ég mun enda eið minn þegar öll vandmál þjóðarinnar hafa verið leyst" er haft eftir herra Singh.
Þótt Singh neiti að baða sig upp úr vatni eða þvo sér, iðkar hann eldböð. Eldbað fer þannig fram að hann stendur á einum fæti nálægt litlum eldkesti, reykir maríjúana og fer með bænir til drottins Shiva. Hann segir að eldsböð séu alveg jafn góð og vatnsböð því eldurinn drepi allar bakteríur og veirur.
Herra Singh þrífur að sjálfsögðu heldur ekki tennur sínar.
Miðað við ástandið á honum er í sjálfu sér ekki undravert að hann hafi ekki eignast sveinbarn. Það sem er undravert er að hann hafi yfirleitt getið af sér börn.
18.5.2009 | 23:41
Elur sitt fyrsta barn 66 ára gömul
Þessi kona heitir Elizabeth Adeney. Hún er sextíu og sex ára, einstæð og eins og sést á þessari nýlegu mynd, kasólétt. Elizabeth sem er ógift og vinnur sem millistjórnandi í stóru fyrirtæki í Lidgate í Suffolk, mun ala barn sitt (son segja heimildir) í næstu viku ef allt fer eftir áætlun, aðeins fáeinum vikum fyrir 67. afmælisdag sinn. Elizabeth verður þá elsta kona sem alið hefur barn í Bretlandi.
" Það skiptir mig engu máli hvort ég verði elsta mamman í landinu. Það er ekki líkamlegur aldur sem skiptir máli, heldur hvernig mér líður inn í mér. Stundum finnst mér é sé 39 ára og stundum eins og ég sé 56." er haft eftir hinni fráskildu og fram að þessu barnlausu Elizabeth.
" Ég er fullkomlega fær um að sjá um mig sjálf þótt ég ég sé einstæð og eigi enga nákomna að. Það hef ég gert í mörg ár. Þetta verður bara ég og barnið mitt. Ég veit að það er fullt af fólki sem ekki mun skilja þetta, en mér er sama"
Elizabeth varð ófrísk eftir að hún hafði gengist undir gervifrjóvgun í Úkraínu. Í Bretlandi er konum yfirleitt neitað um slíka meðferð er þær eru eldri en fimmtugar.
3.5.2009 | 16:18
Martröð Darwins
Það er langt síðan ég hef séð aðra eins hrollvekju og þessa kvikmynd sem fór algjörlega fram hjá mér á sínum tíma. Það er eins og sjálfur Dante hafi verið með í að skapa umgjörðina fyrir þessa kvikmynd sem er frá árinu 2004 og er frönsk-belgísk-austurrísk heimildarmynd um fiskveiðar og fiskverkun við Viktoríuvatn í Tansaníu.
Hún lýsir með viðtölum við innfædda fiskimenn, frystihúsaeigendur, hórur og flugmenn, sem búa í Mwanza, hvernig ferskvatnsfiskinum Nílar-Karfa var sleppt í vatnið fyrir nokkrum ártugum og hvernig hann er á góðri leið með að eta upp allt lífríki vatnsins.
Karfnn getur orðið allt að 200 kg. þungur en um 50 tonnum af fullunnum karfa-flökum er flogið til annarra landa daglega á meðan innfæddir hafa hvorki í sig eða á.
Fiskurinn er of dýr til að borða hann.
Kvikmyndina má sjá í fullri lengd með því að smella á myndina hér til vinstri. Ég hvet alla sem þetta lesa að horfa á hana, ef þeir hafa ekki séð hana nú þegar.
Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna og hefur auk þess hlotið mörg verðlaun á kvikmyndahátíðum víða um heim. Frekari upplýsingar um myndina á ensku, má finna hér.
Í umfjöllun sinni um myndina sem var sýnd á kvikmyndahátíð í Gautaborg 2005, skrifar Ari Allansson;
Martröð Darwins gerist á bökkum Viktoríuvatns, sem er næst stærsta stöðuvatn í heimi og á Níl upptök sín þar. Myndin segir frá því hvernig á sjötta áratugnum, einn maður, með eina fötu fulla af fisktegund sem ekki fannst í vatninu áður, hellti úr fötunni í vatnið, og sjá, ný fisktegund fannst í Viktoríuvatni. Þessa fisktegund, Nile Perch (Nílarkarfi), sem er auðvelt að veiða og gefur af sér mikið kjöt, étur aðrar fisktegundir svo heilu stofnarnir hafa horfið úr vatninu. Vistkerfi Viktoríuvatns hefur veikst til muna og nú er svo komið að menn óttast um framtíða lífríki þess. Á meðan innfæddir deyja úr hungri og af alnæmi á bökkunum, lítil börn sniffa lím og sofa á götunum, eru risavaxnar flutningaflugvélarnar að flytja Nílarkarfa til Evrópu, þar sem fiskurinn er seldur dýru verði. Og ekki nóg með það, heldur þegar flugvélarnar snúa aftur, hafa þær meðferðis vopn, svo að fólkið í Tanzaníu geti murrkað lífið úr hvort öðru, þar að segja þeir sem lifa af hungursneyð og alnæmi. Myndin er næsta martraðarlík og maður skammast sín næstum fyrir að búa og hafa alist upp í vestrænu landi. Sérstaklega í senu þar sem sendiherrar Sameinuðu þjóðanna og fulltrúar World Bank, sitja á málþingi í Tanzaníu og tala um hvað vel hafi gengið að koma á efnahagskerfi í landinu. Vei sé þeim sem heldur að nýlendustefnan og arðránið í þriðja heiminum sé liðið undir lok.
Ég þakka Ingó kærlega fyrir þessa ábendingu
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2009 | 14:49
Grísa-Ólympíuleikarnirnir í hættu vegna svínaflensunnar?
Auðvitað óttast maður að svína-flensan komi til með að hafa áhrif á grísa-ólympíuleikana sem halda á í ár í St. Louis í Bandaríkjunum. (Ekki rugla saman við Nag-grísa leikana frægu)
Síðast voru leikarnir haldnir 2006 í Rússlandi og þar áður 2005 í Kína.
Á síðustu leikum tóku þátt 12 grísir frá sjö löndum og þá var keppt í grísakapphlaupi, grísakappsundi og grísabolta. Reglur grísaboltans eru afar áþekkar og þær sem notast er við í mennskum fótbolta.
Um hálsinn á hverju grís er bundinn númeraður smekkur og síðan er það rekið inn á leikvanginn, venjulega rýtandi.
Sigursælustu grísirnir í Moskvu voru Mykola frá Úkraníu, Nelson frá Suður-Afríku og heimagrísinn Kiostik.
Fyrst var keppt í stuttu hlaupi en þá voru grísirnir reknir áfram af húsbændum sínum sem pískuðu þá áfram.
Þá tók við Grísaboltinn. Skipt var í tvö lið, fimm grísir í hvoru liði og þeir eltust við bolta sem ataður var lýsi.
Grísasundið var ný keppnisgrein á síðustu leikum, en þá var reynt að fá grísina til að synda frá einum enda til annars í lítilli laug. Þeir höfðu samt meiri áhuga á að snefsnast utan í hvor öðrum og flækja sig í böndunum sem skildu að brautirnar í lauginni.
![]() |
Alexei Sharshkov, sem er varaforseti íþróttagrísa sambandsins sem telur innan sinna vébanda um hundrað grísaeigendur, fullvissaði áhorfendur um að engin grísanna mundi verða etin í bráð. Ætlunin væri að nota þá til undaneldis til að framleiða fleiri afburða keppnisgrísi.
"Hvernig er hægt að borða keppenda sem er frægur um allan heim" sagði hann í viðtali.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2009 | 11:54
Tæknilegt einelti
Það vekur alltaf athygli þegar ofbeldi og hrottaskapur stúlkna gegn stallsystrum sínum kemst í fréttirnar. Það er næsta víst að ofbeldi á borð við það sem átti sér stað upp í Heiðmörk fyrir stuttu, tengist einelti. Reyndar er daglegt einelti meðal unglinga orðið svo hátæknilegt að það er stundum erfitt að átta sig á hvort um raunverulegt einelti er að ræða eða "eðlileg" samskipti unglinga.
Þannig gerðist það fyrir stuttu að Jessie Logan, átján ára skólastúlka í Cincinati í Bandaríkjunum sendi stráknum sem hún var að deita, mynd af sér í dálítið sexý pósu. Slíkt er afar algengt og stundum kallað "sexting". Eftir að þau hættu saman, hóf stráksi að dreifa myndinni meðal félaga sinna og þannig flaug myndin milli nokkur hundruð farsíma á örskammri stundu. Í kjölfarið varð Jessie að þola einelti og stríðni frá skólafélögum sínum og kunningjum sem voru að senda á hana illgjarna texta í tíma og ótíma. Skólayfirvöld reyndu að slá á eineltið með því að láta Jessie koma fram í sjónvarpi og biðjast vægðar. En allt kom fyrir ekki og að lokum hengdi Jessie sig.
Í Bretlandi hefur nýlega verið tekin í gagnið hjálpar-miðstöð sem kallast "Cyber-mentors" fyrir börn og unglinga sem verða fyrir einelti og áreiti í gegnum farsíma og tölvur. Þeir sem á annað borð taka þátt í eineltis-aðgerðum gegn félögum sínum vita að í skólum er reynt að fylgjast með atferli þeirra. Í stað "hefðbundins" eineltis er því meir og meir notast við farsíma, skilaboð og tölvur þar sem hægt er að semda myndefni og rætna texta eftirlitslaust.